Hæstiréttur íslands
Mál nr. 419/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Einkaskipti
|
|
Fimmtudaginn 20. nóvember 2003. |
|
Nr. 419/2003. |
A (Svala Thorlacius hrl.) gegn B (Jón Einar Jakobsson hdl.) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Einkaskipti.
A krafðist opinberra skipta á dánarbúi foreldra sinna. Upphafleg krafa hans þessa efnis var lögð fyrir héraðsdóm 16. maí 2002. Í þeirri kröfu var í engu getið að erfingjum hefði áður verið veitt leyfi til einkaskipta, sbr. skilyrði 1. töluliðar 1. mgr. 42. gr. laga nr. 20/1991. Auk þessa hafði A látið hjá líða að senda sýslumanni samrit kröfunnar eins og gert er skylt í 3. mgr. 42. gr. sömu laga. Hvorki B né hálfsystir aðilanna voru boðaðar til þinghalds, þar sem beiðni A var tekin fyrir, með þeim hætti sem áskilið er í 43. gr. laga nr. 20/1991. Þá var sýslumanni fyrst tilkynnt um að dánarbúið hefði verið tekið til opinberra skipta sex dögum eftir að hann áritaði erfðafjárskýrsluna um staðfestingu sína. Var sýslumanni því hvorki kunnugt um kröfu A um opinber skipti þegar hann móttók umrædda erfðafjárskýrslu né þegar hann áritaði hana um staðfestingu. Með vísan til framangreinds var talið að með áritun sýslumanns 14. júní 2002 hafi skiptum á dánarbúi X og Z lokið, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991. Varð því ekki fallist á kröfu A og úrskurður héraðsdóms staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú X og Z yrði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að umrætt dánarbú verði tekið til opinberra skipta. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða honum kærumálskostnað.
I.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lést X [...] febrúar 2002, en hún sat í óskiptu búi eftir að eiginmaður hennar, Z, lést [...] 1973. Z var fæddur á árinu 1909, en X 1919. Aðilar málsins eru börn þeirra hjóna. Hálfsystir þeirra samfeðra, C, tekur einnig lögarf.
Samkvæmt gögnum málsins veitti sóknaraðili lögmanni sínum 14. mars 2002 fullt og ótakmarkað umboð til að gæta hagsmuna sinna við skipti á dánarbúi foreldra sinna. Tveimur dögum síðar undirritaði sóknaraðili ásamt varnaraðila og hálfsystur þeirra beiðni um leyfi til einkaskipta, þar sem varnaraðila var veitt umboð til að koma fram af þeirra hálfu og í nafni dánarbúsins. Með áritun sýslumannsins í Reykjavík 18. mars 2002 á beiðnina var erfingjunum veitt leyfi til einkaskipta. Tæpum tveimur mánuðum síðar, eða 16. maí 2002, lagði sóknaraðili kröfu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur um að dánarbú foreldra hans yrði tekið til opinberra skipta. Meðfylgjandi kröfunni var afrit af skattframtali X 2001. Héraðsdómari tók þessa kröfu fyrir á dómþingi 7. júní 2002. Var þá sótt þing af hálfu sóknaraðila, en að því er varðar varnaraðila og hálfsystur aðila, sem hlut áttu að málinu, færði héraðsdómari eftirfarandi í þingbók: „Tilraun var gerð til að boða [B] og [C] til þessa þinghalds. Ekki tókst að birta [C] fyrirkall en óupplýst er hvort tókst að birta [B] fyrirkall.“ Að kröfu sóknaraðila var krafa hans um opinber skipti tekin þá þegar til úrskurðar. Með úrskurði 10. júní 2002 var með vísan til 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 fallist á að dánarbúið yrði tekið til opinberra skipta. Varnaraðili kærði úrskurðinn tvívegis til Hæstaréttar, sem vísaði málinu í bæði skiptin frá Hæstarétti, með dómum 3. september 2002 í máli nr. 325/2002 og 3. desember sama árs í máli nr. 531/2002.
Með beiðni 9. desember 2002 óskaði varnaraðili eftir því við Hæstarétt að fyrrnefndur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur yrði endurupptekinn. Hæstiréttur varð við beiðni varnaraðila 22. maí 2003 og var málið endurupptekið fyrir héraðsdómi 30. sama mánaðar. Í málinu krefst sóknaraðili sem fyrr að dánarbú X og Z verði tekið til opinberra skipta. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði afhenti varnaraðili sýslumanni erfðafjárskýrslu vegna dánarbúsins 7. júní 2002, sem var árituð 14. sama mánaðar um staðfestingu hans. Fyrir héraðsdóm var lagt bréf sýslumanns til varnaraðila 14. mars 2003 þar sem fram kom að embættinu hafi fyrst 20. júní 2002 borist upplýsingar frá Héraðsdómi Reykjavíkur um að dánarbúið hefði verið tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms 10. júní 2002. Svo sem áður var getið var kröfu sóknaraðila hafnað með úrskurði héraðsdóms 2. október 2003.
II.
Í máli því, sem hér er til umfjöllunar, krefst sóknaraðili eins og áður greinir að dánarbú X og Z verði tekið til opinberra skipta. Upphafleg krafa sóknaraðila þessa efnis var lögð fyrir héraðsdóm 16. maí 2002. Í þeirri kröfu sóknaraðila var í engu getið að erfingjum hefði áður verið veitt leyfi til einkaskipta, sbr. skilyrði 1. töluliðar 1. mgr. 42. gr. laga nr. 20/1991. Auk þessa lét sóknaraðili hjá líða að senda sýslumanni samrit kröfunnar eins og gert er skylt í 3. mgr. 42. gr. sömu laga. Hvorki varnaraðili né hálfsystir aðilanna voru boðaðar til þinghalds, þar sem beiðni sóknaraðila var tekin fyrir, með þeim hætti sem áskilið er í 43. gr. laga nr. 20/1991. Sýslumanni var fyrst tilkynnt um að dánarbúið hefði verið tekið til opinberra skipta 20. júní 2002 eða sex dögum eftir að hann áritaði erfðafjárskýrsluna um staðfestingu sína. Var sýslumanni því hvorki kunnugt um kröfu sóknaraðila um opinber skipti þegar hann móttók umrædda erfðafjárskýrslu né þegar hann áritaði hana um staðfestingu. Ljóst er af gögnum málsins að sýslumaður hefur talið skilyrði vera uppfyllt til að ljúka skiptum án þess að krefja erfingja um einkaskiptagerð, sbr. 4. mgr. 93. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt framangreindu verður að telja að með áritun sýslumanns 14. júní 2002 hafi skiptum á dánarbúi X og Z lokið, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991. Með vísan til þessa verður ekki fallist á kröfu sóknaraðila um opinber skipti á dánarbúi X og Z. Samkvæmt öllu framanröktu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2003.
Mál þetta var þingfest 7. júní 2002 og tekið til úrskurðar 10. sama mánaðar. Úrskurði héraðsdóms var skotið til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2002 og var málinu vísað þar frá dómi 3. september sama ár. Með bréfi, sem móttekið var í héraðsdómi 2. október 2002 fór B fram á að málið yrði endurupptekið og með bréfi, sem móttekið var í héraðsdómi 21. sama mánaðar, var beiðni um endurupptöku ítrekuð og rökstudd. Þann 6. nóvember sama ár var beiðninni hafnað af héraðsdómara.
Með bréfi, dags. 22. maí 2003, tilkynnti Hæstiréttur Íslands lögmanni varnaraðila að umsókn hans um leyfi til endurupptöku á úrskurði héraðsdóms frá 10. júní 2002 hafi verið samþykkt. Málið var endurupptekið 30. sama mánaðar og tekið til úrskurðar 24. september sl.
Sóknaraðili er A, [...].
Varnaraðili er B, [...].
Dómkröfur sóknaraðila eru að dánar- og félagsbú X og Y verði tekið til opinberra skipta. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðu yfirliti.
Dómkröfur varnaraðila eru að kröfu sóknaraðila um opinber skipti verði hafnað og sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt framlögðum reikningi.
Helstu málavextir eru að X lést [...] febrúar 2002, en hún sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, Z, er lést [...] 1973. Lögerfingjar hinna látnu eru aðilar málsins og C, [...].
Þann 14. mars 2002 veitti sóknaraðili Svölu Thorlacius hrl. fullt og ótakmarkað umboð til að gæta hagsmuna sinna vegna skipta á dánarbúi foreldra hans.
Þann 16. mars 2002 undirrituðu allir erfingjarnir beiðni um leyfi til einkaskipta sem síðan var afhent sýslumanninum í Reykjavík 18. sama mánaðar. Þar eru eignir búsins taldar íbúð að Q hér í borg að fasteignamati 10.882.000 kr. og bankainnistæður samtals að fjárhæð 91.905 kr. Skuldir eru taldar veðskuldir samtals að fjárhæð 969.085 kr. Í bréfinu er m.a. lýst yfir að greindar upplýsingar um eignir og skuldir dánarbúsins séu gefnar eftir bestu vitund erfingja og að varnaraðila, B, sé veitt umboð til að koma fram af hálfu erfingja og í nafni dánarbúsins í samskiptum við aðra, þar á meðal við ráðstöfun eigna, viðtöku andvirðis þeirra og opinbera skýrslugerð og til að taka við tilkynningum í þágu erfingja vegna dánarbúsins.
Af hálfu sýslumanns var beiðnin árituð 18. mars 2002 í þá veru, að með því að skilyrðum laga væri fullnægt, væri umbeðið leyfi til einkaskipta veitt, en ljúka bæri skiptum með afhendingu einkaskiptagerðar og erfðafjárskýrslu ekki síðar en 23. febrúar 2003.
Nú segir í bréfi frá Svölu Thorlacius hrl. til varnaraðila, sem dags. er 19. mars 2002:
Til mín hefur leitað [A], ..., vegna skipta á dánarbúi foreldra ykkar. Hefur hann gefið mér umboð til að ganga frá skiptum á búinu fyrir sína hönd.
Hann hefur undir höndum staðfest ljósrit af skattframtali móður ykkar, ..., árið 2001. Koma þar fram bankainnistæður í Landsbanka Íslands og Íslandsbanka samtals að upphæð kr. 3.485.889.-
Þegar hann fór í þessa banka kom í ljós að innistæður þessar eru nánast horfnar og telur hann sig ekki hafa fengið neinar viðhlítandi skýringar á því hvernig á því standi.
Tjáir hann mér að þú hafir haft heimild til að taka út af bankareikningum og því fyrir hans hönd vinsamlega óskað eftir því að gögn verði lögð fram sem sýni hvernig innistæðum þessum hefur verið ráðstafað.
Svar óskast fyrir 26. mars n.k.
Þann 16. maí 2002 var móttekin í Héraðsdómi Reykjavíkur beiðni sóknaraðila um opinber skipti á dánarbúi X og Z. Og rúmum þremur vikum síðar eða 7. júní var beiðnin tekin fyrir og þingfest. Einungis var sótt þing af hálfu sóknaraðila en bókað, að tilraun hafi verið gerð til að boða varnaraðila og C, en ekki hefði tekist að birta C fyrirkall og óupplýst væri hvort tekist hefði að birta varnaraðila, B, boð um þinghaldið. Málið var þó tekið til úrskurðar að kröfu sóknaraðila.
Þann 10. júní 2002 var úrskurðað í héraðsdómi að dánarbúið væri tekið til opinberra skipta með vísun til 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991.
Í millitíðinni hafði það gerst að varnaraðili afhenti sýslumanni erfðafjárskýrslu, sem undirrituð er af varnaraðila 7. júní 2002. En skýrslan var samþykkt af sýslumanni 14. sama mánaðar. Þar eru eignir taldar fasteign að Q að fasteigna-matsverði 10.377.000 kr. og inneign í bönkum 1.524.368 kr. Frá andvirði eigna er dreginn útfararkostnaður samtals að fjárhæð 342.014 kr., opinber gjöld að fjárhæð 120.000 kr. og aðrar skuldir samtals að fjárhæð 68.657 kr. Hrein eign til skipta samkvæmt skýrslunni nemur því 11.370.697 kr. Erfðafjárskattur og skiptagjald samtals að fjárhæð 828.184 kr. var greitt sýslumanni samdægurs.
Í bréfi sýslumannsins í Reykjavík til lögmanns varnaraðila 14. mars 2003 segir:
Varðar fyrirspurn yðar vegna dánarbús [X], ...
Vísan til símbréfs yðar, dags. 11. mars s.l., er barst embættinu þann 13. mars s.l., en þar óskið þér eftir nánari upplýsingum um, hvenær umbjóðandi yðar skilaði til sýslumannsins í Reykjavík erfðafjárskýrslu vegna umrædds dánarbús. Skal upplýst, að umbjóðandi yðar átti pantaðan tíma í skiptadeild, samkvæmt dagbók embættisins, kl. 09:30 þann 6. júní 2002. Samkvæmt gögnum embættisins var erfðafjárskýrsla vegna búsins móttekin þann 7. júní 2002. Gögn sem farið var fram á að umbjóðandi yðar legði fram vegna skýrslunnar er hún mætti fyrst með hana, voru að berast embættinu til 13. júní 2002. Skýrslan var, svo sem hún ber með sér, árituð um staðfestingu af fulltrúa embættisins þann 14. júní 2002 og erfðafjárskýrslan [svo] var greidd hjá gjaldkera embættisins sama dag.
Það skal áréttað að embættinu barst fyrst þann 20. júní 2002 upplýsingar frá Héraðsdómi Reykjavíkur um að dánarbúið hefði verið tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms þann 7. júní 2002.
Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að hann hafi ekki ætlað að standa að einkaskiptum á dánarbúinu þó hann hefði undirritað beiðni þess efnis. Kveðst hann hafa skrifað undir beiðnina að frumkvæði varnaraðila og verið í villu um efni hennar. Varnaraðili hafi þar að auki ekki verið búinn að setja nafn sitt sem umboðsmaður á beiðnina þegar sóknaraðili undirritaði hana. Í öðru lagi hafi varnaraðila sannarlega verið ljóst að ágreiningur var milli hennar og sóknaraðila málsins um búskiptin þegar hún skilaði inn beiðni til einkaskipta. Þá er byggt á því að einkaskiptum sé ekki lokið í málinu, þar sem öllum erfingjum hafi ekki verið greitt það sem þeim bar skv. erfðafjárskýrslu. Raunar hafi ekki allar eignir hinnar látnu komið til skipta.
Verði talið að sóknaraðili hafi veitt varnaraðila umboð til einkaskipta, þá byggir sóknaraðili á því að umboðið hafi fallið niður með beiðni sóknaraðila um opinber skipti 14. maí 2002. Einkaskiptum hafi þannig ekki getað lokið þegar erfðafjárskýrslu var skilað til sýslumannsins í Reykjavík 14. júní 2002 þar sem áður hafði verið farið fram á opinber skipti.
Varnaraðili byggir á því að allir erfingjar hafi undirritað 16. mars 2002 beiðni til sýslumannsins í Reykjavík um leyfi til einkaskipta og hafi beiðnin jafnframt falið í sér umboð til varnaraðila „til að koma fram af hálfu (erfingja) og í nafni dánarbúsins í samskiptum við aðra, þar á meðal við ráðstöfun eigna, viðtöku andvirðis þeirra og opinbera skýrslugerð og til að taka við tilkynningum í (erfingja) þágu vegna dánarbúsins." Sýslumaður hafi tekið við beiðninni 18. mars 2002. Erfðafjárskýrslu hafi síðan verið skilað til sýslumanns 6. júní 2002, en undirrituð hjá sýslumanni eftir lagfæringu 7. júní og yfirfarin og síðan samþykkt með undirritun sýslumanns 14. júní 2002.
Þá er byggt á því að varnaraðila hafi fyrst borist vitneskja um úrskurð héraðsdóms í málinu frá 10. júní 2002 er henni barst bréf frá Steinunni Guðbjartsdóttur hdl., dags. 24. júní 2002. Öll meðferð málsins uns það var endurupptekið í héraði sé marklaus og ógild og hafi engin réttaráhrif.
Krafa varnaraðila um að synjað verði um opinber skipti kveðst varnaraðili reisa fyrst og fremst á því að einkaskiptum í búinu hafi lokið með afhendingu á erfðafjárskýrslu 7. júní 2002 og formlegri samþykkt sýslumanns 14. júní 2002. Skiptum hafi lokið og verða þau ekki tekin upp á ný enda engar eignir komið síðar í ljós, sem koma hefðu átt til skipta. Vísað er til 94. gr. og 1. mgr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1991 í því sambandi.
Varnaraðili kveðst hafa í góðri trú annast það, sem henni hafi verið falið í sambandi við skiptin sem nú sé lokið. Telji sóknaraðili, að varnaraðili hafi farið út fyrir umboð sitt á einhvern hátt eða brugðist skyldum sínum, verði hann að leita annarra leiða en að krefjast opinberra skipta. Varnaraðili kveðst ekki hafa vitað um umboðið sem sóknaraðili veitti Svölu Thorlacíus hrl. 14. mars 2002 fyrr en eftir að sóknaraðili hafði undirritað ásamt öðrum erfingjum beiðni um leyfi til einkaskipta 16. mars 2002. Varnaraðili ætlar að umboð lögmannsins hljóti að takmarkast af umboði sem sóknaraðili veitti varnaraðila tveimur dögum síðar. Undirritun sóknaraðila á beiðnina um leyfi til einkaskipta og þar með umboð varnaraðila til að annast skiptin bendi ekki til annars. Þá er bent á að í umboði lögmannsins sé ekki sérstaklega veitt heimild til að krefjast opinberra skipta. Það verði ekki fyrr en með yfirlýsingu sóknaraðila, sem dagsett er 5. júní 2003 og lögð fram í héraðsdómi 19. sama mánaðar, að hann reyni að afturkalla beiðni sína um einkaskipti.
Varnaraðili mótmælir sérstaklega sem röngum og ósönnuðum staðhæfingum sóknaraðila um, að hann hafi á einhvern hátt verið blekktur eða ranglega upplýstur um efni og inntak beiðninnar um leyfi til einkaskipta. Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa lesið skjalið yfir gaumgæfilega, rætt efni þess við aðra viðstadda og undirritað það af fúsum og frjálsum vilja. Nafn varnaraðila sem umboðsmanns hafi þegar verið fært inn á skjalið, áður en til undirritunar kom og ekki hefði hann minnst á að hafa falið öðrum að gæta hagsmuna sinna við skiptin.
Niðurstaða: Þar sem Hæstiréttur Íslands hefur ákveðið endurupptöku á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. júní 2002 í þessu máli, verður að fallast á með varnaraðila, að dánarbú X og Z hafi ekki með réttum hætti verið tekið til opinberra skipta.
Sóknaraðila hefur ekki tekist að leiða líkur að því að hann hafi ekki skilið efni beiðni erfingjanna um leyfi til einkaskipta 16. mars 2002. Og staðhæfing sóknaraðila, um að nafn varnaraðila sem umboðsmanns þeirra hafi verið sett síðar í skýrsluna, hefur - gegn andmælum varnaraðila - ekkert sér til stuðnings.
Beiðni sóknaraðila um opinber skipti á dánarbúinu var móttekin í héraðsdómi 16. maí 2002. Ekki er sannað að varnaraðila hafi verið kunnugt um það. Og þá liggur fyrir að sýslumanni var ekki kunnugt um það fyrr en 20. júní 2002.
Með áritun sýslumanns á erfðafjárskýrsluna frá 7. júní 2002 um að skýrslan sé yfirfarin og samþykkt 14. sama mánaðar, lauk skiptum á dánarbúinu, sbr. 95. gr. laga nr. 20/1991. Hafna verður því kröfu sóknaraðila.
Málskostnaður fellur niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að dánarbú X og Z verði tekið til opinberra skipta.
Málskostnaður fellur niður.