Hæstiréttur íslands
Mál nr. 30/2007
Lykilorð
- Þjófnaður
Þjófnaður.
Z var sakfelldur fyrir þjófnaði með því að hafa í tvö skipti brotist inn í íbúðarhúsnæði og stolið þaðan nánar tilgreindum munum. Með brotum sínum rauf Z skilorð eldri dóms þar sem hann var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir tvö þjófnaðarbrot. Var sú refsing dæmd upp og ákærða gerð refsing í einu lagi. Hún var ákveðin fangelsi í 5 mánuði, en fullnustu 3 mánaða af refsingunni var frestað skilorðsbundið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. desember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst refsiþyngingar.
Ákærði krefst mildunar refsingar og að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur að því er ákærða varðar.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er ákærða, Z, varðar.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 186.750 krónur, sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2006.
Málið er höfðað með tveimur ákærum Lögreglustjórans í Reykjavík á hendur X [kennitala] [heimilisfang], Y [kennitala] [heimilisfang], og Z, [kennitala], [heimilisfang].
Í fyrsta lagi er málið höfðað á hendur öllum ákærðu með ákæru, dagsettri 26. september sl., „fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2006, nema annað sé tekið fram:
I.
Ákærðu X og Y fyrir eftirtalin brot í félagi:
1. Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 10. maí brotist inn í Norðlingaskóla við Árvað og stolið Think Centre tölvu, Think vision tölvuskjá, 2 Sennheiser heyrnartólum og HP tölvuturni, samtals að verðmæti kr. 133.000.
2. Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa á sama tíma í auðgunarskyni brotist inn í skíðaskála Ármanns í Bláfjöllum með því að spenna upp glugga og leitað verðmæta án árangurs.
3. Þjófnað með því að hafa á sama stað og tíma brotist inn í aðalskála Bláfjallasvæðisins með því að spenna upp glugga og stolið 2 Compaq tölvum, Canon prentara, Richo myndavél, Thinkpad fartölvu, Thinkpad hleðslustöð, Aiwa hljómflutningstæki, 2 vefmyndavélum, talstöðvarhljóðnema, 5 skíðagleraugum, höfuðljósi, lyklaborði, Nokia farsíma, bíllykli, rafhlöðum, 2 talstöðvum, 2 verkfæratöskum með verkfærum, diktafóni, flatskjá, áfengi og bakpoka, samtals að verðmæti kr. 620.000.
4. Eignaspjöll og þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 25. júní á bílaþvottastöðinni Löður við Stekkjarbakka 2 í félagi hrist sjálfsafgreiðslusala svo að úr honum duttu hreinsiklútar sem ákærðu stálu, rifið sjálfsalann frá veggnum og aftengt frá kapli og loks fyrir að hafa makað olíu á veggi staðarins.
Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga hvað viðkemur lið 1/2. og jafnframt 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga hvað viðkemur lið I.4.
II.
Ákærðu Y og Z fyrir þjófnað, með því að hafa í félagi mánudaginn 6. mars brotist inn íbúðarhúsnæði að [...], með því að spenna upp glugga, og stolið geislaspilara, harmónikku og 2 úrum.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
III.
Ákærða X:
1. Þjófnað, með því að hafa laugardaginn 8. apríl í verslunni Hagkaup, Smáralind í Kópavogi, stolið 2 ilmvatnsglösum að verðmæti kr. 7.658.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
2. Umferðarlagabrot:
2.1 Mánudaginn 8. maí ekið bifreiðinni [...] suður Reykjanesbraut á móts við Fífuhvammsveg í Kópavogi með 110 km hraða á klst. þar sem leyfður hámarkshraði var 70 km á klst.
Sunnudaginn 28. maí ekið bifreiðinni [...] eftir Sæbraut rétt við Skeiðarvog, án þess að hafa gilt ökuskírteini og án þess að hafa öryggisbelti spennt.
2.3 Fimmtudaginn 1. júní ekið bifreiðinni [...] norður Álfholt að Háholti í
Hafnarfirði, án þess að hafa gilt ökuskírteini.
2.4 Laugardaginn 3. júní ekið bifreiðinni [...] suður Reykjavíkurveg að Flatahrauni í Hafnarfirði án þess að hafa gilt ökuskírteini og á tveimur negldum
hjólbörðum.
2.5 Mánudaginn 28. ágúst ekið bifreiðinni [...] suður Ármúla án þess að hafa gilt ökuskírteini.
Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 37. gr., 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 59. gr., og 1. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 16. gr., lið 16.02 (6), reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822, 2004.
3. Fíkniefnalagabrot:
3.1 Aðfaranótt sunnudagsins 5. mars að heimili sínu að [...] haft í vörslum sínum 0,95 g af hassi.
Fimmtudaginn 1. júní á gatnamótum Álfholts og Háholts í Hafnarfirði í bifreiðinni [...] haft í vörslum sínum 0,65 g af tóbaksblönduðu kannabisefni sem lögregla fann við leit.
Laugardaginn 3. júní á Reykjavíkurvegi við Flatahraun í Hafnarfirði í bifreiðinni [...] haft í vörslum sínum 0,34 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65,1974, sbr. og 6. gr. sömu laga, varðandi meðferð ákærða á kannabis, sbr. lög nr. 13,1985 og lög nr. 68,2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233,2001, sbr. reglugerð nr. 848,2002.
IV.
Ákærða Y:
1. Þjófnað, með því að hafa laugardaginn 8. apríl í versluninni Hagkaup, Smáralind í Kópavogi, stolið 2 ilmvatnsglösum að verðmæti kr. 13.596.
2. Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 27. júní í auðgunarskyni brotist inn í Klébergsskóla að Klébergi 116, með því að spenna upp glugga, en lögregla kom að ákærða á vettvangi.
Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. hvað viðkemur lið IV/2.
3. Fíkniefnalagabrot:
3.1 Aðfaranótt sunnudagsins 5. mars að heimili sínu að [...] haft í vörslum sínum samtals 75,31 g af amfetamíni.
Mánudaginn 6. mars í bifreiðinni [...] á bifreiðastæði við Vesturberg 29 haft í vörslum sínum 34,98 g af amfetamíni sem lögreglumenn fundu við leit.
Laugardaginn 3. júní á dvalarstað sínum að [...] haft í vörslum sínum 0,78 g af tóbaksblönduðu kannabisefni og 1,87 g af amfetamíni.
Aðfaranótt laugardagsins 17. júní í bifreiðinni [...] á Bústaðavegi við Litluhlíð í Reykjavík haft í vörslum sínum 2,84 g af amfetamíni, sem lögreglumenn fundu við leit á ákærða.
Aðfaranótt þriðjudagsins 27. júní við Klébergsskóla að Klébergi 116 haft í vörslum sínum 5 töflur með vímuefninu MDMA og 3,86 g af amfetamíni en efnin fann lögreglan við leit.
3.6 Fimmtudaginn 29. júní í bifreiðinni [...] sem lögregla stöðvaði á bifreiðastæði við verslunarmiðstöðina í Mjódd haft í vörslum sínum samtals 2,32 g af
amfetamíni.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65,1974, sbr. og 6. gr. sömu laga, varðandi meðferð ákærða á kannabis, sbr. lög nr. 13,1985 og lög nr. 68,2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233,2001, sbr. reglugerð nr. 848,2002.
4. Umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 10. maí ekið bifreiðinni [...] með 111 km hraða á klst. vestur Suðurlandsveg, á vegarkafla skammt austan Lögbergsbrekku, þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klst. ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu er hún hugðist hafa tal af honum heldur aukið hraðann og reynt að komast undan og ekið án nægjanlegrar tillitssemi eða aðgæslu á miklum hraða áfram vestur Suðurlandsveg og með 193 km hraða á klst. niður Lögbergsbrekku, áfram Suðurlandsveg á miklum hraða og með 164 km hraða á klst. á vegarkafla við Hafravatnsafleggjara og með 150 km hraða á klst. á Suðurlandsvegi við Rauðhóla, ekið áfram Suðurlandsveg, um hringtorg inn á Breiðholtsbraut, þar til suðurs á 143 km hraða á klst. á vegarkafla í Víðidal, áfram á miklum hraða suður Breiðholtsbraut og svo hratt í beygju til hægri inn á Norðurfell að afturhjól misstu grip um stund, ekið áfram á miklum hraða um Norðurfell, mest á 97 km hraða á klst. til vinstri norður Austurberg á miklum hraða, mest 96 km hraða á klst. af Austurbergi austur Suðurhóla og síðan vestur Norðurhóla og þar mest með 100 km hraða á klst. og síðan beygt til hægri inn á Vesturhóla og áfram þar með miklum hraða og við Gaukshóla reynt að sveigja fram hjá lögreglubifreið sem kom á móti á hægri ferð með forgangsljós kveikt en rekist á hægra framhorn lögreglubifreiðarinnar og misst við það stjórn á bifreiðinni sem fór þvert yfir akbrautina og hafnað þar í limgerði. Á akstursleið ákærða var leyfður hámarkshraði utan Suðurlandsvegar 70 km á klst. á Breiðholtsbraut, en eftir að komið var í Breiðholtshverfið 50 km á klst. utan Norðurfells þar sem leyfður hámarks hraði var 30 km á klst. Aldrei hafi hann gefið stefnumerki við aksturinn og stofnað lögreglu og öðrum vegfarendum í hættu með þessum akstri.
Telst þetta varða við 1. mgr. 4. gr., 1. og 3. mgr. 5. gr., 2. mgr. 31. gr. og 1., sbr. 3. og 4., mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50, 1987.
V.
Ákærða Z:
1. Þjófnað með því að hafa fimmtudaginn 29. júní brotist inn í íbúðarhúsnæði að [...] með því að spenna upp bakhurð, og bílskúr við húsið, með því að spenna upp glugga, og stolið íþróttatösku, skartgripum, lyfjum, erlendri og innlendri smámynt, gömlum íslenskum peningaseðlum, lyfseðli, lyklum, pennum, 2 seðlaveskjum, gleraugnahulstri, greiðslukortum, Minolta ljósmyndavél, sjónauka, snyrtivörum, 3 úrum, reiknivél, uppskriftarbók, veggklukku, viftureimum, reipi, neyðarþríhyrning, Nokia farsíma, sólgleraugum, vasahníf, ýmsum pappírum og smámunum, samtals að óvissu verðmæti.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
2. Umferðarlagabrot með því að hafa fimmtudaginn 29. júní ekið bifreiðinni [...] norður Skógarsel og að bifreiðastæði við verslunarmiðstöðina í Mjódd án þess að hafa öðlast ökuréttindi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga.
VI.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að upptæk verði gerð 121,52 g af amfetamíni, 0,95 g af hassi, 5 töflur með vímuefninu MDMA og 1,43 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lagt var hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65,1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233,2001. Þá er þess krafist að ákærði X verði dæmdur til sviptingar ökuréttar skv. 2. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 57,1997, og 2. mgr. 8. gr., sbr. 7. gr. og 10. gr., reglugerðar um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota nr. 431, 1998 vegna uppsafnaðra punkta, en ákærði X hefur 5 staðfesta punkta á ökuferilsskrá og 3 punkta fyrir brot skv. lið III/2.1 og lið III/2.2, samtals 8 punkta. Jafnframt er þess krafist að ákærði Y verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44,1993, og jafnframt skv. 2. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 57,1997, og 8. gr., sbr. 7. gr. og 10. gr., reglugerðar um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota vegna uppsafnaðra punkta, en ákærði hefur 3 staðfesta punkta á ökuferilsskrá og 6 punkta fyrir framangreind brot, samtals 9 punkta.
Í málinu gerir Löður ehf., kt. 630787-1659, kröfu um að ákærðu, X og Y, verði dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 50.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi 25. júní 2006, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.”
Í öðru lagi er málið höfðað á hendur ákærðu, X og Y, með ákæru, dagsettri 16. október sl., „fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2006:
I.
Ákærða X:
1. Þjófnað, með því að hafa mánudaginn 6. mars í vörulager Húsasmiðjunnar að Holtavegi 10 í Reykjavík stolið 5 lömum, þvingu, málbandi, sporjárnasetti, hamri, sandpappír, lyklakippu og renniloku, samtals að verðmæti kr. 10.100.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
2. Fjársvik, með því að hafa sunnudaginn 28. maí á afgreiðslustöð Olís við Hafnarfjarðarveg í Garðabæ svikið út vörur og þjónustu að andvirði kr. 10.041 með því að dæla eldsneyti á bifreiðina [...] og heimildarlaust framvísað Olís greiðslukorti sem skráð var á Vöku hf. og látið skuldfæra andvirðið á reikning þess.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
3. Nytjastuld og þjófnað, með því að hafa mánudaginn 14. ágúst eða þriðjudaginn 15. ágúst á bifreiðastæði við Melabraut 17 í Hafnarfirði tekið bifreiðina [...] ófrjálsri hendi og ekið henni heimildarlaust og að hafa stolið úr bifreiðinni hjálmi, farsíma, barnabílstól, fatnaði og hnakki, samtals að verðmæti kr. 219.000.
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga.
4. Fíkniefnalagabrot:
4. Laugardaginn 13. maí að þáverandi dvalarstað sínum að [...] í Reykjavík haft í vörslum sinum 37,31 g af hassi.
Föstudaginn 18. ágúst í bifreiðinni [...] sem var við Hlíðarberg í Hafnarfirði haft í vörslum sínum 0,85 g af amfetamíni sem lögreglan fann við leit.
Teljast brot þessi varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni, sbr. og 6. gr. sömu laga, varðandi meðferð ákærða á kannabis, sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.
II.
Ákærða, Y, fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa laugardaginn 13. maí að þáverandi dvalarstað sínum að [...] í Reykjavík haft í vörslum sínum 0,06 g af amfetamíni.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65,1974, sbr. lög nr. 13,1985, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233,2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að upptæk verði gerð framangreind fíkniefni, sem lagt var hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65,1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233,2001.
Í málinu gera eftirtaldir aðilar kröfu um að ákærði X verði dæmdur til greiðslu skaðabóta sem hér greinir:
1. Olíuverslun Íslands hf., kt. 500269-3249, að fjárhæð kr. 9.556 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001 frá tjónsdegi sem var 28. maí 2006, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
2. A [kennitala], að fjárhæð kr. 270.000.”
Málavextir
Ákærði, X, hefur neitað því að hafa stolið hnakk og fatnaði úr bílnum sem greinir í 3. tl. I. kafla síðari ákærunnar. Segir hann annan mann hafa gert það en viðurkennir að hafa stolið öðrum verðmætum úr bílnum sem þar eru tilgreind. Málið hefur verið lagt fyrir dóm af hálfu ákæruvaldsins án þess að reynt væri að hnekkja neitun sakbornings og verður hann því sýknaður af þessu atriði ákærunnar. Ákærðu hafa að öðru leyti skýlaust játað þau brot sem þeir eru saksóttir fyrir. Hafa þeir orðið sekir um athæfi það sem lýst er í ákærunni og réttilega er þar fært til refsiákvæða.
Ákærði, X, sem var fullra 18 ára þegar hann framdi brot sín, var sektaður árið 2004 fyrir umferðarlaga- og fíkniefnabrot. Hann kveðst hafa farið í meðferð við vímufíkn, búa hjá móður sinni og vera í atvinnuleit. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Rétt er að fresta því að framkvæma 4 mánuði af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
Ákærði, Y, sem varð 18 ára […], var sektaður fyrir líkamsárás árið 2003. Hann hlaut 6 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir þjófnaðar- og fíkniefnabrot sumarið 2005. Þau brot voru því framin áður en hann varð 18 ára. Hann kveðst stunda fulla vinnu og hafa snúið baki við fyrri félögum og fyrra líferni. Kveðst hann iðrast þess að hafa framið þessi afbrot. Ákærði hefur rofið skilorð dómsins og ber að dæma hann upp og gera ákærða refsingu í einu lagi. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Rétt er að fresta því að framkvæma 7 mánuði af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði, Z, fæddur […], var dæmdur í október í fyrra í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir tvö þjófnaðarbrot. Fyrra brotið hafði hann framið fyrir fullnaðan 18 ára aldur. Ákærði hefur rofið skilorð þessa dóms og ber að dæma hann upp og gera ákærða refsingu í einu lagi. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Rétt er að fresta því að framkvæma 3 mánuði af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð.
Dæma ber ákærða, X, til þess að vera sviptur ökurétti í 4 mánuði frá dómsbirtingu að telja og ákærða, Y, í 18 mánuði frá dómsbirtingu að telja, hvort tveggja samkvæmt 101. gr. umferðarlaga og vegna uppsafnaðra punkta í samræmi við reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota.
Dæma ber ákærðu til þess að sæta upptöku á 122,43 g af amfetamíni, 39,69 g af kannabisefnum og 5 töflum af efninu MDMA.
Skaðabótakrafa Löðurs ehf. og skaðabótakrafa A eru vanreifaðar og ber að vísa þeim frá dómi. Aftur á móti ber að dæma ákærða, X, til þess að greiða Olíuverslun Íslands hf. 9.556 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, frá 28. maí 2006 til dómsuppsögu en þaðan í frá með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags.
Dæma ber ákærðu, X og Y, til þess að greiða óskipt 70.000 krónur í málsvarnarlaun til Auðar Jónsdóttur hdl., að meðtöldum virðisaukaskatti og ákærða, Y, auk þess að greiða 205.804 krónur í annan sakarkostnað.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði. Frestað er því að framkvæma 4 mánuði af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 10 mánuði. Frestað er því að framkvæma 7 mánuði af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði, Z, sæti fangelsi í 5 mánuði. Frestað er því að framkvæma 3 mánuði af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði, X, er sviptur ökurétti í 4 mánuði frá dómsbirtingu að telja og ákærði Y í 18 mánuði frá dómsbirtingu að telja.
Ákærðu sæti upptöku á 122,43 g af amfetamíni, 39,69 g af kannabisefnum og 5 töflum af efninu MDMA.
Ákærði, X, greiði Olíuverslun Íslands hf. 9.556 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 28. maí 2006 til dómsuppsögu, en þaðan í frá með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Ákærðu, X og Y, greiði óskipt verjanda sínum, Auði Jónsdóttur hdl., 70.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærði, Y, greiði auk þess 205.804 krónur í annan sakarkostnað.