Hæstiréttur íslands
Mál nr. 394/2013
Lykilorð
- Kjarasamningur
- Ráðningarsamningur
- Opinberir starfsmenn
|
|
Fimmtudaginn 16. janúar 2013. |
|
Nr. 394/2013. |
Linda Ósk Sigurðardóttir (Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kjarasamningur. Ráðningarsamningur. Opinberir starfsmenn.
L höfðaði mál gegn R og deildu aðilar um lögmæti uppsagnar R á hluta af yfirvinnugreiðslum til L sem greiddar voru þeim starfsmönnum leikskóla R sem skylt var að matast með nemendum. Talið var að greiðslan hefði falið í sér endurgjald fyrir vinnu umfram þau lágmarkskjör sem þágildandi kjarasamningur kvað á um og að ákvæði kjarasamningsins um matartíma takmörkuðu ekki heimild R til að segja þessum greiðslum upp að hluta eða í heild. Ákvörðun R var tekin vegna fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og þótti það lögmætt og réttmætt sjónarmið við töku ákvarðana um uppsögn á ráðningarkjörum starfsmanna sem væru umfram kjarasamningsbundin starfskjör. Ekki lá fyrir að ákvörðunin hefði verið tekin á röngum forsendum. Í ljósi aðstæðna og að teknu tilliti til þess að uppsögnin fól aðeins í sér skerðingu sem nam fjórðungi yfirvinnugreiðslnanna var hvorki fallist á að R hefði borið að rannsaka tiltekin atriði frekar né að ákvörðunin hefði falið í sér ólögmæta mismunun. Þá var ekki fallist á með L að forsendur samningsaðila við gerð kjarasamnings hefðu hamlað því að R gæti sagt umræddum greiðslum upp. Ekki var talið leiða af tilteknu ákvæði kjarasamnings að óheimilt væri að breyta kjörum leikskólakennara. Þótti L ekki hafa fært viðhlítandi rök fyrir því að greiðsla fastrar yfirvinnu til leikskólakennara, sem þyrftu að matast með nemendum, væri fyrir hefð orðin hluti af kjarasamningsbundnum kjörum leikskólakennara. Í ljósi alls þessa var R sýknað af kröfu L.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2013 að fengnu áfrýjunarleyfi 10. sama mánaðar. Hún krefst þess að stefndi greiði sér 7.536 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2012 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2013.
Mál þetta, sem var dómtekið 30. janúar sl., er höfðað 9. maí 2012 af Lindu Ósk Sigurðardóttur, Eskihlíð 10a í Reykjavík, gegn Reykjavíkurborg, Tjarnargötu 11 í Reykjavík.
Stefnandi gerir þá kröfu að stefnda verði dæmd til þess að greiða sér 7.536 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. maí 2012 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati réttarins.
Stefnda gerir kröfu um að vera alfarið sýknuð af kröfum stefnanda auk þess sem krafist er málskostnaðar að mati réttarins.
II.
Stefnandi er leikskólakennari. Hún var ráðin til starfa hjá stefndu sem deildarstjóri við leikskólann Sólhlíð með ráðningarsamningi 4. júní 2003. Í samningnum kemur fram að starfshlutfall sé 90% og vikuleg vinnuskylda séu 36 klukkustundir. Síðar mun starfshlutfall stefnanda hafa lækkað í 80%. Stefnandi er félagsmaður í Félagi leikskólakennara (FL) sem á aðild að Kennarasambandi Íslands (KÍ). Var þess getið í ráðningarsamningnum að um launagreiðslur, launaflokk, starfsaldur til launa, aðrar greiðslur, hlunnindi og greiðslutímabil færi eftir því sem kveðið væri á um í samningnum og kjarasamningi KÍ.
Á fundi borgarráðs 19. október 2007 var samþykkt tillaga í fimm töluliðum sem var ætlað að gera Reykjavíkurborg að eftirsóknarverðari vinnustað. Í fimmta tölulið tillögunnar kemur fram að frá 1. október 2007 verði gert ráð fyrir fjármunum til leikskóla, grunnskóla og hjúkrunarheimila „vegna greiðslu til þeirra starfsmanna sem skylt er að matast með þjónustuþegum/nemendum og velja ekki styttri vinnutíma á móti.“ Í greinargerð með tillögunni kemur fram að umræddir starfsmenn „fái greidda hálfa klst., þ.e. matartíma sinn, á yfirvinnutaxta, nema að þeir velji styttri vinnutíma á móti“. Fram kom að stjórnandi stofnunar tæki málefnalega ákvörðun um til hvaða starfsmanna þessi skylda næði. Var áætlaður kostnaður af þessari aðgerð talinn nema 79,2 milljónum króna á árinu 2007 og 352,7 milljónum króna á árinu 2008.
Stefnandi fékk í kjölfar þessarar ákvörðunar fastar yfirvinnugreiðslur mánaðarlega í hlutfalli við starfshlutfall sitt fyrir að matast með nemendum. Fleiri starfsmenn leikskólans fengu sambærilegar greiðslur og skipti þá ekki máli hvaða stéttarfélagi viðkomandi tilheyrði.
Hinn 20. ágúst 2011 gerði FL kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga um kjör leikskólakennara. Áður hafði verið boðað til verkfalls leikskólakennara sem átti að koma til framkvæmda 22. ágúst 2011. Meðal þess sem samið var um í kjarasamningnum var að fram færi „endurskoðun á kjörum leikskólakennara, sem hefur að markmiði að jafna grunnlaun og starfskjör þeirra við kjör annarra háskólamenntaðra starfsmanna er sinna sambærilegum störfum“, sbr. fylgiskjal 3 með samningnum. Samið var um tiltekna áætlun í þremur liðum til að fylgja þessu eftir og fól síðasti liðurinn í sér launaleiðréttingu, sbr. grein 2.3 í fylgiskjalinu. Átti launaleiðréttingin að fara fram í tveimur skrefum. Fyrra skrefið fól í sér 2,5% hækkun sem reiknuð hafði verið inn í launatöflu 1 er tæki gildi 1. júní 2011 og gilti til 29. febrúar 2012. Síðara skrefið átti að fara fram í þremur hlutum og byggði á athugun og greiningu sérstaks starfshóps samningsaðila og samstarfsnefndar, sbr. greinar 2.1, 2.2 og 3 í fylgiskjalinu. Kveðið var á um að fyrsti hluti leiðréttingarinnar fæli í sér hlutfallshækkun launatöflu 1. september 2012, annar hlutinn myndi fela í sér samskonar hlutfallshækkun 1. september 2013 og síðasti hluti leiðréttingarinnar kæmi til framkvæmda fjórum mánuðum eftir gildistöku nýs kjarasamnings aðila árið 2014. Áður en þriðji hluti leiðréttingarinnar færi fram skyldi að nýju bera kjör leikskólakennara saman við kjör samanburðarhópa og yrði sá samanburður leikskólakennurum í óhag kæmi hann til umfjöllunar og leiðréttingar svo að markmiðum samningsaðila yrði náð.
Hinn 22. nóvember 2011 lagði borgarstjóri fram tillögu í borgarráði um að „fella niður fjórðung, eða 2,5 yfirvinnustundir af þeim sérstöku yfirvinnugreiðslum sem starfsmenn í Félagi leikskólakennara fengu sem launauppbót umfram ákvæði kjarasamninga með samþykkt borgarráðs 19. október 2007“. Í tillögunni var við það miðað að þessi breyting tæki gildi frá og með 1. mars 2012. Tillagan var samþykkt. Í greinargerð með henni kemur fram að framkvæmd ákvörðunarinnar frá 19. október 2007 hefði orðið önnur en til hefði staðið, en þar hafði verið við það miðað að heimilt væri að greiða þessar greiðslur í formi yfirvinnu til viðkomandi starfsmanna veldu þeir ekki styttri vinnutíma á móti. Hafi framkvæmdin orðið sú að „starfsmönnum sem féllu undir þessa heimild voru greiddar 10 yfirvinnustundir á mánuði án þess að vinnuframlag lægi þar að baki“. Í greinargerðinni segir síðan orðrétt: „Við gerð fjárhagsáætlunar síðustu árin hefur það komið árlega til umræðu hvort fella ætti þessar greiðslur niður en frá því hefur jafnan verið horfið. Þessi mál voru sérstaklega til skoðunar eftir að kjarasamningum lauk nú í sumar, einkum eftir að niðurstaðan varð sú að launahækkanir til leikskólakennara verða talsvert hærri á samningstímanum en flestra annarra starfshópa. Þegar leikskólakennarar boðuðu verkfall bæði hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum varð krafa þeirra á endanum sú að þær greiðslur (10 yvtíma á mánuði) sem Reykjavíkurborg greiddi umfram kjarasamninga yrðu felldar inn í nýjan kjarasamning við sveitarfélögin, til viðbótar almennum hækkunum sem samið hafði verið um við aðra viðsemjendur. / Með tilliti til þessarar niðurstöðu og hins að Reykjavíkurborg hefur þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu haldið yfirborgunum á leikskólum áfram meðan önnur sveitarfélög hafa fellt þær niður, verður að telja eðlilegt að hverfa nú frá þessu fyrirkomulagi.“ Þá kemur einnig fram í greinargerðinni að þessum föstu kjörum verði sagt upp með formlegum hætti eigi síðar en 30. nóvember 2011 og við það miðað að yfirborganir þessar lækki í fjórum jöfnum áföngum fram til ársins 2014 og verði þá aflagðar.
Með bréfi, dags. 23. desember 2011, var þeim yfirvinnutímum, sem stefnandi hafði notið á framangreindum grundvelli, sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara. Í uppsagnarbréfinu segir að þessir yfirvinnutímar hafi í reynd verið launauppbót utan kjarasamnings. Stefnandi óskaði eftir skýringum á uppsögninni með bréfi 26. janúar 2012. Óskaði hún meðal annars eftir upplýsingum um hvort uppsögnin tæki til allra starfsmanna leikskóla, sem notið hefðu greiðslna af þessu tagi, og ef ekki þá hverjir fengju ekki slíka uppsögn og á hvaða forsendum. Svarbréf sviðsstjóra skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar er dagsett 15. mars 2012. Þar segir meðal annars að niðurstaða kjarasamninga haustið 2011 hefði orðið sú að launahækkanir til leikskólakennara hefðu orðið „nokkru hærri á samningstímanum en flestra annarra starfshópa“. Tekið var fram að þegar leikskólakennarar boðuðu til verkfalls hefði krafa þeirra falið í sér að þær greiðslur sem Reykjavíkurborg greiddi umfram kjarasamninga yrðu felldar inn í nýjan kjarasamning við sveitarfélögin til viðbótar við almennar hækkanir. Síðan segir eftirfarandi: „Það er m.a. á grundvelli þessarar mismunandi launaþróunar starfshópa innan leikskóla, sem ákvörðun var tekin um að draga úr launauppbót, sem er umfram kjarasamninga, hjá leikskólakennurum.“ Að öðru leyti var vísað í tillögu og greinargerð borgarstjóra frá 22. nóvember 2011.
Hinn 1. maí 2012 var felld niður tveggja klukkustunda yfirvinnugreiðsla á mánuði af launum stefnanda.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að fyrrgreind uppsögn, er kom til framkvæmda 1. apríl 2012, hafi verið ólögmæt. Stefnda eigi því að greiða áður umsamda yfirvinnu sem hafi verið á gjalddaga þann 1. maí 2012.
Þessu til stuðnings vísar stefnandi til þess að krefjast verði þess af stefndu sem stjórnvaldi að hún taki ákvarðanir sínar á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Þannig segi í 1. mgr. 10. gr. fylgiskjals nr. 6 í kjarasamningi FL, sem stefnda sé bundin af, að óheimilt sé að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna. Af hálfu stefnanda er á því byggt að það geti ekki talist málefnalegt að segja upp starfstengdum réttindum hjá leikskólakennurum meðan samstarfsmenn á sama leikskóla haldi þessum sömu greiðslum. Þetta sé staðreynd. Þannig hafi uppsögn stefnda einungis náð til félagsmanna FL meðan starfsmenn, sem eru félagsmenn annarra stéttarfélaga, haldi þessum greiðslum óbreyttum.
Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að sama vinna liggi að baki þessum greiðslum hjá öllum starfsmönnum. Eini munurinn sé sá að nú standi til að afnema greiðslurnar til félagsmanna FL meðan aðrir starfsmenn njóti þeirra. Telur stefnandi að slíkt feli í sér brot á þeirri starfsmannastefnu sem stefndi hafi sett sér. Í henni segi um jafnrétti: „Stofnanir og fyrirtæki borgarinnar skulu virða fjölmenningarstefnu og jafnréttisáætlun Reykjavíkurborgar. Þess skal gætt að gera ekki upp á milli starfsmanna í kjörum vegna kynferðis, kynþáttar, stjórnmálaskoðana eða trúarskoðana eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum.“
Stefnandi telur að umrædd ákvörðun borgarráðs sé vart í anda þessarar stefnu sem stefnda hafi sjálf sett sér. Ef því er haldið fram af stefndu að launamunur sé milli sambærilegra starfa innan leikskóla stefndu þá verði að krefjast þess að hún sýni fram á slíkt og að sá launamunur eigi sér ekki málefnalegan grundvöll. Engin slík könnun eða samantekt hafi legið fyrir áður en borgarráð hafi tekið ákvörðun sína. Þannig sé ákvörðunin klárt brot á þeim reglum sem stefnda hafi sjálf sett sér og einnig brot á jafnræðisreglu starfsmannaréttar sem m.a. eigi sér stoð í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi stefndu borið að rannsaka hvort sá launamunur sem stuðst sé við hafi átt við rök að styðjast. Hafi það ekki verið gert sé um brot á rannsóknarreglu 12. gr. sömu laga. Slík ákvörðun sé því ekki málefnaleg í skilningi 10. gr. í fylgiskjali nr. 6 í kjarasamningi FL.
Stefnandi vísar og til þess að í greinargerð með tillögu borgarstjóra hafi komið fram að ástæða hennar væri sú staðreynd að FL hefði samið um meiri hækkanir fyrir félagsmenn sína en aðrir viðsemjendur stefndu. Stefnandi telur að slík röksemd geti vart talist málefnaleg sérstaklega í ljósi þess að með því að fella niður yfirborgun sé stefnda í raun að skerða þau kjör sem gengið hafi verið út frá að giltu við gerð síðustu kjarasamninga.
Þá felist í slíkri skerðingu ákveðinn forsendubrestur því ef forsvarsmenn FL hefðu vitað að til þessa kæmi sé víst að þeir hefðu ekki samið á þeim nótum sem raun varð. Á sama hátt sé víst að hinir einstöku félagsmenn FL, þar með talinn stefnandi, hefðu ekki samþykkt kjarasamning þann sem gerður hafi verið hefðu þeir vitað að stefndi myndi síðan fella niður greiðslur til þeirra sem tíðkast höfðu í fimm ár. Er í þessu sambandi vitnað til dóms Félagsdóms í málinu nr. 13/2002 en þar hafi verið talið að stéttarfélag hafi mátt treysta því við gerð síðasta kjarasamnings aðila að framkvæmd á greiðslu fyrir útköll yrði sú sama og verið hefði.
Stefnandi vísar og til þess að skilja megi tillögu borgarstjóra svo að borgarráð hafi lagt það til grundvallar ákvörðun sinni að ígildi 10 yfirvinnutíma hefðu verið felld inn í kjarasamning FL við gerð síðasta kjarasamnings. Það kveður stefnandi að sé ekki rétt. Þannig virðist sem borgarráð hafi lagt til grundvallar ákvörðun sinni óljósar og beinlínis rangar upplýsingar. Slíkt leiði aftur til þeirrar niðurstöðu að ákvörðun sem byggi á slíkum grunni sé ómálefnaleg og uppfylli því að sama skapi ekki efniskröfur uppsagnar sem komi fram í 10. gr. í fylgiskjali nr. 6 í kjarasamningi FL. Þá liggi ekki fyrir að sambærilegar greiðslur hafi verið lagðar niður hjá öðrum sveitarfélögum. Engin gögn hafi verið lögð fram um það af hálfu stefndu, en það hafi verið ein af forsendunum sem gefnar hafi verið fyrir niðurfellingu greiðslnanna.
Af hálfu stefnanda er jafnframt á því byggt að uppsögnin hafi ekki samrýmst ákvæðum kjarasamnings FL og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hafi tekið gildi 1. júní 2011. Um það er vísað til gr. 15.7 í fylgiskjali nr. 3 sem fjalli um aðgerðir til launajöfnunar. Sá samningur tryggi stefnanda ákveðin réttindi sem stefndi geti ekki tekið af henni. Þar komi fram að samningsaðilar séu sammála um að fram fari endurskoðun á launakjörum leikskólakennara sem hafi það að markmiði að jafna grunnlaun og starfskjör þeirra við kjör annarra háskólamenntaðra starfsmanna sem sinni sambærilegum störfum til hækkunar eða lækkunar. Samkvæmt gr. 2.3 í fylgiskjali nr. 3 skyldi launaleiðrétting fara fram í tveimur skrefum. Það fyrra skyldi gilda frá 1. júní 2011 til 29. febrúar 2012. Síðara skrefið skyldi vera í þremur áföngum og skyldi byggjast á niðurstöðu ofangreindra athugana. Þannig hafi stefnda tekið á sig þessa skyldu og hafi ákvörðun um launaleiðréttingu átt að liggja fyrir í maílok 2012. Stefnandi tekur fram að undir b-lið gr. 2.1 segi að nákvæm greining skuli fara fram „á núverandi launum og kjörum leikskólakennara og völdum samanburðarhópum“. Þá segi í gr. 2.2 að samstarfsnefnd aðila skuli draga saman fyrirliggjandi gögn og ákveða í samráði við ábyrgðarnefnd verkefnisins, launaleiðréttingu eftir nánar ákveðnum reglum. Samkvæmt þessu skuli sú greining sem að sé stefnt taka mið af þeim launakjörum sem í gildi hafi verið við gerð þess kjarasamnings sem gildi frá 1. júní 2011 og fram til ársins 2014.
Stefnandi bendir á að fastar yfirvinnugreiðslur, sem gilt hafi síðastliðin fimm ár og nemi 10 klukkustundum á mánuði, séu hluti af launakjörum félagsmanna FL, þar með töldum launakjörum stefnanda. Í þessu sambandi verði að hafa í huga að núgildandi kjarasamningur FL, sem stefndi sé aðili að, hafi verið undirritaður í ágúst 2011 og hafi gilt frá 1. júní það ár. Þannig hafi hann verið búinn að taka gildi þegar ákvörðun borgarráðs hafi verið tekin. Þannig megi segja að aðilar samningsins hafi skert möguleika sína á því að breyta þeim launakjörum sem þá hafi verið í gildi. Ella væri sú greining sem þeir sömdu um í raun í uppnámi. Á því er byggt að samningsákvæði í fylgiskjali nr. 3 hafi í för með sér þau höft fyrir stefnda að ekki megi breyta „núverandi launakjörum“ til lækkunar meðan ekki hefur farið fram sú greining er aðilar hafi samið um, því ella væru forsendur fyrir samkomulagi aðila í raun brostnar. Þegar aðilar hafi samið þannig um í kjarasamningi sé ekki hægt að segja slíkum „kjörum“, eins og fastri yfirvinnu, upp meðan samkomulagið sé í gildi, og það hafi ekki verið full útfært skv. efni þess.
Stefnandi kveðst einnig byggja á því að stefndu beri að greiða yfirvinnu í matartíma starfsmanna á bilinu frá 11.30 til 13.30. Þannig hafi stefnandi aldrei tekið matartíma. Samkvæmt fyrirmælum frá forsvarsmanni leikskólans eigi hún að matast með nemendum, sbr. og skyldu þar um samkvæmt gr. 3.4.5 í kjarasamningi aðila. Stefnandi telur að sú skylda hafi ekki fallið niður 1. apríl 2012. Samkvæmt gr. 3.3.1 í kjarasamningi FL og Sambands íslenskra sveitarfélaga eigi hún því rétt á greiðslu í yfirvinnu fyrir þann tíma. Því sé ekki hægt að afnema slíka yfirvinnu sem eigi sér stoð í kjarasamningi, sbr. 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Þá byggir stefnandi á því að þessi greiðsla sé orðin hluti af kjarasamningsbundnum greiðslum stefnanda enda komin hefð fyrir greiðslu þeirra frá árinu 2007. Enginn skriflegur samningur hafi verið gerður við stefnanda heldur hafi stefnda tekið það upp að inna þær af hendi vegna skyldu starfsmanna til að matast með nemendum. Þannig hafi hún í áraraðir viðurkennt kjarasamningsbundna skyldu sína. Þá hafi stefnda hvorki gert nokkrar athugasemdir um greiðslur þessar við gerð kjarasamninga á árinu 2008 né heldur þegar síðasti kjarasamningur aðila hafi verið gerður í ágúst 2011, heldur haldið greiðslum þeirra áfram og samþykkt þessa kjarasamninga án fyrirvara um þær greiðslur. Samþykki leikskólakennara á þeim kjarasamningum, þar með talið samþykki stefnanda, hafi byggst á þessari forsendu. Greiðslur þessar hafi verið greiddar án fyrirvara allt frá árinu 2007. Stefnandi hafi því mátt ætla að greiðslur þessar væru hluti af kjarasamningsbundnum réttindum hennar, enda hafi henni á árinu 2007 hvorki verið tilkynnt persónulega hvaða forsendur borgarráð hafi lagt til grundvallar ákvörðun sinni né að um tímabundna launahækkun væri að ræða.
Þá vísar stefnandi til þess að ekki hafi heldur verið gerður við hana sérstakur formlegur samningur eða gerð breyting á ráðningarsamningi hennar, eins og stefndu bar að gera skv. tilskipun ráðsins nr. 91/533/EBE, sbr. og dóma Hæstaréttar í málunum nr. 10/2011 og nr. 11/2011, þegar yfirvinnugreiðslur hafi verið teknar upp á árinu 2007. Í ljósi þess hversu langan tíma greiðslur þessar hafi viðgengist, hafi stefnandi því réttmæta ástæðu til þess að ætla, að þær væru hluti af föstum kjarasamningsbundnum launakjörum hennar. Allur vafi um tilurð og gildi þeirra greiðslna sem um ræði túlkist því stefndu í óhag. Tómlæti stefndu gagnvart því að tilkynna starfsmönnum um afstöðu sína, leiði því til þess að stefnda tapi rétti sínum, sem hún hugsanlega hafi haft í þessum efnum.
Til útskýringar á dómkröfum sínum vísar stefnandi til þess að hún hafi verið í 80% starfi þegar uppsögn á launagreiðslum til hennar hafi komið til framkvæmda 1. maí 2012. Launaflokkur hennar hafi verið 128-3 skv. kjarasamningi FL. Yfirvinna sé greidd með 1.0385% af mánaðarlaunum. Mánaðarlaun stefnanda á þessum tíma hafi verið 362.810 krónur. Þannig nemi hver yfirvinnustund 3.768 krónum. Felldar hafi verið niður 2 yfirvinnustundir hjá stefnanda þann 1. maí 2012 eða samtals 7.536 krónur.
2. Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda byggir á því að henni hafi verið heimilt að segja upp umþrættum yfirvinnustundum. Um sé að ræða ráðningarkjör umfram lágmarkskjör kjarasamnings FL, sem sagt hafi verið upp með tilskildum þriggja mánaða fyrirvara. Með uppsögninni hafi ekki verið brotinn neinn réttur á stefnanda, eins og nánar verður rökstutt.
Stefnda vísar til þess að tilgangur sinn með samþykkt borgarráðs 19. október 2007 hafi verið, eins og fram sé komið, að gefa starfsmönnum tækifæri til að afla sér frekari tekna en áður hafði verið möguleiki á, með því að fá greitt sérstaklega fyrir að matast með börnum á leikskólum stefndu, en fram að þeim tíma hafi slík skylda nær einvörðungu leitt til styttri vinnudags. Framkvæmdin hafi hins vegar orðið önnur en til hafði verið ætlast. Starfsmenn hafi áfram notið styttri vinnudags vegna viðveruskyldu í matartíma en jafnframt fengið mánaðarlega greiðslu sem samsvaraði 10 yfirvinnustundum á mánuði miðað við fullt starf. Launagreiðslur haldist alla jafna í hendur við vinnuframlag. Komi vinnuframlag ekki í stað endurgjalds í formi launagreiðslna séu þær yfirborganir umfram kjarasamningsbundin réttindi. Ekki hafi verið krafist neins vinnuframlags af starfsmönnum stefndu til að þeir ættu rétt á þessum yfirvinnustundum. Framkvæmdin hafi því falið í sér yfirborgun.
Stefnda tekur fram að milli stefnanda og stefndu sé í gildi ráðningarsamningur frá 4. júní 2003, þar sem fram komi að um kjör stefnanda fari samkvæmt kjarasamningi við Kennarasamband Íslands. Með ráðningarsamningnum hafi stefnandi skuldbundið sig til að inna af hendi vinnu í þágu stefndu og stefnda til að greiða laun fyrir í samræmi við gildandi kjarasamning. Stefnandi hafi þegið laun á grundvelli ráðningarsamningsins, innt af hendi vinnu á grundvelli þess sama samnings og jafnframt þegið yfirborgun, sem hafi numið 8 yfirvinnustundum á mánuði, sem nú hafa verið afnumdar að einum fjórðungi, án þess að hafa innt skyldur af hendi á móti þeim greiðslum.
Af hálfu stefndu er bent á að á grundvelli 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, gildi sú meginregla að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, skuli vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningurinn tekur til. Skuli samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör ógildir. Varðandi opinbera starfsmenn, þ. á m. starfsmenn sveitarfélaga, komi þessi sama meginregla fram í 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Sé í ráðningarsamningi milli starfsmanns og atvinnurekanda eða í síðara samkomulagi þeirra í milli samið um betri kjör er komið út fyrir svið kjarasamnings. Þær greiðslur sem um sé deilt í máli þessu telur stefnda að hafi falið í sér betri kjör, umfram ákvæði kjarasamninga í skilningi framangreindrar meginreglu. Stefndu hafi því verið heimilt að segja upp þessum ráðningarkjörum með þriggja mánaða fyrirvara. Stefnda gekk hins vegar ekki svo langt að segja þeim upp í heild, heldur hafi einungis fjórðungi greiðslnanna verið sagt upp. Umrædd uppsögn hafi verið með öllu lögmæt og telur stefnda að hún hafi gengið langt við aðlögun breytinga til að koma til móts við stefnanda og aðra félagsmenn í Félagi leikskólakennara, sem hafi þegið og þiggi enn yfirborganir.
Stefnda hafnar því að það teljist ómálefnalegt að horfa til þess að með nýjum kjarasamningi hafi stéttarfélag stefnanda tryggt stefnanda og öðrum leikskólakennurum kjarabætur, sem verði langt umfram það sem aðrir hópar starfsmanna muni fá á sama tíma. Stefnandi eigi enga kröfu á að halda yfirborgunum með vísan til yfirborgana til annarra hópa starfsmanna, þegar samið hafi verið um a.m.k. sambærilegar kjarabætur í kjarasamningi þeim, sem laun og önnur starfskjör stefnanda fari eftir.
Þá hafni stefnda því að á Reykjavíkurborg hvíli samningsbundin skylda til greiðslu hinna umþrættu yfirvinnustunda. Um sé að ræða hreina yfirborgun, stefnandi þurfti aldrei að inna af hendi vinnuskyldu til að öðlast rétt til greiðslnanna. Rétt sé að stefnanda beri að matast með nemendum. Hin umþrætta greiðsla hafi hins vegar ekki verið endurgjald vegna þess vinnuframlags. Stefnandi njóti vegna þeirrar skyldu styttri vinnudags, sbr. gr. 3.1.2 og 3.1.3 í kjarasamningi FL. Ekki aðeins njóti stefnandi styttri vinnudags í samræmi við ákvæði kjarasamnings heldur sé stefnandi undanþeginn því að greiða fyrir máltíðir, þegar stefnandi matist með nemendum en þar njóti stefnandi kjara, sem séu umfram ákvæði kjarasamnings, sbr. gr. 3.4.5 í kjarasamningi FL.
Stefnda mótmælir því að henni hafi á grundvelli tilskipunar Evrópuráðsins nr. 91/533/EBE borið að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda um umdeildar yfirborganir og/eða niðurfellingu þeirra. Í tilskipuninni komi fram að vinnuveitanda beri skylda til að skýra launþega, sem heyri undir tilskipunina, frá helstu ákvöðum ráðningarsamnings eða ráðningarfyrirkomulags, sem útlistaðar séu í a- til j-lið 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Það skuli gert með ráðningarsamningi eða ráðningarbréfi, sbr. 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Umdeildar greiðslur hafi ekki falið í sér breytingu á ráðningarsamningi og/eða ráðningarfyrirkomulagi heldur hafi þeim einungis verið ætlað að veita stefnanda og öðrum sem uppfylltu sömu skilyrði þann möguleika að auka tekjur sínar með því að fá greiddar yfirvinnustundir í stað þess að vinna styttri vinnudag. Framkvæmdin hafi hins vegar orðið með öðrum hætti en til hafi staðið og hafi greiðslurnar falið í sér yfirborganir, sem greiddar hafi verið samhliða styttri vinnutíma. Á stefnanda hafi ekki hvílt neinar skyldur vegna þessara greiðslna. Jafnvel þótt dómurinn teldi að stefndu hefði verið rétt að gera skriflegan samning við stefnanda um þessar yfirborganir, geti það ekki skapað stefnanda sjálfstæðan rétt að slíkt hafi ekki verið gert, enda hafi stefnda efnt samninginn og sagt honum upp hvað hluta greiðslnanna varðar, með lögmætum hætti.
Stefnda mótmælir því enn fremur að þar sem umrædd greiðsla hafi viðgengist lengi hafi stefnandi mátt ætla að yfirborgunin væri hluti af föstum kjarasamningsbundnum kjörum og að stefnda hafi sýnt af sér tómlæti þar sem hún hafi ekki gert athugasemdir þar um við gerð kjarasamnings. Með föstum yfirborgunum, jafnvel þótt um langt árabil sé, skapist ekki óafturkræf réttindi. Kjarasamningar fjalli ekki um yfirborganir eða ákvörðun vinnuveitanda um að greiða laun umfram ákvæði kjarasamninga. Slíkt teljist til ráðningarkjara. Stefnda hafi uppfyllt þá skyldu sína að segja þessum kjörum, sem viðgengist höfðu frá árinu 2007, upp með þriggja mánaða fyrirvara líkt og gildi almennt um breytingar á starfskjörum.
Það er enn fremur afstaða stefndu að henni hafi verið heimilt að segja upp umþrættum yfirvinnustundum og að með uppsögninni hafi ekki verið brotinn neinn réttur á stefnanda. Um hafi verið að ræða yfirborgun sem stefndu hafi hvenær sem er verið heimilt að segja upp. Stefnanda hafi mátt vera kunnugt um að næði Félag leikskólakennara fram helsta markmiði sínu í kjarasamningsviðræðunum 2011 um að fá hækkanir umfram það sem samið hefði verið um við önnur stéttarfélög yrðu umþrættar greiðslur felldar niður.
Félagið hafi krafist 11% hækkunar launa umfram það sem samið hafði verið um við önnur stéttarfélög. Fram hafi komið að þessi 11% myndu skila félagsmönnum sambærilegri fjárhæð og yfirborganir stefndu námu í krónum talið. Félag leikskólakennara hafi bent á að til að ná fram 11% launahækkun umfram það sem samið hefði verið um við önnur stéttarfélög mætti fara þá leið að festa þessar greiðslur, sem kenndar hafi verið við neysluhlé og stefnda, eitt sveitarfélaga auk Húsavíkurkaupstaðar hafi greitt, í kjarasamninginn. Komi sérstaklega fram að slík leið myndi ekki fela í sér neinn kostnaðarauka fyrir stefndu sem hefði nú þegar samskonar kostnað af þessum yfirborgunum. Um þetta vísar stefnda einkum til viðtals við formann Félags leikskólakennara í þættinum Ísland í býtið meðan á kjarasamningsviðræðum stóð.
Eins og fram er komið hafi niðurstaða kjarasamningsviðræðnanna hins vegar orðið sú að festa ekki þessa yfirborgun sem slíka í kjarasamninginn, heldur að endurskoða kjör leikskólakennara, með það ,,að markmiði að jafna grunnlaun og starfskjör þeirra við kjör annarra háskólamenntaðra starfsmanna er sinna sambærilegum störfum“, sbr. gr. 1 í fylgiskjali 3 með kjarasamningi FL. Laun félagsmanna skyldu strax, sem fyrra skref leiðréttinga, hækka um 2,5% umfram almennar hækkanir og enn fremur skyldi, sem síðara skref leiðréttinga, fara fram nákvæm greining á núverandi launum og kjörum leikskólakennara og völdum samanburðarhópum eftir starfsheitum, starfsaldri, menntun, lífaldri, o.fl. Einnig skyldi launamyndun kjarasamnings leikskólakennara rannsökuð, sbr. b-lið gr. 2.3 í fylgiskjali 3. Skyldi leiðréttingin á launum leikskólakennara til samanburðar við hina völdu samanburðarhópa fara fram í þremur hlutum, fyrsta hluta 1. september 2012 og þriðja hluta ekki fyrr en niðurstöður úr næstu kjarasamningsviðræðum lægju fyrir. Félag leikskólakennara hafi því tryggt félagsmönnum sínum með þessum ákvæðum kjarabætur, langt umfram það sem um hafi verið samið við önnur stéttarfélög.
Stefnda hafi aðeins tekið ákvörðun um að segja upp hluta yfirborgunarinnar, sem nemi áþekkri fjárhæð og þeirri fjárhæð, sem felist í fyrra skrefi hinnar umsömdu launaleiðréttingar, þ.e. 2,5% hækkun launa.
Stefnda hafnar því að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið að baki ákvörðun hennar um að segja upp umþrættum yfirborgunum og að með henni hafi hún brotið gegn jafnræðisreglu starfsmannaréttar. Í nýjum kjarasamningi FL hafi stefnandi nú þegar fengið hækkanir umfram félagsmenn í öðrum stéttarfélögum, sem starfi á leikskólum hjá stefnda. Stefnda hafi tekið ákvörðun um að greiða starfsmönnum leikskóla umfram lágmarkslaun kjarasamninga í því skyni m.a. að hamla gegn manneklu á leikskólum hjá stefndu og gera þá að eftirsóknarverðari vinnustöðum. Eftir efnahagshrunið 2008 hafi ekki verið vilji fyrir því hjá stefndu að taka þessar yfirborganir af, þrátt fyrir að forsendur þær sem hafi verið tilefni þess að þær voru teknar upp, væru ekki lengur fyrir hendi. Stefnda hafi viljað standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins og gera vel við þá starfsmenn sem henni hafi sinnt. Stefnda hafi því haldið áfram yfirborgununum, eitt sveitarfélaga ásamt Húsavíkurkaupstað. Önnur sveitarfélög hafi lagt þessar greiðslur af í tengslum við kjarasamning FL 2008.
Stefnda tekur fram að með niðurstöðu kjarasamnings FL 2011 hafi leikskólakennurum verið tryggð hækkun launa umfram aðra starfsmenn stefndu á leikskólum og að auki leiðrétting til jafns við þá hópa starfsmanna stefndu, sem leikskólakennarar beri sig saman við. Með vísan til þessara forsendna hafi stefnda tekið ákvörðun um að segja upp umþrættum greiðslum. Þær forsendur eigi ekki við um aðra starfsmenn leikskóla. Stefnda telur að málefnalegur munur sé á aðstæðum þessara tveggja hópa og vísar því á bug að hún hafi, með því að halda í yfirborganir til annarra starfsmanna leikskóla, brotið einhvern rétt á stefnanda eða að ákvörðun stefndu hafi farið gegn starfsmannastefnu hennar, jafnræðisreglu starfsmannaréttar eða 11. gr. stjórnsýslulaga. Stefnda telur sig hafa við töku hinnar umdeildu ákvörðunar fylgt réttarreglum stjórnsýsluréttar.
Stefnda mótmælir því jafnframt að borgarráð hafi tekið ákvörðun um uppsögn umþrættra greiðslna á röngum forsendum. Það hafi ætíð legið fyrir að ef leikskólakennurum tækist að ná markmiði sínu, um kjarabætur umfram aðra hópa starfsmanna, myndi yfirborgunum stefndu verða sagt upp og voru það m.a. rök Félags leikskólakennara fyrir því að stefnda ætti að styðja fram komnar kröfur félagsins. Stefnda mótmælir því sérstaklega, sem fullyrt sé í stefnu á bls. 4, að ráðningarkjör leikskólakennara hjá stefndu, sem hafi verið umfram ákvæði kjarasamnings, hafi verið þau kjör, sem gengið hafi verið út frá að giltu við gerð síðustu kjarasamninga. Sömuleiðis að í uppsögn umþrættra greiðslna hafi falist forsendubrestur þar sem forsvarsmenn Félags leikskólakennara hefðu ekki samið á þeim nótum sem raun varð, hefðu þeir vitað að til uppsagnarinnar kæmi. Eins og fram sé komið hafi forsvarsmenn Félags leikskólakennara verið vel meðvitaðir um að til þess kæmi. Þá geti það aldrei verið forsenda fyrir samþykkt kjarasamnings að greiðslur, umfram kjarasamninga, haldist óbreyttar. Yfirborganir standi utan gildissviðs kjarasamnings, eins og raunar komi fram í máli formanns FL í gögnum málsins.
Stefnda vísar því jafnframt á bug að með ákvæðum í fylgiskjali 3, um aðgerðir til launajöfnunar, hafi stefnda skert möguleika sína á því að breyta þeim launakjörum sem þá hafi verið í gildi. Ákvæði fylgiskjals 3 feli einvörðungu í sér að gera skuli athuganir og samanburð á launa- og kjaraþáttum sem bundnir séu í kjarasamningnum, ekki á einstökum ráðningarkjörum leikskólakennara. Kjarasamningar fjalli ekki um yfirborganir eða greiðslur sveitarfélaga umfram kjarasamninga. Kjósi sveitarfélag að greiða leikskólakennurum laun umfram kjarasamning eða taki slíkt til baka eftir atvikum, sé slík ákvörðun óháð framkvæmd og skilyrðum kjarasamnings. Af þeim sökum sé því mótmælt að fastar yfirvinnugreiðslur, umfram kjarasamning, teljist til launakjara félagsmanna FL, í skilningi b-liðar gr. 2.1 í fylgiskjali 3.
Með vísan til alls framangreinds telur stefnda að stefnanda hafi verið kunnugt um að vegna þeirra launahækkana sem Félag leikskólakennara hafi náð fram í kjarasamningsviðræðum 2011, umfram almennar hækkanir, yrðu yfirborganir felldar niður sem því næmi.
Stefnda mótmælir einnig dráttarvaxtakröfu stefnanda. Sérstaklega sé gerð athugasemd við upphafstíma dráttarvaxta. Stefnandi byggi kröfu sína um greiðslu dráttarvaxta á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og miðar upphafsdag vaxta við 1. maí 2012 eða sama dag og stefna sé dagsett. Sá upphafstími dráttarvaxta sé vanreifaður af hálfu stefnanda. Afrit stefnu hafi verið afhent stefndu 9. maí s.á. og hafi verið fallið frá stefnufresti. Þess sé krafist að dráttarvextir verði reiknaðir frá 9. júní 2012 skv. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 eða frá þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að stefnda hafi verið sannarlega krafin um greiðslu þeirrar kröfu sem hér um ræði. Verði ekki á það fallist er þess krafist að miðað verði við 9. maí 2012 eða þann dag sem mál þetta hafi verið sannarlega höfðað, sbr. 4. mgr. sömu greinar.
Stefnda kveðst byggja málatilbúnað sinn m.a. á meginreglum starfsmannaréttar og vinnuréttar, lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda með síðari breytingum, lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttar og lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefndu sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Eins og rakið hefur verið lýtur ágreiningur aðila að lögmæti uppsagnar stefndu 23. desember 2011 á einum fjórða af yfirvinnugreiðslum sem ákveðið var í október 2007 að greiða þeim starfsmönnum leikskóla stefndu sem skylt var að matast með nemendum.
Þegar ákveðið var að inna þessar greiðslur af hendi var í gildi kjarasamningur Félags leikskólakennara við Launanefnd sveitarfélaga frá 2006, en hann hefur ekki verið lagður fram í málinu. Hins vegar segir í grein 3.1 í framlögðum kjarasamningi Félags leikskólakennara með gildistíma frá 1. júní 2011 til 30. júní 2014 að matartími skuli vera 30 mínútur á tímabilinu 11.30 til 13.30 og teljist ekki til vinnutíma. Heimilt sé að lengja, stytta eða fella niður matartíma með samkomulagi fyrirsvarsmanna stofnunar og einfalds meirihluta þeirra leikskólakennara sem málið varði, sbr. grein 3.1.2. Í grein 3.1.3 kemur fram að sé matartíma á dagvinnutímabili breytt samkvæmt 3.1.2 ljúki „dagvinnu-tímabili þeim mun síðar eða fyrr“. Í grein 3.3 segir aftur á móti að sé unnið í matartíma, þannig að matarhlé nái ekki fullum umsömdum tíma, skuli matartíminn að sama hluta greiðast með yfirvinnukaupi. Að lokum kemur fram í grein 3.4, sem fjallar um fæði og mötuneyti, að leikskólakennurum, sem gert sé skylt að matast inni á deildum og aðstoða börn við borðhaldið, skuli undanþegnir því að greiða fyrir þær máltíðir, sbr. grein 3.4.5, enda sé þeim ekki umbunað fyrir það með öðrum hætti svo sem með styttri vinnutíma eða greiðslu. Að öðrum kosti greiði leikskólakennarar efnisverð matarins. Eins og málið liggur fyrir dóminum verður að leggja til grundvallar að ákvæði þessi hafi verið samhljóða í fyrrgreindum kjarasamningi frá 2006.
Stefnda heldur því fram að framkvæmdin á ákvörðuninni frá 2007 hafi orðið önnur en staðið hafi til. Þannig hafi allir starfsmenn, sem áttu að matast með nemendum, fengið umræddar yfirvinnugreiðslur auk þess að njóta styttri dagvinnutíma í samræmi við grein 3.1.3 í kjarasamningnum. Eigi það meðal annars við um stefnanda. Af þessum sökum telur stefnda að greiðslurnar hafi í raun falið í sér yfirborgun umfram fyrirmæli kjarasamnings. Stefnandi hefur ekki andmælt því að hún hafi í senn fengið greitt fyrir að matast með nemendum og notið styttri vinnutíma. Hins vegar ber hún því við að samkvæmt grein 3.3.1 í viðkomandi kjarasamningi, sem gerð var grein fyrir hér að framan, beri að greiða stefndu umræddar yfirvinnugreiðslur.
Eins og rakið hefur verið telst matartími ekki til vinnutíma. Samkvæmt fyrrgreindum kjarasamningi er unnt með almennum hætti, og með samþykki meirihluta starfsmanna sem í hlut eiga, að fella niður matartíma eða stytta hann með þeim afleiðingum að dagvinnutímabili ljúki þeim mun fyrr, sbr. grein 3.1.2 og 3.1.3. Þá er við það miðað, eins og rakið hefur verið, að leikskólakennarar, sem gert er skylt að matast með nemendum, skuli ekki greiða fyrir máltíðina, enda sé þeim ekki umbunað fyrir það með öðrum hætti svo sem með styttri vinnutíma eða greiðslu, sbr. grein 3.4.5. Sé litið heildstætt á framangreind fyrirmæli kjarasamningsins verður að leggja þann skilning í grein 3.3.1 að þar sé einungis mælt fyrir um áhrif þess sé starfsmanni gert að vinna í matartíma án þess að það leiði til styttra dagvinnutímabils. Þar sem það á ekki við í tilviki stefnanda er ekki unnt að líta svo á að umrætt ákvæði geti átt við í máli þessu. Með skírskotun til þess sem hér hefur verið rakið ber enn fremur að líta svo á að greiðslan, sem ákveðið var að greiða stefnanda í október 2007, hafi falið í sér endurgjald fyrir vinnu umfram þau lágmarkskjör sem gildandi kjarasamningur kvað á um. Ákvæði kjarasamningsins um matartíma takmörkuðu því ekki heimild stefndu til að segja þessum greiðslum upp að hluta eða í heild.
Samkvæmt greinargerð sem fylgdi tillögu borgarstjóra verður ekki annað ráðið en að meginástæða uppsagnar á umræddum yfirvinnugreiðslum hafi verið fjárhagsstaða stefndu, en þar kemur fram að málið hafi komið árlega til umræðu í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar. Samkvæmt eðli sínu er það sjónarmið bæði lögmætt og málefnalegt við töku ákvarðana um uppsögn á ráðningarkjörum starfsmanna sem eru umfram kjarasamningsbundin starfskjör. Þá verður að leggja þann skilning í greinargerðina að ákveðið hafi verið að láta uppsögnina aðeins taka til félagsmanna í FL í ljósi þess að þeir höfðu þá nýlega fengið meiri launahækkanir samkvæmt kjarasamningi en flestir aðrir starfshópar. Stefnandi mótmælir réttmæti þessarar forsendu á þeim grundvelli að hún sé efnislega röng, að ákvörðunin hafi verið tekin án þess að rannsókn færi fram á þessari forsendu og að hún feli í sér ómálefnalega mismunun.
Í fylgiskjali 3 með kjarasamningi KÍ við Samband íslenskra sveitarfélaga er mælt fyrir um sérstakar hækkanir á kjörum leikskólakennara er miðuðu að því að „jafna grunnlaun og starfskjör þeirra við kjör annarra háskólamenntaðra starfsmanna er sinna sambærilegum störfum“. Átti þessi leiðrétting að leiða þegar í stað til 2,5% hækkunar á launakjörum leikskólakennara sem reiknuð hafði verið inn í launatöflu sem tók gildi frá 1. júní 2011. Samkvæmt niðurstöðu ábyrgðarnefndar, sem starfaði á grundvelli umrædds kjarasamnings, voru frekari hækkanir á launum leikskólakennara ákveðnar frá 1. september 2012 til að leiðrétta kjör þeirra. Í sama skyni hefur ábyrgðarnefndin ákveðið að laun þeirra muni hækka með tilteknum hætti 1. september 2013.
Miðað við tilgang þessara breytinga á launakjörum leikskólakennara má ætla að aðrir hópar starfsmanna hafi ekki notið hliðstæðra hækkana. Hefur stefnandi ekki fært sönnur á að starfsmenn í öðrum stéttarfélögum, sem njóta áfram sérstakra yfirvinnugreiðslna fyrir að matast með nemendum eða öðrum þjónustuþegum, hafi fengið sambærilegar hækkanir. Ekki liggur því fyrir að umrædd ákvörðun hafi verið tekin á röngum forsendum. Þegar ákveðið var að segja umræddum yfirvinnugreiðslum félagsmanna LÍ upp, lá fyrir að launaleiðrétting samkvæmt kjarasamningi LÍ myndi leiða til 2,5% hækkunar á launum leikskólakennara. Í ljósi aðstæðna, og að teknu tilliti til þess að uppsögnin fól aðeins í sér skerðingu sem nam fjórðungi yfirvinnugreiðslnanna, fær dómurinn ekki séð að stefndu hafi borið að rannsaka nánar áhrif kjarasamningsins á starfskjör leikskólakennara í samanburði við aðra starfshópa, áður en uppsögnin var ákveðin. Þá er ekki fallist á með stefnanda að hún feli í sér ólögmæta mismunun, enda verður að ætla að forsendur leikskólakennara til að mæta þeirri kjararýrnun sem fólst í skerðingu yfirvinnugreiðslnanna, hafi verið rýmri en þeirra starfsmanna sem ekki hafa notið hliðstæðra launahækkana.
Þá byggir stefnandi á því að ekki liggi fyrir að önnur sveitarfélög hafi fellt niður hliðstæðar greiðslur, eins og haldið sé fram í greinargerð borgarstjóra fyrir tillögu að uppsögn greiðslnanna.
Samkvæmt framlögðum yfirlýsingum frá bæjarlögmanni Hafnarfjarðarbæjar og bæjarritara Kópavogsbæjar, sem ekki hefur verið hnekkt af hálfu stefnanda, liggur fyrir að greiðslur af sama meiði og hér eru til umfjöllunar, féllu niður í þessum sveitarfélögum í nóvember 2008 án sérstakrar uppsagnar. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hliðstæðar greiðslur í öðrum sveitarfélögum nema að fram hefur komið að Húsavíkurkaupstaður inni slíkar greiðslur af hendi. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið liggur þó ekki fyrir að stefnda hafi að þessu leyti reist umrædda ákvörðun á röngum forsendum.
Stefnandi rökstyður kröfugerð sína enn fremur með því að ákvörðun um uppsögn þessara greiðslna hafi verið ómálefnaleg þar sem ekki hafi verið tekið tillit til forsendna samningsaðila. Hefðu forsvarsmenn FL vitað að til þessarar skerðingar kæmi á starfskjörum leikskólakennara hefðu þeir ekki samið á þann veg sem raunin varð og félagsmenn FL ekki samþykkt kjarasamninginn hefðu þeir vitað að stefnda myndi síðar fella niður þessar greiðslur.
Eins og rakið hefur verið verður á líta á umræddar yfirvinnugreiðslur sem yfirborganir á starfskjör samkvæmt kjarasamningi. Ágreiningur aðila lýtur því ekki að breytingu á langvarandi túlkun og framkvæmd kjarasamnings líkt og tekist var á um í dómi Félagsdóms í máli nr. 13/2002 sem stefnandi vísar til. Þá liggur fyrir að einungis hluti sveitarfélaga greiddi fasta yfirvinnu fyrir að matast með nemendum og því naut aðeins hluti félagsmanna í FL á þessum tíma fastra yfirvinnugreiðslna á framangreindum forsendum. Ekki er upplýst að þess hafi verið getið af hálfu forsvarsmanna FL að það væri forsenda fyrir samþykki kjarasamningsins að leikskólakennarar í Reykjavík fengju að halda yfirvinnugreiðslunum. Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið er ekki unnt að fallast á að stefnandi geti borið fyrir sig að forsendur samningsaðila við gerð kjarasamningsins hafi hamlað því að stefnda gæti sagt umræddum greiðslum upp.
Stefnandi heldur því einnig fram að ákvæði kjarasamningsins frá 2011 í fylgiskjali 3 hafi komið í veg fyrir að stefnda gæti skert starfskjör leikskólakennara meðan sú athugun á launum þeirra og kjörum, sem þar er kveðið á um, færi fram.
Í b-lið greinar 2.1 í þessum hluta kjarasamningsins kemur fram að nákvæm greining skuli fara fram á „núverandi launum og kjörum leikskólakennara og völdum samanburðarhópum“ út frá tilteknum forsendum. Óljóst er hvort greining þessi eigi að einskorðast við kjarasamningsbundin kjör. Dómurinn fær hins vegar ekki séð að af ákvæðinu leiði að óheimilt sé að breyta kjörum leikskólakennara, að því marki sem kjarasamningurinn setur slíkum breytingum ekki skorður, þó að væntanlega þurfi að taka mið af slíkum breytingum við þá greiningu sem þar er kveðið á um Af þessum sökum verður ekki séð að þessi málsástæða stefnanda eigi að leiða til þess að á kröfu hennar verði fallist.
Stefnandi hefur að mati dómsins ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að greiðsla fastrar yfirvinnu til leikskólakennara, sem þurfa að matast með nemendum, sé fyrir hefð orðin hluti af kjarasamningsbundnum kjörum leikskólakennara. Í því sambandi er áréttað að slíkar yfirvinnugreiðslur eiga sér ekki stoð í viðkomandi kjarasamningi, enda leiði vinna á þeim tíma sem börnin matast til þess að dagvinnutíma ljúki fyrr en ella, sbr. grein 3.1.3 í samningnum. Fær engu um það breytt þó að kjarasamningar hafi verið samþykktir árið 2008 og 2011 án fyrirvara um þessar greiðslur og án þess að athugasemdir væru gerðar við þær. Þá fær dómurinn ekki séð að stefnandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að um kjarasamningsbundin kjör væri að ræða í ljósi þess að ekki hafði verið gerður formlegur samningur um þessar yfirvinnugreiðslur við hana.
Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður ekki fallist á með stefnanda að þeir annmarkar hafi verið á uppsögn hinna föstu yfirvinnugreiðslna sem hér um ræðir er leiði til þess að fallast beri á fjárkröfu stefnanda. Af þessum sökum verður stefnda sýknuð af kröfum stefnanda. Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefnda, Reykjavíkurborg, er sýkn af kröfum stefnanda, Lindu Óskar Sigurðardóttur.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.