Hæstiréttur íslands

Mál nr. 423/2002


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Tilraun


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003.

Nr. 423/2002.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Einari Óla Einarssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Tilraun.

E var sakfelldur fyrir að hafa reynt að flytja til Íslands um 30 kg af hassi sem ætlað var til sölu hérlendis í ágóðaskyni, en spænsk lögregluyfirvöld lögðu hald á fíkniefnin, sem voru falin í hurð og átti að senda ásamt öðrum hurðum sjóleiðis til Íslands. Var E dæmdur til að sæta fangelsi í 2 ár. Við ákvörðun refsingar E var höfð hliðsjón af því að um var að ræða tilraun til brots og að meðferð málsins tók alllangan tíma. Á hinn bóginn kom ekki til álita að skilorðsbinda refsinguna í ljósi einarðs ásetnings E og þess magns fíkniefna sem um var að ræða og ætlað var til söludreifingar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest, en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði ekki gerð refsing og að því frágengnu að hún verði milduð og skilorðsbundin að hluta eða öllu leyti.

Ákæruvaldið lagði fyrir Hæstarétt gögn frá Interpol á Spáni sem staðfesta að Claude Louis Raffanelli og Carlos Gregorio Vallori hafi verið dæmdir í dómstóli í Barcelona til þriggja ára fangelsisrefsingar hvor um sig fyrir sinn þátt að málinu. Þeim dómi hafi þeir áfrýjað en niðurstaða málsins liggi ekki fyrir. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Einar Óli Einarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 130.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júlí 2002

                Mál þetta, sem dómtekið var 19. þ.m., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 2. maí 2001 á hendur Einari Óla Einarssyni, kt. 100759-2689, Hraunbæ 30, Reykjavík, Theodóri Emil Pantazis, kt. 071062-3769, Meistaravöllum 25, Reykjavík, og Valentínusi G. Baldvinssyni, kt. 160360-5699, Hverfisgötu 87, Reykjavík, fyrir brot gegn almennum hengingarlögum svo sem hér er rakið:

1.                    Gegn ákærða Einari Óla, með því að hafa haustið 1999 reynt að flytja til Íslands um 30 kg af hassi sem ætlað var til sölu hérlendis í ágóðaskyni. Þann 8. nóvember lagði lögregla í Barcelona á Spáni hald á fíkniefnið sem falið var í hurð sem senda átti ásamt 9 öðrum hurðum sjóleiðis til Íslands á nafni fyrirtækisins Varna ehf.

2.                    Gegn ákærða Theodóri Emil fyrir hlutdeild í framangreindu tilraunabroti meðákærða Einars Óla, með því að hafa sumarið 1998 í Frakklandi komið honum í samband við mann sem kallaður var Yves og starfaði sem sölumaður eða milligöngumaður seljanda fíkniefnisins ytra og að hafa frá þeim tíma þar til haustið 1999 liðsinnt meðákærða í símasamskiptum við Yves, í því skyni að meðákærði gæti flutt til Íslands fíkniefnið sem ákærði vissi að ætlað var til sölu hérlendis.

3.                    Gegn ákærða Valentínusi fyrir hlutdeild í framangreindu tilraunarbroti meðákærða Einars Óla með því að útvega meðákærða upplýsingar um fyrirtækið Varnir ehf. og fá samþykki grandlauss forráðamanns þess til að nota nafn fyrirtækisins til að flytja inn hurðir en ákærði vissi að í þeim voru falin fíkniefni sem ætluð voru til sölu hérlendis.

Brot ákærða Einars Óla telst varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga en brot ákærðu Theodórs Emils og Valentínusar við sömu lagagreinar, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Ennfremur er þess krafist að 0,56 g af amfetamíni, sem fannst við húsleit á heimili ákærða Valentínusar, verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16/1986, sbr. nú 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld lyf nr. 233/2001.

                Verjandi ákærða Einars Óla gerir þær kröfur að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði felld niður og til þrautavara að refsing verði lækkuð verulega. Komi til refsivistar verði gæsluvarðhaldsvist dregin frá. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greidd verði úr ríkissjóði að öllu leyti eða að hluta einnig þótt sakfellt verði

                Verjandi ákærða Theódórs Emils gerir þær kröfur að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Komi til refsivistar verði gæsluvarðhaldsvist dregin frá. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins og að þau verði greidd úr ríkissjóði jafnvel þótt sakfellt verði.

                Verjandi ákærða Valentínusar Guðmundar gerir þær kröfur að ákærði verði alfarið sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins en gerir ekki athugasemd við kröfu um upptöku. Komi til refsivistar verði gæsluvarðhaldsvist dregin frá. Einnig krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greidd verði úr ríkissjóði.

                Málsatvik og sönnunargögn

Mál þetta varðar tilraun til að flytja inn frá Spáni um 30 kg af hassi, falið í viðarhurðum. Sendingin var stöðvuð í flutningafyrirtækinu Lluc Transportir í Barcelona. Málinu tengdust bæði innlendir og erlendir aðilar. Höfðu þessir aðilar áform um frekari innflutning.

Mál þetta á sér talsverðan aðdraganda. Má rekja upphafið til þess að lögreglu bárust vísbendingar sumarið 1998 um að fyrirhugaður væri innflutningur á mjög miklu magni af hassi. Var gripið til rannsóknarúrræða og voru m.a. símar nokkurra aðila hleraðir og hlerunartækjum komið fyrir í híbýlum og í bifreið. Tengdust nöfn ákærðu allra málinu ásamt fleirum. Af erlendum aðilum bar mest á frönskum manni, sem hefur gengið undir nafninu Yves og á síðari stigum kom annar Frakki við sögu sem vísað var til sem „gamla mannsins”. Theodór Emil, sem er frönskumælandi, þekkti Yves og kynnti þá Einar Óla á kaffihúsi í París sumarið 1998. Eftir það voru þeir í stöðugu símasambandi, einkum Einar Óli og Yves, og hittust þeir nokkrum sinnum þegar Einar Óli fór til útlanda, en ekki virðist hafa orðið úr því að Yves kæmi til Íslands þó að oft hafi verið talað um það. Einnig höfðu þeir samband við breskan mann, en tengsl hans við málið eru óljós.

Helstu rannsóknargögn málsins eru framangreindar hleranir á samtölum þar sem rætt er um fyrirhugaðan innflutning á hassi til Íslands. Samkvæmt þeim var í upphafi ætlunin að efnið yrði flutt til Íslands með skútu frá Suður Evrópu, en Yves hafði aðsetur á Ibiza og virðist hafa tengst skútuútgerð þar af einhverju tagi. Áætlunin tók síðan ýmsum breytingum á því rúma ári sem leið þar til sendingin fór loksins af stað og var stöðvuð í Barcelona. Til þess að hægt sé að átta sig fyllilega á máls­ástæðum bæði ákæruvaldsins og ákærðu þykir nauðsynlegt að rekja þessa þróun málsins, fyrst eins og hún liggur fyrir samkvæmt íslenskum rannsóknargögnum, og síðan á lokastigi samkvæmt spænskum lögreglu- og dómsskýrslum. Sú atburðarás leiddi loks til handtöku ákærðu og tveggja manna á Spáni.

Það var í júlímánuði 1998 sem grunsemdir vöknuðu hjá ávana- og fíkniefna­deild íslensku lögreglunnar um að Einar Óli Einarsson stæði ásamt fleirum, þar á meðal Theodór Emil Pantazis, að innflutningi á fíkniefnum. Hóf lögregla í lok þess mánaðar að fylgjast með þeim með skyggingu og hlustunum. Ljóst er af hlustunar­skýrslum fyrstu mánuðina að þeir eru í sambandi við ýmsa aðila, bæði innlenda og erlenda, og má ætla að þeir séu að leita fyrir sér með sambönd. Í ágústlok 1998 hafði komið fram í símtali Einars Óla við [...] að hann hefði farið til Ibiza og Parísar og hitt þar „illa menn” og farið yfir stöðuna með þeim. Einar Óli var kominn í samvinnu við nefndan Yves, sem þeir Theodór Emil kalla ýmist „sundkappann” eða „frænda” Einars. Talið er að skúta með um 350 kg af hassi hafi lagt af stað til Íslands þetta haust frá Ibiza en verið snúið við vegna veikinda skipstjórans. Hinn 1. desember 1998 hóf Theodór Emil afplánun 18 mánaða dóms. Hinn 8. janúar 1999 talar Theodór við Einar Óla í síma um að hann hafi heyrt í sundkappanum mikla og öðrum vini hans. Í samtali á milli þeirra 11. janúar segir Theodór við Einar Óla að sundgarparnir vilji ólmir tala við Einar og hann svarar að hann sé mikið búinn að reyna að ná í þá. Þeir sammælast síðan um að hittast í fangelsinu á næstu dögum. Sá fundur, sem átti sér stað 14. janúar 1999 í Hegningarhúsinu, var hleraður. Þar kemur skýrt fram að í byrjun sumars ráðgera þeir að flytja inn 21 kg af hassi og tala um að það sé góð upphitun fyrir hina sendinguna. 22. mars segir Einar Óli við Theodór að hann þurfi að fara og hitta frænda sinn niðri á Malaga.

Hinn 13. apríl 1999 kemur nýr aðili inn í málið, sem er Valentínus Guðmundur Baldvinsson. Þann dag ræðast þeir við í síma, Einar Óli og Valentínus, og hittast síðan um kvöldið. Hljóðupptaka lögreglunnar af þessum fundi, sem var á heimili Einars Óla, mistókst, en samkvæmt skýrslu lögreglumannanna féllst Valentínus á að vera með í dæminu. Þeir ræddu um lendingarstað við Djúpavog eða í Loðmundarfirði og að Íslendingur yrði að vera með á skútunni. Einar Óli talar um að hann sé ákveðinn í að framkvæma þetta, undirbúningur sé nú búinn að standa í eitt ár og hann hafi útvegað sjókort. Einar Óli segist vera með kaupanda að 25 kg af „blond”. Það orð mun notað yfir ljóst hassefni. Þá ræða þeir verð og hvað muni fást fyrir 300 kg, og reiknast til að það verði 210 milljónir króna, 60 milljónir þurfi að greiða fyrir fíkniefnin og Einar Óli muni sjá um það. Þá muni þeir hvor um sig fá um 90 til 100 milljónir. Þá er rætt um markað fyrir efnið í Færeyjum og á Grænlandi.

Hinn 14. maí 1999 er hlustað símtal á milli Einars Óla og Valentínusar á heimili Einars Óla. Þar kemur fram að undirbúningur fyrir að senda skútuna sé í fullum gangi og að Valentínusi sé falið að finna mann hér heima til að fara út og sigla með skútunni til Íslands. Á fundi sínum ræða Einar Óli og Valentínus m.a. um útvegun peninga og peninga sem Einar Óli hafi lagt í málið og peningaþvætti á væntanlegum gróða. Þeir ræða áætlaðan komutíma skútunnar, sem nú er í júní. Hinn 26. maí hittast Einar Óli og Valentínus hjá Einari Óla. Valentínus er þá búinn að velja mann sem hann treystir, þeir ræða um þóknun handa honum og síðan væntanlega hlutdeild sína á fíkniefnamarkaðinum hér. Hinn 1. júní fer Einar Óli með manninum, sem reynist vera Aðalsteinn Aðalsteinsson, til Malaga á Spáni, en hinn 3. sama mánaðar hringir Aðalsteinn í Valentínus og segir einhverja töf verða og virðist það leggjast illa í hann. Hinn 7. júní er ljóst að erlendu aðilunum hefur ekki litist á Aðalstein og bið er komin í málið.

Theodór hefur ekki komið við sögu um sinn. Hann situr enn inni, en 27. júlí tekur Einar Óli aftur upp samband við hann. Þeir hafa þá ekki talast við síðan 12. maí. Theodór telur sig losna út 14. ágúst. Ljóst er af samtali þeirra að Einar Óli er eitthvað áhyggjufullur vegna tafarinnar. Í byrjun ágúst, hinn 9., er Theodór laus úr afplánun og býr á Vernd. Hann og Einar Óli ræðast við í síma 9. ágúst og vill Theodór hitta Einar Óla. Dagana 16. til 18. ágúst tala bæði Einar Óli og Theodór Emil við Yves í síma og Einar Óli undirbýr ferð til Ibiza. Þeir Theodór Emil og Einar Óli ræða um kaupanda sem Theodór Emil hefur samband við úti á landi. Þeir tala undir rós um „diska” og hvað félaginn í sveitinni geti tekið marga diska og hvernig, og Einar Óli segir Theodór Emil að „frændi “ leggi áherslu á „það”.

Einar Óli fer til Ibiza 20. ágúst. Sama dag hringir hann í Valentínus og segir honum frá fundi sem hann hafi verið á og hafi honum verið gerð grein fyrir því að ef eitthvað færi úrskeiðis yrði hann gerður ábyrgur. Hann virðist ánægður og segir „þetta” verða öðruvísi, en jafnvel betra. Einar Óli kemur aftur til Íslands 22. ágúst. Daginn eftir kannar hann með ferðir Norrænu og lætur Yves síðan vita um það. Hinn 24. ágúst ræða þeir Yves enn um ferjuna og kemur fram að verið er að tala um að koma með bifreið til landsins og rætt er um endurgjald til þeirra sem ferðina fara. Nokkrum dögum síðar kemur nýr aðili að málinu, Yves segist vera búinn að setja „gamla manninn” inn í málið og næstu daga er sá „gamli” að undirbúa það. Yves og ákærði Einar Óli eru nú báðir farnir að barma sér vegna þeirra peninga sem þeir séu búnir að leggja í málið og ákærði Einar Óli kvartar yfir því við Theodór Emil hinn 9. september að menn séu hættir að trúa sér. Hann sé búinn að vera að tala um þetta í eitt ár. Í sama samtali kemur fram að þeir úti á Spáni hafa lent í einhverjum erfiðleikum og ákærði Einar Óli talar um að skipta áhættunni aðeins upp.

Hinn 11. september 1999 hefur Einar Óli tekið gleði sína og tjáir Valentínusi að nú séu góðar fréttir, allt komið í lag úti og „frændi” kominn í mjög gott skap. Þennan dag á Einar Óli ýmis símtöl bæði við Valentínus og Yves. Í símtali við Yves kl. 16.30 þann dag kemur fram að verið sé að „smíða hlutinn” og nokkra daga taki að finna flutningsaðila. Talað er um að um þrjár vikur séu í að „þetta komi til Íslands”. Einar Óli talar um að þeir séu búnir að borga mikið fyrir þetta. Yves segist hafa beðið „gamla manninn” um peninga í þetta og hafi hann lagt til mikla peninga. Loks þarf Yves að fá upplýsingar um fyrirtækið sem hann á að senda hlutinn á. Einar Óli segir það allt klárt. Hinn 24. september segir Yves Einari Óla að þeir séu búnir að versla. Þeir hafi eytt miklu af peningum, en það taki sinn tíma að ganga frá hlutnum og smíða „holuna”. Hinn 29. september segist Yves vera á leið á pökkunarstaðinn og á Einar Óli að senda honum upplýsingar um fyrirtæki. Hinn 3. október 1999 semur Valentínus við Jón Ástvaldsson um að fá að flytja inn útihurðir frá Spáni í nafni fyrirtækis Jóns, Varna ehf. Þremur dögum seinna sendir Einar Óli upplýsingar til Yves í faxi um Varnir ehf. og Jón Ástvaldsson, stimpill Varna ehf. er á bréfinu. Hinn 5. október ræða Einar Óli og Theodór Emil saman og segir Theodór að frændinn í sveitinni sé tilbúinn. Næsta dag kannar Einar Óli, að beiðni Yves, flutningsmöguleika frá Barcelona og Madrid til Íslands. Einar Óli hefur samband við flutningaþjónustuna Jóna ehf. og leggur þetta erindi þar fyrir og sendir Yves síðan sama dag í faxi upplýsingar um flutningsmiðlara með skrifstofu bæði í Barcelona og Alicante. Sama dag talar hann einnig við Valentínus og segist vera á fullu í að leysa úr vandræðum við að koma vörunni heim og biður Valentínus um að aðstoða sig – „við erum að tala um lifibrauð okkar for the rest of the life”, segir hann. Hinn 8. október segir Einar Óli við Yves að þegar „það” verði komið hingað verði peningarnir komnir eftir tvo til þrjá daga. Sama dag sendir Einar Óli ljósrit af vegabréfi Valentínusar á sama faxnúmer og áður og einnig upplýsingar um ferðir Samskipa frá Rotterdam. Hinn 17. október hefur Yves eftir „gamla manninum” að hlutirnir séu að þorna. Hinn 27. október biður Einar Óli Yves um að segja Theodór Emil ekki frá, hann treysti honum ekki.

Hinn 30. október lætur Yves Einar Óla vita að sendingin sé farin af stað til flutningsmiðlarans og nú sé þetta í höndum Einars Óla. Honum hefur litist vel á smíðina og segir áætlað að sendingin verði tíu daga á leiðinni. Hinn 4. nóvember segir Yves Einari Óla að einhver vandræði séu með pappírana hjá „gamla manninum” og það tefji sendinguna. Daginn eftir hringir Yves aftur og segist vera með slæmar fréttir. Þeir hringjast aftur á en upptaka náðist ekki af 15 mínútna samtali þar sem þeir ræða þessar slæmu fréttir. Hinn 6. nóvember segir Yves að það sé vandamál með að borga reikning fyrir sendinguna hjá flutningafyrirtækinu, en það vilji ekki senda hlutinn, 10 stk. hurðir, fyrr en sendingarkostnaðurinn hafi verið greiddur að fullu og hugsanlega tollgjöld. Yves talar um að verðmæti sendingarinnar sé um 4.300.000 íslenskra króna. Einar Óli spyr Yves hversu slæmt þetta sé, hvort þeir séu búnir að „finna það” eða hvað sé að gerast. Leggur Yves fyrir Einar Óla að hringja í flutningafyrirtækið og reyna að koma sendingunni af stað. Hinn 8. nóvember ákveður Einar Óli að hringja í Samskip og láta þá kanna málið hjá flutningafyrirtækinu. Starfsmaður Samskipa segist ekkert skilja í því hvers vegna sendingin sé stöðvuð. Þá hringir Einar Óli sjálfur til Lluc Transportir en þar kannast enginn við Varnir ehf. og lætur Einar Óli Yves vita að enginn kannist við sendinguna þar. Eiga þeir nokkur símtöl þennan dag og kemur m.a. fram að „gamli maðurinn” sé að reyna að finna annan sendanda. Hann sé einnig að leita að aðila sem tali góða spænsku til að athuga stöðu mála hjá Lluc Transportir. Daginn eftir, hinn 9. nóvember, virðist allt komið í lag. Yves segir Einari Óla að „gamli maðurinn” megi sækja hurðirnar. Hann segist þó ekki vita hvort þetta sé gildra. Hinn 11. nóvember stendur Yves í þeirri trú að „gamli maðurinn” sé búinn að sækja hurðirnar og koma þessu á aðra flutningsmiðstöð. Hinn 14. nóvember er Yves mjög hress og segir sendinguna fara af stað næsta fimmtudag, hann sé búinn að fá rétta pappíra. Hann talar um að hafa eytt í þetta 60.000 Bandaríkjadölum. Einar Óli og Valentínus ræða saman stuttu síðar og segir Einar Óli honum að þetta sé „miklu meira en þeir áttu von á”. Þeir tala um að vegna áhættunnar komi „Charlie” næst og að Yves hafi verið hræddur um ákærða Einar Óla, „það er bara, þú veist, next plane”.

Hinn 8. nóvember 1999 fundust um 30 kg af hassi í fyrirtækinu Lluc Transportir í Barcelona á Spáni. Efnið var falið í hurð sem flytja átti með níu öðrum hurðum til Íslands. Vegna þessa fundar voru tveir menn handteknir á Spáni, þeir Claude Louis Raffanelli, franskur að þjóðerni, fæddur árið 1937, og Carlos Gregori Vallori, spænskur að þjóðerni, fæddur árið 1946. Hinn 15. nóvember 1999 voru ákærðu allir handteknir en svo sem rakið hefur verið hafði verið fylgst með þeim um alllangt skeið.

Dómsmeðferð í máli mannanna tveggja, sem handteknir voru á Spáni, hefur ekki farið fram, hins vegar liggja frammi ýmis gögn um samskipti og samvinnu íslensku og spænsku lögreglunnar og rannsókn málsins á Spáni. Þar kemur fram að vörusendingin, tíu sérstyrktar hurðir, hafði verið framleidd á smíðaverkstæðinu Oscar y Casals á Ibiza, sem er í eigu trésmíðaverkstæðisins Gregori á Ibiza, en eigandi þess er Carlos Gregorio Vallori. Samkvæmt vitnisburðum er upplýst að nefndur Carlos Gregorio Vallori sá einn um að smíða eða a.m.k. að líma saman eina hurð sem sögð var prufa, og fól síðan starfsmönnum sínum að smíða aðrar níu hurðir. Talið er að fíkniefnin hafi verið falin í þeirri hurð sem Vallori gekk frá. Hurðirnar voru, samkvæmt lýsingum, rammbyggðar hvítlakkaðar viðarhurðir með ásettum málmþynnum, en málmþynnur voru þó ekki settar á síðustu fjórar hurðirnar, þar sem eigandinn sagði kaupanda liggja á sendingunni. Var frágangur hurðanna þannig að ekki var hægt að taka þær í sundur nema valda á þeim verulegum skemmdum. Samkvæmt vætti og myndbendingu kom greindur Carlos Gregorio Vallori ásamt frönskum eldri manni, sem gaf upp nafnið Jón Ástvaldsson, til flutningafyrirtækisins Azkar á Ibiza hinn 26. október 1999 og bað um flutning á hurðunum tíu til flutningafyrirtækis í eða nálægt Barcelona og tók Azkar við þeim 28. sama mánaðar. Hurðirnar voru síðan sóttar 2. nóvember 1999 af flutningafyrirtækinu Lluc Transportir í Barcelona. Þar komst upp að reikningur með sendingunni, sem leit út fyrir að vera frá fyrirtækinu Alfredo Royo S.L. í Valencia, var falsaður. Fölsunin komst upp þar sem skattnúmer vantaði á reikninginn. Hinn 4. nóvember 1999 lagði síðargreint fyrirtæki fram kæru vegna fölsunarinnar. Vöknuðu grunsemdir hjá spænsku lög­reglunni um að fíkniefni væru falin í hurðunum, þar sem þekkt var sú aðferð fíkniefnasmyglara að fela fíkniefni í löglegum vörum og láta falsaða reikninga fylgja. Fleiri atriði komu lögreglunni kunnuglega fyrir sjónir. Fór lögreglan með fíkniefna­hund á staðinn og sýndi hann viðbrögð sem gáfu til kynna að þar væru fíkniefni. Hinn 6. nóvember var gerð árangurslaus leit í hurðunum. Hinn 8. nóvember var send tilkynning frá íslensku lögreglunni til spænsku lögreglunnar um að þær upplýsingar hefðu fengist hérlendis með símhlerunum kl. 12.00 sama dag, að stór hasssending væri á leiðinni frá Spáni til Íslands og væri komin til flutningafyrirtækis í Barcelona, sem ekki væri vitað hvað héti, en símanúmer þar væri þekkt og fylgdi það. Einnig hafði það vakið grunsemdir ytra að maður sem nefndi sig Pedro hafði ítrekað haft samband við Lluc Transportir til að reka á eftir sendingunni, en hann gaf ekki aðrar upplýsingar um sjálfan sig en símanúmer. Kvaðst hann ýmist ætla að taka hurðirnar aftur eða láta þær eiga sig. Annað vitni sagði að Íslendingur hefði hringt. Í ljósi þessara upplýsinga var aftur gerð leit hinn 9. nóvember og fundust þá 74 plötur af hassi sem vógu hver um 400 g en alls voru þetta um 32 kg brúttó. Hafði fíkniefninu verið afar vel fyrir komið í einni hurðinni af tíu. Innra byrði hurðarinnar hafði verið fóðrað með röntgenmyndaplötum. Hinn 17. nóvember hafi Pedro hringt og sagst ætla að sækja hurðirnar og greiða reikning, sem honum var sagt að væri skilyrði afhendingar. Maðurinn kom síðan sama dag í fyrirtækið, var þá setið fyrir honum og hann handtekinn. Hinn handtekni reyndist vera Claude Louis Raffanelli, er hann talinn vera sá aðili sem nefndur hefur verið „gamli maðurinn”. Með vætti, myndbendingu og samanburði á undirskrift var talið ljóst að hann væri sá aðili, sem bað um flutninginn frá Ibiza og gaf upp nafnið Jón Ástvaldsson þar, þá var hann með síma á sér með sama númeri og Pedro hafði gefið upp og gefið var upp í flutningsfyrirtækinu á Ibiza ef þörf væri á að ná í Jón Ástvaldsson. Þegar Claude Louis Raffanelli var handtekinn hafði hann samið við deild flutningafyrirtækisins Azkar í Barcelona um að sækja vöruna til Lluc Transportir og senda hana áfram til Hollands.

Samkvæmt upplýsingum sem íslenska lögreglan sendir spænsku lögreglunni, og aflað hafði verið með símahlerunum, höfðu Yves og „gamli maðurinn” farið „suður eftir” og keypt sérstaklega gott efni. „Gamli maðurinn” hafi átt að sjá um um smíðina og að koma efninu fyrir, en hann þekkti mann sem gat smíðað hurðirnar. Sá aðili er talinn vera Carlos Gregorio Vallori. Einnig hafi „gamli maðurinn” átt að sjá um að flytja efnið frá Ibiza til Barcelona. Íslenska lögreglan upplýsti einnig að ætluð flutningaleið efnisins hefði verið frá Spáni um Frakkland og síðan Holland eða Þýskaland til Íslands. Ennfremur er upplýst að ákærðu Einar Óli og Valentínus hafi útvegað heimild hjá Jóni Ástvaldssyni, fyrirsvarsmanni fyrirtækisins Varnir ehf., til að flytja inn greindar hurðir á nafni fyrirtækisins, en hann er ekki talinn tengjast málinu að öðru leyti.

Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum hvort leit var gerð að títtnefndum Yves. Hefur hann ekki komið frekar við sögu. Ofangreindir tveir menn hafa verið ákærðir á Spáni, en mál þeirra hefur enn ekki verið tekið fyrir. Við meðferð þessa mál hafa öll samskipti við spænsk dómsvöld verið mjög þunglamaleg.

Við lögreglurannsókn voru hleranir þær sem hér að framan voru raktar kynntar ákærðu. Ákærðu gáfu skýrslu fyrir dómi bæði á rannsóknarstigi og við aðalmeðferð. Auk þeirra var við aðalmeðferð málsins tekin skýrsla af vitnunum Carmen Córdoba Alba, sem gaf símaskýrslu, Jóhanni Þóri Guðmundssyni, Þorbirni Vali Jóhannssyni og Jóni Ástvaldssyni. Framburðir ákærðu og vitna fyrir dóminum verða nú raktir eins og tilefni þykir til.

Ákærði Einar Óli Einarsson neitaði sök. Hann kvað það rétt að hann hefði farið fjölmargar ferðir til Spánar en neitaði því eindregið að þessar ferðir hefðu verið liður í skipulagningu á innflutningi fíkniefna hingað til lands.

Ákærði kvað rétt að hann hefði hitt Theodór Emil í Frakklandi sumarið 1998 og að Theodór Emil hefði kynnt hann fyrir manni að nafni Yves. Hann neitaði hins vegar að sá fundur hefði haft einhvern sérstakan tilgang eða að þeir hefðu rætt um hass. Hann kvaðst einnig hafa farið til Frakklands í annan tíma og hitt Yves í leiðinni, en kvað ekki rétt að þeir hefðu rætt um hass. Hann kvaðst ekki vita um áform um að flytja hass hingað til lands með skútu en kvaðst þó hafa vitað um áhuga Yves og fleiri á að sigla til Íslands.

 Borin voru undir ákærða eftirfarandi ummæli sem eftir honum eru höfð í skýrslu um yfirheyrslu frá 22. nóvember 1999, en í þeirri yfirheyrslu neitar ákærði að hafa átt efnin eða skipulagt innflutninginn en segir síðan aðspurður hvort hann hafi átt von á einhverjum fíkniefnum frá Spáni: „Já, ég átti von á því að það kæmi hass frá Spáni. Það var tekin ákvörðun um það í haust að þau færu í þessar hurðir. Ég vil taka fram að ég var búinn að afskrifa þessa sendingu.” Aðspurður hvort hann hafi vitað hversu mikið magn af fíkniefnum var væntanlegt hingað til lands svarar ákærði: „Nei, það var alfarið undir erlendu aðilunum komið. Yves og hans menn vildu gera prufu með að senda hingað til lands fíkniefni og átti ég að vera milligöngumaður á milli þeirra og seljenda fíkniefnanna. Það átti að koma maður hingað til lands og nálgast peningana eftir að efnin voru komin í verð. Hann átti að fá peningana í dollurum.” Aðspurður hver hans hlutur af hagnaðinum hafi átt að vera svarar ákærði: „Ég átti að fá 1/3 af hagnaði sölunnar, Yves átti að fá 1/3 og Theodór Pantazis átti að fá 1/3 ef af þessu yrði.”

Kvaðst ákærði muna lítið eftir þessu en telja að þetta væri rétt eftir sér haft. Hann neitaði því að hann hefði átt að vera milligöngumaður. Hann hefði efast um að nokkuð myndi gerast í málinu, þetta hefðu á sínum tíma verið einhverjar óraunhæfar skýjaborgir sem ekki hefðu orðið að neinu. Þetta efni hefði aldrei verið sent til landsins, hann hefði farið eina ferð til Ibiza og eina ferð til meginlands Spánar. Yves hefði verið góður kunningi hans, hina hefði hann ekkert þekkt.

Ákærði var spurður um ummæli í símtali á milli hans og meðákærða Theodórs 17. ágúst 1999, þar sem hann segir: „...fer einn 100 þúsund kallinn hjá mér enn”, en í yfirheyrslu hjá lögreglu 24. nóvember 1999 kvað hann hafa verið átt við kostnað við að fara til Ibiza. Kvað ákærði þetta rétt, töluvert kostaði að fara til Ibiza, en það kæmi fíkniefnainnflutningi ekkert við, hann hefði ekki átt þátt í skipulagningu neins þess háttar.

Borið var undir ákærða samtal á milli hans og meðákærða Theodórs frá 9. september 1999, þar sem ákærði segist vera búinn að „setja sig upp að vegg peninga­lega út af þessu, öllu þessu rugli” og Theodór svarar: „maður getur ekkert lifað á orðunum”. Ákærði svarar: „Nei, ég ét ekki orð.” Hjá lögreglu gaf ákærði þá skýringu að hann hefði verið orðinn blankur vegna þess að hann hefði verið búinn að leggja mikið út vegna flugmiða og ferðanna. Fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa lagt mikið út í ferðir, en þetta hefðu verið skemmtiferðir til Spánar og ekki haft neitt með innflutning að gera, ýmsir legðu mikið út vegna ferðalaga án þess að nokkuð væri athugavert við það.

Spilað var í réttinum símtal frá 20. ágúst 1999 á milli ákærða Valentínusar og ákærða Einars Óla. Þar kemur fram að ákærði segist vera kominn „uppeftir” og er að spyrja meðákærða hvernig hann geti talað við hann, það sé alveg nauðsynlegt, meira en nauðsynlegt. Hann sé að tala við háttsettustu menn í Frakklandi á vissum vígstöðvum. Hann þurfi að gefa ákveðin svör í kvöld. Valentínus spyr hvort ekki sé einhver frestur eins og þeir hafi talað um og ákærði svarar játandi. Aðalmaðurinn komi til Íslands. Síðan segir meðákærði Valentínus: „heyrðu! skelltu þér á þetta bara” og ákærði svarar: „við erum að tala um hálfan mánuð, þrjár vikur, þá vilja þeir sjá eitthvað”. Síðan fer ákærði að tala um tvær hvítar pentíum tölvur, „alveg extra flottar” og 32 diska með eðal klámefni. Þeir ræða góða stund á þeim nótum þar sem meðákærði Valentínus jánkar aðallega því sem ákærði segir. Ákærði talar um að verðið verði aðeins hærra en þeir hafi gert ráð fyrir en þeir þurfi ekkert að borga, bara koma þessu af stað. Svo vilji þessir aðilar setja upp tölvuverslun á Íslandi. Síðan spyr ákærði Einar Óli ákærða Valentínus hvort hann muni koma út diskunum, hann svarar: „Akkúrat...Einmitt ég veit alveg um hvað málið er.” Loks segir ákærði við með­ákærða Valentínus að hann sé búinn að vinna sína heimavinnu og nú sé komið að honum.

Símtalið var borið undir ákærða í yfirheyrslu hjá lögreglu hinn 2. desember 1999 þar sem hann var m.a. spurður hvað hann ætti við með „32 diskum af eðal klámefni” Ákærði kvaðst hafa átt við að verið gæti að þeir myndu senda til prufu allt að 32 kg af hassi. Fyrir dóminum kvaðst ákærði ekki muna eftir símtalinu eða því að hafa gefið þessar skýringar hjá lögreglu og ekki geta tjáð sig um þennan framburð eða annað varðandi símtalið.

Spilað var í réttinum símtal frá 15. september 1999, á milli ákærða og Yves. Þar er Yves að biðja um peninga, segist vera blankur og alltaf sé verið að rukka hann. Hann hafi m.a. beðið „gamla manninn” um peninga en hann hafi sagst vera þegar búinn að leggja mikla peninga „í söguna”. Yves segir: „Well the thing is I need money now if you have some money to invest it would be a great time I don´t need that much but I need fucking something.” Ákærði svarar og kveðst ekki hafa mikla peninga. Borið var undir ákærða fyrir dóminum hvað hann ætti við með þessu og hvers vegna hann segði þetta. Kvað ákærði Yves einfaldlega vera að biðja hann um að lána sér peninga og hann sæi ekkert saknæmt við það.

Loks var spilað í réttinum samtal á milli ákærða og Yves frá 24. september 1999 þar sem Yves er að biðja ákærða að koma út og hafa umsjón með lokaundir­búningnum. Yves segir: „We did the shopping...and it´s done you know, lots of money invested...and I have to move it now from where it is to the packaging place...when the thing is ready for the very last leg, why don´t you come here too?” Ákærði spyr hvert. Yves svarar: „To Ibiza just to manage the whole thing together, you don´t need to come, what I need is the data you have to send me through a fax.”

Einar Óli kvaðst ekki muna hvers vegna Yves hefði verið að biðja hann að koma út. Spurður hvað hann ætti við þegar hann segði sjálfur seinna í samtalinu: „it is very important to get it to Iceland quick” kvaðst ákærði hafa verið að kaupa íbúðir á Akureyri, hafi vantað þar hurðir og hafi legið á þeim. Ákærði var þá spurður hvað væri átt við með „what we bought, it´s just unbelivable it´s the best” og síðar: „It is the fucking best I am telling you it is just like a joke you know, it is unbeliveable”, hvort þar væri einnig átt við hurðir. Hann kvaðst aldrei hafa séð hurðirnar en það hlyti að vera að hurðirnar hafi verið svona góðar. Hann var þá spurður hvað væri átt við með því að „gamli maðurinn” hefði beðið fyrir þau skilaboð að það væri ekki víst að gæðin yrðu alltaf svona mikil. Einar Óli kvaðst ekki geta svarað þessu, það yrðu getgátur einar.

Ákærði var spurður hvað hann ætti við með ummælum sínum í yfirheyrslu hjá lögreglu 7. desember 1999, þess efnis að undir lokin hafi hann verið orðinn mjög afhuga þessu máli og kominn á fremsta hlunn með að hætta við allt saman. Hafi hann haldið að þetta væri stopp úti og málið dautt, enda hafi hann orðið mjög hissa þegar hann var handtekinn. Kvaðst Einar Óli hafa verið orðinn mjög afhuga þessu máli öllu, en vildi ekki svara nánar við hvað hann ætti, hann kvaðst ekki geta svarað fyrir hvað menn settu í hurðir úti í löndum.

Spurður um tengsl sín við meðákærða Theodór Emil kvað Einar Óli þá hafa verið að vinna saman. Kvaðst hann ekkert vita um það hvers vegna meðákærði hefði talið allt málið byggt á skýjaborgum hjá ákærða Einari Óla.

Ákærði kvað meðákærða Valentínus hafa unnið fyrir sig en hann væri góður smiður og hefði ætlað að setja upp hurðirnar. Aðspurður hvort meðákærði hefði vitað eitthvað um hvort ætti að flytja inn hass með hurðunum kvað hann þá ekki hafa stjórnað því hvað komið hafi með þessum hurðum. Beðið hefði verið um það úti að innflutningurinn væri á vegum einhvers trésmíðafyrirtækis og það væri skýringin á því að hurðirnar hefðu verið á nafni Jóns Ástvaldssonar. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa staðið að innflutningi á neinum hurðum, þeir hafi ætlað að senda honum sýnishorn en hann kvaðst ekki vita hversu stór sú sending hafi átt að vera. Aðspurður um hverjir þessir „þeir” væru kvaðst ákærði aðeins hafa vitað nafnið á Yves en hann hefði einnig hitt manninn sem kallaður væri „sá gamli”.

Ákærði lýsti því að þetta mál allt hefði haft mjög slæm áhrif á allt hans líf, hann hefði lent í drykkju og misst allt sitt. Hann kvaðst kannast við að hafa spáð í ýmislegt og talað um hugmyndir sínar við aðra, jafnvel hafa ætlað að vera þátttakandi ef eitthvað yrði af áætlunum hinna erlendu aðila en hann hefði enga stjórn haft á atburðarásinni, hvort eitthvað yrði flutt inn, hversu mikið eða hvenær. Hann kvaðst hafa talið á sínum tíma að erlendu aðilarnir væru hættir við allt saman. Hann kvaðst telja sig saklausan í málinu þar sem hann hefði engu stjórnað. Ákærði staðfesti undirritun sína á lögregluskýrslum.

Ákærði Emil Theodór Pantazis neitaði sök. Hann kvaðst hafa orðið mjög undrandi þegar hann var handtekinn vegna þess að hann hefði ekki talið að nokkuð myndi gerast í málinu, sem hann hefði talið „algert bull” frá byrjun.

Hann kvaðst hafa verið úti í Frakklandi vegna forsjárdeilu við franska ríkið, konan hans hefði reynt sjálfsvíg og orðið fyrir heilaskaða. Hefðu læknar viljað að dóttir þeirra væri eitt ár í viðbót úti í Frakklandi. Mikil drykkja hefði verið á honum á þessu tímabili og hefði Einar Óli verið búinn að lána honum peninga til uppihalds. Hann hefði ætlað að launa honum með því að koma honum í samband við menn sem gætu útvegað fíkniefni. Hefði hann kynnt Yves fyrir ákærða Einari Óla á bar í París.

Hann kvað það rétt, sem kemur fram í yfirheyrslu fyrir dómi 8. desember 1999, að hann hefði nokkrum sinnum hringt í Yves fyrir Einar Óla, til að reyna liðka fyrir um fíkniefnasendingu sem Einar Óli hafi verið að reyna að fá til landsins. Hann kvaðst kannast við að rætt hefði verið um fíkniefni og þetta mál hefði allt snúist um fíkniefni en það hefði bara verið vitleysisgangur. Það hefði verið talað um heilt herskip af fíkniefnum, kvaðst hann hafa verið að taka þátt í einhverju leikriti sem hann hafi ekki haft neina trú á, þetta hefði fyrst og fremst verið einhver sýndarmennska að hans mati. Hann hefði skuldað Einari Óla eitthvað og verið að reyna að fresta því að þurfa að borga honum þá skuld. Aðspurður hvort hann hefði átt að fá þriðjung af hagnaði af sölu fíkniefnanna kvað hann ekki hafa verið minnst á það, en hann hefði talið sig verða kvittan við Einar Óla eftir að hann kom honum í samband við Yves. Hann kvaðst ekki muna þetta vel. Þessi fíkniefnasending hefði ekki komið honum sjálfum við. Mikill óraunveruleikablær hefði verið yfir þessum áformum, t.d. hefði verið talað um svo mikið magn að það hefði verið algerlega óraunhæft og ekkert mark á því takandi. Aldrei hefði verið talað um að Einar Óli væri sjálfur að kaupa fíkniefni til innflutnings. Hann kvaðst ekki geta sagt til um hvaða hlutverki hann hefði nákvæmlega gegnt. Spurður vegna sendingarinnar sem fannst í hurðinni, kvað hann samskiptin við Yves hafa minnkað þegar á leið, hann hefði talið allt málið vera dottið upp fyrir. Hann kvaðst ekki hafa þekkt Valentínus neitt áður en þetta mál kom upp og samskipti þeirra Einars Óla hefðu minnkað og hefðu ekki verið mikil undir það síðasta. Aðspurður hvort heimsókn Einars Óla til hans þegar hann afplánaði fangelsisdóm hefði eitthvað tengst málinu kvað hann svo ekki vera.

Ákærði staðfesti lögregluskýrslur sínar og óskaði loks eftir að fá að tjá sig um sína persónulegu hagi. Hann kvað konu sína vera franskan ríkisborgara. Árið 1997 hefði hún gert sjálfsvígstilraun sem hefði leitt til að hún hlaut varanleg örkuml af völdum súrefnisskorts, þyrfti hún 24 tíma umönnun. Dóttir hans hefði, þegar þetta átti sér stað, verið sett á stofnun. Hefði hann staðið í deilu til þess að fá forræði hennar og hefði það tekist. Hann kvaðst nú reka eigið heimili og væri hann sá eini sem stúlkan ætti að. Hefði hann unnið mikið í því að standa sig sem foreldri og fengið aðstoð við það.

Ákærði Valentínus Guðmundur Baldvinsson neitaði sök. Hann kvaðst hafa haft samband við Jón Ástvaldsson hjá fyrirtækinu Vörnum ehf. til að flytja inn hurðir en hann hefði ekki vitað að staðið hefði til að fela fíkniefni í þessum hurðum.

Hlýtt var á í réttinum brot úr símtali frá 20. ágúst 1999, þar sem ákærði Valentínus og ákærði Einar Óli ræða saman um tölvur og tölvudiska með klámefni, sem einnig var spilað fyrir ákærða Einar Óla og vitnað var til hér á undan. Bornar voru undir ákærða skýrslur frá 12. desember 1999 þar sem hann svarar spurningum um símtalið. Þar er hann m.a. spurður við hverju Einar Óli hefði þurft að gefa svar. Kvaðst hann hafa haldið að Einar Óli væri eitthvað að bulla en tilfinning sín hefði verið sú að hann hafi þurft að gefa einhverjum aðilum úti svör um það hvort hann myndi flytja inn einhver fíkniefni og hversu mikið. Fresturinn, sem rætt væri um, væri líklegast greiðslufrestur eða frestur á ákvarðanatöku. Aðspurður um þennan framburð hjá lögreglu kvað ákærði rétt eftir sér haft en hann gæti engu bætt við. Hann kvað það einnig rétt, sem eftir sér væri haft, að hann hefði áttað sig á því seinna, þ.e. þegar hann var yfirheyrður af lögreglu, að 32 diskar þýddi 32 kg af hassi, en hann kvaðst ekki hafa verið viss um hvað þetta þýddi þegar samtalið sjálft átti sér stað. Borin voru undir ákærða ummæli í sömu skýrslu þar sem hann segist oft á tíðum ekki hafa skilið hvað Einar Óli var að tala um, hann hafi verið í einhverjum draumaheimi um innflutning á fíkniefnum. Borinn var undir ákærða hluti af áðurnefndu samtali þar sem ákærði segir „...einmitt, ég veit alveg um hvað málið er...”, var hann spurður hvort hann héldi fast við þann framburð að hann hafi ekki tekið þátt í skipulagningunni. Kvað ákærði svo vera, hann hafi ekki verið með á nótunum en það hefði verið betra að segja „já” við Einar Óla en að segja að hann væri að bulla.

Ákærði kvað rétt að ákærði Einar Óli hefði fyrst talað við sig um vorið 1999 um að flytja inn hass með skútu en hann hefði neitað að eiga hlut að því máli. Aðspurður hvort hann hefði komið á sambandi á milli Einars Óla og Jóns Ástvalds­sonar hjá Vörnum ehf. kvað ákærði þá hafa þekkst fyrir en eitthvert ósætti hefði verið á milli þeirra. Aðspurður hvers vegna þurft hefði eitthvað annað fyrirtæki til að standa fyrir innflutningnum að nafninu til, kvaðst Valentínus hafa verið gjaldþrota og Einar Óli, sem hefði reyndar verið með einhvern rekstur í gangi, hefði verið í vandræðum út af skattamálum. Þeir hefðu einnig flutt inn átta tonn af flugeldum, en það hefði verið gert í nafni konu Einars Óla. Ákærði kvaðst halda fast við þann framburð að hann hefði ekki vitað að það átti að vera hass í hurðunum. Hann hefði ekki sett fyrirætlanir um kaup og innflutning á þeim í samband við fyrri bollaleggingar um hassinnflutning.

Aðspurður um samskipti hans og meðákærða Einars Óla á þessum tíma kvaðst ákærði hafa tekið að sér verk sem Einar Óli hefði verið með sem verktaki. Það hefði verið gott verð á þessum hurðum, raunar hefðu þær átt að vera svo ódýrar að hann hefði viljað fá nokkrar fyrst til að athuga hvort gæðin væru ásættanleg. Jón Ástvaldsson hefði jafnvel ætlað að kaupa eitthvað af hurðum. Þetta hafi átt að vera massívar útidyrahurðir, ekki eldvarnarhurðir. Hann hefði ekkert vitað hvaðan hurðirnar hefðu átt að koma en Einar Óli hefði sagt honum frá þeim, hann hefði haldið að hann hefði séð þær auglýstar í einhverjum vörulista, en Einar Óli hefði alltaf verið að fá einhverjar hugmyndir. Hann kvað handtökuna hafa komið sér á óvart, þar sem hann hefði haldið að tal Einars Óla um hassinnflutning væru draumórar einir, hann hefði oft heyrt Einar Óla tala um eitthvað sem hann hefði vitað að gat ekki verið raunveruleiki. Nánar spurður kvaðst hann ekki hafa skilið áðurnefnt samtal þannig að hann væri að taka að sér að dreifa eiturlyfjum.

Vitnið Jóhann Þórir Guðmundsson rafvirki kvaðst hafa verið að vinna hjá ákærða Einari Óla og þekkja hann. Spurður hvort ákærði hefði talað um að hann væri að kaupa hurðir frá Spáni kvað vitnið ákærða hafa sagt sér að hann hefði keypt skemmu uppi á Höfða og ætlaði að setja hurðir þangað, ætlaði að innrétta hana og selja aftur. Hann kvað hass ekki hafa verið nefnt í þessu sambandi.

Borin voru undir vitnið ummæli, sem höfð eru eftir honum í skýrslu lögreglu frá 16. nóvember 1999, þess efnis að vinnuveitandi hans, þ.e. ákærði Einar Óli, hafi talað um að „bráðum kæmi betri tíð”. Vitnið hafi spurt hann hvað hann ætti við og hafi Einar Óli þá svarað að hann hefði í hyggju „smá innflutning á hassi”. Fyrir dóminum kvaðst vitnið ekki muna eftir þessum orðum en erfitt hefði verið að fá greitt hjá ákærða og ákærði hefði talað um að hann fengi bráðum peninga. Hann hefði ekki sett það í samband við hurðainnflutninginn en þegar lögregla hefði yfirheyrt hann hefði hann lagt saman tvo og tvo varðandi merkingu þessara orða „bráðum kæmi betri tíð”. Einnig voru borin undir vitnið ummæli hans um að ákærði hefði nefnt við sig að hann gæti stofnað fyrirtæki til að standa að innflutningi á húsgögnum. Hann hefði jafnframt nefnt að auðvelt væri að láta eitthvað fljóta með og hefði vitnið þá skilið það svo að hann væri að tala um fíkniefni. Vitnið kvaðst einnig hafa minnst á þetta hjá lögreglunni vegna þess að samhengið hefði orðið ljósara eftir að hann vissi um hvað málið snerist, innflutningur á fíkniefnum með hurðunum hefði aldrei verið nefndur. Ákærði Einar Óli hefði líka talað um að hann ætti hluta í skútu. Kvaðst Jóhann Þórir eftir á hafa dregið þá ályktun að bæði skútan og hurðainnflutningurinn tengdist fíkniefnum.

Vitnið Jón S. Ástvaldsson kvaðst reka fyrirtækið Varnir sem væri verktaka­fyrirtæki í byggingariðnaði. Hann kvað ákærða Valentínus vera gamlan vin bróður hans, hann hefði vitað að Valentínus var smiður. Valentínus hefði einhverntíma spurt hann hvort hægt væri að að flytja inn nokkrar hurðir á fyrirtækið vegna þess að skatturinn væri allur í rugli hjá honum sjálfum. Það hefði ekki verið neitt vandamál af hálfu hans og samstarfsmanns hans en ekkert hefði gerst í málinu í einhvern tíma. Síðan hefði Valentínus talað við sig aftur og kvaðst vitnið hafa sagt honum að láta bara senda hurðirnar og síðan væri ekkert vandamál að fara í banka með reikninginn og greiða hann. Ákærði Valentínus hafi beðið hann um að lána sér vegabréfið sitt en vitnið kvaðst hafa sagt honum að svoleiðis gengi þetta ekki fyrir sig, hann þyrfti ekki á því að halda. Þetta hafi átt að vera vandaðar útihurðir og hafi Valentínus sagt þær vera gegnheilar. Hurðirnar hefðu verið á góðu verði og hefði hann sjálfur haft áhuga á að fá eitt til tvö stykki. Talað hefði verið um fimm eða sjö hurðir og hefði Valentínus ætlað að selja þær. Miðað við verðið hefði þetta verið hagkvæmt. Hann kvaðst ekkert hafa vitað um hassið, hvorki þá né í önnur skipti. Nánar spurður um tímasetningar kvaðst vitnið ekki muna hvenær nákvæmlega Valentínus hefði komið að máli við sig fyrst, en nokkuð langur tími hefði liðið þar til hann fór af stað með innflutninginn. Vitnið kvaðst ekkert hafa séð athugavert við þetta mál, alltaf væri verið að reyna að fá hluti á hagkvæmum kjörum. Hann kvaðst aldrei hafa heyrt að þetta væru eldvarnarhurðir. Vitnið kvaðst aldrei hafa komið nálægt þessum innflutningi hefði hann vitað að um eiturlyf var að ræða.

Vitnið Þorbjörn Valur Jóhannsson, rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík, kvaðst hafa komið að rannsókn málsins frá upphafi. Kvað hann hafa verið farið að hlera síma í ágúst 1998 og það hafi verið gert allt til haustsins 1999. Fyrsta heimild til símhlerunar hafi verið á síma ákærða Einars Óla.

Hann kvað rannsóknina hafa beinst gegn Einari Óla og Theodór Emil vegna gruns um væntanlegan innflutning hingað til lands á hassi með seglskútu. Kvað hann skútuna hafa lagt af stað, að því er talið var, frá Ibiza á Spáni en henni hefði verið snúið við. Síðan hafi orðið nokkur bið og minna borið á þeim félögum þar til í árslok 1998. Árið 1999 hafi verið fundir með Einari Óla og Theodór Emil og hafi þeir ekki virst vera hættir við áform sín. Þeir hafi haft samskipti við mann að nafni Yves, fyrst í stað hafi ákærði Theodór Emil séð um þau samskipti en snemma veturs 1999 hafi ákærði Einar Óli tekið við. Þeir Einar Óli og Yves hafi hist tvisvar til þrisvar á Spáni og alltaf hafi verið talað um að flutningurinn færi fram með skútunni. Hafi Valentínus átt að sigla með henni til Íslands. Lögreglan hafi fylgst með og beðið eftir að skútan kæmi. Hurðir hafi verið sendar af stað af erlendu aðilunum í Barcelona, en hafi verið stöðvaðar í flutningsfyrirtæki vegna ágalla á pappírum. Fyrirtækið, sem skráð var sendandi, hafi ekki kannast við hurðirnar. Hann kvað íslensku lögregluna hafa vitað af þessum vandræðum vegna hlerana á samtölum Einars Óla og Yves en lögreglan og tollgæslan á Spáni hefði ekki fundið neitt í hurðunum fyrst í stað. Sú leit hefði verið gerð að frumkvæði spænskra yfirvalda og ekkert hefði átt að gera frekar af þeirra hálfu. Eftir að íslenska lögreglan hafi haft samband við aðila í Madrid og tjáð þeim að hass væri í hurðunum hefði verið leitað betur og efnið hefði fundist. Vitnið kvaðst líta svo á að sendingin hafi verið farin af stað frá sendendum til flutningsmiðlara þrátt fyrir að hurðirnar hefðu líklega ekki farið lengra vegna ágalla á pappírunum. Vitnið kvaðst ekki geta svarað því hvort hægt hefði verið að bæta úr þeim ágalla þannig að sendingin færi áfram ef yfirvöld hefðu ekki gripið inn í atburðarásina. Hafi yfirstjórn lögreglunnar tekið ákvörðun um að grípa inn í. Nánar spurður um hvort samskipti í síma hefðu eingöngu verið á milli ákærða Einars Óla og Yves, þegar hér var komið sögu, kvað vitnið svo vera að mestu leyti en ákærði Theodór Emil hefði einnig hjálpað til, hann hefði verið tungumálamaðurinn.

Spurður varðandi rannsóknir á hassi hér á landi kvað hann það vera styrkleika­greint hjá rannsóknarstofu Háskóla Íslands.

Tekin var símaskýrsla af vitninu Carmen Córdoba Alba, yfirmanni fíkniefna­rannsóknar­stofu Katalóníu. Við yfirheyrsluna túlkaði Sonja Diego löggiltur dóm­túlkur af og á spænsku. Vitnið kvaðst vera lyfjafræðingur og yfirmaður fíkniefna­rannsókna­stofu Katalóníu. Hún kvaðst kannast við það mál sem hér um ræðir og hafa eintak af rannsóknarúrskurðinum fyrir framan sig. Hún hefði haft umsjón með rannsókninni og framkvæmt hana ásamt öðrum starfsmanni, Pilar Aguar Fernandez að nafni, og staðfesti vitnið niðurstöður rannsóknarinnar.

Vitnið sagði að rannsóknin hefði snúist um að bera kennsl á efnið sjálft en styrkleiki þess hafi ekki verið kannaður sérstaklega. Rannsóknin hefði staðfest að um hass væri að ræða. Tekin hefðu verið tíu sýni og rannsökuð en alls hefðu þetta verið 64 pakkar og tvær plötur í hverjum. Alls hefði efnið vegið 29,127 kg.

Vitnið lýsti rannsóknaraðferðum svo að tekin væru sýni úr tíunda hluta efnisins og kannað ástand, útlit, litur og svo framvegis. Þá væru gerðar efnaprófanir og sérstök rannsókn til að leiða í ljós hvort kanabis væri í efninu. Færi rannsókn þessi eftir stöðlum sem Sameinuðu þjóðirnar hafi sett.

Niðurstaða

Meðferð máls þessa hefur tekið alllangan tíma bæði á rannsóknar- og dómsstigi. Það sem einkum tafði rannsókn málsins var gagnaöflun frá Spáni. Löggilt þýðing þeirra skjala, sem þaðan komu, var afhent lögreglu í janúar 2001. Ákæra var gefin út 2. maí 2001. Málið var þingfest 1. júní 2001. Einnig hefur málið tekið langan tíma fyrir dóminum. Má einnig rekja það að miklu leyti til tilrauna, að áskorun verjenda, til að afla frekari gagna frá Spáni. Reyndist dómsmeðferð í máli þeirra aðila sem handteknir voru þar í tengslum við fund fíkniefnisins ekki vera hafin, en ákæra í því máli hefur verið gefin út og er afrit hennar lagt fram í þessu máli.

Verjandi ákærða Einars Óla setti fram þá málsástæðu, og undir hana var tekið af hálfu verjenda annarra ákærðu, að með mikilli töf á meðferð málsins hefðu verið brotin á ákærðu skilyrði 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. laga nr. 97/1995. Mál þetta hefði komið upp í nóvember 1999 og væru nú því liðin hátt í þrjú ár. Þegar ákæra hafi verið gefin út að liðnum nær tveimur árum hafi enn vantað gögn frá Spáni og vanti enn framburði þeirra manna sem þar voru handteknir. Eigi þetta að leiða til þess að málinu verði vísað frá dómi samkvæmt niðurstöðu fræðimanna um dóma­framkvæmd við Mannréttindadómstól Evrópu. Ella beri að skýra skort á ofan­greindum gögnum ákærðu í hag og eigi það að leiða til þess að dómur verði skilorðsbundinn að öllu leyti.

                Með lögum nr. 62/1994 var Mannréttindasáttmála Evrópu veitt lagagildi á Íslandi. Í 1. mgr. 6. gr. er mælt svo fyrir að sé fjallað um sök manns fyrir dómstóli eigi hann rétt til „réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma”. Með 8. gr. laga nr. 97/1995 var nýrri grein bætt við stjórnarskrá Íslands, 70. gr., og er þar að finna sambærilegt orðalag. Byggir málsástæða verjanda á því að ekki hafi verið gætt þess skilyrðis að máli sé lokið „innan hæfilegs tíma”.

Meginregla felst í 111. gr. laga nr. 19/1991 þar sem segir að sérhver refsi­verður verknaður skuli sæta ákæru. Sú regla sætir undantekningum, m.a. með reglum IX. kafla almennra hegningarlaga um fyrningu sakar. Sök ákærðu í þessu máli er ekki fyrnd.

Háttsemi sú sem hér er til meðferðar tengist brotastarfsemi í öðru landi, Spáni. Hafa samskipti við lögreglu og dómsvald þar verið þung og seinvirk, þá hefur þurft að láta þýða mikið magn skjala. Var loks ákveðið að láta aðalmeðferð fara fram án þess að tekist hefði að afla framburðar hinna erlendu aðila, var dómsmeðferð ytra enn ekki hafin þegar aðalmeðferð fór fram hér. Þessi meginástæða fyrir drætti málsins verður vart talin ámælisverð og má að hluta rekja hana beint til brots ákærðu. Verður því ekki fallist á að vísa beri málinu frá dómi. Auk þess er dómvenja fyrir því í íslenskum rétti að miklar tafir á meðferð refsimáls, ef ámælisverðar og verði þær ekki raktar til ákærðu, hvort sem er fyrir dómi eða á rannsóknarstigi, leiði til mildunar viðurlaga komi til sakfellingar, en ekki til frávísunar. Af dómaframkvæmd Mannréttinda­dómstóls Evrópu varðandi 1. mgr. 6. gr. sáttmálans verður ekki dregin sú ályktun að fella beri mál niður við meðferð þess fyrir landsdómi vegna þess að það hafi dregist óhæfilega. Þá felur hvorki 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmálans né 70. gr. stjórnar­skrárinnar í sér bann við því að fram sé komið viðurlögum með málsókn þó að mál hafi dregist. Er af þessum ástæðum ekki fallist á þessa málsástæðu verjanda. Eðlilegt hefði verið að fyrir lægi framburður hinna erlendu aðila og er litið til þess við sönnunarmat þegar og ef tilefni er til.

1.       Þáttur ákærða Einars Óla Einarssonar

Ákærða Einari Óla er gefið að sök að hafa gert tilraun til að flytja til Íslands um 30 kg af hassi, sem hafi verið ætlað til sölu hérlendis í ágóðaskyni. Hann neitar sök.

Kemur þá fyrst til skoðunar sú varnarástæða að háttsemi ákærða Einars Óla verði ekki talin tilraun í skilningi almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að hún falli ekki undir verknaðarlýsingu í ákæru, og síðan til vara að tilraun teljist ekki hafa verið fullframin. Þá hafi verið um ómöguleika að ræða vegna þess að ekki hafi verið hægt að fremja brotið. Einar Óli kannast við að hafa verið í sambandi við menn, sem hafi haft í hyggju að flytja fíkniefni hingað til lands, og að hafa gefið vilyrði fyrir því að dreifa fíkniefninu, ef það yrði flutt inn. Hann kveðst hins vegar ekki hafa átt þetta fíkniefni, og hvorki hafa vitað um magn þess né tegund, hvort það var á leiðinni og þá hvernig. Hann telur að ekki hafi verið um fullframið tilraunabrot að ræða, enda hafi hann ekki sjálfur reynt að flytja fíkniefnið inn til landsins. Fallist er á að um einhvern undirbúning hafi verið að ræða sem ekki geti talist refsivert. Ásetningur til háttsemi sem varði verknaðarlýsingu brotsins hafi ekki verið til staðar.

1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga hljóðar svo: “Hver sá, sem tekið hefur ákvörðun um að vinna verk, sem refsing er lögð við í lögum þessum, og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins, hefur, þegar brotið er ekki fullkomnað, gerst sekur um tilraun til þess.”

Engu þykir breyta þó að Einar Óli hafi ekki sjálfur stjórnað innkaupum efnisins erlendis og hafi ekki komið persónulega að pökkun efnisins og að koma því af stað. Við hið síðastnefnda aðstoðar hann með því að útvega innflutningsaðila fyrir hurðirnar hér. Hann fer a.m.k. tvisvar út í því skyni að koma beint að málinu, í fyrra skiptið þegar hann fer utan með sjómanninum og í síðara skiptið þegar hann hittir, samkvæmt eigin lýsingu, aðila ytra sem hafa tök á að standa að aðgerð sem þessari. Hann ber að þeir Yves hafi verið góðir kunningjar, en samkvæmt hljóðritun samtal­anna snýst kunningsskapur þeirra um þetta mál fyrst og fremst. Samkvæmt samtölunum stenst ekki sá framburður Einars Óla að ferðir hans ytra hafi einungis verið skemmtiferðir. Það er ljóst að hann hefur lagt í einhvern kostnað vegna málsins, en ekki er upplýst hversu mikill hann er og ekki liggja fyrir sannanir um að hann hafi lagt út fé til kaupanna. Varðandi vitneskju sína um það magn fíkniefnis sem var á leiðinni hefur hann orðið tvísaga. Fyrir dómi neitar hann, að í símtali við meðákærða Valentínus hinn 20. ágúst 1999 hafi hann verið að vísa til kílóa af hassi þegar hann talar um „32 diska af eðal klámefni” en hjá lögreglu kannaðist hann við að hafa átt við að verið gæti að þeir myndu senda prufu, allt að 32 kg af hassi. Og fyrir dómi á rannsóknarstigi sagði hann að sér hefði þótt 30 kg mikið magn en aðilunum ytra hefði ekki þótt það mikið. Fyrir dóminum skýrði hann innflutninginn á hurðunum þannig að hann hefði verið að kaupa íbúð á Akureyri og að það hefði legið á hurðunum. Þessi skýring þykir ekki trúverðug, enda stangast það á við samtöl sem voru hljóðrituð, og ekki verður séð að þörf geti hafa verið fyrir tíu sérstyrktar hurðir eða útihurðir í íbúðarhúsnæði. Einnig er ótrúverðugt að hann hafi þá þurft fleiri hurðir og að gæði þeirra myndu ekki alltaf verða jafn mikil, eins og Yves skilar til Einars Óla frá „gamla manninum”. Sú skýring Einars Óla á samtali 15. september 1999, þar sem Yves biður hann um peninga, að Yves hafi verið að biðja hann um lán, þykir ekki heldur trúverðug í ljósi annarra samtala þeirra. Í ljósi sömu gagna stenst ekki sá framburður hans fyrir dóminum að hann hafi verið orðinn mjög afhuga málinu og að því kominn að hætta við allt saman. Verður ekki annað séð en hann fylgist af ákafa með framvindu málsins.

Ákærði Einar Óli fór til Spánar haustið 1999 og af hljóðupptökum, sem lýst hefur verið, verður ekki annað ráðið, en hann hafi þar tekið þátt í ákvarðanatöku varðandi innflutninginn á hassinu sem tekið var í Barcelona. Af samtölum Einars Óla við Yves og Valentínus haustið 1999 er ljóst að hann veltir fyrir sér kaupendum og ágóða, að hann veit að búið er um efnið á Ibiza í hurðasendingu, að hann fylgist með gangi sendingarinnar eftir að hún fer af stað frá Ibiza og bíður hennar hér. Hann hefur unnið beint að undirbúningi þessarar sendingar með því fyrst að kanna með flutningsleiðir, að útvega innflutningsaðila með hjálp Valentínusar og senda út upplýsingar þar um. Handvömm virðist hafa orðið til þess að fljótlega komst upp um verknaðinn ytra. Einar Óli gerir tilraun til að liðka fyrir sendingunni þegar hún strandar hjá Lluc Transportir í Barcelona með því fyrst að tala við Samskip og síðan að hringja sjálfur út. Samkvæmt samtölum Einars Óla og Valentínusar í nóvember 1999, er þeim ókunnugt um að efnið er fundið úti á Spáni og standa þeir í þeirri trú að greiðst hafi úr vandræðunum í flutningafyrirtækinu í Barcelona og að Yves myndi hafa látið Einar Óla vita ef hann þyrfti að forða sér. Samkvæmt þessu bendir ekkert til þess að Einar Óli hafi horfið frá áformum um innflutninginn, þvert á móti þykir upplýst að hann hafi verið virkur þátttakandi í atburðarásinni.

Auk þess sem Einar Óli tók þátt í undirbúningi með þeim hætti sem rakið hefur verið, þá telur dómurinn að málið hafi verið komið á framkvæmdastig. Hurðirnar, sem fíkniefnið var falið í, lögðu af stað frá Ibiza með áfangastað hjá fyrir­tækinu Varnir ehf. á Íslandi hinn 28. október 1999. Þær eru staddar á einum áfanga leiðarinnar, í flutningafyrirtækinu Lluc Transportir í Barcelona, þegar athygli lögreglu er beint að sendingunni með kæru forsvarsmanns fyrirtækisins Alfredo Royo S.L. hinn 4. nóvember sama ár. Þar reynir ákærði Einar Óli í verki að stuðla að því að sendingin haldi áfram. Þykir sú fullyrðing hans því fráleit að hann hafi verið orðinn afhuga málinu.

Taka má undir það, að upphaflegar áætlanir um að flytja hingað til lands frá Spáni með skútu á fjórða hundrað kílóa af hassi, hljómi nokkuð ólíkindalega. Hins vegar er staðfest með gögnum og framburði ákærðu Einars Óla og Valentínusar að þessi áætlun komst á framkvæmdastig. Sú skýring allra ákærðu að hér hafi aðeins verið um bollaleggingar Einars Óla að ræða, sem jafna megi við staðleysu eða drauma, er fráleit í ljósi þeirra sönnunargagna sem fyrir liggja. Þó að hætt hafi verið við þessa fyrstu tilraun, að sigla efninu hingað með skútu, vegna ytri aðstæðna, þá þykir dóminum að líta verði á allt þetta tímabil, frá sumri 1998 til hausts 1999, þegar sending sú sem hér er til umfjöllunar er stöðvuð, sem sama ferli, enda markmiðið allan tímann það sama, að finna „góða” innflutningsleið fyrir fíkniefni. Í samtölum aðila er vísað til síðari sendingarinnar, sem stöðvuð var í Barcelona, sem „prufu”.

Verjandi heldur því einnig fram til vara að ákærði Einar Óli hafi ekkert haft með framkvæmd innflutningsins að gera að öðru leyti en að útvega nafn innflutningsaðila, Varna ehf. Tilboð eða loforð um að vinna verk, í þessu tilviki að gefa vilyrði fyrir að sjá um dreifingu, fullnægi ekki skilyrðum 20. gr. almennra hegningarlaga. Sé því í versta falli um að ræða hlutdeild ákærða í tilraunabroti.

Ekki verður á þetta fallist. Ljóst er að svo mikið magn af fíkniefni er ekki flutt til Íslands frá Spáni í öðrum tilgangi en að dreifa því á íslenskum markaði. Sá aðili, sem hefur það hlutverk að sjá um væntanlega dreifingu, er mikilvægur hlekkur í heildarskipulagi brotsins og ákærði Einar Óli var þessi hlekkur, og hann hefur játað að það hafi átt að vera hlutverk hans. Þykir með öllu sem rakið hefur verið og gögnum málsins sannað að ákærði Einar Óli hafi ótvírætt sýnt í verki að hann hafði ásetning til þátttöku í innflutningi á þeim fíkniefnum sem lýst er í ákæru og að tilgangur hans hafi verið að koma þessu efni í dreifingu hér í ágóðaskyni. Hans þáttur í framkvæmdinni var, auk framangreinds undirbúnings, að taka á móti sendingunni og koma henni í verð.

Þá skal fjallað um þá varnarástæðu ákærða Einars Óla, að ekkert brot hafi verið framið vegna ómöguleika.

Þessi málsástæða er rökstudd með því að á þeim tíma, þegar íslenska lögreglan lét spænsku lögregluna vita um grunsemdir sínar um að fíkniefni væru falin í hurðasendingunni og lögreglan ytra hóf ítrekaða leit að efninu, hefði sendingin þá þegar verið föst af öðrum ástæðum og hefði ekki farið lengra. Flutningafyrirtækið hafi ekki talið sig geta flutt vöruna þar sem pappírar með henni voru ekki í lagi. Íslenska lögreglan hafi fyrst upplýst um fíkniefnið eftir að henni varð ljóst að sendingin kæmi ekki til Íslands. Vísbendingar séu einnig um að aðilarnir, sem ætluðu að flytja efnið inn, væru hættir við það. Þannig hafi verið til staðar ómöguleiki til að fremja brotið á þeim tíma sem efnið fannst. Hvað hugsanlega hefði síðar getað gerst skipti ekki máli.

Af því sem rakið er hér að framan, um upphaf rannsóknarinnar og fund efnisins, má vera ljóst að enginn ómöguleiki var til staðar í þeim skilningi sem verjandi ræðir um. Það var ákvörðun lögregluyfirvalda að stöðva vöruna á þessum stað og að leita til þrautar að fíkniefninu. Claude Louis Raffanelli, talinn vera „gamli maðurinn”, var búinn að gera ráðstafanir til þess að koma sendingunni áfram með öðru flutningafyrirtæki og var hann handtekinn þegar hann kom í flutningafyrirtækið Lluc Transportir til að ganga frá þessu. Ef það hefði verið sameiginleg ákvörðun íslensku og spænsku lögreglunnar að láta vöruna fara áfram og fylgjast með sending­unni alla leið, þá er langsótt að ætla að hinn falsaði reikningur, sem henni fylgdi til Lluc Transportir, hefði komið í veg fyrir það. Auk þess er ljóst að brotið var þegar komið á framkvæmdastig þegar þessi staða kom upp og gerðin því söm. Er því ekki fallist á þessa málsástæðu verjanda.

Dómurinn telur þannig fullsannað, með framlögðum gögnum og framburði ákærðu og vitna, að ákærði Einar Óli hafi af ásetningi unnið að skipulagningu og framkvæmd innflutnings á miklu magni af fíkniefnum til landsins og hafi hann ætlað að koma því í dreifingu í því skyni að hagnast á því. Þykir einnig upplýst að þessi ásetningur hafi haldist allt frá sumri 1998 og þar til sendingin var stöðvuð haustið 1999. Er ákærði Einar Óli fundinn sekur um það brot sem hann er ákærður fyrir eins og því er lýst í ákæru og er fallist á heimfærslu þess til refsiákvæða.

2.          Þáttur Theodórs Emils Pantazis

Brot Theodórs Emils er talið felast í hlutdeild í tilraunabroti. Um hlutdeild er fjallað í 22. gr. almennra hegningarlaga og er það skilgreint þannig í 1. mgr. ákvæðisins: „Hver sá maður, sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt lögum þessum er framið, skal sæta þeirri refsingu sem við brotinu er lögð.”

Ákærði Theodór Emil neitar sök. Hann vísar til sömu raka og fram komu í málflutningi verjanda meðákærða Einars Óla um, að háttsemi Einars Óla hafi ekki verið þess eðlis að fullnægt sé skilyrðum tilraunar og háttsemin hafi því verið Einari Óla refsilaus. Hlutdeild í refsilausum verknaði geti ekki verið refsiverð. Af því leiði að sýkna beri Theodór Emil af ákærunni.

Fjallað hefur verið um þessa málsástæðu í þætti ákærða Einars Óla, var henni hafnað með rökstuðningi og er vísað til hans.

Ákærða Theodór Emil er gefið að sök að hafa komið meðákærða Einari Óla í samband við nefndan Yves, sem tengdist fíkniefnaviðskiptum, sumarið 1998 og að hafa frá þeim tíma til haustsins 1999 liðsinnt við samskipti þessara manna, vitandi að markmið Einars Óla var innflutningur fíkniefna sem ætluð voru til sölu hér á landi.

Ákærði Theodór Emil játar að hafa komið á sambandi Einars Óla og Yves vegna þess að Einar Óli hafi haft áhuga á innflutningi á fíkniefnum. Hann talar frönsku og hafði kynnst þessum manni, Yves. Hann ber að fundurinn sumarið 1998, þar sem hann kynnir Einar Óla og Yves, hafi verið haldinn í þeim tilgangi að opna Einari Óla leið að fíkniefnaviðskiptum og hafi það verið umræðuefni þeirra Einars Óla og Yves á þessum fundi. Einnig játaði hann í yfirheyrslu fyrir dómi, í þinghaldi vegna kröfu um gæsluvarðhald, 16. nóvember 1999, að hafa búist við að hafa þann ávinning af þessu að fá fellda niður skuld við Einar Óla, sem hafi numið um 200.000 krónum, og að hafa þegið lausafé og bjór fyrir viðvikin. Einar Óli hafi hjálpað honum með fé til uppihalds, en hann hafi verið í mikilli óreglu og neyslu á þessum tíma. Hann neitar hins vegar að um það hafi verið rætt að hann fengi þriðjung í ágóðahlut af sölu efnisins hér eins og Einar Óli bar hjá lögreglu og þykir það vera ósannað. Theodór Emil játar einnig að hafa talað nokkrum sinnum við Yves í síma til að liðka fyrir samskiptum þeirra Yves og Einars Óla, bæði haustið 1998 og sumarið 1999. Hann heldur því hins vegar fram sér til varnar, að hann hafi ekki trúað á þetta mál. Það hafi verið óraunveruleikablær yfir því, Einar Óli hafi verið í hæstu hæðum. Hann kveðst hafa verið byrjaður á lygum gagnvart Einari Óla og orðið að halda þeim leik áfram.

Framburður Theodórs Emils hefur verið í góðu samræmi frá upphafi og svo langt sem hann nær er hann einnig í samræmi við málsgögn. Theodór Emil þykir þó ekki hafa gefið haldbæra skýringu á því að hann hefur stundum sannanlega sjálfur frumkvæði að samtölum og fundum þeirra Einars Óla, bæði á fyrri hluta fangelsis­vistarinnar og eftir að hann flyst á Vernd. Þá þykir sú skýring ekki trúverðug að allt hafi þetta verið leikur af hans hálfu. Síðast 5. október 1999 lætur Theodór Emil við Einar Óla sem hann hafi kaupanda að fíkniefnum. Hinn 27. sama mánaðar segir Einar Óli hins vegar við Yves að hann treysti ekki Theodór Emil og vill ekki að hann viti of mikið. Skýring á þessu hefur ekki komið fram.

Ljóst er að ef flutningspappírar hefðu verið í lagi, og ef íslensku lögreglunni hefði ekki verið kunnugt um áformin, hefði innflutningur á því efni sem haldlagt var í Barcelona getað heppnast. Hefði getað orðið af því mikill ágóði. Ákærða Theodór Emil hlýtur að hafa verið þetta ljóst. Með því að koma Einari Óla í kynni við fíkniefnasala og aðstoða hann við samtöl þeirra, og með því að hann vissi að málið snerist um innflutning á fíkniefnum, þá telst hann hafa af ásetningi veitt liðsinni við þessa tilraun og þannig gerst brotlegur um hlutdeild í henni. Í ljósi þeirra verka sem hann vann í tengslum við brotið verður ekki fallist á að það sé honum til afsökunar að áformin höfðu nokkurn blæ skýjaborga um tíma. Í þessu sambandi er rétt að minna á að dómurinn lítur svo á að um eitt samfellt mál sé að ræða frá sumri 1998. Þó að byggt væri á því að Theodór Emil hefði verið búinn að flækja sig í eigin lygavef, firrir það hann ekki ábyrgð á eigin gerðum og afleiðingum þeirra, enda var honum sjálfrátt er hann laug, og aðgerðir hans voru samkvæmt málsgögnum meðákærða Einari Óla hvatning. Á hinn bóginn má líta til þess, að svo virðist sem átt hafi að ýta honum út úr skipulagningunni og engar heimildir eru um aðkomu hans að málinu frá 12. maí til 28. júlí 1999 og ósannað að hann hafi verið virkur þátttakandi á lokaframkvæmdastigi þess, eða eftir 5. október 1999.

Síðastnefnt breytir þó ekki því að ákærði Theodór Emil á þátt í því að brotið er framið og er hann fundinn sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru og er fallist á heimfærslu brotsins til refsiákvæða.

3.       Þáttur Valentínusar Guðmundar Baldvinssonar

Ákærði Valentínus kannast við að hafa staðið að innflutningi á hurðum frá Spáni, en þverneitar allri vitneskju um það að með þeim hafi átt að flytja hass. Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu kannaðist Valentínus ekkert við að hafa staðið að neinum innflutningi frá Spáni. Við aðra yfirheyrslu 20. nóvember 1999 kvaðst hann enn ekki kannast við hurðainnflutning frá Spáni, þrátt fyrir það að búið var að kynna fyrir honum framburð Jóns Ástvaldssonar þar að lútandi. Þegar honum var kynntur framburður Einars Óla, kvað hann rétt að þetta hefði verið eitt af mörgu sem Einar Óli nefndi við hann og hann tæki ekki mjög alvarlega.

Hurðasending sú sem var stöðvuð í Barcelona var skráð á Jón Ástvaldsson og Varnir ehf. Sannað er með framburði Valentínusar sjálfs, vætti Jóns Ástvaldssonar og öðrum gögnum, að Valentínus fékk heimild hjá Jóni Ástvaldssyni til að flytja inn hurðir á nafni fyrirtækisins Varna ehf. og fékk persónuupplýsingar í því skyni. Aðeins hefur verið rætt um eina hurðasendingu og þykir því ekki vera vafi á því að um eina og sömu sendingu er að ræða. Einnig er sannað að Valentínus lét Einari Óla í té vegabréf sitt, sem sendi ljósrit af því í símbréfi til aðilanna á Spáni, auk upplýsinga um Varnir ehf. og Jón Ástvaldsson, en áður hafði Valentínus án árangurs beðið Jón Ástvaldsson um vegabréf Jóns.

Ákærði Valentínus kannast við að þeir Einar Óli hafi rætt um fíkniefnainnflutning með skútunni, en heldur því fram að hann hafi neitað beiðni um að sigla sjálfur, en í staðinn útvegað annan mann til þess. Af þeirri ferð hafi síðan ekki orðið og hálfu ári síðar, þegar þeir Einar Óli hafi verið að ræða innflutning á hurðum, þá hafi hann ekki tengt þetta tvennt, enda hafi þeir staðið í ýmsu öðru saman. Hann heldur því fram að þetta séu tvö aðskilin mál. Þó að Einar Óli hafi rætt um fíkniefnainnflutning á þessum tíma sem leið þarna á milli, þá hafi hann litið á það sem draumóra Einars Óla.

Þessi framburður ákærða Valentínusar þykir ekki verða samræmdur gögnum um samtöl þeirra Einars Óla og Valentínusar, til dæmis samtali frá 28. ágúst 1999, sem borið var undir Valentínus hjá lögreglu 2. desember sama ár. Einar Óli var þá staddur úti á Spáni. Þegar Valentínusi var kynnt hljóðupptakan staðfesti hann að Einar Óli væri að tala um kaup á fíkniefni og greiðslufrest á því. Í símtalinu samsinnir hann því að hann muni standa að því að koma 32 diskum af „eðal klámefni” út, en þetta er talið merkja 32 kg af hassi. Valentínus heldur því fram að þarna játi hann þessu við Einar Óla eins og maður játi hverju öðru bulli. Þá kveðst hann fyrst í yfirheyrslu hjá lögreglu hafa áttað sig á því að þegar Einar Óli hringdi í hann frá Spáni og ræddi um greinda 32 diska þá hafi hann verið að tala um 32 kg af hassi, og að hvítar Pentíum tölvur hafi átt að merkja spítt eða kók. Samkvæmt samtölum sem þeir Einar Óli og Valentínus eiga 5., 6. og 8. nóvember ræða þeir um vandræði í sambandi við flutning eða pappíra. Skýrir Valentínus þetta í lögregluyfirheyrslunni sem eitthvað rugl á milli Einars Óla og aðilanna á Spáni. Í sömu yfirheyrslu kannast hann við að þegar Einar Óli ræðir hinn 14. nóvember um húsgögn sem kosti 60 þúsund dollara eða 4.3 milljónir íslenskra króna, þá sé hann að tala um hurðirnar. Fyrir dómi hinn 8. desember 1999 ber Valentínus að rætt hafi verið um að hurðirnar ættu að kosta 23.000 krónur stykkið. Valentínus heldur því fram að ekki hafi verið rætt um að hann ætti að hagnast af fíkniefnainnflutningi Einars Óla. Í yfirheyrslu hjá lögreglu 22. nóvember kannast Valentínus við að hafa m.a. rætt við Einar Óla um hassmarkaðinn hér, en heldur því fram sem fyrr að þetta hafi í raun verið merkingarlaust tal af sinni hálfu, bergmál af draumórum Einars Óla. Við yfirheyrslu 2. desember hafnar hann framburði Einars Óla þess efnis að Valentínus hafi vitað að hass var falið í hurðunum og að Valentínus hafi átt að fá hlut í ágóða, telur hann þetta vera ímyndun Einars Óla. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 12. desember 1999 staðfestir hann að skýrsla lögreglu um samtal þeirra Einars Óla sem átti sér stað að Vatnsstíg 4, Reykjavík, sé í grófum dráttum rétt. Þar segir Einar Óli m.a. að þeir fái 90 til 100 milljónir út úr pakkanum, og svarar Valentínus því til, að þeir þurfi ekki að hafa fyrir lífinu eftir það. Þetta skýrir Valentínus við lögregluyfirheyrsluna sem ,,bull” sem ekki hafi verið svaravert.

Svo sem ljóst má vera af því sem hér hefur verið nefnt er framburður Valen­tínusar ekki alveg staðfastur og ekki að öllu leyti trúverðugur. Til dæmis er ekki skynsamleg skýring á því hvers vegna hann kannast ekki við innflutning á hurðunum í upphafi ef hann taldi þær ekki tengjast fíkniefnainnflutningi. Í ljósi alls þessa sem hér að framan er rakið og annarra málsgagna þykir fullyrðing ákærða Valentínusar um að honum hafi ekki verið kunnugt um hassinnflutning með hurðunum ekki vera trúverðug.

Á sama hátt og meðákærði Theodór Emil vísar Valentínus ítrekað til þess að tal og áætlanir Einars Óla hafi verið svo óraunhæfar að ekki sé skynsamleg ástæða til að taka þær bókstaflega. Einnig segist hann hafa samsinnt tali Einars Óla í stað þess að segja við hann að þetta væri allt fjarstæða, en hann hafi veigrað sér við því. Meðákærði Einar Óli heldur því reyndar fram að hann hafi ekki sjálfur trúað á málið. Um þetta gildir það sama og áður er sagt að ákærði ber sjálfur ábyrgð á orðum sínum og athöfnum, og eins og mál þetta er vaxið þykir hafið yfir allan vafa að með þeim stuðlaði hann að broti meðákærða Einars Óla, hvort sem hann trúði á það eða ekki. Gögn málsins um samtöl þeirra Einars Óla og Valentínusar bera reyndar alls ekki með sér að Valentínus sé einungis að samsinna einhverju óráðstali. Ennfremur tengjast orð hans beinum athöfnum hans.

Dómurinn telur ekki leika vafa á að um eitt mál sé að ræða, allt frá fyrsta fundi Einars Óla og Yves í París sumarið 1998 til hassfundarins í Barcelona í nóvember 1999, en ekki tvö aðskilin mál eins og vörn ákærða Valentínusar byggir á. Valentínus kemur í fyrra tilvikinu beint að vali á manni til ætlaðrar siglingar með skútu frá Spáni til Íslands með hassfarm, en ekki er ákært vegna þessa, og Valentínus kemur síðar beint að undirbúningi innflutnings á hurðum þeim sem hassið var loks falið í. Í ljósi málsgagna þykir ekki vera til staðar, þrátt fyrir neitun ákærða Valentínusar, vafi á því að hann hafi vitað að verið var að reyna að flytja hass til landsins með hurðunum.

Af hálfu ákærða Valentínusar er því einnig haldið fram að ekkert brot hafi verið framið vegna ómöguleika. Er þessu hafnað með sömu rökum og fram eru færð í þætti meðákærða Theodórs Emils.

Er ákærði Valentínus fundinn sekur um það brot sem hann er ákærður fyrir eins og því er lýst í ákæru og er fallist á heimfærslu þess til refsiákvæða.

Refsiákvörðun

Ákærði Einar Óli Einarsson er fæddur árið 1959. Hann hlaut fyrst sekt fyrir áfengislagabrot 1977 framið áður en hann náði 18 ára aldri. Árið 1989 gekkst hann undir sekt vegna ölvunarakstur og sviptingu ökuréttar, árin 1997 og 1998 var hann tvisvar dæmdur til greiðslu sektar og sviptingar ökuréttinda fyrir ölvunarakstur og önnur umferðarlagabrot. Hinn 26. maí 2000 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, og til greiðslu 9.500.000 króna sektar fyrir stórfelld brot á lögum um virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda. Síðast hlaut hann dóm 14. febrúar 2001 fyrir ölvunarakstur og var þá gert að sæta fangelsi í 45 daga og sviptur ökurétti ævilangt. Refsing í máli þessu er ákveðin sem hegningarauki við tvo síðastgreinda dóma samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga og einnig er höfð hliðsjón af 77. gr. sömu laga.

Við ákvörðun refsingarinnar er einnig litið til þess að sakfellt er fyrir tilraun til brots. Aðrar málsbætur hefur ákærði ekki. Um verulegt magn af hassi var að ræða. Ákærði var handtekinn um miðjan nóvember 1999 og sat þá í gæsluvarðhaldi í mánuð. Hefur málsmeðferð því tekið alllangan tíma. Ljóst er að þriggja ára töf á að niðurstaða fáist í refsimáli sem þessu hefur áhrif á líf þeirra sem hlut eiga að máli og er refsiþyngjandi, þykir af þeirri ástæðu rétt að láta ákærða njóta þessa eitthvað við ákvörðun refsingarinnar.

Þegar allt þetta hefur verið virt þykir refsing ákærða Einars Óla hæfilega ákvörðuð fangelsi í tvö ár. Vegna þess magns fíkniefna sem um ræðir og sem ætlað var til söludreifingar og þegar virtur er einarður ásetningur ákærða, þykir ekki koma til álita að skilorðsbinda refsinguna. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 16. nóvember til 14. desember 1999 að fullri dagatölu.

Ákærði Theodór Emil Pantazis er fæddur árið 1962. Hann hefur all alvarlegan sakarferil frá árinu 1985, hinn 8. nóvember það ár var hann dæmdur í Þýskalandi í fjögurra ára fangelsi fyrir fíkniefnabrot. Hinn 23. janúar 1991 var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir fíkniefnabrot. Hinn 30. desember 1992 var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi í Frakklandi, þar af fjóra skilorðsbundið, fyrir fíkniefnabrot. Hinn 18. maí 1993 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi í Frakklandi fyrir þjófnað. Hinn 22. febrúar 1995 var hann dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot í Svíþjóð, var refsingin lækkuð í fjögur ár í yfirrétti. Hinn 13. mars 1998 gekkst hann undir lögreglustjórasátt vegna ölvunaraksturs og 24. sama mánaðar var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot, þar af voru 480 dagar vegna reynslulausnar, þessi dómur var staðfestur í Hæstarétti 1. október 1998. Hinn 8. sama mánaðar gekkst hann undir sátt vegna ölvunaraksturs og loks gekkst hann undir lögreglustjórasátt 23. desember sama ár vegna sviptingaraksturs. Síðan þá hefur honum ekki verið gerð refsing. Vegna máls þess sem hér er til meðferðar var honum gert að afplána að fullu dóminn frá 1. október 1998 og lauk þeirri afplánun 20. júní 2000.

Ákærði Theodór Emil er fundinn sekur um hlutdeild í tilraun. Er þáttur hans einkum fólginn í því að koma á sambandi meðákærða Einars Óla og erlends fíkniefnasala og að aðstoða við samskipti þeirra. Málið varðar mikið magn af hassi. Ákærði kemur að undirbúningi málsins, en ósönnuð er þátttaka hans þegar það er komið á framkvæmdastig. Þegar allt þetta er virt ásamt þeim tíma sem meðferð málsins hefur tekið þykir hæfilegt að ákveða refsingu níu mánaða fangelsi.

Lögð hafa verið fram í dóminum þrjú vottorð sem varða einkahagi ákærða og dóttur hans, eru þau frá Fangelsismálastofnun, Dr. Tryggva Sigurðssyni, barna­sálfræðingi, og Vesturbæjarskóla. Af þessum vottorðum er ljóst að ákærði Theodór Emil hefur undanfarin þrjú ár unnið markvisst að því að snúa lífi sínu til betri vegar og veita unglingsdóttur stuðning og uppeldi. Verður ekki annað séð en að hann hafi staðið sig vel í þessu hlutverki við erfiðar aðstæður. Hafa aðstæður hans gjörbreyst frá þeim tíma er upphaf máls þessa verður rakið til. Þegar þetta er virt þykir þrátt fyrir sakarferil mega skilorðsbinda refsinguna. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í fimm ár og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til afplánunar refsingarinnar skal draga frá gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 16. nóvember til 14. desember 1999 að fullri dagatölu.

Ákærði Valentínus Guðmundur Baldvinsson er fæddur árið 1960. Hann hefur talsverðan sakarferil sem hófst árið 1978. Eftir að hann náði 18 aldri hefur hann tólf sinnum gengist undir sátt vegna áfengislagabrota, umferðarlagabrota, fíkniefnabrota og minniháttar hegningarlagabrota. Hann hlaut fyrst dóm 6. apríl 1981 30 daga varðhald, skilorðbundið í tvö ár fyrir nytjastuld og ölvunarakstur og 29. desember 1981 hlaut hann sektardóm fyrir ýmis umferðalagabrot og var sviptur ökurétti ævilangt. Hinn 12. desember 1986 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi í Hæstarétti fyrir þjófnað. Hinn 6. maí 1992 hlaut hann sektardóm í Hæstarétti fyrir ölvunarakstur. Hinn 26. apríl 1993 var hann dæmdur í Þýskalandi í tveggja ára fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir fíkniefna- og hegningarlagabrot. Hinn 17. febrúar 1994 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir umferðalagabrot. Hinn 2. júní 1994 var hann í Hæstarétti dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir umferðar- og áfengislagabrot og sviptur ökurétti ævilangt. Hinn 31. október 1997 hlaut hann tveggja mánaða fangelsi fyrir sviptingarakstur. Hinn 6. nóvember 1998 hlaut hann sektardóm fyrir fíkniefnabrot. Hinn 19. apríl 1999 var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir sviptingarakstur. Hinn 29. júní 2000 var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir þjófnað. Loks var hann dæmdur í Hæstarétti 14. september 2000 til fimm mánaða fangelsisvistar fyrir ölvunar- og sviptingarakstur og áréttuð var ævilöng svipting ökuréttar. Var hann látinn afplána refsidóma að fullu er mál þetta kom upp.

Ákærði Valentínus hefur verið fundinn sekur um hlutdeild í tilraun til brots, sem varðar innflutning og söludreifingu á miklu magni af hassi. Litið er til þess við ákvörðun refsingar að þáttur hans virðist frekar hafa verið þátttaka en eiginlegt frumkvæði við brotið. Refsing er nú ákveðin sem hegningarauki við tvo síðustu dóma frá árinu 2000, samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga og hliðsjón höfð af 77. gr. þeirra laga. Þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði. Þótt ákærði hafi nokkurn sakarferil hefur honum einkum verið gerð fangelsisrefsing fyrir ölvunar- og sviptingarakstursbrot, þó er þar einnig nýlegt þjófnaðarbrot og fíkniefnabrot í Þýskalandi 1993. Þegar litið er til þess tíma sem meðferð málsins hefur tekið og svo gætt sé jafnræðis, þykir eftir atvikum mega skilorðsbinda sex mánuði af refsingunni. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í þrjú ár og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gæslu­varðhald, sem ákærði sætti frá 16. nóvember til 14. desember 1999, skal koma til frádráttar refsivist að fullri dagatölu.

Fallist er á að ákærði Valentínus sæti upptöku 0,56 gramma af amfetamíni.

Ákærðu skulu greiða allan almennan sakarkostnað að óskiptu. Hver um sig skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðast þannig: Til handa Brynjari Níelssyni hæstaréttarlögmanni 400.000 krónur, til handa Karli Georg Sigurbjörnssyni héraðsdómslögmanni 350.000 krónur og til handa Hilmari Ingi­mundar­syni hæstaréttarlögmanni 350.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Guðrúnu Sesselju Arnardóttur fulltrúa ríkissaksóknara.

Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði Einar Óli Einarsson sæti fangelsi í tvö ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald, sem ákærði sætti frá 16. nóvember 1999 til 14. desember sama ár, að fullri dagatölu.

Ákærði Theodór Emil Pantazis sæti fangelsi í níu mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í fimm ár frá birtingu dómsins að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til afplánunar refsingar skal gæsluvarðhald, sem ákærði sætti frá 16. nóvember 1999 til 14. desember sama ár, dragist frá að fullri dagatölu.

Ákærði Valentínus Guðmundur Baldvinsson sæti fangelsi í níu mánuði. Fresta skal fullnustu sex mánaða af refsingunni í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja og skal þessi hluti refsingarinnar falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til frádráttar refsingunni komi gæslu­varðhald, sem ákærði sætti frá 16. nóvember 1999 til 14. desember sama ár, að fullri dagatölu.

Upptæk eru gerð 0,56 grömm af amfetamíni.

                Ákærðu skulu greiða allan almennan sakarkostnað að óskiptu. Ákærði Einar Óli Einarsson skal greiða málsvarnarlaun skipað verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur. Ákærði Theodór Emil Pantazis skal greiða máls­varnarlaun skipað verjanda síns, Karls Georgs Sigurbjörnssonar héraðsdóms­lögmanns, 350.000 krónur. Ákærði Valentínus Guðmundur Baldvinsson skal greiða málsvarnarlaun skipað verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur.