Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-18
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattsvik
- Tekjuskattur
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Réttlát málsmeðferð
- Milliliðalaus málsmeðferð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 21. desember 2022, sem barst Hæstarétti 7. febrúar 2023, leitar Eiríkur Sigurbjörnsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 18. nóvember 2022 í máli nr. 633/2021: Ákæruvaldið gegn Eiríki Sigurbjörnssyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 28. nóvember 2022. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum nánar tilgreind gjaldár og tekjuár með því að láta undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum annars vegar persónulegar úttektir með greiðslukortum sem hann hafði afnot af og voru skuldfærð af bankareikningi tilgreinds einkahlutafélags og hins vegar úttektir hans samkvæmt viðskiptareikningi hjá öðru tilgreindu einkahlutafélagi, samtals 78.593.465 krónur. Hann var dæmdur til að sæta fangelsi í tíu mánuði og var fangelsisrefsingin bundin skilorði. Að auki var honum gert að greiða 108.900.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.
5. Fyrir Landsrétti krafðist leyfisbeiðandi þess aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi. Byggði hann annars vegar á því að fjallað hefði verið um sakarefni málsins þegar ríkisskattstjóri endurákvarðaði gjöld á hann með úrskurði sínum. Hins vegar byggði hann á því að við skatteftirlit ríkisskattstjóra hefði verið brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar við rekstur sakamáls þar sem honum hefði verið gert að viðlagðri refsiábyrgð að leggja fram gögn hjá ríkisskattstjóra sem síðan hefðu verið notuð við rannsókn málsins. Í dómi Landsréttar var ekki fallist á framangreind sjónarmið með leyfisbeiðanda og var frávísunarkröfu hans því hafnað. Landsréttur taldi sannað svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa að leyfisbeiðandi hefði gerst sekur um þau brot sem honum voru gefin að sök. Var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu og refsingu leyfisbeiðanda.
6. Leyfisbeiðandi byggir á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu um túlkun á réttindum sakbornings í aðdraganda skattrannsóknar og hvar mörk skatteftirlits og skattrannsókna liggja. Þá hafi það verulega almenna þýðingu að fá úrlausn um lagaskil og heimildir stjórnvalda til að hverfa frá venjubundinni framkvæmd án lagaheimildar. Auk þess hafi það verulega almenna þýðingu um hvenær einstaklingur sætir tvöfaldri lögsókn í skilningi laga. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í því sambandi vísar hann einkum til þess að hann hafi sætt tvöfaldri lögsókn í skilningi 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Málsmeðferð ríkisskattstjóra hafi átt að leiða til niðurstöðu um refsingu í formi álags á skattstofna samkvæmt gildandi lögum.
7. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Í því sambandi skal tekið fram að leyfisbeiðandi hefur ekki sætt tvöfaldri málsmeðferð í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Beiðninni er því hafnað.