Hæstiréttur íslands
Mál nr. 686/2008
Lykilorð
- Jafnrétti
- Stöðuveiting
- Stjórnsýsla
|
|
Fimmtudaginn 24. september 2009. |
|
Nr. 686/2008. |
Ingileif S. Kristjánsdóttir (Dögg Pálsdóttir hrl. Guðrún Björk Bjarnadóttir hdl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Jafnrétti. Stöðuveiting. Stjórnsýsla.
I var meðal 14 umsækjenda um stöðu rektors L sem auglýst var laus til umsóknar í júlí 2004. Háskólaráð L veitti umsögn um það hverjir af umsækjendunum uppfylltu skilyrði laga til að gegna stöðu rektors og í kjölfarið voru allir umsækjendur boðaðir til starfsviðtals í landbúnaðarráðuneytinu. Landbúnaðarráðherra skipaði Á í stöðu rektors í ágúst sama ár og óskaði I eftir rökstuðningi ráðuneytisins. Kom þar meðal annars fram að Á hefði haft sterka sýn um framtíð íslensks landbúnaðar og stöðu L innan hans. I sendi kvörtun vegna stöðuveitingarinnar til umboðsmanns Alþingis og vísaði málinu jafnframt til kærunefndar jafnréttismála. I höfðaði síðan mál og krafðist þess að viðurkennt yrði að með ráðningu í stöðu rektors L hefði landbúnaðarráðherra brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá krafðist hún jafnframt viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda gagnvart sér. Byggði L meðal annars á því að vegna menntunar sinnar og starfsreynslu hefði hún verið hæfari til að gegna starfi L en sá sem ráðinn var. Taldi hún að kynjasjónarmið lægju að baki stöðuveitingunni, þar sem ekki hefði verið hægt að útskýra með fullnægjandi hætti hvers vegna gengið hefði verið framhjá henni. Þá taldi hún að ef ekki yrði fallist á að hún hefði verið hæfari en sá sem ráðinn var yrði að miða við að hún hefði að minnsta kosti verið jafnhæf viðkomandi aðila og því hefði borið að skipa hana sem konu í stöðuna vegna þess lága hlutfalls kvenna sem væru í stjórnunarstöðum á vegum ráðuneytisins. Var talið að þegar litið væri til þeirra gagna sem fyrir lægju í málinu um störf og stjórnunarreynslu I og Á yrði að telja að samanburður á milli þeirra væri I óhagstæður. Þá lá fyrir að frammistaða Á í starfsviðtali hefði verið mun betri en I. Þótt starfsviðtölin hefðu haft verulegt vægi við mat á hæfni umsækjenda og þeirra hefði ekki verið getið sérstaklega í auglýsingu um stöðu rektors yrði ekki á það fallist að leiða mætti líkur að því að forsendur ráðherra við ráðninguna væru byggðar á ómálefnalegum ástæðum. Þá var ekki talið að sá annmarki, að þess hefði ekki verið gætt að skrá meginatriðin í svörum umsækjenda í starfsviðtali, hefði skipt máli varðandi skipun ráðherra í embættið. Var fallist á það með Í að Á hefði verið hæfari til að gegna starfinu en I og ekki hefðu verið leiddar líkur að því að um mismunun vegna kynferðis hefði verið að ræða. Var kröfum I hafnað. Staðfesti Hæstiréttur héraðsdóm með vísan til forsendna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. desember 2008. Hún krefst þess að viðurkennt verði að með ráðningu í stöðu rektors Landbúnaðarháskóla Íslands 26. ágúst 2004 hafi landbúnaðarráðherra brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá krefst áfrýjandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda gagnvart sér. Hún krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ingileifi Steinunni Kristjánsdóttur, Friðarstöðum, Hveragerði, gegn landbúnaðarráðherra f.h. ríkissjóðs með stefnu birtri 23. október 2006.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að með ráðningu í stöðu rektors Landbúnaðarháskóla Íslands þann 26. ágúst 2004, hafi landbúnaðarráðherra brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Jafnframt er gerð krafa um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Málsatvik
Atvik málsins eru þau að staða rektors Landbúnaðarháskóla Íslands var auglýst laus til umsóknar í Morgunblaðinu 11. júní 2004 og bárust ráðuneytinu 14 umsóknir. Umsækjendur um stöðuna voru tíu karlar og fjórar konur. Í auglýsingunni kom m.a. fram:
Rektor er yfirmaður stjórnsýslu Landbúnaðarháskólans og ber ábyrgð á rekstri hans. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Rektor er jafnframt æðsti fulltrúi Landbúnaðarháskólans gagnvart mönnum og stofnunum innan skólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans. Rektor hefur einnig ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans.
Um hæfisskilyrði var þess getið að umsækjendur skyldu hafa lokið æðri prófgráðu við háskóla og öðlast stjórnunarreynslu.
Stefnandi var meðal umsækjenda um starfið. Stefnandi hefur B.Sc. próf í líffræði, M.Sc. gráðu í jurtaerfðafræði og fjölda diploma úr námi á sviði landsbúnaðar. Þá vann stefnandi við rannsóknir á Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins og á Líffræðistofnun Háskóla Íslands og sem fagdeildarstjóri á umhverfisbraut við Garðyrkjuskóla ríkisins. Stefnandi hefur kennsluréttindi bæði við grunnskóla og framhaldskóla og er nú í stöðu kennara. Þá er stefnandi með doktorspróf í landbúnaðarvísindum og hefur unnið fjölda ritverka á sviði landbúnaðar.
Umsækjendur um stöðuna voru alls 14, þar af 10 karlar og 4 konur.
Með bréfi, dags. 7. júlí 2004, óskaði landbúnaðarráðuneytið eftir því að háskólaráð Landbúnaðarháskóla Íslands veitti umsögn um það hverjir af umsækjendunum uppfylltu skilyrði laga til að gegna stöðu rektors, í samræmi við ákvæði 25. gr. laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Í umsögn sinni frá 5. ágúst 2004 taldi háskólaráð að allir umsækjendur uppfylltu lágmarksskilyrði um menntun og reynslu, samanber ákvæði laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Þá kom einnig fram í umsögn ráðsins álit þess á nauðsynlegum bakgrunni, reynslu og menntun tilvonandi rektors og að skýr framtíðarsýn væntanlegs rektors skipti höfuðmáli að mati háskólaráðsins, sem og að mikilvægt væri að sá einstaklingur sem skipaður yrði hefði haldgóða reynslu af stjórnun starfsfólks og/eða rannsókna- og þróunarverkefna og samþættingu ólíkra sjónarmiða. Í kjölfar þessa voru allir umsækjendur boðaðir til starfsviðtals í landbúnaðarráðuneytinu og fóru þau fram á tímabilinu frá 10. júlí til 11. ágúst 2004. Þar var umsækjendum gefið færi á að kynna sig og viðhorf sín til starfsins.
Í starfsviðtölunum var lögð sérstök áhersla á að draga upp skýra mynd af framtíðarsýn umsækjenda fyrir íslenskan landbúnað, hvernig þeir teldu að Landbúnaðarháskóli Íslands gæti best þjónað íslenskum landbúnaði og hvernig þeir hygðust standa að samþættingu og samruna þeirra þriggja stofnana sem mynda Landbúnaðarháskóla Íslands.
Landbúnaðarráðherra skipaði dr. Ágúst Sigurðsson í stöðu rektors Landsbúnaðarháskólans 26. ágúst 2004. Stefnandi óskaði eftir rökstuðningi ráðuneytisins fyrir skipuninni. Rökstuðningur ráðuneytisins barst í bréfi dags. 14. september 2004 þar sem aðallega var tiltekið að það hefði verið mat ráðherra að ,,hjá Ágústi hefði komið fram sterk sýn um framtíð íslensks landbúnaðar og stöðu Landbúnaðarháskóla Íslands innan hans.” Af hálfu ráðuneytisins var því einnig haldið fram að Ágúst hefði með hliðsjón af frammistöðu í starfsviðtölum og m.t.t. fjölþættrar reynslu hans innan landbúnaðarins, að hann hefði verið best til þess fallinn að stýra því vandasama verkefni að leiða sameiningu hinna þriggja stofnana til farsælla lykta.
Með bréfi, dags. 17. september 2004, sendi stefnandi kvörtun vegna stöðuveitingar ráðherra til umboðsmanns Alþingis og þá sérstaklega vegna vinnubragða ráðherra við ráðningu rektors. Álit umboðsmanns Alþingis lá fyrir 30. maí 2005. Í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis var m.a. tiltekið að ráðuneytið hefði ekki fylgt nægjanlega ákvæðum 23. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá var talið að ráðherra og ráðuneyti hans hefði ekki fært fram nægar upplýsingar til staðfestingar á því að svör umsækjenda við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir þá hefðu upplýst nægilega um þau atriði sem ætlunin var að byggja á við ákvörðunartöku í málinu.
Stefnandi vísaði máli þessu til kærunefndar jafnréttismála 12. september 2005 og óskaði eftir því að nefndin kannaði og tæki afstöðu til hvort landbúnaðarráðherra hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000 við skipun í stöðu rektors við Landbúnaðarháskóla Íslands þann 26. ágúst 2004. Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 2. mars 2006 var samþykkt af meirihluta nefndarinnar sú niðurstaða að ekki væru efni til að líta svo á að landbúnaðarráðherra hefði brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga við skipun í stöðu rektors. Í séráliti Björns L. Bergsonar, sem myndaði minnihluta kærunefndar í málinu, var komist að þeirri niðurstöðu að landbúnaðarráðherra hefði brotið gegn 1. mgr. 24. gr. jafnréttislaga. Byggðist sératkvæðið á því aðallega að ekki lægju fyrir neinar upplýsingar um þau huglægu matsatriði sem ráðuneytið hefði aðallega byggt á, þrátt fyrir að eftir upplýsingunum hafi verið leitað af hálfu kærunefndar jafnréttismála.
Stefnandi telur að landbúnaðarráðherra hafi með ótvíræðum hætti vikið frá ákvæðum jafnréttislaga við skipun í embætti rektors landbúnaðarháskólans. Af hálfu stefnda er þessum fullyrðingum mótmælt og á því byggt að við skipun í stöðu rektors við Landbúnaðarháskóla Íslands hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000.
Stefnandi hefur höfðað mál þetta til viðurkenningar á að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, með ráðningu í stöðu rektors Landbúnaðarháskóla Íslands.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefndi hafi við ráðningu í stöðu rektors brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga og hún eigi því rétt á að fá dóm um viðurkenningu á því í samræmi við stefnukröfur.
Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að vegna menntunar sinnar og starfsreynslu hafi hún verið hæfari til að gegna starfi rektors Landbúnaðarháskólans en sá sem ráðinn var. Stefnandi telur að stefndi hafi ekki getað rökstutt það með fullnægjandi hætti hvers vegna gengið hafi verið fram hjá henni við stöðuveitinguna og því megi gera ráð fyrir að þar liggi kynjasjónarmið að baki.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því ef ekki verði fallist á að hún hafi verið hæfari en sá sem ráðinn var, þá verði a.m.k. að miða við að stefnandi hafi verið jafnhæf viðkomandi aðila og þá hafi stefnda borið að skipa hana sem konu í stöðuna vegna þess lága hlutfalls kvenna sem er í stjórnunarstöðum á vegum ráðuneytisins og hjá undirstofnunum þess. Vísar stefnandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 sé atvinnurekanda óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Auk þess segi í 3. mgr. sömu greinar að ef leiddar séu líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu, setningu eða skipun í starf skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Stefnandi telur að stefnda hafi hvorki tekist að sýna fram á að sá umsækjandi sem varð fyrir valinu hafi verið hæfari eða heppilegri en aðrir, né að aðrar ástæður en kynferði hafi legið að baki þeirri ákvörðun ráðherrans að ganga fram hjá stefnanda við stöðuveitinguna. Stefnandi bendir á að stefndi hafi leyft sér að vísa til sjónarmiða um ráðninguna um framtíðarsýn, sem hann geti ekki stutt neinum gögnum, þar sem ekkert hafi verið ritað niður í viðtölum við umsækjendur. Stefndi hafi því byggt ákvörðun sína aðallega á sjónarmiðum sem engin leið sé að meta með hlutlausum hætti þar sem engum gögnum hafi verið til að dreifa.
Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að frelsi atvinnurekanda séu settar skorður með ákvæðum jafnréttislaga þegar kona og karl sækja um sama starfið þar sem atvinnurekendur beri þá lögbundnu skyldu að jafna kynjahlutföll á sínum vinnustað. Beri þeim því ekki aðeins að fylgja þeirri lagareglu efnislega, heldur einnig að tryggja það að þeir hafi gögn til að sýna fram á að svo hafi verið. Stefnandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. jafnréttislaga sé atvinnurekanda óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Til að atvinnurekandi geti sýnt fram á að það hafi hann ekki gert við stöðuveitingu verði hann að hafa skýr og ótvíræð gögn undir höndum sem sýni að mat hans hafi byggst á málefnalegum ástæðum. Stefndi hafi ekki haldið neinum slíkum gögnum til haga og geti hann þar af leiðandi ekki sýnt fram á að hann hafi ekki látið kynferði umsækjenda stjórna ákvörðun sinni og ætti því allur vafi um það atriði að reiknast stefnda í óhag. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til 3. mgr. sömu greinar þar sem sett sé fram sú sönnunarregla, í samræmi við ólögfestar reglur um sönnun í einkamálum fyrir íslenskum dómstólum, að séu leiddar líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu í starf skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á að markmið jafnréttislaganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins. Þannig sé sú skylda lögð á atvinnurekendur að jafna hlut kynjanna á vinnustöðum og þurfi þeir því ávallt að líta til fjölda karla og kvenna í stöðum á sínum vegum, þegar taka skuli ákvörðun um ráðningu. Stefnandi byggir á því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis þegar ráðið var í stöðuna. Hún hafi ekki aðeins verið hæfasti umsækjandinn af þeim sem sóttu um, heldur hafi stefnda borið að ráða konu í stöðuna þar sem engar konur gegndu æðstu stjórnunarstöðum í ráðuneytinu eða í stofnunum á vegum þess. Telur stefnandi að stefndi hafi brotið gegn ákvæði laga nr. 96/2000 með því að ganga fram hjá sér við ráðninguna og beri hann sönnunarbyrðina um að svo hafi ekki verið. Til stuðnings þessu vísar stefnandi til þess að það sé meginregla að ef leiddar séu líkur að beinni eða óbeinni mismunun við ráðningu í starf, þá skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Það hafi stefndi ekki gert í máli þessu. Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi áður fengið áminningu frá umboðsmanni Alþingis um að vanda betur málsmeðferð við skipun í stöður á vegum ráðuneytisins, svo sem fram hafi komið í áliti hans í máli 2641/1999. Í niðurstöðum umboðsmanns í því máli hafi sérstaklega verið brýnt fyrir stefnda að gæta þess að fyrir liggi fullnægjandi upplýsingar um starfshæfni umsækjenda áður en ákvörðun sé tekin um skipun í embætti og að ráðningarferlið væri gegnsærra. Umboðsmaður hafi beint þeim tilmælum til ráðuneytisins að í framtíðinni tæki það mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu við ákvarðanir um veitingu opinberra starfa. Af hálfu stefnanda sé vegna þessa byggt á því að vanda hefði átt enn frekar starfshætti og rökstuðning við meðferð hennar umsóknar, enda hafi ráðning rektors verið gerð um fimm árum eftir þetta álit umboðsmanns.
Í fimmta lagi reisir stefnandi kröfur sínar á því að í auglýsingunni um stöðu rektors hafi komið fram þau atriði, sem fyrst og fremst hafi átt að liggja til grundvallar væntanlegri ráðningu í stöðuna. Í umsókn stefnanda hafi ítarlega verið gerð grein fyrir þessum atriðum og hvernig stefnandi félli þar með að þeim kröfum sem gerðar voru vegna starfsins. Stefnanda hafi aftur á móti aldrei verið gefinn kostur á að lýsa sérstaklega framtíðarsýn sinni gagnvart íslenskum landbúnaði, enda hafi henni aldrei verið kynnt að það væri aðalatriðið við stöðuveitinguna, svo sem síðar hafi verið lagt upp með af hálfu ráðuneytisins. Það, að stefndi hafi breytt áherslum sínum gagnvart stöðunni efir á, miðað við samanburð þeirra atriða sem fram komu í auglýsingunni og síðan rökstuðningi ráðuneytisins eftir á, þá megi leiða líkur að því að forsendur hans við ráðninguna hafi verið byggðar á ómálefnalegum ástæðum.
Í sjötta lagi byggir stefnandi á því að þar sem hún hafi verið betur menntuð og með meiri viðkomandi starfsreynslu en sá sem hafi verið ráðinn, þá hafi hún átt að fá starfið, þar sem óheimilt sé að mismuna umsækjendum á grundvelli kynferðis. Hvíli sú skylda á stefnda að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ráðningunni. Í þessari skyldu felist að stefndi skuli á hlutrænan og málefnalegan hátt gera grein fyrir því hvaða aðrar ástæður hafi legið að baki ráðningunni og það hafi stefnda ekki tekist, hvorki í málsmeðferð umboðsmanns Alþingis né fyrir kærunefnd jafnréttismála.
Að öllu framangreindu athuguðu kveður stefnandi liggja fyrir að stefndi hafi við ráðningu í stöðu rektors brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 96/2000 og hún eigi því rétt á að fá dóm um viðurkenningu á því í samræmi við stefnukröfur.
Að því er varðar kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna málsins þá er vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins. Stefndi hafi valdið stefnanda bótaskyldu tjóni með því að ganga framhjá henni við veitingu embættisins og eigi hún því lögvarða kröfu um að fá viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna málsins. Vísar stefnandi til þess að hún hafi orðið fyrir tjóni við þessa málsmeðferð stefnda sem nemi þeim tekjum sem hún hefði ella fengið, hefði hún verið skipuð í stöðu rektors Landbúnaðarháskólans og verði bótakrafa stefnanda sett fram tölulega eftir að fyrir liggi niðurstaða dómsins um stefnukröfur í máli þessu.
Kröfu um málflutningsþóknun styður stefnandi við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er mótmælt staðhæfingum í stefnu um að í áliti umboðsmanns Alþingis frá 30 maí 2005 hafi að mestu leyti verið fallist á málsástæður stefnanda og þá sérstaklega vegna vinnubragða ráðherra við ráðningu rektors.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að við skipun í stöðu rektors við Landbúnaðarháskóla Íslands hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2002, hvorki gagnvart stefnanda né öðrum. Þá mótmælir stefndi því einnig að skilyrði séu til að viðurkenna bótaskyldu.
Stefndi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um búnaðarfræðslu nr. 57/1999 skipi landbúnaðarráðherra rektor Landbúnaðarháskóla Íslands til fimm ára að fenginni umsögn háskólaráðs um hæfi umsækjenda. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laganna megi skipa þann í stöðu rektors, sem lokið hafi æðri prófgráðu við háskóla og öðlast hafi stjórnunarreynslu.
Stefndi vísar til þess að hinn 7. júlí 2004 hafi ráðuneytið ritað háskólaráði bréf þar sem farið hafi verið fram á að ráðið veitti umsögn sína um hverjir umsækjenda um stöðu rektors uppfylltu skilyrði laga til að gegna stöðunni. Í umsögn háskólaráðs dags. 5. ágúst 2004, hafi verið talið að hugtakið ,,æðri prófgráða við háskóla” merkti mastersgráðu eða ígildi hennar. Því næst hafi verið tekið til umfjöllunar að hvorki búnaðarfræðslulög né lögskýringargögn hafi gefið leiðbeiningar um hvað fælist í hugtakinu ,,stjórnunarreynsla”. Háskólaráð hafi talið að hugtakið stjórnunarreynslu bæri að skýra rúmt og undir það gæti fallið ýmiss konar stjórnun. Það hafi verið mat ráðsins að hér kæmi til skoðunar meðal annars stjórnun starfsfólks, rekstrareininga ýmiss konar eða akademískra verkefna. Í umsögn háskólaráðs hafi verið talið að allir 14 umsækjendur um stöðuna uppfylltu lágmarks hæfisskilyrði 25. gr. búnaðarfræðslulaga.
Í umsögn háskólaráðs hafi komið fram að ráðið teldi mikilvægt að ráðherra fengi álit þess á nauðsynlegum bakgrunni, reynslu og menntun þess manns sem skipaður yrði rektor. Tekið var fram að þetta álit ráðsins væri almennt, en miðaðist við hlutverk Landbúnaðarháskóla Íslands sem vísindalegrar fræðslu- og rannsóknarstofnunar á sviði landbúnaðar, sem eiga mundi samstarf við innlendar og erlendar mennta- og rannsóknarstofnanir. Yrði að taka mið af því að Landbúnaðarháskólinn væri vinnustaður með mikla vaxtarmöguleika á ýmsum sviðum. Háskólaráð hafi því talið æskilegt að nýr rektor hefði doktorsgráðu eða sambærilegt fræðastarf að baki, hefði starfað sem fræðimaður og náð árangri á því sviði. Jafnframt hafi verið talið æskilegt að rektor hefði innsýn í starf háskóla og landbúnað. Reynsla af alþjóðlegum samskiptum á sviði vísinda væri einnig mikilvæg. Í umsögninni hafi loks verið bent á að Landbúnaðarháskólinn væri byggður á grunni þriggja stofnana og miklu muni ráða um árangur háskólans hvernig takist til með samruna og samstarf þessara þriggja heilda. Síðan segir: ,,Þar skiptir skýr framtíðarsýn höfuðmáli. Þá er einnig mikilvægt að sá einstaklingur sem skipaður verður hafi haldgóða reynslu af stjórnun starfsfólks og/eða rannsóknarverkefna og samþættingu ólíkra sjónarmiða.”
Stefndi telur að vandlega hafi verið farið yfir starfsumsóknir áður en umsækjendur voru boðaðir í viðtal. Í viðtölunum hafi verið lögð áhersla á að draga upp skýra mynd af framtíðarsýn umsækjenda fyrir íslenskan landbúnað, hvernig þeir teldu að Landbúnaðarháskóli Íslands gæti best þjónað íslenskum landbúnaði og hvernig þeir hygðust standa að samruna þeirra þriggja stofnana sem mynda Landbúnaðarháskóla Íslands. Ekki hafi verið leitað eftir upplýsingum frá meðmælendum.
Stefndi byggir á því að ráðherra hafi skipað dr. Ágúst Sigurðsson á grundvelli þess að hann hafi með réttu verið talinn hæfastur umsækjenda þegar lagt var til grundvallar mat á skriflegum umsóknargögnum og þeim viðhorfum sem fram komu í viðtölum við umsækjendur. Telur stefndi rétt að gera grein fyrir því svo sem einnig hafi verið gert í umsögn ráðuneytisins.
Stefndi bendir á að Ágúst hafi mjög víðtæka þekkingu á landbúnaði vegna menntunar og fyrri starfa. Hann sé búfræðikandídat frá Bændaskólanum á Hvanneyri. Hann hafi lokið doktorsprófi í búfjárerfðafræði frá Sænska landbúnaðarháskólanum (SLU) árið 1996 og hlotið af því tilefni viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í doktorsnámi frá Konunglegu sænsku Akademíunni. Eftir Ágúst liggi fjölmargar fræðigreinar er einkum varða erfðafræði búfjár. Árin 1989-1990 hafi Ágúst stýrt bókhaldsþjónustu fyrir bændur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Hann hafi haft yfirumsjón með því að byggja upp og þróa þessa þjónustu og stjórna litlum hópi starfsfólks við innslátt og úrvinnslu gagna (2 til 4 manns). Samhliða doktorsnámi sínu hafi Ágúst starfað hjá Interbull Center við SLU í Svíþjóð 1991-1996 og verið í hlutastarfi 1997-1998. Interbull Center sé samvinnuverkefni 42 þjóða um rannsókna og þróunarmiðstöð á sviði kynbótamats í nautgriparækt. Hann hafi unnið þar að því að byggja upp frá grunni fjölþjóðlegt kynbótamat fyrir nautgripi þar sem borin voru saman erfðaleg gæði þeirra á heimsvísu. Hann hafi stjórnað þeim hluta verksins sem laut að reikniaðferðum og hafi lagt grunninn að þjónustu þeirri sem sé kjarni starfsemi Interbull Center í dag.
Frá árinu 1996 hafi Ágúst starfað sem ráðunautur í erfða- og kynbótafræði hjá Bændasamtökum Íslands. Hann hafi byggt þar meðal annars upp núverandi kynbótamatskerfi í nautgriparækt, sauðfjárrækt og hrossarækt. Að því verki hafi komið margir sérfræðingar en Ágúst hafi haft yfirumsjón með verkinu. Ágúst hafi verið landsráðunautur í hrossarækt frá 1999. Það starf sé í eðli sínu framkvæmdastjórastarf yfir íslenska hrossarækt og feli í sér margþætt og stöðug samskipti við mikinn fjölda fólks innanlands sem erlendis við stjórnun á öllu faglegu starfi hrossaræktarinnar. Á árunum 1999-2000 hafi Ágúst stjórnað viðamikilli vinnu við að skilgreina ræktunarmarkmið fyrir íslenska hrossastofninn, þessi vinna hafi farið fram í vinnuhópum bæði hér á landi og erlendis og verið með stærri umræðu- og hugmyndafundum með þátttöku u.þ.b. 1200 manns. Í þessu starfi hafi Ágúst stjórnað og haft yfirumsjón með reglubundinni söfnun skýrsluhaldsupplýsinga um íslensk hross. Þessi vinna hafi farið fram hjá Bændasamtökum Íslands og búnaðarsamböndum úti um land og alls komið við sögu 6-8 starfsmenn. Hann hafi einnig stjórnað 15 manna hóp atvinnu kynbótadómara á öllum hestasýningum á þessu árabili bæði innanlands og erlendis, auk þess ritstýrði hann útgáfu á ritverkum hrossaræktarinnar hjá Bændasamtökum Íslands. Ágúst stýrði kynbótaþætti landsmóta hestamanna árin 2000-2004 og sat í framkvæmdaráði mótanna. Þar stjórnaði hann hópi 10-12 manna, en þessi mót eiga sér langan aðdraganda og eru stór að vöxtum, u.þ.b. 750 hross, 250 knapar og 14.000 gestir. Ágúst hefur einnig stýrt fjölmörgum vinnuhópum á þessu tímabili vegna margvíslegra afmarkaðra verkefna á sviði hrossaræktarinnar. Hann hafði yfirumsjón með Stofnverndarsjóði hrossaræktarinnar sem er rannsókna- og þróunarsjóður með u.þ.b. 55 millj. kr. höfuðstól.
Ágúst hafi stýrt stórum rannsóknar- og þróunarverkefnum samhliða öðrum störfum. Hann hafi verið verkefnisstjóri við uppbyggingu kynbótamats í sauðfjárrækt árin 1996-1998 og unnið við að leggja grunn að nýjum vinnubrögðum við kynbótamat í sauðfjárrækt samkvæmt BLUP animal model. Verkefnið hafi verið kostað að hluta af Bændasamtökum Íslands en hann hafi fengið u.þ.b. 4 milljóna króna rannsóknastyrk úr Tæknisjóði Rannís. Þá hafi Ágúst stjórnað átaksverkefni í hrossarækt frá upphafi til enda árin 2000-2004, verið formaður stjórnar og haft yfirumsjón með öllum verkþáttum en að verkefninu hafi staðið öll opinber samtök hestamanna. Verkefnið hafi haft einn fastan starfsmann í tvö ár. Verkefnið hafi hrundið af stað mörgum mikilvægum framfaramálum, m.a. WorldFengur, rafræn upprunaættbók íslenska hestakynsins, Knapamerkjakerfið og Landsmót hestamanna ehf. Verkefnið hafi haft samkvæmt sérstökum samningi við ríkisstjórn alls 75 milljónir króna úr að spila.
Ágúst hafi á árunum 2000 til 2001 stýrt samanburðarrannsókn á íslenskum og norskum (NRF) kúm og hálfblendingum þessara stofna. Þar hafi hann stjórnað 12 manna hópi sérfræðinga við greiningu áhersluþátta og mótun framkvæmdaáætlunar. Hann hafi stjórnað átaksverkefni í nautgriparækt frá árinu 2001 (til 2005) og stýrt 9 manna hópi sérfræðinga við stefnumörkun og gerð framkvæmdaáætlunar verkefna sem lútu að hámarksnýtingu, endingu og velferð íslensku kýrinnar við íslenskar aðstæður. Verkefnið hafi haft til umráða alls 35 milljónir króna.
Árið 2000 hafi Ágúst unnið í starfshóp á vegum landbúnaðarráðuneytis við skipulagningu og gerð kostnaðaráætlana fyrir rannsóknarferli til lausnar á vandamálum sem sumarexem í útfluttum hrossum skapar. Hann hafi síðan verið skipaður formaður verkefnisstjórnar í rannsóknaátaki á sumarexemi sem unnið sé í samvinnu vísindamanna á Keldum, í Bern í Sviss. Rannsóknaverkefnið hafi m.a. fengið einn stærsta einstaka rannsóknastyrk sem veittur hefur verið úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins, alls 40 milljónir króna.
Þá hafi Ágúst kennt við Bændaskólann á Hvanneyri auk þess að hafa leiðbeint fjölmörgum nemendum við skrif B.Sc. og M.Sc. ritgerða á sínu fræðasviði.
Stefndi bendir einnig á að Ágúst hafi setið í sveitarstjórn Rangárvallahrepps 1998 til 2002 og verið formaður yfirkjörstjórnar Rangárþings eystra 2002-2004. Þá hafi Ágúst ásamt fjölskyldu sinni rekið lítið fjölskyldufyrirtæki, Kirkjubæjarbúið sf., meðfram námi og annarri vinnu. Þetta sé gamalgróið hrossaræktarbú með 130 hross. Hafi hann haft yfirumsjón með rekstrinum síðastliðin 15 ár.
Stefndi vísar til þess að við skipun Ágústs hafi meðal annars verið lagt til grundvallar að Ágúst hafi haft einkar sterka sýn á framtíð íslensks landbúnaðar og stöðu Landbúnaðarháskóla Íslands innan hans og hann hafi sýnt einlægan áhuga og haft metnaðarfullar hugmyndir um starfsemi háskólans. Hafi því verið talið að Ágúst væri best til þess fallinn að stýra því vandasama verkefni að leiða til farsælla lykta sameiningu hinna þriggja stofnana sem mynduðu háskólann. Hafi í því sambandi verið horft til farsællar reynslu af störfum Ágústs innan landbúnaðarins en hann hafi að mati stefnda sýnt mikla færni í að laða fólk til samstarfs og sætta ólík sjónarmið.
Við veitingu embættisins hafi verið talið að Ágúst hefði í starfsviðtölum gert grein fyrir stjórnunaraðferðum sem líklegar væru til árangurs við þær erfiðu aðstæður sem sameining stofnana óneitanlega hafi skapað yfirstjórnanda Landbúnaðarháskóla Íslands.
Stefndi vísar til þess að stefnandi byggi aðallega á því að hún hafi verið hæfari til að gegna starfi rektors en Ágúst Sigurðsson, en til vara jafnhæfa honum. Sé málatilbúnaður hennar reistur á því að þess vegna hafi ráðherra borið að skipa hana í stöðu rektors vegna lágs hlutfalls kvenna í stjórnunarstöðum í ráðuneytinu og undirstofnunum þess. Stefndi hafnar þessu og byggir í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki verið jafnhæf Ágústi Sigurðssyni; hann hafi verið hæfari.
Stefndi bendir á að bæði stefnandi og Ágúst hafa lokið æðstu prófgráðu, doktorsprófi. Fræðileg störf Ágústs séu þó til muna merkari að mati stefnda. Stefnandi hafi lítt sinnt fræðistörfum síðastliðin ár og frá árinu 1990 einungis skrifað tvær stuttar fræðigreinar í Skógræktarritið eftir því sem best er vitað. Á sama tíma hafi Ágúst birt á þriðja tug fræðigreina í erlendum ritum eins og rakið sé í framlagðri umsókn hans.
Starfsreynsla Ágústs sé einnig fjölbreyttari en stefnanda. Stefnandi kveðst hafa unnið við rannsóknir á Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, Rannsóknarstofnun Skógræktar ríkisins og Líffræðistofnun Háskóla Íslands. Hér verði að taka fram að á Rannsóknarstofnun landbúnaðarins hafi stefnandi einungis unnið tímabundið sem nemi á árunum 1979 og 1980, en hún tekið B.A. próf í líffræði árið 1980. Skömmu eftir að hún hafi tekið doktorspróf hafi hún gegnt störfum hjá Skógrækt ríkisins og Háskóla Íslands en einungis til skamms tíma á hvorum stað og að verulegu leyti undir handleiðslu eða yfirstjórn annarra starfsmanna. Stefnandi kveðst hafa gegnt stöðu ,,fagdeildarstjóra á umhverfisbraut” við Garðyrkjuskólann á Reykjum frá árinu 1996 til júlí 2000. Sá skóli hafi verið fámennur starfsmenntaskóli á þessum tíma. Í starfi hennar við skólann hafi ekki falist mannaforráð og afar takmörkuð stjórnunarreynsla. Einkum virðist starf hennar hafa falist í kennslu fámennra nemendahópa og námsskrárgerð, eins og ráða megi úr ársskýrslu skólans fyrir árið 2000.
Stefndi byggir einnig á því að við ákvörðun um skipun rektors hafi meðal annars verið lögð til grundvallar frammistaða umsækjenda í starfsviðtali. Frammistaða stefnanda hafi leitt til þess að talið hafi verið að hún væri alls ekki jafnhæf Ágústi. Það hafi verið mat stefnda að afloknu starfsviðtali við stefnanda, að ekki væri ástæða til að grennslast frekar fyrir um menntun hennar og starfsreynslu. Þetta hafi verið byggt á því að þrátt fyrir þá kosti sem stefnandi virtist hafa til að bera á sviði vísinda- og fræðastarfa þá hafi frammistaða hennar í starfsviðtali verið slök. Framkoma hennar og tilsvör hafi ekki borið þess merki að hún væri einstaklingur sem hefði yfir þeim styrk, metnaði, þekkingu eða stjórnunarhæfni að ráða sem telja yrði nauðsynlegt að rektor Landbúnaðarháskóla Íslands hefði til að bera. Hér má nefna að hún kvaðst helst ekki vilja halda fundi og kvartaði raunar yfir að spurningar sem að henni beindust væru erfiðar.
Samkvæmt öllu framangreindu byggir stefndi á því að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 96/2000 (jafnstöðulögum) þegar dr. Ágúst Sigurðsson var skipaður rektor. Eðli málsins samkvæmt verður ein staða ekki veitt öllum hæfum umsækjendum, heldur verður að velja einn. Þar ræður mat og samanburður á hæfni þeirra á grundvelli þeirra sjónarmiða sem lögð er áhersla á við ráðninguna.
Stefndi bendir á að í umsögn stefnda komi fram að talið var mikilvægt að rektor Landbúnaðarháskóla Íslands hefði yfirgripsmikla þekkingu á íslenskum landbúnaði. Skýr framtíðarsýn, farsæl stjórnun og næmur skilningur á mannlegum samskiptum væru höfuðatriði í þessu samhengi. Það hafi líka verið í samræmi við umsögn háskólaráðs að leggja mikla áherslu á þau atriði.
Mat á hæfni umsækjenda hafi verið byggt á umsóknargögnum, sem einkum vörðuðu menntun og starfsreynslu en einnig hafi verulegt tillit verið tekið til frammistöðu umsækjenda í viðtölum við starfsmenn ráðuneytisins sem tekin hafi verið á tímabilinu 10. júlí til 11. ágúst 2004. Um þá þætti sem sérstök áhersla hafi verið lögð á í viðtölunum hafði ekki verið vikið sérstaklega að í umsóknum og því hafi alfarið verið horft til þess sem umsækjendur höfðu fram að færa í starfsviðtölunum sjálfum.
Stefndi bendir á að í viðtölunum hafi umsækjendur verið beðnir um að varpa ljósi á menntun sína og fyrri störf, svo og viðhorf sín almennt til landbúnaðar. Þá hafi umsækjendur verið beðnir um að svara því hver væri framtíðarsýn þeirra fyrir íslenskan landbúnað, hvernig þeir teldu að Landbúnaðarháskóli Íslands gæti best þjónað íslenskum landbúnaði og hvernig þeir hygðust standa að samþættingu og samruna þeirra þriggja stofnana sem runnu inn í Landbúnaðarháskóla Íslands. Öll viðtölin hafi verið svipuð að lengd, u.þ.b. ein klukkustund.
Stefndi vísar til þess að stefnandi telji að þar sem hún hafi verið betur menntuð og með meiri „viðkomandi“ starfsreynslu en sá sem var ráðinn, þá hafi hún átt að fá starfið þar sem óheimilt sé að mismuna á grundvelli kynferðis. Samkvæmt þessu virðist stefnandi telja fullnægjandi að fullyrða að menntun og starfsreynsla hennar og þess sem ráðinn var í stöðuna hafi verið sambærileg og þá hvíli á stefnda sú skylda, samkvæmt 3. mgr. 24. gr. jafnstöðulaga, að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar skipuninni. Í þessari skyldu telur stefnandi að felist ,,að stefnd[i] skuli á hlutrænan og málefnalegan hátt” gera grein fyrir því hvaða aðrar ástæður hafi legið að baki skipuninni. Stefnandi vísar til þess að í auglýsingu um stöðu rektors frá 11. júní 2004 hafi komið fram þau atriði sem fyrst og fremst hafi átt að liggja til grundvallar væntanlegri skipun í stöðu rektors. Í umsókn stefnanda hafi verið leitast við að svara þeim atriðum sem þar hafi verið tilgreind og stefnanda hafi aldrei verið gefinn kostur á að lýsa sérstaklega framtíðarsýn sinni gagnvart íslenskum landbúnaði. Stefnandi telji að ráðuneytið hafi ,,breytt áherslum sínum gagnvart stöðunni eftir á” og það leiði líkur að því að ómálefnaleg sjónarmið hafi verið meðal forsendna við skipunina. Stefnandi virðist telja að þetta styrki þá röksemd að líkur séu til þess að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðuninni.
Stefndi hafnar þessum málsástæðum stefnanda. Stefndi bendir á að í auglýsingunni hafi komið fram að umsækjendur skyldu hafa æðri prófgráðu frá háskóla og stjórnunarreynslu. Einnig hafi verið greint frá því að Landbúnaðarháskólinn yrði til við samruna þriggja eininga og hver meginviðfangsefni skólans væru. Með þessu hafi verið brugðið ljósi á sérstætt eðli stöðu rektors og gefið til kynna að við mat á hæfni umsækjenda gæti það haft töluvert vægi hvaða framtíðarsýn og hugmyndir umsækjendur hefðu um íslenskan landbúnað og starfsemi Landbúnaðarháskólans. Þannig hafi málsmeðferð stefnda einnig verið í samræmi við það sem háskólaráð hafi lagt upp með og málefnalegt var að gefa sérstakan gaum. Með þetta í huga hafi sömu spurningum verið beint að stefnanda og öðrum umsækjendum og verði því að hafna þeirri fullyrðingu að stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að lýsa framtíðarsýn sinni. Stefndi byggir á því að mat sem lagt hafi verið á frammistöðu umsækjenda í starfsviðtölum hafi verið bæði lögmætt og eðlilegt við skipun í stöðuna. Því sé mótmælt að um eftirfarandi breytingar á forsendum fyrir skipuninni hafi verið að ræða. Þvert á móti sé alkunna að algengt sé að hæfir umsækjendur um störf séu boðaðir í starfsviðtal svo vinnuveitandi geti lagt frekara mat á hæfni þeirra með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem hann leggur áherslu á við skipan í starfið.
Stefndi byggir á því að það hafi verið á hans valdi, að því leyti sem ekki hafi verið sérstaklega kveðið á um í lögum, á hvaða málefnalegum sjónarmiðum ætti að byggja við val á milli umsækjenda um nefnda stöðu. Þannig hafi það átt undir mat stefnda á hvaða sjónarmiðum skyldi byggt, og á hvaða sjónarmið skyldi lögð áhersla, þegar afstaða var tekin til þess hver skyldi ráðinn í stöðuna. Þetta eigi sér stuðning í áliti umboðsmanns Alþingis sem stefnandi hafi lagt fram. Umsækjendur hafi verið metnir á grundvelli hliðstæðra forsendna og stefnda hafi verið heimilt að ljá tilteknum atriðum aukið vægi við mat á starfshæfni.
Stefndi leggur áherslu á að stefnandi hafi ekki leitt líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis þegar skipað hafi verið í stöðu rektors. Þar af leiðandi séu ekki forsendur til að leggja á stefnda vafa um sönnun eða sönnunarbyrði um þau atriði. Hafi kærunefnd jafnréttismála verið þessu sammála og hafi lagt til grundvallar að ekki hafi verið leiddar líkur að því að óbein mismunun í skilningi 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 hefði átt sér stað.
Stefndi byggir á því að mat á grundvelli starfsviðtala hafi verið málefnalegt. Hafnar stefndi því að ákvæði jafnstöðulaga leiði til þess að stefndi hafi þurft að sanna faglegt og huglægt mat á frammistöðu umsækjenda. Ekki eigi það undir dóminn að velja eða vega hvaða sjónarmið hafi átt að vega þyngst. Vísar stefndi hér meðal annars til Hrd. 2004, bls. 153. Hljóti það að vera stefnanda að sanna að matið hafi verið ómálefnalegt og að brotið hafi verið gegn jafnstöðulögum. Aðalatriði sé að mat fór fram á grundvelli viðtalanna og þar hafi komið í ljós að frammistaða stefnanda hafi verið slök og talið að það ætti ekki að skipa hana í starfið. Telur stefndi sig hafa sýnt nægjanlega fram á að ástæða þess að stefnandi hafi ekki verið ráðin hafði ekkert með kynferði hennar eða annarra umsækjenda að gera. Hafnar stefndi því alfarið að það eitt hvort gögnum hafi verið haldið til haga, eins og það sé orðað, leiði sjálfkrafa til þess að brotið hafi verið gegn jafnstöðulögum eða að vafa beri að skýra stefnanda í hag. Þá sé því hafnað að fyrri álit umboðsmanns Alþingis geti leitt til þeirrar niðurstöðu að lögin hafi verið brotin í tilviki stefnanda.
Stefndi telur að við skipun í stöðuna hafi sá, sem lokið hafi mestu menntuninni umfram grunnskilyrðið um æðri prófgráðu og/eða sá sem öðlast hafi mestu stjórnunarreynsluna, ekki komið sjálfkrafa að stöðunni, en stefnandi virðist hafa gengið út frá því að svo hafi átt að vera. Skipun í jafn-mikilvægt starf og í stöðu rektors byggist auk menntunar og starfsreynslu ávallt einnig á öðrum sjónarmiðum, svo sem mati á hæfileikum umsækjenda til stjórnunar og mannlegra samskipta auk sýnar þeirra á viðkomandi starfsumhverfi og þróun þess til framtíðar. Þá hafi það verið mat stefnda, sem fyrr segir, að Ágúst hafði menntun, fræðistörf og starfsreynslu umfram stefnanda.
Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á því að þar sem hún hafi verið jafnhæf Ágústi þá hafi jafnstöðulög átt að leiða til þess að borið hafi að skipa hana í stöðu rektors þar sem engar konur gegndu æðstu stjórnunarstöðum í landbúnaðarráðuneytinu og undirstofnunum þess. Stefndi hafnar þessu þar sem óraunhæft sé að draga samanburð af fjölda kvenna í stjórnunarstöðum í landbúnaðarráðuneytinu og undirstofnunum þess.
Staða fyrsta rektors við stóran og vaxandi rannsóknarháskóla sé til muna viðameira og ábyrgðarfyllra starf en svo, að slíkur samanburður sé eðlilegur eða réttlætanlegur. Fyrstu mánuði starfsins hafi rektor unnið að undirbúningi stofnunar skólans sem tók formlega til starfa 1. janúar 2005. Stefndi ítrekar að stefnandi beri fyrir því sönnunarbyrði að jafnstöðulög hafi verið brotin. Telur stefndi að sönnunarregla 3. mgr. 24. gr. jafnstöðulaga verði ekki virk nema leiddar séu fullnægjandi líkur að því að tilgangur jafnstöðulaga hafi staðið til þess að borið hafi að skipa konu í stað karls ef sennilegt hafi verið talið að þau væri jafnhæf. Til þess að svo megi verða þá verður að halla verulega á annað kynið í hlutfalli af jafnverðmætum störfum. Umrætt rektorsstarf sé einstakt og ekki samanburðarhæft við önnur störf hér á landi enda um brautryðjandastarf að ræða við mótun nýs háskóla og samþættingu eldri stofnanna.
Ef svo yrði ekki talið þá sé helst unnt að draga viðmiðun af rektorum annarra háskóla hér á landi, sem séu það fáir að ekki sé unnt að ræða um starfsvettvang sem tækur sé til samanburðar eftir lagasnúru jafnstöðulaga. Rétt sé að upplýsa að í dag séu starfræktir sex aðrir háskólar á Íslandi. Kynjahlutföll forstöðumanna þessara skóla séu nálægt því jöfn, þ.e. tveir forstöðumanna séu konur (HÍ og HR) og fjórir séu karlar (Bifröst, HA, Kennaraháskólinn og Listaháskólinn). Árið 2004 hafi rektorar við háskóla verið þannig að í sjö háskólum misstórum og ólíkum voru tvær konur í stöðum rektora, eins og fram kemur í umsögn ráðuneytisins.
Stefndi byggir á því í ljósi ofangreinds að Ágúst Sigurðsson hafi verið hæfari en stefnandi þegar allir meginþættir hafi verið skoðaðir og rétt hafi verið að leggja til grundvallar við skipunina. Eins og stefndi hafi bent á, hafi aðstaðan verið sú að ástæðan fyrir því að stefnandi hafi að endingu ekki komið til álita hafi verið meðal annars frammistaða hennar í starfsviðtali, en ekki kynferði hennar. Þannig telji stefndi sig hafa leitt í ljós og sannað gagnvart jafnstöðulögum að ekki hafi verið brotin ákvæði þeirra gagnvart stefnanda. Þannig hafi stefnandi ekki leitt líkur af því að um beina eða óbeina mismunun hafi verið að ræða í skilningi 3. mgr. 24. gr. jafnstöðulaga. Allt að einu hafi stefndi sýnt fram á að ekki hafi verið um mismunun að ræða. Telur stefndi að regluna beri að skýra þröngt, meðal annars í ljósi þeirrar meginreglu að veita beri stöðuveitanda verulegt frelsi um það hvern hann skipar.
Stefndi hafnar því einnig sérstaklega að stefnandi hafi verið hæfasti umsækjandinn af þeim sem sóttu um. Jafnvel þótt ekki yrði fallist á framangreint byggir stefndi á því að ekki verði felld skaðabótaábyrgð á stefnda. Liggi fyrir að mati stefnda að stefnandi hafi ekki sannað að hún hafi verið jafnhæf eða hæfari en aðrir umsækjendur. Umsækjendur um stöðuna hafi verið 14 talsins, 10 karlar og 4 konur. Stefndi hafi ekki talið stefnanda vera á meðal hæfustu umsækjendanna og byggði það ekki aðeins á menntun og starfsreynslu heldur einnig á frammistöðu í viðtölum. Flestir umsækjenda hafi verið með doktorspróf og átt langa starfsreynslu að baki. Frammistaða umsækjenda í viðtölum hafi verið að mati stefnda misjöfn að gæðum eftir tilsvörum þeirra en um mismunandi einstaklinga með ólíka hæfileika og áherslur hafi verið að ræða. Aðeins Sveinn Aðalsteinsson, þáverandi skólameistari Garðyrkjuskóla ríkisins, þótti hafa hugsað samrunaferlið, skipulagið og framtíðarsýnina af ámóta dýpt og Ágúst Sigurðsson. Hið endanlega val stefnda hafi staðið á milli þeirra tveggja. Stefndi telur að stefnandi verði að leiða í ljós að hún hafi átt að hljóta stöðu rektors, þ.e. að hún hafi verið hæfari en hinar konurnar þrjár og a.m.k. jafnhæf karlumsækjendum um stöðuna. Stefnandi hafi ekki sannað þetta. Meðal umsækjenda hafi verið einstaklingar, bæði karlar og konur, sem telja verði augljóst að hafi verið jafnhæf og hæfari en stefnandi. Nefnir stefndi í þessu sambandi Svein Aðalsteinsson og Magnús B. Jónsson, rektor Landbúnaðarháskólans, auk Þorsteins Tómassonar, forstjóra Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins. Úr hópi kvenna megi benda á Áslaugu Helgadóttur, aðstoðarforstjóra Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og Ingibjörgu S. Jónsdóttir, prófessor við háskólasetrið á Svalbarða. Flestir þessara umsækjenda séu með doktorspróf frá háskóla og hafi jafnframt til muna viðameiri reynslu en stefnandi.
Að lokum byggir stefndi einnig á því til stuðnings sýknukröfu að framangreint sýni einnig fram á að stefnanda hafi ekki verið mismunað á grundvelli kynferðis. Þannig hafi ekki verið um að ræða brot á jafnstöðulögum, hvorki ákvæðum 24. gr. né öðrum ákvæðum laganna. Þá sé bótakröfu stefnanda einnig mótmælt á þeim grundvelli að hún hafi ekki sýnt fram á tjón.
Stefndi mótmælir að öllu leyti málatilbúnaði stefnanda.
Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Í auglýsingu landbúnaðarráðuneytisins um stöðu rektors við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem birt var 11. júní 2004, segir svo:
Landbúnaðarháskóli Íslands er ný vísindaleg fræðslu- og rannsóknarstofnun á háskólastigi á sviði landbúnaðar og garðyrkju, sem veitir nemendum sínum fræðslu og vísindalega þjálfun er miðast við að þeir geti tekið að sér sérfræði- og rannsóknarstörf í þágu íslensks landbúnaðar og garðyrkju. Við Landbúnaðarháskólann skal einnig starfrækja sérstakar búnaðarnámsbrautir og sérstakar starfsmenntanámsbrautir á sviði garðyrkju.
Landbúnaðarháskóli Íslands er myndaður með samruna Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum og tekur til starfa 1. janúar 2005 samkvæmt breytingum á lögum nr. 57/1999 um búnaðarfræðslu og lögum nr. 64/1965 um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, sem samþykktar hafa verið á Alþingi.
Rektor er yfirmaður stjórnsýslu Landbúnaðarháskólans og ber ábyrgð á rekstri hans. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Rektor er jafnframt æðsti fulltrúi Landbúnaðarháskólans gagnvart mönnum og stofnunum innan skólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans. Rektor hefur einnig ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans. ... Umsækjendur um stöðu rektors skulu hafa lokið æðri prófgráðu við háskóla og öðlast stjórnunarreynslu.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að vegna menntunar sinnar og starfsreynslu hafi hún verið hæfari til að gegna starfi rektors Landbúnaðarháskólans en sá sem ráðinn var. Með bréfi, dags. 7. júlí 2004, óskaði landbúnaðarráðuneytið eftir því að háskólaráð Landbúnaðarháskóla Íslands veitti umsögn um það hverjir af umsækjendunum uppfylltu skilyrði laga til að gegna stöðu rektors, sbr. ákvæði 25. gr. laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999. Í umsögn háskólaráðs Landbúnaðarháskóla Íslands frá 5. ágúst 2004 kom fram að allir umsækjendur uppfylltu lágmarksskilyrði laga nr. 57/1999 til að gegna stöðu rektors. Stefnandi og Ágúst Sigurðsson, sem ráðinn var í stöðuna, hafa bæði lokið doktorsnámi. Í umsögn háskólaráðs Landbúnaðarháskóla Íslands kom einnig fram að skýr framtíðarsýn væntanlegs rektors skipti höfuðmáli og að mikilvægt væri að sá einstaklingur sem skipaður yrði hefði haldgóða reynslu af stjórnun starfsfólks og/eða rannsókna- og þróunarverkefna og samþættingu ólíkra sjónarmiða. Þegar tekið er mið af þessum atriðum og litið til þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu um störf og stjórnunarreynslu stefnanda og Ágústs Sigurðssonar verður að telja að samanburður milli þeirra sé stefnanda óhagstæður, þar sem Ágúst Sigurðsson hafði fjölbreyttari starfsreynslu, meiri stjórnarstörf og mannaforráð en stefnandi. Verður og af gögnum ráðið að fræðileg ritstörf hans séu mun meiri en stefnanda. Þá liggur fyrir að frammistaða Ágústs Sigurðssonar í starfsviðtali var mun betri en stefnanda. Í starfsviðtali við Ágúst Sigurðsson kom fram að hann hafði sterka sýn á framtíð íslensks landbúnaðar og stöðu Landbúnaðarháskóla Íslands innan hans og metnaðarfullar hugmyndir um starfsemi háskólans. Var því af hálfu stefnda talið að Ágúst væri best til þess fallinn að stýra því vandasama verkefni að leiða til farsælla lykta sameiningu hinna þriggja stofnana sem mynduðu háskólann. Þá hefði hann í starfsviðtölum gert grein fyrir stjórnunaraðferðum sem líklegar væru til árangurs við þær erfiðu aðstæður sem sameining stofnana óneitanlega skapaði yfirstjórnanda Landbúnaðarháskóla Íslands. Hefur þetta verulega þýðingu í ljósi þess sem fram kemur í auglýsingu um stöðuna að Landbúnaðarháskóli Íslands sé myndaður með samruna Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum og að rektor væri falið að undirbúa starfsemi Landbúnaðarháskólans ásamt háskólaráði á tímabilinu 1. ágúst 2004 til 1. janúar 2005 er hann tæki til starfa. Þá hefur þáverandi ráðherra landbúnaðarmála, Guðni Ágústsson, skýrt frá því fyrir dómi að hann hafi falið embættismönnum ráðneytisins að annast starfsviðtöl við umsækjendur og kanna sérstaklega hver væri framtíðarsýn þeirra á íslenskan landbúnað og ekki síst hvernig leysa ætti hið erfiða verkefni um samruna þriggja stofnana í einn háskóla. Að loknum starfsviðtölunum var niðurstaðan sú að tveir umsækjendur voru taldir hæfastir, þeir Ágúst Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson. Stefnandi hefði ekki verið í hópi nokkurra annarra umsækjenda sem til álita hefðu komið næst á eftir þeim. Guðni Ágústsson kvaðst í framhaldi þessa hafa átt einkafund ásamt embættismönnum með Ágústi og Sveini. Ágúst Sigurðsson hafi haft mjög ákveðnar hugmyndir og skýrar um það hvernig hann ætlaði að fara að því að sameina þessar þrjár stofnanir og framtíðarsýn hans um Landbúnaðarháskóla Íslands og fjölþætt hlutverk sveitanna hafi verið mjög athyglisverð.
Þótt starfsviðtölin hafi þannig haft verulegt vægi við mat á hæfni umsækjenda og um þau hafi ekki verið getið í auglýsingunni um stöðu rektors, verður ekki á það fallist með stefnanda að þar með megi leiða líkur að því að forsendur ráðherra við ráðninguna hafi verið byggðar á ómálefnalegum ástæðum. Starfsviðtöl af þessu tagi eru eðlilegur þáttur í ráðningarferlinu og hafa þýðingu við heildarmat á starfshæfni umsækjenda.
Þá verður ekki talið að sá annmarki, sem umboðsmaður Alþingis bendir á í niðurstöðu álits síns í tilefni af kvörtun stefnanda, að þess var ekki gætt að skrá meginatriðin í svörum umsækjenda við spurningum sem lagðar voru fyrir þá í starfsviðtali og lutu að hugmyndum þeirra um þróun landbúnaðarins og starfsemi skólans, skipti máli varðandi skipun ráðherra í embættið.
Að þessu virtu verður fallist á það með stefnda að Ágúst Sigurðsson hafi verið hæfari til að gegna starfinu en stefnandi. Þá hafa engar líkur verið að því leiddar að um mismunun vegna kynferðis hafi verið að ræða þegar skipað var í stöðu rektors. Eru því ekki forsendur til að leggja á stefnda vafa um sönnun eða sönnunarbyrði um þau atriði. Þetta er og í samræmi við niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála, sem lagði til grundvallar að ekki hafi verið leiddar líkur að því að óbein mismunun í skilningi 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 hefði átt sér stað.
Verður því hafnað viðurkenningarkröfu stefnanda um það að landbúnaðarráðherra hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með ráðningu í stöðu rektors. Hafnað er öllum málsástæðum stefnanda er að þessu lúta.
Af þessari niðurstöðu leiðir að einnig ber að hafna kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu en málskostnaður verður felldur niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, landbúnaðarráðherra vegna ríkissjóðs, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Ingileifar Steinunnar Kristjánsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.