Hæstiréttur íslands
Mál nr. 326/2007
Lykilorð
- Umsýsluviðskipti
- Uppgjör
- Skuldajöfnuður
|
|
Fimmtudaginn 21. febrúar 2008. |
|
Nr. 326/2007. |
Isey Fischimport GmbH(Jóhannes Ásgeirsson hrl.) gegn Hafróti Ármúla ehf. (Guðmundur Ágústsson hdl.) |
Umsýsluviðskipti. Uppgjör. Skuldajöfnuður.
H ehf. flutti út fisk útgerðarfélagsins T ehf. í eigin nafni en fyrir reikning síðargreinda félagsins til þýska félagsins I og var um umsýsluviðskipti að ræða. I veitti útgerðinni ýmsa lánafyrirgreiðslu til að unnt væri að halda skipi hennar til veiða. H ehf. lét það óátalið að I héldi eftir hluta af andvirði fisksins vegna þessarar lánafyrirgreiðslu. Hins vegar gerði hann athugasemd þegar greiðslur sem I skilaði til H ehf. dugðu ekki fyrir kostnaði síðargreinda félagsins. Félagið höfðaði mál gegn I og krafðist aðallega greiðslu söluandvirðis níu gáma af fiski en til vara tiltekinnar, lægri fjárhæðar, er tók mið af útlögðum kostnaði vegna fiskflutninganna og greiðslum sem H ehf. átti að standa skil á auk eigin þóknunar. Þar sem um umsýsluviðskipti hafði verið að ræða var talið að I hefði verið óheimilt að skuldajafna andvirði þess, sem félagið hafði lagt út fyrir útgerðina, við söluandvirðið umfram það sem samþykkt hafði verið af H ehf. Fyrir Hæstarétti krafðist félagið staðfestingar héraðsdóms sem fallist hafði á varakröfu þess er tók mið af því að endurgjald fyrir hvern gám ætti að vera 6.500 evrur. Fyrir Hæstarétti kvaðst H ehf. sætta sig við að þetta endurgjald væri 6.000 evrur á hvern gám í samræmi við tiltekna yfirlýsingu sem lá fyrir í málinu. I var því gert að greiða H ehf. 54.000 evrur með nánar tilteknum vöxtum til greiðsludags.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu upphaflega til Hæstaréttar 18. apríl 2007 en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 30. maí sama ár. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 20. júní 2007. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi flutti út fisk útgerðaraðilans Torfness ehf. í eigin nafni en fyrir reikning Torfness ehf. Áfrýjandi var móttakandi vörunnar erlendis og eigandi fiskmarkaðar þar sem varan var seld. Áfrýjandi skilaði uppgjöri eða afreikningum til stefnda svo sem honum bar. Stefndi skilaði síðan til útgerðaraðilans því sem umfram var af söluandvirði vörunnar þegar hann hafði dregið frá útlagðan kostnað, gjöld sem hann átti að standa skil á og eigin þóknun. Um var að ræða umsýsluviðskipti.
Torfnes ehf. átti í rekstrarerfiðleikum og náði samkomulagi við áfrýjanda um lánafyrirgreiðslu, meðal annars til að greiða fyrir kvóta og eldsneyti á skipið sem stundaði veiðarnar. Á þeim afreikningum sem áfrýjandi sendi stefnda var jafnan gerð grein fyrir því, þegar einhver hluti söluandvirðisins var dreginn frá vegna slíkrar fyrirgreiðslu. Verður að líta svo á að stefndi hafi látið þetta óátalið. Gegn andmælum stefnda er hins vegar ekki sönnuð sú fullyrðing áfrýjanda, að stefndi hafi ekki hreyft mótmælum þegar svo var komið að sá hluti söluandvirðisins, sem áfrýjandi skilaði stefnda, dugði ekki fyrir þeim greiðslum sem hann bar ábyrgð á og umsýsluþóknun hans. Má í því sambandi vísa til þess að í bréfi Torfness ehf. til áfrýjanda 9. desember 2004 var minnt á að stefnda þyrfti að lágmarki að berast greiðsla að fjárhæð 6.500 evrur fyrir hvern gám, og einnig liggur fyrir yfirlýsing 24. febrúar 2005 á bréfsefni stefnda, undirrituð af Torfnesi ehf. en ekki af áfrýjanda. Er sú yfirlýsing efnislega samhljóða fyrrgreindu bréfi að öðru leyti en því að fjárhæðin er þar tilgreind 6.000 evrur. Fyrir dómi kvaðst forsvarsmaður áfrýjanda ekki hafa ritað undir þessa yfirlýsingu vegna þess hversu mikið Torfness ehf. hafi þá skuldað honum.
Þar sem um umsýsluviðskipti var að ræða var áfrýjanda óheimilt að skuldajafna andvirði þess sem hann hafði lagt út fyrir Torfnes ehf. við söluandvirðið umfram það sem samþykkt var af stefnda. Aðalkrafa stefnda í héraði var grundvölluð á fimm afreikningum vegna níu gáma af fiski. Fyrir Hæstarétti gerir hann, í samræmi við varakröfu sína í héraði, aðeins kröfu um ákveðið endurgjald á hvern gám, sem áætlað var að nægði fyrir útlögðum kostnaði hans og greiðslum sem hann átti að standa skil á auk eigin þóknunar. Fyrir Hæstarétti kvaðst hann sætta sig við að þetta endurgjald yrði 6.000 evrur á hvern gám í samræmi við yfirlýsinguna frá 24. febrúar 2005. Verður áfrýjandi samkvæmt þessu dæmdur til að greiða stefnda 54.000 evrur. Ákvörðun hins áfrýjaða dóms um vexti og málskostnað er staðfest.
Samkvæmt úrslitum málsins verður áfrýjandi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Isey Fischimport GmbH, greiði stefnda, Hafróti Ármúla ehf., 54.000 evrur með 5.5% ársvöxtum af 12.000 evrum frá 17. febrúar 2005 til 24. febrúar sama ár, en af 24.000 evrum frá þeim degi til 7. mars sama ár, en af 36.000 evrum frá þeim degi til 9. mars sama ár, en af 42.000 evrum frá þeim degi til 31. mars sama ár, en af 54.000 evrum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 4. desember sl., að loknum munnlegum málflutningi var höfðað fyrir dómþinginu af Hafrót ehf., Ármúla 5, Reykjavík, á hendur Isey Fischimport GmbH, Bremenhaven, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 25. maí 2006.
Dómkröfur stefnanda voru þær aðallega, að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda 122.328 EUR, ásamt 5.5% ársvöxtum af 28.597 EUR frá 17. febrúar 2005 til 24. febrúar 2005, en frá þeim degi af 57.855 EUR til 7. mars 2005, en frá þeim degi af 78.115 EUR til 9. mars 2005, en af 89.014 EUR frá þeim degi til 31. mars 2005, en frá þeim degi af 122.328 EUR til greiðsludags.
Til vara krafðist stefnandi þess, að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða stefnanda 58.500 EUR ásamt 5.5% ársvöxtum af 13.000 EUR frá 17. febrúar 2005 til 24. febrúar 2005, en af 26.000 EUR frá þeim degi til 7. mars 2005, en af 39.000 EUR frá þeim degi til 9. mars 2005, en af 45.500 EUR frá þeim degi til 31. mars 2005, en af 58.500 EUR frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda voru þær aðallega, að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til þess að greiða honum málskostnað, að skaðlausu. Til vara krafðist stefndi þess að dómkröfur stefnanda yrðu stórlega lækkaðar og hvor aðili yrði látinn bera sinn kostnað af málinu.
II
Stefnandi er umsýslufyrirtæki með fisk og fiskafurðir. Kveðst stefnandi taka að sér að selja unnar afurðir og einnig ferskan fisk fyrir viðskiptavini sína á uppboðsmarkað í Evrópu, aðallega til Bretlands og Þýskalands.
Stefndi er fisksölufyrirtæki í Bremerhaven og sér um ferskfisksölu úr togurum og gámum fyrir íslenska útgerðarmenn.
Einn af viðskiptaaðilum stefnanda var Torfnes ehf., sem gerði út m/b Hauk ÍS-847. Var allur afli bátsins seldur ferskur á markað annað hvort í Þýskalandi eða Bretlandi. Viðtakandi aflans í Þýskalandi var stefndi sem sá síðan um að selja aflann á uppboðsmarkaði sínum í Þýskalandi. Heldur stefnandi því fram að stefndi hafi gert það sem umboðsaðili stefnanda og að sölu lokinni hafi hann síðan gert stefnanda svokallaðan afreikning, þar sem m.a. komi fram söluverð, kostnaður o.fl.
Stefndi heldur því fram að samningssambandið vegna þessarar sölu hafi verið milli stefnda og útgerðarfyrirtækjanna og hafi útgerðarfyrirtækin því haft beint samband við stefnda og óskað þjónustu hans. Eitt þessara útgerðarfyrirtækja hafi verið Torfnes ehf.
Umrædd viðskipti hófust í byrjun árs 2004 og gekk á ýmsu, m.a. vegna slæmrar fjárhagsstöðu Torfness ehf. Stefndi skilaði stefnanda andvirði seldrar vöru með skilum fyrstu mánuðina, en er líða tók á árið 2004 fór stefnandi að fá hlutagreiðslu. Síðan fór hann að fá afreikning án greiðslu og síðast afreikning sem fól í sér að stefnandi skuldaði stefnda.
Stefndi heldur því fram, að hann hafi stundum greitt Torfnesi ehf. fyrir fram þegar fiskur hafi verið kominn í gám og tilbúinn til útflutnings eða fiskur sannanlega verið kominn um borð, en ekki hafi verið um lánaviðskipti að ræða. Einnig hafi stefnda verið falið af viðskiptaaðilum Torfness ehf., einkum kvótaeigendum og olíusölum, að draga frá söluandvirði kröfu þeirra. Allt hafi þetta verið gert samkvæmt fyrirmælum Torfness ehf., enda hafi þessi háttur verið forsenda fyrirframgreiðslunnar. Kröfur þessar, sem og fyrirframgreiðslur, hafi komið til frádráttar áður en greiðsla hafi verið innt af hendi til Torfness ehf. Telur stefndi þennan uppgjörsmáta hafa verið eðlilegan enda hafi þessir aðilar aðstoðað útgerðina svo að togari hennar gæti stundað veiðar.
Stefndi kveðst hafa verið skuldbundinn kvótasalanum, olíusalanum og flutningsaðilanum. Hann hafi lofað þessum aðilum greiðslu, samkvæmt fyrirmælum Torfness ehf. Beiðni Torfness ehf. um að senda stefnanda hluta greiðslu hafi verið skilin á þann veg að þá því aðeins kæmi til þess ef afgangur yrði þegar búið væri að gera upp við þá aðila sem gert hafi útgerð skipsins mögulega.
Stefndi kveðst ekki hafa fengið athugasemdir við uppgjör sín frá Torfnesi ehf. Hins vegar virðist sem Torfnes ehf. hafi lent í slæmri skuldastöðu gagnvart stefnanda og hafi af því tilefni sent stefnda fyrirmæli. Þessi fyrirmæli hafi Torfnes ehf. ekki tekið hátíðlegar en svo að félagið hafi haldið áfram sömu viðskiptaháttum, þ.e. að fá fyrirframgreiðslu frá viðskiptaaðilum. Þegar stefnda hafi borist yfirlýsing, sem hann hafi reyndar aldrei samþykkt, hafi staða Torfness ehf. gagnvart stefnda verið með þeim hætti að útilokað hafi verið að verða við efni hennar, enda hafi Torfnes ehf. haldið áfram að óska eftir fyrirframgreiðslu og skulda viðskiptaaðilum sínum.
Stefndi kveður það vera viðtekna venju að senda þeim aðila uppgjör sem annist pappírsmál fyrir fiskútflytjendur. Stafi þetta m.a. af því að þessir aðilar séu yfirleitt ábyrgir fyrir ýmsum opinberum gjöldum.
Stefndi kveður að undir lok viðskiptanna í mars 2005 hafi Torfnes ehf. verið komið í mjög slæma skuldastöðu gagnvart stefnda, en stefndi hafi greitt fyrirfram vegna ísfiskveiða togarans Hauks ÍS-847, en hann hafi síðan bilað í miðjum veiðitúr.
Við aðalmeðferð málsins gaf Arnar Kristinsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, skýrslu. Kvað hann fyrirtækið vera útflutningsfyrirtæki og hafi fyrirtækið flutt út fisk í gámum fyrir Torfnes ehf. Hafi viðkomandi útgerðarmaður haft samband og beðið stefnanda um að flytja út ákveðið magn af fiski. Stefnandi hafi síðan haft samband við skipafélag og pantað gáma til flutningsins. Framkvæmdin sé síðan með þeim hætti að skipafélagið fer með gámana að skipshlið þar sem þeir séu fylltir af fiski úr togaranum. Að því loknu sé skipafélagið látið vita af því og það sæki þá gámana. Stefnandi útbúi flutningsfyrirmæli fyrir fiskinn og geri síðan reikning á umboðsmann eða kaupanda fisksins erlendis. Stefnandi beri allan kostnað af útflutningnum, greiði fyrir frakt og karaleigu. Þá séu útflytjendur ábyrgir fyrir svokölluðum sjóðagjöldum og eins ef útgerð eða bátur er með útgerðarlán hjá banka þá ber útflytjanda, stefnanda í þessu tilviki, að skila vissri prósentu af aflaverðmætinu til greiðslu á þessum gjöldum. Í umræddum viðskiptum hafi stefnandi sent vöruna til stefnda, móttekið farmskírteinið frá skipafélaginu, og útbúið reikning á stefnda. Skipafélagið útbúi fraktpappíra til að tolla vöruna út úr landi hér, en stefndi hafi séð um að tolla vöruna inn í landið. Reikningur sé fyrst gerður til bráðabirgða, þar sem um óviktaðan fisk sé að ræða, en síðan sé aflinn seldur. Í framhaldi af því sendi stefndi sölureikning til stefnanda og stefnandi gefi þá út leiðrétta sölunótu á stefnda, sem síðan sendi stefnanda afreikning. Allir sem flytji út óviktaðan ferskan fisk þurfi sérstakt leyfi frá Fiskistofu. Aðspurður kvaðst hann telja stefnanda vera umboðsmann fyrir eiganda vörunnar, en kvaðst þó ekki gera sér grein fyrir hver munur væri á umboðsmennsku og umsýsluviðskiptum. Kvað hann stefnda hafa verið umboðsaðila fyrir stefnanda úti. Í þessu tilfelli sé sami eigandi að stefnda og fiskmarkaði í Bremerhaven, þar sem fiskurinn hafi verið seldur. Stefnandi hafi ekki haft samskipti við fiskmarkaðinn heldur stefnda. Stefnandi kvaðst aldrei hafa verið beðinn um heimild til handa stefnda að draga frá greiðslum sem átt hafi að fara til stefnanda. Kvaðst hann þó hafa vitað, að Samúel, fyrirsvarsmaður stefnda, hafi lánað útgerð Torfness ehf. Hann kvað útgerðarmann Torfness ehf. hafa skrifað bréf til stefnda, vegna þess að uppgjör til stefnanda hafi komið á núlli frá stefnda. Hafi stefnandi gefið útgerðarmanninum upp kostnað við flutning hvers gáms, sem síðan hafi verið sent með bréfi til stefnda og óskað eftir að stefndi greiddi þann kostnað, þetta hafi síðar verið ítrekað, án árangurs.
Samúel Grétar Finnsson, fyrirsvarsmaður stefnda, gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kvað hann útgerðaraðila Torfness ehf. hafa beðið sig um fyrirframgreiðslu út á fisk, sem var veiddur eða kominn af stað í gámum. Þetta hafi ekki gengið nógu vel, skipið ekki veitt nóg miðað við það sem útgerðin fékk fyrirframgreitt. Hann kvaðst hafa dregið þau lán sem Torfness fékk hjá viðskiptaaðilum sínum og stefndi hafi ábyrgst, frá greiðslu stefnda til útgerðarinnar. Stefndi hafi hins vegar ekki keypt fiskinn. Peningar hafi verið sendir til milliliða, eins og stefnanda, ef eitthvað hafi verið eftir. Hann kvað stefnanda, sem millilið, hafa séð um pappírsgerð og einhver mál fyrir útgerðina og tekið sín umboðslaun fyrir það af því sem eftir var af andvirði sölunnar. Hann kvaðst hafa fengið sent uppkast að samningi, er viðskiptin hafi verið að líða undir lok, þess efnis að stefndi greiddi stefnanda ákveðna upphæð. Hann kvaðst aldrei hafa samþykkt þetta. Hann kvaðst ekki hafa talið sig vera skuldbundinn stefnanda og samningssambandið hafi verið milli stefnda og útgerðarmannsins. Í þessum viðskiptum hafi alltaf verið greitt fyrirfram út á næstu sölu, þannig að stefndi ábyrgðist greiðslu til ýmissa viðskiptaaðila hér á landi. Samkvæmt skjölunum hafi stefnandi verið útflutningsaðili, en fyrir honum hafi stefnandi hins vegar verið sá sem sá um pappírsgerðina. Allir afreikningar hafi verið stílaðir á stefnanda, þar sem hann hafi séð um pappírsgerðina.
Eiríkur Böðvarsson, fyrirsvarsmaður Torfness ehf., gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kvað hann Torfnes ehf. hafa flutt út ferskan fisk til Þýskalands. Komist hafi á samband milli Samúels og Torfness ehf., að skipið myndi fiska í gáma og útflutningur færi í gegnum stefnanda, sem sendi fiskinn til Samúels. Þessi viðskipti hafi byrjað árið 2004. Hafi hann samið við stefnanda um að stefnandi fengi fiskinn í umboðssölu. Viðskiptin hafi tæknilega eða pappírslega verið milli stefnanda og stefnda. Stefnandi hafi átt að fá ákveðna þóknun af söluverði og greiða gjöld í greiðslujöfnunarsjóð og útgerðarlán í Landsbankann, en um leið og stefnandi hafi tekið við fiski til útflutnings hafi þessi gjöld verið á ábyrgð stefnanda. Stefnandi hafi síðan afreiknað til Torfness ehf. þegar búið hafi verið að taka fyrir kostnaði við útflutninginn og skilaði mismuninum til útgerðarinnar. Aðspurður kvað hann stefnda hafa verið fullkunnugt um hvernig útflutningi var háttað. Síðar hafi verið ítrekað við stefnda að alltaf þyrfti að greiða útgjöld stefnanda og flutningskostnað. Fyrirgreiðsla Samúels við Torfnes ehf. hafi verið á milli þeirra Samúels og Torfness ehf. Samúel hafi t.d. ábyrgst greiðslu fyrir kvóta, en kvótaviðskipti séu staðgreiðsluviðskipti. Undir lokin, er félagið varð gjaldþrota, hafi Torfnes ehf. skuldað stefnda um sjö milljónir og stefnanda um 4,7 milljónir. Aðspurður kvað hann stefnanda hafa vitað að olía og kvóti hefði verið fjármagnaður af Samúel, þ.e. stefnda.
Kristján, sem var skipstjóri á Hauk ÍS, eign Torfness ehf., gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kvaðst hafa verið ráðinn á skipið af útgerðarmanninum, en Samúel, fyrirsvarsmaður stefnda, hafi ábyrgst greiðslu launanna. Hann kvaðst hafa fengið greidd laun fyrir einn mánuð frá Samúel, en hann eigi ennþá ógreidd laun fyrir einn mánuð.
Gísli Svan Einarsson gaf og skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kvað Torfnes ehf. hafa óskað eftir að leigja af honum karfakvóta. Kvótaviðskipti séu staðgreiðsluviðskipti, og kvóti aðeins færður á milli eftir að greitt hafi verið. Kvað hann Samúel sem söluaðila aflans hafa tryggt greiðslu fyrir kvótann af söluverði fisksins.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á því, að stefnda hafi borið að skila til stefnanda uppboðsandvirðinu og stefnda hafi verið óheimilt, án samþykkis stefnanda, að draga frá uppgjörinu fjárhagsstyrk/lán sem hann hafi veitt útgerðinni. Rétt greiðsla af hálfu stefnda hafi ekki farið fram og eigi stefnandi rétt á að fá fullnaðargreiðslu í samræmi við afreikning stefnda.
Fyrir liggi að stefnandi sé útflytjandi vörunnar, hann hafi tekið við vörunni við skipshlið, samkvæmt sérstökum samningi við útgerðina, fyllt út útflutningsskjöl, komið vörunni til flutnings hjá flutningsaðila, gengið frá öllum greiðslum vegna útflutningsins og hafi varan síðan verið send til stefnda í nafni stefnanda. Á öllum skjölum sem borist hafi til stefnda hafi stefndi verið skráður eigandi/útflytjandi vörunnar. Þegar stefndi hafi móttekið vöruna í Þýskalandi hafi það verið á grundvelli heimildar frá stefnanda en ekki útgerðarinnar. Um þetta allt hafi stefnda verið fullkunnugt og einnig að hann hafi átt að gera stefnanda skil á greiðslu fyrir vöruna, enda sé stefndi þaulvanur viðskiptum við íslenska útflytjendur. Í upphafi viðskiptanna hafi stefndi greitt til stefnanda í samræmi við afreikninga. Alla afreikninga hafi stefndi gert til stefnanda.
Til þess að stefndi hafi haft heimild til að draga frá lán sem hann veitti útgerðinni frá uppgjöri sínu til stefnanda hefði hann þurft heimild frá stefnanda og jafnframt framsal frá útgerðinni. Slíkra heimilda hafi stefndi ekki aflað sér, hvorki frá stefnanda né útgerðinni, heldur einhliða tekið ákvörðun um að draga þessi lán frá uppgjöri til stefnanda.
Stefnandi kveðst jafnframt byggja á þeirri venju og reglum sem gilda um útflutning sjávarafurða, að umsýsluaðilinn annist allt söluferlið og skili framleiðandanum afurðarverðinu að aflokinni sölu þegar umsýsluaðilinn hafi dregið frá sinn kostnað. Framleiðandinn sé aldrei í beinu sambandi við kaupandann.
Varakröfu sína byggir stefnandi á því, að stefndi hafi átt að standa stefnanda skil á greiðslum í samræmi við yfirlýsingu útgerðarmannsins, að fjárhæð 6.500 EUR á hvern gám sem sendur hafi verið til stefnda. Sé þetta u.þ.b. sá kostnaður sem stefnandi hafi þurft að greiða fyrir hvern gám sem sendur hafi verið til stefnda. Um varakröfuna vísar stefnandi til þeirra sjónarmiða, sem fram komi um aðalkröfuna. Því til viðbótar byggi stefnandi á því að Torfnes ehf. hafi í tvígang sent stefnda skeyti með fyrirskipun um að stefndi greiddi stefnanda 6.500 evrur fyrir hvern gám sem stefnandi sendi til Þýskalands.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttarins og reglna samningalaga varðandi umboð og umsýsluviðskipti.
Kröfu um vexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Ákvörðun um dráttarvexti sé byggð á ákvörðun Seðlabanka Íslands um grunn dráttarvaxta af kröfum í erlendri mynt.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að ekkert réttarsamband sé á milli stefnda og stefnanda. Stefndi krefst og sýknu á grundvelli þess að hann hafi þegar gert upp andvirði seldra vara og hafi þau uppgjör hvorki sætt andmælum af hálfu viðsemjanda stefnda né stefnanda. Þó svo stefnanda hafi verið falið að hjálpa útgerð Torfness ehf. við útflutning þá skapi það stefnanda engan rétt á hendur stefnda. Þá verði ekki heldur séð að kröfur stefnanda eigi að njóta einhvers forgangs umfram þær kröfur sem stefndi hafi greitt samkvæmt beiðni Torfness ehf. Stefndi hafi ekki veitt Torfnesi ehf. lán heldur hafi hann fyrirframgreitt fiskinn eftir að hann var veiddur og hafi hann þá um leið orðið að hluta til eigandi fisksins. Stefnandi hafi vitað um fyrirframgreiðsluna og fyrirgreiðslu olíusala og kvótasala, en ekkert gert til að stöðva þetta fyrirkomulag, sem allt hafi verið samkvæmt beiðni viðsemjanda stefnanda. Stefnandi geti ekki byggt rétt sinn á einhliða yfirlýsingu. Til þess að yfirlýsingin verði bindandi þurfi stefndi að samþykkja efni hennar og það hafi stefndi aldrei gert. Stefndi hafi dregið frá söluverði áfallinn kostnað áður en til uppgjörs hafi komið við útgerðina. Reikningsskil stefnda séu í samræmi við venjubundna viðskiptahætti. Uppgjör stefnda hafi engum andmælum sætt af hálfu stefnanda fyrr en við lok viðskiptanna og hafi stefnandi ekkert gert til þess að fá stefnda til að breyta uppgjörum sínum ef undan sé skilið að senda honum tvær viljayfirlýsingar frá Torfnesi ehf., sem augljóslega hafi enga þýðingu haft um skuldastöðu Torfness ehf. við stefnda og fyrirmæli Torfness ehf. til stefnda um greiðslur til viðskiptaaðila.
Stefndi telur stefnu í málinu vera byggða á löggerningi, sem bersýnilega sé andstæður góðu siðferði því að dómkrafan lúti að því að stefndi tvíborgi vöruna. framsalshafi fái ekki betri rétt en framseljandi hafi átt. Framseljandi, Torfnes ehf., hafi ekki átt kröfu í söluandvirðið vegna fyrirmæla stefnda og fyrirgreiðslu kvótasala og olíusala sem þegar hafi átt sér stað þegar framsalið hafi farið fram. Ljóst sé að með fyrirframgreiðslu stefnda hafi hann verið orðinn eigandi hluta fisksins og komi til þess að hann verði dæmdur komi fyrirframgreiðslan til frádráttar.
Um lagarök vísar stefndi til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála og almennra reglna kröfuréttarins.
V
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu fyrir fiskútflutning, en stefnandi flutti út fisk í eigu Torfnes ehf., til stefnda til sölu á uppboðsmarkaði í Þýskalandi. Átti stefnandi að fá greiðslu af söluandvirði fisksins. Stefndi hefur hins vegar neitað að greiða stefnanda fyrir umræddan útflutning, þar sem allt söluandvirði fisksins hafi verið varið til greiðslu á skuldum Torfness ehf., sem stefndi hafi ábyrgst greiðslu á vegna slæmrar fjárhagsstöðu Torfness ehf.
Eins og viðskiptum aðila hefur verið lýst hér að framan var stefnandi útflutningsaðili fisksins, og bar stefnda að skila stefnanda andvirði sölunnar, sem átti síðan að skila andvirðinu til Torfness ehf., að frádreginni þóknun sinni sem og útlögðum kostnaði, sem stefnandi hafði af sölunni. Var því ekki um að ræða að stefndi hefði keypt fiskinn af útgerðarfélaginu heldur tók hann við fiskinum frá útflutningsaðilanum, stefnanda málsins, til sölu á markaði. Bera framlagðir reikningar vegna þessara viðskipta það með sér að stefnandi var útflutningsaðilinn. Var því stefnandi nokkurs konar umsýsluaðili með viðskiptunum og tók fyrir þóknun áður en andvirði sölunnar var skilað til Torfness ehf. Eins og viðskiptum þessu hefur verið lýst af málsaðilum var því samningssamband milli stefnanda og stefnda, en ekki stefnda og útgerðarfélagsins. Bar stefnda því að greiða stefnanda fyrir umræddan útflutning. Með því að litið verður svo á var stefnda, án samþykkis stefnanda, óheimilt að ráðstafa andvirði sölu fisksins til annarra. Fyrirgreiðsla stefnda við útgerðarfélagið Torfnes ehf. og þar með skuldastaða þess félags við stefnda kemur því ekki til álita í máli þessu, þar sem þegar hefur verið litið svo á að samningssambandið hafi verið milli málsaðila. Óumdeilt er að stefndi leitaði ekki eftir samþykki stefnanda til að draga frá söluandvirðinu þær greiðslur, sem hann innti af hendi fyrir stefnda, eins og honum bar að gera samkvæmt framansögðu, og ekkert fram komið um að stefnandi hafi með athöfnum sínum eða athafnaleysi gert það síðar. Hins vegar verður að líta til þess að er líða tók að lokum viðskipta aðila og stefndi hafði ekki greitt stefnanda fyrir útflutning þeirra gáma, sem stefnt er fyrir í máli þessu, gerði stefnandi, fyrir milligöngu útgerðarfélagsins, kröfu um að stefndi greiddi honum 6.500 evrur fyrir hvern fluttan gám, eins og varakrafa stefnanda hljóðar á um. Verður litið svo á að það sé sú fjárhæð sem stefnandi hafi ætlað sér fyrir útflutninginn og stefnda bæri að greiða honum. Samkvæmt því verður varakrafa stefnanda tekin til greina eins og hún er fram sett, en stefndi hefur ekki gert athugasemdir við fjárhæð reiknings stefnanda.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Isey Fischimport GmbH, greiði stefnanda, Hafrót ehf., 58.500 EUR ásamt 5.5% ársvöxtum af 13.000 EUR frá 17. febrúar 2005 til 24. febrúar 2005, en af 26.000 EUR frá þeim degi til 7. mars 2005, en af 39.000 EUR frá þeim degi til 9. mars 2005, en af 45.500 EUR frá þeim degi til 31. mars 2005, en af 58.500 EUR frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.