Hæstiréttur íslands
Mál nr. 64/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Upplýsingaréttur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 1. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að afhenda þeim fjögur nánar tilgreind skjöl til afnota í máli, sem LBI ehf. hefur höfðað gegn þeim ásamt öðrum. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krafðist ekki málskostnaðar úr hendi varnaraðila við meðferð framangreindrar kröfu þeirra fyrir héraðsdómi. Kemur því krafa hans um málskostnað í héraði ekki frekar til álita hér fyrir dómi.
I
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn félagsins frá og setti yfir það skilanefnd. Tveimur dögum síðar tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að ráðstafa tilteknum réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf. til nýs banka, sem nú ber heitið Landsbankinn hf., en í þeirri ákvörðun fólst meðal annars að nýi bankinn tæki yfir „gagnasöfn“ þess eldri. Á grundvelli laga nr. 44/2009, sem breyttu lögum nr. 161/2002, var Landsbanki Íslands hf. tekinn til slita 22. apríl 2009, en þeim lauk með nauðasamningi, sem komst á 25. desember 2015. Það félag ber nú heitið LBI ehf.
LBI ehf. höfðaði mál 17. janúar 2012 gegn varnaraðilum ásamt sjö fyrrverandi starfsmönnum og stjórnarmönnum í Landsbanka Íslands hf. Krafðist LBI ehf. þess að gagnaðilum sínum yrði, að nokkru óskipt og að öðru leyti að tiltölu, gert að greiða sér 14.116.395.373 krónur, 10.546.970 bandaríkjadali og 10.840.714 evrur með nánar tilgreindum vöxtum frá 6. október 2008 til greiðsludags auk málskostnaðar. Kröfur LBI ehf. á hendur fyrrverandi starfsmönnum og stjórnarmönnum voru um skaðabætur vegna nánar tiltekinna ráðstafana á fé Landsbanka Íslands hf. 6. október 2008. Gagnvart varnaraðilum voru kröfur á hinn bóginn reistar á ábyrgðartryggingu, sem LBI ehf. kvað Landsbanka Íslands hf. hafa keypt fyrir stjórnendur sína og aðra starfsmenn, en hana hafi varnaraðilarnir veitt 9. janúar 2008 og hún tekið gildi 1. febrúar sama ár. Málið var þingfest 8. mars 2012 og tóku allir, sem LBI ehf. beindi kröfum að, til varna með greinargerðum sem lagðar voru fram í þinghaldi 22. janúar 2013. Nokkrir þeirra gerðu þar kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi og varð héraðsdómur við því með úrskurði 27. júní 2013. Með dómi Hæstaréttar 26. september sama ár í máli nr. 491/2013 var sá úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Að þessu frágengnu stóð eftir krafa allra gagnaðila LBI ehf. um sýknu. Varnaraðilar reistu þá kröfu fyrir sitt leyti meðal annars á því að Landsbanki Íslands hf. hafi með aðgerðum stjórnenda sinna og starfsmanna, þar á meðal þeirra sem LBI ehf. hafi stefnt í málinu, brotið verulega gegn upplýsingaskyldu samkvæmt lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga þegar áðurnefnd ábyrgðartrygging var tekin með því að veita varnaraðilum rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atriði, sem hafi miklu skipt fyrir mat á áhættu þeirra.
Varnaraðilar lögðu fram á dómþingi 26. nóvember 2013 beiðni um að dómkvaddir yrðu menn til að leggja mat á nánar tiltekin atriði í tengslum við fyrrgreindar varnir þeirra. Beiðni þessi sætti andmælum annarra málsaðila, en héraðsdómur varð að mestu við henni með úrskurði 14. mars 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 29. apríl sama ár í máli nr. 243/2014. Að fenginni þeirri niðurstöðu urðu tafir á því að menn yrðu dómkvaddir til matsstarfa, en leyst var úr ágreiningi um val á matsmönnum með úrskurði héraðsdóms 24. september 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 3. nóvember sama ár í máli nr. 691/2014. Matsmenn voru síðan dómkvaddir í þinghaldi 17. nóvember 2014. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að matsmenn hafi í tengslum við störf sín ráðist í viðamikla gagnaöflun, einkum með því að leita eftir gögnum, sem sneru að starfsemi Landsbanka Íslands hf. fram til 7. október 2008 en voru þá komin í vörslur Landsbankans hf. Að nokkru reis ágreiningur um hvort því félagi bæri að láta af hendi gögn og gekk af því tilefni úrskurður í héraðsdómi 16. desember 2015, sem ekki var kærður til Hæstaréttar. Aftur kom upp ágreiningur um þetta efni, sem héraðsdómur leysti úr með úrskurði 4. janúar 2017, en þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar. Rétturinn hefur tekið afstöðu til þess ágreinings í dómi í máli nr. 43/2017, sem kveðinn er upp samhliða þessum dómi.
Þá er þess að geta að undir rekstri málsins reis einnig ágreiningur um beiðni LBI ehf. um dómkvaðningu matsmanna. Um hann gekk úrskurður í héraði 24. september 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 3. nóvember sama ár í máli nr. 687/2014.
II
Í þinghaldi 16. nóvember 2016 lögðu varnaraðilar fram beiðni um að sóknaraðili yrði með úrskurði skyldaður til „að afhenda skjöl fyrir dómi“ sem talin voru upp í fjórum liðum. Varnaraðilar lýstu þessum skjölum á þann hátt að þar væri í fyrsta lagi um að ræða minnisblað með yfirskriftinni „Background memorandum“, sem gert hafi verið í Seðlabanka Íslands, en hann hafi sent það bankastjórum í nokkrum erlendum seðlabönkum með bréfi 15. apríl 2008. Í öðru lagi minnisblað, sem gert hafi verið í Fjármálaeftirlitinu 7. september 2009 um fund 29. mars 2007, en það hafi verið auðkennt með málsnúmeri 2005040012 og séu þar „reifuð atriði um útlánaáhættu Landsbanka Íslands hf.“ Í þriðja lagi minnisblað frá nóvember 2008, sem einnig hafi verið gert í Fjármálaeftirlitinu, um „hvernig Landsbanki tengdi saman áhættur o.fl.“ Í fjórða lagi skjal frá Fjármálaeftirlitinu, sem varnaraðilar nefndu „CAMELS-mat ... fyrir Landsbanka Íslands hf., júní 2008“, en tekið var fram að slíkt mat væri gert til að „rannsaka eigið fé, eignir, stjórnun, arðsemi, lausafjárstöðu og næmni fyrir áhættu á markaði hjá fjármálafyrirtækjum.“ Í beiðninni var um tilvist þessara gagna bent á að til þeirra hafi verið „vísað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem skilað var 23. apríl 2010“, og tekið fram að samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða hafi öll gögn, sem aflað hafi verið í tengslum við þá rannsókn, verið afhent að henni lokinni sóknaraðila til varðveislu. Hann hafi því þessi skjöl í vörslum sínum.
Héraðsdómur tók framangreinda beiðni varnaraðila fyrir 16. desember 2016 að tilkvöddum sóknaraðila, sem lagði þá fram greinargerð um mótmæli gegn henni. Með hinum kærða úrskurði var beiðnin tekin til greina.
Í tengslum við þetta skal þess getið að varnaraðilar höfðu á fyrri stigum málsins krafist að Fjármálaeftirlitinu yrði gert að afhenda þeim gögn til framlagningar í því, en til ágreinings um þá kröfu tók héraðsdómur afstöðu með úrskurði 21. nóvember 2014, þar sem henni var hafnað. Sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar 7. janúar 2015 í máli nr. 840/2014. Áður en það gerðist höfðu varnaraðilar leitað eftir því við Fjármálaeftirlitið með bréfi 5. apríl 2013 að þeim yrði veittur aðgangur að tilteknum gögnum vegna rekstrar þessa máls á hendur þeim, en því hafnaði Fjármálaeftirlitið 10. júní sama ár. Varnaraðilar höfðuðu af því tilefni mál gegn Fjármálaeftirlitinu 10. september 2013 og kröfðust að ákvörðun um þetta yrði felld úr gildi, svo og að viðurkenndur yrði réttur þeirra til aðgangs að tilteknum gögnum. Samhliða rekstri þess máls kærðu varnaraðilar sömu ákvörðun Fjármálaeftirlitsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem staðfesti hana með úrskurði 1. apríl 2014. Að fenginni þeirri niðurstöðu höfðuðu varnaraðilar framhaldssök í máli sínu gegn Fjármálaeftirlitinu til að bæta þar við kröfu um að sá úrskurður yrði felldur úr gildi. Dómur gekk í því máli í héraði 8. janúar 2015 og var Fjármálaeftirlitið þar sýknað af kröfum varnaraðila. Dómurinn var síðan staðfestur með dómi Hæstaréttar 17. desember 2015 í máli nr. 263/2015. Loks er þess að geta að varnaraðilar lögðu fram í þinghaldi 9. mars 2016 kröfu um að Seðlabanka Íslands yrði gert að afhenda fjögur nánar tilgreind skjöl til framlagningar í málinu. Seðlabankinn andmælti þessari kröfu, en hún var tekin til greina með úrskurði héraðsdóms 2. maí 2016, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 15. júní sama ár í máli nr. 385/2016.
III
Varnaraðilar reisa kröfu sína um að sóknaraðila verði gert að afhenda áðurnefnd gögn á 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu er réttur aðila máls til að krefja þann, sem ekki á aðild að því, um afhendingu skjals á þessum grunni háður því að sá hafi skjalið í sínum vörslum og annaðhvort sé honum skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni þess sé slíkt að honum sé skylt að bera vitni um það í málinu.
Í málatilbúnaði sóknaraðila er staðfest að skjölin, sem varnaraðilar krefjast að fá til framlagningar í málinu, séu í vörslum hans. Verður því að líta svo á að hann sé vörslumaður þessara skjala í skilningi 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, þótt ætla verði að þau séu aðeins eftirgerðir af frumritum, sem ýmist séu í höndum Seðlabanka Íslands eða Fjármálaeftirlitsins. Ganga verður út frá því að þessar vörslur séu komnar til á þann hátt, sem um ræðir í áðurnefndri 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008, og getur í því ljósi ekki orkað tvímælis að starfsmenn sóknaraðila sömdu hvorki sem slíkir þessi skjöl né urðu vitni að nokkru því, sem efnislega kann að vera fjallað um í þeim. Starfsmenn sóknaraðila geta af þessum sökum ekkert borið af eigin raun um atvik, sem á einhvern hátt geta varðað málið milli LBI ehf. og varnaraðila, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Ekki yrði unnt að beita ákvæðum VIII. kafla þeirra laga til að kveðja starfsmenn sóknaraðila fyrir dóm og krefja þá vættis um hvers þeir kynnu að hafa orðið áskynja með því að lesa þau skjöl í vörslum hans, sem krafa varnaraðila tekur til. Enn síður yrði unnt að beita undantekningarreglu 5. mgr. 51. gr. sömu laga til að leggja fyrir starfsmenn sóknaraðila að hafa þau skjöl meðferðis við skýrslugjöf fyrir dómi til þess eins að lesa þau orðrétt upp undir hljóðritun. Getur því ekki átt hér við að varnaraðilar eigi samkvæmt 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 rétt á að krefjast þess að sóknaraðili láti skjölin af hendi á þeirri forsendu að starfsmönnum hans væri skylt að bera vitni í málinu um efni þeirra.
Við mat á því hvort varnaraðilar geti krafist skjalanna á þeim grundvelli að sóknaraðila sé skylt að afhenda þeim þau án tillits til málsins er þess að gæta að samkvæmt síðari málslið 5. mgr. 17. gr. laga nr. 142/2008 gilda ákvæði upplýsingalaga um aðgang að gögnum, sem sóknaraðili hefur tekið við úr hendi rannsóknarnefndar Alþingis. Málatilbúnaður varnaraðila verður ekki skilinn svo að þeir telji sig án tillits til málsins eiga rétt á að fá þessi skjöl afhent á öðrum grunni en þessum. Slíkur réttur varnaraðila, sem studdur verður við 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, er eftir öðrum fyrirmælum laganna háður takmörkunum, þar á meðal varðandi vinnugögn stjórnvalda, sbr. 8. gr. þeirra.
Í beiðninni, sem varnaraðilar lögðu fram í þinghaldi 16. nóvember 2016, var að nokkru lýst þeim fjórum skjölum, sem þeir krefjast að sóknaraðila verði gert að láta af hendi. Þar kom sem fyrr segir fram að 2. liður beiðninnar snúi að minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá 7. september 2009 um fund, sem hafi verið haldinn 29. mars 2007. Af þeirri lýsingu og svonefndu málsnúmeri, sem einnig var tilgreint í þessum lið, verður ekki annað séð en að kröfu varnaraðila um afhendingu þessa sama skjals á grundvelli upplýsingalaga hafi þegar verið hafnað með dómi Hæstaréttar í máli nr. 263/2015. Þá kom fram varðandi 3. lið beiðninnar að hann taki til minnisblaðs Fjármálaeftirlitsins frá nóvember 2008, þar sem fjallað hafi verið um hvernig Landsbanki Íslands hf. „tengdi saman áhættur“ í starfsemi sinni. Þegar minnisblaðið var gert hafði það félag ekki lengur á hendi starfsemi af þessum toga og má því ljóst vera að efni þess hljóti að hafa snúið að liðnum tíma að því leyti, sem það kann að hafa varðað Landsbanka Íslands hf. Af þessari lýsingu á skjalinu er ekki annað að sjá en að það verði, eins og einnig á við um skjalið sem um ræddi í 2. lið, að teljast til vinnugagna Fjármálaeftirlitsins í skilningi 8. gr. upplýsingalaga, sem undanþegin eru upplýsingarétti samkvæmt 5. tölulið 6. gr. laganna. Um það skjal, sem varnaraðilar nefndu í 4. lið beiðni sinnar „CAMELS-mat ... fyrir Landsbanka Íslands hf.“, kom fram í frekari skýringum þeirra að skjalið bæri með sér að um væri að ræða „drög að CAMELS mati“ frá júní 2008, sem Fjármálaeftirlitið hafi gert. Á sama hátt og segir hér á undan verður ekki annað séð af þessari lýsingu en að skjal þetta hafi verið vinnuskjal stjórnvalds og eigi undir 8. gr. upplýsingalaga. Þegar af þessum ástæðum verður að hafna kröfum varnaraðila, sem fram komu í 2., 3. og 4. lið beiðninnar.
Varnaraðilar kröfðust þess sem fyrr segir í 1. lið beiðni sinnar að sóknaraðili léti af hendi minnisblað, sem þeir kveða Seðlabanka Íslands hafa sent bankastjórum tiltekinna erlendra seðlabanka með bréfi 15. apríl 2008. Sé það rétt með farið að seðlabankinn hafi dreift þessu minnisblaði á þann hátt getur það í ljósi síðari málsliðar 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga ekki talist til vinnugagna stjórnvalda. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að þó svo að ákvæði upplýsingalaga kynnu af þessum sökum að veita varnaraðilum rétt til aðgangs að skjalinu, sem um ræðir, fær sú aðstaða því ekki breytt að úrræði samkvæmt 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 verður því aðeins beitt hér gagnvart sóknaraðila sem þriðja manni að skjalið geti haft sönnunargildi í málinu milli LBI ehf. og varnaraðila, sbr. 3. mgr. 46. gr. sömu laga. Á varnaraðilum hvílir að sýna fram á að svo sé. Í beiðni þeirra kom ekki annað fram um efni þessa skjals en að þar hafi verið fjallað um „ýmis málefni í tengslum við tiltekna samninga sem Seðlabanki Íslands var með í vinnslu við aðra seðlabanka“, um „viðskiptamenn Seðlabanka Íslands á þeim tíma sem minnisblaðið er ritað“ og um „skuldatryggingarálag íslensku bankanna“, sem gæfi ekki „rétta mynd af fjármögnunarkostnaði bankanna.“ Af þessari lýsingu verður ekki ráðið að þetta skjal gæti verið haft til sönnunar um eitthvert þeirra atriða, sem LBI ehf. og varnaraðila greinir á um í málinu. Af þeirri ástæðu getur ekki komið til þess að sóknaraðili verði hér krafinn um að láta þetta skjal af hendi á grundvelli 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991, þó svo að varnaraðilar kynnu á öðrum vettvangi að geta krafist að fá það afhent með stoð í ákvæðum upplýsingalaga.
Samkvæmt öllu framansögðu verður að hafna kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að afhenda þeim fyrrnefnd gögn og fella þar með hinn kærða úrskurð úr gildi. Eftir þeim úrslitum verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðilar, Allianz Global Corporate & Specialty AG, Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Brit Insurance Ltd., Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, John Leon Gilbart, Joseph Elmaleh, Julian Michael West, Kelvin Underwriting Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe, Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Norman Thomas Rea, Novae Corporate Underwriting Ltd., QBE International Insurance Ltd., QBE Corporate Ltd., Richard Michael Hodgson Read, SCOR Underwriting Ltd. og Sorbietrees Underwriting Ltd., greiði óskipt sóknaraðila, Þjóðskjalasafninu, 500.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 17., 18. og 23. janúar 2012. Stefnandi er LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þ. Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík, Halldór J. Kristjánsson, sagður óstaðsettur í hús í Kanada, Kjartan Gunnarsson, Starhaga 4, Reykjavík, Andri Sveinsson, sagður óstaðsettur í hús í Englandi, Þorgeir Baldursson, Stórahjalla 5, Kópavogi, Svafa Grönfeldt, sögð óstaðsett í hús í Bandaríkjunum og Jón Þorsteinn Oddleifsson, Krossakri 6, Garðabæ. Þá er stefnt Brit Insurance Ltd., 55 Bishopsgate, London, Stóra-Bretlandi og 24 öðrum nafngreindum vátryggjendum með lögheimili í Bretlandi og Þýskalandi („Brit Insurance Ltd. o.fl.“).
Við fyrirtöku málsins 16. nóvember sl. lögðu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. fram beiðni þar sem þess var aðallega krafist að Þjóðskjalasafn Íslands verði skyldað með úrskurði til að afhenda neðangreind skjöl vegna meðferðar málsins fyrir dómi:
1. Minnisblað Seðlabanka Íslands „Background memorandum“, sem var sent erlendum seðlabankastjórum með bréfi, dags. 15. apríl 2008.
2. Minnisblað Fjármálaeftirlits Íslands, dags. 7. september 2009 vegna fundar sem haldinn var 29. mars 2007, málsnúmer 2005040012.
3. Minnisblað Fjármálaeftirlits Íslands frá nóvember 2008 um hvernig Landsbanki tengdi saman áhættur o.fl.
4. CAMELS-mat Fjármálaeftirlits Íslands fyrir Landsbanka Íslands hf., júní 2008.
Til vara er þess krafist að Þjóðskjalasafni Íslands verði gert skylt að leggja framangreind gögn fyrir dómara í málinu í trúnaði og gegn þagnarskyldu.
Í framhaldi af kröfu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. ritaði dómari Þjóðskjalasafni Íslands bréf þar sem stofnuninni var kynnt krafan og boðið að gera athugasemdir við fyrirtöku málsins sem ákveðin var 16. desember 2016. Í því þinghaldi var sótt þing af hálfu stofnunarinnar og jafnframt lögð fram skrifleg greinargerð af hennar hálfu sem áður hafði verið kynnt dómara og aðilum málsins utan réttar. Var kröfunni mótmælt af hálfu stofnunarinnar. Af hálfu annarra málsaðila var ekki tekin sérstök afstaða til krafna téðra stefndu. Var ágreiningur aðila tekinn til úrskurðar eftir að lögmönnum aðila hafði verið gefinn kostur á munnlegum athugasemdum.
A
Aðalkröfu sína byggja stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. á 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 3. mgr. 67. gr. laganna segi að ef skjal er í vörslum manns sem ekki er aðili að máli geti aðili krafist að fá það afhent til framlagningar í máli ef vörslumanni skjalsins er skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu. Það sé því nægjanlegt að öðru hvoru skilyrðinu sé fullnægt, þ.e. annað hvort að Þjóðskjalasafni sé skylt að afhenda stefndu skjölin sem krafist er afhendingar án tillits til málsins eða að Þjóðskjalasafni sé skylt að bera vitni um skjölin í málinu. Stefndu telja bæði skilyrðin uppfyllt.
Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. vísa til þess að í málinu hafi stefnandi uppi kröfur á hendur þeim um greiðslu margra milljarða króna. Stefndu vinni að sönnunarfærslu um ýmis atriði, sem sýni meðal annars fram á að stjórnendur Landsbanka Íslands hf. hafi haft vitneskju um slæma fjárhagsstöðu bankans um það leyti þegar stjórnendatryggingin var keypt hjá stefndu, en að stefndu hafi verið veittar ýmist rangar eða engar upplýsingar þar að lútandi. Sönnunarfærsla stefndu sé réttmæt, sanngjörn og eðlileg með hliðsjón af málatilbúnaði þeirra. Hin umbeðnu skjöl séu sjö til átta ára gömul og varði vitneskju þáverandi fyrirsvarsmanna og stjórnenda Landsbanka Íslands hf. um slæma fjárhagsstöðu bankans snemma á árinu 2008, athugasemdir Fjármálaeftirlits þar að lútandi o.s.frv. Viðkomandi stjórnendur bankans hafi látið af störfum hjá bankanum haustið 2008. Möguleg þörf fyrir trúnað um gögnin sé löngu horfin, hafi þau yfirleitt hún verið fyrir hendi. Þá geti Þjóðskjalasafn ekki borið trúnaðarskyldu gagnvart stefnanda, sem sé í reynd gjaldþrota banki, sem gengið hafi í gegnum slitameðferð og nauðasamningsferli. Það sé með öllu óljóst hvaða hagsmuni Þjóðskjalasafn telji sig vera að vernda með því að neita að afhenda hin umbeðnu gögn. Slíkir hagsmunir séu ekki fyrir hendi, en í öllu falli séu þeir ósannaðir og óútskýrðir, og hagsmunir stefndu miklu þyngri en hugsanlegir hagsmunir Þjóðskjalasafns eða stefnanda af því að efni þeirra verði haldið leyndu, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991. Stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. telja fram komið að skjölin séu til og í vörslu Þjóðskjalasafns enda sé vísað til þeirra í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 12. apríl 2010.
Varakrafa stefndu um framlagningu gagna fyrir dómara í trúnaði og gegn þagnarskyldu byggir á 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991. Varakrafan er sett fram ef ske kynni að einhver hinna umbeðnu gagna væru talin hafa að geyma atriði sem Þjóðskjalasafni væri óskylt eða óheimilt að bera vitni um af einhverjum ástæðum, en um það beri Þjóðskjalasafn sönnunarbyrðina.
B
Þjóðskjalasafn Íslands telur að ekki séu uppfyllt skilyrði 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 til þess að stofnunin verði skylduð til að afhenda stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. umbeðin skjöl. Stofnunin byggir á því að henni sé óskylt að afhenda skjölin án tillits til málsins og að efni skjalanna sé ekki slíkt að henni sé skylt að bera vitni um þau í málinu.
Þau skjöl sem um ræðir hafi verið aflað við rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis á grundvelli laga nr. 142/2008 en nefndinni hafi verið falið það hlutverk að „leita sannleikans“ um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna árið 2008 og tengdra atburða. Heimildir rannsóknarnefndarinnar til að krefja einstaklinga og lögaðila um upplýsingar hafi verið víðtækari en áður eru dæmi um. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 142/2008 hafi sérhverjum þeim, sem rannsóknarnefndin krafðist, verið skylt að koma fyrir nefndina og láta í té allar upplýsingar, gögn og skýringar sem farið var fram á. Þagnarskylda viðkomandi hafi vikið undantekningarlaust fyrir þeirri skyldu. Í athugasemdum við 6. gr. frumvarps þess sem hafi orðið að lögum nr. 142/2008 komi fram að þessi víðtæka heimild rannsóknarnefndarinnar til að krefjast upplýsinga helgist „af eðli rannsóknarinnar þar sem gera megi ráð fyrir að erfitt verði að ná markmiðum frumvarpsins nema með því að nefndin fái aðgang að hvers kyns trúnaðarupplýsingum.“
Úrlausn um það hvort Þjóðskjalasafni Íslands sé skylt að afhenda sóknaraðilum skjölin án tillits til málsins fari samkvæmt upplýsingalögum. Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga sé óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðkiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þá geti sérákvæði laga um þagnarskyldu takmarkað rétt almennings til aðgangs að gögnum, sbr. gagnályktun frá ákvæði 3. mgr. 4. gr. laganna.
Um einstök gögn segir eftirfarandi í rökstuðningi Þjóðskjalasafns Íslands:
1. Minnisblað Seðlabanka Íslands. Minnisblaðið hafi verið sent erlendum seðlabankastjórum með bréfi 15. apríl 2008 og í því sé gerð grein fyrir ýmsum málefnum í tengslum við tiltekna samninga sem Seðlabanki Íslands hafi verið með í vinnslu við aðra seðlabanka. Þá sé að nokkru fjallað um viðskiptamenn bankans á þeim tíma sem minnisblaðið er ritað. Að mati Þjóðskjalasafns sé um að ræða upplýsingar sem falli undir þagnarskylduákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.
2. Minnisblað Fjármálaeftirlitsins, dags. 7. september 2009. Í minnisblaðinu séu reifuð atriði um útlánaáhættu Landsbanka Íslands hf., en Fjármálaeftirlitið hafi haft eftirlit með starfsemi bankans. Þjóðskjalasafnið byggir á því að þagnarskylduákvæði 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nái yfir þær upplýsingar sem fram koma í minnisblaðinu.
3. Minnisblað Fjármálaeftirlitsins frá því í nóvember 2008. Í minnisblaðinu komi fram upplýsingar um hin ýmsu fyrirtæki. Fyrirtækin séu tekin fyrir og reifaðar ýmsar upplýsingar um þau í tengslum við viðmið Fjármálaeftirlitsins um stórar áhættur. Með hliðsjón af því byggi Þjóðskjalasafnið á því að í minnisblaðinu sé fjallað um viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila og nái þagnarskylduákvæði 13. gr. laga nr. 87/1998 yfir þær upplýsingar sem fram koma í minnisblaðinu.
4. CAMELS-mat Fjármálaeftirlitsins. Í skjalasafni rannsóknarnefndar Alþingis hafi fundist ódagsett skjal sem beri með sér að vera drög að CAMELS mati frá júní 2008. CAMELS mat hafi verið framkvæmt af Fjármálaeftirlitinu í því augnamiði að rannsaka eigið fé, eignir, stjórnun, arðsemi, lausafjárstöðu og næmni fyrir áhættu á markaði hjá fjármálafyrirtækjum. Af þessari ástæðu hafi umrætt CAMELS mat að geyma umfangsmiklar upplýsingar er varða mikilvæg viðskipta- og fjárhagsmálefni Landsbanka Íslands hf., sem eftirlitsskylds aðila Fjármálaeftirlitsins.
Þjóðskjalasafn Íslands mótmælir því að stofnuninni beri að afhenda umrædd skjöl á þeim grundvelli að starfsmönnum hennar bæri vitnaskylda um efni þeirra í skilningi síðari efnisliðar 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991. Stofnunin sé eingöngu vörslumaður umræddra skjala auk þess sem hún sé lögaðili og geti því ekki borið vitni um efni skjalsins fyrir dómi. Engu breyti þó svo einstakir starfsmenn hafi kynnt sér efnisatriði þeirra og gætu borið vitnaskyldu, persónulega, um efni þeirra að öðrum skilyrðum uppfylltum. Verði ekki fallist á þetta, byggir stofnunin á því að sér væri óheimilt að bera vitni um efni skjalanna samkvæmt VII. kafla laga um nr. 91/1991, m.a. c-lið 2. mgr. 53. gr. um að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem á í hluta að svara spurningum um atriði sem það hefur komist að í opinberu starfi og á að fara leynt.
Stofnunin telur af sömu ástæðum og greinir um aðalkröfu stefndu að hafna beri varakröfu um að skjölin skuli lögð fyrir dómara í trúnaði og gegn þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Á það verður fallist með stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. að þau gögn sem krafist er afhendingar á séu skjöl sem falli undir 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en því er ekki mótmælt af hálfu Þjóðskjalasafns Íslands að umrædd gögn séu til og í meginatriðum í því formi sem stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. vísa til. Umrætt ákvæði lýtur að gagnaöflun aðila í þágu meðferðar dómsmáls og helgast þannig af rétti manna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Gengur umrætt ákvæði laga nr. 91/1991 því framar reglum um upplýsingarétt almennings samkvæmt lögum nr. 140/2012 sem ekki eiga við um kröfu stefndu.
Samkvæmt 5. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að leggja fyrir vitni að hafa með sér gögn til sýningar fyrir dómi eða athuga bækur sínar, skjöl og aðra muni. Verður því ekki á það fallist að starfsmönnum Þjóðskjalasafns Íslands væri almennt óskylt að verða við kvaðningu þar sem lagt væri fyrir þá að hafa þau skjöl, sem beiðni téðra stefndu lýtur að, meðferðis til að bera um þau vitni.
Eins og málið liggur fyrir telur dómurinn einnig að miða verði við að fyrirhuguð gagnaframlagning Brit Insurance Ltd. o.fl. sé ekki bersýnilega tilgangslaus þannig að 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 eigi við. Kemur því til skoðunar hvort Þjóðskjalasafni Íslands sé skylt að afhenda stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. umbeðin gögn án tillits til málsins eða hvort efni þeirra er slíkt að fulltrúum stofnunarinnar væri skylt að bera vitni um þau við aðalmeðferð málsins, sbr. fyrrgreinda 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991.
Með hliðsjón af skýringum Þjóðskjalasafns Íslands verður að leggja til grundvallar að öll umbeðin gögn séu háð trúnaði, annað hvort samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 Seðlabanka Íslands eða 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Á regla c-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 því við um skjölin. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar getur dómari hins vegar lagt fyrir vitni að svara spurningu ef hagsmunir aðilar eru taldir verulega meiri af því að upplýst sé um atriði samkvæmt stafliðnum en hagsmunir hlutaðeiganda af því að leynd verði haldið. Ef dómari telur óvíst hvort þessum skilyrðum sé fullnægt getur hann lagt fyrir vitni að tjá sér fyrst í trúnaði hvers efnis svar þess yrði.
Við mat á því hvort starfsmönnum stofnunarinnar væri skylt að bera vitni um skjölin með vísan til 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 verður að líta til þeirra nánari hagsmuna sem felast í því að full leynd ríki áfram um skjölin. Af hálfu Þjóðskjalasafns Íslands hefur ekki verið bent á eða leiddar líkur að neinum þeim nánari efnisatriðum sem kunni mögulega að hafa þýðingu um hagsmuni stefnanda, annarra einkaaðila eða þá almennu hagsmuni sem Þjóðskjalasafni Íslands er ætlað að standa vörð um. Þá verður að horfa til þess að ekki er sama ástæða til að veita fjármálafyrirtækjum, sem tekin hafa verið til slita, jafn ríka vernd með tilliti til þagnarskyldu og ella væri ef ekki hefði til þeirra komið, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. nóvember 2014 í máli nr. 683/2014. Eins og aðstæðum er háttað eiga sömu sjónarmið við um stefnanda þótt slitum félagsins hafi verið lokið með nauðsamningi.
Við þessar aðstæður telur dómari að taka verði kröfu stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl. til greina og er ekki ástæða til þess að dómari kanni fyrst efni gagnanna samkvæmt lokaorðum 3. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 69. gr. laga um meðferð einkamála.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Þjóðskjalasafni Íslands er skylt að afhenda stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl eftirgreind skjöl vegna meðferðar málsins fyrir dómi:
1. Minnisblað Seðlabanka Íslands „Background memorandum“, sem var sent erlendum seðlabankastjórum með bréfi, dags. 15. apríl 2008.
2. Minnisblað Fjármálaeftirlits Íslands, dags. 7. september 2009 vegna fundar sem haldinn var 29. mars 2007, málsnúmer 2005040012.
3. Minnisblað Fjármálaeftirlits Íslands frá nóvember 2008 um hvernig Landsbanki tengdi saman áhættur o.fl.
4. CAMELS-mat Fjármálaeftirlits Íslands fyrir Landsbanka Íslands hf., júní 2008.