Hæstiréttur íslands

Mál nr. 308/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Málskostnaður


Mánudaginn 1

 

Mánudaginn 1. september 2003.

Nr. 308/2003.

Sigurjón Mýrdal Þórðarson og

Guðfinna Arngrímsdóttir

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

Hafdísi Perlu Hafsteinsdóttur

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

 

Kærumál. Innsetningargerð. Málskostnaður.

H krafðist þess að henni yrði heimilað að fá tiltekin hljómflutningstæki tekin úr umráðum S og G með beinni aðfarargerð. Þar sem S og G hafði ekki tekist að hnekkja því að gögn þau sem H lagði fram sýndu nægilega fram á eignarrétt hennar að umræddum tækjum, var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að H væri heimilt að fá þau tekin úr umráðum S og G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 31. júlí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2003, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að henni yrði heimilað að fá geislaspilara með sambyggðu útvarpi og hátalara með nánar tilteknum auðkennum tekna úr umráðum sóknaraðila með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfu varnaraðila um heimild til aðfarargerðar verði hafnað. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Í málinu hefur varnaraðili lagt fram reikning frá Nesradíó, sem gefinn var út á hennar nafn 23. september 1998, en á honum er greint frá kaupum á hljómflutningstækjum þeirrar gerðar, sem beiðni varnaraðila um aðfarargerð tekur til. Hún hefur jafnframt lagt fram yfirlýsingu frá sama fyrirtæki 31. maí 2000, þar sem meðal annars kemur fram að kaupverð tækjanna samkvæmt fyrrnefndum reikningi hafi verið staðgreitt af henni með peningum. Sóknaraðilar hafa ekki hnekkt því að þessi gögn sýni nægilega fram á eignarrétt varnaraðila að tækjunum, sem deilt er um í málinu. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að varnaraðila sé heimilt að fá þau tekin úr umráðum sóknaraðila með beinni aðfarargerð.

Fyrir Hæstarétti hafa sóknaraðilar sérstaklega mótmælt ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað, sem þeim var gert að greiða varnaraðila. Vísa þau til þess að ekki hafi verið gerð krafa um málskostnað í beiðni varnaraðila um aðfarargerð, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 25. mars 2003, heldur fyrst þegar málið var munnlega flutt þar fyrir dómi 6. júní sama árs. Um þetta verður að líta til þess að þegar beiðni varnaraðila um aðför var afhent héraðsdómi var óvíst hvort vörnum yrði haldið uppi gegn henni, en málskostnaður hefði ekki verið dæmdur varnaraðila ef útivist hefði þar orðið af hendi sóknaraðila. Eftir að sóknaraðilar höfðu sótt þing og mótmælt kröfu varnaraðila var ekki lögð fram greinargerð af hennar hálfu í málinu. Gafst varnaraðila því ekki tilefni til að hafa uppi kröfu um málskostnað fyrr en raun varð á. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um málskostnað því jafnframt staðfest.

Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Sigurjón Mýrdal Þórðarson og Guðfinna Arngrímsdóttir, greiði í sameiningu varnaraðila, Hafdísi Perlu Hafsteinsdóttur, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2003.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 6. júní sl., barst dóminum með aðfararbeiðni 28. mars sl., hefur sóknaraðili, Hafdís Perla Hafsteinsdóttir, [...], Barðaströnd 16, Seltjarnarnesi, krafist dómsúrskurðar um að eftirfarandi verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum varnaraðila, Sigurjóns Mýrdals Þórðarsonar, [...], og Guðfinnu Arngrímsdóttur, [...], Hraunsvegi 6, Reykjanesbæ.  Alpine geislaspilara m. útvarpi með vörunúmer CDA7832R, Alpine DD-Drive hátalarar með vörunúmer DDSR69G.

Varnaraðilar krefjast þess að beiðninni um innsetningu verði hafnað auk þess sem krafist er málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.  Þá er þess krafist að kveðið verði á um það að málskot fresti aðfarargerð, verði fallist á kröfu sóknaraðila.

 

Málavextir:

Af framlögðum gögnum verður ráðið að sóknaraðili og sonur varnaraðila, Hlynur Þór Sigurjónsson, kt. 061276-4839, höfðu verið í óskráðri sambúð að Heiðarholti 4, Keflavík frá 3. júlí 1999, þar til 15. janúar 2000 að Hlynur Þór lést á Spáni eftir umferðarslys, en samkvæmt því sem kemur fram í skýrslu Öddu Þor­björgu, systur Hlyns hafði áður verið komið nokkuð los á samband þeirra.  Sam­kvæmt því sem fram kemur í þessari skýrslu hafði verið gert samkomulag í mars 2000 milli sóknaraðila og foreldra Hlyns, varnaraðila í málinu, sem eru einkaerfingjar hans, að sóknaraðili flyttist nokkru síðar úr íbúðinni, héldi öllu óbreyttu þar að því er varðaði eigur Hlyns, en tæki bara sínar eigur.  Selja átti íbúðina og hafði sóknaraðili samþykkt það.  Varnaraðilar höfðu svo ætlað að fara inn í íbúðina 20. apríl 2000 til að taka myndir af henni, en þau voru með lykla af henni, en komust þá að raun um að búið var að skipta um læsingu að henni og urðu þá frá að hverfa við svo búið. 

Varnaraðilar höfðu fengið dánarbú Hlyns Þórs til einkaskipta og lauk skiptum á því með skiptagerð dagsettri 12. júlí 2000.  Samkvæmt skiptagerðinni féll í hlut varnar­aðila 50% af íbúðinni að Heiðarholti 4, innbú og bifreið, en skuldir búsins reyndust vera samtals kr. 3.246.637,00 umfram eignir, þar með talin yfirdráttarskuld að fjárhæð um kr. 4.000.000 á bankareikningi í Sparisjóði Keflavíkur, sem stóð á bak við gull­debetkort, en sóknaraðili var prókúruhafi þessa reiknings.  Eftir að skiptagerðin lá fyrir höfðu varnaraðilar ásamt ættingjum farið inn í íbúðina með því að bora út nýju læsinguna.  Þau höfðu þá tekið úr íbúðinni húsgögn og aðra muni sem þau töldu Hlyn hafa átt eða lagt með sér í búið, en töldu þó sóknaraðila hafa tekið þá muni sem hún hafði lagt til og eitthvað af munum sem tilheyrðu Hlyni.  Sóknaraðili eða faðir hennar hafði kært það til lögreglu 17. mars 2002 sem þjófnað og gertæki að varnaraðilar skyldu hafa tekið tvo gólflampa, borðlampa og hálft sængurverasett, sem sóknaraðili eða faðir hennar og fyrirtæki hans töldu sig eiga, en í henni er ekki minnst á þau tæki, sem eru til umfjöllunar í þessu máli.  Kærumál þetta var fellt niður með bréfi sýslumannsins í Keflavík dagsettu 22. apríl sl. til föður sóknaraðila og Sigurjóns varnaraðila.

 Í bréfi dagsettu 23. apríl 2001, sem lögmaður sóknaraðila sendi lögmanni varnaraðila er farið fram á að aðilar skipti með sér sameiginlegu innbúi sóknaraðila og Hlyns Þórs og vísað til þess, að þeirra hafi verið aflað með sameiginlegum debet­kortareikningi þeirra, sem jafnframt hafi verið launareikningur sóknaraðila og er hugsanlega átt við framangreindan debetkortareikning sem var með yfir­dráttarskuld að fjárhæð kr. 4.000.000 og er hluti þeirra skulda dánarbús Hlyns, sem varnaraðilar hafa ábyrgst við undirritun skiptagerðarinnar.  Með bréfinu fylgdi yfirlit eða listi um þá muni sem sóknaraðili taldi vera sameiginlegar eigur hennar og  Hlyns og svo listi yfir þá muni sem hún taldi sig ein eiga og voru þar á meðal framangreind hljómflutningstæki í bíl.  Ekki liggur fyrir að þessar bréfaskriftir hafi leitt til neinnar niðurstöðu um þargreind skipti.

 Beiðni sóknaraðila miðast nú einungis við þessi tæki og er vísað til reiknings frá Nesradíó, dagsetts 23. september 1998, staðfestingar verslunarinnar um að sóknaraðili hafi greitt tækin með peningum þennan dag og úttektarmiði Sparisjóðs Keflavíkur, dagsettur sama dag, þar sem fram kemur að sóknaraðili tekur út af reikningi sínum kr. 45.000.  Á móti hafa af hálfu varnaraðila verið lagðir fram tveir innborgunarseðlar og tveir útborgunarseðlar frá Sparisjóði Keflavíkur, þar sem kemur fram að sama dag leggur Hlynur inn á reikning sóknaraðila sem áður getur við Sparisjóð Keflavíkur, kr. 31.000 og einnig kr. 40.000.  Á reikningnum kemur fram að upp í kaupverð tækjanna gengur Alpine tæki með segulbandi á verðinu kr. 12.145.  Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að sóknaraðili hafi verið að kaupa tækin fyrir Hlyn Þór.  Hann hafi sama dag greitt inn á hennar reikning meira  en verð tækjanna auk þess að hann hafi átt bíltækið sem gengið hafi upp í kaupverðið.  Tækin voru geymd á heimili varnaraðila, en sóknaraðili og Hlynur Þór hófu ekki sambúð fyrr en tæplega ári síðar.  Þá hefur komið fram að bíltækið hafi verið í bifreið sem þau hafi átt, en hún hafi verið seld og hafi tækin verið tekin úr og önnur ódýrari sett í staðinn.

Við lok á sambúð, sem staðið hefur í stutta stund, er venjan að fjárskipti fari fram með því að hvor aðili taki til sín það sem hann hefur lagt í búið eða  hefur keypt, en það sem þau kaupa sameiginlega til heimilisstofnunar, verði skipt miðað við fjárframlög hvors um sig til kaupanna.  Þó að ekki liggi fyrir skiptagerð um skiptin milli aðila er ljóst af framangreindri skýrslu Öddu Þorbjargar hjá lögreglu, sem ekki er sérstaklega mótmælt, að sóknaraðili hafði fengið tímann frá mars 2000 allt til 18. júlí sama ár til að taka þá muni sem henni tilheyrðu, en eftir það tóku varnaraðilar af Heiðarholti 4, þá muni sem þau töldu Hlyn Þór eiga og voru þar með taldar gjafir frá varnaraðila og fleirum og munir sem hann hafði fengið frá vinum og ættingjum í sambandi við heimilisstofnunina.  Þessi skipti voru einhliða og var sóknaraðili ekki kvödd til, til að vera viðstödd þau. Utan við þessi skipti eru framangreind hljómflutningstæki í bifreið sem virðist hafa verið geymd á heimili varnaraðila.

Í málinu verður að telja að  framangreindur reikningur á nafni sóknaraðila frá Nesradió, staðfesting Jónínu G. Jónsdóttur, starfsmanns Nesradiós um viðskiptin og kvittun um að hún fær útborgað úr bankareikningi sínum á kaupdegi nær sömu upphæð og nemur kaupverðinu séu til sönnunar um skýra og ótvíræða eignarheimild sóknaraðila.  Fullyrðingar varnaraðila um að sóknaraðili hafi verið að kaupa tækin fyrir Hlyn Þór og hann hafi lagt fé til kaupanna, er ekki studd nægum gögnum til að teljandi vafi hafi myndast um eignarrétt sóknaraðila.  Varnaraðilar hafa að vísu bent á millifærslur frá Hlyn á bankareikning sóknaraðila á kaupdeginum, samanber dómskjöl nr. 9 -12.  Á móti kemur að sömu upphæðir og þar greinir eru nokkuð fyrr, eða 10. júlí og 6. ágúst 1998 teknar út af reikningi sóknaraðila, sem styður það að þessar greiðslur gætu verið til greiðslu á eldra láni svo sem sóknaraðili heldur fram.

Að þessu virtu er fallist á það skilyrði séu til þess með vísan til 78. gr. laga um aðför nr 90/1989.  að taka  kröfu sóknaraðila til greina.  Í  þessu sambandi má vísa til aðferðar varnaraðila við skiptin.

Ekki þykir ástæða til að fallast á kröfu varnaraðila um að málskot úrskurðar fresti aðfarargerðinni.

Samkvæmt þessari niðurstöðu greiði varnaraðilar sóknaraðila kr. 80.000 krónur í málskostnað.

Úrskurð þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin umbeðna innsetning í Alpine geislaspilara með útvarpi nr. CDA7832R og Alpine DD-Drive hátalarar nr. DDSR69G, sem eru í vörslu varnaraðila að Hraunbergi 6, Reykjanesbæ, má fara fram.

Varnaraðilar, Sigurjón Mýrdal Þórðarson og Guðfinna Arngrímsdóttir, greiði sóknaraðila, Hafdísi Perlu Hafsteinsdóttur, 80.000 krónur í málskostnað.