Hæstiréttur íslands
Mál nr. 62/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 1. febrúar 2006. |
|
Nr. 62/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru, sem móttekin var í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. janúar 2006 og barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. febrúar 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur sett fram þá kröfu að X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 8. febrúar 2006, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meint fíkniefnabrot kærða sem varði framleiðslu á miklu magni kannabisefna og vörslur fíkniefnalíkra efna. Með hliðsjón af umfangi hinnar ætluðu brotastarfsemi sé talið líklegt að fíkniefnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar. Kærði hafi verið handtekinn í gær kl. 15.15 í [...] í Reykjavík. Skömmu síðar hafi farið fram húsleit á sama stað, húsnæði sem kærði hafi umráð yfir, en þar hafi verið lagt hald á mikið magn stórra kannabisplantna og annarra kannabisefna sem talin eru hafa verið framleidd á staðnum, auk tækja og tóla sem talin eru tengjast hinni meintu brotastarfsemi. Ætlaður vitorðsmaður kærða, A, [kt.], var einnig handtekin síðar sama dag eftir að hafa komið á staðinn og þá með fíkniefni í fórum sínum. Húsleit fór fram á heimili A í gærkvöldi og var þá lagt hald á meira magn fíkniefna auk þess sem lagt var hald á fíkniefni og tæki og tól til pökkunar á fíkniefnum á dvalarstað kærða í [...].
Kærði greindi frá því við yfirheyrslu í dag að hann hafi haft með framleiðslu fíkniefna að gera í [...] og hann hafi falið A að geyma fyrir sig pakkningu með fíkniefnum á heimili hennar. Kærði kveðst hafa staðið einn að framleiðslunni en hún hafi orðið meiri en upphaflega hafi staðið til.
Rannsókn málsins er á frumstigi. Vettvangs- og tæknirannsókn er ekki lokið og eftir er að yfirfara haldlagða muni. Á þessu stigi rannsóknarinnar þarf að yfirheyra kærða frekar og fleiri einstaklinga, þ.m.t. A, sem málinu kunna að tengjast eða veitt geta upplýsingar við rannsóknina auk annarra einstaklinga sem kunna að tengjast málinu. Með hliðsjón af umfangi hinnar ætluðu brotastarfsemi er líklegt að fleiri hafi þar komið við sögu. Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.
Sakarefnið er talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði er undir rökstuddum grun um framleiðslu á miklu magni kannabisefna og vörslu annarra fíkniefna en brotið getur varðað fangelsisrefsingu ef sök sannast. Rannsókn málsins er á frumstigi. Telja verður hættu á að kærði geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða samseka. Samkvæmt því er krafa lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina en þó þannig að kærði sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 3. febrúar nk. kl. 16.00.
Helgi I. Jónsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð :
Kærði, X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 3. febrúar 2006, kl. 16.00.