Hæstiréttur íslands
Mál nr. 320/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Kaupmáli
- Vottur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 3. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 5. apríl 2016 þar sem tveir kaupmálar milli A og B frá 26. nóvember 2005 voru ógiltir þannig að þeir yrðu ekki lagðir til grundvallar við skipti á dánarbúi þess fyrrnefnda. Jafnframt var kveðið á um að kaupmálarnir skyldu afmáðir úr kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík. Kæruheimild er sögð vera í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfum varnaraðila verði hafnað. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar ásamt álagi.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Sóknaraðilarnir C, D og E létu mál þetta ekki til sín taka í héraði. Af þeim sökum brast þau heimild til að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. og 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Verður kröfum þeirra því vísað frá Hæstarétti.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði voru kaupmálar þeir, sem varnaraðilar krefjast að verði ógiltir, báðir dagsettir 26. nóvember 2005. Neðan við meginmál skjalanna beggja og undirskriftir sóknaraðilans B og þáverandi eiginmanns hennar, A, var svofelldur texti: „Vottar að kaupmála þessum“. Undir textann rituðu nöfn sín og kennitölur á annað skjalið L og N og á hitt M og áðurnefnd N, en allar þrjár störfuðu þær sem hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum þar sem A lá sjúkur. Fyrir héraðsdómi staðfestu þær allar að hafa ritað eigin hendi undir skjölin. Aðspurð kvaðst N ekki muna eftir hvort hún hafi verið viðstödd þegar hjónin skrifuðu undir kaupmálana, en taldi líklegra að svo hefði verið. L sagði sig ráma „í þennan atburð“ og minnti að hún hafi verið frammi á gangi en ekki á sjúkrastofunni þegar hún ritaði undir. M kvaðst ekki muna eftir „þessu ákveðna tilviki“ eða „hvernig þetta var“. Það hafi, að hún hélt, gerst tvisvar að hún hafi „vottað eitthvað svona“. Nánar aðspurð sagðist hún hvorki geta játað né neitað því að hafa verið viðstödd undirritun hjónanna. Hún hafi eingöngu verið „að staðfesta að það væri rétt manneskja sem væri í rúminu“.
Samkvæmt 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skal kaupmáli vera skriflegur og undirritun hjóna staðfest eftir atvikum af tveimur vottum sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Orðalag þessarar lagagreinar hefur verið skýrt svo að kaupmáli sé því aðeins gildur að gætt sé þeirra aðferða við vottun hans, sem þar greinir, sbr. dóma Hæstaréttar 14. janúar 2008 í máli nr. 668/2007 og 27. maí 2011 í máli nr. 251/2011.
Áritun vottanna L, M og N á kaupmálana tvo, sem um er deilt í máli þessu, ber ekki með sér að þær hafi verið samtímis viðstaddar þegar sóknaraðilinn B og A rituðu nöfn sín undir hvorn kaupmála um sig. Að því virtu og með skírskotun til fyrrgreinds vitnisburðar þeirra þriggja fyrir dómi, einkum L og M, verður talið ósannað að gætt hafi verið þeirra aðferða við vottun kaupmálanna á sínum tíma sem mælt er fyrir um í 80. gr. hjúskaparlaga. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Vísað er frá Hæstarétti kröfum sóknaraðilanna C, D og E.
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Fyrrgreindum sóknaraðilum ásamt sóknaraðilanum B verður sameiginlega gert að greiða varnaraðilum, F, G og H, 125.000 krónur í kærumálskostnað til hvers þeirra um sig.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 5. apríl 2016.
I.
Mál þetta sem hér er til úrlausnar barst héraðsdómi með bréfi skiptastjóra mótteknu 16. júlí 2015 vegna dánarbús A, sem lést 4. janúar 2006. Var málið þingfest 29. september 2015 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 9. mars sl.
Sóknaraðilarnir H, G og F krefjast þess að tveir kaupmálar milli A, kt. [...], og B, kt. [...], dagsettir 26. nóvember 2005, skráðir í kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík [...]. og [...]. nóvember 2005, með málsnúmerum X-[...] og X-[...], verði dæmdir ógildir og ekki lagðir til grundvallar við yfirstandandi skipti á dánarbúi A. Þess er og krafist að kaupmálarnir verði afmáðir úr kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík. Jafnframt er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins.
Varnaraðilinn B krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Jafnframt krefst hún málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk álags í samræmi við a- og c-lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varnaraðilarnir E, D og C hafa ekki látið mál þetta til sín taka.
II.
Með leyfi sýslumannsins í Reykjavík 19. maí 2006 fékk B, ekkja A, leyfi til setu í óskiptu búi, en það leyfi féll niður hinn 15. júlí 2014 er B gekk í hjónaband að nýju.
Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands hinn 18. mars 2015 var dánarbú A tekið til opinberra skipta og skiptastjóri skipaður. Á fyrsta skiptafundi í búinu 31. mars 2015 voru m.a. lagðir fram tveir kaupmálar, dags. 26. nóvember 2005, milli A og B. Samkvæmt öðrum þeirra skyldi jörðin I, [...], áður [...], verða séreign B, en samkvæmt hinum skyldi íbúð að [...] í Reykjavík verða séreign B. Kaupmálar þessir voru skráðir í kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík, auk þess sem þeim var þinglýst á viðkomandi fasteignir. Á skiptafundinum var einnig lagður fram kaupmáli milli sömu aðila frá 27. nóvember 2005, þar sem sumarhúsin [...] og [...] í [...] voru gerð að séreign B. Sá kaupmáli var hins vegar hvorki skráður né var honum þinglýst á viðkomandi eignir.
Á skiptafundinum lét lögmaður sóknaraðila færa til bókar að umbjóðendur hans áskildu sér rétt til að kanna lögmæti kaupmálanna um I og íbúðina að [...]. Sóknaraðilar leituðu í kjölfarið til J, rithandarsérfræðings og fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns, og fólu honum að kanna hvort A hefði undirritað fyrrgreinda kaupmála sjálfur og með eigin hendi eða hvort nafn hans hefði verið ritað á kaupmálana af öðrum. Í skýrslu J, dags. 6. júní 2015, segir m.a. svo: „Við innbyrðis samanburð á hinum véfengdu nafnritunum sem til [A] vísa, er verulegt skriftarlegt misræmi. Þetta misræmi kemur fram í formi einstakra stafa, skriftarhalla, skriftarflæði og áferð. ... Telur undirritaður að þessi munur verði ekki skýrður öðruvísi en að önnur eða báðar undirskriftirnar stafi ekki frá þeim sem þær vísa til.“ Þá segir svo: „Eins og að framan greinir, eru öll gögnin í formi ljósrita af óþekktu fjöltaki og afar takmörkuð að gæðum. Þrátt fyrir þessar takmarkanir telur undirritaður að umrædd gögn gefi afar sterkar vísbendingar um að hinar véfengdu nafnritanir séu sviknar.“ Loks segir svo um samandregnar niðurstöður rannsóknarinnar: „Það er niðurstaða undirritaðs, að afar sterkar vísbendingar bendi til þess að hinar véfengdu nafnritanir, sem vísa til [A], kt. [...], og tilgreindar eru í liðum 1a, 2a, 2b, 3a og 3b hér að framan, séu falsaðar.“
Framangreind rannsóknarskýrsla var kynnt erfingjum á skiptafundi hinn 14. júlí 2015. Kom þar fram sú krafa sóknaraðila að umræddir kaupmálar, dags. 26. nóvember 2005, yrðu ekki lagðir til grundvallar við skipti dánarbúsins. Varnaraðilar lýstu hins vegar þeirri afstöðu sinni að kaupmálarnir væru gildir og því ætti að leggja þá til grundvallar við skiptin. Þar sem ekki tókst að jafna þennan ágreining ákvað skiptastjóri með bréfi, dags. 15. júlí 2015, að vísa honum til úrlausnar dómsins, með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Kemur fram í bréfi hans að eftirgreindir séu erfingjar dánarbúsins: B, ekkja hins látna, og sameiginleg börn þeirra H, G, E, D, F, C og K. K mun þó hafa afsalað sér arfi eftir föður sinn og er hann því ekki aðili að máli þessu.
Með vísan til framangreindrar skýrslu J fóru sóknaraðilar og fram á það við lögreglustjórann á Vesturlandi með bréfi, dags. 31. ágúst 2015, að hann rannsakaði meinta fölsun þeirra tveggja kaupmála sem mál þetta snýst um, auk kaupmálans um sumarbústaðina tvo, dags. 27. nóvember 2005, og eftir atvikum annarra tilgreindra skjala. Fyrir liggur að lögreglustjórinn tilkynnti lögmanni sóknaraðila um það með bréfi, dags. 26. október 2015, að rannsókn þess máls hefði verið hætt, með vísan til 3. og 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Staðfesti ríkissaksóknari þá ákvörðun 25. nóvember sama ár.
Við aðalmeðferð málsins gáfu varnaraðilarnir B, E og D aðilaskýrslur, auk þess sem teknar voru símaskýrslur af vitnunum J, L, M og N.
III.
Sóknaraðilar kveðast einkum byggja kröfur sínar á því að allar líkur séu á því að umræddir tveir kaupmálar hafi ekki verið undirritaðir af A heitnum og hafi því ekki að geyma vilja hans til ráðstöfunar umræddra eigna með þeim hætti sem efni kaupmálanna gefi tilefni til. Sé hvað það varði einkum vísað til niðurstöðu fyrirliggjandi rannsóknarskýrslu J rithandarsérfræðings, en sóknaraðilar telji niðurstöðu hennar gefa afdráttarlausar vísbendingar í þá veru. Þannig segi „að við innbyrðis samanburð á hinum véfengdu nafnritunum, sem til [A] vísa, er verulegt skriftarlegt misræmi. Þetta misræmi kemur fram í formi einstakra stafa, skriftarhalla, skriftarflæði og áferð“. Í því sambandi vísi J annars vegar til eldri undirritana A og hins vegar til innbyrðis ósamræmis í undirritunum hans á hina tvo umdeildu kaupmála, sem dagsettir séu sama dag. Að mati sóknaraðila séu sterkar vísbendingar um að undirskriftir A á umrædda kaupmála séu falsaðar og því sé ekki unnt að leggja þá til grundvallar við búskiptin.
Þá liggi og fyrir að á umræddum tíma, þ.e. í nóvemberlok 2005, hafi A legið sjúkur á Landspítalanum, en hann hafi látist [...]. janúar 2006. Dragi sóknaraðilar annars vegar verulega í efa að A hafi verið unnt sökum sjúkleika og lyfjagjafar að undirrita sjálfur umrædda kaupmála og hins vegar að líkamlegt ástand hans hafi verið með þeim hætti að hann hafi gert sér einhverja grein fyrir hvers konar skjöl hann væri að undirrita og hvaða réttaráhrif fælust í þeim. Telji sóknaraðilar því að færni A til að ráða persónulegum högum sínum og fjármálum hafi á þessum tíma verið verulega skert sökum heilsufars hans og lyfjagjafar.
Loks verði að telja að vottun umræddra kaupsmála sé nokkuð ábótavant og að hún sé ekki að öllu leyti í samræmi við ákvæði 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, þar sem gerðar séu strangar kröfur um að vottun kaupmála skuli vera með tilgreindum hætti. Hefur hvað það varðar verið lagt til grundvallar að kaupmáli sé því aðeins gildur að gætt hafi verið þeirra aðferða við vottun sem í ákvæðinu greini. Í máli þessu liggi ekkert fyrir um að vottarnir hafi verið kvaddir til samtímis og að þeir hafi með vottun sinni staðfest að þeir hafi verið viðstaddir undirritun kaupmálanna, en í vottorði segir einungis: „vottorð að kaupmála þessum“. Gildi einu í þessu sambandi þótt vottarnir hafi síðar staðfest undirritanir sínar á kaupmálana, enda feli slíkt ekki í sér staðfestingu á því að skilyrðum 80. gr. hjúskaparlaga hafi verið fullnægt. Þá hafi vottun skjalanna verið með þeim hætti að í engu hafi verið getið um andlegt hæfi A á þeirri stundu. Verði að telja að slíkt hefði verið eðlilegt, enda hafi slíkur vafi leikið á um hæfni hans til undirritunar umræddra löggerninga að rétt hefði verið að leita til læknis eða annars sérfróðs aðila til að veita álit um líkamlegt atgervi og hæfi A.
IV.
Varnaraðilinn B vísar til þess að umræddir kaupmálar hafi verið undirritaðir og vottaðir í sjúkrahúsherbergi A og hafi hann ritað nafn sitt þar sem hann hafi legið út af í rúmi sínu. Við undirritunina hafi verið notast við lítið borð sem áfast hafi verið rúminu og sé því eðlilegt að undirritunin líti ekki nákvæmlega eins út og undirritun við aðrar aðstæður. Vegna þeirra athugasemda sem fram komi í rannsóknarskýrslu J sé á það bent að þau gögn sem skýrslan byggist á hafi í öllum tilvikum verið ljósrit eða ljósrit af ljósriti. Við ljósritun tapist bæði gæði og skýrleiki gagna, ekki síst þegar um sé að ræða undirritanir á skjölum sem séu í öllum tilfellum tæplega tíu ára gömul eða eldri. Sé þetta beinlínis tekið fram í umræddri skýrslu, auk þess sem tiltekið sé að þetta leiði óhjákvæmilega til þess að niðurstaðan verði ekki afgerandi heldur fremur vísbendingar byggðar á þeim gögnum sem til rannsóknar séu.
Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að líkamlegt ástand A hafi haft einhver áhrif á getu hans til að skilja eða skynja það sem fram fór í kringum hann við undirritun kaupmálanna. Þvert á móti bendi gögnin til þess að hann hafi, ásamt varnaraðila B, óskað eftir vottun kaupmálanna og bendi það fremur til þess að hann hafi gert sér grein fyrir efni skjalanna og nauðsyn þess að þau yrðu vottuð. Séu engar vísbendingar um að lyfjagjöf A hafi verið með þeim hætti að færni hans til að ráða persónulegum högum sínum og fjármálum hafi að neinu leyti verið skert. Í ljósi þess að bæði varnaraðili og vottar hafi staðfest að um undirritun A sé að ræða hvíli sönnunarbyrði á sóknaraðilum um að A hafi ekki verið fær um að rita undir umrædda kaupmála. Þá sé það ekki mjög sannfærandi málatilbúnaður af hálfu sóknaraðila að byggja bæði á því að um fölsun og skort á gerhæfi hafi verið ræða.
Á því sé byggt að vottun kaupmálanna hafi farið fram í fullu samræmi við ákvæði 80. gr. hjúskaparlaga. Kaupmálarnir um I og [...] beri báðir yfirskriftina „Kaupmáli“, auk þess sem orðið komi fyrir í þrígang í texta skjalsins. Í báðum tilvikum hafi tveir aðilar vottað kaupmálann og ritað nafn sitt og kennitölu undir.
Loks sé á því byggt að um tómlæti sóknaraðila sé að ræða þar sem þeim hafi verið kunnugt um kaupmálana þegar á árinu 2006 án þess að gera athugasemdir við þá fyrr en nærri tíu árum síðar.
V.
Niðurstaða
Sóknaraðilar telja að bæði valdi það ógildi umræddra tveggja kaupmála að undirskriftir A á þá séu falsaðar og að ekki hafi verið fylgt lögmæltum reglum um vottun þeirra. Eins og áður segir liggur fyrir í málinu rannsóknarskýrsla J, rithandarsérfræðings og fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns hjá ríkislögreglustjóra, sem hann hefur staðfest fyrir dómi, varðandi vefengdar nafnritanir A undir kaupmála, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að „afar sterkar vísbendingar bendi til þess að hinar véfengdu nafnritanir, sem vísa til [A]“ séu falsaðar.
Í 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eru gerðar kröfur um að vottun kaupmála skuli vera með tilgreindum hætti. Þannig skal undirritun hjóna eða hjónaefna vera staðfest af lögbókanda, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum, sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Neðan við meginmál hinna umdeildu kaupmála og undirskriftir A og varnaraðilans B er vélritaður svofelldur texti: „Vottar að kaupmála þessum“. Undir þennan texta rita nöfn sín og kennitölur annars vegar á kaupmálann vegna I þær L og N og hins vegar á kaupmálann vegna íbúðarinnar að [...] þær M og N, en þær störfuðu allar sem hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum þegar A mun hafa verið þar til meðferðar í lok nóvembermánaðar 2005. Fram kom í skýrslum þeirra allra fyrir dómi að þær myndu lítt eða ekki eftir atvikum þegar þær rituðu nafn sitt sem vottar í greint sinn. Þannig kvaðst N ekki muna hvort hún var viðstödd þegar aðilar kaupmálanna rituðu nafn sitt á þá eða hvar hún var stödd þegar hún sjálf ritaði nafn sitt. L kvaðst ekki telja að hún hefði verið stödd inni hjá sjúklingnum þegar hún ritaði nafn sitt á skjalið. Þetta hefði verið í eina skiptið á hennar starfsferli sem hún ritaði undir sem vottur og hún hefði örugglega verið frammi á gangi þegar hún ritaði nafn sitt. Hefði hún þá verið að votta að „þetta væri þessi manneskja“. M sagðist ekkert muna eftir því þegar hún ritaði undir, hvorki hvaða sjúklingur átt hefði hlut að máli né við hvaða aðstæður undirritunin fór fram. Hún taldi að það hefði tvisvar gerst á hennar starfsferli á spítalanum að hún hefði verið beðin um að rita undir sem vottur og í bæði skiptin hefði hún verið að votta „að þessi einstaklingur, sem er þarna, skjólstæðingur minn þá væntanlega af því að hann er sjúklingur þarna, sé sá hinn sami og er í rúminu. Það passi við kennitölu og nafn.“ Hún hefði því ekki verið að votta neitt efnislega heldur nánast að rétt manneskja væri í rúminu.
Þegar allt framangreint er virt, annars vegar niðurstaða fyrrnefndrar skýrslu um að afar sterkar vísbendingar séu um að undirskriftir A á kaupmálana séu falsaðar og hins vegar að ekki liggur ótvírætt fyrir að lögmæltra krafna um vottun kaupmálanna hafi verið gætt, verður að telja nægilega fram komið að undirritun og vottun kaupmálanna hafi ekki verið með þeim hætti að þeir geti talist gildir kaupmálar í skilningi hjúskaparlaga nr. 31/1993. Verða því teknar til greina kröfur sóknaraðila um viðurkenningu á því að umræddir tveir kaupmálar séu ógildir og að þeir verði ekki lagðir til grundvallar við yfirstandandi skipti á dánarbúi A, enda verður ekki talið að meint tómlæti sóknaraðila varðandi vefengingu þeirra geti neinu breytt í því tilliti.
Samkvæmt þessari niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður ekki hjá því komist að dæma varnaraðila A til að greiða sóknaraðilum óskipt málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.
Úrskurð þennan kveður upp Ásgeir Magnússon dómstjóri.
Úrskurðarorð:
Tveir kaupmálar milli A, kt. [...], og B, kt. [...], dagsettir 26. nóvember 2005, skráðir í kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík [...]. og [...]. nóvember 2005, með málsnúmerum X-[...] og X-[...], eru ógildir og verða ekki lagðir til grundvallar við yfirstandandi skipti á dánarbúi A. Skulu kaupmálarnir afmáðir úr kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík.
Varnaraðili, B, greiði sóknaraðilum, H, G og F, óskipt 450.000 krónur í málskostnað.