Hæstiréttur íslands

Mál nr. 405/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá
  • Umgengni


Föstudaginn 21

 

Föstudaginn 21. ágúst 2009.

Nr. 405/2009.

K

(Sveinn Sveinsson hrl. )

gegn

M

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að ekki væru efni til að verða við kröfu hvors málsaðila um sig um forsjá dætra þeirra til bráðabirgða meðan forsjármál væri ekki til lykta leitt. Þá var ekki fallist á að breyta fyrirkomulagi á umgengni. Krafa K, um að lögheimili barnanna yrði hjá henni á umræddum tíma og að M greiddi einfalt meðlag með þeim, var hins vegar tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2009, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um forsjá tveggja dætra þeirra til bráðabirgða, umgengni við þær og greiðslu meðlags. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um umgengni varnaraðila við dætur þeirra verði breytt aðallega á þann veg að hún verði engin þar til endanlega verði leyst úr máli þeirra um forsjá barnanna, en til vara að umgengni verði hagað þannig að hún verði aðra hvora helgi frá kl. 17 á föstudegi til kl. 17 á sunnudegi og undir eftirliti Barnaverndar Reykjavíkur. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Ekki eru efni til að verða við kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, K fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 150.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2009.

I.

Mál þetta var þingfest 14. maí sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 25. júní sl.

Sóknaraðili er K, [...], en varnaraðili M, [...], bæði í Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að henni verði til bráðabirgða falin forsjá dætra málsaðila, A, kt. [...], og B, kt. [...], þar til endanleg ákvörðun liggur fyrir í forsjármáli aðilanna, og að varnaraðila verði gert að greiða einfalt meðlag með börnunum, eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni, frá 1. júní 2008. Jafnframt er þess krafist að dómurinn kveði á um umgengni barnanna við varnaraðila.

Til vara gerir hún þá kröfu að bæði börnin hafi lögheimili hjá henni og að varnaraðili greiði með þeim meðlag, eins og krafist er í aðalkröfu, svo og að kveðið verði á um umgengni barnanna við varnaraðila.

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila, að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila veri hafnað og að varnaraðila verði þess í stað falin forsjá telpnanna til bráðabirgða, meðan á rekstri forsjármáls þeirra stendur.

Til vara er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að lögheimili telpnanna verði hjá varnaraðila, en til þrautavara að dómurinn kveði á um lögheimili þeirra.

Í báðum tilvikum krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða einfalt meðlag með hvorri telpunni frá 1. júní 2009 þar til endanlegur dómur gengur í málinu. Þá er þess krafist að samvistir verði óbreyttar, þannig að börnin dvelji hjá varnaraðila í öllum vaktafríum hans frá vinnu. Fallist dómurinn að einhverju leyti á kröfur sóknaraðila krefst varnaraðili þess að meðlagskröfu sóknaraðila verði hafnað. Loks krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, að mati réttarins, en til vara að ákvörðun málskostnaðar verði látin bíða endanlegs dóms í forsjármáli þeirra.

II.

Samkvæmt stefnu, sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. febrúar sl., gerir stefnandi, sóknaraðili í þessum þætti málsins, kröfu um að henni verði með dómi veittur skilnaður að borði og sæng frá varnaraðila, að henni verði einni falin forsjá dætra þeirra, A og B, að varnaraðila greiði meðlag með dætrunum og að ákveðið verði hvernig umgengni dætranna skuli háttað við það foreldri sem þær búa ekki hjá. Stefndi, varnaraðili í þessum þætti málsins, gerir þá kröfu að hann verði sýknaður að svo stöddu af kröfu stefnanda um skilnað að borði og sæng, en sýknaður af öðrum kröfum stefnanda.

Í gögnum þess máls kemur fram að aðilar gengu í hjúskap á Filippseyjum í maí 2000, en þar er sóknaraðili fædd. Í kjölfarið fluttu þau til Íslands og eignuðust dæturnar A og B. Í byrjun árs 2008 leituðu hjónin til sýslumannsins í Reykjavík og óskuðu skilnaðar að borði og sæng. Í endurriti úr hjónaskilnaðarbók sýslumanns frá 15. janúar það ár er skráð að hjónin séu sammála um að fara sameiginlega með forsjá barnanna, börnin skuli eiga lögheimili hjá móður og skuli faðirinn greiða með þeim einfalt meðlag frá 1. febrúar 2008. Fram kemur einnig að ekki hafi verið gerður samningur um fjárskipti, og var málinu af þeim sökum frestað. Ekki náðist samkomulag um skipti eigna og var skilnaðarmálinu að lokum vísað frá sýslumanni. Ágreiningur hafði þá einnig komið upp milli aðila um lögheimili barnanna. Sóknaraðili flutti með börnin út af sameiginlegu heimili hjónanna að [...] í júní 2008 og leigir nú íbúð að [...].

Í rökstuðningi sóknaraðila fyrir kröfu hennar um bráðabirgðaforsjá, sem hér er til úrlausnar, kemur fram að varnaraðili hafi ítrekað haldið henni utan við töku ákvarðana í tengslum við börnin og ekki gætt hagsmuna þeirra. Þá hafi telpurnar verið færðar í Barnahús til rannsóknar vegna gruns um að ekki væri allt með felldu í samskiptum varnaraðila við þær, og komi þar fram upplýsingar sem sóknaraðili telji gefa tilefni til að vefengja hæfi varnaraðila til að fara með forsjá þeirra.

Við upphaf málflutnings um kröfu þessa gaf sóknaraðili skýrslu fyrir dóminum, en tekin var skýrsla af varnaraðili gegnum síma.

III.

Aðalkrafa sóknaraðila er á því reist að upp hafi komið grunsemdir um kynferðislega misnotkun af hálfu varnaraðila og hafi telpurnar verið til rannsóknar í Barnahúsi vegna þess. Niðurstaða liggi ekki fyrir, en áformuð sé frekari viðtalsmeðferð, og telur sóknaraðili að dvöl barnanna hjá varnaðaraðila geti spillt rannsókninni.

Í annan stað er krafa sóknaraðila á því byggð að varnaraðila sé ekki treystandi fyrir börnunum. Hann neyti áfengis í óhófi og verði oft svo drukkinn að hann geti vart gegnið óstuddur. Tiltekur sóknaraðili dæmi þess frá sambúðartíma þeirra, en vísar einnig til lögregluskýrslu og skýrslu starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur vegna nýlegra afskipta af varnaraðila. Hafi varnaraðili þá verið einn með telpunum á heimili sínu, ofurölvi og ógnandi við lögreglumenn, sem þurftu að lokum að fjarlægja hann af heimilinu og koma telpunum til sóknaraðila. Í lögregluskýrslu sé lýst bágbornu ástandi og miklum óþrifum á heimili varnaraðili og þess sérstaklega getið að flökunarhnífur hafi legið á eldhúsgólfinu og að kveikt hafi verið á eldunarhellu, þar sem tómur pottur hafi staðið. Jafnframt kemur þar fram að yngri telpan hafi verið með blóðnasir, og gefið þá skýringu að faðir hennar hafi dottið á hana. Loks bendir sóknaraðili á að fram komi í viðtali við eldri telpuna í Barnahúsi að þær systur fái gjarnan að drekka af bjór föður síns þegar áfengi sé haft þar um hönd. Telur sóknaraðili að ofangreind hegðun varnaraðila staðfesti ábyrgðarleysi hans.

Í þriðja lagi kveðst sóknaraðila byggja á því að varnaraðili sé ofbeldisfullur, einkum þegar hann neyti áfengis, og telur tímaspursmál hvenær hann missi stjórn á sér gagnvart telpunum. Hann hafi ítrekað beitt sóknaraðila líkamlegu og andlegu ofbeldi í sambúð þeirra og hafi lögregla þá verið kölluð til. Nýlegt dæmi um ógnanir í garð lögreglumanna, sem þurft hafi að handtaka hann á heimili hans, staðfesti að varnaraðili eigi erfitt með að hemja skap sitt.

Í fjórða lagi er á því byggt að varnaraðili vanræki foreldraskyldur sínar með því að láta undir höfuð leggjast að setja börnunum eðlileg mörk og innræta þeim aga og ábyrgðartilfinningu. Í því sambandi bendir sóknaraðili sérstaklega á að hann vanræki reglulega ástundun telpnanna í skóla og leikskóla, svo og að hann kaupi dætur sínar með sælgætisgjöfum. Heldur sóknaraðili því fram að telpurnar búi við stjórnleysi hjá föður þeirra og að slíkt geti haft varanlega skaðlega áhrif á þær.

Sóknaraðili mótmælir því að dæturnar hafi frá sambúðarslitum dvalið til jafns á heimili foreldra sinna. Telur hún að nær sé að þær hafi dvalið um 20 daga í mánuði hjá henni, en 10 daga hjá föður. Einnig mótmælir sóknaraðili því að aðstæður á Hverfisgötu í Reykjavík séu ekki barnvænar og bendir á að við götuna búi fjöldi barna. Jafnframt mótmælir sóknaraðili því sérstaklega að framlagt bréf frá bróður varnaraðila um fjárskuldbindingar aðilanna hafi nokkra þýðingu fyrir úrslit málsins.

Varakrafa sóknaraðila er reist á 2. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Heldur hún því fram að varnaraðili hafi staðið í vegi fyrir því að leyfi til skilnaðar að borði og sæng hafi verið gefið út og hafi hún fyrir vikið hvorki fengið greiddar barnabætur, meðlag né húsaleigubætur. Vaxtabætur hafi á sama tíma runnið í vasa mannsins. Þá telur sóknaraðili nauðsynlegt að dómur mæli fyrir um lögheimili telpnanna, í samræmi við raunverulega búsetu þeirra.

Við munnlegan flutning málsins gerði sóknaraðili þá kröfu að umgengni barnanna við varnaraðili yrði undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur.

Kröfum sínum til stuðnings vísar sóknaraðili að öðru leyti til barnalaga nr. 76/2003, einkum 35., sbr. og 34. gr. þeirra laga, en einnig til barnaverndarlaga nr. 80/2002, barnasamnings Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamnings Evrópu. Krafa um greiðslu málskostnaðar er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Varnaraðili kveðst byggja kröfur sínar á 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 og telur það andstætt hagsmunum telpnanna, yrði fallist á kröfu sóknaraðila. Sérstaklega er tekið fram að ekkert liggi fyrir í málinu um aðstæður eða forsjárhæfni sóknaraðili. Af hálfu varnaraðila hafi hins vegar verið lögð fram ýmis gögn um hæfni hans til þess að fara með forsjá telpnanna. Telur varnaraðili því að lítið mark sé takandi á fullyrðingum sóknaraðila í málinu.

Varnaraðili mótmælir harðlega alvarlegum ásökunum sóknaraðila um kynferðislega misnotkun af hans hálfu, mikla áfengisneyslu og ofbeldishneigð, sem hann segir með öllu ósannar. Telur hann augljóst hver standi að baki ásökun um kynferðislega misnotkun hans, og sé það gert til að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Tekur hann fram að hann hafi fengið taugaáfall eftir að hafa lesið um þær ásakanir og hafi það leitt til þess að hann neytti áfengis meira en í hófi, með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á sér, eins og fram komi í nýlegri lögregluskýrslu. Í kjölfarið hafi hann einnig verið óvinnufær og leitað sér lækninga. Bendir hann á að þrátt fyrir ásakanir sóknaraðila hafi telpurnar engu að síður verið hjá honum eins og venjulega. Gefi það vísbendingu um að sóknaraðili telji þær ekki vera í neinni hættu og að um uppspuna sé að ræða. Telpunum líði vel í hans umsjá, enda búi hann þar sem fjölskyldan hafi búið um langt skeið, þar eigi þær lögheimili og gangi þar í skóla og leikskóla og eigi vini. Sóknaraðili eigi hins vegar ekki bifreið til þess að koma telpunum á milli hverfa.

Varnaraðili leggur áherslu á að aðstæður á heimili hans séu þekktar. Öðru máli gegni um heimilsaðstæður sóknaraðila. Honum sé þó kunnugt um að hún eigi ekki þvottavél, ekki bifreið og búi ekki í barnvænu umhverfi við Hverfisgötu. Telur hann aðstæður sóknaraðila engan veginn viðunandi til þess að börnin búi þar. Þá telur varnaraðili verulega hættu á að sóknaraðili sendi börnin til Filippseyja, eins og hún hafi hótað, en sjálf hafi hún í hyggju að flytjast til Bandaríkjanna og taka saman við ástmann sinn þar í landi. Því sé eins líklegt að málið verði aldrei dæmt efnislega, verði fallist á kröfu sóknaraðila í málinu. Heldur varnaraðili því fram að ástæða kröfunnar sé ekki byggð á því hvað börnunum sé fyrir bestu, heldur eigin hagsmunum sóknaraðila.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að yfirlit sóknaraðila um dvalartíma telpnanna hjá hvoru þeirra sé rangt. Fullyrðir hann að börnin hafi að meginstefnu til verið í umsjá hans frá því í júní 2008, og leggur fram vaktaskýrslur því til stuðnings. Börnin hafi verið hjá honum í vaktafríum og hafi samvistir stjórnast af því.

V.

Aðilar þessa máls slitu samvistum í júní 2008 og flutti sóknaraðili þá með dætur sínar og varnaraðila af sameiginlegu heimili þeirra að [...], hér í borg, í leiguíbúð að [...]. Áður höfðu aðilar óskað eftir því við sýslumanninn í Reykjavík að þeim yrði veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Samkomulag var þá um að börnin lytu sameiginlegri forsjá foreldranna, að þau ættu lögheimili hjá móður og að faðirinn greiddi með þeim einfalt meðlag frá 1. febrúar 2008. Ekki náðist samkomulag um fjárskipti milli hjónanna og fór svo að skilnaðarmáli þeirra var vísað frá sýslumanni. Ágreiningur hafði þá einnig komið upp um hvar börnin skyldu eiga lögheimili. Börnin lúta nú sameiginlegri forsjá foreldra sinna og er lögheimili þeirra skráð á síðasta sameiginlega heimili fjölskyldunnar að [...]. Fyrir dóminum er til meðferðar skilnaðar- og forsjármál aðila, en í máli þessu gera báðir aðilar kröfu um að forsjá barnanna verði falin þeim til bráðabirgða, þar til endanleg ákvörðun liggur fyrir í máli þeirra.

Af málatilbúnaði sóknaraðila verður helst ráðið að krafa hennar um bráðabirgðaforsjá sé einkum á því reist að varnaraðili eigi við áfengisvandamál að stríða, hafi sýnt af sér ofbeldishegðun og sé þar að auki grunaður um kynferðislega misnotkun gagnvart börnunum. Aðrar málsástæður sóknaraðila þykja ekki gefa tilefni til að sameiginlegri forsjá verði slitið til bráðabirgða.

Í málinu liggja fyrir skýrslur lögreglunnar og starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur vegna afskipta af varnaraðila 11. maí sl., en þá dvöldu telpurnar á heimili hans. Skýrslur þessar, ásamt eldri lögregluskýrslum og öðrum gögnum, benda til þess að varnaraðili eigi við áfengisvandamál að stríða og hafi ekki enn tekist að ráða bót á þeim vanda, þrátt fyrir áfengismeðferð. Um leið bera lögregluskýrslurnar vitni um ákveðið hömluleysi hjá varnaraðila. Er þá bæði til þess horft að í umrætt sinn var hann ofurölvi með dætur sínar, en sýndi einnig af sér ógnandi hegðun gagnvart  lögreglumönnum, sem leiddi til þess að vista varð hann í fangageymslu. Sú skýring varnaraðila að hann hafi fengið taugaáfall eftir að hafa lesið um ásakanir sóknaraðila í sinn garð, og því drukkið áfengi óhóflega og misst stjórn á skapi sínu, breytir hér engu um, en staðfestir aðeins álit dómsins um óábyrga hegðun hans. Hins vegar er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að hann hafi beitt dætur sínar ofbeldi, hvorki í umrætt sinn né áður. Þá er fram komið að hann hafi í kjölfar atviksins 11. maí sl. ákveðið að leita sér lækninga.

Meðal gagna málsins eru einnig minnispunktar Barnahúss vegna rannsóknarviðtals við eldri dótturina, A, 27. apríl sl. Fór viðtalið fram að ósk Barnaverndar Reykjavíkur og var markmið þess að afla sem gleggstra upplýsinga frá barninu um meinta kynferðislega áreitni/ofbeldi. Fram kemur í lok minnispunktanna að vegna óljósra og stundum tvíræðra svara hjá telpunni hafi verið ákveðið að hún færi í læknisskoðun 29. apríl sl. Niðurstaða læknisskoðunar hefur ekki verið lögð fram, né önnur gögn um frekari viðtöl við telpuna, og verða því engar ályktanir dregnar af rannsóknarviðtali þessu, enda kemur þar ekkert fram um meint kynferðislegt ofbeldi varnaraðila gagnvart dætrum sínum.

Þrátt fyrir áfengisneyslu varnaraðila og það alvarlega atvik sem nefnt er hér að ofan, og átti sér stað 11. maí sl., þykir dóminum óvarlegt að láta þau atriði ein ráða úrslitum um hvort verða eigi við kröfu sóknaraðila um forsjá barnanna til bráðabirgða. Ræðst það einkum af því að önnur gögn málsins veita enga vísbendingu um að sú niðurstaða þjóni best hagsmunum barnanna eða sé þeim fyrir bestu, en um leið af því að ekki liggja fyrir upplýsingar um forsjárhæfni og aðstæður foreldra, né um tengsl barnanna við foreldra og félagslegar aðstæður þeirra. Fyrir liggur hins vegar að foreldrarnir hafa sameiginlega farið með forsjá barnanna frá samvistarslitum og verður ekki annað ráðið en að það fyrirkomulag hafi fallið vel að þörfum barnanna. Í því ljósi, en einnig þegar haft er í huga að almennt er talið æskilegt að forsjá haldist sameiginleg meðan máli er ráðið til lykta, hafnar dómurinn kröfu aðila um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár barnanna á meðan forsjármál aðila hefur ekki verið til lykta leitt.

Ekki er um það ágreiningur að telpurnar hafa frá samvistarslitum foreldra notið ríkulegrar umgengni við föður sinn og búið hjá honum þegar hann er í fríi frá störfum. Þykir ekki ástæða til að breyta því fyrirkomulagi á meðan forsjármál aðila hefur ekki verið til lykta leitt, enda fær dómurinn ekki séð að það gangi gegn hagsmunum telpnanna. Að sama skapi þykja engin rök til þess að fallast á kröfu sóknaraðila um að umgengni verði undir eftirliti Barnaverndar Reykjavíkur. Með hliðsjón af störfum aðila, ólíks vinnutíma þeirra og aðstæðum að öðru leyti, þykir hins vegar rétt að verða við kröfu sóknaraðila um að lögheimili telpnanna verði á sama tíma hjá henni og að varnaraðili greiði einfalt meðlag með börnunum, eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins, þar til endanlegur dómur gengur í ágreiningsmáli aðila um forsjá barnanna. Þar sem ekki nýtur við upplýsinga um framfærslu telpnanna frá samvistarslitum, miðast upphaf meðlagsgreiðslna við 1. júní 2009.

Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði endanlegs dóms í málinu.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfu sóknaraðila, K, um að henni verði til bráðabirgða falin forsjá dætra hennar og varnaraðila, M, A, fæddri [...] 2001 og B, fæddri [...] 2003, er hafnað, og skal forsjá telpnanna áfram haldast sameiginleg hjá aðilum þar til endanleg ákvörðun liggur fyrri í forsjármáli þeirra.

Umgengni telpnanna við varnaraðila skal á sama tíma haldast óbreytt.

Lögheimili telpnanna skal vera hjá sóknaraðila og skal varnaraðili greiða einfalt meðlag með hvorri þeirra, eins og það er ákveðið hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins, frá 1. júní 2009 þar til endanlegur dómur gengur í ágreiningsmáli aðila um forsjá barnanna. 

Ákvörðun málskostnaðar bíður endanlegs dóms í málinu.