Hæstiréttur íslands

Mál nr. 367/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæra
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 3

 

Föstudaginn 3. júlí 2009.

. Nr. 367/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Í kæru X til Hæstaréttar voru ekki uppfyllt skilyrði í ákvæði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. júlí 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar á dómþingi 29. júní 2009 var bókað eftir varnaraðila, að viðstöddum verjanda hans, að hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Ekki var bókað í þingbókina í hvaða skyni kært væri svo sem áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Úr þessum annmarka var ekki bætt með skriflegri kæru til héraðsdóms innan kærufrests svo sem unnt hefði verið, sbr. sama lagaákvæði. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 20. júlí 2009 kl. 16:00.

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2009, nr. R-278/2009, og dómi Hæstaréttar frá 22. júní nr. 337/2009 hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag kl. 16, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Áður hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna sömu mála með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-234/2009.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur unnið að rannsóknum 7 mála þar sem kærði hafi komið við sögu að undanförnu og séu rannsóknir þeirra mála á lokastigi. Flest þessara mála séu vegna auðgunarbrota sem hafi verið mjög tíð að undanförnu líkt og má sjá í kröfugerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 1. og 15. júní sl. vegna gæsluvarðhalds kærða. Eitt þessara mála sé vegna ráns og verði það mál því sent ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn á allra næstu dögum.

Auk þessara 7 mála sem séu til rannsóknar hjá lögreglu hafi þegar verið gefin út ákæra á hendur kærða X þann 12. maí sl. og sé ákæran til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Er hann ákærður fyrir þjófnað með því að hafa í félagi við annan aðila að kvöldi mánudagsins 13. október 2008 brotist inn í verslunina Tölvutækni við Hamraborg í Kópavogi og stolið þaðan tveimur fartölvum og einnig fíkniefnalagabrot fyrir að hafa haft í vörslum sínum 0,44 g af amfetamíni.

Kærði hafi nú verið í gæsluvarðhaldi síðan 1. júní og hafi lögregla upphaflega farið fram á gæsluvarðhalds til dagsins í dag, þar sem talið hafi verið raunhæft að ljúka rannsókn málanna innan þess tíma. Lögregla hafi hinsvegar aðeins fengið tveggja vikna úrskurði í bæði skiptin og hafi þess vegna þurft að fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald. Nú sé rannsókn málanna á lokastigi og ákvörðun um saksókn verði tekin á allra næstu dögum. Telur lögreglan það raunhæfan möguleika að dómur gæti verið komin í málum kærða fyrir 18. júlí nk.

Rannsókn ránsmálsins á Barðaströnd þann 21. maí sl. hafi tafist um nokkra daga hjá lögreglu vegna gagna sem lögregla þurfti að bíða lengur eftir en ráð hafi verið fyrir gert. Þau gögn liggi nú hins vegar fyrir hjá lögreglu og sé rannsókn þess máls því á lokastigi, eins og fyrr greinir.

Með vísan til framangreinds og brotaferils kærða að undanförnu sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan málum hans sé ekki lokið. 

Ætluð brot sem til rannsóknar séu teljast geta varðað við 217., 226., 244. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot gegn 252. gr. getur varðað allt að 16 ára fangelsi.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga

Kærði er undir sterkum grun um að hafa framið brot sem geta varðað við 217., 226., 244. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á með lögreglu að líkur séu á því að kærði muni halda brota­starfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæslu­varðhaldi á meðan málum hans sé ekki lokið.

 Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgar­svæðinu tekin til greina, þó þannig að kærði sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 13. júlí nk. kl. 16.00.

Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. […], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til mánudagsins 13. júlí 2009 kl. 16.00.