Hæstiréttur íslands
Mál nr. 567/2012
Lykilorð
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Akstur sviptur ökurétti
- Hraðakstur
- Ávana- og fíkniefni
- Vopnalagabrot
- Reynslulausn
- Ítrekun
- Vanaafbrotamaður
- Ökuréttarsvipting
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2013 |
|
Nr. 567/2012.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn Bergi Má Ágústssyni (Björgvin Jónsson hrl.) |
Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Akstur sviptur ökurétti. Hraðakstur. Ávana- og fíkniefni. Vopnalagabrot. Reynslulausn. Ítrekun. Vanaafbrotamaður. Ökuréttarsvipting.
B var sakfelldur í héraði fyrir fjölmörg umferðarlagabrot, fíkniefnabrot og vopnalagabrot. Var honum gert að sæta fangelsi í 12 mánuði og upptöku amfetamíns og gasvopns auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að B ætti óslitinn sakarferil frá árinu 1999 og hefði ítrekað verið sakfelldur fyrir hegningarlagabrot, fíkniefnabrot, umferðarlagabrot og vopnalagabrot. Við ákvörðun refsingar taldi Hæstiréttur því að líta yrði að líta til 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu og refsingu B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. ágúst 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu og ævilanga ökuréttarsviptingu ákærða og upptöku fíkniefna og gasvopns, en að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Sakaferill ákærða er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram á hann óslitinn sakaferil frá árinu 1999 og hefur ítrekað verið sakfelldur fyrir hegningarlagabrot, fíkniefnabrot, umferðarlagabrot og vopnalagabrot. Verður því að líta til 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við ákvörðun refsingar. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til þess að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti að viðbættum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Bergur Már Ágústsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 296.337 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 20. apríl 2012, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 20. desember 2011, á hendur ákærða, Bergi Má Ágústssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot framin á árunum 2010 og 2011:
I.
Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 16. september 2010, ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 440 ng/ml, kókaín í blóði 35 ng/ml, nítrazepam í blóði 125 ng/ml og tetrahýdrókannabínól í blóði 1,0 ng/ml), austur Suðurfell í Reykjavík, síðan norður og loks vestur Suðurfellið uns lögregla stöðvaði för hans við Austurberg 2.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.
II.
[ ]
III.
[ ]
IV.
Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 8. janúar 2011, ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 585 ng/ml og tetrahýdrókannabínól í blóði 6,0 ng/ml), vestur Skólavörðustíg í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði för hans.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.
V.
Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt þriðjudagsins 25. janúar 2011, ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 775 ng/ml og tetrahýdrókannabínól í blóði 5,7 ng/ml), norður Dalveg í Kópavogi, þar sem lögregla stöðvaði för hans.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.
VI.
1. Umferðarlagabrot með því að hafa, laugardaginn 29. janúar 2011, ekið bifreiðinni [...] óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 545 ng/ml af amfetamíni og 2,8 ng/ml af tetrahýdrókannabínól) um bifreiðastæði við bensínstöðina Select við Bústaðaveg 20 í Reykjavík, uns ákærði stöðvaði aksturinn á sama bifreiðastæði.
2. Fíkniefnalagabrot með því að hafa á sama stað og tíma og greinir í lið 1, haft í vörslum sínum 3,41 g af amfetamíni sem ákærði afhenti A, kt. [...], til að fela innanklæða og sem lögreglumenn fundu við leit á henni.
3. Vopnalagabrot með því að hafa á sama stað og tíma og greinir í lið 1 og 2 haft í vörslum sínum á almannafæri og átt gasvopn af gerðinni CS, sem lögreglumenn fundu við leit í buxnavasa ákærða.
Telst brot í 1. lið varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, brot í 2. lið við 1., sbr. 4. mgr. 2. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. 1. gr. laga nr. 60/1980 og 1. gr. laga nr. 13/1985, sbr. og reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001 og reglugerð nr. 848/2002. Brot í 3. lið telst varða við 1. sbr. 4. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998.
VII.
Umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 27. mars 2011 ekið bifreiðinni [...] suður Vesturlandsveg við Fiskilæk í Hvalfjarðarsveit með 118 km hraða, en leyfður hámarkshraði á veginum var 90 km/klst.
Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
VIII.
Umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 1. apríl 2011 ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 890 ng/ml, kókaín í blóði 75 ng/ml og tetrahýdrókannabínól í blóði 2,2 ng/ml), vestur Suðurhóla í Reykjavík þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.
IX.
Umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 10. apríl 2011 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti austur Miklubraut í Reykjavík, í Ártúnsbrekku, uns lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar.
Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
X.
Umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 9. júlí 2011 ekið bifreiðinni [...] austur Suðurlandsveg við Gljúfurholt í Ölfushreppi með 132 km hraða, en leyfður hámarkshraði á veginum var 90 km/klst.
Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
XI.
Umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 10. júlí 2011 ekið bifreiðinni [...] vestur Suðurlandsveg við Kirkjuferja með 153 km hraða, en leyfður hámarkshraði á veginum var 90 km/klst.
Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
XII.
Umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 23. júlí 2011 ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 680 ng/ml og tetrahýdrókannabínól í blóði 2,4 ng/ml), frá Landspítala í Fossvogi og inn á Bústaðaveg í Reykjavík þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.
XIII.
Umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 22. ágúst 2011 ekið bifreiðinni [...] við gatnamót Vesturlands- og Suðurlandsvegar í Reykjavík með 119 km hraða, en leyfður hámarkshraði á veginum var 80 km/klst.
Telst þetta varða við 1, sbr. 3. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
XIV.
Umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 6. október 2011 ekið bifreiðinni [...] eftir Miklubraut við Skeiðarvog í Reykjavík með 107 km hraða, en leyfður hámarkshraði á veginum var 80 km/klst.
Telst þetta varða við 1, sbr. 3. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk 3,41 g af amfetamíni, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, og að framangreint gasvopn og [ ], sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 16/1998.
Við meðferð málsins fyrir dómi féll sækjandi frá II. og III. ákæruliðum.
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.
Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í júlí 1984. Hann á óslitinn sakaferil frá árinu 1999, er ákæru á hendur honum var frestað skilorðsbundið vegna brots gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var 10. apríl 2001 dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Þá var hann dæmdur 1. júní 2001 í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir rán. Með dómi 24. júní 2002 var ákærði aftur dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr., 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og fíkniefnabrot. Þá var ákærði dæmdur 15. júlí 2002 í fjórtán mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var dæmdur til sektargreiðslu 26. nóvember 2002 fyrir umferðarlagabrot og sviptur ökurétti í þrjá mánuði. Þá hlaut hann 18 mánaða fangelsi, þar af voru 15 mánuðir skilorðsbundnir, með dómi 9. apríl 2003 fyrir fíkniefnabrot, vopnalagabrot, hylmingu og þjófnað. Hinn 3. október 2003 var ákærði dæmdur í 15 mánaða fangelsi, þar af voru 12 mánuðir skilorðsbundnir, fyrir fíkniefnabrot og var skilorðshluti dómsins frá 9. apríl 2003 þá dæmdur upp. Ákærða var með dómi 15. október 2004 gert að greiða sekt fyrir umferðarlagabrot og var hann þá jafnframt sviptur ökurétti í 3 mánuði. Með dómi Hæstaréttar 28. október 2004 var ákærði dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og fíkniefnabrot og var þá skilorðshluti dómsins frá 3. október 2003 tekinn upp og dæmdur með. Með dómi 3. nóvember 2004 var ákærði sakfelldur fyrir fíkniefnabrot, en honum var þá ekki gerð sérstök refsing og 9. nóvember 2004 gekkst hann undir sektargreiðslu vegna fíkniefnabrots. Hinn 18. nóvember 2004 var ákærði dæmdur til sektargreiðslu vegna umferðarlagabrota og var þá jafnframt sviptur ökurétti í 4 mánuði og 5. janúar 2005 gekkst hann undir sektargreiðslu vegna fíkniefnabrots. Hinn 4. mars 2005 var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir hylmingu og vopnalagabrot. Hinn 16. apríl 2007 var hann dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga. Hinn 28. júní 2007 var ákærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir skjalabrot, fjársvik, nytjastuld, fíkniefnabrot og umferðarlagabrot og sviptur ökurétti í 4 mánuði. Hann var 1. nóvember sama ár dæmdur í 9 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot. Hinn 23. júní 2008 var ákærði dæmdur í 2 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, hylmingu, gripdeild, nytjastuld, umferðarlagabrot, fíkniefnabrot og vopnalagabrot og jafnframt sviptur ökurétti í 3 mánuði. Hinn 6. mars 2009 hlaut hann 4 mánaða fangelsisdóm fyrir líkamsárás, gripdeild og frelsissviptingu. Hann var 22. október 2009 dæmdur í 2 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot. Þá gekkst hann 27. janúar 2010 undir sektargerð vegna umferðarlagabrota. Hinn 9. febrúar 2010 var ákærði dæmdur í mánaðar langt fangelsi fyrir fíkniefnabrot og brot gegn lögum um fullnustu refsingar. Þá gekkst hann tvívegis undir sektargerð á árinu 2011 fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnabrot. Samkvæmt vottorði Fangelsismálastofnunar sem liggur fyrir í málinu hlaut ákærði 27. maí 2010 reynslulausn, skilorðsbundið í 1 ár, á 149 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt framangreindum dómum uppkveðnum 16. apríl 2007, 28. júní 2007, 1. nóvember 2007, 23. júní 2008, 6. mars 2009, 22. október 2009 og 9. febrúar 2010. Ákærði hefur rofið skilorð reynslulausnarinnar og verða eldri málin tekin til meðferðar jafnframt máli þessu og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsingar nr. 49/2005. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir að hafa í sex skipti ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og í eitt skipti sviptur ökurétti. Eru umferðarlagabrot hans ítrekuð fyrsta og öðru sinni. Jafnframt er ákærði sakfelldur fyrir önnur umferðarlagabrot, fíkniefnabrot og brot gegn vopnalögum. Refsing verður tiltekin samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá dómsuppkvaðningu að telja.
Upptæk eru dæmd 3,41 g af amfetamíni og gasvopn, samkvæmt lagaákvæðum sem í ákæru greinir.
Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 175.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og við meðferð þess fyrir dómi. Ákærði greiði 911.663 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kjartan Ólafsson, fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Bergur Már Ágústsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá dómsuppkvaðningu að telja.
Upptæk eru dæmd 3,41 g af amfetamíni og gasvopn, samkvæmt lagaákvæðum sem í ákæru greinir.
Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 175.700 krónur og 911.663 krónur í annan sakarkostnað.