Hæstiréttur íslands
Mál nr. 305/1999
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Tímabundin örorka
- Matsgerð
|
|
Fimmtudaginn 3. febrúar 2000. |
|
Nr. 305/1999. |
Útgerðarfélag Akureyringa hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) gegn Óla G. Jóhannssyni (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Tímabundin örorka. Matsgerð.
Ó varð fyrir slysi við vinnu á skipi Ú. Örorkunefnd samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 mat varanlegan miska Ó vegna slyssins 22%, en varanlega örorku 40%. Þá taldi nefndin að eftir 1. janúar 1998 hefði Ó ekki mátt vænta frekari bata af meiðslun sínum, svo að máli skipti. Að fenginni álitsgerð örorkunefndar sömdu Ó og T, vátryggjandi Ú, um uppgjör bóta vegna slyssins að öðru leyti en því, að T féllst ekki á að bæta Ó tímabundið atvinnutjón nema frá slysdegi til 1. janúar 1997. Ó krafði Ú um skaðabætur fyrir tímabundið atvinnutjón vegna tímabilsins 1. janúar 1997 til 1. janúar 1998. Undir meðferð málsins voru dómkvaddir tveir menn, sem töldu að líta mætti svo á að Ó hefði fengið einhvern bata á tímabilinu frá ársbyrjun til 14. apríl 1997. Að fenginni þessari matsgerð greiddi T Ó bætur fyrir atvinnutjón hans til 14. apríl 1997, en frá þeim tíma væri lítil von um bata. Af framburði tveggja nefndarmanna örorkunefndar fyrir dómi og ummælum í áliti nefndarinnar var talið að leggja yrði til grundvallar, að niðurstaða nefndarinnar um að Ó hefði ekki mátt vænta frekari bata eftir 1. janúar 1998, hefði verið reist á mati hennar um þann tíma, sem hann hefði þurft til að jafna sig eftir aðgerð á öxl haustið 1996. Að virtu vottorði frá lækninum, sem annaðist aðgerðina, og mati dómkvaddra manna þótti ekkert liggja fyrir um að heilsa Ó hefði breyst eftir 14. apríl 1997 vegna atvika, sem rakin yrðu til slyssins. Var Ó talin hafa fengið tímabundið atvinnutjón sitt að fullu bætt og Ú því sýknað af kröfu hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. ágúst 1999. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda, svo og að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi varð fyrir slysi 2. september 1994 við vinnu á skipi áfrýjanda. Stefndi hlaut þar meiðsl á baki, hálsi og öxl. Leitaði hann lækninga eftir að skipið kom að landi og fékk einnig umfangsmikla sjúkraþjálfun, sem bar þó takmarkaðan árangur. Í febrúar 1996 gekkst hann undir aðgerð á öxl og aftur í október sama árs. Að sögn hans bættu þessar aðgerðir líðan hans lítið til lengri tíma litið. Í vottorði 29. apríl 1997 frá sérfræðingi í bæklunar- og skurðlækningum, sem hafði stundað stefnda, var talið að ekki væri unnt að bjóða honum upp á frekari meðferð og væri „lítil von um frekari bata.“
Áfrýjandi hafði vátryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni hf., sem nær til tjóns stefnda vegna vinnuslyss hans. Vátryggingafélagið, sem er stefnt til réttargæslu í málinu, beindi 4. júlí 1997 til örorkunefndar, sem starfar samkvæmt 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að hún legði mat á varanlega örorku og miska stefnda. Í álitsgerð nefndarinnar 22. apríl 1998 var varanlegur miski stefnda vegna slyssins metinn 22%, en varanleg örorka 40%. Þá taldi nefndin að eftir 1. janúar 1998 hafi stefndi ekki mátt vænta frekari bata af meiðslum sínum, svo máli skipti.
Að fenginni álitsgerð örorkunefndar sömdu stefndi og Tryggingamiðstöðin hf. 24. júní 1998 um uppgjör bóta vegna slyssins að öðru leyti en því að félagið féllst ekki á að bæta stefnda tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nema frá slysdegi til 1. janúar 1997. Var gerður fyrirvari í uppgjörinu um rétt stefnda til skaðabóta á þessum grunni vegna ársins 1997, en samkomulag tókst um að slíkar bætur gætu orðið 245.000 krónur fyrir hvern mánuð, eða samtals 2.940.000 krónur vegna alls umrædds árs. Stefndi höfðaði síðan málið 7. september 1998 til heimtu síðastnefndrar fjárhæðar. Var krafa hans tekin til greina með hinum áfrýjaða dómi.
Að gengnum héraðsdómi fékk Tryggingamiðstöðin hf. dómkvadda tvo menn til að meta hvort heilsufar stefnda hafi breyst til batnaðar á árinu 1997 hvað varðar afleiðingar slyssins, hvort slíkar breytingar, ef einhverjar væru, hefðu leitt til lækkunar á varanlegri örorku eða miska stefnda og hvenær matsmenn teldu að „stöðugleikatímapunkti vegna slyssins“ hafi verið náð. Í matsgerð hinna dómkvöddu manna 20. desember 1999 var talið að af nánar tilteknum ástæðum mætti líta svo á að stefndi hafi fengið einhvern bata á tímabilinu frá ársbyrjun til 14. apríl 1997, þessi bati hafi orðið til að lækka miskastig hans og heilsa hans hafi náð „stöðugleikatímapunkti“ síðastgreindan dag.
Að fenginni ofangreindri matsgerð greiddi Tryggingamiðstöðin hf. stefnda 27. janúar 2000 samtals 1.095.939 krónur. Samkvæmt málflutningi aðilanna fyrir Hæstarétti eru þeir sammála um að stefndi hafi með þessu fengið að fullu bætt tímabundið atvinnutjón sitt vegna tímabilsins frá 1. janúar til 14. apríl 1997 með 837.720 krónum, að viðbættum dráttarvöxtum að fjárhæð 258.219 krónur. Eins og áður greinir krefst áfrýjandi sýknu af kröfu stefnda. Leggur áfrýjandi þar til grundvallar að stefndi geti ekki lengur reist kröfu um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns á tímabilinu frá 14. apríl 1997 til 1. janúar 1998 á niðurstöðu örorkunefndar, sem hafi verið hnekkt með mati dómkvaddra manna.
II.
Ákvæði XXV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála standa ekki í vegi því að áfrýjandi geti fyrir Hæstarétti byggt á fyrrnefndri matsgerð, sem var aflað eftir uppkvaðningu héraðsdóms, enda sækir hann til hennar sönnun vegna málsástæðu, sem hann bar fyrir sig í héraði til stuðnings varakröfu sinni, en hún var efnislega sú sama og krafa áfrýjanda um sýknu er nú. Verður af þessum sökum ekki fallist á mótmæli stefnda gegn því að matsgerðinni verði komið að í málinu.
Um það tímamark, sem réði úrslitum um hversu lengi stefndi gæti átt rétt til bóta vegna tímabundins atvinnutjóns samkvæmt þágildandi ákvæði 2. gr. skaðabótalaga, sagði eftirfarandi í niðurstöðum álitsgerðar örorkunefndar: „Örorkunefnd telur að eftir 1. janúar 1998 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata sem máli skiptir af afleiðingum vinnuslyssins 2. september 1994.“ Þessi ályktun nefndarinnar er ekki rökstudd frekar í tengslum við tilvitnuð ummæli. Tveir nefndarmenn í örorkunefnd gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Af framburði þeirra virðist ekki annað verða ályktað en að niðurstaða nefndarinnar um þetta efni hafi verið reist á því annars vegar að stefndi hafi gengist undir síðari aðgerðina á öxl um haustið 1996, sem hafi tekið hann langt fram á árið 1997 að jafna sig af, og hins vegar að hann hafi farið að finna haustið 1997 fyrir dofa og kuldatilfinningu í handlegg, sem hafi tengst brjósklosi í hálsi. Varðandi síðastgreint atriði verður þó að líta sérstaklega til þess að í álitsgerð nefndarinnar segir að hún telji „ekki hægt að fullyrða hvort brjósklos tjónþola í hálsi stafi af slysinu“. Samkvæmt þessu er ekki annað unnt en að leggja til grundvallar að niðurstaða örorkunefndar um að stefndi hafi ekki mátt vænta frekari bata eftir 1. janúar 1998 hafi verið reist á mati hennar um þann tíma, sem hann hafi þurft til að jafna sig eftir umrædda aðgerð á öxl haustið 1996. Gagnstætt þessu stendur áðurnefnt vottorð 29. apríl 1997 frá lækninum, sem annaðist aðgerðina á stefnda, um að lítil von hafi verið um frekari bata en fram var kominn við læknisskoðun 14. sama mánaðar. Undir þetta álit læknisins er tekið í matsgerð dómkvaddra manna, sem lýstu meðal annars því áliti að eðlilegt væri að stefndi hafi þurft um hálft ár til að jafna sig eftir aðgerðina. Ekkert liggur fyrir um að heilsa stefnda hafi breyst eftir þetta vegna atvika, sem rakin verða til slyssins. Að virtu þessu í heild verða ekki séð haldbær rök til að líta svo á að stefndi hafi mátt vænta frekari bata eftir 14. apríl 1997. Samkvæmt því hefur stefndi þegar fengið tímabundið atvinnutjón sitt bætt með greiðslu áfrýjanda 27. janúar sl. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.
Áðurnefnd greiðsla áfrýjanda, sem leiðir nú til sýknu hans, var innt af hendi fjórum dögum fyrir munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Getur greiðsla á því stigi málsins ekki firrt áfrýjanda skyldu til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Útgerðarfélag Akureyringa hf., er sýkn af kröfu stefnda, Óla G. Jóhannssonar.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. apríl sl., er höfðað af Óla G. Jóhannssyni, Háhóli, Eyjafjarðarsveit, gegn Útgerðarfélagi Akureyringa, Fiskitanga, Akureyri og Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 6-8 Reykjavík, til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi, Útgerðarfélag Akureyringa hf., verði dæmdur til að greiða honum 2.940.000,00 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. maí 1998 til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins og virðisaukaskatts, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur aðili.
Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefnda.
Dómkröfur stefnda í málinu eru þær aðallega að sýknað verði af öllum kröfum stefnanda í málinu, en til vara er krafist lækkunar.
Í aðalkröfu er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins en í varakröfu er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að stefnandi slasaðist við vinnu sína 2. september 1994 á skuttogaranum Sólbaki EA 307, eign stefnda, Útgerðarfélags Akureyringa hf., þegar togarinn var við veiðar í Smugunni. Stefndi naut vátryggingarverndar réttargæslustefnda vegna skips og áhafnar þegar slysið bar að höndum og hefur réttargæslustefndi komið fram gagnvart stefnanda varðandi uppgjör á slysabótum.
Með beiðni, dags. 4. júlí 1997, óskaði réttargæslustefndi eftir mati örorkunefndar á varanlegri örorku og miskastigi stefnanda. Niðurstaða nefndarinnar lá fyrir þann 22. apríl 1998. Í áliti hennar, sem unnið var af Ragnari Halldóri Hall hrl. og læknunum Brynjólfi Mogensen og Magnúsi Ólasyni, kemur fram, að eftir 1. janúar 1998 hafi ekki verið að vænta frekari bata hjá stefnanda og var varanleg örorka hans metin 40% og miski 22%. Í niðurstöðu matsins sagði jafnframt á bls. 5 og 6:
"Þrátt fyrir viðamikla meðferð hefur líðan tjónþola lítið lagast. Hann hefur verið óvinnufær frá slysi... örorkunefnd telur að eftir 1. janúar 1998 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata sem máli skiptir af afleiðingum vinnuslyssins 2. september 1994."
Þegar álitið lá fyrir og réttargæslustefndi hafði kynnt sér það ritaði hann Örorkunefnd bréf þann 4. maí 1998. Í bréfinu spurðist hann fyrir um hvort í stað 1. janúar 1998 í áliti nefndarinnar ætti að standa 1. janúar 1997. Örorkunefnd kannaði málið og svaraði réttargæslustefnda með bréfi, dags. 7. maí 1998, og sagði þar:
"Farið er yfir gögn málsins og niðurstaðan ótvírætt sú að ekki hafi verið um misritun að ræða og er því ekki tilefni til breytingar á álitsgerðinni."
Þegar kom að uppgjöri skaðabóta á grundvelli álits örorkunefndar ákvað réttargæslustefndi, þrátt fyrir álitsgerðina og svar nefndarinnar frá 7. maí 1998, að líta svo á, sem stefnandi hefði aðeins verið óvinnufær frá slysdegi til og með 1. janúar 1997 og neitaði að greiða fyrir tímabundið atvinnutjón stefnanda á árinu 1997.
Við uppgjör skaðabóta þann 24. júní 1998 varð að samkomulagi að leggja ágreining um þetta atriði fyrir dómstóla. Jafnframt var samkomulag um að fjárhæð þessarar kröfu væri 2.940.000,00 krónur.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfu sína á því, að í máli þessu liggi fyrir læknisfræðileg gögn um að hann hafi verið óvinnufær á árinu 1997 og að ekki hafi verið að vænta frekari bata eftir 1. janúar 1998. Hann hafi því orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni á árinu 1997 í skilningi skaðabótalaga. Þrátt fyrir að þessi gögn liggi fyrir hefur stefndi neitað að greiða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón á árinu 1997. Sú neitun sé þó ekki byggð á neinum gögnum sem fá hnekkt áliti örorkunefndar um ástand stefnanda á árinu 1997.
Stefnandi byggir kröfu sína á l. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafa um dráttarvexti byggist á 15. gr. sbr. 10. gr. vaxtalaga nr. 2S/1987.
Krafa um málskostnað byggir á ákvæðum XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi byggir kröfur sínar í málinu á því að álitsgerð örorkunefndar sé röng. Í álitsgerð nefndarinnar, dags. 22. apríl 1998, komist örorkunefnd m.a. að þeirri niðurstöðu að eftir 1. janúar 1998 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata sem máli skipti af afleiðingum vinnuslyssins þann 2. september 1994. Hér sé um að ræða tímabundið atvinnutjón í 3 ár og 4 mánuði. Stefndi telur, með vísan til þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu og lögð voru fyrir örorkunefnd, svo og með vísan til skaðabótalaga nr. 50/1993, að þetta mat örorkunefndar sé rangt. Í meðferð bótamáls stefnanda hafi réttargæslustefndi boðist til að miða lok tímabundins atvinnutjóns stefnanda við 1. janúar 1997. Þó svo að stefndi telji að í raun hafi tímabundnu atvinnutjóni stefnanda lokið fyrir 1. janúar 1997 miðast aðalkrafa stefnda í málinu við þá dagsetningu. Til vara er gerð sú krafa að í síðasta lagi hafi ekki verið að vænta frekari bata fyrir tjónþola eftir 14. apríl 1997. Verði lok tímabundins atvinnutjóns stefnanda miðað við þá dagsetningu ætti hann rétt á 837.720,00 krónum í bætur fyrir tímabilið l. janúar til 14. apríl 1997.
Í framhaldi af þessu bendir stefndi á eftirfarandi:
Þó að mat á því hvenær ekki sé að vænta frekari bata samkvæmt skaðabótalögunum nr. 50/1993 feli í sér mat á læknisfræðilegu ástandi tjónþola sé hér um að ræða mat sem byggi á lögfræðilegri túlkun á skaðabótalögunum, þ.e.a.s. skaðbótalögin skilgreini hvaða meginregla liggi að baki orðalaginu "þegar ekki er að vænta frekari bata".
Stefndi telur það rétta túlkun á skaðabótalögunum að ekki sé að vænta frekari bata fyrir tjónþola frá og með því tímamarki þegar læknisfræðileg meðferð reynist ekki lengur hafa áhrif til breytinga á miskastigi eða fjárhagslegri örorku tjónþola vegna slyss. Komi þannig í ljós að tiltekin læknisfræðileg meðferð hafi ekki áhrif til breytinga á miska- eða fjárhagslega örorku geti sú meðferð ekki orðið til þess að lengja tímabundið atvinnutjón tjónþola samkvæmt skaðabótalögunum. Stefndi telur því að hér eigi að beita hlutlægu mati á hver árangur meðferðar hafi orðið, en ekki huglægu mati á hvort viðkomandi læknisfræðileg meðferð var réttlætanleg. Þannig megi ljóst vera að sú meðferð sem ekki skilar árangri geti ekki lengt tímabil tímabundins atvinnutjóns tjónþola.
Stefndi telur hins vegar að örorkunefnd hafi í álitsgerð sinni í máli stefnanda nálgast spurninguna um hvenær ekki hafi verið að vænta frekari bata fyrir stefnanda út frá þeirri forsendu hvað sé læknisfræðilega réttlætanleg meðferð á hverjum tíma en ekki út frá því hvort sú meðferð hafi haft áhrif á varanlegan miska eða örorku stefnanda vegna slyssins.
Stefndi telur að læknisfræðileg gögn í málinu sýni með hlutlægum hætti fram á að tímabundnu atvinnutjóni stefnanda vegna slyssins þann 2. september 1994 hafi verið lokið þann l. janúar 1997. Þar bendir stefndi á eftirfarandi:
1.Gerðar hafi verið tvær aðgerðir á vinstri öxl stefnanda án sýnilegs varanlegs árangurs. Fyrri aðgerðin hafi verið framkvæmd þann 23. febrúar 1996 og sú seinni þann 15. október 1996.
2.Stefnandi hafi komið í lokaskoðun til Ara H. Ólafssonar þann 14. apríl 1997 og í vottorði frá Ara, dags. 29. apríl 1997 komi fram að hann telur að ekki sé hægt að bjóða stefnanda upp á frekari meðferð og því sé formlegri læknisfræðilegri meðferð vegna slyssins frá 1994 lokið, enda sé ekki ástæða til að ætla að um frekari bata verði að ræða. Þá komi fram í álitsgerð örorkunefndar að nefndin hafi ekki haft við matið undir höndum læknisfræðileg gögn sem voru dagsett seinna en lokavottorð Ara H. Ólafssonar frá 29. apríl 1997.
3.Hvað varðar verki í baki og hálsi vegna slyssins bendi læknisfræðileg gögn eindregið til þess að þeir áverkar lengi ekki tímabundið atvinnutjón umfram það sem stafar af áverka á vinstri öxl. Þannig komi fram í læknisvottorði á dómsskjali nr. 19 að við skoðun þann 28. október 1996 hafi Halldór Jónsson, yfirlæknir á bæklunardeild Landspítalans talið að þó svo að stefnandi væri með útbreiddar slitbreytingar í hálsi, og reyndar á einum stað brjósklos samkvæmt niðurstöðu segulómskoðunar frá 19. ágúst 1996, sé alsendis óvíst um árangur aðgerðar og hafi því ekki ráðlagt slíka meðferð.
4.Þá komi fram í niðurstöðu álitsgerðar örorkunefndar að þrátt fyrir viðamikla meðferð hafi líðan tjónþola lítið lagast. Það virðist því ljóst að sú læknisfræðilega meðferð sem stefnandi gekk í gegnum vegna slyssins frá 2. september 1994 hafði lítil áhrif haft á varanlegan miska eða fjárhagslega örorku stefnanda vegna slyssins.
Sem enn frekari rök fyrir kröfugerð sinni bendir stefndi á eftirfarandi:
1.Í álitsgerð örorkunefndar geri nefndin enga tilraun til að rökstyðja það hvernig hún komist að þeirri niðurstöðu að eftir 1. janúar 1998 hafi ekki verið að vænta frekari bata fyrir stefnanda. Í því sambandi vilji stefndi benda á 1. og 4. gr. reglugerðar nr. 335/1993 um starfsháttu örorkunefndar. Þar komi fram í 1. gr. að nefndin gefi álit um miskastig eða örorkustig eftir 4. og 5. gr. skaðabótalaga og að í áliti nefndarinnar skuli að jafnaði koma fram hvenær nefndin telji að tjónþoli hafi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum líkamstjóns. Í 4. gr. reglugerðarinnar komi síðan fram að niðurstöðu örorkunefndar skuli fylgja stuttur rökstuðningur.
2.Í álitsgerð örorkunefndar komi fram að frá og með október 1997 hafi stefnandi haft eins og dofa- eða kuldatilfinningu í vinstri baug- og litlafingri. Þetta komi hins vegar ekki fram í neinum læknisfræðilegum gögnum sem liggi fyrir í málinu og virðist því eingöngu haft eftir tjónþola í viðtali við Brynjólf Mogensen lækni þann 4. febrúar 1998. Ekki sé heldur á þetta minnst í niðurstöðu örorkunefndarinnar. Því virðist sem nefndin hafi ekki talið þetta til þess fallið að hafa áhrif á miskastig eða varanlega fjárhagslega örorku stefnanda vegna slyssins frá 2. september 1994.
3.Þá bendir stefndi einnig á það, varðandi huglægt mat stefnanda á læknisfræðilegu ástandi sínu, að í álitsgerð örorkunefndar sé haft eftir honum að hann telji líðan sína hafa verið nánast óbreytta frá 1. janúar 1997. Þá komi einnig fram í álitsgerð örorkunefndar að stefnanda fannst aðgerðin þann 15. október 1996 hafa gert lítið gagn.
Þá mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur að hér eigi að greiða vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga ef um áfellisdóm verði að ræða.
Niðurstaða
Ekki er í máli þessu deilt um málsatvik eða fjárhæð dómkröfunnar. Ágreiningur málsaðila snýst um það hvert var tímabundið atvinnutjón stefnanda. Stefnandi byggir á því, eins og áður segir, að stefnandi hafi verið óvinnufær á árinu 1997 og að ekki hafi verið að vænta frekari bata eftir 1. janúar 1998. Stefndi heldur því hins vegar fram að tímabundnu atvinnutjóni stefnanda hafi verið lokið þann 1. janúar 1997.
Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal ákveða bætur fyrir atvinnutjón þann tíma frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til ekki er að vænta frekari bata.
Í álitsgerð sinni, dagsettri 22. apríl 1998, kemst örorkunefnd að þeirri niðurstöðu að eftir 1. janúar 1998 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata sem máli skipti af afleiðingum vinnuslyssins 2. september 1994. Ítrekaði örorkunefnd þessa niðurstöðu sína í svari sínu til stefnda varðandi þá spurningu hvort um ritvillu gæti verið að ræða þannig að ártalið hefði átt að vera 1997 en ekki 1998. Í bréfi örorkunefndar segir: “Farið er yfir gögn málsins og er niðurstaðan ótvírætt sú að ekki hafi verið um misritun að ræða og er því ekki tilefni til breytingar á álitsgerðinni.”
Stefndi byggir á því, eins og fram er komið, að örorkunefnd hafi í álitsgerð sinni nálgast spurninguna um hvenær ekki var að vænta frekari bata fyrir stefnanda út frá þeirri forsendu hvað sé læknisfræðilega réttlætanleg meðferð á hverjum tíma en ekki út frá því hvort sú meðferð hafi haft áhrif á varanlegan miska eða örorku stefnanda vegna slyssins.
Í greinargerð með 2. gr. skaðabótalaga segir svo m.a.: “Venjulega er ekki að vænta frekari bata þegar svo er komið að áliti lækna að ólíklegt sé að tjónþoli læknist frekar af afleiðingum líkamstjóns.”
Í læknisvottorði Ara H. Ólafssonar læknis dagsettu 29. apríl 1997 segir í samantekt að lækninum sýnist ekki hægt að bjóða stefnanda upp á frekari meðferð. Miðað við það sem komið hefði fram við skoðanir og vital við hann sýnist því miður lítil von um frekari bata.
Vottorð þetta var eitt þeirra vottorða er lágu fyrir hjá örorkunefnd er hún vann að áliti sínu.
Eins og fram er komið taldi örorkunefnd að eftir 1. janúar 1998 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata sem máli skipti af afleiðingum slyssins. Ekki er þessi niðurstaða sérstaklega rökstudd í álitsgerð nefndarinnar. Brynjólfur Mogensen læknir, einn nefndarmanna í Örorkunefnd, kom fyrir dóminn. Bar hann að stefnandi hefði frá slysi verið í umfangsmikilli meðferð og komið reglubundið til lækna. Hann hafi, fyrri hluta árs 1996, farið í aðgerð á öxl og síðan aftur í aðgerð síðari hluta árs 1996 á sömu öxl. Taldi hann að stefnandi hefði verið langt fram á árið 1997 að jafna sig eftir þessa síðari aðgerð. Á árinu 1997 hafi hann fengið ný einkenni, en eins og fram komi í álitsgerðinni hafi stefnandi haft dofa- eða kuldatilfinningu í vinstri hendi frá hausti 1997. Með hliðsjón af þeim atriðum sem rakin séu í niðurstöðukafla álitsgerðar og með hliðsjón af allri sjúkrasögu stefnanda, hafi nefndin komist að umræddri niðurstöðu, þ.e. að eftir 1. janúar 1998 sé ólíklegt að stefnandi læknist frekar af afleiðingum þess líkamstjóns er hann hlaut í slysinu.
Engin ný læknisfræðileg gögn hafa verið lögð fram í málinu eftir að álitsgerð örorkunefndar lá fyrir. Þykir ekki sýnt fram á í málinu að meðferð sú sem stefnandi hlaut eftir 1. janúar 1997 hafi verið gagnslaus og því ekki haft nein áhrif til lækkunar á varanlega örorku eða varanlegan miska stefnanda. Hefur áliti örorkunefndar því ekki verið hnekkt og verður á því byggt varðandi það hvenær stefnandi gat ekki vænst frekari bata, þ.e. 1. janúar 1998.
Ber samkvæmt framansögðu að taka kröfur stefnanda til greina, en ágreiningur er ekki um fjárhæðir eins og áður segir. Dráttarvaxtakrafa er tekin til greina eins og hún er fram sett.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 300.000 krónur og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Útgerðarfélag Akureyringa hf., greiði stefnanda, Óla G. Jóhannssyni, 2.940.000,00 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. maí 1998 til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.