Hæstiréttur íslands

Mál nr. 568/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð


Þriðjudaginn 12. október 2010.

Nr. 568/2010.

Þorgeir & Ellert hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

gegn

Þörungaverksmiðjunni hf.

(Eiríkur Elís Þorláksson hrl.)

Kærumál. Innsetningargerð.

Þ, eigandi skipsins F, krafðist þess að fá skipið afhent með beinni aðfarargerð úr umráðum ÞE, sem hafði tekið að sér með verksamningi að gera á því breytingar. Með aðilum var ágreiningur um efndir samningsins á báða bóga. ÞE hafði hafnað kröfu Þ um að fá skipið afhent á þeim grundvelli að félagið ætti haldsrétt í skipinu til tryggingar kröfum vegna verksins, sbr. 1. mgr. 200. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Þ hélt því hins vegar fram að haldsréttur væri ekki fyrir hendi þar sem lagðar hefðu verið fram bankaábyrgðir fyrir kröfum ÞE. Talið var að þær bankaábyrgðir, sem Þ hafði lagt fram, væru fullnægjandi og því ekki fallist á að ÞE ætti haldsrétt í skipinu. Þóttu því fyrir hendi skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför til að taka umráðakröfu Þ til greina, enda væru réttindi Þ það ljós að fyrir þeim hefðu verið færðar sönnur með gögnum sem aflað hefði verið eftir 83. gr. laganna. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur og aðför heimiluð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 27. september 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að taka skipið Fossá ÞH-362, skipaskrárnúmer 2404, með öllu sem því fylgir, með beinni aðfarargerð úr umráðum sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og innsetningarbeiðni varnaraðila hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Þá krefst hann  kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Þorgeir & Ellert hf., greiði varnaraðila, Þörungaverksmiðjunni hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 27. september 2010.

Mál þetta var þingfest 3. september 2010 og tekið til úrskurðar 17. sama mánaðar. Gerðarbeiðandi er Þörungaverksmiðjan hf., Reykhólum í Reykhólahreppi, en gerðarþoli er Þorgeir & Ellert hf., Bakkatúni 26 á Akranesi.

Gerðarbeiðandi krefst þess að skipið Fossá ÞH-362, skipaskrárnúmer 2404, með öllu því sem fylgir og fylgja ber, verði tekið með beinni aðfarargerð úr umráðum gerðarþola og afhent gerðarbeiðanda. Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar úr hendi gerðarþola.

Gerðarþoli krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um innsetningu í umráð skipsins. Verði sú krafa tekin til greina krefst gerðarþoli þess að gerðinni verði frestað þar til niðurstaða æðri dóms liggur fyrir. Þá krefst gerðarþoli þess að gerðarbeiðanda verði gert að greiða málskostnað.

I

Gerðarbeiðandi er eigandi skipsins Fossá ÞH-362, en gerðarbeiðandi fékk afsal fyrir skipinu 30. september 2009. Kaupverð skipsins var 600.000 bandaríkjadalir en um er að ræða kúfiskveiðiskip.

Með verksamningi 20. nóvember 2009 tók gerðarþoli að sér gagnvart gerðarbeiðanda að endursmíða skipið, en tilgangurinn var að breyta því í þangflutningaskip. Til grundvallar verksamningum lágu útboðsgögn með nánari lýsingu á einstökum verkþáttum. Umsamin verklaun voru 108.857.000 krónur, en til frádráttar komu 11.551.493 krónur þar sem gerðarbeiðandi óskaði eftir að tiltekin verk yrðu ekki unnin, auk þess sem ákveðið tæki var fellt úr tilboðinu. Að teknu tilliti til þessa námu verklaun 97.305.507 krónum, en þau átti að greiða með fimm jöfnum greiðslum á nánar tilgreindum gjalddögum með lokagreiðslu við verklok. Um viðbótarverk var tekið fram að gerðarþola væri óheimilt að undirbúa eða framkvæma viðbótarverk nema fyrir lægi skriflegt samþykki gerðarbeiðanda. Samkvæmt samningnum hófst verkið við undirritun hans, en verktími átti að vera 26 vikur frá því upphafsgreiðsla barst inn á verkið. Sú greiðsla var innt af hendi 30. nóvember 2009 og átti því verkinu að ljúka 30. maí 2010. Í samningnum var tekið fram að verktími væri háður því að gerðarbeiðandi stæði tímalega skil á öllum teikningum og þeim búnaði sem hann átti að útvega. Þá var tekið fram að viðbótarverk gætu haft áhrif á verktíma. Ef dráttur yrði á afhendingu skipsins átti að greiða í dagsekt 0,5% af heildarverðmæti samningsins en hámark sekta gat numið 10% af samningsfjárhæðinni. Um eignarrétt sagði í samningnum að gerðarbeiðandi eignaðist allt efni, hluti, vélar og tæki um leið og þau yrðu til eða þeirra væri aflað til verksins jafnóðum og verkinu miðaði áfram og gerðarbeiðandi stæði skil á greiðslum. 

Gerðarþoli hóf vinnu við verkið í samræmi við samning aðila. Þegar verkið var hafið komu í ljós ætlaðir gallar á skipinu sem óskað var eftir að yrðu skoðaðir af dómkvöddum matsmanni. Af þeim sökum var vinnu verkþátta sem snertu þann hluta skipsins sem talinn var haldin leyndum galla frestað að ósk gerðarbeiðanda. Meðan unnið var að verkinu greiddi gerðarbeiðandi 87.209.700 krónur upp í verklaun. Einnig voru unnin umfangsmikil verk sem féllu ekki undir útboðslýsingu og verksamning aðila, en gerðarbeiðandi hefur greitt 17.677.256 krónur vegna viðbótarverka.

Gerðarþoli byggir á því að samtals hafi verið unnin 131 viðbótarverk á skipinu í tímavinnu og hefur lagt fram yfirlit með verknúmerum. Á þessi yfirlit ritar starfsmaður gerðarbeiðanda á verkstað samþykki fyrir hönd gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi heldur því hins vegar fram að sá starfsmaður hafi ekki haft umboð til að samþykkja aukaverk, auk þess sem gerðarbeiðandi telur að sum af þessu verkum hafi fallið undir verksamning aðila. Þá sömdu aðilar um að gerðarþoli tæki að sér að vinna 10 viðbótarverk gegn föstu gjaldi. Gerðarþoli hefur gefið út reikninga á hendur gerðarbeiðanda vegna viðbótarverka í tímavinnu að fjárhæð 40.160.177 krónur, en ágreiningur er með aðilum að hvaða marki þau verk hafa verið unnin. Einnig hefur gerðarþoli gefið út reikninga vegna viðbótarverka á föstu gjaldi að fjárhæð 25.739.987 krónur. Hefur komið fram af hálfu gerðarþola að þeim verkum sé ekki lokið að öllu leyti.

Á vormánuðum og um sumarið 2010 voru haldnir fundir með fyrirsvarsmönnum aðila þar sem fjallað var um fyrirhuguð verklok, auk þess sem reynt var að leysa ágreining aðila um uppgjör þeirra á milli. Af hálfu gerðarbeiðanda hefur komið fram að hann hafi lagt ríka áherslu á að verkinu yrði lokið sem fyrst þar sem skipið átti að leysa af hólmi annað skip, en haffærniskírteini þess átti að renna út 30. júlí 2010. Með undanþágu frá Siglingastofnun fékkst skírteinið framlengt til 1. október sama ár.

Með tölvupósti 22. júlí 2010 staðfesti framkvæmdastjóri gerðarþola að öll vinna við umbeðin reikningsverk hefði verið stöðvuð sökum þess að ekki hefði verið staðið við fyrirheit um greiðslu. Einnig kom fram að síðustu reikningar vegna þessara verka hefðu verið ritaðir þann dag og að unnið yrði eftir upphaflegu tilboði að því marki sem óunnin aukaverk hömluðu ekki framkvæmdum. Þessu erindi svaraði framkvæmdastjóri gerðarbeiðanda með tölvubréfi 23. sama mánaðar, en þar var því meðal annars haldið fram að reikningar vegna viðbótarverka væru ekki studdir fullnægjandi gögnum. Með bréfi lögmanns gerðarbeiðanda sama dag voru einnig gerðar athugasemdir við drátt á verkinu. Jafnframt var áréttað að ágreiningur væri um viðbótarverk, en þar fyrir utan var vefengt að þessi verk hefðu að öllu leyti verið unnin.

Hinn 29. júlí 2010 var haldinn fundur með fyrirsvarsmönnum málsaðila til að fara yfir reikninga vegna verksins. Liggur frammi í málinu frásögn af þeim fundi þar sem reikningar eru tilgreindir með númerum og þeir ýmist sagðir greiddir eða ógreiddir. Jafnframt koma fram athugasemdir gerðarbeiðanda við reikninga og andmæli gerðarþola við að ekki hefði verið staðið í skilum. Í kjölfar fundarins var skoðunarmaður á vegum gerðarbeiðanda fenginn til að gera úttekt á verkinu og stöðu þess. Milli aðila reis hins vegar ágreiningur um hvernig standa ætti að þeirri úttekt án þess að efni séu til að rekja það nánar. Hinn 12. ágúst 2010 fór úttektin fram og skilaði skoðunarmaður af sér skýrslu sinni 31. sama mánaðar. Sú skýrsla hefur ekki verið lögð fram í málinu, en fyrir liggur að gerðarþoli gerir verulegar athugasemdir við skýrsluna.

Með bréfi lögmanns gerðarbeiðanda 4. ágúst 2010 var þess farið á leit að allri vinnu við skipið á vegum gerðarþola yrði hætt og þegar yrði hafist handa við að undirbúa skipið fyrir flutning í annan slipp til að vinnu við það yrði lokið. Einnig var tekið fram að allir reikningar vegna samþykktra viðbótarverka sem hefðu verið unnin yrðu greiddir og bankaábyrgð gefin út fyrir umdeildum reikningum. Þá var gerður áskilnaður um skaðabætur vegna vanefnda. Með tölvupósti lögmannsins 6. sama mánaðar var einnig áréttað að verksamningi aðila hefði verið rift vegna afhendingardráttar gerðarþola. Þegar leið á ágúst 2010 skiptust lögmenn aðila á orðsendingum vegna kröfu gerðarbeiðanda um að fá skipið afhent gegn bankaábyrgð. Fór svo að gerðarbeiðandi lagði fram bankaábyrgð 27. ágúst 2010 frá Arion banka hf. að fjárhæð 100 milljónir króna til tryggingar á hugsanlegri kröfu gerðarþola vegna vinnu við skipið eins og hún kynni að vera dæmd í máli sem höfða ætti eigi síðar en 26. ágúst 2011. Til viðbótar lagði gerðarbeiðandi fram bankaábyrgð MP banka hf. að fjárhæð 35 milljónir með hliðstæðum skilmálum og í fyrri ábyrgð.   

II

Gerðarbeiðandi reisir kröfu sína á eignarrétti að skipinu, en á þeim grundvelli telur gerðarbeiðandi sig eiga ótvíræðan rétt til að taka skipið og fylgifé þess í sína vörslu. Tekur gerðarbeiðandi fram að markmiðið með beiðninni sé að flytja skipið og fylgifé í annan slipp til að ljúka viðgerð á því. Telur gerðarbeiðandi að gerðarþoli hafi með afstöðu sinni aftrað gerðarbeiðanda að neyta þess réttar.

Gerðarbeiðandi andmælir því að fyrir hendi sé haldsréttur gerðarþola í skipinu sem hindri að gerðarbeiðandi geti tekið skipið í sína vörslu. Í því sambandi bendir gerðarbeiðandi á að hann hafi lagt fram bankaábyrgð, samtals að fjárhæð 135 milljónir króna, til tryggingar hugsanlegri kröfu gerðarþola á hendur gerðarbeiðanda. Af þeim sökum sé haldsréttur ekki fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 200. gr. siglingalaga, nr. 34/1985. Telur gerðarbeiðandi hafið yfir allan vafa að þær bankaábyrgðir sem hann hefur aflað séu fullnægjandi trygging fyrir ýtrustu kröfum gerðarþola að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Andmælir gerðarbeiðandi því sérstaklega að gerðarþoli hafi leitast við að hækka kröfur sínar með því að tefla í senn fram bæði efndakröfum og kröfum um skaðabætur vegna sömu atriða. Þar fyrir utan geti gerðarþoli ekki krafist efnda að fullu samkvæmt verksamningi sem ekki hafi verið efndur af hálfu gerðarþola. Auk þess mótmælir gerðarbeiðandi reikningum gerðarþola vegna viðbótarverka á þeim grundvelli að þau hafi ýmist ekki verið unnin eða falli undir verksamning aðila og geti því ekki að réttu lagi talist aukaverk.

Gerðarbeiðandi hafnar því að sá sem tekur að sér viðgerð á skipi getið haldið því ótakmarkað með vísan til haldsréttar og þannig þvingað eiganda skipsins til að greiða kröfur að fullu þótt deilt sé um réttmæti þeirra. Hér verði einnig að líta til þess að hagsmunir gerðarbeiðanda af því að fá skipið afhent séu verulegir, enda muni hann verða fyrir miklu tjóni komi til rekstrarstöðvunar vegna dráttar á afhendingu skipsins. Telur gerðarbeiðandi sennilegt að bregðast þyrfti við rekstrarstöðvun með uppsögnum starfsmanna í verksmiðju gerðarbeiðanda að Reykhólum.

Gerðarbeiðandi tekur fram að hann hafi greitt alla samþykkta reikninga gerðarþola og gert ítarlegar athugasemdir við umdeilda reikninga. Einnig bendir gerðarbeiðandi á að hann hafi greitt sem nemur 89,4% af heildarfjárhæð verksamningsins þótt verkfræðiráðgjafi hans og hönnuður útboðsgagna telji að einungis 60−70% þeirrar vinnu sé lokið. Þá heldur gerðarbeiðandi því fram að ítrekað hafi verið reynt að ná sáttum við gerðarbeiðanda, bæði með greiðslu sáttafjárhæðar og með skoðun óháðs skoðunarmanns. Gerðarþoli hafi hins vegar hafnað öllu í þessa veru og tálmað skoðun á skipinu með því að hafna að úttektin tæki til umdeildra reikningsverka.

Um lagarök til stuðnings kröfunni vísar gerðarbeiðandi til 78. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, sbr. 73. gr. sömu laga.

III

Gerðarþoli vísar til þess að hann hafi haldsrétt í skipinu til tryggingar kröfum á hendur gerðarbeiðanda, sbr. 1. mgr. 200. gr. siglingalaga. Tekur gerðarþoli fram að gripið hafi verið til þess úrræðis til að fyrirbyggja stórkostlegt tjón af viðskiptum við gerðarbeiðanda, sem hafi án viðhlítandi heimildar rift verksamningi aðila og haldið eftir greiðslum, bæði samkvæmt samningnum og vegna viðbótarverka, sem hafi verið samþykkt af starfsmanni gerðarbeiðanda á verkstað. Í því sambandi bendir gerðarþoli á að dráttur á verkinu stafi af fjölda beiðna um viðbótarverk, auk þess sem gerðarbeiðandi hafi ekki afhent tæki og teikningar á tilsettum tíma. Því verði dráttur á verklokum rakinn til atvika sem gerðarbeiðandi beri ábyrgð á. Einnig fullyrðir gerðarþoli að riftunin hafi valdið miklu tjóni vegna samninga við undirverktaka, auk þess sem gerðarþoli sitji uppi með fjölda starfsmanna á launum sem illa verði nýttir í önnur verk.

Gerðarþoli mótmælir því að haldsréttur í skipinu sé fallin niður á grundvelli 2. mgr. 200. gr. siglingalaga. Í þeim efnum tekur gerðarþoli fram að um sé að ræða ákvæði sem feli í sér undantekningu og því verði það túlkað þröngt. Til stuðnings þessu bendir gerðarþoli á að gerðarbeiðandi hafi ekki skilgreint nægjanlega andmæli sín við reikninga gerðarþola. Þannig séu ekki tilgreindir þeir verkþættir sem reikningarnir taki til og gerðarbeiðandi telur að eigi að falla undir verksamning aðila. Einnig sé þessum andmælum gerðarbeiðanda ekki lýst í öðrum atriðum. Af þessum sökum liggi ekki fyrir sú fjárhæð sem gerðarbeiðanda beri að inna af hendi þegar í stað. Tekur gerðarþoli fram að starfsmaður gerðarbeiðanda hafi samþykkt fjölda reikninga vegna verka sem er að fullu lokið.

Gerðarþoli telur í alla staði óeðlilegt og ósanngjarnt að skikka hann til að taka við bankaábyrgð í stað peninga vegna réttmætra krafna. Í kjölfarið þurfi hann að innheimta kröfur sínar með málsókn sem fyrirsjáanlega sé tímafrek. Á meðan þurfi gerðarþoli að standa straum af öllum rekstrarkostnaði, þar með talið greiðslum til undirverktaka. Tekur gerðarþoli fram að með þessu móti verði blómleg iðnfyrirtæki hæglega keyrð í greiðsluþrot. Þá telur gerðarþoli að fyrirliggjandi bankaábyrgðir séu ekki fullnægjandi, en krafa á hendur gerðarbeiðanda nemi samtals 132.688.417 krónum, auk dráttarvaxta og kostnaðar. Þessi fjárhæð sundurliðist í kröfu að fjárhæð 10.499.213 krónur vegna eftirstöðva samkvæmt verksamningi, kröfu að fjárhæð 40.160.077 krónur vegna reikninga fyrir umbeðin viðbótarverk í tímavinnu, kröfu að fjárhæð 25.739.987 krónur vegna umbeðinna viðbótarverka á föstu gjaldi og aðrar kröfur að fjárhæð 56.289.140 krónur. Enn fremur bendir gerðarþoli á að bankaábyrgðir hafi verið gefnar út af íslenskum bönkum, en ekki séu nema rétt tæp tvö ár síðan bankakerfið fór á hliðina og því sé ekki loku fyrir það skotið að slíkt geti endurtekið sig.

Loks telur gerðarþoli að ekki séu fyrir hendi réttarfarsleg skilyrði til að taka til greina kröfu um beina aðför, enda sé varhugavert að gerðin nái fram að ganga á grundvelli gagna málsins. Í því sambandi bendir gerðarþoli á að mun umfangsmeiri sönnunarfærsla þurfi að fara fram til að leysa úr ágreiningi aðila en komið verði við í máli sem rekið er eftir 13. kafla laga um aðför. Þá sé þess að gæta að sönnunargögn kunni að glatast verði ekki hægt að meta verkið þegar ágreiningur aðila verður leiddur til lykta fyrir dómstólum og því kunni gerðarþoli að verða fyrir réttarspjöllum.

Fari svo að krafa um beina aðför verði tekin til greina telur gerðarþoli mikilvægt að gerðinni verði frestað meðan málinu verði skotið til æðri réttar. Því til stuðnings bendir gerðarþoli á að málið varði mikla hagsmuni, auk þess sem málið sé fordæmisgefandi þar sem Hæstiréttur hafi ekki áður fjallað um ákvæði 2. mgr. 200. gr. siglingalaga.

IV

Gerðarbeiðandi er eigandi skipsins Fossá, ÞH-362, skipaskrárnúmer 2404, samkvæmt afsali 30. september 2009. Með verksamningi málsaðila 20. nóvember sama ár í kjölfar útboðs tók gerðarþoli að sér að endursmíða skipið og breyta því úr kúfiskveiðiskipi í þangflutningaskip. Með aðilum er ágreiningur um efndir þess samnings á báða bóga.

Að teknu tilliti til breytinga námu umsamin verklaun 97.305.507 krónum og þar af hefur gerðarbeiðandi greitt 87.209.700 krónur. Til viðbótar við það hefur gerðarbeiðandi greitt 17.677.256 krónur vegna viðbótarverka. Gerðarþoli telur að eftirstöðvar krafna á hendur gerðarbeiðanda vegna verksins í heild sinni nemi samtals 132.688.417 krónum, auk vaxta og kostnaðar.

Gerðarþoli hefur hafnað kröfu gerðarbeiðanda að fá skipið afhent á þeim grundvelli að gerðarþoli eigi haldsrétt í skipinu til tryggingar kröfum vegna verksins, sbr. 1. mgr. 200. gr. siglingalaga. Gerðarbeiðandi heldur því á hinn bóginn fram að haldsréttur sé ekki fyrir hendi þar sem hann hefur lagt fram bankaábyrgðir, samtals að fjárhæð 135 milljónir króna, fyrir kröfum gerðarþola, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Samkvæmt verksamningi aðila átti verkið að taka 26 vikur frá því upphafsgreiðsla barst inn á verkið og var sú greiðsla innt af hendi 30. nóvember 2009. Miðað við það átti gerðarþoli að skila af sér verkinu 30. maí 2010, en fyrir liggur að verkinu er ekki lokið. Gerðarbeiðandi hefur rift verksamningnum vegna afhendingardráttar. Gerðarþoli telur hins vegar að dráttur á verkinu verði rakin til atvika sem gerðarbeiðandi ber ábyrgð á. Auk þessa ágreinings hefur gerðarbeiðandi andmælt reikningum gerðarþola vegna viðbótarverka með þeim rökum að verk þessi hafi ekki að öllu leyti verið unnin, auk þess sem þau falli að einhverju marki undir verksamning aðila. Einnig hefur komið fram að gerðarbeiðandi hefur greitt reikninga, sem hann hefur gert athugasemdir við, en ágreiningur er með aðilum hvort þeir reikningar hafi verið greiddir með fyrirvara. Þá verður ekki talið að gerðarbeiðandi hafi fallist fyrirvaralaust á alla reikninga gerðarþola vegna viðbótarverka þótt starfsmaður hans hafi áritað samþykki á yfirlitsblaði þar sem viðbótarverk eru talin. Að þessu gættu og þegar haft er í huga hvað gerðarbeiðandi hefur þegar greitt inn á verkið og sú fjárkrafa í heild sinni sem gerðarþoli hefur uppi verður með engu móti fallist á það með gerðarþola að andmæli gegn kröfum hans séu að verulega leyti sett fram til málamynda. Skiptir þá engu þótt gerðarbeiðandi hafi ekki haft uppi andmæli við öllum kröfum gerðarþola, enda liggur fyrir að gerðarbeiðandi telur sig eiga gagnkröfur á hendur gerðarþola vegna verulegra vanefnda. Samkvæmt þessu gat gerðarbeiðandi, á grundvelli almennra meginregla kröfuréttar, á eigin áhættu haldið að sér höndum við efndir vegna ætlaðra vanefnda gerðarþola. Jafnframt var gerðarbeiðanda heimilt við þessar aðstæður að leysa skipið undan haldsrétti gerðarþola með því að leggja fram bankatryggingu, sbr. 2. mgr. 200. gr. siglingalaga.

Af hálfu gerðarþola er því haldið fram að þær bankaábyrgðir sem gerðarbeiðandi hefur lagt fram séu ófullnægjandi. Svo sem áður er rakið hefur gerðarbeiðandi lagt fram bankaábyrgðir, samtals að fjárhæð 135 milljónir króna, en gerðarþoli telur sig eiga kröfu samtals að fjárhæð 132.688.417 krónur, auk dráttarvaxta og kostnaðar. Með í útreikningi kröfunnar telur gerðarþoli eftirstöðvar samningsverksins að fjárhæð 10.499.213 krónur, en fyrir liggur að verkinu er ekki lokið. Einnig hefur komið fram hjá gerðarþola að ekki sé að fullu lokið viðbótarverkum á föstu gjaldi, en samtals nemur krafa vegna þeirra verka 25.739.987 krónum. Þá hefur gerðarbeiðandi uppi aðrar kröfur að fjárhæð 56.289.140 krónur, en þar af er skaðabótakrafa að fjárhæð 30.059.007 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Í sundurliðun kemur fram að sú krafa sé vegna dráttar á því að skila teikningum og búnaði og vegna breytinga á verkinu. Jafnframt segir að ekki hafi verið staðið skil á fjárhagslegum skuldbindingum, auk þess sem fram hafi komið leyndir gallar á skipinu sem hafi haft í för með sér verulegar tafir, óhagræði og viðbótarkostnað fyrir gerðarþola. Loks sé um að ræða tjónabætur vegna aðstöðumissis í ágúst 2010, sem nemi 33% framlegð úr áætlaðri 20% mánaðarveltu. Að áliti dómsins hefur ekki verið gerð viðhlítandi grein fyrir því hvernig gerðarþoli getur krafist umræddra skaðabóta samhliða því að hafa uppi að fullu kröfur á efndagrundvelli vegna verksins og aukaverka. Þá er þess að gæta að virðisaukaskattur reiknast ekki á skaðabótakröfur. Að þessu virtu þykja bankaábyrgðir þær sem gerðarbeiðandi hefur lagt fram fullnægjandi og er þá vísað á bug sem haldlausri þeirri málsástæðu gerðarþola að bankaábyrgðum frá íslenskum bönkum megi ekki treysta.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að gerðarþoli eigi haldsrétt í skipinu og þykja því fyrir hendi skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga um aðför til að taka umráðakröfu gerðarbeiðanda til greina, enda eru réttindi gerðarbeiðanda það ljós að fyrir þeim hafa verið færðar sönnur með gögnum sem aflað er eftir 83. gr. laganna.

Gerðarþoli krefst þess að málskot til æðri dóms fresti aðför, sbr. 3. mgr. 84. gr. laga um aðför. Engin efni eru til að taka þá kröfu til greina.

Eftir þessum úrslitum verður gerðarþola gert að greiða gerðarbeiðanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í úrskurðarorði.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Gerðarbeiðanda, Þörungaverksmiðjunni hf., er heimilt að taka skipið Fossá ÞH-362, skipaskrárnúmer 2404, með öllu sem því fylgir, úr umráðum gerðarþola, Þorgeirs & Ellerts hf., með beinni aðfarargerð.

Málskot til æðri réttar frestar ekki aðför.

Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda 400.000 krónur í málskostnað.