Hæstiréttur íslands

Mál nr. 155/1998


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Sönnunargögn
  • Dómari
  • Ómerkingarkröfu hafnað
  • Skaðabætur


                                                           

Fimmtudaginn 28. janúar 1999.

Nr. 155/1998.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Hauki Ingimarssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Kynferðisbrot. Sönnunargögn. Dómarar. Ómerkingarkröfu hafnað. Skaðabætur.

H var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa þröngvað stúlkunni X með ofbeldi til holdlegs samræðis á salerni í veitingahúsi. Ekki var það talið varða ómerkingu héraðsdóms að dómari hafði ekki nýtt sér heimild til kvaðningar samdómenda. Talið var sannað með hliðsjón af framburði brotaþola, vitna og fyrirliggjandi DNA-rannsókna að H hefði brotið gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvörðun héraðsdóms um viðurlög var staðfest og brotaþola dæmdar miskabætur. Gerð var athugasemd við það að ákærða hafði verið vikið úr þinghaldi við meðferð málsins í héraði án þess að fram hefði komið að efni hefðu verið til þess.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 30. mars 1998 að ósk ákærða með vísun til          a-d liða 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1994. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist, að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega, að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann sýknu ellegar þess, að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess, að bótakröfu kæranda verði vísað frá dómi eða hún lækkuð.

I.

Ákærði krefst ómerkingar hins áfrýjaða dóms á þeirri forsendu, að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1994, þar sem niðurstaða málsins ráðist af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Framangreint ákvæði réttarfarslaga felur í sér heimild en ekki skyldu fyrir héraðsdómara til að kveðja tvo aðra héraðsdómara til setu í dómi með sér og ræðst nauðsyn þess af aðstæðum hverju sinni. Ljóst er, að sakfelling héraðsdóms styðst að verulegu leyti við niðurstöður tveggja DNA-rannsókna, sem gerðar voru í Noregi og Bretlandi. Eins og hér háttar til, verður ekki talið að ákvörðun héraðdómara um að sitja einn í dómi eigi að leiða til ómerkingar og heimvísunar.

II.

Ákærði er borinn sökum um að hafa þröngvað kæranda með ofbeldi til holdlegs samræðis á salerni veitingahúss í Keflavík aðfaranótt laugardagsins 17. ágúst 1996. Eins og fram kemur í héraðsdómi voru sýni, sem tekin höfðu verið sama dag á Sjúkrahúsi Reykjavíkur á neyðarmóttöku vegna nauðgunar, send Rannsóknastofu háskólans í meinafræði til rannsóknar. Hluti þeirra var síðan sendur til DNA-rannsóknar í Rettsmedisinsk institutt við háskólann í Osló og barst niðurstaða þaðan með bréfi 8. nóvember 1996. Þar segir meðal annars: „Sýnin 3 (vattpinni) og 4 (nærbuxur) báru með sér að sæðisvökvinn hefði verið til staðar, og hægt var að sýna fram á sæðisfrumur í báðum sýnunum. Út frá DNA/VNTR-rannsókninni teljum við að sýni 3 vattpinni sé blandað sýni sem samanstendur af frumuefni frá grunaða ... (sæðisfrumum) og meintum brotaþola (þekjuvefsfrumum ...). Mjög sennilegt er út frá þessari rannsókn að sæðið sem sýnt var fram á í nærbuxunum sé frá grunaða.“ Þá kemur einnig fram, að „líkurnar á að finna DNA-prófíl, sem leitað er að, í sýni sem tekið er til skoðunar hjá Norðmanni, sem valinn er af handahófi, mun alltaf vera verulega minni en 1:10.000. Þegar málsaðili er með DNA-prófíl, sem er sömu gerðar og prófíll sýnishornsins, teljum við þá venjulega að það sé einmitt sá maður, sem hefur látið eftir sig sýnið.“

Í álitsgerð Gunnlaugs Geirssonar prófessors um niðurstöður þessara rannsókna 21. nóvember 1996 segir, að þær samrýmist því, að sæði það, sem fannst í leggöngum og nærbuxum kæranda, hafi komið úr hinum grunaða, og væru líkurnar fyrir því afar sterkar. Við rannsóknirnar í Noregi voru notuð til samanburðar blóðsýni úr kæranda og ákærða og er fram komið, að glas með blóðsýni kæranda lak í flutningi þangað. Í bréfi Gunnlaugs Geirssonar 14. mars 1997 til sýslumannsins í Keflavík og bréfi norsku rannsóknastofunnar 10. sama mánaðar er fullyrt, að það hafi engin áhrif haft á niðurstöðu DNA-rannsóknarinnar.

Að kröfu ákærða var efnt til nýrrar DNA-rannsóknar í Bretlandi og fór hún fram hjá The Forensic Science Service í Wetherby í Yorkshire. Þangað voru send gögn frá rannsókninni í Noregi og jafnframt ný gögn frá Íslandi, þar á meðal bómullarpinni, sem notaður hafði verið til að taka strok úr leggöngum kæranda við skoðun á neyðarmóttöku og merktur var 4130, en hann hafði verið varðveittur frá upphafi hjá Rannsóknastofu háskólans í meinafræði. Í niðurstöðu bresku rannsóknarinnar, sem send var með bréfi 6. febrúar 1998 segir meðal annars, að vottur af sæði hafi fundist í leggangastroki (4130) og á nærbuxunum. Um leggangasýnið segir: „Blandað STR-mynstur fékkst úr DNA sem unnið var úr bómullarpinna með leggangasýni (4130), þ.e. þar er DNA frá fleiri en einum einstaklingi. Hið blandaða STR-mynstur samanstendur af greinilegum meirihluta (frá konu), sem samsvarar því mynstri sem fékkst úr konunni sem fyrir brotinu varð, og minnihluta, sem allar rákir í má rekja til hins grunaða karlmanns.“ Þá kemur fram, að það STR-mynstur, sem fékkst úr sæðisbletti úr nærbuxunum og samsvaraði því mynstri, sem fékkst úr sýni úr hinum grunaða, komi fyrir á Bretlandseyjum hjá einum íbúa af hverjum fimm milljónum. Lokaniðurstöður eru þessar: „1) Það er álit mitt, að ofangreindar niðurstöður styðji með afar sterkum rökum þá fullyrðingu, að sæði það úr nærbuxum brotaþola, sem prófað var, hafi komið úr þeim karlmanni sem grunaður er í málinu. 2) Sæði það sem prófað var úr leggangastroki (4130) úr konunni sem fyrir brotinu varð kann einnig að hafa komið úr hinum grunaða karlmanni.“ Rétt er að athuga, að í hinum enska texta, sem snúið var á íslensku af löggiltum skjalaþýðanda, segir í lið 2): „The semen tested ... could also have originated from the male suspect.“  

Fyrir héraðsdómi lagði Gunnlaugur Geirsson prófessor áherslu á, að fyrir lægju samhljóða niðurstöður úr tveimur sjálfstæðum rannsóknum, þar sem ekki hefðu að öllu leyti sömu gögn verið til rannsóknar í báðum tilvikum, og yki það mjög á áreiðanleika þeirra. Hann sagðist telja, að það hefði „allt verið gert í þessu máli sem hægt er að gera til þess að bera sannleikanum vitni.“

III.

Niðurstöðu héraðsdómara verður að meta svo, að hann hafi talið framburð kæranda fyrir dóminum áreiðanlegan en framburð ákærða að sama skapi ótrúverðugan, einkum í ljósi þeirra rannsóknargagna, sem fyrir lágu og grein hefur verið gerð fyrir. Þá er ljóst, að héraðsdómari hefur talið framburð B trúverðugan, en hann kvaðst hafa séð ákærða og kæranda fara saman inn á salernið og hefði ákærði virst ákveðinn. Með hliðsjón af ótvíræðum niðurstöðum tveggja sjálfstæðra DNA-rannsókna í Noregi og Bretlandi, framburði og álitsgerðum Gunnlaugs Geirssonar prófessors og aðstæðum að öðru leyti eru engin efni til að ætla, að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng, svo að einhverju skipti um úrslit málsins, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Verður sakarmat héraðsdóms staðfest með skírskotun til forsendna hans.

Ákærði og kærandi þekktust ekki, þótt þau hafi vitað hvort af öðru. Engar vísbendingar eru um samdrátt þeirra í milli umrætt kvöld. Framferði ákærða gagnvart kæranda fól í sér mikla ófyrirleitni og lítilsvirðingu. Refsiákvörðun héraðsdóms þykir eiga að standa óhögguð.

Í málinu nýtur ekki gagna um andlega líðan kæranda í kjölfar þessa verknaðar utan skýrslna og dómsframburða læknis og hjúkrunarfræðings á neyðarmóttöku vegna nauðgunar. Ljóst er þó, að slíkur atburður og hér um ræðir er til þess fallinn að valda þeim, sem fyrir verður, margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Þykir bótafjárhæðin hæfilega ákveðin 400.000 krónur. Skal hún bera vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá verknaðardegi til uppsögudags héraðsdóms og dráttarvexti samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Með hliðsjón af hlutverki lögmanns kæranda við að halda fram bótakröfunni, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991, þykja bætur vegna kostnaðar af því hæfilega ákveðnar 60.000 krónur.

Í héraðsdómi er ekki að finna rökstuðning fyrir ákvörðunum um saksóknar- og málsvarnarlaun, en annar lögmaður var réttargæslumaður hans við lögreglurannsóknina. Eftir atvikum verður þó unað við ákvarðanir héraðsdómara um sakarkostnað.

Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Það athugast, að við aðalmeðferð málsins í héraði 2. mars 1988 var bókuð sú ákvörðun dómara, að ákærði skyldi víkja úr dómsal, á meðan kærandi gæfi þar skýrslu. Þessi ákvörðun var tekin að kröfu þess lögmanns, er hélt fram bótakröfu kæranda. Verjandi ákærða mótmælti en ekkert er bókað um afstöðu ákæruvaldsins. Þess er ekki getið, af hvaða ástæðu þetta var gert. Eins og atvikum í málinu var háttað er ekki nægilega fram komið, að efni hafi verið til þess að víkja ákærða úr þinghaldi með stoð í 6. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991. 

Dómsorð:

Ákærði, Haukur Ingimarsson, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði X 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. ágúst 1996 til 11. mars 1998 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði hann henni jafnframt 60.000 krónur vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfunni.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 100.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. mars 1998.

                Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara 14. janúar 1997 á hendur Hauki Ingimarssyni, kt. 270468-4979, Hátúni 12, Keflavík. Hann er sakaður um að hafa framið nauðgun, „... með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 17. ágúst 1996 á karlasalerni í veitingahúsinu Ránni, Hafnargötu 19, Keflavík, þröngvað stúlkunni [X] með ofbeldi til holdlegs samræðis.“ Þetta er heimfært til 194. gr. almennra hegningarlaga og krafist refsingar og greiðslu miskabóta til X að fjárhæð kr. 1.000.000 með dráttarvöxtum frá 17. ágúst 1996 til greiðsludags og málskostnaðar skv. reikningi.

                Við aðalmeðferð gerði sækjandi þessar sömu kröfur og krafðist að auki saksóknarlauna í ríkissjóð.

                Af hálfu X  er krafist miskabóta eins og áður getur að fjárhæð kr. 1.000.000 með dráttarvöxtum frá 17. ágúst 1996 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar samtals að fjárhæð kr. 258.960 og er virðisaukaskattur innifalinn.

                Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af refsikröfu og að miskabótakröfu verði vísað frá dómi; til vara að refsing verði ákvörðuð eins væg og lög leyfa og að miskabótakrafa kæranda verði stórlega lækkuð. Hann mótmælir málskostnaðarkröfu. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna og að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð.

                Málið var dómtekið 3. mars 1997.

                Samkvæmt skráningu lögreglunnar í Keflavík var hringt til hennar kl. 2:55 aðfaranótt laugardagsins 17. ágúst 1996. Tilkynnti þá B, kt. ..., að X  segði að sér hefði verið nauðgað. Var X flutt á lögreglustöð og fór B með í bílnum. Einar Ásbjörn Ólafsson, flokkstjóri, ræddi þar við hana og kemur þá fram sú frásögn að maður með yfirvaraskegg er keyri sjúkrabifreið í Keflavík hefði farið með hana inn á karlaklósett, klætt úr buxum og nærbuxum og komið fram vilja sínum. X var flutt fljótlega á neyðarmóttökuna á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og er skráð að hún komi þangað kl. 4:05. Hún var síðan flutt til Keflavíkur á ný og var tekin skýrsla af henni hjá lögreglunni kl. 11:23 þann sama dag.

                Í þessari fyrstu skýrslu hjá lögreglu kemur fram að X hafi farið á veitingahúsið Rána ásamt vinum sínum B og L. Henni hafi þar á staðnum fundist eins og ákærði væri að fylgjast með henni. Hún hafi þá talað við hann. Mundi hún ekki nema lítið af því sem þeim fór á milli, en maðurinn hefði beðið sig að koma með sér niður stigann. Hún hafi farið niður með honum. Hún hafi ætlað að snúa við er hún hafi séð að ákærði ætlaði inn á klósettið. Þá hafi hann tekið í hendur hennar og dregið hana inn á karlaklósettið og lokað hurðinni. Hann hafi þá spurt hvort hún vildi gera eitthvað með honum, en hún neitað. Síðan hafi ákærði byrjað að klæða hana úr skyrtunni. Hún hafi sagst ekki vilja það og reynt að komast út, en ákærði hafi komið í veg fyrir það. Þá hafi ákærði kippt niður um hana buxunum. Er hún reyndi að ná þeim upp aftur hafi ákærði snúið henni við. Hafi hann þá staðið fyrir aftan hana, dregið niður um hana nærbuxurnar og haft samfarir við hana um leggöng. Samfarirnar hafi staðið stutt, hún vissi ekki hvort hann fékk sáðlát eða nánar hvernig hann bar sig til.

                X  gaf skýrslu hjá lögreglu að nýju 23. ágúst 1996. Lýsti hún þá atvikum á sama veg í meginatriðum. Ákærði hafi átt frumkvæði að því að þau fóru niður. Hún hafi fylgt honum eftir niður stigann því hún hafi verið forvitin um hvað hann vildi tala við hana. Minntist hún þess ekki að hann hefði sagt neitt við sig fyrir framan salernin. Henni hafi sýnst svipur ákærða breytast er þau komu niður, ekki verið eins blíður á svip og hún hafi orðið smeyk. Hann hafi ýtt henni á undan sér inn á innra klósettið og lokað dyrunum og læst. Hún hafi verið of hrædd til að gera nokkuð. Síðan er lýsing hennar svipuð og í fyrri skýrslunni.

                Fyrir dómi bar X mjög á sama veg og í skýrslum hjá lögreglu. Skýrsla fyrir dómi var þó brotakenndari og kvaðst hún um mörg atriði ekki muna nákvæmlega hvernig aðstæður voru. Þá virtist hún eiga erfitt með að tjá sig um atvik. Fram kom þó skýrt að ákærði hefði þvingað hana með sér inn á salernið og dregið buxurnar niður um hana og haft síðan við hana samfarir. Þá er óljós frásögn hennar af því hvert hún fór eftir atburðinn. Hún hafi fundið L og B og talað við þau og Víði Guðmundsson, en nánari frásögn kom ekki fram.

                Ákærði var handtekinn á heimili sínu kl. 3:55 þann 17. ágúst. Hann gaf síðan skýrslu eftir dvöl í fangaklefa síðdegis þann dag. Neitaði hann þá skýrlega að hafa nauðgað kæranda og neitaði einnig að hafa haft samfarir við hana. Lýsti hann því að þau hefði farið sex saman, hann og Víðir bróðir hans ásamt konum sínum og Guðmundu Björgu Þórðardóttur og Sigfúsi Þorbjörnssyni. Þau hafi komið á Rána um hálf eitt og verið þar síðan, nema hvað þau skruppu yfir á Strikið og voru þar um hálftíma. Um kl. 2:40 hafi þau farið, fyrst á pylsuvagninn og síðan heim. Hann lýsti því í þessari skýrslu að X  hefði komið til hans á veitingastaðnum og tekið af honum hattinn. Hann hafi þá hreytt einhverjum orðum í hana. Hann hafi aldrei séð kæranda niðri við salernin. Hann kveðst hafa séð hana fyrir utan veitingastaðinn er hann fór og hafi hún þá verið hlæjandi og strákar er sátu hjá henni hafi verið að fíflast í henni. Hún hafi alls ekki virst niðurdregin.

                Fyrir dómi bar ákærði á sama veg. Hann neitaði að hafa haft samfarir við kæranda. Bar hann á sama veg og hjá lögreglu. Þau hefðu farið á Rána, eftir nokkra viðdvöl hefðu þau farið á veitingahúsið Strikið, en komið síðan aftur á Rána. Þá hafi klukkan verið 15-20 mínútur yfir tvö. Þau hefðu stoppað í 15-20 mínútur og síðan farið. Hann bar að hann hefði séð kæranda utan við Rána er hann fór og hafi hún þá verið hlæjandi. Hann hafi tekið eftir henni þar sem mágkona sín, Inga Birna Kristinsdóttir hefði stoppað og talað við kæranda. Síðan hefðu þau farið að pylsuvagninum, staldrað við fyrir framan verslunina Bústoð á leiðinni þangað, en hann síðan þurft að fara í hraðbanka hjá Sparisjóðnum eftir að þau komu á pylsuvagninn. Samkvæmt útskrift um úttektir ákærða skipti hann við hraðbankann klukkan 2:46.

                Vitnið B var á Ránni þetta kvöld. Hann hefur hjá lögreglu og fyrir dómi lýst því að hann hafi séð ákærða og X  fara saman niður stigann og skömmu síðar hafi hann farið á eftir þeim og séð á eftir þeim loka á eftir sér inni á salerninu. Það hafi ekki verið sjáanlegt að ákærði hefði þröngvað henni inn, heldur verið ákveðinn. Vitnið kvaðst hafa verið nokkra stund niðri, en farið síðan upp og eftir nokkra stund farið niður aftur og þá hafi X setið með L og verið grátandi. Hún hafi sýnilega verið í miklu uppnámi og hafi verið augljóst að eitthvað hefði komið fyrir.

                Vitnið L fór á Rána ásamt X þetta kvöld. Hún kvaðst hafa verið að dansa er X hefði komið grátandi til sín. Hún hefði verið mjög miður sín og vitnið mundi ekki hvort hún hefði sagt hreint út að sér hefði verið nauðgað.

                Auk þeirra vitna sem að framan eru talin gáfu samtals 12 vitni skýrslur fyrir dómi.

                Víðir Guðmundsson gat ekki borið um annað en að L hefði komið til sín og tjáð sér að X hefði verið nauðgað. Hann hefði farið niður og séð X sem hefði verið í mikilli geðshræringu.

                Anna María Guðlaugsdóttir og Kristín Bragadóttir störfuðu við sinn hvorn barinn á Ránni. Anna María sagði að ákærði og félagar hans hefðu haft borð ekki fjarri sínum bar. Þá hefði hún séð X á bekk utan við Rána og ekki séð neitt athugavert við hana. Kristín kvaðst hafa séð nokkrar konur, þ.á.m. X niðri fyrir framan salernin og einhver hefði verið þar grátandi.

                Kristín Sigurðardóttir, eiginkona ákærða, gaf skýrslu. Hún taldi að þau hefðu komið til baka á Rána um kl. 2:10. Hún hefði farið að dansa, en ákærði hefði staðið við barinn. Hún kvaðst síðan hafa farið niður á salernin og verið þar í 5-6 mínútur samtals, en ekki orðið vör við X þar.

                Inga Birna Kristinsdóttir, mágkona ákærða skýrði frá á sama veg og Kristín Sigurðardóttir. Hún taldi að þær hefðu farið niður um kl. 2:20, en síðan farið út um klukkan hálf þrjú. Hún kvaðst aðspurð ekki hafa verið með klukku. Þá kvaðst hún hafa séð X á bekk fyrir utan Rána er þau voru að fara og skipst á nokkrum orðum við hana. Hún hafi ekki virst neitt niðurdregin.

                Einnig gáfu Gunnlaugur Björgvinsson, Víðir Ingimarsson og Baldur Friðbjörnsson skýrslur fyrir dómi, sem ekki er ástæða til að rekja sérstaklega. Þá komu fyrir dóm Nanna Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur, og Tanja Þorsteinsson, læknir, sem starfa á neyðarmóttökunni á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Þá komu fimm lögreglumenn fyrir dóm. Lýstu allir sem að komu því að X hefði verið miður sín um nóttina. Lögreglumennirnir Hörður Óskarsson og Arngrímur Guðmundsson voru sendir að Ránni og fluttu X á lögreglustöðina og síðar á neyðarmóttökuna. Skýrðu þeir frá því að þeir hefðu verið nýkomnir inn á stöðina er útkallið kom. Á leið inn á stöðina hefðu þeir ekið Hafnargötuna og veitt athygli X sem B átti þá í einhvers konar fangbrögðum við fyrir framan Rána. Hafi hún sýnst vera ölvuð. Loks gaf prófessor Gunnlaugur Geirsson skýrslu, en framburðar hans verður getið í tengslum við frásögn af DNA-rannsóknum á sýnum.

                20. og 29. ágúst 1996 voru sýni sem tekin höfðu verið á Neyðarmóttökunni send Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði til rannsóknar. Voru þau síðan send til Rettsmedisinsk Institutt í Osló. Með bréfi 26. nóvember 1996 sendi Rannsóknarstofan greinargerð um gang rannsóknarinnar og niðurstöður. Því er lýst í þessum bréfum að rannsóknin hafi beinst einkum að blettum í nærbuxum kæranda og bómullarpinnum er notaðir voru til að leita sýna í leggöngum kæranda. Gunnlaugur Geirsson komst þá að þessari niðurstöðu: „Samkvæmt framanskráðu samrýnast (sic) niðurstöður rannsókna þeirra sem greint er frá hér að framan, að sæði það, sem fannst í leggöngum og nærbuxum kæranda hafi komið úr hinum grunaða (HI, kt:270468-4979) og er líkurnar fyrir því afar sterkar.“ Við þessar rannsóknir voru notuð til samanburðar blóðsýni er tekin voru úr ákærða og kæranda. Í bréfi Rettsmedisinsk Institutt segir að glas með blóðsýni kæranda hefði lekið í flutningnum, en fram kom í skýrslu Gunnlaugs Geirssonar að það hafi ekki haft nein áhrif á niðurstöðurnar.

                Verjandi ákærða krafðist nýrrar rannsóknar eftir að niðurstaða norsku rannsóknarinnar hafði verið kynnt ákærða. Var loks fallist á að framkvæmd skyldi ný rannsókn og var hún gerð hjá The Forensic Science Service í Wetherby í Englandi. Með bréfi dags. 6. febrúar 1998 sendi rannsóknarstofan niðurstöður sínar til Gunnlaugs Geirssonar.

                Í niðurlagi bréfsins eru dregnar ályktanir sem orðast svo í þýðingu Lúðvíks Kaaber, löggilts skjalaþýðanda:

                „1)           Það er álit mitt, að ofangreindar niðurstöður styðji með afar sterkum rökum þá fullyrðingu, að sæði það úr nærbuxum brotaþola, sem prófað var, hafi komið úr þeim karlmanni sem grunaður er í málinu.

                2)             Sæði það sem prófað var úr leggangastroki (4130) úr konunni sem fyrir brotinu varð kann einnig að hafa komið úr hinum grunaða karlmanni.“

                Við rannsóknina voru notuð þau sýni sem rannsökuð höfðu verið hjá Rettsmedisinsk Institutt og að auki nærbuxur brotaþola og einn bómullarpinni er tekinn hafði verið úr leggöngum hennar við skoðun á neyðarmóttökunni. Í álitsgerð Gunnlaugs Geirssonar segir að með með þessum niðurstöðum séu staðfestar fyrri niðurstöður um um að sæði það er fannst sé úr ákærða. Þá komi fram í bréfi Forsensic Science Service að líkur til að finna annan mann með sama DNA-mynstur (honum óskyldan) séu 1 á móti 5.000.000.

                Fyrir dómi staðfesti Gunnlaugur Geirsson framangreind bréf sín og niðurstöður. Taldi hann að í þessu máli hefði allt verið gert sem mögulegt væri til að komast að hinu sanna.

                Niðurstöður.

                Gögn og framburðir vitna og ákærða um tímasetningar á einstökum atvikum eru ekki nákvæm. Ekki er hægt að sjá í ábendingum um ferð ákærða á annan veitingastað og síðan hvenær hann hefur örugglega verið farinn af Ránni neitt sem útilokar að hann hafi haft ráðrúm til að fremja brot það sem ákært er fyrir.

                Ekkert þeirra vitna sem bera að þau hafi séð ákærða á veitingastaðnum geta leitt að því líkur að ákærði hafi ekki farið niður með X á einhverjum tíma um eða eftir klukkan tvö.

                Framburðir vitna og skýrsla neyðarmóttökunnar um ástand X renna stoðum undir þá frásögn hennar að henni hafi verið nauðgað þarna á veitingahúsinu. Framburður ákærða og nokkurra vina hans um að X hafi verið hlæjandi og virst alveg eðlileg fyrir utan veitingastaðinn verða ekki taldir sennilegir andspænis framburðum þeirra L og B, lögreglumannanna og starfsmanna neyðarmóttökunnar.

                Framburður X hefur verið staðfastur og ósamræmi hefur ekki komið fram hjá henni sem orð er á gerandi. Skýrsla hennar fyrir dómi var mjög stuttaraleg. Kann það að skýrast af því hversu langur tími er nú liðinn frá því að atburðir þeir urðu sem fjallað er hér um.

                Ákærði hefur neitað sök frá byrjun og verið staðfastur í þeirri neitun.

                Niðurstöður DNA-rannsóknanna eru báðar á þann veg að sæði úr ákærða hafi fundist í nærbuxum X. Rettsmedisinsk Institutt kemst einnig óyggjandi að þeirri niðurstöðu að í leggöngum hennar hafi fundist sæði úr ákærða. Þessar niðurstöður studdar framburði X, sem kærði atburðinn strax, framburði B er sá ákærða og X á þeim stað er X segir að ákærði hafi nauðgað sér, og þeirra er ræddu við hana um nóttina, fela í sér fulla sönnun þess að ákærði hafi framið það brot sem í ákæru er lýst. Vafi sem neitun ákærða, þröngar aðstæður á vettvangi og framburðir vitna um að ákærði hafi allan tímann verið uppi á veitingastaðnum, er svo lítill að hann verður ekki talinn marktækur gagnvart þeim gögnum sem benda mjög eindregið til sektar ákærða. Verður hann sakfelldur fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga eins og krafist er í ákæru.

                Ákærði var sektaður á árinu 1986 vegna umferðarlagabrots, en hefur annars ekki sætt refsingum. Refsingu hans verður að ákveða í samræmi við dómvenju. Framkvæmd brotsins var einföld, en ákærði er mun þyngri en X. Miklu ofbeldi var ekki beitt. Brotið og framkvæmd þess lýsir hins vegar óvenju mikilli fyrirlitningu á brotaþola. Refsing ákveðst fangelsi tvö ár.

                Skaðabótakrafa byggist á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af dómvenju um fjárhæð miskabóta vegna kynferðisbrota verða bætur til X ákveðnar kr. 475.000 er beri vexti svo sem í dómsorði greinir. Dæma ber ákærða til að greiða innheimtukostnað vegna kröfunnar. Ekki verður byggt eingöngu á málskostnaðarreikningi er lögmaður X hefur lagt fram á grundvelli þess tíma er varið hefur verið í viðræður við X og undirbúning kröfugerðar. Þykja innheimtulaun hæfileg að meðtöldum virðisaukaskatti kr. 200.000.

                Ákærða ber að greiða allan sakarkostnað. Saksóknarlaun verða ákveðin kr. 150.000, en málsvarnarlaun verjanda kr. 275.000.

                Jón Finnbjörnsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. Hann hefur farið með mál þetta frá 1. september 1997. Meðferð máls þessa hefur tekið talsvert langan tíma, að hluta til vegna tveggja DNA-rannsókna og frestana til ákvarðana um framhald málsmeðferðar er niðurstöður lágu fyrir.

Dómsorð:

                Ákærði, Haukur Ingimarsson, sæti fangelsi tvö ár.

                Ákærði greiði X kr. 475.000 með dráttarvöxtum frá 17. ágúst 1996 til greiðsludags og kr. 200.000 í málskostnað.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.á.m. kr. 150.000 í saksóknarlaun til ríkissjóðs og málsvarnarlaun Ásbjörns Jónssonar hdl., kr. 275.000.