Hæstiréttur íslands

Mál nr. 444/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Föstudaginn 15

 

Föstudaginn 15. desember 2000.

Nr. 444/2000.

Refti ehf.

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Byggðaverki ehf.

(Jón Auðunn Jónsson hdl.)

                                                   

Kærumál. Málskostnaður.

R höfðaði mál til heimtu skuldar á hendur B að fjárhæð 1.790.464 krónur. Við aðalmeðferð málsins í héraði lögðu aðilar fram dómsátt þar sem kveðið var á um að B skyldi greiða R 1.100.000 krónur en krafa R um málskostnað lögð í úrskurð dómara. Var sá úrskurður kærður til Hæstaréttar. Talið var að fyrri málsliður 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ætti við um báða aðila en til hins yrði þó að líta að B féllst ekki á greiðsluskyldu sína fyrr en undir rekstri málsins. Var honum því gert að greiða R hluta málskostnaðar fyrir héraðsdómi. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2000, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um málskostnað í máli, sem lauk að öðru leyti með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði úr hendi varnaraðila, sem verði einnig gert að greiða kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Samkvæmt gögnum málsins tók varnaraðili að sér um vorið 1997 að reisa leikskóla fyrir Hafnarfjarðarbæ við Úthlíð í Hafnarfirði. Með samningi við varnaraðila 18. júní sama árs gerðist sóknaraðili undirverktaki og tók að sér tiltekna þætti verksins, sem í meginatriðum lutu að uppsteypu hússins, þaki, plötuklæðningu, gluggum, gleri og hurðum. Skyldi unnið að þessu eftir verkáætlun varnaraðila fyrir heildarverkið. Bar varnaraðila að greiða sóknaraðila samkvæmt samningnum alls 6.712.700 krónur gegn framvísun reikninga á hálfsmánaðar fresti. Sóknaraðili kveðst hafa byrjað að vinna að verkinu í júlí 1997 og lokið sínum þáttum í janúar 1998. Hann hafi gert varnaraðila ellefu reikninga á tímabilinu frá 21. júlí 1997 til 1. mars 1998 fyrir samtals 13.647.834 krónum. Af þeirri fjárhæð hafi 8.325.415 krónur verið vegna samningsverka, en afgangurinn vegna aukaverka. Varnaraðili hafi greitt þrjá fyrstu reikningana. Reikninga á tímabilinu frá 1. september til 24. nóvember 1997, sjö talsins, hafi varnaraðili hins vegar ekki greitt að fullu, heldur dregið af fjárhæð þeirra samtals 847.223 krónur. Lokareikning frá 1. mars 1998, að fjárhæð 943.241 króna, hafi varnaraðili að engu leyti greitt. Sóknaraðili hafi þannig átt hjá varnaraðila ógreiddar samtals 1.790.464 krónur. Höfðaði sóknaraðili málið 23. maí 2000 til heimtu þeirrar fjárhæðar ásamt dráttarvöxtum frá því að mánuður var liðinn frá gjalddaga einstakra reikninga hans á hendur varnaraðila.

Í greinargerð varnaraðila, sem var lögð fram á dómþingi í héraði 28. júní 2000, var aðallega krafist sýknu af kröfu sóknaraðila, en til vara að hún yrði lækkuð. Voru þessar kröfur reistar á fjölmörgum atriðum varðandi framkvæmd verksins, sem varnaraðili reifaði í greinargerð sinni. Þegar málið var tekið fyrir til aðalmeðferðar í héraði 1. desember sl. lögðu aðilarnir fram dómsátt, þar sem kveðið var á um að varnaraðili skyldi greiða sóknaraðila 1.100.000 krónur hinn 6. sama mánaðar, en krafa sóknaraðila um málskostnað væri lögð í úrskurð dómara. Gekk hinn kærði úrskurður um þetta eina ágreiningsefni, sem stóð eftir að gerðri dómsáttinni.

Í málinu liggur ekki fyrir á hvaða forsendum dómsátt aðilanna var reist. Af efni hennar er þó sýnt að hvorki hefur sóknaraðili fengið framgengt stefnukröfu sinni í heild né hefur varnaraðili haldið til streitu aðalkröfu sinni um sýknu. Þegar litið er til þeirrar fjárhæðar, sem varnaraðili féllst með sáttinni á að greiða, í samanburði við stefnukröfu sóknaraðila að viðbættum umkröfðum dráttarvöxtum, er ljóst að ástatt er fyrir báðum aðilum eins og um ræðir í upphafi fyrri málsliðar 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Til þess verður hins vegar að líta að varnaraðili féllst ekki á greiðsluskyldu sína fyrr en undir rekstri málsins. Verður honum því gert að greiða sóknaraðila hluta málskostnaðar fyrir héraðsdómi. Með hliðsjón af hagsmunum, sem sóknaraðili vann með dómsátt aðilanna, og framlagðri gjaldskrá lögmanns hans er málskostnaðurinn hæfilega ákveðinn 175.000 krónur.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, Byggðaverk ehf., greiði sóknaraðila, Refti ehf., 175.000 krónur í málskostnað í héraði og 40.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2000

               

Ár 2000, mánudaginn 4. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykja­ness, sem háð er í dómhúsinu að Brekkugötu 2, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðs­dómara kveðinn upp úrskurður um málskostnað í málinu nr. E-957/2000: Refti ehf. gegn Byggðaverki ehf.

 

I.

Málið höfðaði Karl Axelsson hrl., fyrir hönd Reftis ehf., kt. 430693-2639, Ármúla 19, Reykjavík, á hendur Byggðaverki ehf., kt. 691293-3949, Reykjavíkurvegi 60, Hafnarfirði, til greiðslu skuldar að fjárhæð krónur 1.790.464, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxta­laga nr. 25/1987.  Stefna í málinu var birt 23. maí 2000 og málið þingfest degi síðar.

Málið lýtur að ágreiningi um uppgjör samkvæmt verksamningi frá árinu 1997 um uppsteypu, þakfrágang og utanhúsklæðningu leikskóla við Úthlíð í Hafnarfirði, þar sem stefndi var undirverktaki og stefnandi aðalverktaki

Af hálfu stefnda tók Jón Auðunn Jónsson hdl. til varna í málinu.  Í greinargerð lög­mannsins, sem lögð var fram 28. júní síðastliðinn var aðallega krafist sýknu af stefnukröfunni, en til vara að hún yrði stórlega lækkuð að mati dómsins.  Jafnframt var lýst yfir skuldajöfnuði vegna gagnkrafna á hendur stefnanda að fjárhæð krónur 2.233.557 og þess getið að stefndi teldi sig einnig eiga kröfu á hendur stefnanda, að fjár­­hæð krónur 512.000, vegna kostnaðar við að bæta úr verki stefnanda og áskildi sér rétt til að sækja þær bætur í öðru dómsmáli.

II.

Átta þinghöld hafa áður verið háð í málinu, þar af þrjú fyrir fjölskipuðum dómi.  Málinu lauk síðastliðinn föstudag með dómsátt um annað en máls­kostnaðar­kröfu stefnanda.  Samkvæmt sáttinni greiðir stefndi stefnanda krónur 1.100.000. 

Fallist er á með stefnda að réttmætar ástæður hafi verið fyrir hendi til að taka til fullra varna í málinu, bæði með tilliti til fyrirliggjandi ágreinings um uppgjör sam­kvæmt við­komandi verksamningi og þess að stefnandi gerði ekki formlega rek að kröfu sinni á hendur stefnda fyrr en 3. janúar 2000, eða tæplega tveimur árum eftir að stefndi sendi stefnanda drög að lokaupp­gjöri þeirra í milli fyrir umræddan verkþátt, þ.e. 10. mars 1998.  Lá þá fyrir að ágreiningur væri um uppgjör einstakra reikninga frá stefnanda, sem stefndi hafði ekki greitt nema að hluta frá því í september 1997.

Gögn málsins bera með sér að heildarverkinu mun hafa verið lokað gagnvart verk­kaupa, Hafnarfjarðarbæ, í október 1998.       

Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til framlagðra gagna í málinu þykir rétt að fella málskostnað niður og skal hvor aðila því bera sinn kostnað af rekstri þess, sbr. 1. ml. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  

 

ÚRSKURÐARORÐ:

                Málskostnaður fellur niður.  Hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins.