Hæstiréttur íslands
Mál nr. 331/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Ráðningarsamningur
- Skaðabætur
- Kröfulýsing
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
|
Föstudaginn 18. júní 2010 |
|
|
Nr. 331/2010. |
Michael Bellamy (Ólafur Eiríksson hrl.) gegn Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. (Lilja Jónasdóttir hrl.) |
Kærumál. Ráðningarsamningur. Skaðabætur. Kröfulýsing. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð.
M kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var að hluti kröfu hans á hendur S hf. við slitameðferð þess yrði viðurkenndur sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna. S hf. kærði málið einnig fyrir sitt leyti og krafðist þess að hafnað yrði að krafa M yrði metin sem forgangskrafa eða almenn krafa við slitameðferð þess. Krafa M var skaðabótakrafa sem jafngilti vangoldnum og ógreiddum launum sem hann taldi sig eiga rétt á. M taldi að taka ætti kröfuna til greina þar sem í ráðningarsamningi hans kæmi fram að samningurinn félli undir gildissvið laga Englands og Wales. Talið var að hann hafi hvorki skýrt né sannað efni þeirra erlendu réttarreglna sem hann telji eiga við, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 og var lagt til grundvallar að íslenskar réttarreglur giltu um úrlausn ágreiningsins. Við mat á því hvort M hafi orðið fyrir tjóni og ætti rétt til skaðabóta samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 var talið að miða yrði við heildarlaun hans í nýju starfi. Þar sem heildarlaun hans í nýju starfi voru hærri en þau laun sem hann hefði fengið samkvæmt ráðningarsamningi við S hf. var talið að hann hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni sem hann gæti krafist skaðabóta fyrir úr hendi S hf. Hafi því átt að hafna skaðabótakröfunni. Var hinn kæri úrskurður felldur úr gildi að því leyti sem fallist var á kröfu M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2010, þar sem fallist var á að skaðabótakrafa sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð 26.666,66 sterlingspund yrði við slitameðferð varnaraðila viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en hafnað að skaðabótakrafa hans að fjárhæð 186.564,06 sterlingspund yrði viðurkennd sem forgangskrafa eða almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans samkvæmt kröfulýsingu til slitastjórnar varnaraðila 7. júlí 2009 ,,að fjárhæð EUR 213.231,38“ verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Til vara krefst hann þess að sama krafa verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna. Þá krefst hann málskostnaður í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 7. júní 2010. Hann krefst þess að hafnað verði að krafa sóknaraðila að fjárhæð 213.231,38 sterlingspund verði viðurkennd sem forgangskrafa eða almenn krafa við slitameðferð varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Í kæru sóknaraðila og greinargerð til Hæstaréttar er höfð uppi krafa í evrum þótt hún hafi í kröfulýsingu verið að sömu fjárhæð í sterlingspundum og málið rekið á þeim grundvelli fyrir héraðsdómi. Verður litið fram hjá þessari óútskýrðu breytingu á kröfugerð sóknaraðila hér á eftir.
Kæra varnaraðila er nægilega snemma fram komin, sbr. dóm Hæstaréttar 12. mars 1997, í máli nr. 90/1997, sem birtur er á bls. 954 í dómasafni réttarins það ár.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði réðst sóknaraðili til starfa hjá varnaraðila með ráðningarsamningi 1. nóvember 2008. Starfstöð hans skyldi vera í London, nema annað yrði ákveðið. Samningurinn var tímabundinn til 24 mánaða, en að þeim tíma liðnum skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera sex mánuðir. Fjármálaeftirlitið ákvað 9. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja stjórn hans frá störfum og skipa honum skilanefnd. Varnaraðila var veitt greiðslustöðvun 19. mars 2009 og áður en henni lauk var honum skipuð slitastjórn 11. maí 2009, sem gaf út innköllun til skuldheimtumanna. Kröfulýsingafrestur rann út 18. júlí 2009.
Skilanefnd sú, sem skipuð var af hálfu Fjármálaeftirlitsins yfir varnaraðila, tilkynnti sóknaraðila 20. mars 2009 að ráðningarsamningi hans væri sagt upp frá og með 31. sama mánaðar, en síðasti vinnudagur hans skyldi vera fyrrnefndi dagurinn. Í bréfi skilanefndarinnar kemur fram að sóknaraðili fengi greidd laun samkvæmt ráðningarsamningnum, án þess að vinnuframlags hans væri óskað, út samningstímann sem ljúka átti 1. nóvember 2010.
Sóknaraðili lýsti kröfu sinni um ógreidd laun fyrir slitastjórn varnaraðila innan kröfulýsingafrests. Gerði hann þá kröfu að hún yrði viðurkennd sem forgangskrafa. Slitastjórn hafnaði kröfunni. Hefur sóknaraðili fengið greidd laun til loka júlímánaðar 2009 eða í um fjóra mánuði frá því að ráðningarsamningi hans var slitið og hann hætti störfum í þágu varnaraðila. Deila málsaðilar um hvort sóknaraðili eigi kröfu um ógreidd laun á hendur varnaraðila og ef slík krafa er viðurkennd, hver vera skuli staða hennar í skuldaröð.
II
Í ráðningarsamningnum, sem sóknaraðili reisir kröfu sína á, kemur fram í 22. gr. að samningurinn falli undir gildissvið laga Englands og Wales og skuli gerður í samræmi við það. Telur sóknaraðili að þetta eigi að leiða til þess að kröfur hans í málinu verði teknar til greina. Hann hefur hvorki skýrt né sannað efni þeirra erlendu réttarreglna, sem hann telur að hér eigi við, og leiði til framangreindrar niðurstöðu, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og verður lagt til grundvallar að íslenskar réttarreglur gildi um úrlausn ágreiningsins.
Krafa sóknaraðila er skaðabótakrafa, sem jafngildir vangoldnum og ógreiddum launum sem hann telur sig eiga rétt á samkvæmt ráðningarsamningi. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991, sem hér gilda, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, var slitastjórn heimilt að segja upp ráðningarsamningnum við varnaraðila, þótt honum hafi áður verið tilkynnt að hann fengi greidd laun út upphaflega umsaminn ráðningartíma. Afstaða slitastjórnar varnaraðila er sú að hæfilegur uppsagnarfrestur sé fjórir mánuðir og hafi lokið 31. júlí 2009. Sóknaraðili hafi fengið greidd laun til þess dags. Í 3. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 er heimilt að gera þeim, sem segir upp samningi með heimild í 1. mgr. greinarinnar að greiða þeim sem uppsögnin beinist gegn skaðabætur ,,vegna tjóns sem leiðir af uppsögninni.“ Skilyrði þess að sóknaraðili geti átt skaðabótakröfu er, að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna uppsagnarinnar. Upplýst er að sóknaraðili hóf fljótlega eftir starfslok hjá varnaraðila störf hjá öðru fjármálafyrirtæki og hefur starfað þar. Launaseðlar hans frá ágúst 2009 til mars 2010 liggja frammi og eru heildarlaun hans samkvæmt þeim mun hærri en þau laun, sem hann hefði fengið samkvæmt ráðningarsamningnum við varnaraðila. Við mat á því hvort sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni og eigi rétt til skaðabóta samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 verður að miða við heildarlaun hans í hinu nýja starfi. Samkvæmt því hefur hann ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni, sem hann geti krafist skaðabóta fyrir úr hendi varnaraðila, sem var því rétt að hafna skaðabótakröfunni.
Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því leyti sem fallist er á kröfu sóknaraðila.
Málskostnaðarákvörðun hins kærða úrskurðar verður staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur og hafnað kröfu sóknaraðila, Michael Bellamy, við slitameðferð varnaraðila, Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf.
Málskostnaðarákvörðun í hinum kærða úrskurði er staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2010.
I
Mál þetta var þingfest 30. október 2009 og tekið til úrskurðar 26. apríl 2010. Sóknaraðili er Michael Bellamy, 10 Cinnabar Wharf West, 22 Wapping High Street, London, en varnaraðili er Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf., Borgartúni 25, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær að krafa sóknaraðila til slitastjórnar varnaraðila 7. júlí 2009 að fjárhæð GBP 213.231,38 verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Til vara er þess krafist að ofangreind krafa verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur varnaraðila eru að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.
II
Hinn 1. nóvember 2008 gerði sóknaraðili ráðningarsamning við varnaraðila. Réð hann sig til starfa sem yfirmaður verðbréfaviðskipta hjá varnaraðila og hóf störf sama dag. Endurgjald fyrir vinnu í þjónustu varnaraðila kemur fram í viðauka 2 við ráðningarsamninginn. Samkvæmt honum voru grunnlaun sóknaraðila GBP 160.000 á ári.
Í 16. grein ráðningarsamnings er fjallað um slit á ráðningarsambandi. Kemur þar fram að ráðningarsamningurinn sé tímabundinn til 24 mánaða en eftir það uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara nema annað komi fram í viðauka 2 við ráðningarsamninginn. Í viðauka 2 segir að uppsagnarfrestur, að tímabundinni ráðningu genginni, sé sex mánuðir fyrir báða samningsaðila.
Fjármálaeftirlitið ákvað 9. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja stjórn hans frá störfum og skipa honum skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 19. mars 2009, sem standa átti til 11. júní sama ár, en áður en sá tími var á enda var honum skipuð slitastjórn 11. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Gaf slitastjórnin út innköllun til skuldheimtumanna sem birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaði 18. maí 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út 18. júlí 2009.
Í kjölfar skipunar skilanefndar sendi varnaraðili sóknaraðila uppsagnarbréf 20. mars 2009 þar sem meðal annars kom fram að vegna þess að varnaraðili væri að hætta rekstri væri sóknaraðila sagt upp frá og með 31. mars 2009. Kom þar fram að sóknaraðili þyrfti ekki að vinna uppsagnarfrestinn og að síðasti vinnudagur hans væri 20. mars 2009. Þá kom þar einnig fram að sóknaraðili fengi á grundvelli ráðningarsamningsins greidd laun út uppsagnarfrestinn eða til 1. nóvember 2010.
Hinn 7. júlí 2009 lýsti sóknaraðili kröfu til slitastjórnar varnaraðila að fjárhæð GBP 239.897,38 byggðri á yfirliti starfsmannahalds varnaraðila á launum sem hann ætti eftir að fá greidd frá varnaraðila og krafðist þess að krafan væri viðurkennd sem forgangskrafa með vísan til 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með bréfi 30. júlí 2009 tilkynnti slitastjórn varnaraðila þáverandi lögmanni sóknaraðila að kröfu sóknaraðila, sem var nr. 78 á kröfuskrá, væri hafnað í heild sinni. Ekki var leyst úr ágreiningi aðilanna um þetta á kröfuhafafundum, sem slitastjórnin hélt 6. og 25. ágúst 2009, og vísaði slitastjórn varnaraðila ágreiningnum til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 2. september 2009 og var mál þetta þingfest 30. október 2009.
Snýst ágreiningur aðila um það fyrst og fremst hvort sóknaraðili eigi rétt til greiðslu skaðabóta sem nemur launum samkvæmt ráðningarsamningi frá 1. ágúst 2009 og út samningstímabilið til 1. nóvember 2010. Varnaraðili telur skuldbindingu umfram sanngjarnan uppsagnarfrest, sem hann telur að sé hæfilega ákveðinn fjórir mánuðir, ekki vera fyrir hendi. Þá telur hann að verði krafan talin réttmæt njóti hún ekki forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Í upphafi aðalmeðferðar lækkaði sóknaraðili kröfu sína um GBP 26.666.66 sem nemur launum fyrir júní og júlí 2009 en ágreiningslaust er að sóknaraðili hefur fengið greidd laun í uppsagnarfresti á grundvelli samnings aðila frá 1. apríl til 1. ágúst 2009 eða í fjóra mánuði.
Mál þetta var upphaflega tekið til úrskurðar 13. apríl 2010 og var fyrirhugað að kveða upp úrskurð í málinu 21. apríl 2010. Áður en til þess kom taldi dómari að brestur væri á skýrleika í upplýsingum um málsatvik og var málið endurupptekið 26. apríl 2010 og tekið til úrskurðar sama dag.
III
Sóknaraðili kveður óljóst á hvaða lagagrundvelli varnaraðili hafni kröfu sóknaraðila og af hverju hann telji ráðningarsamning, sem gerður hafi verið af þar til bærum aðila, vera óskuldbindandi.
Sóknaraðili kveður að ástæða þess að ráðningarsamningur hans hafi verið tímabundinn til 24 mánaða hafi verið sú að áður en hann hóf störf hjá varnaraðila hafi hann staðið sig vel í starfi hjá Landsbanka Íslands í London og haft mjög góð viðskiptatengsl. Hafi hann ætlað að hefja störf hjá fyrirtækinu Matrix Capital Markets þar sem honum hafi verið boðinn „rúllandi“ 12 mánaða samningur. Varnaraðili hafi sýnt sóknaraðila mikinn áhuga og viljað ráða hann, ásamt öðrum fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans í London, til að styrkja stoðir varnaraðila á Bretlandseyjum. Þar sem sóknaraðili hafi verið hræddur um stöðu íslenska bankakerfisins hafi það verið forsenda af hans hálfu að fá tímabundinn ráðningarsamning. Þá beri þess að geta að eftir að sóknaraðili hóf störf hjá varnaraðila hafi orðið verulegur hagnaður af þeim viðskiptum, varnaraðila til hagsbóta. Því sé það ljóst að starfsemi sóknaraðila hafi ekki átt nokkurn þátt átt í því sem komið hafi fyrir varnaraðila.
Krafa sóknaraðila sé um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafi verið umsamdar í ráðningarsamningi 1. nóvember 2008. Sé fjárkrafan sem slík óumdeild en hún samanstandi af launum að fjárhæð GBP 13.333 á mánuði út uppsagnarfrest, auk orlofs og sé það í samræmi við ráðningarsamninginn.
Við gerð ráðningarsamnings hafi aðstæður verið þær að varnaraðili hafi ætlað sér stóra hluti á sviði verðbréfaviðskipta og hafi séð sóknaraðila fyrir sér sem lykilmann. Þar sem sóknaraðili hafi verið brenndur af störfum fyrir íslenskan banka og þar sem viðskiptabankarnir þrír hafi verið fallnir hafi sóknaraðili ekki viljað hefja störf nema hann fengi tímabundinn samning til tveggja ára. Það hafi forstjóri varnaraðila samþykkt. Þess beri að geta að á þeim tíma sem samningurinn var gerður hafi það verið bjargföst trú stjórnenda varnaraðila að bankinn myndi starfa áfram. Sé því ljóst að samningurinn sé skuldbindandi.
Þegar ástæðan að baki samningsgerðinni sé athuguð verði að hafa í huga að um ráðningarsambandið gildi lög Englands og Wales, sbr. 22. grein ráðningarsamningsins og sé ráðningarsamningurinn skuldbindandi samkvæmt þeim lögum og skuli við slit á honum greiða sóknaraðila umsamdar bætur. Sé það í samræmi við meginreglur vinnuréttar í íslenskum rétti. Sé ljóst að krafan sé á grundvelli ráðningarsamnings og séu forsendur hans skýrar. Með vísan til þess að ráðningarsamningur sé skuldbindandi og að krafa sóknaraðila falli undir það að vera forgangskrafa beri að taka kröfu sóknaraðila til greina að fullu.
Verði niðurstaðan sú að krafa sóknaraðila teljist ekki forgangskrafa sé á því byggt að hún sé almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili vísar til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi kröfu sína um málskostnað og um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísar hann til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Varnaraðili kveður sóknaraðila þegar hafa fengið greidd laun í fjóra mánuði frá því að uppsögn hans tók gildi hinn 31. mars 2009. Hafi hann því fengið greidd laun til 31. júlí 2009. Verði vilyrði um greiðslur umfram greiðslur vegna hefðbundins uppsagnarfrests ekki talið skuldbindandi fyrir varnaraðila.
Með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 125/2008, hafi varnaraðili haft heimild til að segja upp samningnum við sóknaraðila með sanngjörnum fresti, jafnvel þótt lengri uppsagnarfrestur hafi verið ákveðinn í samningnum eða samningurinn óuppsegjanlegur. Þrátt fyrir að varnaraðili hafi þannig í samningi við sóknaraðila skuldbundið sig til að tryggja sóknaraðila starf í allt að 24 mánuði frá undirritun samningsins, verði með vísan til aðstæðna að telja að varnaraðila hafi verið heimilt að taka einhliða ákvörðun um að greiða sóknaraðila aðeins laun á sanngjörnum uppsagnarfresti. Séu greiðslur launa í fjóra mánuði á uppsagnarfresti ríflegar.
Samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 megi, þegar sérstaklega standi á, gera þeim sem segi upp samningi með heimild meðal annars í 1. mgr. 96. gr. laganna að greiða hinum skaðabætur vegna tjóns sem leiði af uppsögninni. Um slíkar kröfur fari samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili telji hins vegar ekki vera fyrir hendi nein þau skilyrði sem leiði til þess að honum beri að greiða sóknaraðila skaðabætur, auk þess sem sóknaraðili hafi hvorki sýnt fram á hvert tjón hans sé né hafi hann sýnt fram á að hann hafi á nokkurn hátt reynt að takmarka meint tjón sitt. Verði því ekki annað ráðið en að fullnaðaruppgjör hafi farið fram vegna starfa sóknaraðila hjá varnaraðila og beri því að hafna frekari kröfum hans.
Verði niðurstaðan sú að varnaraðili teljist á einhvern hátt skuldbundinn samkvæmt starfssamningi aðila til að greiða samsvarandi fjárhæð launa fram til 2010 sé krafan ekki forgangskrafa heldur eftirstæð, sbr. 3. tl. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 21/1991, en yfirlýsing varnaraðila um greiðslu umfram það sem samsvari launum í sanngjörnum og eðlilegum uppsagnarfresti hafi falið í sér gjafaloforð. Matskennd ákvörðun um greiðslu umfram greiðslur í hefðbundnum uppsagnarfresti geti ekki fallið undir hugtakið laun, sbr. 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóti kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Með ákvæði þessu, sem skipi vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð, sé vikið frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti. Verði ákvæðið því ekki skýrt á rýmri veg en leiði af orðanna hljóðan. Samkvæmt ákvæðinu þurfi laun að eiga rætur að rekja til vinnu.
Varnaraðili telur að í loforði um greiðslu til tuttugu og fjögurra mánaða, óháð því hvort sóknaraðili innti af hendi vinnu í þágu varnaraðila, hafi ekki falist loforð um greiðslu launa heldur hafi verið um gjöf að ræða, sbr. 3. tl. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 21/1991, eða gjafaloforð. Með gjafaloforði í fjármunarétti sé almennt átt við loforð um að afhenda loforðsmóttakanda til eignar verðmæti í eigu loforðsgjafa, án þess að fyrir komi endurgjald, enda byggi afhending þessi á vilja loforðsgjafans til að gefa og hafi í för með sér rýrnun á eignum hans, sem verðmæti gjafarinnar nemur, en samsvarandi aukningu á eignum loforðsmóttakanda. Gjafahugtakið samkvæmt lögum nr. 21/1991 sé jafnframt skilgreint rúmt og um hlutlægt mat sé að ræða.
Í þessu samhengi sé mikilvægt að geta þess að ekki hafi verið krafist sérstaks vinnuframlags sóknaraðila vegna greiðslu umfram hefðbundinn uppsagnarfrest. Um hafi verið að ræða vilyrði um greiðslu sem ekki hafi tengst endurgjaldi til sóknaraðila fyrir vinnu. Þegar af þeim sökum beri að hafna kröfu sóknaraðila um að krafa hans við slit varnaraðila njóti forgangs samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Þá telur varnaraðili jafnframt sýnt að ef til greiðslu kæmi sem jafngilti launum til og með nóvember árið 2010, þá væri þar um riftanlega ráðstöfun að ræða, sbr. XX. kafla laga nr. 21/1991, þar sem um gjafagerning væri að ræða. Með hliðsjón af því að á slitastjórn varnaraðila hafi hvílt sú skylda að gæta jafnræðis meðal kröfuhafa og að takmarka mögulegt tjón þeirra, sé varnaraðila ekki stætt á því að framkvæma hina riftanlegu ráðstöfun.
Verði ekki fallist á fyrri málsástæður varnaraðila, telji varnaraðili að víkja beri þeim hluta samnings aðila til hliðar er varði skuldbindingu varnaraðila um að tryggja sóknaraðila vinnu í allt að 24 mánuði, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Hafa beri í huga að samningur aðila hafi verið gerður 1. nóvember 2008 eða réttum fjórum mánuðum áður en Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald hluthafafundar varnaraðila og vikið félagsstjórn hans frá störfum. Varnaraðili telji að sóknaraðila hafi verið ljóst, eða í það minnsta mátt vera ljóst, að fjárhagsleg staða varnaraðila hafi verið afar erfið þegar samningur aðila var undirritaður og að atvik sem síðar komu til hafi ekki bætt stöðu varnaraðila. Þegar af þeirri ástæðu telji varnaraðili öll skilyrði fyrir hendi til að víkja til hliðar hinu mjög svo ívilnandi ákvæði um tryggar greiðslur til handa sóknaraðila til og með nóvember 2010.
Þá telji varnaraðili fráleitt að lög Englands og Wales hafi einhverja þýðingu við mat á því hvar krafa sóknaraðila standi í réttindaröð samkvæmt lögum nr. 21/1991. Sé slíkri röksemdafærslu sóknaraðila alfarið hafnað.
Með vísan til alls framangreinds beri að hafna kröfu sóknaraðila um að kröfu hans verði skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til sömu sjónarmiða beri einnig að hafna varakröfu sóknaraðila um að kröfu hans verði skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Sé varakrafa sóknaraðila með öllu órökstudd og því ekki tæk til efnislegrar meðferðar dómsins.
Um lagarök til viðbótar því sem að framan er rakið vísar varnaraðili til meginreglna samningaréttarins. Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og felist í kröfu hans um málskostnað krafa um virðisaukaskatt.
V
Eins og fram er komið snýst meginágreiningur aðila um það hvort sóknaraðili eigi forgangskröfu á hendur varnaraðila sem nemur launum fyrir tímabilið 1. ágúst 2009 til 1. nóvember 2010 í samræmi við ráðningarsamning sem gerður var milli aðila hinn 1. nóvember 2008 þar sem sóknaraðila var tryggð vinna hjá varnaraðila í samfleytt 24 mánuði. Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa. Óumdeilt er að sóknaraðili hefur fengið greidd laun sem nemur fjórum mánuðum í uppsagnarfresti og er ekki tölulegur ágreiningur í málinu.
Eins og rakið hefur verið var mál þetta tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 13. apríl 2010. Var málið síðan endurupptekið þar sem dómara þótti bresta á skýrleika í upplýsingum um málsatvik, en sóknaraðili hafði ekki upplýst um það hvort hann hefði haft tekjur frá öðrum á því tímabili sem krafa hans meðal annars nær yfir en varnaraðili hafði ekki skorað á hann að veita slíkar upplýsingar. Var það mat dómara að rétt væri að þessar upplýsingar lægju fyrir án þess að tekin hefði verið afstaða til þess hvaða þýðingu þær kynnu að hafa fyrir niðurstöðu málsins. Með vísan til 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykja skilyrði hafa verið fyrir því að dómari legði fyrir sóknaraðila að veita fyrrgreindar upplýsingar.
Í 22. gr. ráðningarsamnings aðila kemur fram að ráðningarsamningurinn falli undir gildissvið laga Englands og Wales. Ekki verður af málatilbúnaði sóknaraðila séð hvaða þýðingu hann telur það hafa varðandi þann ágreining sem uppi er í málinu um það hvar krafa sóknaraðila stendur í réttindaröð en ljóst er að um kröfur sóknaraðila fer samkvæmt íslenskum lögum.
Óumdeilt er að sóknaraðila var sagt upp vegna þess að Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar varnaraðila og félagið var í kjölfarið tekið til slitameðferðar. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. getur þrotabú, í þessu tilviki slitastjórn, sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband með venjulegum hætti eða sanngjörnum fresti þótt lengri uppsagnarfrestur sé ákveðinn í samningnum eða hann sé óuppsegjanlegur, nema samningnum hafi verið þinglýst eða hann skráður opinberlega með hliðstæðum hætti. Þegar fyrirliggjandi gögn eru virt þykir ljóst að þegar sóknaraðili var ráðinn til varnaraðila í nóvember 2008 var framtíð varnaraðila ótrygg. Þá er ljóst af gögnum málsins að sóknaraðila var fullkunnugt um hverjar aðstæður voru á fjármálamarkaði hér á Íslandi á þessum tíma enda kemur fram í greinargerð hans að ástæða þess að hann gerði kröfu til þess að samningur aðila væri til 24 mánaða hafi verið sú að hann hafi verið hræddur um stöðu íslenska bankakerfisins. Í samningi aðila er gert ráð fyrir sex mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti að liðnu hinu 24 mánaða tímabili. Með tilliti til atvika og þess sem að framan er rakið verður fallist á það með varnaraðila að honum hafi verið heimilt að segja upp samningnum við sóknaraðila með sanngjörnum fresti jafnvel þótt lengri uppsagnarfrestur hafi verið ákveðinn í samningnum, sbr. fyrrgreint ákvæði 1 mgr. 96. gr. gjaldþrotaskiptalaga, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, þar sem segir að við slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga þess og kröfur á hendur því að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að það sé tekið til slita leiði ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið var slitastjórn varnaraðila ekki bundin af því loforði varnaraðila sem fram kemur í uppsagnarbréfi sóknaraðila 20. mars 2009 um launagreiðslur út hið 24 mánaða ráðningartímabil. Þykir verða að skýra ákvæði 1. mgr. 96. gr. um uppsögn þannig að nægilegt sé að félag hafi verið tekið til slitameðferðar til að hægt sé að bera umrætt ákvæði fyrir sig og að ekki sé skilyrði að slitastjórn þurfi beinlínis að segja samningi upp á þessum forsendum. Þá þykir sú afstaða slitastjórnar að hafna kröfu sóknaraðila fela í sér svo ekki verði um villst að slitastjórnin taldi sig ekki bundna af samningi aðila. Fallast má hins vegar á það með sóknaraðila að rökstuðningur slitastjórnarinnar, sem fram kemur í bréfi hennar til lögmanns sóknaraðila, um hvers vegna kröfunni er hafnað, sé nokkuð óljós. Það þykir hins vegar ekki koma að sök þar sem samkvæmt 177. gr. gjaldþrotaskiptalaga skal við þingfestingu ágreiningsmáls, af því tagi sem hér um ræðir, gefa sóknaraðila kost á að skila greinargerð þar sem jafnframt komi fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar ásamt frekari gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við. Að framkomnum gögnum sóknaraðila skal varnaraðila gefinn kostur á að leggja fram greinargerð af sinni hendi þar sem fram komi kröfur hans ásamt gögnum sem hann hyggst styðja málstað sinn við. Af þessu verður ráðið að með framkomnum greinargerðum aðila verði lagður grundvöllur málsins.
Við mat á því hvað telja má hæfilegan uppsagnarfrest í því tilviki sem hér um ræðir þykir rétt að miða við uppsagnarákvæði samningsins sjálfs sem er sex mánuðir en óútskýrt er í málatilbúnaði varnaraðila hvers vegna fallið hefur verið frá þeirri skoðun slitastjórnar að varnaraðili sé bundinn við sex mánaða uppsagnarfrest, sbr. það sem fram kemur í bréfi slitastjórnarinnar til dómsins um að skuldbinding umfram sex mánaða uppsagnarfrest sé ekki fyrir hendi. Að framangreindu virtu þykir sex mánaða uppsagnarfrestur á samningi aðila sanngjarn. Samkvæmt 2. tl. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga njóta kröfur um bætur vegna slita á vinnusamningi, sem hafa átt sér stað á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag eða eftir frestdag, forgangs við slitameðferð. Samkvæmt því er það niðurstaða máls þessa að sóknaraðili eigi forgangskröfu við slitameðferð varnaraðila sem nemur launum samkvæmt ráðningarsamningi aðila fyrir ágúst og september 2009, en eins og fram er komið hefur sóknaraðili fengið greiðslur í uppsagnarfresti frá 1. apríl til 1. ágúst 2009. Þykja ekki efni til að draga frá þeim greiðslum laun sem sóknaraðili hefur sannanlega fengið greidd frá öðrum vegna sama tímabils þar sem málatilbúnaður varnaraðila verður ekki skilinn á þann veg að þess sé krafist. Er því viðurkennt að sóknaraðili eigi forgangskröfu við slitameðferð varnaraðila að fjárhæð GBP 26.666.66.
Sóknaraðili krefst þess til vara að krafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila. Kemur þá til skoðunar hvort krafa sóknaraðila að frádregnum GBP 26.666,66, sem viðurkennd hefur verið sem forgangskrafa, verði viðurkennd sem almenn krafa.
Samkvæmt 3. mgr. 96. gr. gjaldþrotaskiptalaga má, þegar sérstaklega stendur á, gera þeim sem segir upp samningi með heimild í 1. eða 2. mgr. ákvæðisins að greiða hinum skaðabætur vegna tjóns sem leiðir af uppsögninni. Um rétthæð slíkrar skaðabótakröfu fer samkvæmt 113. gr. gjaldþrotaskiptalaga, þ.e. hún er svokölluð almenn krafa. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi hvað þetta snertir hvorki sýnt fram á tjón né reynt að takmarka meint tjón sitt. Samkvæmt þeim launaseðlum sem sóknaraðili hefur lagt fram í málinu er ljóst að heildarlaun sóknaraðila frá október 2009 til dagsins í dag eru töluvert hærri en þau sem hann átti að fá samkvæmt ráðningarsamningi aðila, eða GBP 113.147,75 en laun fyrir sama tímabil samkvæmt ráðningarsamningi hefðu numið GBP 79.998. Bótakrafa sóknaraðila er miðuð við þau laun sem hann hefði haft samkvæmt ráðningarsamningi en með vísan til framangreinds hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna uppsagnarinnar og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Verður því þegar af þeirri ástæðu að hafna því að sóknaraðili eigi almenna kröfu við slitameðferð varnaraðila að fjárhæð GBP 186.564,72 (213.231,38 26.666,66).
Eftir atvikum þykir rétt að fella málskostnað niður.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Ólafur Eiríksson hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Krafa sóknaraðila, Michael Bellamy, að fjárhæð GBP 26.666,66 er viðurkennd sem forgangskrafa við slitameðferð varnaraðila, Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf.
Hafnað er að krafa sóknaraðila að fjárhæð GBP 186.564,06 verði viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila.
Málskostnaður fellur niður.