Hæstiréttur íslands

Mál nr. 62/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kærufrestur
  • Kyrrsetning
  • Hald


                                     

Þriðjudaginn 31. janúar 2012.

Nr. 62/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X ehf.

(Jóhannes Stefán Ólafsson hdl.)

Kærumál. Kærufrestur. Kyrrsetning. Hald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum X ehf. um að aflétt yrði kyrrsetningu sýslumannsins í Reykjavík á bát og bankareikningi félagsins og haldi lögreglustjóra á bókhaldsgögnum og upptökuvél þess.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2012, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að aflétt yrði kyrrsetningu sýslumannsins í Reykjavík á bátnum A og bankareikningi nr. [...] í B hf. og haldi lögreglustjóra á bókhaldsgögnum og upptökuvél af gerðinni „Canon EOS 5D Mark II.“ Kæruheimild er í g. og k. liðum 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að áðurgreindar kröfur hans verði teknar til greina. Þá krefst hann þess að málskostnaður hans í héraði og kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem áður greinir var hinn kærði úrskurður kveðinn upp 13. janúar 2012. Þá var ekki sótt þing af hálfu málsaðila en fært til bókar að endurrit úrskurðarins yrði sent „jafnharðan í tölvupósti“. Í kæru kemur aftur á móti fram að úrskurðurinn hafi ekki borist lögmanni varnaraðila fyrr en með pósti 17. janúar 2012. Ekkert liggur fyrir sem bendir til að varnaraðili hafi fyrr fengið vitneskju um úrskurðinn og því var kæru lýst innan þriggja sólahringa kærufrests, sbr. 1. málslið 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði eru til rannsóknar hjá lögreglu stórfelld skattsvik þar sem grunur beinist að C, stjórnarformanni varnaraðila, og fleirum. Meðal annars lýtur rannsóknin að ætluðu peningaþvætti í starfsemi varnaraðila, en slíkt brot getur varðað lögaðila refsiábyrgð samkvæmt 264. gr., sbr. 19. gr. d, almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar sem varnaraðili liggur undir grun um að bera ábyrgð á slíkri háttsemi telst hann sakborningur í málinu, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu var fullnægt skilyrðum 1. mgr. 68. gr. sömu laga til að leggja hald á muni hjá varnaraðila og til að kyrrsetja eignir hans, sbr. 1. mgr. 88. gr. laganna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Málskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2012.

Ár 2012, föstudaginn 13. janúar er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara í Dómhúsinu við Lækjargötu, kveðinn upp úrskurður um kröfu X ehf. um það að aflétt verði kyrrsetningu sýslumannsins í Reykjavík á bátnum A og bankareikningi nr. [...] í B sem gerð var 18. nóvember 2010 að kröfu lögreglustjórans á höfuð-borgarsvæðinu og um það að aflétt verði haldi lögreglustjórans á bókhaldsgögnum og upptökuvél.

Krafa þessi var tekin til úrskurðar 11. janúar sl. að loknum málflutningi.  Um meðferð hennar fyrir dómi vísast til 3. mgr. 69. gr. og 2. mgr. 102. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008. 

Málavextir

                Meðal gagna málsins er endurrit úr gerðabók sýslumannsins í Reykjavík um kyrrsetningargerð K-60/2010 þegar kyrrsettur var báturinn A svo og innistæða á reikningi nr. [...] í B.  Segir þar að gerðarbeiðandi sé lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu en gerðarþoli sé X ehf., [...], [...].  Jafnframt var bókað eftir fyrirsvarsmanni gerðarbeiðanda að stjórnarformaður félagsins og einn af eigendum þess væri grunaður um stórfellt brot gegn lögum um virðisaukaskatt nr. 50, 1988, sbr. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  Þá væru talin uppfyllt skilyrði 69. gr. og/eða 3. mgr., sbr. 1. mgr. 69. gr. b þessara laga.  Væri beiðnin sett fram með vísan til 1. mgr., sbr. 2. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála.

Samkvæmt greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eru nú til rannsóknar hjá því embætti ætluð stórfelld skattsvik þar sem talið sé að um 277 milljónir króna hafi verið sviknar úr ríkissjóði.  Segir þar að meðal sakborninga sé eigandi og fyrirsvarsmaður sóknaraðila, C, en hann sé grunaður um að vera einn af skipuleggjendum skattsvikabrotsins og jafnframt sé hann grunaður um peningaþvætti með því að hafa tekið við, nýtt sér og eftir atvikum ráðstafað með öðrum hætti ávinningi af brotinu. Brot þessi varði við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 1. mgr. sbr. 2. mgr. 264 gr. hegningarlaga, en við þeim liggi allt að sex ára fangelsi.  Kærði neiti sök en dómstólar hafi metið það svo hann sé undir rökstuddum grun um að eiga þátt í brotunum sem marka megi af því að hann hafi sætt gæsluvarðahaldi vegna rannsóknarinnar. 

Meginhluti þeirra fjármuna sem sviknir hafi verið út úr ríkissjóði hafi ekki fundist.  Við rannsókn málsins hafi komið fram vísbendingar um það að C hafi fengið töluverðar fjárhæðir vegna þátttöku sinnar í brotunum og hafi rannsóknin að miklu leyti snúist um að hafa uppi þessum fjármunum. Hafi lögregla meðal annars „kortlagt“ fjármál kærða á tímabilinu janúar 2009 til október 2010, þ.e. eftir að meint brot hafi átt sér stað. Sú athugun hafi leitt í ljós verulegt misræmi á þeim tekjum sem hann hafi gefið upp til skatts og á útgjöldum hans.  Þannig séu opinberar og staðfestar tekjur hans á þessu tímabili tæpar 4 milljónir króna en rekjanleg útgjöld rúmar 30 milljónir.  Meðal útgjalda kærða sem lögregla hafi athugað séu innlagnir í reiðufé á reikning X ehf. og greiðsla reikninga fyrir hönd félagsins, þar á meðal vegna kaupa á tækjabúnaði fyrir það. Af framburðum manna og gögnum málsins sé ljóst að eftir að meint skattsvik áttu sér stað hafi kærði C lagt samtals kr. 3.000.000 inn á reikning X ehf. sem notaðar hafi verið til þess að kaupa bátinn A. Hafi kærði C ekki viljað upplýsa hvaðan þeir fjármunir hafi komið en segi þá vera lán frá ónafngreindum aðila. Þá hafi hann viðurkennt að hafa greitt fjölda reikninga fyrir hönd félagsins, samtals að fjárhæð kr. 1.979.238, en meðal þeirra er reikningur vegna Canon upptökuvélar sem lögreglan lagði hald á í þágu rannsóknar málsins.  Grunur leiki á því að fjármunir þeir og verðmæti sem kærði hafi lagt til félagsins séu ávinningur af refsiverðu broti.  Til þess að tryggja fjármuni sem hugsanlega yrðu gerðir upptækir í refsimáli gegn kærða hafi lögreglustjórinn, með heimild í 88. gr. laga um meðferð sakamála, fengið tilteknar eignir X ehf. kyrrsettar hinn 19. nóvember 2010.

                Með bréfi 12. nóvember 2011 hefur Jóhannes S. Ólafsson hdl. krafist þess fyrir hönd X ehf. að að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, í máli nr. K-60/2010,  um það að kyrrsetja eignir félagsins, þ.e. bátinn A, skráningarnúmer [...] og bankareikning nr. [...] í B hf.  Þá er þess krafist að aflétt verði haldi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á bókhaldi félagsins og upptökuvél í eigu félagsins af gerðinni Canon EOS 5D Mark II.  Loks er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

I. Kyrrsetning

Í kröfu X ehf. segir að með kyrrsetningarbeiðni lögreglustjóra, dagsettri 17. nóvember 2010, sé krafist kyrrsetningar á grundvelli 1. mgr., sbr. 2. mgr. 88. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, en þar segi að lögregla geti krafist kyrrsetningar eigna „hjá sakborningi“, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.  Samkvæmt ákvæðinu sé ljóst að kyrrsetningar verði einungis krafist á þessum grundvelli hjá sakborningi sjálfum.  Sé þetta ófrávíkjanlegt skilyrði þess að fallist verði á kyrrsetningu á grundvelli ákvæðisins. Sóknaraðilinn, X ehf., sé ekki sakborningur í því sakamáli sem vísað sé til í kyrrsetningarbeiðninni, heldur sé hann einkahlutafélag í eigu þriggja aðila.  Einn þeirra, C, sé sakborningur í umræddu sakamáli en hinir tveir séu ekki við það riðnir.  Eignarhlutur C sé 33%. Hvernig sem á málið sé litið verði því ekki haldið fram að X ehf. teljist sakborningur í umræddu sakamáli.  Hafi því enginn grundvöllur verið fyrir því að fallast á kyrrsetningu eigna félagsins, eins og sýslumaðurinn í Reykjavík hafi gert.

Um heimild til að bera ágreining um kyrrsetningu undir héraðsdóm sé vísað til 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála og 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá sé til hliðsjónar vísað til Hrd. nr. 73/2010.  Með vísan til alls þessa sé þess krafist að felld verði úr gildi sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík að kyrrsetja framangreindar eignir í eigu sóknaraðila.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krefst þess að dómurinn hafni með úrskurði þeirri kröfu X ehf. að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, í málinu K-09/2010, um að kyrrsetja bátinn A og bankareikning í B hf. nr. [...].  Mótmælir lögreglustjórinn því að félagið sé ekki sakborningur í málinu.  Helgist það af því að grunur sé um það að fyrirsvarsmaður félagsins, C, hafi stundað peningaþvætti, meðal annars í starfsemi félagsins, þar sem bankareikningur félagsins og bókhald var notað til að taka við ólögmætum ávinningi af broti sem var þannig umbreytt í eignir skráðar á félagið.  Fyrirsvarsmaðurinn sé sakborningur, meðal annars af þessum sökum, en félagið teljist einnig sakborningur í skilningi 27. gr. laga um meðferð sakamála þar sem félagið geti borið refsiábyrgð vegna háttseminnar samkvæmt 19. gr. d., sbr. 19. gr. c., almennra hegningarlaga.  Hér skipti ekki máli þó sóknaraðila hafi ekki verið formlega verið gefin réttarstaða sakbornings hjá lögreglu áður en kyrrsetning fór fram enda beri, samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sakml. að líta á aðila sem sakborning jafnskjótt og grunur vakni um aðild hans að refsiverðri háttsemi.  Í öðru lagi verði að leggja þann skilning í orðalagið „kyrrsett hjá sakborningi“ að það taki til muna sem séu raunveruleg eign sakbornings.  X ehf. sé félag í eigu og undir stjórn sakbornings í málinu, C, sem sé skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri sóknaraðila.  Skráður varamaður í stjórn sé D, sambýliskona C.  Auk D séu tveir meðeigendur að sóknaraðila.  Annar þeirra hafi sagt lögreglu að hann hefði hætt afskiptum af félaginu fyrir löngu.  Hefði hann aldrei greitt hlutafé og teldi sig ekki eiga hlut í félaginu.  Hinn maðurinn, fyrrum framkvæmdastjóri félagsins, hefði nú skráð sig úr stjórn félagsins.  Að hans sögn hefði félagið haft litlar tekjur en C hefði greitt nærri allan kostnaður fyrir félagið.  Gögn málsins beri með sér að fjármunir og eignir félagsins stafi nær eingöngu frá honum.  Þá bendi ekkert til þess að aðrir en hann hafi lagt félaginu til hlutafé eða önnur verðmæti svo neinu nemi.  Sé sakborningur, C, eini eigandi félagsins sem geti átt nokkurt tilkall til eigna félagsins.  Of þröng túlkun á orðalaginu „hjá sakborningi“ í 1. mgr. 88. gr. sakamálalaga myndi leiða til þess að ómögulegt væri að tryggja með kyrrsetningu fjármuni og eignir sem aflað er með refsiverðum hætti og gerðar verða upptækar í refsimáli ef sakborningar skrá þau á félög í sinni eigu.  Verði að telja að orðalagið „kyrrsett hjá sakborningi“ nái til eigna félagsins sem kyrrsettar hafa verið.  Yrði það óviðunandi niðurstaða og í ósamræmi við upptökuákvæði 69. gr. almennra hegningalaga, eftir atvikum 3., sbr. 1. mgr. 69. gr. b, ef sakborningar fengju tækifæri á að skjóta undan ávinningi með því að koma honum yfir í félag í sinni eigu.  Kyrrsetning sé ekki þvingunarráðstöfun heldur tryggingaráðstöfun sem sé síður íþyngjandi en haldlagning, þegar eignir eru teknar úr vörslum sakbornings.  Engin ástæða sé því til að skýra ákvæðið svo þröngt að það taki ekki til eigna sem sakborningar sannanlega eigi og stýri í gegnum eignarhlut í lögaðila.

Niðurstaða

                Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. b. almennra hegningarlaga má gera má upptæk verðmæti, að hluta eða í heild, „sem tilheyra einstaklingi“ sem gerst hefur sekur um brot þegar brotið er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og það getur varðað að minnsta kosti 6 ára fangelsi.  Dómurinn lítur svo á að skýra verði orðin „hjá sakborningi“ í 1. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála með hliðsjón af þessari upptökuheimild hegningarlaganna og telja að heimilt sé að kyrrsetja verðmæti sem talin eru tilheyra sakborningi þótt þau séu í vörslum annarra.  Þá er þess að gæta að í 3. mgr. 69. gr. b segir að gera megi upptæk verðmæti, að hluta eða í heild, sem runnið hafa til lögaðila sem viðkomandi einstaklingur, einn eða með sínum nánustu, hefur ráðandi stöðu í.  Álítur dómurinn að skilyrði 1. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála hafi verið uppfyllt þegar verðmætin voru kyrrsett.  Ber að synja kröfu félagsins um það að aflétt verði kyrrsetningu bátsins A og bankareiknings nr. [...] í B.

II. Haldlagning

                Samkvæmt gögnum málsins hófst lögreglurannsókn í október 2010 vegna ætlaðra brota C gegn hegningar- og virðisaukaskattslögum.  Var þá m.a. lagt hald á bókhald X ehf. og margnefnda Canon-upptökuvél við húsleit heima hjá C.

Af hálfu X ehf. er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um það að leggja hald á bókhald félagsins og umrædda upptökuvél í eigu þess.  Hafi félagið engan rökstuðning séð fyrir haldlagningunni og ekki verði séð að uppfyllt séu skilyrði IX. kafla. laga um meðferð sakamála fyrir haldi á munum eða VII. kafla A. almennra hegningarlaga eignaupptöku. Sé því skorað á varnaraðila að sýna fram á hvaða lagaheimild hann byggir haldlagningu bókhaldsins og upptökuvélarinnar.  Hvað vélina varði, sé um að ræða vél í eigu félagsins sem notuð hafi verið til að búa til kynningarmyndbönd og kennsluefni ýmiss konar en jafnframt hafi verið ætlunin að leigja hana út, enda séu slíkar vélar mikið notaðar við hverskyns dagskrárgerð og til kvikmyndagerðar.  Þær úreldist hins vegar hratt og falli í verði án notkunar.  Því sé ljóst að félagið verði fyrir tjóni meðan lögreglan haldi vélinni.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krefst þess að synjað verði kröfu X ehf. um það að fella úr gildi ákvörðun lögreglustjórans um leggja hald  á bókhald félagsins og upptökuvélina, enda séu skilyrði haldlagningar skv. 1. mgr. 68. gr. laga um meðferð sakamála uppfyllt.  Bókhald sóknaraðila og upptökuvélin hafi fundist við leit á heimili sakbornings í málinu, C, og haldlögð með heimild í 1. mgr. 68. gr. laga um meðferð sakamála en þar segi að hald skuli leggja á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla megi að þeir ellegar hlutir eða upplýsingar, sem þeir hafa að geyma, hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að vera gerðir upptækir.  Með ákvæðinu sé lögð sú skylda á lögreglu að leggja hald á muni þegar ætla megi að eitt af skilyrðum ákvæðisins eigi við þ.e. að hlutur hafi sönnunargildi í sakamáli, að hans hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að hann kunni að vera gerður upptækur með dómi.  Megi gera þetta án sérstaks rökstuðnings.  Fyrirspurnum verjanda kærða C um haldlagninguna og ástæður hennar hafi verið svarað á sínum tíma.  Bókhaldið hafi ótvírætt sönnunargildi í málinu en kærði hafi samkvæmt gögnum málsins sjálfur greitt upptökuvélina og síðan lagt hana til sóknaraðila.  Grunur leiki á því að vélin hafi verið greidd með fjármunum sem aflað hafi verið með refsiverðum hætti.  Kunni hún því að verða gerð upptæk á grundvelli 69. gr. eða 3. mgr. sbr. 1. mgr. 69. gr. b. almennra hegningarlaga. Loks sé þess að gæta að rannsókn málsins sé enn í gangi og meðan á henni standi beri lögreglu að gæta sönnunargagna og verðmæta sem kunni að verða gerð upptæk.

Niðurstaða

                Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. skal leggja hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla má að þeir ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir.  Ekki verður annað séð en að lagaskilyrði fyrir haldlagningunni séu fyrir hendi.  Ber því að synja kröfu X ehf. að haldi á Canon EOS 5D Mark II og bókhaldi X ehf. verði aflétt. Ekki eru efni til þess að kveða á um málskostnað.

Úrskurðarorð:

Synjað er kröfu X ehf. um það að aflétt verði kyrrsetningu sýslumannsins í Reykjavík, 18. nóvember 2010, á bátnum A  bankareikningi nr. [...] í B.

Synjað er kröfu X ehf. um það að aflétt verði haldi lögreglustjórans á bókhaldsgögnum og upptökuvél af gerðinni Canon EOS 5D Mark II.