Hæstiréttur íslands
Mál nr. 475/2003
Lykilorð
- Börn
- Kynferðisbrot
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 6. maí 2004. |
|
Nr. 475/2003. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Börn. Kynferðisbrot. Miskabætur.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum, stjúpdóttur sinni og þremur vinkonum hennar, þeim A, B og C, en neitaði sök. Framburður stúlknanna þótti trúverðugur og var X sakfelldur fyrir brot á 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga gegn stúlkunni A, en fyrir brot á 209. gr. sömu laga gegn stúlkunni B. Þá var X einnig sakfelldur fyrir brot á 209. gr. gegn stúlkunni C, með vísan til vitnisburðar og sýnilegra sönnunargagna í málinu, en brot hans gegn henni þótti sérlega gróft. Hvorki hún né stúlkan B höfðu náð 14 ára aldri, þegar brot gegn þeim voru framin. Ljóst þótti af framburði stjúpdóttur X, að hún hefði ekki upplifað snertingar hans sem kynferðislega tilburði gagnvart sér. Að því virtu og með vísan til eindreginnar neitunar X var hann sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni. Var dómur héraðsdóms um 12 mánaða fangelsi staðfestur og stúkunum A, B og C dæmdar miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. desember 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst sakfellingar samkvæmt ákæru, eins og henni var breytt við aðalmeðferð í héraði, og þyngingar á refsingu ákærða. Þá er þess krafist, að miskabótakröfur brotaþola verði að fullu teknar til greina.
Ákærði krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður. Til vara er þess krafist, að refsing verði milduð og skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta til. Þá krefst ákærði þess, að miskabótakröfum verði vísað frá dómi eða þær lækkaðar.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á sakarmat hans og ákvörðun refsingar. Þá verður staðfest úrlausn dómsins um miskabætur og sakarkostnað að öðru leyti en því, að þóknun réttargæslumanns þeirrar stúlku, sem ákærði er sýknaður af sakargiftum um að hafa brotið gegn, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því, að réttargæsluþóknun Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, þóknun réttargæslumanns B, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns C, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2003.
Mál þetta var höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 22. maí 2003 gegn
X, kt. [...],
[...], Kópavogi,
fyrir kynferðisbrot framin á þáverandi heimili ákærða að [...], Reykjavík, eins og hér greinir:
1. Laugardaginn 22. desember 2001 klipið í annað brjóst A, kt. [...], og slegið hana í rassinn.
Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 3. gr. laga nr. 40/2003.
2. Í nokkur skipti á árinu 2002 klipið í brjóst og rass stjúpdóttur sinnar, D, kt. [...].
Telst þetta varða við 2. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992.
3. Í apríl 2002 reynt að káfa innan klæða á brjóstum B, kt. [...], káfað á fótleggjum stúlkunnar og kíkt upp undir pils hennar.
Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992.
4. Að morgni sunnudagsins 10. nóvember 2002 lagst upp í rúm þar sem stúlkan C, kt. [...], lá, káfað á rassi hennar utan klæða, brjóstum og maga innan klæða, sleikt á henni brjóstin, lagst ofan á stúlkuna og reynt að klæða hana úr náttbuxum og látið hendur hennar á kynfæri sín.
Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 60.000 auk dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Af hálfu B er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 300.000 auk vaxta skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og málskostnaðar.
Af hálfu C er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og kostnaðar við réttargæslu.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu. Til vara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa sem jafnframt verði skilorðsbundin. Þá krefst hann frávísunar skaðabótakrafna A, B og C en til vara lækkunar bótakrafna. Einnig krefst hann að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun. Loks krefst hann þess að gæsluvarhald ákærða frá 10. nóvember 2002 til 19. nóvember 2002 komi til frádráttar fangelsisrefsingu ef til hennar kemur.
Réttargæslumaður brotaþolans A, Björgvin Jónsson hrl. krefst réttargæsluþóknunar sér til handa.
Réttargæslumaður brotaþolans D, Sif Konráðsdóttir hrl. krefst réttargæsluþóknunar sér til handa.
Réttargæslumaður brotaþolans B, Þórdís Bjarnadóttir hdl., krefst réttargæsluþóknunar sér til handa.
Réttargæslumaður brotaþolans C , Helga Leifsdóttir hdl. krefst réttargæsluþóknunar sér til handa.
Við aðalmeðferð málsins breytti ákæruvaldið II lið ákærunnar á þann veg að ákærði er ákærður fyrir að hafa klipið einu sinni í rass stjúpdóttur sinnar en ekki í nokkur skipti eins og í ákæru greinir.
I.
Ákæruliður 1.
Hinn 17. nóvember 2002 mætti U á skrifstofu rannsóknardeildar lögreglustjórans í Reykjavík til þess að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir meint kynferðisbrot gagnvart ólögráða dóttur hennar, A. Kvað hún dóttur sína hafa trúað henni fyrir því deginum áður að ákærði hefði áreitt hana daginn fyrir Þorláksmessu árið 2001. Greindi hún svo frá að hann hefði káfað á brjóstum hennar utanklæða, slegið sig í rassinn og fengið hana til þess að sitja í fanginu á sér. Þá hafi hann reynt að káfa á brjóstum hennar á meðan hann sýndi henni eitthvað í tölvunni af slóðinni [...]. Kærandi kvað dóttur sína hafa forðast að fara í heimsókn til D eftir þetta.
Að beiðni lögreglustjórans í Reykjavík og með vísan til a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999 voru teknar skýrslur fyrir dómi af A, B og D. Skýrslutökur af A og B fóru fram hinn 25. nóvember 2002 í Héraðsdómi Reykjavíkur en skýrsla var tekin af D 15. nóvember 2002 í Barnahúsi, allar undir umsjón dómara. Voru skýrslurnar teknar upp á myndband, sbr. 2. mgr. 74. gr. a sömu laga, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Verður framburður þeirra nú rakinn að því leyti sem hann varðar þann ákærulið sem hér er fjallað um.
Vitnið A kvaðst eiga heima að [...] á hæðinni beint fyrir neðan íbúð þar sem D vinkona hennar ætti heima. Daginn fyrir Þorláksmessu 2001 hafi hún ætlað að gista heima hjá henni. Verið var að setja upp jólatré heima hjá henni og hafi móðir hennar komið til D til að fá lánaðan jólatrésfót. Heima hjá D hafi ekki verið gervijólatré heldur alvörutré. Ákærði hefði sagt vitninu að finna muninn á gervijólatré og alvörutré og hún hafi ætlað að gera það og gengið af stað en þá hafi ákærði snúið sér við og klipið einu sinni í annað brjóst hennar utan klæða og slegið hana í rassinn. Þetta hafi gerst í stofunni að D viðstaddri en hún hafi ekki séð þetta enda upptekin við annað. Móðir vitnisins og móðir D hafi verið inni í eldhúsinu. Ákærði hafi síðan farið inn í herbergi D þar sem tölvan var og kallað á vitnið. Hann hafi endurtekið beðið hana um að setjast í kjöltu sér þar til hún hafi látið undan og sest þar og snúið baki í hann. Hann hafi þá spurt hvort hann mætti klípa í brjóst hennar en hún hafi neitað. Hann hafi reynt það með því að kippa í bolinn eins og hann hafi ætlað að kíkja undir hann en hún hafi kippt frá. Kvaðst vitnið ekki vita hvort ákærði hefði meint eitthvað með því enda hefði hann sagt að hann hefði bara verið að laga peysuna. Kvað vitnið sér hafa verið mjög brugðið við þetta. Aðspurð kvað hún D hafa komið með inn í herbergið en síðan farið þaðan út. Bræður D hafi verið sofnaðir þegar þetta gerðist.
Spurð hvort um fleiri tilvik væri að ræða þar sem ákærði komi við sögu kvað vitnið hann hafa beðið sig um að kyssa hann á kinnina í partýi eftir tiltekt í garðinum í blokkarhverfinu og hún hafi verið að fara að gista hjá S. S hafi verið inni í einni íbúðinni að tala við fólk og þá hafi ákærði sem var þar staddur beðið vitnið um að setjast hjá sér. Hann hafi beðið hana um að rétta sér vatnsblöðru, sem hún var með, og hafi hann kreist blöðruna og sagt að þetta væri typpi. Hafi S séð þetta og brugðið því vitnið hafði sagt henni frá því sem gerst hafði áður.
Vitnið kvaðst hafa gist á heimili ákærða um nóttina. Ákærði hafi þá komið á nærbuxunum og lagst ofan á sængina þeirra D til þess að vekja þær. Hafi henni fundist þetta mjög óþægilegt og reynt að færa sig frá. Hann hafi hins vegar ekkert fleira gert.
Aðspurð kvað vitnið ákærða hafa tekið myndir af henni og sett á vefslóðina [...] með hennar vitund og vilja. Hefði hann gert það oft, m.a. myndir teknar á menningarnótt, þjóðhátíð og tónleikum.
Vitnið kvaðst hafa sagt vinkonu sinni E frá þessu og síðan hafi þær B, E og S talað saman.
Vitnið D, stjúpdóttir ákærða, kvað vinkonur sínar A, B og E hafa beðið sig um að koma út í móa um sumarið 2002 til þess að ræða við sig. Þær tvær fyrstnefndu hefðu trúað E fyrir því að ákærði hefði gert eitthvað við þær og vildu þær segja vitninu frá því. Hafi þær átt mjög erfitt með að segja frá. Hafi A sagt að ákærði hefði klipið sig í brjóstið einu sinni þegar hún og móðir hennar voru heima hjá vitninu. Hefði hún verið inni í stofu ásamt A og ákærða en síðan hafi hún aðeins hlaupið inn í herbergi en ákærði hafi eitthvað verið að tala við A og þá hafi þetta átt að gerast. Kvað vitnið A hafa sagt henni að ákærði hefði spurt hvort hann mætti klípa í brjóst hennar. Hafi þær verið hlæjandi þegar þær töluðu um þetta.
Aðspurð kvað vitnið að sér hafi náttúrlega liðið illa þegar stelpurnar sögðu henni þetta í móanum en hún hafi ekki þorað að viðurkenna það fyrir framan þær.
Vitnið B kvað sig hafa rætt við vinkonu sína E sumarið 2002 um það sem að ákærði hafði gert henni og hafi hún þá sagt að vinkona sín A hefði líka lent í einhverju. Þær hafi farið nokkrum dögum síðar til A og þá hafi þær rætt þessi mál og hvað ákærði hefði gert þeim. Kvað hún A hafa sagt að hennar tilvik hafi átt sér stað um jólin 2001 og hafði tengst því að hann ætlaði að sýna henni jólatré og hann hafi klipið hana í brjóstið og slegið á rassinn á henni. Þá hafi hann beðið hana um að setjast ofan á sig og sagt, „A erum við ekki vinir” og þegar hún hafi játað því hafi hann sagt „en ekki kynferðislega”. Síðan hafi ákærði einhverju sinni lagst ofan á hana og D í nærbuxunum og hún hafi alltaf fært sig undan.
Vitnið kvað þær vinkonurnar alltaf hafa verið smeykar við ákærða þó hann hefði ekki gert neitt svona við þær áður.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.
Ákærði kvaðst muna eftir því að A hafi ásamt móður sinni verið stödd á heimili hans þann 22. desember 2001. Hafi hann verið að sýna A og dóttur sinni myndir sem hann hefði tekið af þeim í tölvunni. Kannaðist hann ekki við að A hefði setið í fanginu á honum þá. Aðspurður kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa klipið í brjóst hennar og slegið á rassinn á henni í tengslum við vangaveltur um jólatré og muninn á alvöru- og gervijólatré. Ákærði kvað A stundum hafa verið á heimili hans.
Bornar eru undir ákærða skýringar hans í lögregluskýrslu frá 19. ágúst 2002 á því hvers konar snertingu A gæti átt við í framburði sínum, þar sem hann segir að hún hafi haldið utan um hann þegar hún hafi setið fyrir aftan hann á mótorhjóli. Kvað ákærði það vera það eina sem honum hafi komið í hug.
Aðspurður kvaðst ákærði muna eftir garðveislu í blokkinni sumarið 2002 en hann muni ekki eftir því sem A segði frá.
Lögregluskýrsla var fyrst tekin af ákærða hinn 19. ágúst 2002 vegna ætlaðra kynferðisbrota gagnvart vitninu á Þorláksmessu 2001 og neitaði hann sök. Kvaðst hann ekki minnast þess sem stúlkan héldi fram. Hann kvaðst ekki hafa snert á henni brjóstin þó það gæti vel verið að hann hefði einhvern tímann slegið hana í rassinn. Þá neitaði hann því alfarið að hún hefði setið í fangi hans þó það gæti staðist að hann hafi sýnt henni myndir á [...]. Við þingfestingu málsins neitaði ákærði alfarið sök.
Vitnið H, sambýliskona ákærða, kvaðst muna eftir 22. desember 2001 en þá hafi móðir A setið inni í eldhúsi hjá henni og svo hafi ákærði verið að skoða myndir á tölvunni með A og D. Þau hafi verið í stofunni en tölvan hafi verið þar í einu horninu. Aðspurð kvað hún sitt jólatré ekki hafa verið sett upp þennan dag enda hafi það um árabil alltaf verið gert á Þorláksmessu. Kvaðst hún ekki hafa heyrt að neitt óeðlilegt hafi verið í gangi þar í stofunni.
Aðspurð kvað vitnið A vera mikið á heimilinu og hafi þær stelpurnar þvælst á milli. Spurð hvort komum A hafi fækkað eða hætt þeim eftir desember 2001 kvaðst vitnið halda að A hefði komið á heimilið eftir þann tíma.
Vitnið E kvað A hafa komið til sín um jólin 2001 og hefði sagt við hana að ákærði hefði verið dónalegur við hana og káfað á brjóstum hennar og rassi. Hann hafi líka beðið hana um að setjast ofan á sig en hún hafi ekki gert það. Hafi A ekki gist þar eftir þetta en hún haldi að hún hefði farið þangað nokkrum sinnum. Kvaðst hún ekki muna nákvæmlega hvenær þetta var um jólin.
Vitnið kvaðst hafa verið með A í garðpartýinu og hefði hún verið með vatnsblöðru. Ákærði hafi beðið um blöðruna og sagt að hún væri eins og typpi. Kvaðst henni alltaf hafa fundist ákærði eitthvað „spúkí.”
Vitnið S kvað A hafa sagt henni frá því að einhvern tíma rétt fyrir jólin 2001 hefði hún gist hjá D og ákærði hafi verið að drekka eitthvað. D hefði farið eitthvað í burtu og þá hafi hann klipið í brjóstið á henni og slegið hana í rassinn. Síðan hafi hann alltaf verið að biðja hana um að setjast hjá sér. Hafi henni fundist þetta mjög óþægilegt. Aðspurð kvað hún hana hafa sagt sér frá þessu nokkrum dögum eftir jólin 2001.
Varðandi garðpartý kvað hún A og D hafa ætlað heim til hennar og hafi ákærði þá alltaf verið að biðja þær um að setjast hjá sér og kyssa sig.
Vitnið U, móðir A, kvað sér fyrst hafa verið kunnugt um þetta mál þegar lögreglan hringdi til þess að upplýsa hana um hvað hefði komið fyrir C vinkonu þeirra og að í viðtali við hana hefði komið fram að A hefði orðið fyrir einhverju áreiti. Hún hefði því sest niður hjá henni og talað við hana og hefði hún þá brotnað niður og sagt henni frá tilviki sem hefði átt sér stað á heimili ákærða daginn fyrir Þorláksmessu árið 2001. Kvað hún hann hafa sýnt henni tölvuefni og beðið hana um að sitja í fanginu á sér og spurt hvort hann mætti snerta brjóstin á henni en hún hefði neitað. Hann hefði samt sem áður snert annað brjóstið en hún hefði varið sig með höndunum. Þá hafi hann verið með talsmáta sem henni hafi fundist óþægilegur. Einnig hafi hann slegið í rassinn á henni og spurt hana hvort hann mætti snerta hana á stöðum sem henni líkaði ekki.
Aðspurð kvaðst hún hafa verið að setja upp jólatré hjá sér en vantað jólatrésfót undir tréð og því leitað til þeirra á efri hæðinni og sat hún þar einhverja stund um kvöldið. Nánar spurð kvaðst vitnið ekki muna nákvæmlega hvort að A hefði talað um uppsetningu á jólatré. Hennar eigið tré hefði farið upp þetta kvöld. Þá muni hún ekki eftir því að hafa farið inn í stofu. Hún hafi setið inni í eldhúsi og hafi ákærði og H verið að drekka en hún hafi afþakkað drykk. A hefði gist þarna um nóttina en tjáð henni síðar að hún hefði ekki kunnað við annað en að taka boði D þótt henni hefði liðið illa. Eftir að þetta gerðist hafi hún helst ekki viljað gista þarna en vitnið kvaðst þó stundum hafa ýtt á hana að gera það því D hafi oft verið að passa yngri bræður sína. Hafi A oft sagst ekki nenna því en það hefði verið mjög ólíkt henni vegna þess að þessi vinkvennahópur hafi verið mjög sterkur og samheldinn og þeim hefði þótt gaman að gista hver hjá annarri. Hafi verið mjög áberandi að A forðaðist heimili D.
Spurð hvort vinkonurnar hefðu kvartað undan háttsemi ákærða áður en þetta gerðist kvaðst vitnið aðeins hafa heyrt þær tala um það sín á milli að hann væri svo perralegur, að hann talaði svo perralega þegar hann væri drukkinn en aldrei hefðu fylgt neinar skýrAr á því.
Aðspurð kvað hún það vera rétt að A hefði farið með ákærða á mótorhjól eftir þetta atvik. Hún hafi sjálf staðið á tröppunum í það sinnið og horft á þau fara nokkra hringi.
Niðurstaða
Ákærði og vitnin H og U muna eftir kvöldinu sem hér um ræðir, 22. desember 2001, og að A og D hafi þá verið saman á heimili ákærða og að hann hafi verið að sýna stúlkunni myndir á tölvunni. Stúlkan hefur lýst því að ákærði hafi klipið einu sinni í brjóst hennar og slegið á rassinn á henni í stofunni. Stúlkan kvað D hafa verið í stofunni en ekki tekið eftir því sem gerðist. Mæður stúlknanna hafi verið í eldhúsinu en þær hafa báðar borið um að hafa setið þar og spjallað. Vitnið D hefur borið hér fyrir dómi að A hafi sagt henni að ákærði hefði spurt hvort hann mætti klípa í brjóstið á henni.
Engum vitnum er til að dreifa sem sáu ákærða snerta stúlkuna í stofunni eins og í ákæru greinir. Hins vegar greindi stúlkan tveimur góðum vinkonum sínum, vitnunum E og S, frá áreiti ákærða skömmu síðar. Báru þær á sama veg hjá lögreglu og hér fyrir dómi um þetta atriði. Rennir framburður þeirra stoðum undir frásögn A svo og framburður B og D um umræðuefni stúlknanna þegar þær hittust í móanum hjá Borgarholtsskóla sumarið 2002. Eins og rakið hefur verið greindi stúlkan móður sinni, vitninu U, frá því sem gerst hafði seinna. Kvað U dóttur sína hafa forðast heimili ákærða eftir atburðinn og fær það nokkra stoð í framburði E sem bar að stúlkan hefði ekki gist þar eftir að þetta gerðist.
Ákærði hefur neitað sakargiftum en bar hjá lögreglu að það gæti vel hugsast að hann hefði einhvern tíma slegið stúlkuna í rassinn.
Framburður A er í heild sinni trúverðugur en dómarar málsins horfðu á myndbandsupptöku af skýrslutöku af henni. Ljóst er að henni þótti háttalag ákærða óþægilegt. Þá lýsti hún einnig tilviki sem átti sér stað morguninn eftir sem henni þótti óeðlilegt. Fann stúlkan þörf hjá sér til þess að ræða um það sem gerðist við vinkonur sínar. Framburður þeirra er að mati dómsins einnig trúverðugur.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykir hafið yfir allan vafa að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn stúlkunni. Ákærði er því sakfelldur fyrir brot það sem í ákæru greinir, þrátt fyrir neitun sína, og er brotið réttilega fært til refsiákvæðis í ákæru.
Ákæruliður 2.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu dagsettri 10. nóvember 2002 fór lögreglan að [...] þar sem C varð fyrir ætluðu kynferðisbroti þann sama morgun. Var ákærða kynnt sakarefnið og síðan færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Á heimilinu var eiginkona ákærða og tveir synir þeirra. Þar segir að D, stjúpdóttir ákærða, hafi komið heim stuttu síðar og brugðið mjög við að sjá lögreglu á heimilinu. Ræddi skýrsluritari, Kristján Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður, við hana og tjáði henni að ákærði væri grunaður um kynferðisbrot gagnvart C sem hafði gist þar nóttina áður. Greindi hún honum þá frá því að hún hefði orðið fyrir áreitni af hálfu ákærða. Hann hefði klipið í brjóst hennar, auk þess sem hann hefði skriðið upp í rúm til hennar. Vildi hún ekki skýra frá þessu frekar, en kvað sér hafa liðið mjög illa yfir þessu.
Með bréfi Maríu Kristjánsdóttur félagsráðgjafa hjá Miðgarði, fjölskylduþjónustunni í Grafarvogi, til lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettu 11. nóvember 2002, var þess farið á leit að fram færi lögreglurannsókn vegna hugsanlegs kynferðisbrots ákærða gagnvart D sem þó hafði ekki greint frá refsiverðu athæfi.
Í málinu liggur fyrir vottorð Jóns R. Kristinssonar barnalæknis og Þóru F. Fischer kvensjúkdómalæknis sem skoðuðu D. Skoðunin leiddi ekkert óeðlilegt í ljós.
Eins og rakið hefur verið fór skýrslutaka af D fram í Barnahúsi 15. nóvember 2002. Þá fóru skýrslutökur af A og B fram í Héraðsdómi Reykjavíkur, allar með vísan til a.-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Verður framburður vitnanna nú rakinn að því leyti sem hann varðar þann ákærulið sem hér er fjallað um.
Vitnið D kvað ákærða hafa verið stjúpföður sinn frá 3 ára aldri. Hún kvaðst ekki muna glögglega eftir deginum þegar lögreglan var við rannsóknarstörf á heimili hennar. Aðspurð kvað hún ekkert hafa komið fyrir hana. Þegar ákærði hafi klipið hana í brjóstin hafi það alltaf verið í „djóki”, utanklæða, einungis til þess að segja að hún væri að fá brjóst og stækka. Þá hafi alltaf einhver verið viðstaddur, annað hvort móðir hennar eða amma. Aðspurð kvað vitnið þetta ekki hafa gerst oft, kannski fjórum til fimm sinnum. Nánar spurð kvað vitnið sér ekki hafa fundist þetta þægilegt. Henni fyndist þetta náttúrulega alltaf óþægilegt. Ákærði hafi kannski klipið einu sinni í rassinn á henni og sagt að hún væri að stækka en þetta hafi aldrei gerst nema einhver annar hafi verið viðstaddur. Hafi þetta gerst á heimili hennar eða hjá ömmu hennar. Þá hafi hún yfirleitt verið í stuði, hoppandi út um allt og foreldrar hennar á leið út.
Um spjall hennar við vinkonur sínar A, B og E, sem vísað er til í ákæruliðnum hér á undan, kvað vitnið þær hafa hringt í hana og beðið hana að hitta sig úti í móa til þess að ræða við hana. Hafi þær sagt henni frá þessu með ákærða. Aðspurð kvaðst vitnið ekki vera viss hvort ákærði hefði gert nokkuð við hana á þessum tímapunkti en þó það gæti samt verið. Taldi hún það hafa gerst annað hvort á árinu 2002 og hugsanlega eitthvað smá í fyrra.
Vitnið var spurð hvers vegna hún hafi ekki sofið í herbergi sínu undanfarnar þrjár vikur eins og móðir hennar greindi frá í lögregluskýrslu. Kvað hún það vera vegna þess að hún væri mjög myrkfælin og hrædd við drauga enda farið að dimma. Henni liði stundum illa að vera einni og fengi þá að gista inni hjá bræðrum sínum. Þá var borinn undir hana framburður móður hennar hjá lögreglu um að hún hefði heyrt vitnið segja við ákærða inni á baðherbergi að hann ætti að vera með hausinn hinum megin við tjaldið. Kvaðst vitnið vera mjög spéhrædd og segði hún þetta við alla, t.d. þegar einhver kæmi inn til að pissa eða ákærði til að raka sig. Hefði hún vanalega ólæst þegar hún færi í sturtu eða bað en móðir hennar hafi beðið hana um það þar sem aðrir í fjölskyldunni gætu þurft að fara á klósettið.
Aðspurð kvað vitnið ákærða aðstoða hana við að þrífa á sér bakið en þar og á bringunni væri hún nokkuð bólótt. Þá hafi ákærði einu sinni þrifið á henni bringuna. Fannst henni í lagi að hann þrifi á henni bakið en ekki bringuna og vildi hún því gera það sjálf.
Vitnið var spurð hvort ákærði hefði komið inn í herbergi hennar á næturnar en hún neitaði því. Hann hafi stundum komið inn í herbergið þegar hún væri að horfa á sjónvarp og legðist upp í rúm við hlið hennar til að horfa á. Reyndar fyndist henni það óþægilegt þó ákærði ætti ekki í hlut, heldur hver sem er, jafnvel vinkonur hennar en hún segði þeim bara ekki frá því. Þetta væri einhver óþægindatilfinning sem hún réði ekki við. Aðspurð kvað vitnið fleiri sjónvörp í íbúðinni og myndbandstækið væri fært á milli og tengt við þau.
Í skýrslu stúlkunnar hjá lögreglu, dagsettri 10. nóvember 2002, bar hún að ákærði klipi stundum í brjóst hennar og rass. Hann hafi byrjað á því á árinu 2002 eða árið þar áður. Kvað hún ákærða hafa sótt í að fá að koma upp í rúm til hennar að horfa á myndbandspólur eða DVD-myndir en þá hafi hún yfirgefið herbergið þar sem henni hafi fundist óþægilegt þegar hann legðist upp í rúm til hennar.
Vitnið A kvað þær vinkonurnar B, E og S hafa ákveðið í framhaldi af samtali sínu, sem vísað er til í ákærulið 1., að fara til Kollu og segja henni frá þessu líka. Þær hafi verið vissar um að ákærði hefði gert henni eitthvað enda hefði vitnið séð ákærða einu sinni klípa í brjóst hennar og hlæja. Stúlkurnar hafi hist í móanum við Borgarholtsskóla og E hafi ein haft kjark til að segja henni frá þessu og þá hafi hún farið að hlæja. Hún hafi sagt að ákærði klipi hana í brjóst og rass í „djóki”. Þetta hafi verið stutt samtal því D hafi þurft að fara heim.
Vitnið B kvaðst hafa hitt A ásamt E vinkonu sinni til þess að ræða það sem ákærði hefði gert henni og B. Síðan hafi þær ákveðið að ræða við D því þær hafi verið hræddar um að hann hefði gert henni eitthvað. Hefðu þær hitt hana og sagt henni frá þessu en hún hefði ekki vitað hvernig hún átti að taka þessu. Þegar þær hafi spurt hana hvort ákærði hefði gert eitthvað hafi hún sagt, „nei ekkert þannig, hann hefur kannski eitthvað slegið á rassinn á mér og káfað á brjóstunum í djóki”. Skömmu síðar hafi bæst í hópinn.
Vitnið kvað þær A hafa ætlað að kæra ákærða en ekki þorað það vegna D. Ákærði ætti fjölskyldu og þetta yrði erfitt fyrir D og hún yrði fúl. E hafi hins vegar hvatt þær mjög til þess að kæra og sagðist myndu segja foreldrum þeirra frá þessu ef þær gerðu ekkert sjálfar.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna hér fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.
Ákærði kvaðst aðspurður einu sinni hafa togað í peysu D og sagt henni að hún þyrfti að fara að kaupa sér brjóstahaldara. Þá hafi þau verið inni í eldhúsi og móðir hennar við hliðina á honum. Borinn var undir hann framburður hans hjá lögreglu 16. nóvember 2002 á þá leið „að hann hafi verið að stríða henni með því að snerta brjóst hennar utanklæða”. Kvað ákærði það sennilegra að hann hefði togað í peysuna. Í þessu hafi ekki verið falið neitt kynferðislegt. Aðspurður kvað hann það rangt að um 4-5 tilvik væri að ræða.
Ákærði kvaðst margoft hafa sofið í rúmi stúlkunnar þegar hún hefði sofið annars staðar en þau hafi aldrei sofið þar saman..
Spurður um [...] kvað ákærði það vera vefsíðu sem hann eigi, þó hann forriti hana ekki sjálfur. Þar sé að finna myndir úr skemmtanalífinu. Hann taki myndirnar ásamt fleirum. Aðspurður kvaðst hann hafa tekið myndir af stjúpdóttur sinni og vinkonum hennar sem hafi farið inn á þessa síður. Þetta hafi verið venjulegar andlitsmyndir teknar á tónleikum FM-95,7.
Þá var ákærði spurður hvort hann myndi eftir ferð í Húsafell sumarið 2002 í hjólhýsi fjölskyldunnar þegar M, vinkona D var með í för. Hafi eiginkona ákærða verið að skamma hann fyrir að vera alltaf að káfa á ungum stúlkum og taka af þeim myndir. Ákærði kvað það geta verið að M hafi verið með í för en kvaðst ekki muna eftir rifrildi við konu sína.
Lögregluskýrsla var tekin af ákærða 10. nóvember 2002 og neitaði hann alfarið sök. Þá var lögregluskýrsla tekin af honum hinn 16. nóvember 2002 og bar ákærði þá í meginatriðum á sama veg og fyrir dómi um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir. Kvaðst hann ekki rengja framburð dóttur sinnar. Aðspurður kvaðst hann einu sinni hafa stungið höfði sínu inn í sturtuna til hennar til þess að bleyta hár sitt sem hafi verið allt í óreiðu en það hafi ekki verið gert í kynferðislegum tilgangi. Við þingfestingu málsins neitaði ákærði alfarið sök.
Vitnið, H, kvaðst aðspurð í eitt skipti hafa séð ákærða fíflast í dóttur hennar og þá hafi þau öll þrjá verið inni í eldhúsi. Aðspurð kvað vitnið það geta verið að þetta hafi verið sama tilvik sem stúlkan talaði um þegar amma hennar var viðstödd. Kvað hún D hafi verið eitthvað að dingla sér og dilla og hafi verið eitthvað að leika bæði við ákærða og hana með því að hanga á þeim og faðma þau. Þá hafi ákærði klipið í brjóstið og sagt D að koma sér inn í herbergi. Taldi hún þetta í mesta lagi hafa gerst tvisvar en hún haldi þó bara einu sinni. Borið er undir vitnið brot úr lögregluskýrslu sem tekin var 10. nóvember 2002 þar sem haft var eftir henni, „að hann hafi stundum verið að fíflast í henni með því meðal annars að klípa í brjóstin á henni”. Aðspurð kvaðst vitnið hafa verið í sjokki þegar skýrslan var tekin og sé ekki rétt að draga þá ályktun að um mörg skipti hefði verið að ræða.
Vitnið kvað dóttur sína vera mjög myrkfælna og kvað hana alltaf hafa verið mikið fyrir að sofa hjá bræðrum sínum eða inni hjá vitninu þegar faðir hennar hafi verið erlendis. Borið er undir vitnið það sem vitnið segir um svefnvenjur dóttur sinnar, „reyndar gerðist það um daginn að hún hafi tekið upp á því að vilja ekki sofa inni í herberginu sínu heldur inni hjá bræðrum sínum”. Kvað vitnið þetta eiga sér eðlilegar skýringar því að stúlkan hefði fengið hálfgerða maníu eftir að hún leitaði til konu á Langholtsveginum vegna erfiðleika með annan sona sinna. Konan hafi gert athugasemdir við að D hefði margar myndir af ókunnu fólki hangandi inni í herbergi sínu. Taldi vitnið það vera ástæðu þess að stúlkan kallaði herbergið sitt „ógeðslegt” þegar hún var í viðtali hjá félagsþjónustunni Miðgarði.
Um samband ákærða og stúlkunnar kvað vitnið þau hafa verið góða vini. Hún hafi fengið að fara með honum í erindum vegna vinnu hans og jafnvel fengið að bjóða vinum með eða öllum skólanum eins og til dæmis þegar farið var á tónleika. Hafi stúlkan verið mjög ánægð með það en hins vegar hafi ríkt mikil afbrýðisemi í garð hennar hjá hinum stelpunum.
Varðandi notkun á baðherberginu benti vitnið á að þau væru fimm í fjölskyldu og því væri ekki hægt að læsa að sér þegar verið væri í baði eða á klósettinu. Eflaust hafi komið fyrir einhverju sinni að ákærði hafi rakað sig á meðan stúlkan var í baði.
Vitnið kvaðst aðspurð muna eftir ferð í Húsafell sumarið 2001 þegar M var með í för og að vel gæti verið að hún hefði þá rifist við ákærða og einnig gæti verið að hún hefði sett út á myndatökur hans af stúlkum fyrir vefinn. Hún hafi hugsanlega verið ergileg vegna myndavélarinnar sem væri með í för hvert sem þau færu. Hins vegar hefði hún aldrei nefnt káf á stúlkum.
Vitnið Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður kvað D hafa komið heim á meðan á vettvangsrannsókn stóð. Hún hafi komist í mikið uppnám og greint sér frá því að ákærði hefði stundum skriðið upp í rúm til hennar og stundum klipið í brjóstin á henni. Hafi hann spurt hana að þessu og sagt henni að C hefði haft orð á þessu þegar skýrsla var tekin af henni. Aðspurður kvað hann stúlkuna hafa verið mjög auma yfir þessu og komist í mikla geðshræringu.
Vitnið M kvaðst hafa farið í útilegu í Húsafell sumarið 2001 með D og fjölskyldu hennar. Kvað hún ákærða og konu hans hafa rifist um að hann ætti ekki að káfa á ungum stelpum. Hafi hún átt að vera sofandi þegar hún heyrði þetta. Spurð um hvort hún myndi eftir einhverju öðru sérstöku varðandi heimilislíf þeirra, kvað vitnið D ganga um á g-strengnum fyrir framan ákærða og þá hafi ákærði kallað á hana þegar hann væri í baði til þess að láta hana rétta sér hluti. Einnig kvaðst hún hafa séð ákærða sofandi í rúmi hennar en D hafi verið frammi. Einn morguninn þegar hún vaknaði heima hjá henni eftir að hafa gist hafi ákærði verið búinn að taka mynd af þeim til þess að sýna þeim hvernig þær litu út sofandi.
Vitnið E kvaðst hafa rætt áreitni ákærða við D sumarið 2002 í móanum við Borgarholtsskóla. Þar hafi einnig verið A, B, S og K að hana minni. Hafi A og B ekki þorað að tala um þetta við D svo að hún hefði gert það.
Vitnið S kvað vinkonurnar hafa rætt við D í móanum hjá Borgarholtsskóla um það sem kom fyrir A og B því þær hafi verið hræddar um hana. D hafi sagt ákærða vera að grínast þegar hann gerði þetta. Hafi E tekið af skarið og byrjað að tala um þetta því hinar hefðu ekki þorað og síðan hafi þær allar talað um þetta.
Aðspurð kvað vitnið U dóttur sína, A, hafa sagt sér frá því, eftir að þeim hafði verið tilkynnt af lögreglu hvað kom fyrir C, að hún hefði séð ákærða klípa í brjóstin á D. Hafi A einnig sagt henni að þær vinkonurnar hafi hitt D til að ræða þetta við hana. Hefði hún lýst viðbrögðum hennar þannig að hún hefði farið að hlæja og farið hjá sér.
Niðurstaða
Eins og vikið er að í málavaxtalýsingu kom D heim til sín 10. nóvember 2002 eftir að lögreglan var komin á vettvang. Komst hún við það í mikið uppnám og greindi hún vitninu Kristjáni frá því að ákærði hefði áreitt hana með því að klípa hana í brjóst og rass eins og rakið er í frumskýrslu. Við skýrslutöku hjá lögreglu þann sama dag hélt hún sig við þann framburð og nefndi tilvik þar sem ákærði hefði komið í svefnherbergi hennar og henni fundist það óþægilegt.
Hér fyrir dómi hefur stúlkan borið að ákærði hafi klipið hana í brjóstin utanklæða í „djóki”. Nefndi hún í þessu sambandi 4-5 tilvik og eitt tilvik þar sem ákærði hefði klipið hana í rassinn. Hafi þetta aldrei gerst án þess að aðrir væru viðstaddir. Stúlkan lýsti því fyrir dómi að henni fyndist þó alltaf óþægilegt þegar ákærði klipi í brjóstin á henni. Varðandi tilvik í svefnherbergi hennar þegar hún horfði á myndband kvað hún óþægindatilfinningu sína ekki einskorðaða við ákærða.
Vinkonur stúlkunnar, E, A, B og S, hafa allar borið um viðbrögð D þegar þær gengu á hana í móanum við Borgarholtsskóla. Hafði A orðið vitni að skipti þegar ákærði kleip stúlkuna í brjóstið og greindi hún frá því fyrir dóminum. Staðfesti móðir hennar, vitnið U, þessa frásögn hennar.
Ákærði hefur neitað sök. Hann kannast aðeins við eitt tilvik þar sem hann togaði í peysu hennar í gríni og taldi það sennilega rangt sem haft væri eftir honum í lögregluskýrslu um snertingu utanklæða. Fær framburður hans stoð af vitnisburði eiginkonu hans, vitnisins H, sem nefndi eitt tilvik en þá hefði ákærði klipið í brjóst stúlkunnar í gríni og lýsti gáskafullu ati stúlkunnar í þeim. Samræmist sú frásögn hennar vitnisburði stúlkunnar um hegðan hennar gagnvart þeim þegar hún væri „í stuði”.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er ljóst af framburði stúlkunnar að hún upplifði ekki snertingar ákærða sem kynferðislega tilburði gagnvart sér. Vitnisburðir vinkvenna hennar og móður renna stoðum undir það. Ljóst er að það hefur komið illa við hana þegar vinkonurnar töluðu sín á milli um áreitni stjúpföður hennar í garð þeirra og ræddu það síðan við hana. Ekkert hefur komið fram sem gefur ástæðu til að ætla annað en að viðbrögð hennar hafi verið einlæg og eðlileg við þessar aðstæður. Að þessu virtu og gegn eindreginni neitun ákærða þykir ekki nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Verður hann því sýknaður af þessum ákærulið.
Ákæruliður 3.
Hinn 17. nóvember 2002 kom L á skrifstofu rannsóknardeildar lögreglustjórans í Reykjavík til þess að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir ætlað kynferðisbrot gegn ólögráða dóttur hennar B. Í skýrslunni er haft eftir kæranda að B hafi trúað henni fyrir því daginn áður að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða. Atvikið hafi átt sér stað um helgi í apríl 2002 á heimili ákærða þegar B gisti yfir nótt hjá D. Hefði hún verið nýbúin að kaupa sér pils fyrir fermingarpeningana sína og mátað pilsið fyrir D. Ákærði hefði kallað á B inn í svefnherbergi sitt, lyft upp pilsinu og kíkt á klof hennar. Stúlkurnar hafi steikt egg fyrir ákærða síðar um kvöldið en þá hefði ákærði faðmað B að sér og káfað á brjóstum hennar utanklæða. Hann hefði síðan strokið henni á innanverðum lærunum.
Eins og rakið hefur verið fóru skýrslutökur af vitnunum B og A fram í Héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til a.-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Skýrslutaka af D fór fram í Barnahúsi. Verður framburður þeirra nú rakinn að því leyti sem hann varðar þann ákærulið sem hér er fjallað um.
Vitnið B kvaðst hafa gist heima hjá D 6. apríl 2002. Mamma D hafi ætlað í afmæli um kvöldið en pabbi hennar hafi verið búinn að vera á fylleríi kvöldið áður og hafi ekki komið heim fyrr en klukkan 4 þennan dag. Aðspurð kvað vitnið hann hafa verið frekar fullan þegar hann hafi komið heim. Hafi hún dregið þá ályktun vegna þess að hann hafi látið öðruvísi en vant var. Hann hafi farið í rúmið að sofa því hann hefði ekki sofið neitt allan sólarhringinn. Þá hafi hann kallað á D og beðið hana að gefa sér að borða. Hafi vitnið hjálpað til og þær hafi síðan fært honum matinn. Þá hafi þær ætlað aftur inn í herbergi en ákærði hafi kallað á vitnið og beðið hana um að leggjast hjá sér en hún hafi setið með bakið í hann. D hafi ekki verið í herberginu þá. Hann hafi þrýst sér nær henni og byrjað að troða hendinni inn undir bol hennar. Hafi hún þá fært sig en hann endurtekið þetta. Kvaðst vitnið þá hafa tekið hönd hans frá og kallað „X” og farið í burtu. Nánar spurð kvað vitnið ákærða hafa troðið hendinni inn á brjóstið á henni utanklæða því hún hafi verið með hendina fyrir. Ákærði hafi verið fyrir aftan hana og farið með höndina yfir hana og troðið hönd sinni inn á milli. Hann hefði síðan kallað á hana að nýju og beðið hana um að taka bakkann og hún hafi farið með allt inn í eldhús. Aðspurð kvað vitnið móður D hafa verið farna út þegar þetta gerðist.
Vitnið kvaðst hafa keypt sér pils og mátað það í herbergi D. Hún hafi farið á klósettið og því gengið fram hjá herbergi ákærða. Á leiðinni til baka hafi ákærði kallað á hana og spurt hvort hún hafi verið að fá sér pils. Hún hafi játað því og ætlað að fara burt en hann hefði sagt henni að koma nær svo hann gæti séð pilsið. Hún hafi þá gengið upp að rúminu og sýnt honum pilsið og hann hafi tekið í fætur hennar og þreifað á þeim allan hringinn. Síðan hafi hann lyft upp pilsinu og kíkt undir það. Kvað vitnið pilsið hafa verið útvítt og því auðvelt að kíkja undir það. Hafi hún þá gripið í pilsið og hlaupið inn til D en ekkert sagt við hana.
Ákærði hafi þá kallað á D og skömmu síðar hefði hún kallað á vitnið. Þegar vitnið kom inn í herbergið hafi D setið á rúminu hjá ákærða og sagt við hana að hún hafi verið að segja ákærða að vitnið hefði keypt sér nýjan naflalokk og að hann vildi sjá hann. Hafi hún sýnt ákærða naflalokkinn en þá hafi hún verið komin í peysu yfir hlýrabolinn sem hún hafi verið í áður. Nánar spurð um klæðaburð hennar kvaðst vitnið hafa verið í hlýrabol og náttbuxum. Vitnið kvað ákærða hafa spurt hana hvort hana kitlaði einhvers staðar og þegar hún hafi svarað því neitandi hafi hann farið að troða hendinni undir peysuna og reynt að kitla hana í handakrikanum. Hafi henni þá ekki liðið vel. Þá hafi ákærði beðið þær D um að nudda sig en D hafi sagt að þær ætluðu að gera eitthvað skemmtilegt saman. Aðspurð kvað vitnið ákærða hafa verið klæddan í boxernærbuxur. Kvað hún sér hafa liðið mjög illa yfir þessu og hafi ekki einu sinni þorað fram til að bursta í sér tennurnar. Kvaðst vitnið hafa velt fyrir sér að fara til E vinkonu sinnar sem byggi rétt hjá en hún hafi ekki þorað það. Aðspurð kvað vitnið klukkuna hafa verið um 5 þegar þær tóku til matinn fyrir ákærða. Þær hafi ætlað að hafa það huggulegt við að horfa á myndband og borða snakk í herbergi D og því hafi hún verið háttuð svona snemma.
Vitnið kvaðst ekki hafa farið til D eftir þetta. Hún hafi ekki einu sinni farið í ferminguna hennar því hún hafi ekki viljað hitta ákærða. Hún hafi þó hitt D eftir þetta. Vitnið kvaðst fyrst hafa greint E vinkonu sinni frá því sem gerst hafði nokkrum mánuðum síðar en hún væri besta vinkona sín. Nánar spurð kvað vitnið þetta hafa verið um sumar áður en skólinn byrjaði og þær hafi verið staddar í strætóskýli. E hafi þá sagt henni að A vinkona hennar hefði einnig lent í þessu.
Aðspurð kvaðst vitnið kannast við að ákærði hefði tekið myndir af henni og vinkonum hennar, til dæmis á tónleikum, en um hafi verið að ræða venjulegar myndir.
Vitnið A kvaðst hafa rætt við B og E um það sem gerst hafði. Einnig hafi þær ákveðið að segja D frá því sem gerðist og hittust þær í móanum ásamt S. Hefur þetta verið rakið áður í tengslum við ákærulið 2. Aðspurð kvað vitnið ákærða hafa kíkt undir pils B og beðið hana um að leggjast eftir að hann kallaði á hana inn í herbergi. Kvaðst vitnið halda að hann hafi klipið í brjóstin á henni líka.
Vitnið D kvað þær vinkonurnar hafa hist í móanum sumarið 2002 og hafi stelpurnar ætlað að ræða eitthvað við hana eins og rakið er í tengslum við ákærulið 2. Hafi B ekki náð að segja henni frá en E hafi verið þarna með þeim og kvaðst vitnið vita til þess að þær hefðu rætt við hana áður um þetta og hafi það einnig verið eitthvað varðandi B.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna hér fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.
Ákærði kvað B hafa búið á hæðinni fyrir ofan þau á þessum tíma. Aðspurður kvað hann hana stundum hafa komið niður. Borinn er undir ákærða framburður stúlkunnar um að hann hafi komið ölvaður heim hinn 6. apríl 2002. Kvað ákærði það sennilega vera rangt því hann drykki yfirleitt ekki á daginn og væri því líklegra að þetta hefði verið að morgni einhverju sinni eftir að hann hefði verið að skemmta sér. Dóttir hans hafi komið inn til hans og farið að gantast eitthvað í honum og svo hafi B komið og sest á rúmið og aðstoðað við að kitla hann. Spurður að því hvort hann hefði kitlað stúlkurnar til baka kvaðst vitnið hafa varið sig. Kvaðst hann telja að hann hefði verið klæddur í náttslopp og nærföt.
Aðspurður kvaðst ákærði muna eftir fermingarpilsi sem B hefði keypt sér og sýnt honum. Neitaði hann að hafa kíkt undir pilsið en dóttir hans hefði verið inni í herberginu þegar þetta gerðist.
Lögregluskýrsla var fyrst tekin af ákærða 19. nóvember 2002 og neitaði hann þá sök. Kvaðst hann ekki minnast þess að hafa horft á B þegar hún skipti um föt og kvaðst ekki hafa kíkt undir pils hennar. Þá kvaðst hann aldrei hafa káfað á henni í kynferðislegum tilgangi né snert á henni brjóstin. Kvað hann það geta verið að hann hefði beðið B og D um að nudda bak sitt. Við þingfestingu málsins neitaði ákærði alfarið sök.
Vitnið H kvað aðspurð B hafa komið oft á heimili hennar. Í apríl 2002 hafi dregið úr heimsóknum hennar enda hafi hún þá verið flutt í efra Breiðholt. Vitnið kvaðst ekki geta með fullri vissu sagt til um það hvort B hefði komið inn á heimili hennar eftir þetta.
Spurð um atvikið í apríl 2002 kvaðst vitnið ekki hafa verið heima þegar þetta átti að hafa gerst en dóttir hennar hefði sagt sér að þær B hefðu gefið ákærða að borða. Hafði hann verið að skemmta sér kvöldið áður og legið uppi í rúmi og þá hafi D ákveðið að fíflast í honum með því að ráðast á hann og kallað á B sér til aðstoðar. Hafi þau verið í „gannislag.”
Vitnið L, móðir B, kvað hana hafa greint sér frá því í nóvember 2002, eftir að vitnið hafði gengið á hana eftir símtal frá rannsóknarlögreglumanni, að hún hafi verið að sýna D fermingarpilsið sitt og hafi ákærði viljað sjá pilsið. Hann hafi sagt henni að koma nær og þá svipt upp pilsinu. Þær D og B hafi síðan steikt fyrir hann egg og fært honum djús og þá hefði hann sett hendurnar inn á læri hennar og snert brjóst hennar utan klæða. Aðspurð kvað vitnið stúlkuna ekki hafa lýst neinu frekar varðandi kynferðisáreitni ákærða gagnvart öðrum. Hún hafi þó greint henni frá því að þær vinkonurnar hafi ætlað að ræða þessi mál við D en það hefði ekki gengið því hún hefði ekki viljað ræða það frekar. Vitnið kvað B hafa sagt að sér fyndist ákærði leiðinlegur en vissi ekki hvenær hún hafi byrjað að tala um það en kvað henni alltaf hafa fundist það.
Aðspurð kvaðst vitnið hafa tekið eftir því að stúlkan hefði ekki viljað fara til D eftir þetta atvik í apríl 2002 og hafi vitninu fundist það mjög skrýtið enda hafði hún verið mikið hjá henni áður. Kvað hún fjölskylduna hafa flutt í Breiðholt úr Grafarvoginum á árinu 2000 en það hefði samt ekki rofið tengslin á milli B og D í fyrstu. B haldi enn tengslum við vinkonur úr Grafarvoginum.
Vitnið kvað B ekki hafa liðið vel. Hafi henni fundist strákar og karlmenn fyrir neðan sína virðingu. Hafi hún ekki tekið eftir þessari breytingu eftir apríl 2002 en hún hefði ekki leitt hugann að því þá hvers vegna hún talaði svona um stráka. Kvað vitnið B nú hafa jafnað sig.
Vitnið E kvað B hafa komið til sín sumarið 2002 og sagt henni frá því að hún hefði sofið heima hjá D og ákærði hefði þá verið að koma af fylleríi en mamma D verið á leið í afmæli. Ákærði hafi legið uppi í rúmi og beðið D um að færa sér brauð. Hann hafi kallað á B og spurt hvort hún hefði verið að fá sér pils. Hann hafi lyft upp pilsinu og hún hafi aðeins verið í nærbuxum innan undir. Þá hafi hann beðið hana um að setjast hjá sér og reynt að þreifa á brjóstum hennar. Einnig hafi hann beðið hana um að leggjast hjá sér og hafi hún gert það. Þá hafi hann spurt hana hvort hún væri kitlin en þá hafi hún verið komin í peysu og svarað því neitandi. Hann hafi þá beðið hana að fara úr peysunni en hún neitað. Hafi hann þá farið undir peysuna og reynt að kitla hana undir höndunum. Aðspurð kvað vitnið B og A báðar hafa farið á heimilið eftir þetta. Borinn er undir vitnið framburður vitnisins D um að ekkert hafi verið rætt við hana um B í móanum þegar vinkonurnar ræddu saman. Kvaðst vitnið alveg öruggt um að það tilvik hefði líka verið rætt.
Vitnið S kvað B hafa sagt sér frá því sem kom fyrir hana þegar stelpurnar hittust. Kvað hún B hafa sagt að ákærði hefði verið inni í herbergi sínu og kíkt undir pils hennar og sagt henni að leggjast hjá sér.
Niðurstaða
Ákærði kannast við að B hafi verið umrætt sinn á heimili hans og að hún hafi þá sýnt honum pils sitt. Þá man hann eftir samskiptum við þær D og B þótt lýsing hans á þeim sé ekki á sama veg og stúlkunnar. Hann hefur hins vegar neitað að hafa kíkt upp undir pils B og neitar jafnframt að hafa káfað á henni og komið við brjóst hennar. Framburður B hefur verið staðfastur og trúverðugur og hefur hún lýst atvikum af nákvæmni. Fær framburður hennar stoð í framburði vitnanna E, S og L, móður B, sem rakinn er hér að framan. Ekkert er komið fram sem rýrir trúverðugleika B. Með vísan til alls framanritaðs er það mat dómsins að sannað sé með vitnistburði stúlkunnar, sem fær stoð í fyrrgreindum skýrslum vitna, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Brot ákærða þykja réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæruliður 4.
Hinn 10. nóvember 2002, kl. 13:10 var óskað eftir aðstoð rannsóknarlögreglu vegna 14 ára stúlku á neyðarmóttöku Landspítala fyrir þolendur kynferðisafbrota sem hefði orðið fyrir kynferðisbroti í [...] um nóttina og reyndist það vera C. Í frumskýrslu segir að stúlkan hafi óskað eftir því að ræða einslega við rannsóknarlögreglumanninn, Kristján Kristjánsson. Kvað hún sig hafa gist hjá D og hafi þær sofið í sama rúmi. Hafi móðir D og ákærði, stjúpi hennar, farið út að skemmta sér. Eftir að þau komu heim um nóttina hafi ákærði skriðið upp í rúmið til hennar. Hann hafi fitlað við hár hennar og síðan káfað á brjóstum hennar innanklæða. Hann hafi káfað á rassi hennar innanklæða og sleikt á henni brjóstin. Þá hafi hann klætt sig úr fötunum, lagst ofan á hana og reynt að setja typpið inn í kynfæri hennar. Hún hafi mjakað sér til þannig að honum hafi ekki tekist það. Ákærði hafi látið hana halda um getnaðarliminn á sér og síðan hafi hún fundið eitthvað blautt á maganum og fundið að hann þurrkaði af getnaðarlimnum. Síðan hafi hann borið hana fram í stofu og ætlað að leggja hana í sófa en hún hafi náð að komast undan honum og hlaupið út úr íbúðinni heim til vinkonu sinnar T sem byggi í [...] .
Lögreglan tók ljósmyndir á vettvangi að [...] og var fatnaður ákærða haldlagður ásamt rúmfötum D. Ákærði var handtekinn og færður á lögreglustöðina Hverfisgötu.
Þá var gerð réttarlæknisleg skoðun á ákærða. Einnig var tekið úr honum blóð- og þvagsýni en samkvæmt niðurstöðum Lyfjafræðistofnunar reyndist alkahól í blóði vera 0,57 og 0,78 í þvagi. Þar segir jafnframt að niðurstöður rannsókna bendi til þess að hlutaðeigandi hafi neytt áfengis skömmu áður en sýnin voru tekin og verið undir vægum áhrifum þess.
Af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík var gerð krafa fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sama dag um að ákærði yrði látinn sæta gæsluvarhaldi til miðvikudagsins 20. nóvember 2002 með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Fallist var á kröfuna. Ákærði var látinn laus úr gæsluvarhaldi hinn 19. nóvember 2002 eftir yfirheyrslu hjá lögreglu.
Skýrslutaka af vitninu C fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur með vísan til a.-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Þá fór skýrslutaka vitnisins D fram í Barnahúsi eins og áður er vikið að. Verður framburður þeirra nú rakinn að því leyti sem hann varðar þann ákærulið sem hér er fjallað um.
Vitnið C kvaðst hafa sofið heima hjá vinkonu sinni D. Hafi þær farið að sofa um þrjú leytið en þær sváfu saman í rúmi D. Aðspurð kvað hún rúmið hafa verið upp við vegg og hafi D sofið upp við vegginn. Aðspurð kvaðst hún sjálf hafa legið hálfpartinn á hliðinni og snúið að D. Kvaðst hún hafa verið í náttfötum vinkonu sinnar, hvítum stuttum buxum og hlýrabol. Þá hafi hún verið í nærbuxum og sokkum. Aðspurð kvað vitnið hurðina á herbergi D hafa verið opna þegar þær fóru að sofa, því að litlu bræður hennar tveir hafi verið sofandi, en þær hafi sett miða á hurðina með orðsendingu til foreldra hennar um að loka hurðinni þegar þau kæmu heim.
Milli 7 og 8 um morgunninn hafi hurðin opnast harkalega og vitnið hafi séð ákærða. Hafi hún talið að hann væri að vekja þær því D hefði sagt henni að hann vekti hana svolítið snemma um helgar til þess að passa. Ákærði hafi þá labbað að rúminu og sest niður. Síðan hefði hann farið aftur fram en komið aftur inn og lagst upp í rúmið alveg upp að vitninu. Aðspurð kvað hún hann hafa legið á hliðinni og ýtt þeim saman en þannig hafi þau komist öll fyrir í rúminu. Kvaðst hún hafa talið þetta vera í lagi þar sem Elfa vinkona hennar hefði sagt henni að ákærði væri stundum í rúmi D. Hún hafi þó aldrei spurt D sjálfa að þessu. Vitnið kvað ákærða hafa byrjað að gera eitthvað við hár hennar og snert rass hennar utanklæða. Síðan hafi hann rólega lyft upp bolnum hennar og káfað á brjóstum hennar. Hann hafi sleikt hana og farið niður á magann á henni. Þá hafi hún farið aðeins nær D og reynt að þjappa sér að henni. Hún hafi verið mjög hrædd og ekki vitað hvað hún átti að gera. Hún hafi ekki þorað að opna augun. Ákærði hafi þá snúið henni á bakið og farið ofan á hana og faðmað hana. Þá hafi hann reynt að klæða hana úr buxunum en aðeins náð að mjaka þeim lítillega niður. Bolurinn hafi verið kominn upp fyrir brjóst. Aðspurð kvað hún hann ekki hafa snert kynfæri sín. Á þessari stundu kvaðst hún hafa byrjað að hreyfa sig mikið og færa sig nær D. Vitnið kvaðst hafa reynt að sparka í hana en hún hefði vanda til að sofa fast. Vitnið kvað ákærða hafa tekið hendur hennar og látið á typpið á sér og haldið þeim þar. Aðspurð kvað hún typpið hafa verið hart. Þá hafi henni fundist sem hann þurrkaði eitthvað á magann á henni en hafi þó ekki fundið fyrir neinu. Kvaðst vitnið ekki gera sér grein fyrir því hversu lengi ákærði hafi legið þarna í rúminu en henni hafi fundist það vera heil eilífð. Aðspurð kvað hún ekki hafa verið niðamyrkur í rúminu. Hún hefði ekki gert sér grein fyrir því hvort að ákærði hafi verið klæddur eða ekki.
Vitnið kvað ákærða síðan hafa tekið hana upp og haldið á henni fram í stofu. Þar hafi hann ætlað að leggja hana á sófann en hún hafi verið orðin svo hrædd að hún þóttist vakna, tróð bolnum sínum niður og fór að hágráta. Hún hafi hlaupið að íbúðarhurðinni og reynt að opna en það hafi verið svolítið erfitt. Hún hafi síðan hlaupið hágrátandi út því hún hafi verið svo hrædd um að hann myndi elta sig. Hafi hún hlaupið heim til vinkonu sinnar T í [...] . Hún hafi hringt dyrabjöllunni einu sinni og bankað fast á gluggann. Faðir T hefði opnað og hleypt henni inn. Þá hafi T og móðir hennar komið fram og hún hafi faðmað T því hún hafi verið hrædd og fundist gott að vera komin inn. Hún hefði sagt þeim í stuttu máli hvað gerst hafði og þá hefðu þær hringt á móður vitnisins. Aðspurð kvaðst vitnið aðeins hafa verið í fötunum sem hún hefði háttað sig í, þegar hún hljóp yfir til T. Vitnið kvaðst ekki muna hvernig ákærði hefði verið klæddur þegar hann kom inn í herbergið. Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa þvegið sér strax eftir að atvikið átti sér stað. Hún hefði aðeins farið á salerni og þvegið sér um hendurnar.
Vitnið var spurð að því hvers vegna hún væri í [...]skóla en byggi á [...]. Kvaðst hún hafa orðið fyrir hálfgerðu einelti í skólanum sem megi rekja til ósættis hennar við þrjár vinkonur sem hún hefði farið í fýlu út í. Hefði hún verið útskúfuð eftir það.
Þá hafi orðið ósætti á milli hennar og D eftir að þetta mál kom upp og ýmis konar baknag ekki síst vegna togstreitu í tengslum við M sameiginlega vinkona þeirra.
Vitnið D kvað C hafa gist hjá sér laugardagskvöldið. Á fimmtudeginum áður hefði hún einnig gist hjá sér en á föstudeginum hefði vitnið gist hjá henni. Hafi þær verið að passa bræður hennar þetta laugardagskvöld en foreldrar hennar hefðu farið í afmæli. Þær hafi hallað aftur hurðinni þegar þær fóru að sofa um klukkan 2 eða 3 um nóttina og sett miða á hurðina þar sem hún bað mömmu sína um að loka þegar hún kæmi heim. Kvað hún mömmu sína hafa sagt við sig að hún hefði litið inn, tekið miðann og lokað þegar hún kom heim. Aðspurð kvað hún þær vinkonurnar hafa sofið í rúmi vitnisins og hafi vitnið verið upp við vegginn. Rúmið sé af venjulegri breidd og þegar þær hafi legið hlið við hlið hafi verið lítið pláss sitt hvoru megin við þær. Kvaðst hún ekki hafa vaknað um nóttina og kvaðst aðspurð sofa fast. Hins vegar fyndist henni skrýtið að hún hefði ekki vaknað við spark frá C. Aðspurð kvað hún C hafa sofið í náttbuxum, hlýrabol og sokkum sem hún hefði lánað henni.
Vitnið kvað sig hafa vaknað við að bróðir hennar kom upp í til hennar um klukkan 8:30 og þá hafi hún séð að C var ekki í rúminu. Hún og mamma hennar hafi leitað hennar lengi. Hafi þær síðan tekið eftir því að eitthvað hafði verið átt við hurðarhúninn og honum ýtt upp. Þá hafi hún hringt í M vinkonu sína og þær hafi leitað af C, m.a. hjá ömmu hennar. Þá hafi þær hringt í vinkonur sínar. Vitnið kvað allt dót C hafa verið heima hjá sér.
Brotaþoli gekkst undir læknisrannsókn á neyðarmóttöku kynferðisbrota. Í málinu liggur fyrir skýrsla Óskar Ingvarsdóttur læknis sem framkvæmdi skoðunina. Lýsing brotaþola á brotinu í skýrslunni er í meginatriðum á sama veg og skýrsla hennar hjá lögreglu. Þar kemur jafnframt fram um ástand brotaþola að hún hafi gefið skýra sögu og væri trúverðug. Gengið hafi vel að vinna traust hennar en þó hafi hún ekki gert sér fulla grein fyrir smáatriðum og tengdi það ótta sínum. Kvaðst hafa verið í miklu sjokki fyrst en jafnað sig við komuna og fannst léttir að geta talað um atburðinn.
Tekið var sýni til DNA rannsóknar frá brjóstum sem sögð voru sleikt og frá maga að nafla þar sem gerandi var talinn hafa þurrkað eitthvað af henni.
Þá liggur fyrir í málinu lokaálitsgerð Gunnlaugs Geirssonar prófessors á rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði en þar segir að sýni frá brotaþola og ákærða hafi verið send til Noregs til rannsóknar. Í niðurstöðunni segir að þeir fjórir bómullarpinnar sem höfðu að geyma strok frá hægra og vinstra brjósti brotaþola hafi gefið jákvæða svörun við munnvatni (alfa-amylasa). Voru þeir því rannsakaðir með tilliti til DNA efnis frá þekjufrumum (frumum frá húð eða slímhúð). Rannsóknin sýndi að DNA það, sem fannst í sýnum teknum af vinstra brjósti, hafi haft að geyma DNA snið, sem væri sams konar því sem fannst í sýni því sem tekið var úr munnholi ákærða. Sýni af hægra brjósti hafi haft að geyma DNA snið sömu tegundar og fannst hjá brotaþola.
Þær rannsóknarniðurstöður sem gerðar voru í Rannsóknarstofu í réttar- læknisfræði í Reykjavík báru með sér að ekki væri unnt að finna sæði í þeim sýnum sem tekin voru af kviðarholi brotaþolans. Þá hafi ekki fundist merki um sæðisvökva í hlýrabol eða náttbuxum hennar. Sýni frá lim ákærða hafi ekki sýnt fram á DNA frá manni og því ekki efni til týpugreiningar.
Í niðurstöðukafla segir m.a. að álykta megi að jákvæð svörun fyrir alfa-amylasa og DNA snið samkynja því, sem hafi fundist í frumum ákærða í sýnum frá vinstra brjósti kæranda, bendi sterklega til þess að munnvatn hans hafi verið á brjóstinu. Alfa-amylasi hafi einnig fundist á hægra brjósti en þar hafi ekki verið unnt að ná fram DNA sniði nema af húð brotaþola og því ekki dæmt frekar. Ekki hafi gefið jákvæða svörun við munnvatni (alfa-amylasa). Voru þeir því rannsakaðir með tilliti til DNA-efnis frá þekjufrumum (frumum frá húð eða slímhúð). Rannsóknin sýni að DNA, sem fannst í sýnum teknum af vinstra brjósti, hafi haft að geyma DNA snið, sem væri sams konar og það sem fannst í sýni því sem tekið var úr munnholi ákærða. Sýni af hægra brjósti hafi haft að geyma DNA snið sömu tegundar og fannst hjá brotaþola.
Þær rannsóknarniðurstöður sem gerðar voru í Rannsóknarstofu í réttar- læknisfræði í Reykjavík báru með sér að ekki væri unnt að finna sæði í þeim sýnum sem tekin voru af kviðarholi brotaþola. Þá hafi ekki fundist merki um sæðisvökva í hlýrabol eða náttbuxum hennar. Sýni frá lim ákærða hafi ekki sýnt fram á DNA frá manni og því ekki efni til týpugreiningar.
Þá segir meðal annars í niðurstöðukafla að álykta megi að jákvæð svörun fyrir alfa-amylasa og DNA snið samkynja því sem hafi fundist í frumum ákærða í sýnum frá vinstra brjósti kærandi bendi sterklega til þess að munnvatn hans hafi verið á brjóstinu. Alfa-amylasi hafi einnig fundist á hægra brjósti en þar hafi ekki verið unnt að ná fram DNA snið nema af húð brotaþola og því ekki dæmt frekar.
Ekki hafi fengist DNA snið af lim ákærða og því ekkert fullyrt um snertingu kynfæra hans við líkama brotaþola.
Einnig kemur fram um áreiðanleika niðurstöðunnar í svari Rettsmedisinsk Institutt í Noregi að líkurnar til að finna sams konar snið frá óskyldum einstaklingi séu ávallt lægri en 0,001% eða 1:10.000.
Af hálfu Ríkissaksóknara var óskað eftir greinargerð Vigdísar Erlendsdóttur forstöðukonu Barnahúss vegna greiningar- og meðferðarviðtala sem C sótti til hennar frá 27. desember 2002. Í niðurstöðukafla greinargerðar, sem dagsett er 12. september 2003, segir að ljóst væri að stúlkan hefði orðið fyrir alvarlegu áfalli vegna hins kynferðislega ofbeldis sem hún kvæðist hafa sætt af hálfu ákærða. Eins og algengt væri meðal fólks, sem orðið hefði fyrir áföllum af því tagi sem stúlkan lýsti, uppfyllti hún um nokkurt skeið greiningarviðmið áfallaröskunar. Einnig hafi hún sýnt fleiri einkenni kvíða og depurðar en almennt mældust meðal jafnaldra hennar. Þá segir að einkennin séu, er greinargerðin var rituð, að mestu horfin en ætla megi að hún þurfi enn nokkurn tíma til þess að jafna sig á áfallinu. Brýnt væri að fylgjast með líðan hennar næstu mánuði vegna aukinnar hættu á að hún þróaði með sér fælni eða aðra kvíðatengda kvilla.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna hér fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.
Ákærði kvaðst hafa farið í þrítugsafmæli um tíuleytið þetta kvöld ásamt konu sinni. Þar hafi hann drukkið töluvert magn af áfengi. Síðan hafi verið farið á Gauk á Stöng milli klukkan 2 og 3 um nóttina en eftir þann tíma hafi hann eiginlega verið búinn að missa rænu. Kvaðst hann ekkert muna eftir því þegar hann kom heim eða hvernig hann komst heim. Myndi hann síðast eftir sér þegar hann hafi farið að pissa heima hjá sér en man ekki klukkan hvað það var. Þá kvaðst hann minnast þess að hafa kíkt inn í herbergið þar sem D og C sváfu. Staðfesti hann lýsingu sína í lögregluskýrslu. Aðspurður kvaðst hann ekki muna þetta í samhengi. Hann myndi ekkert fyrr en hann vaknaði næsta morgun í rúmi sínu. Kvaðst hann hafa verið í nærbuxum en man ekkert eftir því að hafa háttað sig. Borið er undir hann brot úr lögregluskýrslu frá 16. nóvember 2002 þar sem hann spyr konu sína hvort ástæðan fyrir brotthvarfi C gæti verið sú að hann hefði farið inn í herbergið. Kvað ákærði sig hafa munað eftir því að hafa farið inn eða í hurðargættina. Nánar spurður kvað hann sig ekki hafa haft ástæðu til þess að ætla að eitthvað annað hefði gerst.
Aðspurður kvað ákærði C hafa verið oft inni á heimilinu hjá þeim en það hafi eiginlega verið búið að banna þeim að vera saman því það hafi alltaf verið mikið „vesen” á henni. Hafi hún aldrei verið ánægð nema búið væri að koma einhverju upp í loft. Kvaðst hann ekki hafa nefnt þetta fyrr við rannsókn málsins þar sem hann hefði ekki verið inntur eftir þessu. Nánar spurður kvaðst hann þó ekki hafa átt í neinum vandræðum í samskiptum við stúlkuna. Vitnið kvaðst aðspurður tengja einhverja afbrýðsemi hennar í garð D við sakargiftir á hendur honum. D hefði fengið ýmislegt hjá honum sem hinar hefðu ekki fengið. Spurður að því hvort hann drægi þá ályktun að hún væri að leika þetta kvaðst vitnið ekki vita það en honum fyndist þetta hafa verið afar skrýtið frá upphafi.
Vitnið kvaðst kannast við niðurstöður rannsóknar sem sýndu að DNA snið hans hafi fundist á brjósti C. Kvað hann hugsanlega hægt að skýra það þannig að hann hefði sofið margoft í þessu rúmi þegar D Dilja var ekki heima og strákarnir sofið inni hjá mömmu sinni. Þá hafi hann stundum sofið þar þegar D svaf hjá mömmu sinni. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvenær hann hefði verið síðast í rúminu fyrir 10. nóvember 2002.
Eins og rakið hefur verið var ákærði handtekinn á heimili sínu 10. nóvember 2002 og yfirheyrður þann sama dag. Kvaðst hann þá muna eftir því að hafa farið inn í herbergi D en ekki hvað hann hefði gert þar inni eða hvernig hann hefði farið út. Þá kvaðst hann fullviss um að hann hefði ekki átt kynmök við C því hann hafi ekki fundið samfaralykt af sjálfum sér. Þá var tekin skýrsla af ákærða 16. nóvember sama ár og hélt hann sig við sinn fyrri framburð. Kvaðst hann muna eftir því að hafa farið inn í herbergið en ekki hversu lengi hann var þar inni. Kvaðst ákærði ekki hafa neina ástæðu til þess að rengja framburð stúlkunnar ef hún segði satt og rétt frá en hann hefði verið í „black out”. Spurður að því hvort hann hefði hugmynd um af hverju stúlkan hefði farið út úr íbúðinni kvaðst hann hafa spurt konu sína hvort ástæðan fyrir því gæti verið sú að hann hefði farið inn í herbergið um nóttina. Hafi honum dottið í hug að hann hefði farið inn í herbergið og áreitt hana þannig að hún hefði farið út. Kvaðst hann þó ekki gera sér grein fyrir hvers konar áreiti hefði þá verið um að ræða.
Við lögregluyfirheyrslu hinn 19. nóvember s.á. kvaðst ákærði halda sig við sína fyrri framburði hjá lögreglu og staðfesti efni þeirra og undirskrift á þeim báðum.
Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sakargiftum.
Vitnið H kvað hana og ákærða hafa farið í afmæli og síðan út að skemmta sér niður í bæ. Þau hafi komið heim um fimmleytið að hún telji. Ákærði hafi verið mjög drukkinn og hafi hún þurft að „slefa” honum út úr leigubílnum og drösla honum upp á aðra hæð. Hún hafi ekki komið honum lengra en til fóta í rúminu þeirra. Morguninn eftir hefði D sagt henni að C væri ekki inni hjá sér. Nánar spurð kvað vitnið ákærða hafa verið fullklæddan þegar hann sofnaði til fóta en þegar hún vaknaði hafi hann verið á nærbuxunum. Hún hafi ekki orðið vör við það þegar hann fór fram og háttaði sig. Kvaðst hún sjálf hafa neitt áfengis um kvöldið en hún hefði farið að sofa mjög fljótlega eftir að þau komu heim.
Vitnið kvað hana og D hafa sagt ákærða að C væri horfin og virtist hann ekki kveikja á einu eða neinu í sambandi við það. Aðspurð kvaðst vitnið ekki muna eftir því að hann hefði nefnt við hana hvort hún hefði horfið því hann hefði farið inn í herbergi til stúlknanna en hún myndi atvik ekki nákvæmlega.
Vitnið kvað D hafa tjáð sér tveimur dögum fyrir aðalmeðferð málsins að C hefði sagt sér að frændi hennar á Akranesi hefði eitt sinn komið inn til hennar, þegar hún var stödd hjá föður sínum þar, og káfað á henni. Hafi D gleymt að segja frá þessu við skýrslutökuna.
Vitnið Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa verið á bakvakt þegar hann hafi verið beðinn um að fara á neyðarmóttöku Landspítalans. Bar hann á sama veg og í frumskýrslu um lýsingu stúlkunnar á því sem gerst hafði þá um morguninn. Kvað hann stúlkuna hafa verið í miklu uppnámi og greinilega liðið mjög illa. Það hafi ekki farið milli mála að hún hefði orðið fyrir verulegu áfalli. Hún hafi titrað og skolfið og verið eins og fólk er þegar það hefur lent í miklu andlegu áfalli.
Spurður hvort einelti stúlkunnar hafi sérstaklega verið kannað, kvað vitnið lögreglu hafa spurt um hvað það snerist og reyndist þar hafa verið á ferðinni væringar á milli vinkvenna eins og algengt sé á þessum aldri. Hafi hann litið svo á að það kæmi þessu rannsóknarefni ekki við.
Aðspurður kvaðst vitnið sérhæfður í málum sem þessum. Hann hafi gríðarlega reynslu af viðtölum og yfirheyrslum af börnum og fullorðnum. Þá hafi hann hlotið nokkra þjálfun í samningaviðræðum við erfiða einstaklinga og væri hluti af því sem kallast samningahópur ríkislögreglustjórans eða sérsveitar. Um sé að ræða mikla þjálfun og mörg námskeið um samtöl við einstaklinga með andlega örðugleika og börn sem lent hafi í erfiðleikum.
Vitnið LG, móðir C, kvað F hafa hringt í sig að morgni 10. nóvember 2002 og beðið hana um að koma strax því að C hefði barið allt upp hjá sér um morguninn og verið illa til reika og sagt ákærða hafa reynt að nauðga sér. Þegar vitnið hefði komið á staðinn hafi C verið í mikilli geðshræringu og grátandi. Hún hafi farið með hana heim og rætt við hana. C hefði lýst því að hún og D hefðu sofið í sama rúmi en ákærði hafi komið inn en farið út aftur en síðan komið inn að nýju og lagst hjá henni og byrjað að káfa á henni. Hann hefði tekið hendur hennar og haldið þeim fyrir ofan axlir og legið ofan á henni. Þá hafi hann kysst á henni brjóstin og hún hafi fundið fyrir bleytu á maganum á sér. Síðan hafi hann haldið á henni inn í sófann en þá hafi hún hlaupið út. Vitnið kvaðst ekki muna atvikalýsingu svo glögglega og vísaði til lögregluskýrslu. Eftir samtalið við dóttur sína hefði hún ákveðið að hringja á lögreglu sem hafi bent henni á að fara á neyðarmóttökuna.
Aðspurð kvaðst vitnið ekki kannast við að svona nokkuð hefði komið fyrir C áður og hefði hún ekki sagt frá neinu atviki á Akranesi.
Um líðan C eftir atburðinn kvað vitnið ástand hennar hafa verið eins og dag og nótt fyrir og eftir atburðinn. Fyrir hefði hún verið mjög félagslynd og kát en eftir þetta hafi hún viljað einangra sig. Hún hafi ekki haft áhuga á neinu félagslegu eða samvistum við vinkonur sínar. Þá hafi hún ekki viljað sofa í herbergi sínu í kjallaranum en nýverið hafi hún byrjað á því að nýju. Þá sé hún nú byrjuð að umgangast aftur jafnaldra sína. Nú sé hún á batavegi en loki á þennan atburð og vilji helst ekki tala um hann við neinn. Henni gangi mjög vel í skóla enda hafi hún einbeitt sér að náminu eftir þetta.
Vitnið F kvað heimilisfólk sitt hafa vaknað við dyrabjölluna og hljóðin í C umræddan morgun. Hún hafi verið grátandi og í miklu áfalli. Maður vitnisins hafi farið til dyra og tekið á móti stúlkunni en vitnið hafi komið strax á eftir þegar hún heyrði að eitthvað alvarlegt hefði gerst. Þá hafi T, dóttir hennar, farið með C inn í herbergi sitt en stúlkan þá sagt að ákærði hefði gert tilraun til þess að nauðga sér og að hún hefði vaknað við strokur hans. Kvað vitnið rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu þar sem sagði stúlkuna bera um að ákærði hefði komið hendi undir hlýrabolinn og einnig ofan í buxur. Hann hefði strokið á henni brjóst og kynfæri. Síðan hefði hann tekið í hönd hennar og látið hana strjúka sér og hafi vitnið þá ályktað sem svo að stúlkan hefði átt við getnaðarlim ákærða. Þá er borinn undir hana framburður hennar í lögregluskýrslu um að C hafi greint frá því sem gerðist á milli ekkasoga. Kvað vitnið það vera rétt að hún hafi verið í algjöru áfalli og hún hafi grátið með ekka. Aðspurð kvað vitnið stúlkuna hafa verið klædda í náttbuxur og hlýrabol við komu sína á heimilið. Þá hafi hún verið skólaus. Vitnið kvaðst hafa hringt í móður stúlkunnar og hafi hún komið innan fimmtán mínútna og tekið málin í sínar hendur.
Vitnið kvað dóttur sína hafa gist eitt sinn hjá D og hafi hún vaknað við það að ákærði stóð yfir rúminu. Eftir það hafi hún ekki leyft henni að gista þarna. Aðspurð kvað hún þetta hafa gerst áður en þetta tilvik átti sér stað.
Vitnið J kvaðst hafa vaknað við það þennan morgun að einhver kom hlaupandi og grátandi eftir svölunum en svefnherbergi hans og konu hans snúi að svölunum. Dyrabjöllunni hafi síðan verið hringt og hann farið til dyra. Þar hafi C staðið hágrátandi á náttfötunum og sagt við hann, „pabbi D”, en hann hafi boðið henni inn og hafi eiginkona hans og dóttir þá verið vaknaðar. Hann hafi þá dregið sig í hlé og látið þær taka við henni.
Vitnið T kvaðst hafa verið farin að losa svefn þegar C kom heim til hennar umrætt sinn. Hún hafi heyrt öskur eða hávaða niðri og svo hafi dyrabjöllunni verið hringt. Hún hafi heyrt föður sinn svara og heyrt í C sem hafi greinilega verið í miklu sjokki. Aðspurð kvað vitnið hana ekki hafa verið grátandi þegar hún sá hana heldur eins og hún gæti ekki grátið en hún hefði aldrei séð hana í svona miklu áfalli. Vitnið kvað stúlkuna hafa sagt að ákærði hefði farið inn á bolinn hennar að framanverðu og káfað á henni. Minnti hana líka að hún hefði sagt hann hafa farið ofan í buxurnar hjá henni. Síðan hafi hann ætlað að bera hana inn í stofu en þá hafi henni tekist að hlaupa út. Aðspurð kvað hún C hafa verið klædda í hlýrabol, náttbuxur og sokka þegar hún kom til þeirra.
Vitnið kvaðst hafa talað við D um kvöldið þennan dag og hún hafi verið henni sár því hún hefði ekki sagt henni þegar hún hringdi fyrr um daginn þegar leit stóð yfir að C hefði komið til sín. Þær hafi rætt saman og D hafi verið hrædd og sagt að móðir sín ætlaði að fara frá ákærða. D hefði í fyrstu trúað því sem kom fyrir C en síðar hefði hún skipt um skoðun og talið C ljúga.
Þá greindi vitnið frá atviki sem átti sér stað þegar hún gisti heima hjá D. Hafi hún vaknað um nóttina og hefði ákærði þá staðið yfir henni og horft á hana. Kvaðst hún ekki muna hvernig hann hafi verið klæddur en taldi það rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að hann hefði verið í nærbuxunum. Eftir þetta hafi henni og mörgum vinkonum hennar verið bannað að gista hjá D.
Vitnið M kvað D hafa hringt í sig að morgni 10. nóvember 2002 og sagt henni að C væri týnd. Þær hafi leitað hennar saman. Hefði vitnið farið til T sama dag og hún sagt henni frá því sem gerðist og í hvaða ástandi C hefði verið þegar hún kom til hennar um morguninn. Aðspurð kvað hún C ekki hafa viljað segja neitt. Hún hafi þó sagt henni í skólanum að ákærði hefði eitthvað verið að sleikja hana. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær þetta var.
Vitnið Gunnlaugur Björn Geirsson prófessor skýrði niðurstöður sínar í lokaálitsgerð sinni fyrir dóminum þannig að alfa-amylasi væri efnakljúfur eða efnahvati sem fyndist í munnvatni og fleiri meltingarvökvum. Hann væri sérstaklega notaður í því skyni að skima eftir munnvatni á svipaðan hátt og efnakljúfar væru notaðir til að leita að sæði. Þegar fengist jákvæð svörun væri sýni tekið til þess að kanna hvort þar væru líka frumur því í munnvatni væru frumur úr slímhúðinni sem synda í munnvatninu. Finnist þær séu þær teknar og kjarnar þeirra notaðir til þess að framkalla DNA snið svo sem gert hafi verið í þessu tilviki. Svörun við alfa-amylasa hafi verið í stroki, sem tekið var á hægri geirvörtu, en hins vegar þá hafi snið hennar komið við DNA rannsókn sem þýði að um væri að ræða húðfrumur af yfirborði hennar og að ekki hafi verið að finna frá ákærða neitt snið í þessa veru. Það gæti skýrst af ýmsu í rauninni enda væri alfa-amylasi næmt próf en hins vegar gæti verið hlutfallslega mismikið í munnvatninu og munnvatnsfrumur því ekki náðst fram. Vitnið er spurður að því hvort að alfa-amylasi gæti fundist í rúmfötum mörgum dögum eftir að munnvatn hefði farið í þau. Bar vitnið að eftir að munnvatn þornaði væri það ekki forfæranlegt frá einum hlut til annars. Taldi hann fremur ólíklegt að munnvatn, sem hugsanlega væri í rúmi, gæti borist yfir á þann líkamspart stúlkunnar sem hér um ræðir.
Varðandi þau sýni, sem tekin voru af maga stúlkunnar, kvað vitnið þau fyrst og fremst rannsökuð með tilliti til sæðisfruma en væru ekki sérstaklega með tilliti til munnvatns.
Um áreiðanleika niðurstöðunnar kveður vitnið byggt á stöðlum frá Noregi og gert ráð fyrir því að þetta sé ámóta hér á landi.
Vitnið Ósk Ingvarsdóttir kvaðst muna eftir stúlkunni en hún hafi komið á neyðarmóttökuna tiltölulega stuttu eftir atburðinn. Hún hafi verið í miklu uppnámi þegar hún hafi komið og lýst mjög sterkum hræðsluviðbrögðum. Kvað hún hana hafa verið fljóta að jafna sig og gefa skýra sögu og samvinna við hana hafi verið mjög góð. Þá hafi hún komið tvisvar í endurkomu og hafi vitnið séð hana fyrra skiptið hinn 2. desember 2002 en hjúkrunarfræðingur í seinna skiptið. Hún hafi lýst erfiðleikum fyrst eftir á, m.a. kvíða og svefntruflunum. Þá hefði hún misst úr skóla en samt hafi hún haft gott innsæi í þetta og var að taka á sínum málum með stuðningi fjölskyldu og sálfræðings.
Tekin var skýrsla fyrir dóminum í gegnum síma af vitninu Vigdísi Erlendsdóttur sem stödd var í Ástralíu. Lýsti hún viðtölum sínum við C og greiningum sem hún gekkst undir og bar á sama veg um niðurstöður þeirra eins og rakið er í umfjöllum um greinargerð vitnisins. Kvað hún stúlkuna hafa verið mjög nákvæma í öllu sem hún sagði og hófstillt. Hún tæki vel eftir og væri ýkjulaus í öllu viðmóti. Stúlkan hafi lýst ótta við að hitta ákærða á förnum vegi en það séu dæmigerð einkenni hjá börnum sem orðið hafi fyrir kynferðisofbeldi. Þá lýsti hún fleiri einkennum til dæmis að hún teldi sig lakari en aðra og að það sæist á henni að hún hefði lent í þessu. Þá hafi stúlkan grátið mikið á þessum tíma. Einnig hefði hún tekið nærri sér að hafa komið vinkonu sinni í vanda og hafi talað um að einfaldast hefði verið að láta eins og ekkert hefði gerst. Í september 2003 hafi ástand hennar verið orðið þokkalegt en samt hafði hún tilhneigingu til ákveðins ótta og til dæmis að hrökkva við ef hún heyrði umfjöllun um kynferðisofbeldi. Aðspurð kvað vitnið stúlkuna ekki hafa lýst öðrum áföllum, sem hún hefði orðið fyrir, og lýsti lífinu sem einföldu og að hún hefði verið sátt við það áður en þetta gerðist.
Spurð um hugsanleg áhrif eineltis kvað vitnið það ekki skilgreint sem áfall í hefðbundnum skilningi. Kvað hún stúlkuna hafa átt undir högg að sækja á meðal jafnaldra en það væri ekki upplifun sem ylli einkennum áfallaröskunar. Þá kvað vitnið stúlkuna aldrei hafa minnst á að hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti áður.
Niðurstaða.
Ákærði hefur neitað sök og ber fyrir sig minnisleysi um atburði á heimili hans aðfararnótt 10. nóvember 2002. Hann sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu hafa verið í „black out”. Eiginkona hans, vitnið H, staðfesti ástand hans um nóttina og kvaðst hafa þurft að drösla honum upp á aðra hæð hússins og skilið við hann fullklæddan til fóta í rúminu áður en hún gekk sjálf til náða. Þá liggja fyrir niðurstöður blóð- og alkóhólrannsóknar, en alkóhól í blóði ákærða þennan morgun reyndist vera 0,57 og 0,78 í þvagi. Einnig hefur vitnið Kristján rannsóknarlögreglumaður borið að ákærði hafi verið timbraður þegar hann var handtekinn þennan morgun.
Eins og rakið hefur verið bar ákærði við yfirheyrslur hjá lögreglu að hann myndi eftir því að hafa farið á klósett einhvern tíma um morguninn og að hann hafi farið inn í herbergið þar sem C og D sváfu. Hér fyrir dómi staðfesti ákærði það sem þar segir og kvaðst hafa „kíkt inn”. Gat hann ekki gefið skýrAr á því sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu um hugsanlega skýringu á brotthvarfi C úr íbúðinni. Vitnið H kvaðst ekki muna eftir því að ákærði hefði rætt þetta við hana eins og ákærði heldur fram í lögregluskýrslunni.
Einnig hefur ákærði borið að hann hafi verið í rúmi sínu þegar hann vaknaði og í nærbuxum einum fata og fær það stoð í vitnisburði H.
Framburður C hefur verið staðfastur frá upphafi. Lýsti hún atburðarrásinni í öllum meginatriðum á sama veg hjá lögreglu, á neyðarmóttöku og fyrir dóminum. Dómarar málsins horfðu á myndbandsupptöku af skýrslutöku af stúlkunni. Það er mat dómsins að framburður hennar hafi verið einlægur og einkar trúverðugur. Getur atburðarrásin eins og hún lýsti henni vel samrýmst því andlega ástandi sem hún var í þegar vitnin J, F og T tóku á móti henni fyrst eftir atburðinn. Hafa þau öll borið að hún hafi komið til þeirra í náttbuxum, hlýrabol og sokkum einum fata og í afar mikilli geðshræringu. Kannast vitnið D við að stúlkan hafi gengið til náða í þessum fötum. Þá bera móðir hennar, LG, rannsóknarlögreglumaðurinn Kristján og Ósk, læknir á neyðarmóttöku á sama veg um ástand hennar skömmu eftir atburðinn.
DNA rannsókn sú sem lýst hefur verið ítarlega hér að framan þykir renna traustum stoðum undir það að samskipti hafi átt sér stað á milli ákærða og stúlkunnar. Samræmist það vitnisburði Gunnlaugs Geirssonar prófessors sem kvað ólíklegt að þornað munnvatn, sem fyrir væri í rúminu, gæti borist á brjóst stúlkunnar.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er ljóst að C bar þess merki að hafa orðið fyrir verulegu áfalli þennan morgun. Skýringar ákærða á sakargiftum hennar á hendur honum þykja ekki fá staðist og úr öllu samhengi við viðbrögð stúlkunnar fyrst eftir atburðinn. Hefur ekkert komið fram í málinu sem rýrir trúverðugleika frásagnar stúlkunnar. Þegar litið er til vitnisburða og sýnilegra sönnunargagna í málinu þykir mega leggja framburð C til grundvallar niðurstöðu málsins. Þrátt fyrir neitun ákærða telur dómurinn að hann hafi framið brot það sem í ákæru greinir og er þar réttilega fært til refsiákvæðis.
Viðurlög.
Ákærði hefur í máli þessu verið fundinn sekur um kynferðisbrot gagnvart þremur stúlkum sem voru vinkonur stjúpdóttur hans og komu því oft á heimili hans. Með brotum sínum misnotaði ákærði aðstöðumun í aldri og þroska gagnvart stúlkunum og brást trúnaðartrausti þeirra. Brot ákærða gegn C var sérlega gróft.
Sakavottorð ákærða hefur ekki áhrif á niðurstöðu máls þessa. Þykir refsing hans með hliðsjón af því sem að framan hefur verið rakið hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Frá refsivist ber að draga 10 daga vegna gæsluvarðhalds sem ákærði sætti óslitið frá 10. til 19. nóvember 2002. Með vísan til eðlis brots ákærða gegn C þykir skilorðsbinding ekki koma til greina.
Skaðabótakröfur.
Af hálfu U fyrir hönd ólögráða dóttur hennar A hefur verið lögð fram miskabótakrafa að fjárhæð 60.000 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er liðinn er mánuður frá því ákærða var kynnt bótakrafan til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu en réttargæsla á fyrri stigum málsins hefur þegar greidd.
Bótakröfunni til stuðnings er vísað til 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 en A var 13 ára þegar umrædd atvik áttu sér stað, sem og 209. gr. almennra hegningarlaga. Þolandi kynferðisbrots verði alltaf fyrir miskatjóni og hafi dómstólar ávallt dæmt miskabætur í slíkum málum sé þeirra krafist. Þá er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Brot ákærða gegn brotaþola eru til þess fallin að valda henni óþægindum. fram er komið í málinu að hún hafi forðast að koma á heimili D, vinkonu sinnar, eftir þennan atburð. Með vísan til framanritaðs er ákærði á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga dæmdur til að greiða brotaþola 60.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 18. apríl 2003 til greiðsludags.
Af hálfu L fyrir hönd ólögráða dóttur hennar B hefur verið lögð fram miskabótakrafa að fjárhæð 300.000 krónur auk vaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2002 til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.
Bótakrafan er byggð á því að ákærði hafi misnotað traust B þegar hann áreitti hana kynferðislega. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi stúlkan lýst mikilli vanlíðan sinni eftir þetta atvik. Um sé að ræða alvarlegt brot gegn persónu, friði og frelsi brotaþola sem hafi haft og muni hafa áhrif á andlega líðan hennar. Um lagarök var vísað til XX. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Málskostnaðarkrafan er byggð á 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 og sbr. 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Dráttarvaxtakrafa er byggð á III. kafla laga nr. 38/2001 sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991.
Ljóst er að brotaþoli hefur orðið fyrir miska vegna brots ákærða enda brotið til þess fallið að valda henni óþægindum. Ákærði misnotaði aðstöðu- og aldursmun milli hans og stúlkunnar og brást trúnaðartrausti hennar. Með vísan til framanritaðs er ákærði með vísan til 26. gr. skaðabótalaga dæmdur til að greiða brotaþola 100.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 18. apríl 2003 til greiðsludags.
Réttargæslumaður C, sem er ólögráða, hefur fyrir hennar hönd krafist miskabóta skv. endanlegri kröfugerð að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. nóvember 2002 til ess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun við réttargæslu úr hendi sakbornings skv. framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.
Bótakrafan er byggð á því að ákærði hafi með athöfnum sínum brotið gróflega gegn C sem var aðeins nýorðin 14 ára þegar ofbeldið átti sér stað. Stúlkunni hafi liðið mjög illa eftir þetta. Ákærði sé fullorðinn maður og miklu eldri en stúlkan og hafi hún átt að geta treyst honum enda var hún í hans umsjá og undir verndarvæng hans þar sem hún gisti á heimili hans. Um sé að ræða gróft trúnaðarbrot sem hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir brotaþola.
Brot ákærða gagnvart C voru stórfelld. Af framburði brotaþola, vitna og sálfræðilegu mati Vigdísar Erlendsdóttur, sem hún staðfesti fyrir dóminum, þykir í ljós leitt að brotaþoli leið fyrir brot ákærða um allanga hríð.
Með hliðsjón af öllu framanrituðu er ákærði á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga dæmdur til að greiða brotaþola 400.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 18. apríl 2003 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 400.000 krónur, svo og þóknun réttargæslumanna brotaþola, Björgvins Jónssonar hrl. 50.000 krónur, Sifjar Konráðsdóttur hrl. 50.000 krónur, Þórdísar Bjarnadóttur hdl. kr. 120.000 krónur og Helgu Leifsdóttur hdl. 120.000 krónur.
Dóminn kveða upp Arnfríður Einarsdóttir settur héraðsdómari, sem dómsformaður, og héraðsdómararnir Sigurður Hallur Stefánsson og Skúli J. Pálmason.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Frá refsivist dregst 10 daga gæsluvarðhald sem ákærði sætti óslitið frá 10.-19. nóvember 2002.
Ákærði greiði U fyrir hönd ólögráða dóttur hennar A 60.000 krónur með dráttarvöxtum frá 18. apríl 2003 til greiðsludags.
Ákærði greiði L fyrir hönd ólögráða dóttur hennar 100.000 krónur með dráttarvöxtum frá 18. apríl 2003 til greiðsludags.
Ákærði greiði LG fyrir hönd ólögráða dóttur hennar C 400.000 krónur með dráttarvöxtum frá 18. apríl 2003 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hrl., 400.000 krónur, svo og þóknun réttargæslumanna brotaþola, Björgvins Jónssonar hrl. 50.000 krónur, Sifjar Konráðsdóttur hrl. 50.000 krónur, Þórdísar Bjarnadóttur hdl. kr. 120.000 krónur og Helgu Leifsdóttur hdl. 120.000 krónur.