Hæstiréttur íslands

Mál nr. 643/2006


Lykilorð

  • Víxill
  • Fyrning
  • Endurkrafa
  • Stefnubirting
  • Útivist


         

Fimmtudaginn 4. október 2007.

Nr. 643/2006.

M. Sig ehf.

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Lárusi Þór Guðmundssyni og

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

Ragnari Guðmundssyni

(enginn) og

Lárus Þór Guðmundsson

gegn

M. Sig ehf.

 

Víxlar. Fyrning. Endurkrafa. Stefnubirting. Útivist.

L gaf út víxil, sem P ehf. samþykkti til greiðslu, og framseldi hann síðan ódagsettu eyðuframsali. R og M ehf. rituðu á víxilinn sem ábekingar. Greiðslufall varð á víxlinum og leysti M ehf. hann til sín. Öðlaðist hann með því endurkröfu á hendur öðrum víxilskuldurum og höfðaði mál á hendur L, R og P ehf. til greiðslu hennar. Í héraði var talið að krafan væri fyrnd gagnvart L og R og dæmdi P ehf. eitt til til greiðslu hennar. M ehf. áfrýjaði niðurstöðu héraðsdóms um sýknu L og R. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að fullnustukrafa M ehf. á hendur öðrum framseljendum og útgefanda víxilsins fyrntist á sex mánuðum samkvæmt 3. mgr. 70. gr. víxillaga nr. 93/1933. Þar sem M ehf. hafði leyst víxilinn til sín að undangenginni málsókn bar samkvæmt sama ákvæði að miða upphaf fyrningarfrestsins við birtingu stefnu á hendur félaginu 29. mars 2005. Þegar félagið hóf málsókn sína á hendur L og R með birtingu stefnu 23. febrúar 2006 var sex mánaða fyrningafrestur liðinn og endurkrafa á hendur þeim því fyrnd. Niðurstaða héraðsdóms um að sýkna bæri L og R af kröfu M ehf. var því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2006. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi, Lárus Þór Guðmundsson, og stefndi, Ragnar Guðmundsson, verði dæmdir in solidum til að greiða sér 747.273 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. september 2005 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 28. febrúar 2007. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað sem sér verði dæmdur í héraði og fyrir Hæstarétti.

          Málsatvik og málsástæður eru raktar í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram snýst mál þetta um víxil sem gefinn var út 29. apríl 2004 af gagnáfrýjanda, Lárusi Þór Guðmundssyni, og samþykktur til greiðslu 29. maí 2004 af stefnda í héraði, Powerboss Ísland ehf. Á bakhlið víxilsins hefur útgefandi framselt hann ódagsettu eyðuframsali. Hið sama á við um stefnda Ragnar Guðmundsson og aðaláfrýjanda, M. Sig. ehf. og stendur nafn Ragnars framar nafni aðaláfrýjanda.

          Þar sem greiðslufall varð á víxlinum stefndi víxilhafi, Kaupþing Búnaðarbanki hf., aðaláfrýjanda sem framseljanda víxilsins til greiðslu víxilskuldarinnar með stefnu birtri 29. mars 2005. Málið var þingfest 13. apríl sama ár í Héraðsdómi Reykjaness. Með nafnritun sinni á víxilinn hafði aðaláfrýjandi ábyrgst greiðslu hans gagnvart víxilhafa samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. 1. mgr. 47. gr. víxillaga nr. 93/1933. Leysti aðaláfrýjandi víxillinn til sín 23. september 2005 samkvæmt áritun á bakhlið hans. Þar sem fyrningu var slitið gagnvart aðaláfrýjanda með málsókn áður en víxilkrafan á hendur honum var fyrnd samkvæmt 2. mgr. 70. gr. víxillaga, öðlaðist aðaláfrýjandi endurkröfu á hendur öðrum víxilskuldurum með innlausn víxilsins samkvæmt 3. mgr. 47. gr., sbr. 49. gr. víxillaga. Slík fullnustukrafa á hendur öðrum framseljendum og útgefanda fyrnist á sex mánuðum samkvæmt 3. mgr. 70. gr. laganna.

          Aðaláfrýjandi telur að miða beri upphaf fyrningarfrests kröfu hans á hendur öðrum víxilskuldurum við það tímamark þegar hann leysti til sín víxilinn 23. september 2005. Samkvæmt 3. mgr. 70. gr. víxillaga getur upphaf fyrningarfrests borið að með tvennu móti. Annars vegar getur hann hafist á því tímamarki þegar framseljandi leysir til sín víxil og hins vegar þegar fyrningu er slitið gagnvart honum. Síðarnefnda reglan á við þegar innlausn á sér stað að undangenginni málssókn eins og hér er raunin. Upphaf fyrningarfrests kröfu aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda var því við birtingu stefnu 29. mars 2005 í víxilmálinu á hendur honum, sbr. 1. mgr. 71. gr. víxillaga. Þegar aðaláfrýjandi byrjaði málssókn sína á hendur gagnáfrýjanda til heimtu endurkröfu á víxilfjárhæðinni með stefnu birtri 23. febrúar 2006 var hinn sex mánaða fyrningarfrestur liðinn og endurkrafa hans á hendur gagnáfrýjanda því fyrnd. Verður gagnáfrýjandi því sýknaður af kröfum aðaláfrýjanda.

          Stefndi Ragnar Guðmundsson sótti ekki þing í héraði og var mál hans því tekið til afgreiðslu á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og hann sýknaður vegna fyrningar, en um þetta var dómara rétt að dæma án kröfu, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar frá 7. október 1970 í máli nr. 178/1969 sem birtur er í dómsafni þess árs á bls. 690.

          Lögmaður gagnáfrýjanda tók við áfrýjunarstefnu í aðalsök og ritaði undir eftirfarandi texta: „Framanrituð áfrýjunarstefna er mér rétt birt f.h. stefndu sem hafa falið mér að sækja þing fyrir sig við þingfestingu málsins. Samrit áfrýjunarstefnunnar hefur verið afhent mér.“ Þegar lögmaðurinn skilaði greinargerð í málinu kom hins vegar fram að hann annaðist aðeins málflutning fyrir hönd gagnáfrýjanda. Þrátt fyrir það verður að leggja til grundvallar að stefnan hafi verið birt stefnda Ragnari Guðmundssyni á þann hátt sem greinir í b. lið 3. mgr. 83. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 en hann síðan ekki sótt þing fyrir Hæstarétti. Aðaláfrýjandi byrjaði ekki málssókn sína á hendur þessum stefnda fyrr en með stefnu birtri 23. febrúar 2006 og verður hann samkvæmt framansögðu einnig sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda þar sem víxilkrafan á hendur honum var þá fyrnd, sbr. 3. mgr. 70. gr. víxillaga.

Eftir þessum úrslitum verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað sem verður ákveðinn í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Lárus Þór Guðmundsson, og stefndi, Ragnar Guðmundsson, eru sýknaðir af kröfum aðaláfrýjanda, M. Sig ehf.

Aðaláfrýjandi, M. Sig ehf., greiði gagnáfrýjanda, Lárusi Þór Guðmundssyni, samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2006.

          Mál þetta höfðaði M. Sig ehf., kt. 530795-2339, Smiðshöfða 13, Reykjavík, með stefnu birtri 23. febrúar 2006 á hendur Powerboss Ísland ehf., kt. 560701-2250, Bæjargili 98, Garðabæ, Lárusi Þór Guðmundssyni, kt. 121261-5109, Bæjargili 98, Garðabæ og Ragnari Guðmundssyni, kt. 150447-7719, Ásgarði 77, Reykjavík.  Málið var dómtekið 11. september sl.

          Stefnandi krefst greiðslu á  747.273 krónum með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 23. september 2005 til greiðsludags.  Hann krefst vaxta­reiknings samkvæmt 12. gr. sömu laga.  Loks krefst stefnandi málskostnaðar. 

          Stefndi, Lárus Þór Guðmundsson, krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti. 

          Stefndu, Powerboss Ísland ehf. og Ragnar Guðmundsson, hafa ekki sótt þing. 

          Í stefnu segir að um sé að ræða innlausnarkröfu vegna víxils.  Víxillinn hafi verið að fjárhæð 750.000 krónur, útgefinn 29. apríl 2004 af stefnda, Lárusi, samþykktur til greiðslu af stefnda, Powerboss Ísland, og ábektur af stefnda, Ragnari.  Þá hafi hann verið framseldur af stefnanda.  Stefnandi kveðst hafa innleyst víxilinn með greiðslu á samtals 925.455 krónum.  Stefndi, Powerboss Ísland, hafi endurgreitt 178.182 krónur af þeirri fjárhæð og nemi eftirstöðvar kröfunnar því stefnufjárhæðinni.  Í stefnu segir ekki neitt um gjalddaga víxilsins, en á hann er skráður gjalddaginn 29. maí 2004. 

          Stefnandi krefst vaxta frá innlausnardegi, 23. september 2005.  Hann vísar til víxillaga nr. 93/1933.  Þá kveðst hann reka málið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991. 

          Stefndi, Lárus, byggir vörn sína á því að krafa á hendur öðrum en samþykkjanda víxilsins hafi verið fyrnd þegar stefnandi leysti til sín víxilinn.  Samkvæmt 2. mgr. 70. gr víxillaga fyrnist krafa á hendur framseljanda og útgefanda á einu ári frá afsögn eða gjalddaga víxils.  Þá kveðst stefndi byggja á því að framsalshafi geti ekki öðlast meiri rétt á hendur sér en framseljandinn hafi átt.  Kröfur á hendur sér séu fyrndar.  Þá bendir stefndi á að kröfur á hendur meðstefnda Ragnari séu einnig fyrndar. 

          Forsendur og niðurstaða. 

          Við upphaf aðalmeðferðar lagði stefnandi fram afrit stefnu þar sem honum einum var stefnt af handhafa víxilsins til greiðslu hans.  Stefnan hafði verið birt 29. mars 2005 og lauk málinu með réttarsátt 31. mars 2005.  Fyrningu var ekki slitið gagnvart stefndu í þessu máli með birtingu þessarar stefnu og stefnandi birti þeim ekki tilkynningu samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 71. gr. víxillaga nr. 93/1933. 

          Umræddur víxill er með gjalddaga 29. maí 2004.  Hinn 23. september 2005 var krafa samkvæmt honum fyrnd á hendur stefndu, Lárusi Þór og Ragnari Guðmunds­sonum, sbr. 2. mgr. 70. gr. víxillaga.  Innlausn stefnanda á víxlinum breytir þessu ekki og 3. mgr. 70. gr. laganna kemur ekki til skoðunar þar sem víxilkrafan var fyrnd á hendur þessum aðilum.  Verður því að sýkna stefndu, Lárus og Ragnar, af kröfum stefnanda. 

          Stefndi, Powerboss Ísland, hefur ekki haldið uppi vörnum.  Krafa á hendur honum er í samræmi við framlagðan víxil og málsútlistun stefnanda.  Verður hann dæmdur til greiðslu stefnukröfuna svo sem nánar greinir í dómsorði. 

          Stefndi, Powerboss Ísland, verður dæmdur til að greiða stefnanda 160.000 krónur í málskostnað.  Að öðru leyti fellur málskostnaður niður. 

          Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

          Stefndi, Powerboss Ísland ehf., greiði stefnanda, M. Sig. ehf., 747.273 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 23. september 2005 til greiðsludags.

          Stefndu, Lárus Þór Guðmundsson og Ragnar Guðmundsson, eru sýknaðir af kröfum stefnanda. 

          Stefndi, Powerboss Ísland ehf., greiði stefnanda 160.000 krónur í málskostnað.  Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.