Hæstiréttur íslands
Mál nr. 683/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
|
|
Miðvikudaginn 26. janúar 2011. |
|
Nr. 683/2010. |
Ingibjörg Daníelsdóttir (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) gegn Glitni banka hf. (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfum I var hafnað og staðfest sú afstaða slitastjórnar G hf. að skipa kröfu I í röð almennra krafna við slit G hf. Í hafði verið starfsmaður bankans og við hana var gerður starfslokasamningur 2. júní 2008. Skyldi I halda óbreyttum kjörum frá starfslokum til októbermánaðar 2010 án vinnuskyldu. Gerði I kröfu á grundvelli starfslokasamningsins frá 1. febrúar 2009 til 31. október 2010. Héraðsdómur taldi ekki unnt að líta svo á greiðsla samkvæmt samningnum teldist til launa eða endurgjalds í skilningi 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. þar sem ekki væru um að ræða kröfu fyrir vinnu í þágu varnaraðila sem þegar hefði verið innt af hendi heldur gerði I kröfu um laun samkvæmt samningi þar sem ekkert vinnuframlag var áskilið af hennar hálfu. Var krafan því talin almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur með vísan til forsendna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2010, þar sem kröfum sóknaraðila var hafnað og staðfest sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að skipa kröfu sóknaraðila að fjárhæð 8.177.589 krónur í röð almennra krafna við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa sín ásamt dráttarvöxtum „frá 22. apríl 2009“ viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess að krafa sóknaraðila að fjárhæð 8.156.564 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Krafa sóknaraðila sem lýtur að dráttarvöxtum eftir 22. apríl 2009 var ekki höfð uppi í héraði og kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um lækkun á þeirri kröfu sóknaraðila í bú varnaraðila sem viðurkennd var með úrskurðinum því ekki til skoðunar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2010.
I
Mál þetta sem þingfest var hinn 3. júní 2010 var tekið til úrskurðar 25. október 2010. Sóknaraðili er Ingibjörg Daníelsdóttir, Heiðarhjalla 33, Kópavogi, en varnaraðili er Glitnir banki hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru að krafa hennar að fjárhæð 8.156.564 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 31. desember 2008 til 22. apríl 2009 verði viðurkennd sem forgangskrafa við slitameðferð varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða henni málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að sú afstaða slitastjórnar varnaraðila, að krafa sóknaraðila að fjárhæð 8.177.589 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, verði staðfest og að frekari kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.
II
Hinn 7. október 2008 ákvað fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og skipa honum skilanefnd. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009. Var greiðslustöðvunin framlengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009. Áður en sá tími var á enda, hinn 12. maí 2009, var varnaraðila skipuð slitastjórn. Gaf slitastjórnin út innköllun til skuldheimtumanna sem birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaði 26. maí 2009 og rann kröfulýsingarfrestur út sex mánuðum síðar eða 26. nóvember 2009. Frestdagur við slitameðferðina er 15. nóvember 2008 og upphafsdagur slitameðferðar er 22. apríl 2009,
Samkvæmt gögnum málsins hóf sóknaraðili störf sem starfsmaður Útvegsbanka Íslands 17. ágúst 1970. Útvegsbankinn sameinaðist síðan Verslunarbanka Íslands og Iðnaðarbankanum undir nafni Íslandsbanka hf. Nafni Íslandsbanka hf. var breytt í Glitni banka hf. árið 2006. Í ráðningarsamningi sóknaraðila frá 24. september 1993 var greint frá því að um réttindi, skyldur og launakjör færi eftir ákvæðum kjarasamnings bankamanna. Kjarasamningur sem í gildi var við starfslok sóknaraðila var gerður 1. október 2004 og gilti til 1. október 2008. Samkomulag var milli aðila um að sóknaraðili léti af störfum hjá bankanum 23. maí 2008 og í framhaldinu gerði sóknaraðili starfslokasamning við varnaraðila 2. júní 2008. Í starfslokasamningnum var samið um það milli aðila að sóknaraðili skyldi halda óbreyttum kjörum frá 23. maí 2008 til 31. október 2010 án vinnuskyldu og þann 1. október 2010 skyldi fara fram lokauppgjör milli aðila.
Hinn 2. febrúar 2009 sendi skilanefnd varnaraðila sóknaraðila lokauppgjör þar sem uppsagnarfrestur hennar samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi væri liðinn. Lögmaður sóknaraðila mótmælti þeirri ákvörðun skilanefndar varnaraðila með bréfi 4. apríl 2009.
Sóknaraðili lýsti kröfu sinni til slitastjórnar varnaraðila og var hún móttekin 23. nóvember 2009. Með bréfi 4. desember 2009 hafnaði slitastjórn varnaraðila forgangsrétti kröfunnar en viðurkenndi hana sem almenna kröfu. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar varnaraðila með bréfi 16. desember 2009. Vegna mótmælanna boðaði slitastjórn varnaraðila til fundar með sóknaraðila 24. mars 2010. Ekki tókst að jafna ágreininginn og var ágreiningnum því vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur.
Í máli þessu snýst ágreiningur fyrst og fremst um rétthæð kröfu sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila en ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfunnar.
III
Sóknaraðili sundurliðar kröfu sína svo:
|
Mánaðarlaun (60,95%) |
kr. 5.840.751 |
|
Föst yfirvinna |
kr. 228.013 |
|
13. mánuður og orlofsframlag |
kr. 705.075 |
|
Orlof des. 08-des. 09 (30d) |
kr. 431.527 |
|
Orlof maí 09-okt. 09 (15d) |
kr. 215.763 |
|
Greitt orlof 1. febrúar 2009 |
-kr. 694.902 |
|
Mótframlag í lífeyrissjóð (6%) |
kr. 403.394 |
|
Mótframlag í séreignalífeyrissjóð |
kr. 134.465 |
|
7% mótframlag í séreignalífeyrissjóð |
kr. 471.626 |
|
Tekjutryggingaruppbót |
kr. 420.852 |
|
Samtals |
kr. 8.156.564 |
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á meginreglum kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga og á starfslokasamningi sem gerður hafi verið milli hennar og varnaraðila hinn 2. júní 2008. Hafi sóknaraðili starfað um áratugaskeið hjá varnaraðila og hafi hún verið hvött til að gera starfslokasamning. Hún hafi sjálf ekki hugsað sér að láta af störfum á þeim tíma en hafi fallist á það tilboð sem henni hafi verið gert. Samkvæmt samningnum skyldi hún halda óbreyttum kjörum og vera á launaskrá hjá varnaraðila allt til 31. október 2010. Samkvæmt samningnum hafi varnaraðili þannig skuldbundið sig til að greiða laun til sóknaraðila til framangreinds tíma.
Sé krafa sóknaraðila launakrafa samkvæmt starfslokasamningi sem sé skuldbindandi fyrir varnaraðila. Segja megi að starfslokasamningurinn sé breyting á upphaflegum ráðningarsamningi aðila. Í 112. gr. gjaldþrotalaga sé gert ráð fyrir að kröfur um laun séu forgangskröfur. Ekki sé tekið fram í ákvæðinu eða greinargerð með því að útiloka skuli launagreiðslur samkvæmt starfslokasamningum frá vernd ákvæðisins. Með starfslokasamningnum hafi varnaraðili í raun verið að ákveða að greiða sóknaraðila laun til loka starfstímans eða til loka októbermánaðar 2010 og sé sá samningur skuldbindandi fyrir varnaraðila.
Kröfu sína um greiðslu málskostnaðar byggir sóknaraðili á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en kröfu um virðisaukaskatt byggir hún á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Varnaraðili kveðst hafa viðurkennt greiðsluskyldu sína á grundvelli starfslokasamningsins sem almenna kröfu. Byggist sú ákvörðun á meginreglu kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga. Sé hvorki í starfslokasamningnum né í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti gert ráð fyrir því að sóknaraðili hafi betri réttarstöðu en aðrir kröfuhafar sem eigi kröfur á hendur varnaraðila sem byggist á samningum.
Ekki sé hægt að fallast á þau rök sóknaraðila að henni beri að fá samningsgreiðslur greiddar sem forgangskröfur á þeim forsendum að hún hafi starfað um árabil hjá sóknaraðila enda gildi sömu reglur um sóknaraðila og alla aðra kröfuhafa varnaraðila. Þá sé ekki fallist á þá skilgreiningu sóknaraðila að starfslokasamningurinn sé í raun breyting á upphaflegum ráðningarsamningi. Þessi fullyrðing sóknaraðila sé órökstudd og sé ekkert sem bendi til þess samkvæmt efni starfslokasamningsins að hann sé í raun ráðningarsamningur enda verulegur eðlismunur á slíkum samningum. Þá telur varnaraðili að engin gögn styðji þá fullyrðingu sóknaraðila að varnaraðili hafi átt frumkvæði að starfslokasamningnum en tildrög samningsins skipti engu máli að mati varnaraðila.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaga komi fram að forgangskröfur séu kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Ákvæðið um forgang ákveðinna launakrafna við skipti þrotabúa víki frá meginreglum gjaldþrotaskiptalaga um jafnræði kröfuhafa og beri að skýra þau þröngt. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar megi ráða að eitt af skilyrðum fyrir því að krafa sem byggi á samningi milli launþega og vinnuveitanda verði talin laun í skilningi ákvæðisins sé vinnuframlag launþega. Sé ekki krafist vinnuframlags launþega teljist krafan almenn krafa. Sé því ekki hægt að fallast á þá fullyrðingu sóknaraðila að ákvæðið undanþiggi ekki greiðslur samkvæmt starfslokasamningi.
Sóknaraðili hafi fengið greitt í átta mánuði frá því að henni var sagt upp störfum. Í kjarasamningi bankamanna sem gilt hafi þegar starfslokasamningurinn hafi verið gerður komi fram að uppsagnarfrestur hjá þeim sem hafi starfað lengst tíu ár í banka eða náð 45 ára aldri sé sex mánuðir. Það að sóknaraðili hafi fengið greidda fleiri mánuði en samkvæmt ákvæðum kjarasamnings eigi ekki að leiða til þess að varnaraðili sé skuldbundinn til að greiða sem forgangskröfu eftirstöðvar starfslokasamnings enda geti slíkur samningur ekki fallið undir ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili geri kröfu um dráttarvexti á höfuðstól kröfunnar frá 31. desember 2008 til 22. apríl 2009. Umþrættur starfslokasamningur byggist á mánaðarlegum greiðslum og í honum séu engin ákvæði sem heimili gjaldfellingu. Þá hafi varnaraðila verið veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og í því felist að ekki hafi verið unnt að beita vanefndarákvæðum. Dráttarvaxtakrafan sé að auki vanreifuð og sé óljóst á hverju hún byggist. Í því ljósi beri að vísa dráttarvaxtakröfunni frá dómi.
Verði talið að sóknaraðili eigi rétt á dráttarvöxtum verði að taka tillit til eðlis kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili eigi aðeins rétt á dráttarvöxtum af þeim hluta höfuðstóls sem fallið hafi í gjalddaga fyrir 22. apríl 2009 í samræmi við 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Eigi það við um launakröfur með gjalddaga 1. febrúar, 1. mars. og 1. apríl 2009. Varnaraðili telur að sóknaraðili eigi ekki rétt á dráttarvöxtum af allri fjárhæð starfslokasamningsins frá 31. desember 2008.
Kröfu um málskostnað styður varnaraðili við 1. mgr. 130. gr. og kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggir hann á lögum 50/1988 um virðisaukaskatt. Þá vísar hann varðandi lagarök almennt til laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 og laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
V
Eins og fram er komið er ekki ágreiningur um greiðsluskyldu varnaraðila samkvæmt starfslokasamningi aðila frá 2. júní 2008 eða um fjárhæð kröfunnar. Hins vegar snýst ágreiningurinn um það fyrst og fremst hvort kröfu sóknaraðila skuli skipa í röð forgangskrafna samkvæmt 112. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 eða almennra krafna samkvæmt 113. gr. laganna.
Í máli þessu liggur fyrir starfslokasamningur sem aðilar gerðu með sér 2. júní 2008. Ekki verður séð að neinu skipti fyrir mál þetta hvor aðilinn hafi haft frumkvæði að gerð samningsins og er ekki deilt um efni hans. Samkvæmt starfslokasamningi aðila skyldi sóknaraðili halda óbreyttum kjörum frá því hún lét af störfum 23. maí 2008 til loka októbermánaðar 2010 án vinnuskyldu. Þá segir jafnframt að sóknaraðili ávinni sér lífeyrisréttindi, orlofsframlag og 13. mánuð eins og hún væri í fullu starfi.
Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að sóknaraðili fékk greiðslur samkvæmt starfslokasamningnum frá því hún lét af störfum í maí 2008 og út janúar 2009 eða í samtals 8 mánuði. Af málatilbúnaði sóknaraðila má ráða að hún byggi meðal annars á því að krafa hennar sé launakrafa þar sem starfslokasamningur aðila sé í raun breyting á upphaflegum ráðningarsamningi og með samningnum hafi varnaraðili skuldbundið sig til þess að greiða henni laun. Ljóst er að í starfslokasamningi aðila er fjallað um kjör sóknaraðila við starfslok hennar og þar með um ráðningarkjör hennar á tilgreindu tímabili. Eins og mál þetta er lagt fyrir ræðst niðurstaða þess af því hvort telja megi ákvæði starfslokasamningsins geyma fyrirmæli um laun eða annað endurgjald handa sóknaraðila fyrir vinnu í þjónustu varnaraðila í skilningi framangreinds ákvæðis og skiptir því ekki máli hvort starfslokasamningurinn telst breyting á fyrri ráðningarsamningi eða ekki.
Í máli þessu gerir sóknaraðili kröfu um greiðslur á grundvelli starfslokasamningsins frá 1. febrúar 2009 til 31. október 2010. Þannig er sóknaraðili í máli þessu ekki að krefjast launa fyrir vinnu í þágu varnaraðila, sem þegar hefur verið innt af hendi heldur gerir hún kröfu um greiðslu launa sem falla áttu að öllu leyti í gjalddaga á 21 mánaða tímabili, eftir frestdag, samkvæmt samningi þar sem ekkert vinnuframlag var áskilið af hennar hálfu. Verður því ekki unnt að líta svo á að greiðslur samkvæmt samningi aðila geti talist til launa eða endurgjalds fyrir vinnu í skilningi framangreinds ákvæðis. Þegar af þeirri ástæðu verður kröfu sóknaraðila ekki skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Verður því staðfest sú afstaða varnaraðila að krafan teljist til almennra krafna samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili hefur lagfært kröfu sína með tilliti til dráttarvaxta fram til 22. apríl 2009, sem var upphafsdagur slitameðferðar varnaraðila, en samkvæmt 1. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991 eru dráttarvextir sem falla á kröfu sóknaraðila eftir þann dag eftirstæð krafa.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskattur.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Hulda Rós Rúriksdóttir hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfum sóknaraðila, Ingibjargar Daníelsdóttur, er hafnað í máli þessu og staðfest sú afstaða slitastjórnar varnaraðila, Glitnis banka hf., til kröfu sóknaraðila að fjárhæð 8.177.589 krónur, að skipa henni í röð almennra krafna.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað.