Hæstiréttur íslands

Mál nr. 6/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Sameign


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. janúar 2007.

Nr. 6/2007.

Auður Helgadóttir og

Elín Frigg Helgadóttir

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Lárusi Helgasyni

(Grétar Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Sameign.

A og E kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Vík um að hafna beiðni L um nauðungarsölu til slita á nánar tilgreindri spildu á Stjórnarsandi í Skaftárhreppi. Á það var fallist með héraðsdómi að beiðni L um nauðungarsölu uppfyllti öll skilyrði laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu varðandi efni og form og því bæri að taka hana til afgreiðslu. Var kröfu A og E um staðfestingu ákvörðunar sýslumannsins því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. janúar 2007. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. desember 2006, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Vík 14. júní 2006 um að hafna beiðni varnaraðila um nauðungarsölu til slita á sameign á nánar tilgreindri spildu úr landi Hæðargarðs á Stjórnarsandi í Skaftárhreppi. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilar krefjast staðfestingar umræddrar ákvörðunar sýslumanns og að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til þeirra röksemda, sem héraðsdómari færir fyrir niðurstöðu hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðilar greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvörðun sýslumannsins í Vík 14. júní 2006 um að hafna beiðni varnaraðila, Lárusar Helgasonar, um nauðungarsölu spildu úr landi Hæðargarðs á Stjórnarsandi í Skaftárhreppi til slita á sameign varnaraðila og sóknaraðila, Auðar Helgadóttur og Elínar Friggjar Helgadóttur, er felld úr gildi.

Sóknaraðilar greiði í sameiningu varnaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 12. desember 2006.

Mál þetta var þingfest 5. júlí sl., og tekið til úrskurðar 5. desember sl.

Með bréfi, dags. 19. júní 2006, mótteknu sama dag, fór Grétar Haraldsson hrl., þess á leit, f.h. Lárusar Helgasonar, kt.301138-3139, Vesturbergi 69, Reykjavík, að synjun Sýslumannsins í Vík, þann 14. júní sl., um að nauðungarsala á fasteigninni „ógróin landspilda á svokölluðum Stjórnarsandi í Skaftárhrepp,(áður Kirkjubæjarhreppi) í Vestur Skaftafellssýslu, sem tilheyrði Hæðagarðslandi, allt eins og Helgi Lárusson eignaðist landspilduna með þinglýstu afsali dags. 4. sept. 1943, verði hnekkt og lagt fyrir sýslumann að láta nauðungarsöluna fara fram.“  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila ásamt virðisaukaskatti.

Við þingfestingu var málinu frestað til 28. júlí. Þann 28. júlí var málinu frestað til framlagningar greinargerðar varnaraðila til 11. ágúst. Þann 11. ágúst fékk varnaraðili aftur fresti til 1. september til framlagningu greinargerðar. Þann 1. september var málinu enn frestað að beiðni sóknaraðila til frekari gagnaöflunar til 20. september. Þann 20. september var málinu frestað að beiðni sóknaraðila til 18. október. Við fyrirtöku þann 18. október var málflutningur ákveðinn 5. desember og var málið tekið til úrskurðar þann sama dag.

Sóknaraðili vísar um lagarök til ákvæða XIII. kafla, laga nr. 90/1991 sbr. 22. gr. laganna, um heimild til að leita úrlausnar héraðsdómara um málefnið. Þá vísar sóknaraðili til 3. mgr. 73. gr. laga um nauðungarsölu i.f.

Varnaraðilar gera þá kröfu fyrir dómi að synjun sýslumannsins í Vík um að nauðungarsalan fari fram á spildu úr landi Hæðagarðs, Vestur Skarfafellsýslu fari fram, verði staðfest. Auk þess krefst lögmaður varnaraðila málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

Atvik máls og ágreiningsefni.

Málavextir eru þeir að sóknaraðili sendi Sýslumanninum í Vík beiðni um nauðungarsölu, dagsett 6. apríl 2006. Samkvæmt beiðninni var nauðungarsöluandlagið „Ógróin landspilda á svokölluðum Stjórnarsandi í Skaftárhreppi (áður Kirkjubæjarhreppi) í Vestur Skaftafellssýslu, sem tilheyrði Hæðagarðslandi allt eins og Helgi Lárusson eignaðist landspilduna með þinglýstu afsali dags. 4. sept. 1943.“ Gerðarbeiðandi var sóknaraðili máls þessa, en gerðarþoli var varnaraðili.

Í uppboðsbeiðninni kemur fram að gerðarbeiðandi byggir heimild sóknaraðila á afsali sem gefið var út 4. september 1943 en þar seldi Þorfinnur Magnússon og afsalaði til Helga Lárussonar, ógróna landsspildu á svokölluðum Stjórnarsandi í þáverandi Kirkjubæjarhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu. Segir svo í afsalinu: „Landsspilda þessi, sem tilheyrt hefir Hæðagarðslandi, er látin af hendi með öllum réttindum er ég hefi átt hana og eignast og kvaðalaus með öllu. Mörk milli hennar og Hæðagarðslands er núverandi farvegur Skaftár, og Hæðagarður því ekkert land handan Skaftár.“

Miðvikudaginn 14. júní 2006 tók sýslumaðurinn í Vík nauðungarsölubeiðnina fyrir og mætti gerðarbeiðandi ásamt lögmanni sínum auk lögmaður gerðarþola. Lögmaður gerðarþola mótmælti því við fyrirtökuna að nauðungarsalan færi fram og vísaði til þess að mjög óljóst væri um hvaða spildu væri að ræða sem beðist var uppboðs á og vísaði til landamerkjadeilna sem staðið hefði millum aðila vegna svokallaðst Stjórnarsands og Kirkjubæjarklaustursjarðanna sbr. framlögð endurrit úr landsskiptabók embættisins. Kom fram af hálfu varnaraðila að gerðarbeiðandi væri með allt aðrar hugmyndir um landsmerki landspildunnar en gerðarþolar og teldi nauðsynlegt að láta reyna á það fyrir dómi. Lögmaður gerðarbeiðanda mótmælti ákvörðun sýslumanns og sagðist með vísan til 3. mgr. 22. gr. nauðungarsölulaga myndi leita úrlausnar héraðsdóms um hana eftir ákvæðum XIII. kafla laga um nauðungarsölu.

Í gögnum málsins kemur fram að sóknaraðili sendi varnaraðilum þann 26. október 2005 bréf þar sem hann lagði til að hann byðist til að afsala sér eignarhluta sínum í Kirkjubæjarklaustri ásamt öllum húseignum á þeirri jörð, sem eignarhluta þeirra í Kirkjubæjarklaustri fylgdi, gegn því að varnaraðilar afsali til sóknaraðila eignarhlutum varnaraðilum í Stjórnarsandi, sem þau ættu í sameign. Þann 3. nóvember 2005 sendi sóknaraðili bréf til varnaraðila og gerði þeim grein fyrir því að hann vildi fara að nýta húseign þá sem hann ætti að Klaustri í sameign með varnaraðilum. Lagði sóknaraðili þar til ákveðna skiptingu á nýtingu á húsinu og óskaði eftir svari við þeirri tillögu. Þann 8. nóvember 2005 ritaði lögmaður varnaraðila sóknaraðila bréf þar sem tekið var fram að varnaraðilar væru tilbúnir til samstarfs með nýtingu á húsi þeirra að Klaustri en útfæra þyrfti hvernig nýtingu mundi háttað vegna sérstakra aðstæðna á staðnum sem sóknaraðili þekkti vel. Einnig vildu varnaraðilar nota tækifærið og koma á framfæri þeirri fyrirspurn, hvort ekki væri rétt að skipta úrskiptu landi, sem nú væri í sameign þeirra, milli aðila. Með bréfi dagsettu 5. nóvember 2005 sendi sóknaraðili varnaraðilum bréf þar sem hann krafðist þess að gengið yrði tafarlaust til samninga við sóknaraðila um slit á sameign þeirra um eignarhlutann í Stjórnarsandi sem tilheyrði jörðinni Hæðagarði en aðilar hefðu eignast þennan jarðarhluta með afsali dagsettu 5. september 1963 frá föður þeirra, Helga Lárussyni sem fyrirframgreiddan arf. Sóknaraðili taldi nauðsynlegt að slíta sameigninni, þar sem hann hefði allt aðrar hugmyndir um nýtingu hennar en varnaraðilar. Bauð sóknaraðili eina milljón króna fyrir eignarhluta varnaraðila gegn afsali á eignarhluta þeirra í Stjórnarsandi, þ.e. þeim hluta er hafði tilheyrt Hæðagarði. Síðan skoraði sóknaraðili á varnaraðila að ganga þá þegar til samninga við hann um þetta mál með því markmiði, að sameign þeirra verði slitið. Var tekið fram í bréfinu að takist samningar ekki innan mánaðar frá móttöku bréfsins, megi þeir vænta þess að sóknaraðili krefðist án frekari fyrirvara nauðungarsölu á eigninni samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Þann 20. janúar 2006 lagði sóknaraðili fram tillögu um skiptingu eigna aðila þannig að sóknaraðili fengi hlut eftirgreindra jarða í Stjórnarsandi, eins og þau systkin eignuðust með afsali dags. 5. september 1963, Hæðagarð, Ytri-Tungu, Eystri-Tungu og jörðina Efri-Mörk, varnaraðilar fengju hlut jarðanna Ásgarðs, Neðri-Merkur og Geirlands og gengið yrði frá hagnýtingu húseignar þeirra systkina að Klaustri í samræmi við fyrri tillögu frá 3. nóvember 2005. Áskildi sóknaraðili sér rétt til að biðja um uppboð til slita á sameign þeirra ef engin lausn fengist á málum þeirra systkina fyrir 15. febrúar s.á. Með bréfi þann 17. febrúar 2006 sendi lögmaður varnaraðila svar við fyrra bréfi sóknaraðila þar sem hann tók fram að varnaraðilar væru ekki tilbúnir til að ganga til samninga við sóknaraðila á grundvelli þeirra hugmynda sem hann hafði sett fram en varnaraðilar óskuðu hins vegar eftir því að kæmi til frekari aðgerða yrði bæði eignarhlutar erfingjanna í Kirkjubæjarklaustri og Stjórnarsandi teknir til skipta.

Með ódagsettri greinargerð lögmanns varnaraðila sem lögð var fram við nauðungarsöluna hjá sýslumanninum í Vík, mótmælti gerðarþoli nauðungarsölubeiðninni á þeim forsendum að ekki væri vitað hvaða spilda úr landi Hæðagarðs væri verið að krefjast sölu á, engin hnit eða merki væru tilgreind og því stærð landsins og lega ókunn. Þá væri ókunnugt um hvort fleiri eigendur væru að spildunni og hvort allir gerðarþolar væru tilgreindir. Segir svo að svonefndur Stjórnarsandur væri ógróin landspilda, sem fjöldi aðila væru eigendur að eða ættu land að samanber endurrit úr landskipta- og landsmerkjabók Vestur-Skaftafellssýslu dagsettu 11. júlí 1996 og 22. október 1998 en þar væri leitast við að ná sáttum. Segir enn að gerðarbeiðandi hafi mótmælt þessum landskiptum og hafi einn neitað að ganga frá merkjum Kirkjubæjarklaustursjarðarinnar, hann telji merki enn óljós og sérstaklega merki Klausturs að landi Hæðagarðs. Segir svo í greinargerð gerðarþola að merki á Stjórnarsandi séu ekki öll komin á hreint en alltaf hafi staðið til að ganga frá þeim um leið og merki Klaustursjarðarinnar væru afgreidd en það hefði verið gert þann 22. október 1998. Helgi Lárusson hefði keypt hluta nokkurra jarða sem eigi land að Stjórnarsandi og séu þær spildur einnig hluti af landi því sem þau systkin eigi en ekki séu greind í beiðni gerðarbeiðanda. Til slita á sameign þurfi að vera skýrt hver fasteignin sé, í þessu tilfelli hlutur úr landi Hæðagarðs, Skaftárhreppi án frekari skýringa og allra gerðarþola sé ekki getið. Að lokum segir í greinargerð varnaraðila að skortur sé á tilgreiningu, merki séu umþrætt og eignarheimild gerðarbeiðanda sé ekki skýr og því komi það í veg fyrir að beiðni um nauðungarsölu nái fram að ganga. Gerðarbeiðandi þurfi að sanna rétt sinn til eignarinnar og síðan megi slíta þeirri sameign. Skilyrði varnaraðila hafi verið að öllum skiptum yrði lokið í einu milli aðila og af þessum sökum telji gerðarþolar að vísa eigi nauðungarsölubeiðninni frá.

Þann 5. september 1963 gaf Helgi Lárusson út afsal þar sem hann afhenti sem fyrirframgreiddan arfi, eignarhluta sínum í Stjórnarsandi samkvæmt þinglýstum afsölum frá jörðunum Hæðargarði, Ytri-Tungu, Eystri-Tundu og Ásgarði, öllum í Landbroti, einnig frá Neðri-Mörk og Geirlandi á Síðu, einnig eyðijörðinni Efri-Mörk á Síðu, þeim Lárusi Helgasyni, Elínu Frigg Helgadóttur og Auði Helgadóttur. Afsal þetta var móttekið til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Vík þann 13. júlí 1964 og fékk þinglýsingarnúmerið Z-005456/1964. Engar athugasemdir eru skráðar í fasteignabók við þinglýsingu á afsalinu.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

             Málsástæður sóknaraðila eru að faðir málsaðila hafi eignast uppboðsandlagið með þinglýstu afsali þann 4. september 1943 en afsali til hans hafi verið þinglýst án athugasemda. Þennan eignarhluta afhenti Helgi Lárusson sem fyrirfram greiddan arf til aðila máls þessa með afsali 5. september 1963 og því afsali hefði verið þinglýst án athugasemda. Sóknaraðili hefði viljað slíta sameigninni og ritað varnaraðilum bréf þar um ásamt því að skora á varnaraðila um að ganga til samninga við sóknaraðila um slit á uppboðsandlaginu. Sóknaraðili hefði lagt fram nokkrar tillögur að lausn mála en ekki fengið nein svör frá varnaraðilum  nema þá að ef til skipta ætti að koma þá vildu varnaraðilar skipta eignum sem sneru að eignum aðila á Kirkjubæjarklaustri og Stjórnarsandi. Samkomulag hefði því ekki náðst á milli aðila. Sóknaraðili óskaði eftir nauðungarsölu á þeim eignarhluta Stjórnarsands, sem faðir hans eignaðist með afsali 1943 og því sé ljóst hvert uppboðsandlagið sé og eigi það ekki að hafa áhrif á uppboðsmálið hvort hugsanlega sé ágreiningur um landamerki hins selda við aðrar jarðir eða þó einstakir  aðilar málsins vilji fórna einhverjum hagsmunum varðandi uppboðsandlagið vegna einhverra annarra hagsmuna sinna. Í afsalinu standi varðandi hið selda. „…að ég hefi afhent sem fyrirframgreiddan arf eignarhlutum mínum í Stjórnarsandi samkv. þinglýstum afsölum frá jörðunum Hæðagarði…..“ Vísar sóknaraðili til þes að landsspildan hafi verið látin af hendi með öllum réttindum sem tilheyrðu seljanda og sóknar-og varnaraðilar hafði eignast spilduna kvaðalausa með öllu. Hafi mörk spildunnar og Hæðagarðslands verið „núverandi farvegur Skaftár og Hæðagarður á því ekkert land handan Skaftár.“ Segir sóknaraðili að ofangreint land sé það land sem beðið er upboðs á og sé það sameign aðila í dag. Sóknaraðili vísaði til þess að fasteignin hefði verið staðfest í Landskrá fasteigna án athugasemda. Ágreiningur um landamerki eigi ekki að koma í veg fyrir uppboð á eigninni en ákveðin réttindi og skyldur fylgja eigninni og því sé sóknaraðila nauðsyn að fá slit á sameigninni til að geta farið í landamerkjamál eða losnað undan því, allt eftir niðurstöðu dómsins en landamerkjamál verði ekki höfðað nema með samaðild eigenda landspildunnar en samstaða sé ekki um slíkt.

             Sóknaraðili segir að samkomulags hafi verið leitað án árangurs um skiptingu á eigninni en ekki náðst og vísar um nauðungarsöluheimildina til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991. Hefði sóknaraðili gætt ákvæða 10. gr. sömu laga um áskorun til varnaraðila. Sóknaraðili telur sig einnig hafa fullnægt ákvæðum 11. gr. laga nr. 90/1991.

             Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili heldur því fram að allt frá árinu 1994 séu búnar að vera deilur um merki jarðarinnar Kirkjubæjarklaustur auk þess sem ágreiningur sé með aðilum sem eiga land austan megin við Stjórnarsand og varðar spildur sem Helgi Lárusson keypti af þeim landeigendum. Tilraunir hafa verið gerðar til að reyna að leysa landamerkjadeilur þessar 1996 og 1998 en ekki tekist. Segja varnaraðilar að komi til slita á sameign aðila vilji þeir að öllum eignum aðila sem þeir eigi í sameign verði slitið. Varnaraðilar segja að uppboðsmál þetta hafi ekki verið kynnt landeiganda Hæðagarðs. Staða uppboðskaupanda verði mjög sterk eftir að uppboð hafi farið fram og því sé það mjög óvarlegt að selja eitthvert land úr jörð sem liggur að öðrum jörðum án þess að það liggi alveg ljóst fyrir hvað verið sé að selja. Varnaraðilar segja það skýlausa kröfu þeirra að fyrst verði rekið dómsmál um merki jarðanna ef ekki náist samkomulag milli aðila. Segja varnaraðilar að ekki sé til veðbókarvottorð um þessa tilgreindu spildu, hnit eða önnur tilgreining svo og að þeir aðilar sem hagsmuna eigi að gæta hafi ekki verið gefinn kostur á að láta til sín taka. Varnaraðilar byggja á því að óljóst sé hvaða landspildu verið sé að selja og jafnframt að ekki sé útkljáður ágreiningur milli málsaðila og fleiri landeigenda, sem land eigi að Stjórnarsandi og Kirkjubæjarklaustri. Segja varnaraðilar að það sé ágreiningslaust að aðilar þessa máls eigi landspildur þær sem Helgi Lárusson keypti en það hafi hins vegar ekki verið hugað að því  að ganga frá landamerkjum. Varnaraðilar segja að til þess að hægt sé að skipta landsspildunni verði landamerki hennar að vera ljós svo hægt sé að meta hvort tilboð sem í hana verða gerð séu raunhæf. Til að skipta megi landi því sem aðilar telji sig eiga, þurfi að vera ágreiningslaust hvar það liggi, stærð þess og slíkt. Ekkert af þessu sé til staðar enn varðandi sameign aðila á Stjórnarsandi og ágreiningur hamlað eðlilegri nýtingu landsins í þágu eigenda.

Niðurstöður:

Í máli þessu liggja fyrir tvö afsöl um eignina Stjórnarsand. Eldra afsalið sem dagsett er 4. september 1943 hljóðar þannig:

 Undirritaður eigandi og ábúandi jarðarinnar Hæðagarður í Kirkjubæjarhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu, lýsi því hér með yfir að ég sel og afsala Helga Lárussyni, framkvæmdastjóra í Reykjavík, ógróinni landsspildu á svokölluðum Stjórnarsandi í hreppnum. Er tilætlun kaupanda að stofna til ræktunar á sandinum. Landsspilda þessi, sem tilheyrt hefir Hæðagarðslandi, er látin af hendi með öllum réttindum er ég hefi átt hana og eignast og kvaðalaus með öllu. Mörk milli hennar og Hæðagarðslands er núverandi farvegur Skaftár, og Hæðargarður því ekkert land handan Skaftár.“ Skjal þetta var fært í fasteignabók sýslumannsins í Vík, án athugasemda, þann 3. janúar 1944 og fékk þinglýsingarnúmerið 1264, en svo má lesa samkvæmt áritun á skjalið.

Yngra afsalið er dagsett 5. september 1963 hljóðar þannig:

Undirritaður, Helgi Lárusson, Laugavegi 133, Reykajvík, geri kunnugt, að ég hefi afhent sem fyrirframgreiddan arf eignarhlutum mínum í Stjórnarsandi samkv. þinglýstum afsölum frá jörðunum Hæðagarði, Ytri-Tungu, Eystri-Tungu og Ásgarði öllum í Landbroti einnig frá Neðri-Mörk og Geirlandi á Síðu, einnig eyðijörðinni Efri-Mörk á Síðu, þeim Lárusi Helgasyni, Eiríksg. 25 Reykjavík, Elínu Frigg Helgadóttur, Skeggjagötu 4, Reykjavík og Auði Helgadóttur, Winnan, 300 East 71 St. Apt. 12, New York 21. Lýsi ég þau rétta eigendur að ofangreindum eignum við undirskrift þessa afsals.“

Afsali þessu var þinglýst án athugasemda þann 13. júlí 1964.

Árið 1943 eignast Helgi Lárusson landsspildu úr jörðinni Hæðagarði og með afsali 5. september 1963 afsalaði hann þeirri spildu ásamt fleiri spildum til barna sinna. Ekki liggur fyrir í málinu hvenær eða hvernig Helgi Lárusson eignaðist aðrar spildur sem hann afsalaði einnig til barna sinna enda skiptir það ekki máli við úrlausn þessa máls.

Sóknaraðili vísar til þess að nauðungarsölubeiðnin sé lögmæt bæði að  formi og efni og ekki haldin neinum þeim ágöllum sem leitt geti til þess að nauðungarsala nái ekki fram að ganga. Þá eigi ágreiningur aðila um landamerki eigna, sem liggja að þeirri landspildu sem deilt sé um hér, ekki að hafa nein áhrif á þann rétt að beiðast nauðungarsölu til slita á sameign. Auk þess verði réttarstaða uppboðskaupanda ekki önnur né meiri en réttarstaða núverandi eigenda.

Varnaraðilar byggja á því að nauðungarsölubeiðnin uppfylli ekki skilyrði 11. gr. laganna þar sem ekki sé vitað hverjir gerðarþolar séu en þeir geti verið aðilar að landamerkjadeilum. Varnaraðilar byggja einnig á því að óljóst sé um hvaða landspildu verið sé að krefjast nauðungarsölu á og jafnframt að ekki sé útkljáður ágreiningur milli málsaðila og fleiri landeigenda, sem land eigi að Stjórnarsandi og Kirkjubæjarklaustri um landamerki eignanna auk þess að eignarheimild gerðarbeiðanda sé ekki skýr.

Í 2. mgr. 8. gr. nauðungarsölulaga er heimild til þess að krefjast nauðungarsölu á fasteign sem er í óskiptri sameign ef þess er krafist af einum eða fleirum eigendum að henni.

Ljóst er að aðilar hafa ekki náð samkomulagi með skiptingu á þeim eignum sem þeir eiga í óskiptri sameign. Þó svo að ágreiningur sé einnig um landamerki aðliggjandi jarða að Stjórnarsandi þá er það ágreiningur sem á ekki að hafa nein áhrif á réttindi aðila til að krefjast slita á sameign að öðrum skilyrðum uppfylltum. Fari nauðungarsala fram þá öðlast uppboðskaupandi hvorki minni né meiri rétt en sá átti sem slítur sameigninni. Af gögnum málsins er fyllilega leitt í ljós að samkomulag hefur ekki náðst milli aðila um skiptingu sameignar þeirrar sem deilt er um í máli þessu og því skilyrði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991 uppfyllt þar sem eigninni verður ekki skipt á annan hátt.

Ekki er að sjá annað af gögnum málsins en að skilyrðum 10. gr. sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna hafi verið uppfyllt áður en nauðungarsölubeiðnin var send en lögmaður varnaraðila upplýsti í dóminum að áskorun hefði borist aðilum ásamt sér þó svo að birting hefði ekki átt sér stað með stefnuvotti eða póstmanni.

Í 1. mgr.11. gr. laga nr. 19/1990 eru fyrirmæli um þau skilyrði sem nauðungarsölubeiðni skal uppfylla.

Í uppboðsbeiðni er nauðungarsöluandlagið tilgreint eins og því var afsalað þann 4. september 1943. Hafði landspildan þá ekki fengið neitt heiti og virðist ekki enn í dag hafa fengið annað heiti en Stjórnarsandur. Samkvæmt þinglýsingarvottorði dagsettu 28. ágúst 2006 hefur eignin, Stjórnarsandur, verið staðfest í Landskrá fasteigna hjá sýslumanninum í Vík, og kemur þar fram að Stjórnarsandur hefur landnúmerið 163454 og þinglýstir eigendur séu varnaraðilar og sóknaraðili hver með 33.34% eignarhlutfall. Er vísað til afsalsins frá 1963 sem eignarheimild.

Á þinglýsingarvottorði fyrir eignina Stjórnarsand eru ekki aðrir þinglýstir eigendur en aðilar þessa máls og því eru gerðarþolar réttilega tilgreindir í nauðungarsölubeiðni gerðarbeiðanda. Eru því skilyrði 11. gr. nauðungarsölulaga um að beiðni skuli vera skrifleg, hver gerðarbeiðandi og gerðarþolar séu, heimilsföng þeirra og tilgreining eignarinnar sem nauðungarsölu er krafist á, uppfyllt. Aðilar sem eiga land að þeirri landsspildu sem uppboðs er krafist á, geta ekki að svo komnu, verið aðilar að nauðungarsölu þessari en í 2. gr. nauðungarsölulaga eru þeir sem eiga aðild að nauðungarsölu upptaldir.

Af öllu ofansögðu virtu, eru öll skilyrði nauðungarsölulaga nr. 90/1991 um efni og form nauðungarsölubeiðni, uppfyllt og ber sýslumanni að taka nauðungarsölubeiðni sóknaraðila til afgreiðslu.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

             Hin kærða ákvörðun Sýslumannsins í Vík er felld úr gildi.

             Varnaraðilar greiða sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað.