Hæstiréttur íslands

Mál nr. 304/2001


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Sakarskipting
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. febrúar 2002.

Nr. 304/2001.

Hitaveita Suðurnesja hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Bjarna E. Ísleifssyni

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

og gagnsök

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Sakarskipting. Gjafsókn.

B varð fyrir fyrir alvarlegu slysi í starfi sínu hjá H hf. Lenti vinstri fótur hans í viftuspaða með þeim afleiðingum að nokkru síðar þurfti að aflima hann neðan við hné. Var B metin 50% varanleg örorka og 40% varanlegur miski vegna slyssins. Deilt var um hvort skilyrði væru til að fella skaðabótaskyldu á H hf. vegna tjóns B. Í ljós var leitt að gangsetningarbúnaði umræddrar vélar var áfátt og mátti rekja slysið til þess að hluta. Ábyrgð á þessu var felld á H hf. Jafnframt var félagið látið bera ábyrgð á breytingu sem framkvæmd hafði verið án þess að mæta jafnframt aukinni hættu sem þessu fylgdi. Við úrlausn  málsins var ekki framhjá því litið að B hafði með háttsemi sinni í umrætt sinn brotið gegn fyrirmælum og öryggisreglu og var ekki talinn hafa getað treyst því að straumur væri aftengdur, svo sem hann kvaðst hafa gert, án þess að ganga beinlínis úr skugga um það. Þótti samkvæmt þessu hæfilegt að B bæri sjálfur þriðjung tjóns síns en H hf. tvo þriðju hluta þess. Til grundvallar tjóni var miðað við meðaltekjur vélfræðinga á sjó og í landi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. ágúst 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst aðaláfrýjandi að tildæmdar bætur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður fyrir báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 12. október 2001. Krefst hann þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 26.577.512 krónur með 2% ársvöxtum frá 26. október 1998 til 27. mars 2000, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms um annað en vexti fyrir tímabilið 1. maí 1999 til 27. apríl 2000, en fyrir það tímabil krefst hann 2% ársvaxta. Til þrautavara krefst hann lægri fjárhæðar að mati dómsins. Gagnáfrýjandi krefst þess ennfremur að málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verði staðfest og honum tildæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjanda án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi.

I.

Hinn 26. október 1998 varð gagnáfrýjandi fyrir alvarlegu slysi í starfi sínu hjá aðaláfrýjanda. Lenti vinstri fótur hans þá í viftuspaða með þeim afleiðingum að nokkru síðar þurfti að aflima hann neðan við hné. Hefur gagnáfrýjanda verið metin 50% varanleg örorka og 40% varanlegur miski vegna slyssins.

Nánari tildrög þessa atviks voru þau að gagnáfrýjandi var í umrætt sinn staddur á þaki svokallaðs loftkælivirkis, sem rekið er í tengslum við orkuver aðaláfrýjanda í Svartsengi. Er þetta mannvirki reist á súlum, en ofan á því í um sjö metra hæð eru 36 láréttir viftuspaðar, hver innan sérstaks viftuhrings, sem er um 4 metrar í þvermál og með upphækkaðri brún. Er lofti dælt inn í orkuverið með þessum spöðum og hvílir hver þeirra á lóðréttum öxli, sem tengdur er við rafmótor fyrir hverja viftu er knýr spaðann áfram. Hafði gagnáfrýjandi áðurnefndan dag verið sendur upp á loftkælivirkið til að bæta olíu á gír á viftu, en til þess þurfti að stöðva hana og fara ofan í viftuhringinn. Áður voru gerðar ráðstafanir í stjórnhúsi, sem stendur í um 100 metra fjarlægð frá loftkælivirkinu, til að slá út rafmagni af viftunni. Voru spaðarnir nálægt mittishæð, þegar staðið var inni í hringnum. Að loknu verki varð gagnáfrýjandi þess var að önnur vifta hafði stöðvast og sá hann á sérstöku mæliglasi að komið var að mörkum þess að næg olía væri á gír hennar. Steig gagnáfrýjandi inn í viftuhringinn til að bæta úr þessu þegar viftuspaðinn fór skyndilega af stað og skall á vinstri fæti hans með þeim afleiðingum, sem áður greindi.

II.

Í málinu deila aðilarnir um það hvort skilyrði séu til að fella skaðabótaskyldu á aðaláfrýjanda vegna tjóns gagnáfrýjanda. Heldur hinn síðarnefndi því fram að ástæður slyssins megi rekja til bilunar í endurgangsetningarbúnaði umræddrar viftu, auk þess sem breyting, sem gerð var frá upphaflegri hönnun viftanna, hafi aukið slysahættu þar sem fara þurfti niður á milli spaðanna til að bæta olíu á gír hverrar viftu í stað þess að það yrði gert neðan frá, eins og gengið hafi verið út frá í upphaflegri hönnun þeirra. Þá hafi verið óforsvaranlegt að senda gagnáfrýjanda einan í verkið og beri þá að líta til þess að hann hafi verið nemi með litla reynslu af störfum við þennan hættulega búnað. Hafi að auki skort verulega á leiðbeiningar af hálfu stjórnenda á vinnustaðnum og verkfyrirmæli verið óljós. Aðaláfrýjandi telur hins vegar að engu öðru en gáleysi gagnáfrýjanda sjálfs verði kennt um hve illa tókst til. Hafi hann farið ofan í viftuhringinn án þess að ganga fyrst úr skugga um að rafmagn til þessarar viftu hafi verið aftengt með því að slá út höfuðrofa fyrir hana, svo sem gert hafi verið með hina viftuna. Hefði þannig verið tryggt að viftan færi ekki í gang aftur. Með því að láta það undir höfuð leggjast hafi gagnáfrýjandi brotið gegn öryggisreglu og skýrum fyrirmælum yfirmanna sinna. Þá hafi gagnáfrýjandi verið kominn með verulega reynslu í þessu starfi og verkbeiðni yfirmanna til hans verið skýr. Málsástæður aðilanna eru að öðru leyti nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.

Fyrir liggur í málinu að sérstakur stjórnbúnaður var fyrir hverja viftu. Hluti hans var útsláttarrofi, sem snúið var handvirkt, og jafnframt yfirálagsvörn, sem ætlað var að verja vélina sjálfa fyrir straumbreytingum. Síðastnefndi þátturinn í búnaði viftunnar, sem gagnáfrýjandi slasaðist í, var stilltur á sjálfvirka endurgangsetningu. Um það var starfsmönnum aðaláfrýjanda ekki kunnugt og í skýrslu Hreins Halldórssonar, viðhaldsstjóra hjá aðaláfrýjanda, fyrir dómi kom fram að þetta hafi ekki sést nema við nákvæma athugun eftir slysið. Þá hafi búnaðurinn verið stilltur á handvirka endurgangsetningu þegar hann var afhentur frá framleiðanda. Er jafnframt fram komið að stjórnbúnaður þessarar einu viftu var að þessu leyti stilltur á annan hátt en allra hinna, sem ekki gátu farið í gang aftur eftir stöðvun nema með sérstakri ákvörðun þeirra, sem fóru með stjórn vélanna í stjórnhúsi. Var búnaði vélarinnar þannig áfátt, sem aðaláfrýjandi verður að bera ábyrgð á.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf Vinnueftirlitsins 18. október 2001 til lögmanns gagnáfrýjanda. Kemur þar meðal annars fram að aðaláfrýjandi hafi ekki óskað eftir úttekt stofnunarinnar vegna breytinga, sem gerðar voru á viftunum frá upphaflegri hönnun þeirra. Er rakið í héraðsdómi að breytingin hafi falið í sér að fara þurfti ofan í viftuhringinn á milli spaðanna til að fylla á og skipta um olíu á drifbúnaðinum í stað þess að það yrði gert yfir neðan gólf loftkælivirkisins og þar með án hættu af því að lenda í spöðunum. Eftir slys gagnáfrýjanda breytti aðaláfrýjandi þessu aftur á þann veg að staðsetning olíuáfyllingar var færð út fyrir viftuhringinn. Fyrrnefnda breytingin, sem aðaláfrýjandi réðst í án þess að sérstök úttekt á öryggisatriðum fylgdi í kjölfarið, var til þess fallin að skapa óþarfa hættu, sem gat fylgt því að fara niður á milli spaðanna, sem síðar var bætt úr á einfaldan hátt og með litlum tilkostnaði. Verður aðaláfrýjandi að bera ábyrgð á þessari breytingu búnaðarins, sem var gerð án þess að mæta jafnframt aukinni hættu, sem þessu fylgdi.

Meðal málskjala er sérstök verklýsing aðaláfrýjanda fyrir gagnáfrýjanda, sem óumdeilt er að hinn síðarnefndi hafi fengið vegna reglulegs eftirlits, sem hann sinnti á þaki loftkælivirkisins fyrir slysið. Fól hún í sér að fylgjast með viftum á loftkælivirki, athuga olíuhæð á gírum og bæta á eftir þörfum. Á verklýsinguna er skráð: „Varúð: Taka út höfuðrofa fyrir viðkomandi viftur, framkvæma í samráði við vakthafandi vélstjóra“. Þá hafa vitnin Þórður Andrésson, stöðvarstjóri, og áðurnefndur Hreinn Halldórsson borið fyrir dómi að brýnt hafi verið fyrir starfsmönnum að ávallt skyldi rjúfa straum áður en vinna hæfist við viftu og gera vélstjóra á vakt í stöðvarhúsi viðvart. Gagnáfrýjandi gætti þessa ekki þegar hann steig inn í viftuhringinn og slasaðist. Hefur hann borið fyrir sig að hann hafi treyst því að viftan væri stillt á handvirka endurgangsetningu eins og allar hinar og gæti því ekki farið í gang aftur eftir stöðvun nema fyrir tilstilli vélstjóra á vakt, sem ekki myndi gerast meðan maður væri að störfum við vifturnar. Þótt þessi skýring hans verði ekki vefengd verður engu að síður ekki litið framhjá því að með háttsemi sinni braut gagnáfrýjandi gegn fyrirmælum og öryggisreglu og gat hann ekki treyst því að straumur væri aftengdur, svo sem hann kveðst hafa gert, án þess að ganga beinlínis úr skugga um það. Samkvæmt þessu ber gagnáfrýjandi einnig ábyrgð á því að slysið varð. Er hæfilegt að hann beri sjálfur þriðjung tjóns síns, en aðaláfrýjandi tvo þriðju hluta þess.

III.

Svo sem rakið er í héraðsdómi hafði gagnáfrýjandi lokið bóklegu námi í vélfræði er slysið varð, en átti enn ólokið verklegum hluta þess til að öðlast sveinsréttindi í þeirri grein. Gerði hann í því skyni námssamning við aðaláfrýjanda 15. október 1998 með gildistíma frá 15. júní sama árs og lifðu enn fimmtán mánuðir af námstímanum þegar hann slasaðist. Til viðmiðunar um fjárhagslegt tjón sitt vegna varanlegrar örorku leggur gagnáfrýjandi til grundvallar laun, sem hann telur að ætla megi að hann hefði haft heill heilsu að námi loknu. Tók hann í aðalkröfu sinni fyrir héraðsdómi mið af launum vélfræðinga í starfi á sjó, en í varakröfu af launum vélfræðinga almennt, hvort sem þeir starfa til sjós eða í landi. Í þrautavarakröfu var miðað við sömu forsendur og í aðalkröfu, en tekið tillit til hámarksfjárhæðar árslauna samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem hann kveður hafa verið 4.948.355 krónur á slysdegi, sem hann leggur þá til grundvallar. Að þessu frágengnu tók gagnáfrýjandi í kröfugerð sinni mið af meðallaunum vélfræðinga í landi. Fyrir Hæstarétti lækkaði hann aðalkröfu sína fyrir varanlega örorku í 24.494.357 krónur með vísan til dóms réttarins 15. mars 2001 í máli nr. 395/2000, þar sem skorið hafi verið úr um gildi skerðingar samkvæmt áðurnefndri 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, auk þess sem dæmt hafi verið að hækkun vaxta samkvæmt 16. gr. þeirra eigi aðeins við um slys, sem urðu eftir að lögunum var breytt með lögum nr. 37/1999. Er krafa hans fyrir Hæstarétti sú, sem að framan er getið í þrautavarakröfu fyrir héraðsdómi, auk þess sem hann krefst bóta fyrir þjáningar og varanlegan miska. Aðaláfrýjandi vefengir hvorki fram komið mat á varanlegri örorku eða varanlegum miska gagnáfrýjanda né tölulegar forsendur, sem hinn síðarnefndi leggur til grundvallar einstökum liðum kröfu sinnar. Hann telur hins vegar að miða beri við laun, sem gagnáfrýjandi hafði fyrir slysið, en að öðrum kosti við byrjunarlaun vélfræðinga fyrir störf í landi.

Gagnáfrýjandi heldur fram að ætlan sín hafi verið að hefja störf á sjó þegar að loknu námi, en slysið hafi gert þau áform að engu. Hann hefur jafnframt lagt fram í málinu yfirlit yfir störf sín frá 17 ára aldri fram til slysdags, en þá var hann 26 ára gamall. Kveður hann það bera glögglega með sér að störf hans á þessu tímabili hafi fyrst og fremst verið á sjó þegar frá sé talinn námstími í skóla. Þegar aðstæður gagnáfrýjanda eru virtar og það jafnframt að algengt er að menn með sambærilega menntun og hann vinni í landi hluta starfsævi sinnar, er rétt að miða bætur til gagnáfrýjanda við meðallaun vélfræðinga á sjó og í landi. Hann var langt kominn í námi sínu þegar hann slasaðist og fer um ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga, eins og þeim hafði verið breytt með lögum nr. 42/1996 þegar slysið varð. Í kröfugerð fyrir Hæstarétti hefur gagnáfrýjandi gætt ákvæða 3. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 9. gr. laganna og er krafan þannig fram sett lægri en viðmiðun í varakröfu fyrir héraðsdómi um meðallaun vélfræðinga á sjó og í landi. Verður aðalkrafa gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti um bætur fyrir varanlega örorku lögð til grundvallar bótauppgjöri og hið sama á við um kröfu hans um bætur fyrir varanlegan miska að fjárhæð 1.890.555 krónur og þjáningabætur að fjárhæð 192.600 krónur. Nemur tjón gagnáfrýjanda samkvæmt framanröktu 26.577.512 krónum.

Gagnáfrýjandi hefur fengið greiddar 4.937.912 krónur úr slysatryggingu launþega samkvæmt kjarasamningi, sem koma til lækkunar tjóni hans, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Að þessu gættu og samkvæmt þeirri skiptingu sakar, sem fram kemur í I. kafla að framan, verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 14.426.400 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest og verður aðaláfrýjandi jafnframt dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð. Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Hitaveita Suðurnesja hf., greiði gagnáfrýjanda, Bjarna E. Ísleifssyni, 14.426.400 krónur með 2% ársvöxtum frá 26. október 1998 til 27. apríl 2000 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Aðaláfrýjandi greiði 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. maí 2001

Þetta mál, sem þingfest var 22. nóvember 2000, var tekið til dóms 8. maí sl.  Stefnandi er Bjarni E. Ísleifsson, kt. 170472-5009, Lyngholti 7, Reykjanesbæ.  Stefndi er Hitaveita Suðurnesja, kt. 680475-0169, Brekkustíg 36, Njarðvík, en réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði í fyrsta lagi dæmdur til að greiða stefnanda vegna varanlegra örorku og miska, aðallega 48.601.448 krónur, til vara 32.988.770 krónur, til þrautavara 26.384.912 krónur og til þrautaþrautavara 20.527.899, með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 26. október 1998 til 27. mars 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim tíma til greiðsludags eða lægri fjárhæð að mati dómsins.

Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða þjáningabætur að fjárhæð 192.600 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 26. október 1998 til 27. mars 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. 

Í þriðja lagi krefst stefnandi málskostnaðar í öllum tilfellum samkvæmt málskostnaðarreikningi og að virðisaukaskattur leggist á málskostnað.

Til frádráttar þessum kröfum komi eftirtaldar innborganir inn á tjónið: 525.100 krónur sem greiddar voru í desember 1999, 4.112.812 sem greiddar voru 20. júlí 2000 og 300.000 krónur sem greiddar voru 9. maí 2000.  Þá kveðst stefnandi hafa fengið greitt 1.181.001 frá Tryggingastofnun ríkisins.

Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.  Til vara krefst stefndi þess að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir heldur ekki kröfur í málinu.

I.

Málavextir.

Stefnandi varð fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda þann 26. október 1998.  Hann var þá 26 ára að aldri og starfaði sem vélvirki hjá Hitaveitu Suðurnesja.  Hann útskrifaðist vorið 1998 frá Vélskóla Íslands með 4. stig vélstjóranáms og réðst til starfa hjá stefnda þann 15. júní 1998.  Hinn 15. október 1998 gerði hann náms­samning við stefnda um starfsnám í vélvirkjun fyrir tímabilið 15. júní 1998 til 14. janúar 2000 til að ljúka sveinstíma í tengslum við öflun sveinsréttinda sem vélfræðingur.  Starfaði stefnandi hjá viðhaldsdeild stefnda að hvers kyns viðhaldsverkefnum, þ.á.m. töluvert mikið við kæliviftur. 

Stefnandi slasaðist með þeim hætti að hann fór með vinstri fót sinn fyrir viftuspaða í kæliviftu 5 við vél 10 á þaki orkuvers IV er stefnandi steig niður í viftuhringinn til að bæta olíu á gírinn.  Tók fót stefnanda næstum af og þurfti að aflima hann neðan hnés. Að mati læknis hlaut hann 50% varanlega örorku og 40% varanlegan miska af völdum slyssins.

Alls eru 36 viftur staðsettar í loftkælivirki í um 7 metra hæð frá jörðu og þarf að fara upp hringstiga til að komast upp á loftkælivirkið. Hver vifta er um 4 metrar í þvermál og er staðsett í hringlaga gryfjum með upphækkuðum kanti. Viftuspaðarnir liggja ofan á mótornum og eru spaðarnir í mittishæð þegar staðið er ofan í gryfjunni.  Stefnandi hafði m.a. þann starfa að fylla olíu á viftugíra og taka niður viftugíra til viðgerðar.  Starfaði stefnandi við viðhald á viftunum frá byrjun starfs síns hjá stefnda og þar til slysið varð.

Tildrög slysins voru þau að vakthafandi vélstjóri, Bjarni Jónsson, kom á skrifstofu viðhaldsstjóra stefnda, Hreins Halldórssonar, og tilkynnti að viðvörunar­búnaður fyrir í viftu 5 fyrir gastúrbínu 7 gæfi merki um of lága olíuhæð á viftugír og óskaði eftir að bætt yrði á gírinn.  Stefnandi var staddur inni á skrifstofu að ræða við Hrein um næsta verkefni, sem honum hafði verið úthlutað, en gat ekki hafist fyrr en síðar um daginn.  Hreinn bað stefnanda að sinna þessu og bæta olíu á gírinn í vél 7 viftu 5.

Stefnandi segir að að jafnaði hafi tveir menn starfað saman við viðhald á viftunum, en þó hafi engin föst regla verið á því.  Stefnandi segir að vakthafandi vélstjóri í stjórnstöð fái boð um það í gegnum tölvukerfið að það vanti olíu á viftu.  Þá fari vélstjórinn út í orkuver IV til að aðgæta hvaða vifta það sé nákvæmlega sem olíu vanti á.  Vélstjóri kvitti fyrir boðunum með því að þrýsta á hnapp og síðan slökkvi hann á viftunni sem þurfi að setja olíu á.  Venjan sé sú að sá sem ætli að bæta olíu á gír, komi við í orkuveri IV á leiðinni að viftunum og fari yfir hvort ekki sé örugglega  búið að slökkva á þeirri viftu sem bæta eigi olíu á.  Jafnframt gangi viðkomandi úr skugga um að merking hafi verið sett á réttan rofa, en það sé gert með segulplötu sem sé sett á rofann.  Stefnandi kveðst hafa komið við í orkuveri IV í umrætt sinn til þess að kanna þessi atriði og hafi allt verið með felldu.  Búið hafi verið að slökkva á viftunni með rofanum utan á skápnum og merkja á viðeigandi hátt.  Stefnandi kveðst hafa opnað skápinn og slegið út aðalrofann til frekara öryggis.  Það sé ekki alltaf gert þegar um minniháttar viðhald sé að ræða eins og t.d. að bæta olíu á gír.  Hins vegar sé aðalrofi ávallt sleginn út þegar gera þurfi við vélar.  Stefnandi kveðst síðan hafa farið upp hringstigann upp að viftunum.  Þegar hann hafi verið kominn upp hafi hann veitt því athygli að þrjár viftur voru stopp.  Vifta 7-5, 9-9 og viftan sem stefnandi slasaði sig á, 10-5.  Stefnandi kveðst nú hafa sett olíu á viftu 7-5 og hafi það gengið að óskum.  Hafi hann farið niður í vifturýmið, en það sé nauðsynlegt til þess að bæta olíu á viftuna.  Síðan kveðst stefnandi hafa haldið að viftu 9-9 og tekið í viftuspaðana.  Þeir hafi verið fastir sem tákni venjulega að legur hafi skemmst.  Hann hafi því ekkert aðhafst frekar varðandi þá viftu.  Að lokum hafi hann gengið að viftu 10-5 sem hafi verið stopp og útslegin.  Hann kveðst hafa tekið í viftuspaðana og snúið þeim og þeir snúist þannig að ekkert hafi virst vera að.  Hann hafi séð að mæliglasið sýndi að olía hafi verið komin að viðvörunarmörkum og komið að því að hún gæfi viðvörunarboð um olíuleysi.  Hann hafi því ákveðið að bæta einnig olíu á þessa viftu.  Hann hafi vitað að allar vifturnar væru ræstar handvirkt.  Því hafi hann talið öruggt að hún færi ekki í gang.  Stefnandi segist hafa tekið í brúnina á hringnum um viftuna og síðan stigið með vinstri fót inn fyrir hringinn niður í viftuna.  Um leið hafi viftan farið af stað.  Hann hafi fengið mikið högg á fótinn og misst við það jafnvægið og lent flatur með líkamann fyrir utan hringinn en fótinn fyrir innan.  Viftuspaðarnir hafi skollið á fót hans.  Honum hafi tekist einhvern veginn að komast frá viftunni og séð að fóturinn hékk við hann á sinum. Hann hafi enga tilfinningu haft í fætinum.  Honum hafi síðan tekist að hoppa eða draga sig fram að brúninni á viftuvirkinu og tekist að kalla til manna sem voru að vinna þar fyrir neðan.

Stefnandi sagði að hann hafi haldið að vifturnar gætu ekki farið í gang nema  handvirt.  Síðar hafi komið í ljós að þessi eina vifta hafi verið stillt á sjálfvirka endurgangsetningu. 

Vinnueftirlit ríkisins var kvatt á staðinn samdægurs.  Segir í skýrslu þess m.a.: „Athugun á tækjum og búnaði.  Til að ræsa viftu getur þurft að slá inn höfuðrofa (taka hengilás af ef hann er á), einnig öryggisrofa, ræsirofa og hugsanlega stilla valrofa þar sem velja má A=tölvustýrð ræsing 0= slökkt M= handvirk ræsing.  Slysdaginn voru vélar stöðvaðar um kl. 10 um morguninn vegna kælivatnsbilunar og ræstar aftur um kl. 13.  Á tímabilinu 14.08-14.47 má sjá samkvæmt tölvuútskrift að vifta 5 við vél 10 er sífellt að slá út og gangsetjast.  Gengur 10-30 sek með nokkra mínútu millibili.  Slysið er tilkynnti til lögreglu kl. 14.46.  Við skoðun daginn eftir að viðstöddum fulltrúum rannsóknarlögreglu og vinnueftirlits sýndi búnaður álíka bilunareinkenni.  Samkvæmt athugun 27.10 var vifta komin á fullan snúning (245 hr./mín.) um það bil 2 sek eftir gagnsetningu og stöðvaðist 1 mín.  Og 20 sek eftir að slökkt hafði verið. Fyrir hverja viftu er yfirálagsvörn sem hægt er að stilla á handvirka eða sjálfvirka endurgangsetningu og var yfirálagsvörnin fyrir viftu 5 vél 10 stillt á sjálfvirka endurgangsetningu en varnir fyrir aðra viftur sem skoðaðar voru stilltar handvirkt endurgangsetningu.  Ekki er hægt að ræsa viftur úr stjórnstöð sem staðsett er í þjónustuhúsi, en staðsetning stjórnbúnaðar fyrir viftur er í orkuveri 4 (Ormathúsi) en engin rofabúnaður er í loftkælivirki.

Öryggishjálmur og öryggiskór voru við slysstaðinn þegar að var komið.

Orsakir slysins eru margþættar.

1.      Unnið var við viftu sem ekki hafði veri slegið út.

2.      Bilun orsakaði útslátt í yfirálagsrofa fyrir viftumótor.

3.      Yfirálagsrofi stilltur á sjálfvirka gangsetningu og af leiddi

         ótímabær gangsetning viftu þegar unnið var að því að bæta

         olíu á viftugír.

4.      Slysahætta óljós starfsmönnum.

5.      Verklagsreglur, vinnureglur og öryggisráðstafanir ófullnægjandi

         miðað við slysahættu sem leiðir til rangra starfsaðferða.

6.      Starfsmaður var einn við verk sem venja var að tveir menn færu í.“

Fram  hefur komið í málinu að vifturnar voru viðhaldsfrekar.  Var farið vikulega í eftirlit og kannað hvort nokkuð óeðlileg hljóð væri í viftunum.  Hjá stefnda var til verklýsing varðandi þessa vinnu.  Segir þar: „Fara upp á loftkæla og kanna hvort nokkur óeðlileg óhljóð séu í viftum.  Athuga olíuhæð á gírum.  Bæta á eftir þörfum.“  Í varúðartexta segir: „Taka út höfuðrofa fyrir viðkomandi viftur, fram­kvæma í samráði við vakthafandi vélstjóra.“  Aðilar eru sammála um að þessi varúðartexti eigi einnig við þegar  einungis er verið að skipta um olíu.  Þá eru aðilar sammála um að viðhaldsmaður hafi oft athugað með vifturnar ef hann átti leið upp á viftuvirkið. Hafi hann þannig lokið hinu vikulegu eftirliti ef svo bar undir. 

Fram hefur komið í málinu að á árunum 1997 til 1998 hafi verið skipt um  hinn svkallaða yfirálagsvarnarrofa í þeim raforkubúnaði sem liggur að viftunum og er staðsettur í stjórnstöð.  Eftir breytingu var straumrásin mynduð af þremur rofum í eftirfarandi röð: Höfuðrofi Q7, segulrofi K7 og yfirálagsvörn F7A.  Hlutverk höfuðrofa Q7 er að rjúfa straumrásina þannig að ekki sé unnt að gangsetja rafmótor viftudrifsins og er eins og nafnið bendir til höfuðrofi á straumrásinni.  Höfuðrofi Q7 er skilgreindur sem handvirkur rofi og er ekki unnt að kveikja með honum nema með handafli.  Segulrofi K7 tengir og rýfur straumrásina eftir stýrimerki frá ræsirofum viftudrifsins.  Þessi rofi er skilgreindur sem stýranlegur rofi.  Yfirálagsvarnarrofi F7A er þriðji og síðasti rofinn í straumrásinni.  Þessi rofi hefur það hlutverk að verja rafmótorinn fyrir of miklum rafstraumi sem gæti skaðað hann.  Endursetning á þessum rofa getur verið á tvennan hátt, þ.e. handvirkt eða sjálfvirkt.  Þessi rofi er skilgreindur sem varnarbúnaður.

Í framburði vitna fyrir dómi kom fram að enginn vissi að yfirálagsvarnarrofi fyrir þessa einu viftu hefði verið stilltur á sjálfvirka endurgangsetningu.  Hafði verið skipt um þennan búnað u.þ.b. ári áður en stefnandi hóf störf hjá stefnda.

Eftir slysið hefur öryggisreglum og verklagi m.a. við olíufyllingar verið nokkuð breytt að kröfu Vinnueftirlits og í öryggisskyni.  Stefndi hefur breytt stillingu yfirálagsvarnarrofa úr sjálfvirkri stillingu í handvirka stillingu og fært olíuáfyllingu út fyrir vifturammann. Þá hefur sérstökum viftulás verið komið fyrir við viftuspaða.  Er lásinn settur á þegar farið er niður í vifturýmið. 

Í læknisvottorði Yngva Ólafssonar læknis, kemur m.a. fram að aflimum hafi farið fram 26. nóvember 1998. Vegna óþæginda frá stúfendanum hafi stefnandi gengist undir aðgerð í lok mars en auk þess hafi hann haft viss álagsbundin óþægindi, bæði frá baki og vinstri mjöðm.  Stefnandi hafi legið á sjúkrahúsi tímabilið 26. október 1998 til 3. desember 1998 og 29. mars 1999 til 2. apríl 1999.  Hann hafi gengist undir þrjár meiriháttar aðgerðir með svæfingum auk nokkurra umbúðaskipta í kjölfar fyrstu aðgerðarinnar. 

Í örorkumati Jónasar Hallgrímssonar læknis, kemur m.a. fram að stefnandi hafi orðið fyrir alvarlegum áverkum á vinstri fótlegg svo þurft hafi að nema hann á brott nokkru neðan við hné.  Stefnandi hafi draugverki í stúfnum og auk þess sæki á hann þreytuverkir í vinstri mjöðm og mjóhrygg sem tengist ójöfnu álagi á ganglimi.  Reiknað sé með því að núverandi einkenni frá baki og mjöðm muni haldast og hugsanlega gætu þau aukist í framtíðinni.  Stefnandi hafi lokið löngu námi til þess að öðlast starfsréttindi sem vélfræðingur og muni þau ekki nýtast honum á sjó og að takmörkuðu leyti í landi, en ekki í starfi vélstjóra eða vélfræðings. 

Læknirinn metur tímabundið atvinnutjón 100% frá slysdegi til loka janúar 1999, eða í þrjá mánuði.  Síðan sé tímabundið atvinnutjón 50% í aðra þrjá mánuði.  Stefnandi teljist hafi verið veikur í skilningi skaðabótalaga frá slysdegi 26. október 1998 til næstsíðustu endurkomu á Sjúkrahús Reykjavíkur 10. maí 1999.  Varanlegur miski stefnanda sé 40% á grundvelli aflimunar á vinstri fótlegg neðan hnés, draugaverkja í stúfi og álagsverkja í mjóbaki og vinstri mjöðm.  Stefnandi geti ekki starfað á sjó framar sem hann hafi menntað sig til.  Þá geti hann ekki heldur starfað sem vélstjóri í landi.  Fyrir honum virðist aðeins liggja að starfa á skrifstofu þar sem menntun hans geti eitthvað nýst.  Tekjuhæfi stefnanda hafi því skerst gríðarlega við slysið en tekjur vélfræðinga á sjó séu að minnsta kosti tvöfalt hærri en hæstu tekjur sem hann geti vonast til að afla sér í landi eins og í starfi sem hann nú gegni.  Varanleg örorka vegna slyssins sé því talin hærri að hundraðshlutum en varanlegur miski og sé metinn 50%.

 

Auk stefnanda komu fyrir dóminn Þórður Andrésson, stöðvarstjóri og öryggisvörður hjá stefnda, vélstjóri að mennt, Hreinn Halldórsson, vélstjóri og viðhaldsstjóri hjá stefnda, Haukur Kristjánsson, byggingatæknifræðingur og starfsmaður Vinnueftirlits ríkisins og Sigurpáll Daníel Ásgeirsson, verkfræðingur og fyrrverandi starfsmaður stefnda.

II.

Sundurliðun kröfugerðar stefnanda.

Varanleg örorka og miski.

Ágreiningslaust er hverjar tekjur stefnanda voru síðustu þrjú ár fyrir slysið og hvernig vinnu og námi hans var háttað hjá stefnda.  Haustið 1995 og fram á vor 1996 var stefnandi í Vélskóla Íslands.  Sumarið 1996 var hann til sjós alls 96 lögskráningardaga og fór aftur í skólann um haustið.  Sumarið 1997 vann stefnandi á togara alls 35 lögskráningardaga uns hann fór aftur í skóla um haustið og fram á vor 1998.  Þann 15. júní 1998 hóf hann störf hjá stefnda.  Stefnandi kveðst hafa verið meira og minna á sjó frá 17 ára aldri og hafi hugur hans staðið til þess að stunda sjómennsku áfram. 

Stefnandi hafnar því alfarið að miðað sé við laun síðustu 36 mánuði og að launakjör hans hjá stefnda verði lögð til grundvallar útreikningi á tjóni hans.  Með vísan 2. málsliðar 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 krefst hann þess að við mat á framtíðartekjum hans séu launakjör vélfræðinga lögð til grundvallar, aðallega til sjós en til vara í landi.  Stefnandi vísar til þess að hann hafi ekki lokið bóklegu námi í vélfræði er slysið varð.  Þá hafi hann átt eftir 15 mánuði af starfssamningi til að ná fullum réttindum vélfræðings.  Vilji hans, menntun og starfsþjálfum hafi markvisst stefnt að því að starfa sem vélstjóri til sjós.

Stefnandi hefur aflað gagna um laun vélstjóra til sjós og í landi.  Hefur verið lagt fram í málinu bréf Vélstjórafélags Íslands dagsett 5. júní 2000 og könnun Félagsvísindastofnunar frá því í desember 1999 um launakjör vélstjóra í landi.  Þá liggja frammi í málinu upplýsingar um launakjör vélstjóra til sjós sem birtust í Útveginum í janúar 1998.  Í stefnu sundurliðar stefnandi dómkröfur sínar þannig: „Aðallega sbr. lið 1 í dómkröfum að miðað verði við meðallaun yfirvélstjóra til sjós.  Í könnun LÍU, í blaðinu Útveginum kemur fram að árslaun séu kr. 8.346.003,-.  Í kjarasamningum vélstjóra hækkaði hlutur yfirvélstjóra í 1,6 hlut en skv. útreikningi Jóns Erl. Þorlákssonar, tryggingastærðfræðings, sbr. dskj. nr. 18. þýðir það hækkun á árslaunum frá kr. 8.346.003 í kr. 8.902.400,-.  Miðað er við laun yfirvélstjóra þar sem stefnandi var að ljúka vélfræðinámi með full réttindi og naut lögvarins forgangs til vélstjórastarfans til sjós.  Erfitt er að fá mann með full réttindi til starfa til sjós og því ljóst að stefnandi hefur gengið að yfirvélstjórastarfinu.  Til vara (innan aðalkröfunnar) er krafist að miðað sé við laun 1. eða 2. vélstjóra til sjós, fyrstu þrjú árin.

Bætt er við 6% vegna tapaðra lífeyrisréttinda eða kr. 534.144,-.  Samtals er viðmiðunartekjur kr. 9.436.544,-.  Miðað við að varanleg örorka sé 50% og miski 40% reiknast tjón stefnanda samkvæmt útreikningum Jóns E. Þorlákssonar á dskj. nr. 18 sem hér segir:

Varanleg örorka 50%

kr. 46.710.893,-

Miskabætur 40% með vísitölu

kr.  1.890.555,-

Samtals

kr. 48.601.448,-

Til vara að miðað sé við launakjör vélfræðinga almennt hvort sem þeir starfa í landi eða til sjós.  Tekið er meðaltal af samanlögðum launum yfirvélfræðings til sjós kr. 741.866,- á mánuði og laun í landi skv. könnun Félagsvísindadeildar kr. 306.000,- = 1.047.866,- deilt með tveimur eða kr. 523.933,-.

Árslaun skv. því eru kr. 6.287.166,- auk 6% lífeyristillags kr. 377.232,- eða samtals kr. 6.664.398,-.  Árlegt tap kr. 3.332.199,- x margf.st. 10 kr. 33.321.990,-.  Þegar tillit hefur verið tekið til margföldunarst. skv. 9. gr. alls kr. 32.988.770,-.

Til þrautavara að miðað sé við sömu forsendur og aðalkrafan er reist á, en hámarkfjárhæð árslauna sem miðað er við í 7. gr. skbl. in fine kr. 4.500.000,- sem með vísitöluhækkun á slysdegi er kr. 4.948.355,- verði lögð til grundvallar útreikningi varanlegrar örorku.

Árlegt tap kr. 2.474.177 marg. með höfuðstólsstuðli 10 =

kr. 24.741.775,-

Stuðull vegna aldurs skv. 9. gr. skbl. 99

kr. 24.494.357,-

Miskabætur 40%

kr.   1.890.555,-

Samtals 

kr. 26.384.912,-

 Til þrautaþrautavara að miðað við meðallaun vélfræðinga er starfa í landi skv. fyrirliggjandi könnun félagsvísindadeildar HÍ kr. 296.000,- á mánuði eða kr. 3.552.000,- í árslaun auk 6% lífeyristillegs kr. 213.120,- eða samtals kr. 3.765.120,-.

Árlegt tap er þá kr. 1.882.560,- margf. með 10 eða

kr. 18.825.600,-

Stuðull skv. 9. gr. skbl. er 99 og heildarfjárhæð örorku

kr. 18.637.344,-

Miskabætur 40%

kr.  1.890.555,-

Samtals

kr. 20.527.899,-

Þjáningabætur.

Fyrirliggjandi matsgerð Jónasar Hallgrímssonar miðar við að stefnandi hafi verið rúmliggjandi í 43 daga og veikur frá slysdegi til 10. maí 1999.  Um þetta er ekki ágreiningur og miðað við þessar forsendur eru þjáningabætur sem hér segir:

Rúmliggjandi 43 dagar.  Án vísitölu kr. 55.900,-. Með vísitölu

kr.   66.051,-

Á fótum. 153 dagar. Án vísitölu kr. 107.100,-. Með vísitölu      

kr. 126.549,-

Samtals með vísitölu    

kr. 192.600,-“

 

 

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi telur að hann hafi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri fébótaábyrgð á skv. almennum reglum skaðabótaréttarins utan samninga, sbr. lög nr. 50/1993 með síðari breytingum.  Stefnandi byggir á því að orsakir slyssins megi alfarið rekja til hættulegra aðstæðna á vinnustað, ófullnægjandi starfsþjálfunar, ófullnægjandi öryggisbúnaðar og til þess að slysahætta hafi ekki verið starfsmönnum ljós.  Enn­fremur byggir stefnandi á því að verklagsreglur og fyrirliggjandi verkbeiðnir hafi verið ófullnægjandi, óforsvaranlegar og óskýrar.  Vinnustaðurinn hafi í raun verið stórhættulegur en stefnandi óreyndur starfsmaður á námssamningi.  Af þessum sökum verði að gera strangar kröfur til stefnda um öryggi og fullnægjandi verklag.  Stefnandi vísar til athugasemda Vinnueftirlits ríkisins um öryggisaðstæður á slysstað.  Fram komi hjá vinnueftirliti að sérstök slysahætta hafi verið fólgin í staðsetningu olíuáfyllingar og þeirri staðreynd að endurgangsetning hafi verið sjálfvirk.  Í kjölfar slyssins hafi verið gerðar tiltölulega einfaldar og kostnaðarlitlar breytingar á verklagi sem komið hefðu í veg fyrir slysið.  Því verði að telja óforsvaranlegt að senda starfsmann ofan í viftu til að fylla olíu á í ljósi þess að auðvelt hafi verið að færa áfyllingarbúnaðinn út fyrir viftuhringinn eins og gert sé í dag.

Verkbeiðni og varúðareglur hafi verið óskýrar og ófullnægjandi fyrir slysið og engin sérstök kennsla farið fram þar að lútandi.  Hins vegar hafi verið bætt úr þessu eftir slysið og gefnar út sérstakar verklagsreglur.  Byggir stefnandi á því að stefnda hafi verið í lófa lagið og skylt að hafa þennan hátt á frá upphafi.  Stefnandi byggir á því að yfirálagsvörn hafi vegna mistaka verið stillt á sjálfvirka endurgangsetningu.  Slíkt sé ólöglegt og andstætt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. reglur nr. 580/1995 um vélar og tæknilegan búnað, einkum grein 1.2.3. varðandi gangsetningu.  Ennfremur vísar stefnandi til orðsendingar Rafmagns­eftirlits ríkisins nr. 2/1992 um raflagnir á sprengihættustöðum, sbr. lið 8, 7.  Telur stefnandi sprengihættu stafa af mikilli notkun Ísopentans hjá stefnda. 

Stefndi beri auk þess ábyrgð á því að allur útbúnaður sé í samræmi við lög og reglugerðir.  Hafi stefnandi mátt treysta því að viftan væri útslegin og gæti ekki farið sjálfvirkt í gang. 

Á árunum 1997 og 1998 hafi verið skipt út öllum yfirstraumsrofum fyrir Ormatvélar hjá stefnda.  Starfsmenn stefnda hafi séð um að skipta út rofa fyrir einni vél en rafverktaki verið fenginn til að skipta um aðra rofa.  Engin úttekt hafi verið gerð á rafkerfinu í kjölfar þessarar umfangsmiklu framkvæmda, en samkvæmt reglugerð nr. 264/1971, grein 1.2.1. um raforkuvirki sbr. einnig reglugerð nr. 285/1998, sé eiganda eða umráðamanni raforkuvirkja skylt að sækja um leyfi til framkvæmda, skila inn verklýsingu og láta taka verkið út.  Stefndi hafi ekki gætt að þessari skyldu.  Úttekt hefði leitt í ljós ranga stillingu á hinum sjálfvirka rofa og komið í veg fyrir slysið.  Stefnandi hafnar því alfarið að hann eigi nokkurn þátt í slysinu.  Hann hafi hagað vinnubrögðum og verklagi sínu í samræmi við fyrir­liggjandi fyrirmæli og verklag sem tíðkast hafi á vinnustaðnum.  Líta beri til þess að stefnandi hafi verið á námssamningi hjá stefnda og nýlega hafið störf.  Hann hafi því skort bæði þekkingu og reynslu.  Það hafi verið ámælisvert að senda stefnanda til verks án þess að hann hafi haft reyndari mann sér við hlið.  Starfið hafi verulega hættu í för með sér  og af þeim sökum beri að gera ríkari kröfur á hendur vinnuveitanda að því er varðar öryggisráðstafanir, þjálfun og varúðarreglur.  Stefnandi vísar sérstaklega til laga nr. 46/1980 hér að lútandi. 

Ljóst sé að stefnandi muni aldrei geta unnið sem vélstjóri til sjós og möguleiki hans til þeirra starfa í landi séu mjög takmarkaðir.  Menntun hans og starfsþjálfun síðustu 9 ár munu því nýtast að litlu leyti.  Í raun hafi stefnandi snúið sér að öðrum störfum en hann starfi nú við sölu á hugbúnaði.  Hann hafi verið námsmaður er slysið varð.  Full starfsréttindi hafi verið innan seilingar því aðeins hafi 15 mánuðir verið eftir af námssamningi þar til stefnandi hefði öðlast full og lögvernduð starfsréttindi vélstjóra til sjós.  Því byggir stefnandi á að 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi ekki við í málinu.

Stefnandi byggir á því að takmörkun 7. gr. in fine og bótafjárhæð sé andstæð lögbundnum rétti stefnanda til fullra bóta og fari gegn grundvallarreglum Stjórnarskrár lýðveldisins og Mannréttindasáttmála Evrópu.  Allt frá landnámi hafi verið slegin skjaldborg um mannhelgi og friðhelgi eignaréttarins á Íslandi.  Ákvæði Grágásar og annarra fornra lögbóka tryggi þennan rétt og hafi hann á seinni tímum verið áréttaður í ýmsum mannréttindasáttmálum sem Ísland hafi gerst aðili að og lögtekið.  Byggir stefnandi á því að 7. gr. skaðabótalaga fari gegn jafnræðisreglu 65. gr. og eignaréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994.

Að öðru leyti vísar stefnandi sérstaklega til 3., 4., 5. og 16. gr. laga nr. 50/1993, laga nr. 91/1991, laga nr. 50/1998 og laga nr. 24/1987.

IV.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ósannað sé að stefndi eða starfsmenn hans hafi valdið slysi stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti.  Stefnandi hafi orðið fyrir slysinu vegna stórkostlegs gáleysis.  Hann eigi því að bera allt tjón sitt sjálfur.  Stefnandi hafi látið undir höfuð leggjast að slá út höfuðrofann fyrir viftu 5-10, eða kanna hvort það hefði verið gert, áður en hann hafi stigið niður í viftuhringinn til að setja olíu á gírinn.  Með þessari vangæslu sinni hafi stefnandi brotið meginöryggisregluna við viftugírana og sýnt með því stórkostlegt gáleysi.  Eina tryggingin fyrir því að ekki sé straumur á viftunni og að viftan sé hættulaus felist í því að höfuðrofinn fyrir viftuna sé sleginn út.  Stefnandi hafi sér ekkert til afsökunar þar sem hann hafi þekkt öryggisreglur varðandi þetta atriði og sjálfur verið vanur að vinna þessi störf.  Öryggisreglur hafi komið fram í verkbeiðnum til stefnanda en auk þess hafi nýjum starfsmönnum verið kynntar öryggisreglur.  Stefnandi hafi verið orðinn 26 ára gamall og með vélstjórapróf er slysið varð.  Vegna starfsreynslu sinnar og menntunar hafi honum því mátt vera ljóst að slysahætta gæti fylgt því að vinna við vifturnar og því mikilvægt að fara eftir öryggisreglum, sérstaklega að rjúfa höfuð­rofann áður en farið væri niður í viftuhringinn.  Stefnandi hafi sýnt af sér stór­kostlegt gáleysi með því að gæta ekki að þessum öryggisreglum.  Þessi öryggis­regla komi sérstaklega fram á verkbeiðni og hefði ekkert slys orðið ef stefnandi hefði virt öryggisregluna.  Stefndi telur því ljóst að stilling yfirálagsrofa hafi ekki verið slysavaldurinn heldur brot stefnanda á öryggisreglum. 

Ósannað sé að rafkerfi og öryggisbúnaður við viftuna hafi ekki uppfyllt gildandi reglur í því efni og að rekja megi slysið til þess að lögboðnum úttektum á rafkerfum hafi ekki verið sinnt.  Allur búnaður hafi verið löglegur en hins vegar megi bæta öryggisbúnað og auka við öryggisráðstafanir í það óendanlega.  Það sé eðli alls tækni og vélbúnaðar, þ.m.t. rafbúnaðar, að geta bilað og geta eftir atvikum orðið hættuskapandi ef menn umgangist hann ekki samkvæmt réttum varúðarreglum.  Viðhaldsmenn verði ávallt að reikna með slíku og fylgja öryggisreglum í hvívetna.  Þeir geti ekki kennt öðrum um ef þeir breyti út af því.  Stefndi mótmælir því að verkbeiðnir og varúðarreglur hafi verið óskýrar og óforsvaranlegar er slysið varð.  Þvert á móti hafi þær verið skýrar og einfaldar og teknar sérstaklega fram á verkbeiðnum til stefnanda.  Varúðarreglan hafi verið að slá út höfuðrofa fyrir við­komandi viftur og hafa samráð við vakthafandi vélstjóra um framkæmd verks.  Þetta hafi verið fullnægjandi til að koma í veg fyrir slys. 

Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallist er krafist sakarskiptingar á grundvelli eigin sakar stefnanda.  Stefnandi hafi lokið 4. stigi vélstjóra frá Vélskóla Íslands og hafi verið á samningi hjá stefnda til öflunar sveinsréttinda sem vélfræðingur.  Hann hafi starfað hjá stefnda sem vélfræðingur þegar hann hafi slasast.  Beri því við ákvörðun og útreikning örorkubóta, skv. 5. til 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að ákveða árslaunaviðmiðun á grundvelli launa stefnanda sjálfs hjá stefnda fyrir slysið eða í öllu falli að miða við byrjunarlaun vélfræðinga í landi, sbr. athugasemdir við 7. gr. skaðabótalaga í greinargerðinni með frumvarpinu.  Skaðabótalögin byggi á því að bótaákvörðun skuli miða við stöðu tjónþola á slysdegi en ekki á ímyndaðri stöðu hans í óvissri framtíð eða á framtíðarvæntingum hans.  Engin skilyrði séu til þess að ákvarða örorkubætur til stefnanda miðað við meðallaun yfirvélstjóra eða annarra vélstjóra til sjós eins og stefnandi krefjist aðallega.  Starfsmöguleikar á sjó geti verið breytingum háð á þessum tímum kvótakerfis og fækkunar skipa. 

Að sama skapi sé ekki unnt að fallast á varakröfu stefnanda um að miða við meðallaun yfirvélstjóra á sjó og í landi.  Hið rétt sé að miða við launatekjur stefnanda sjálfs fyrir slysið eða byrjunarlaun vélfræðinga í landi.  Í hæsta lagi geti komið til álita að miða við meðallaun vélfræðinga í landi svo sem gert sé í þrautaþrautavarakröfu stefnanda. 

Ekki sé heldur nein skilyrði til þess að miða við hámarksfjárhæðir launa, sbr. 7. gr. skaðabótalaga in fine, 4.500.000 krónur, þar sem rétt ákvarðaðar viðmiðunar­tekjur séu langt undir þeirri fjárhæð.

Til frádráttar örorkubótum, sbr. 5. gr. skaðabótalaga, séu svo bætur úr atvinnu­­slysatryggingu hjá réttargæslustefnda.

Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta frá fyrri tíma en dómsuppsögu­degi. 

Stefndi telur fullyrðingu stefnanda ranga og órökstudda um að takmörkun bótafjárhæðar skv. 7. gr. skaðabótalaga sé andstæð stjórnarskrá og Mannréttinda­sáttmála Evrópu.  Hæstiréttur Íslands hafi þegar dæmt um þetta atriði, sbr. Hrd. 1998, bls. 2002, að það sé hlutverk löggjafans að setja almennar reglur og forsendur bóta- ákvarðana og að ákvæði 5. til 7. gr. skaðabótalaga styðjist við málefnaleg sjónarmið og feli ekki í sér mismunun. 

V.

Niðurstaða.

Stefnandi var 26 ára er hann slasaðist við vinnu sína 26. október 1998 í orkuveri stefnda við Svartsengi.  Hann útskrifaðist vorið 1998 frá Vélskóla Íslands með 4. stig vélskólanáms og réðist til starfa hjá stefnda 15. júní 1998 á námssamningi til þess að ljúka sveinstíma í tengslum við öflun sveinsréttinda sem vélfræðingur.  Stefnandi hafði því starfað í rúma fjóra mánuði hjá stefnda er slysið varð.  Hann starfaði að hvers kyns viðhaldsverkum hjá viðhaldsdeild stefnda og töluvert mikið við kæliviftur.  Hafði hann fengið þjálfun við að taka niður viftugíra til viðgerðar og að fylla olíu á viftugírana.

Dómurinn fór á vettvang og skoðaði aðstæður. Við orkuverið er svokallað loftkælivirki.  Stendur það sérstætt á súlum í 7 metra hæð frá jörðu.  Þar uppi eru 36 kæliviftur sem eru staðsettar í hringlaga gryfjum með upphækkuðum köntum.  Hver gryfja er um 4 metrar í þvermál.  Viftuspaðarnir hvíla ofan á viftumótorum og eru viftuspaðarnir óvarðir.  Til þess að fylla olíu á gírinn þurfti að fara ofan í gryfjuna til þess að komast að mótornum.  Viftuspaðarnir nema þá við mittishæð.  Eftir slysið var þessu breytt þannig að olíuleiðslur voru færðar út fyrir vifturammann og fer áfylling þar fram án þess að viðhaldsmaður þurfi að fara ofan í vifturýmið.

Þegar slysið varð voru atvik með þeim hætti að viðvörum barst í tölvu stjórnstöðvar um að það vantaði olíu á viftu númer 5-7.  Þegar það gerðist var starfsvenja að vakthafandi vélstjóri í stjórnstöð færi út í orkuver IV til að aðgæta hvaða vifta hefði sent boð. Vélstjóri slökkti síðan á viftunni með því að slá út höfuðrofa og setti upp viðvörunarskilti á rofann um að ekki mætti ræsa viðkomandi viftu.  Síðan kallaði vakthafandi vélstjóri á viðhaldsmann sem fór einnig út í orkuver IV til þess að gangu úr skugga um að ofangreindum öryggisatriðum hefði verið framfylgt áður en hann fór upp í loftkælivirkið.  Þessum öryggisreglum var fylgt þegar stefnandi varð fyrir slysinu. Vakthafandi vélstjóri sló út höfuðrofa fyrir viftu 5-7, stefndi gekk úr skugga um að svo hefði verið gert, fór síðan upp á loftkælivirkið og bætti bætti olíu á gír viftu 5-7.  Engin verkbeiðni hafði borist vegna viftu 5-10.  Stefnandi sá hins vegar að hún var stopp og að olíu vantaði á drif hennar.  Hann taldi sér óhætt að fara niður í vifturýmið þar sem hann var þess fullviss að engin vifta færi í gang nema hún væri gangsett með handafli. Hann vissi að vélstjóri mundi ekki gagnsetja viftuna á meðan einhver væri uppi í loftkælivirkinu, enda var það öryggisregla. Stefnandi vissi aftur á móti ekki að þessi eina vifta var stillt á sjálfvirka endurgangsetningu. Fyrir dómi töldu starfsmenn stefnda helst að viftan hefði verið þannig stillt frá því að skipt var um svokallaðan yfirálagsvarnarrofa, u.þ.b. einu ári áður en slysið gerðist.  Þessi rofi er staðsettur neðst á rafmagnstöflu, nánast niður við gólf.  Er unnt að stilla hann á sjálfvirka- eða handstillingu.  Starfsmenn stefnda voru sammála um að illmögulegt væri að sjá hvernig rofinn væri stilltur, enda vissi enginn um að þessi eina vifta, sem stefnandi slasaði sig á, var stillt á sjálfvirka gangsetningu.

Dómurinn telur höfuðorsök slyssins að þessi eina kælivifta var stillt á sjálfvirka endurgangsetningu án þess að starfsmönnum væri um það kunnugt. Allar aðrar vifur voru stilltar á handstillingu og mátti stefnandi treysta því að svo væri einnig um viftu 5-10. Þessi stilling skapaði augljósa hættu fyrir viðhaldsmann og var í beinni andstöðu við gr. 1.2.3. í reglum nr. 580/1995 um vélar og tæknilegan búnað. Segir þar að vél megi aðeins vera hægt að setja í gang viljandi og með þar til gerðum stjórnbúnaði. Eina undantekningin er ef gangsetning vélar er eðlileg framvinda sjálfvirkrar hringrásar. Svo var ekki um loftkælivélarnar. Reglur þessar voru settar með stoð í 38. og 47. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.  Þá er einnig til þess að líta að loftkælivirkið var hættulegur vinnustaður á þessum  tíma. Viðhaldsmaður þurfti að fara ofan í viftugryfjuna til alls viðhalds. Þessi hönnun var gerð af stefnda og var breyting á upphaflegri hönnun en þá var gírmótorinn fyrir neðan gólf loftkælivirkisins. Fór þá allt viðhald og olíuskipti fram á vinnupöllum undir gólfinu án þess að viðhaldsmaður þyrfti að leggja sig í hættu með því að fara ofan í vifturýmið. Þessi breytta hönnun var hættuskapandi, sérstaklega þar sem enginn búnaður var uppi í loftkælivirkinu sem sýndi hvort straumur var á viðkomandi viftu. Auk þess var þessi breytta hönnun brot á a-lið 1.1.2. gr. reglugerðar nr. 580/1995 en þar segir að smíða skuli vélar þannig að unnt sé að halda þeim við án þess að stofna fólki í hættu.  Samkvæmt öllu framansögðu verður lögð full skaðabótaábyrgð á stefnda.

Aðalkrafa stefnanda er miðuð við meðallaun yfirvélstjóra til sjós, varakrafan við meðallaun vélfræðinga almennt til sjós og lands, þrautavarakrafan við sömu forsendur og aðalkrafa, en þó með þeim takmörkunum er 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 in fine tilgreinir og þrautaþrautavarakrafan er miðuð við meðallaun vélfræðings í landi samkvæmt könnun Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga er meginreglan, sú að árslaun til ákvörðunar bóta samkvæmt 6. gr. skulu teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almannaksárin fyrir þann dag er tjón varð.  Samkvæmt 2. gr. 7. gr. skal þó meta árslaun sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi.  Í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga segir m.a. um þetta atriði, að stundi tjónþoli nám þegar líkamstjón ber að höndum og þiggi laun í tengslum við það, verði venjulega við miða árslaun við tekjur sem tjónþoli muni hafa haft ef hann hefði verið nýbúinn að ljúka námi.  Dómurinn telur því rétt að taka þrautaþrautavarakröfu stefnanda til greina.  Krafan er sundurliðuð með eftirfarandi hætti í stefnu og hefur þeim útreikningi ekki verið mótmælt af hálfu stefnda: Mánaðarlaun 296.000 krónur, árslaun 3.552.000 krónur auk 6% lífeyristillags, 213.120 krónur, eða samtals 3.765.120 krónur.

Árlegt tap 1.882.560 x 10.

18.825.600,-

Stuðull 99 skv. 9. gr. skaðabótalaga, heildarfjáræð örorku

18.637.344,-

Miskabætur 40% 

1.890.555,-

Samtals

20.527.899,-

Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga.

192.600,-

Samtals

20.720.499,-

Bótaskylt tjón stefnanda er því 20.720.499 krónur. Skal stefndi greiða stefnanda þá fjárhæð að frádregnum 4.937.912 krónum sem stefnandi hefur fengið greiddar úr samningsbundinni launþegatryggingu.

Stefnandi krefst vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá slysdegi til 27. mars 2000 en þá lá örorkumat fyrir.  Dráttarvaxta er krafist frá þeim degi til greiðsludags.  Með 12. gr. laga nr. 37/1999 var 16. gr. skaðabótalaga breytt á þá leið að skaðabótavextir voru hækkaðir úr 2% í 4,5%.  Tóku þau lög gildi 1. maí 1999.  Samkvæmt 15. gr. laga nr. 37/1999 taka þau einungis til tjóns sem rakið verður til bótaskylts atviks eftir gildistöku þeirra.  Dómurinn telur hins vegar að þannig horfi ekki með vexti og standi rök til þess að allir tjónþolar sem hafa átt ógreiddar skaðabætur eftir 1. maí 1999 njóti vaxtahækkana frá og með þeim degi í samræmi við ákvæði 12. gr. laga nr. 37/1999.  Stefnandi staðreyndi tjón sitt með matsgerð 27. mars 2000.  Af gögnum málsins má ráða, sbr. bréf stefnanda til stefnda 14. júní 2000, að stefnda hafi verið kynnt örorkumatið þegar það lá fyrir.  Verður því fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda einum mánuði síðar, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, eða frá 27. apríl 2000 og til greiðsludags.

Niðurstaða málsins verður því sú að stefndi verður dæmdur til þess að greiða stefnanda 20.720.499 krónur með 2% vöxtum frá 26. október 1998 til 1. maí 1999, með 4,5% vöxtum frá þeim degi til 27. apríl 2000, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Paul Jóhannssyni og Þorsteini Jónssyni, véltæknirfræðingum.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Hitaveita Suðurnesja, greiði stefnanda, Bjarna E. Ísleifssyni, 20.720.499 krónur með 2% vöxtum frá 26. október 1998 til 1. maí 1999, með 4,5% vöxtum frá þeim degi til 27. apríl 2000, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og 1.200.000  krónur í málskostnað.