Hæstiréttur íslands
Mál nr. 327/2006
Lykilorð
- Læknir
- Sjúkrahús
- Skaðabætur
- Skipting sakarefnis
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 15. febrúar 2007. |
|
Nr. 327/2006. |
Íslenska ríkið(Óskar Thorarensen hrl.) gegn Margréti Erlu Benónýsdóttur (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Læknar. Sjúkrahús. Skaðabætur. Skipting sakarefnis. Gjafsókn.
M gekkst undir skurðaðgerð vegna brjóskloss 25. febrúar 2000. Eftir þá aðgerð kenndi M sér enn meins en var engu að síður útskrifuð af sjúkrahúsinu 28. sama mánaðar. Hún greindist aftur með brjósklos 14. apríl 2000 og gekkst öðru sinni undir skurðaðgerð 18. apríl sama mánaðar. M krafðist að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Í gagnvart sér vegna læknismeðferðar frá 25. febrúar til 18. apríl. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu verið gerð mistök við skurðaðgerðina 25. febrúar 2000 en að læknismeðferð M eftir skurðaðgerðina hefði í tilteknum atriðum verið háð annmörkum svo að skaðabótaskyldu Í varðaði. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að þessu mati héraðsdóms hafi í engu verið hnekkt og verði niðurstaða hans því staðfest. Sé enda fram komið af gögnum málsins að M hafi að minnsta kosti orðið fyrir tímabundnu tjóni vegna mistakanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. apríl 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 24. maí 2006 og áfrýjaði hann öðru sinni 19. júní sama ár. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi gekkst stefnda undir skurðaðgerð vegna brjóskloss í baki á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 25. febrúar 2000. Eftir þá aðgerð mun stefnda enn hafa kennt sér meins, en var útskrifuð af sjúkrahúsinu 28. sama mánaðar. Hún kom þangað á ný á bráðamóttöku 6. mars 2000 og var þá flutt samdægurs til innlagnar á Landspítalanum, þar sem hún gekkst undir rannsóknir fram til 15. sama mánaðar. Eftir það var stefnda til greiningar og endurhæfingar á Reykjalundi frá 10. til 13. apríl 2000, en var vegna mikilla verkja flutt þaðan síðastnefndan dag á Landspítalann og degi síðar á Sjúkrahús Reykjavíkur. Þar greindist hún aftur með brjósklos í baki og gekkst undir skurðaðgerð öðru sinni 18. apríl 2000. Stefnda telur að mistök hafi verið gerð við fyrri aðgerðina og læknismeðferð allt til þeirrar síðari. Hún höfðaði mál þetta 28. maí 2004 til heimtu skaðabóta að fjárhæð 12.268.585 krónur auk nánar tilgreindra vaxta og málskostnaðar. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi var sakarefninu skipt að ósk stefndu og krafðist hún þess upp frá því að viðurkennd yrði skaðabótaskylda áfrýjanda gagnvart sér vegna læknismeðferðar frá 25. febrúar til 18. apríl 2000 á fyrrnefndum sjúkrahúsum, sem nú hafa verið sameinuð undir heitinu Landspítali háskólasjúkrahús.
Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, komst að þeirri niðurstöðu að mistök hafi ekki verið gerð við skurðaðgerðina, sem stefnda gekkst undir 25. febrúar 2000, en að læknismeðferð hennar hafi í nánar tilteknum atriðum verið háð annmörkum fram að síðari aðgerðinni 18. apríl sama ár svo að skaðabótaskyldu áfrýjanda varði. Þessu mati héraðsdóms hefur áfrýjandi í engu hnekkt. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms í þessum efnum því staðfest með vísan til forsendna hans á þann hátt, sem í dómsorði greinir, enda er fram komið af gögnum málsins að stefnda hefur með þessu að minnsta kosti orðið fyrir tímabundnu tjóni, sem áfrýjandi ber skaðabótaábyrgð á. Á hinn bóginn þarf ekki vegna kröfugerðar stefndu að taka afstöðu til þess hvort hún hafi einnig orðið fyrir varanlegu tjóni, sem rakið verður til þessara orsaka, svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi.
Með því að stefnda hefur notið gjafsóknar á báðum dómstigum er ekki tilefni til að dæma áfrýjanda til greiðslu málskostnaðar. Um gjafsóknarkostnað stefndu fer samkvæmt því, sem nánar segir í dómsorði, en málflutningsþóknun lögmanns hennar er ákveðin í einu lagi vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Viðurkennd er skaðabótaskylda áfrýjanda, íslenska ríkisins, vegna læknismeðferðar, sem stefnda, Margrét Erla Benónýsdóttir, sætti á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Landspítalanum á tímabilinu eftir skurðaðgerð 25. febrúar 2000 fram að því að hún gekkst öðru sinni undir aðgerð 18. apríl sama ár.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar á báðum dómstigum, samtals 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. desember sl., var höfðað 28. maí 2004 af Margréti Erlu Benónýsdóttur, kt. 231056-5999, Frostafold 2, Reykjavík, á hendur Landspítala, háskólasjúkrahúsi, kt. 500300-2130, °Eiríksgötu 5, Reykjavík.
Kröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda gagnvart henni vegna læknismeðferðar hjá stefnda á tímabilinu 25. febrúar til 18. apríl 2000. Krafist er málskostnaðar samkvæmt málskostnaðaryfirliti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn 3. febrúar 2003.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda í þessum þætti málsins og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til vara hefur þess verið krafist af hálfu stefnda að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og að málskostnaður falli niður.
Stefnandi krafðist þess í stefnu að stefndi yrði dæmdur til að greiða henni ákveðna fjárhæð í skaða- og miskabætur vegna tjónsins, sem hún telur að hún hafi orðið fyrir vegna ófullnægjandi læknismeðferðar starfsmanna stefnda, en við upphaf aðalmeðferðar 19. desember 2005 var að beiðni stefnanda ákveðið með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að skipta sakarefni málsins þannig að aðeins verði dæmt um bótaskyldu stefnda í þessum þætti málsins og að önnur atriði verði látin bíða þar til niðurstaða liggur fyrir hvað varðar bótaskylduna. Varakrafa stefnda um lækkun á stefnukröfum kemur því ekki til álita í þessum þætti málsins.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Helstu atvik málsins eru þau að í maí 1994 fór stefnandi í brjósklosaðgerð á Borgarspítalanum. Ástæða þess var sú að hún hafði slæma verki ásamt máttleysi og dofa sem leiddu niður í hægri fót en hún hafði fengið brjósklos á milli fjórða og fimmta lendarliða hægra megin. Aðgerðin heppnaðist vel að öðru leyti en því að eftir hana hefur stefnandi haft þvagblöðrutruflanir.
Í byrjun árs 2000 fékk stefnandi slæman verk í mjóbak sem leiddi niður í vinstri fót. Hún fór í myndatöku sem sýndi brjósklos á milli sömu lendarliða og áður vinstra megin. Hún fór í skoðun til Kristins Guðmundssonar sérfræðings í taugaskurðlækningum 21. febrúar sama ár, en hann lagfærði brjósklosið með aðgerð 25. sama mánaðar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Þremur dögum síðar var stefnandi útskrifuð af sjúkrahúsinu. Hún hefur lýst ástandi sínu þannig að hún hafi fundið fyrir auknum verkjum eftir heimkomuna og 6. mars s.á. hafi liðið yfir hana í sturtu. Var hún þá flutt á bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur, en þaðan var hún send á bráðamóttöku hjá stefnda sem var vaktspítali þann dag. Næsta dag var gerð segulómskoðun á lendarhrygg stefnanda og aðgerðarlæknir var kallaður til. Í lýsingu hans á ástandi stefnanda 9. mars s.á. kemur fram að hann hafi ekki haft trú á að stefnandi hefði fengið nýtt brjósklos en í ljósi ástands hennar væri sennilega réttast að gera sérstaka myelografíska rannsókn á aðgerðarsvæðinu og dæma út frá því en slík rannsókn væri marktækust. Með slíkri rannsókn er gerð tölvusneiðmynd með skuggaefnisfyllingu í mænusekk en hún gefur skýrari mynd af innbungun í mænusekkinn og/eða í rótarvasa tauga heldur en segulómskoðun. Rannsóknin sem aðgerðarlæknirinn lagði til að framkvæmd yrði var ekki gerð en 13. apríl sama ár var tekin tölvusneiðmynd af lendarhrygg stefnanda þar sem sást brjósklos. Fram hefur komið að yfirlæknir á bæklunarskurðdeild stefnda hafi talið 9. mars að verkirnir stöfuðu af blóði sem ýtti á taugar og þar með stafaði þrýstingurinn ekki af brjósklosi. Stefnandi var send á Reykjalund til endurhæfingar 10. apríl en hún var þá svo slæm af verkjum að hún var aftur lögð inn hjá stefnda 13. sama mánaðar. Daginn eftir var hún flutt á Sjúkrahús Reykjavíkur og þar var gerð á henni önnur brjósklosaðgerð 18. sama mánaðar.
Í stefnu kemur fram að stefnandi telji að aðgerðin 25. febrúar hafi engan árangur borið. Þegar þetta hafi komið í ljós hafi starfsmenn stefnda heldur ekki brugðist rétt við. Stefnandi hafi verið í endurþjálfun á Reykjalundi sem hafi litlum árangri skilað. Vegna mistaka starfsmanna stefnda við aðgerðina og í kjölfarið hafi stefnandi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni, þjáningum, varanlegum miska og varanlegri örorku. Hún krefst þess í málinu að skaðabótaskylda stefnda gagnvart henni verði viðurkennd vegna þessa.
Af stefnda hálfu er því hafnað að bótaskylda geti verið fyrir hendi. Af hans hálfu er í því sambandi vísað til þess sem fram kemur í gögnum málsins, meðal annars yfirmatsgerðar Júlíusar Valssonar læknis og Bjarka Karlssonar bæklunarskurðlæknis frá 20. júní 2005 þar sem fram komi að þeir telji ekki sannað að bótaskyld mistök hafi átt sér stað af hálfu starfsmanna stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af stefnanda hálfu er málsatvikum lýst þannig að hún hafi verið greind með brjósklos í baki í febrúar 2000 sem Karl Guðmundsson sjúkraþjálfari hafi uppgötvað. Hann hafi haft samband við heimilislækni stefnanda og hafi hún farið í myndatöku. Þegar ljóst var að um brjósklos væri að ræða hafi stefnandi pantað tíma hjá Kristni Guðmundssyni lækni. Í viðtali hjá honum hafi vinstri fótur hennar verið orðinn töluvert máttlaus og hafi hún verið með slæman verk á utanverðum fætinum, ökklanum og í þremur ystu tánum. Ákveðið hafi verið að flýta aðgerðinni áður en taugaskaði yrði varanlegur og fór aðgerð fram 25. febrúar s.á.
Eftir aðgerðina hafi stefnandi strax fundið til mikilla verkja í vinstri fæti auk þess að finna fyrir aukinni lömun. Hún hafi sagt Kristni það en hann hafi sagt að um bólgur, bjúg og blóð væri að ræða sem myndi lagast fljótlega. Hún hafi verið útskrifuð af sjúkrahúsinu 28. febrúar s.á. Þegar hún hafi hringt í Kristin nokkrum dögum síðar vegna óbærilegra verkja hafi hún fengið það svar að þetta væri eðlilegt og myndi lagast með tímanum. Hann hafi varað hana við svo búið við ofnotkun verkjalyfja en hún þyrfti bara að harka af sér.
Stefnanda hafi ekkert skánað en hún hafi reynt að harka af sér þrátt fyrir óbærilega verki. Viku eftir samtalið við Kristin hafi liðið yfir hana í sturtu vegna verkja í fætinum. Hún hafi því verið flutt á Sjúkrahús Reykjavíkur í Fossvogi. Þar hafi hún verið skoðuð af aðstoðarlækni á slysadeild sem hafi síðan haft samband við vakthafandi lækni sem hafi verið Kristinn Guðmundsson. Hann hafi ákveðið án þess að líta á hana að yfirliðið hefði ekkert með aðgerðina að gera og hafi hann vísað henni frá. Stefnandi hafi næst verið send til stefnda og lögð inn til rannsóknar þar sem Albert Páll Sigurðsson taugalæknir hafi tekið við henni. Í umsögn um rannsóknina 8. mars komi fram að brjósklos hafi sést bunga aftur í mænuganginn og að L5 rót hafi verið bólgin. Talsvert mikið blóð hafi sést í skurðganginum inn að diskinum L4L5. Samkvæmt þessu hafi verið um að ræða brjósklos á sama stað og aðgerðin fór fram 25. febrúar s.á.
Þegar þessi niðurstaða lá fyrir hafi verið haft samband við Kristin Guðmundsson og hafi hann komið og skoðað stefnanda 9. mars s.á. Hann hafi þá staðhæft í samtali við hana að ekki væri um brjósklos að ræða enda hefði hann tekið það og að ekkert væri að marka myndatöku svo skömmu eftir aðgerð. Hann hafi talið réttast að hún færi á Reykjalund og gætu læknar stefnda séð um að koma henni þangað. Að þessu loknu hafi Kristinn skrifað Alberti Páli bréf þar sem fram komi að hann telji ekki um brjósklos að ræða en áður hefði Albert Páll óskað eftir upplýsingum um hvort skera þyrfti strax eða hvort óhætt væri að bíða án þess að varanlegur taugaskaði hlytist af. Í kjölfarið hafi Albert Páll haft samband við Garðar Guðmundsson og beðið hann um álit. Ekkert hafi þó orðið úr því eins og fram komi í vottorði hans 12. apríl sama ár og einnig hafi Bogi Jónsson læknir beðist undan því að meta stefnanda. Að lokum hafi verið haft samband við Halldór Jónsson yfirlækni sem hafi beðið Bjarna Valtýsson um að sprauta deyfilyfi inn á skurðsvæðið. Við það hafi stefnandi losnað við alla verki í um það bil þrjár klukkustundir en að þeim tíma liðnum hafi hinn óbærilegi sársauki komið að nýju.
Stefnandi hafi verið útskrifuð án aðgerðar og hafi hún verið heima í um það bil tvær vikur þar til hún fékk pláss á Reykjalundi. Þar hafi allt verið gert til að aðstoða hana og draga úr kvölum sem hún hafi verið haldin. Um það bil fjórum dögum síðar hafi verið tekin ákvörðun um að senda hana til stefnda enda hafi endurhæfingin engan árangur borið og heilsa hennar verið verulega slæm vegna verkja. Þegar þangað kom hafi virst sem læknar hafi forðast að koma og skoða stefnanda og daginn eftir hafi hún verið send á Sjúkrahús Reykjavíkur. Eftir rannsókn hafi verið ljóst að framkvæma þyrfti aðgerð og hafi henni verið tjáð að Kristinn Guðmundsson myndi gera hana. Þar sem stefnandi hafi mótmælt þeirri ráðagerð hafi orðið úr að Garðar Guðmundsson framkvæmdi aðgerðina 18. apríl 2000. Í kjölfarið hafi stefnandi verið í endurþjálfun á Reykjalund sem hafi skilað litlum árangri.
Stefnandi telur að mistök hafi átt sér stað við aðgerðina 25. febrúar 2000, enda hafi hún ekki borið árangur. Þá telji hún að starfsmenn stefnda, þ.m.t. Kristinn Guðmundsson, hafi ekki brugðist réttilega við í kjölfar aðgerðarinnar þegar hún skilaði ekki tilskyldum árangri og/eða þegar ljóst var að frekari aðgerða væri þörf. Komið hafi verið í veg fyrir að framkvæmd yrði ný aðgerð á henni þrátt fyrir að niðurstöður rannsóknar sýndu að enn hafi verið um brjósklos að ræða. Hún telji sig hafa orðið fyrir barðinu á einhvers konar pólitískum og faglegum árekstrum sem komið hafi í veg fyrir að á málinu væri tekið með hagsmuni hennar í fyrirrúmi en augljóst hafi verið að læknar hafi forðast að koma að máli hennar. Vegna hinna meintu mistaka telji stefnandi sig hafa orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni, þjáningum, varanlegum miska og varanlegri örorku.
Stefnandi hafi óskað eftir áliti landlæknis á hvort réttilega hafi verið staðið að aðgerðinni 25. febrúar 2000 og þeirri meðferð sem hún hafi hlotið í kjölfar hennar þar til hún var skorin að nýju 18. apríl sama ár. Í áliti landlæknis 25. september 2001 segi m.a. eftirfarandi:
„1. Vegna töluverða einkenna eftir aðgerðina hefði verið rétt að skoða hana og e.a. rannsaka hana með myndgreiningarrannsóknum án tafar vegna hugsanlegra blæðinga eða annarra óhappa á aðgerðarsvði. Fyrir liggja hjúkrunarskýrslur, en ekki dagnótur lkna dagana eftir aðgerðina.
2.
Rétt hefði verið að leggja ofanritaða strax inn á Sjúkrahús Reykjavíkur en ekki vaktspítala eftir yfirliðið sem hún varð fyrir þann 06.03.00 og beint eða óbeint verður rakið til fyrri veikinda og aðgerðarinnar. Hefur þessi ákvörðun líklega lengt óþarflega þann tíma sem leið þar til nauðsynleg greining og meðferð fór fram á vandamáli hennar.
3.
Ekki er hægt út úr þeim gögnum sem fyrir liggja að leggja mat á gæði þeirra mannlegu samskipta sem áttu sér stað milli sjúklings og aðgerðarlknis, en af gögnum málsins virðist ljóst að þeim er ábótavant, en þar er hugsanlega báðum um að kenna.“
Þá segi í bréfi landlæknis til stefnda sama dag, 25. september 2001, sem hafi verið svarbréf við athugasemdum stefnda við greinargerð landlæknis:
„Í allri sanngirni er ekki hægt að mæla því mót að eftirmeðferð Margrétar hafi verið fremur ómarkviss og lknisfrðileg ábyrgð á Margréti og vandræðum hennar óljós. Of margir læknar komu að af hálfu spítalans. Ljóst var að hún hafði veruleg óþægindi, sem miðað við lýsingar hennar og í sjúkraskrá eru talsvert eða miklu meiri en búast má við eftir aðgerðir af þessu tagi. Margrét reyndist hafa endurtekið brjósklos, og of lengi dróst að bregðast við því. Niðurstaða Landlæknisembættisins er því óbreytt, eftirmeðferðinni var ábótavant af hálfu Landspítala Háskólasjúkrahúss.“
Niðurstaða landlæknis staðfesti að mistök hafi átt sér stað við meðferð eftir fyrri brjósklosaðgerðina og við aðgerðina sjálfa enda hafi stefnandi orðið verri eftir aðgerðina en fyrir hana. Brjósklos hafi verið greint á sama stað nokkrum dögum eftir aðgerðina. Þannig megi vera ljóst að fyrri aðgerðin hafi engum árangri skilað. Í ljósi niðurstöðu landlæknis hafi bréf verið sent til stefnda 5. nóvember 2001, þar sem óskað hafi verið eftir að spítalinn tæki þátt í að tilnefna hlutlausan sérfræðing til að fá mat um hvort stefnandi hafi, vegna þeirrar handvammar sem lýst sé í áliti landlæknis, orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni, þjáningum, varanlegum miska eða varanlegri örorku í skilningi skaðabótalaga nr. 50/1993. Erindi þessu hafi ekki verið svarað og því hafi það verið ítrekað 23. febrúar. Í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda 28. febrúar 2002 hafi stefndi hafnað að taka þátt í slíku mati enda lægi fyrir álitsgerð landlæknis. Í ljósi afstöðu stefnda hafi þess verið farið á leit við dóminn að dómkvaddur yrði hæfur og óvilhallur matsmaður til þess að meta annars vegar hvort tilhlýðilega hefði verið staðið að aðgerðum og eftirmeðferð og hins vegar afleiðingar hinna ætluðu mistaka samkvæmt skaðabótalögum. Sverrir Bergmann sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum hafi verið dómkvaddur 11. apríl 2003 til að annast hið umbeðna mat. Niðurstöður í matsgerð hans 23. apríl 2004 séu þær helstar að réttilega hafi verið staðið að aðgerðinni 25. febrúar 2000. Hins vegar staðfesti matsmaður þá fullyrðingu stefnanda að ekki hefði verið staðið réttilega að eftirmeðferð. Í matinu sé jafnframt tekið undir álit landlæknis sem hefði komist að þeirri niðurstöðu að eftirmeðferð hefði verið ábótavant. Í matsgerðinni segi sem svar við þeirri spurningu hvort réttilega hefði verið staðið að umönnun, eftirliti og eftirmeðferð í kjölfar aðgerðarinnar 25. febrúar 2000:
„Það er álit hins dómskvadda matsmanns að svo hafi ekki verið. Löngu fyrr hefði átt að grípa inn í gang mála og létta þrýstingi af v. mjóbakstaugarrótinni og reyna að draga úr bólgu hennar með lyfjameðferð í þeirri von að það gti dregið úr miklum óþægindum MEB og hugsanlega komið í veg fyrir að taugaskaði yrði e.t.v. enn meiri en hann þó þegar eftir klínik einhver orðinn var og meiri möguleikar voru á því að einkenni vegna taugaskaðans gæti gengið til baka.“
Þá segi þar einnig að stefnandi hafi strax eftir aðgerðina haft einkenni um þrýsting að mjóbakstaugarótinni aftur. Innan tiltölulega skamms tíma, eða 24 til 48 klukkustunda, hefði átt að ganga úr skugga um það með röntgenrannsókn, eins og segulómun, hvort áfram væri þrýstingur að taugarótinni vegna blóðfyrirferðar eða nýs brjóskloss og hvort jafnframt væri eða þá einvörðungu mikil bólga í taugarótinni. Þetta hafi ekki verið gert heldur hafi stefnandi verið útskrifuð hjá stefnda en hafi komið inn að nýju vegna yfirliðs sem ekki hafi verið talið tengjast verkjum og vanlíðan og hugsanlega lyfjatöku vegna verkjanna sem hún hafi haft eftir aðgerðina 25. febrúar 2000. Þá fyrst hafi verið gerð segulómun sem hafi ótvírætt sýnt að taugarótin hafi verið bólgin og að á henni væri þrýstingur. Gildi þá einu hvort ályktað væri að þrýstingurinn stafaði af blæðingu (hematomi), sem þrýsti að rótinni, eða hvort nýtt brjósklos væri einvörðungu eða jafnframt. Að mati hins dómkvadda matsmanns hefði þarna tafarlaust átt að létta af þessum þrýstingi og hefði átt að gera fyrr og hugsanlega beita til reynslu sérstökum lyfjum til að reyna að draga úr bólgu taugarótarinnar. Hinn dómkvaddi matsmaður telji þetta vera grundvallaratriði og sé ósammála því að ekki hafi verið þörf á aðgerð þar sem ekki hafi verið trúað á nýtt brjósklos eða að blóð hafi eingöngu valdið þrýstingi á taugarótina. Matsmaðurinn sé þannig ekki sammála þeim sérfróðu læknum sem tekið hafi aðra ákvörðun eins og segi í matinu. Niðurstaða matsmanns staðfesti að mistök hafi átt sér stað í kjölfar aðgerðar þar sem gera hefði þurft aðgerðina, sem framkvæmd var 18. apríl 2000, „löngu fyrr“, eins og segi í matinu. Eftir standi varanleg truflun frá taugarótum sem valdi viðvarandi máttleysi og dofa.
Stefnandi telji að alvarleg mistök hafi átt sér stað við aðgerðina 25. febrúar 2000 og í eftirmeðferð eins og lýst hafi verið og fram komi í læknisfræðilegum gögnum. Í ljósi þess að sannað hafi verið, meðal annars með áliti landlæknis og matsgerð Sverris Bergmann, að mistök hafi átt sér stað og að óumdeilt hljóti að vera að stefnandi hafi orðið fyrir alvarlegu tjóni í kjölfar aðgerðarinnar, sé full ástæða til að snúa sönnunarbyrðinni við þannig að stefnda beri að sanna að ekki megi rekja afleiðingarnar beint til þeirra mistaka sem áttu sér stað. Sérstaklega beri að líta til þess að sönnunarstaða stefnanda sé verulega torveld enda skorti verulega á samtímaskráningu um aðgerðina og eftirmeðferð og sé það víða gagnrýnt í gögnum málsins, þ.m.t. í áliti landlæknis og ofangreindri matsgerð. Samkvæmt sönnunarreglum beri stefndi hallann af þessu enda hin ábótavana skráning til þess fallin að torvelda alla sönnunarfærslu í málinu.
Afleiðingar læknamistakanna á stefnanda hafi verið metnar af Sverri Bergmann í áðurgreindri matsgerð. Niðurstaða hans hafi m.a. verið sú að varanlegur miski stefnanda sé 30% og varanleg örorka 65%. Tjón stefnanda hafi verið reiknað samkvæmt þessu en um það verði fjallað á síðari stigum málsins.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af stefnda hálfu er vísað til þess að stefnandi hafi farið í smásjáraðgerð á hryggþófa í baki vegna settaugarverkja (Ischias) og brjóskloss milli fjórða og fimmta lendarliða hægra megin 25. maí 1994. Í læknabréfi frá þeim tíma segi að hún hafi verið með L:V taugarótareinkenni hægra megin með slæman verk, máttleysi og dofa. Hún hafi verið lögð inn akút og opereruð akút 25. maí 1994. Við aðgerðina hafi fundist stór, frír liðþófakjarni (brjósk fragment) útgenginn úr liðbilinu. Í læknabréfinu komi fram að hún hafi strax lagast af máttleysi (paresis) og verk en verið með blöðrutruflun sem hafi valdið fimm daga vist á spítalanum. Stefnandi hafi aftur legið á heila- og taugaskurðdeild 4. til 5. september sama ár. Í útskriftarnótu frá þeim tíma segi að henni hafi heilsast vel eftir aðgerðina, nema hún hafi ekki fengið þvaglátsþörf og hafi það verið til vandræða. Í bréfi Kristins Guðmundssonar 9. ágúst 2001 komi fram að tveimur dögum fyrir þá innlögn hafi hún skyndilega fengið mjög slæman verk í utanverðan hægri fót og dofakennd. Við skoðun hafi verið nokkurt máttleysi (paresis) við réttingu (dorsiflexion) á hægri stóru tá og útbreitt, minnkað húðskyn í öllum hægri fæti. Gerð hafi verið tölvusneiðmynd sem hafi ekki sýnt merki um brjósklos. Stefnandi hafi fengið ýmsa meðferð, þar á meðal deyfingar, og hafi hún útskrifast við þokkalega líðan. Af framangreindu megi sjá að eftir brjósklossjúkdóm og eftirfarandi aðgerð árið 1994 hafi stefnandi verið með truflanir á þvaglátum. Hún hafi einnig haft fallfót, ristarlömun, hægra megin og notað spelku af þeim sökum.
Í sjúkraskrá komi fram að stefnandi hafi lagst inn hjá stefnda í desember 1997, verið slæm undanfarandi tvær vikur og mjög slæm síðustu tvo daga. Fram komi að hún hafi að öðru leyti verið hraust nema máttminnkun í hægri fæti eftir brjósklos og að hún hafi ekki haft tilfinningu fyrir þvaglátum.
Stefnandi hafi aftur legið í tvo daga á spítalanum frá 11. október 1999 vegna bakverkja sem hafi verið rúmum 4 mánuðum áður en hún kom til Kristins Guðmundssonar 21. febrúar 2000. Fram komi í læknabréfi að hún hafi komið á bráðamóttöku vegna bakverks sem hún hafi haft í nokkur ár og hafi farið versnandi síðastliðna tvo daga. Hún hafi legið að mestu fyrir. Hún sé með þekkt brjósklos á milli C:V og C:VI og dropfoot á hægri fæti. Röntgenmynd af lendhrygg hafi sýnt lækkun á liðbolsbili L:IV-L:V og nabba á svæði L:II-L:III. Hún hafi farið heim en fyrirhugað að hún hitti Magnús Ólafsson, endurhæfingarlækni á Reykjalundi, næsta dag. Hún hafi fengið með sér uppáskrift fyrir verkjalyfjum. Í greinargerð landlæknis segi að seint á árinu 1999 hafi hún fengið slæma verki í háls sem leitt hafi út í hægri handlegg og hafi greinst með brjósklos í hálsi. Hún hafi verið í endurhæfingu á Reykjalundi um nokkurra vikna skeið vegna þessa og hafi lagast.
Í byrjun febrúar 2000 hafi stefnandi farið að finna fyrir slæmum bakverkjum sem hafi farið versnandi með þungum verk í vinstri fæti. Um miðjan mánuðinn, eða u.þ.b. viku fyrir komu til Kristins 21. febrúar, hafi hún verið orðin slæm að morgni og síðan versnandi. Hún hafi legið á heila- og taugaskurðdeild 25. til 28. febrúar. Hún hafi verið með verk í vinstri rasskinn, mjöðm og fæti, en minna í baki. Verkina hafi lagt fram í tær, mest í þriðju til fimmtu tá, sérstaklega í litlu tá. Hún hafi sagst fá dofa, jafnvel fram í stóru tá, á vinstri fæti. Hún hafi tekið verkjalyf. Við skoðun hafi hún verið stirðleg og hölt. Hún hafi átti erfitt með að ganga á hælum, sérstaklega á hægri fæti, og átt erfitt með að lyfta ristinni á báðum fótum. Hún hafi ekki átt gott með að rétta úr hægri fæti er hún sat og enn verra með þann vinstri. Vinstra hnéviðbragð hafi aðeins verið minnkað, en bæði hælviðbrögð hafi verið afar dauf eða upphafin. Kraftur í báðum ristum hafi verið minnkaður og tárétting minnkuð beggja vegna. Kraftur í iljum hafi verið vægt minnkaður á báðum fótum en í jarka áberandi minnkaður og minnkuð tilfinning í jarka og tám á sama hátt.
Í bréfi Kristins Guðmundssonar segi að tölvusneiðmynd 14. febrúar 2000, að því er virtist fljótlega eftir að einkenni hafi tekið sig upp en viku áður en hún kom til hans, hafi sýnt „post. op. breytingar hægra megin á L:IV-L:V liðbilinu, discus prolapsus centralt og yfir til vinstri á því bili nú. Enn er diskdegeneration á L:V-SI bilinu.“ Hún hafi haft mjög slæm einkenni frá baki og vinstri fæti í eina viku áður en hún hafi komið til hans og eftir að hjá henni hefði greinst brjósklos. Hún hafi verið mjög máttlaus í vinstri fæti, bæði um ökkla og tær og hafi haft minnkaða tilfinningu. Fram komi að hún hafi verið í þjálfun á Reykjalundi á sínum tíma, annað hvort eftir eða í sambandi við brjósklosaðgerðina 1994. Ef til vill hafi það verið 1999. Hún hafi svo aftur verið á Reykjalundi í 16 vikur, tiltölulega nýlega, út af einkennum frá hálsi. Þetta hafi lagast vel en ekki alveg. Aðeins 4 dögum síðar, 25. febrúar 2000, hafi hún verið lögð inn til aðgerðar. Gerð hafi verið smjásjáraðgerð vinstra megin. Við hana hafi fundist bæði töluvert af þöndum bláæðum í mænuganginum og einnig þúst yfir liðbilinu og í því biti af liðþófakjarna (discfragment) sem hafi verið fjarlægður á venjulegan hátt. Farið hafi verið inn í liðbilið með disc-töngum en þaðan hafi komið frekar lítið magn af eyddum liðþófakjarna. Virtist hafa náðst góð þrýstingsminnkun á tauginni. Við frekari leit hafi ekki fundist neinir lausir bitar og engin frekari útbungun. Skolað hafi verið innan úr liðbilinu með Gentamycin upplausn og depomedrol sprautað inn í aðgerðarsvæðið. Hún hafi verið útskrifuð 28. febrúar. Þá hafi hún enn verið með nokkra verki og hefði ekki fengið góðan mátt í fótinn, eins og segi í læknabréfi frá 4. maí 2000. Þar segi enn fremur að hún hefði fengið ráðleggingar um framhaldið hjá sjúkraþjálfara og læknum og verði í eftirliti hjá Kristni R. Guðmundssyni og heimilislækni. Henni hafi verið ráðlagt að hafa samband við lækna heila- og taugaskurðdeildar eftir þörfum.
Stefnandi hafi samkvæmt þessu verið skorin upp við fyrsta mögulega tækifæri eftir að hún kom til Kristins. Hún hafi verið með töluverð einkenni. Við aðgerðina hafi fundist útbungun og laus biti af brjóski sem hafi verið fjarlægður og inn hafi verið sprautað Depomedroli, sem hafi átt að auka við batann. Síðan hafi verið gerðar ráðstafanir um áframhaldandi meðferð og eftirlit, eins og segi í læknabréfi.
Stefnandi hafi verið lögð inn með bráðainnlögn 6. mars 2000 vegna yfirliðs, en farið samdægurs á lyfjadeild hjá stefnda. Meðan hún lá þar hafi verið gerð tölvusneiðmynd 7. mars. Um það segi í bréfi landlæknis að tölvusneiðmynd tekin 7. mars 2000 sýndi breytingar eftir aðgerð í liðbili L:IV-L:V og einnig brjósklos sem bungi aftur í mænugöngin yfir til vinstri. Þetta brjósklos hafi hliðrað L:V taugarótinni aftur á við og virtist hún vera bólgin. Þá virtist vera talsvert mikið blóð í skurðganginum inn að liðbili L:IV-L:V og hafi það hliðrað rótarvasa til hægri í hægri liðþófann. Kallað hafi verið á Kristin Guðmundsson sem hafi komið og skoðaði stefnanda 8. mars 2000. Í umsögn hans komi fram að hann væri „ekki alveg sannfærður um að Margrét væri með brjósklos recidiv og bent á að ekki væri vel að marka myndgreiningarrannsókn svo skömmu eftir aðgerð... “ Kristinn hafi ráðlagt að gerð yrði skuggaefnismyndataka ásamt nýrri tölvusneiðmynd. Í kjölfar þessa hafi bæklunarskurðlæknar hjá stefnda verið tilkallaðir. Leitað hafi verið álits sérfræðingsins Halldórs Jónssonar jr., en í áliti hans 14. mars 2000 segi að lasegue sé neg. MR hafi verið yfirfarið með Iðunni Leifsdóttur og öðrum röntgenlækni. Þau væru sammála um að sú fyrirferð sem sjáist í kringum taugina L5 og mænusekkinn sé hematoma. Þá sé mjög væg discprotrusion eins og áður. Taldi hann réttast að gefa stefnanda selektiva epidural-tauga deyfingu. Ef það hjálpi ekki sé ástæða til að endurtaka MR. Reynd hafi verið deyfingarmeðferð 14. mars og 5. apríl 2000 með nokkrum árangri.
Stefnandi hafi verið send á Reykjalund til endurhæfingar 10. apríl s.á. en með mjög takmörkuðum árangri. Hún hafi haft mikla verki og því verið aftur flutt á bráðamóttöku hjá stefnda að kvöldi 13. apríl. Í kjölfar þess hafi verið beðið um að hún yrði flutt á spítalann í Fossvogi til Kristins Guðmundssonar. Á tölvusneiðmynd 16. apríl sjáist brjósklos á bilinu L:IV-L:V, vinstra megin og gerð hafi verið smásjáraðgerð (microdiscectomia) á henni 18. sama mánaðar. Í læknabréfi sama dag, sem María Hrafnsdóttir hafi skrifað fyrir hönd Garðars Guðmundssonar, segi að aðgerðin hafi gengið vel og eftir aðgerð hafi hún ekki haft yfir neinum verkjum að kvarta. Hún hafi svo útskrifast 19. apríl við ágæta líðan og fengið ráðleggingar um framhaldið hjá sjúkraþjálfara og lækni. Hún stefni að því að halda áfram í þjálfun á Reykjalundi eftir páska og verði eftirlitið í höndum heimilislæknis, en einnig lækna heila- og taugaskurðlæknadeildar eftir þörfum.
Stefnandi byggi á því í stefnu að sönnuð séu mistök bæði við aðgerðina 25. febrúar 2000 og við eftirmeðferð stefnanda hjá stefnda auk þess sem aðgerðin framangreindan dag hafi ekki borið árangur. Þá byggi stefnandi á því að skilyrði séu til að snúa sönnunarbyrði við í málinu, en einnig að afleiðingar meðferðar hjá stefnda séu eins og greini í mati dómkvadds matsmanns. Framangreindu mótmæli stefndi sem röngu og ósönnuðu.
Mótmælt sé sem röngum fullyrðingum í stefnu að starfsmenn stefnda hafi ekki brugðist réttilega við í kjölfar aðgerðar, að stefnandi hafi orðið fyrir barðinu á pólitískum og faglegum árekstrum, að komið hafi verið í veg fyrir að framkvæmd yrði ný aðgerð og að læknar hafi forðast að koma að máli stefnanda. Stefnandi hafi fengið góða og vandaða læknisþjónustu hjá stefnda. Stefnandi hafi talsverðan hluta þess tímabils sem um ræði verið undir eftirliti lækna og hjúkrunarfólks inni á sjúkrastofnunum.
Stefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að starfsmenn stefnda hafi gert mistök við meðferð stefnanda hjá stefnda. Reynslumiklir læknar og hjúkrunarfólk hafi annast stefnanda hjá stefnda. Kristinn Guðmundsson hafi brugðist hratt og eðlilega við ástandi stefnanda þegar hann hitti hana fyrst. Mótmælt sé sem röngu og ósönnuðu að aðgerðin 25. febrúar 2000 hafi mistekist, en engin læknisfræðileg gögn styðji þá fullyrðingu stefnanda. Gögnin sanni hins vegar að rétt hafi verið staðið að upphaflegri greiningu á brjósklosi í baki hjá stefnanda og að rétt meðferð/aðgerð hafi verið valin. Í áliti landlæknis um aðgerðina sjálfa segi að rétt hafi verið staðið að upphaflegri greiningu á brjósklosi í baki í febrúarmánuði 2000 og rétt meðferð/aðgerð valin. Matsmaður svari spurningu um hvort réttilega hafi verið staðið að aðgerð 25. febrúar 2000 játandi. Aðgerðin þann dag hafi komið í veg fyrir meiri skaða en ekki sé þar með sagt að öruggt sé að skaði sá sem var orðinn fyrir aðgerð hefði gengið til baka.
Stefndi sé ósammála því að eftirmeðferð hafi verið ábótavant og því sé mótmælt að mistök hafi verið gerð af hálfu stefnda. Stefnandi hafi verið undir eftirliti lækna og hjúkrunarfólks talsverðan hluta þess tíma sem um ræði. Eftir aðgerðina hafi henni verið sinnt að ýmsu leyti. Hún hafi komið inn eftir yfirlið 6. mars 2000 en rannsaka hafi þurft orsakir þess. Stefnandi hafi farið í segulómun af mjóbaki 7. mars. Kristinn Guðmundsson hafi farið yfir niðurstöðu segulómunar en ekki haft trú á að stefnandi væri með endurtekið (recidiv) brjósklos eftir skoðun 8. mars, en þar komi einnig fram að í ljósi ástands hennar væri sennilega réttast að gera skuggaefnismyndatöku ásamt nýrri tölvusneiðmynd. Í bréfi hans til landlæknis 13. desember 2000 segi að hann sé ekki alveg sannfærður um að stefnandi væri með brjósklosresidive og hann hafi bent á að ekki væri vel að marka myndgreiningarrannsókn svo skömmu eftir aðgerð eða aðeins 13 dögum síðar. Í kjölfar þessa hafi bæklunarskurðlæknar hjá stefnda verið kallaðir til.
Leitað hafi verið álits Halldórs Jónssonar jr. bæklunarlæknis og sérfræðings í bakaðgerðum. Af áliti hans 14. og 15. mars sé ekki annað að sjá en að hann hafi verið sammála Kristni um að fyrirferð sem sæist í kringum taugina L5 og mænusekkinn væri blóð. Báðir röntgenlæknar hafi verið Halldóri sammála, þ.m.t. Ingunn Leifsdóttir. Deyfing hafi verið reynd með nokkrum árangri 14. mars og 5. apríl 2000.
Stefnandi hafi verið send á Reykjalund 10. apríl 2000 í mat og þjálfun með mjög takmörkuðum árangri. Hún hafi haft mikla verki og verið flutt á bráðamóttöku hjá stefnda 13. apríl 2000 og næsta dag, 14. apríl, á sjúkrahús stefnda í Fossvogi til Kristins Guðmundssonar. Tekin hafi verið ný tölvusneiðmynd sem sýnt hafi stórt brjósklos á aðgerðarsvæðinu og sú rannsókn verið staðfest með nýrri segulómunarrannsókn. Stefnanda hafi því verið boðið upp á aðgerð og hana hafi framkvæmt að ósk stefnanda sjálfrar Garðar Guðmundsson taugaskurðlæknir 18. sama mánaðar. Hann hafi fundið stórt brjósklos sem hann hafi talið augljóst að hefði valdið stefnanda töluverðum einkennum. Hún hafi útskrifast 19. apríl við ágæta líðan. Henni hafi verið sinnt og hvergi komi fram að hendinni hafi verið sleppt af henni í meðferðinni. Stundum fái fólk brjósklos mjög skömmu eftir aðgerð en stundum eftir nokkur ár. Stefnanda hafi verið greint frá þessum möguleika fyrir aðgerð.
Af hálfu stefnda sé á því byggt að orsakir ástands stefnanda vinstra megin í baki, sem mál þetta snúist um, séu skemmdir sem orðið hafi áður en stefnandi leitaði til stefnda. Ósannað sé að henni hefði versnað við meðferð hjá stefnda eða af seinna brjósklosinu árið 2000. Umtalsverð einkenni hafi legið fyrir nokkru fyrir fyrstu skoðun hjá Kristni 21. febrúar 2000, máttleysi og lömunartilfinning, jafnvel um nokkurra vikna skeið. Í sjúkraskrá frá 25. febrúar komi fram að við skoðun fyrir aðgerð þann dag sé kraftminnkun einnig töluverð í bæði hægri og vinstri ganglim. Gögn málsins staðfesti þvagvandamál frá fyrri tíð og sé útilokað að það tengdist því máli sem hér sé til umfjöllunar.
Niðurstöðu matsgerðar sé mótmælt að öðru leyti en því að stefndi sé sammála matsmanni um að rétt hafi verið staðið að greiningu bakverkja hjá stefnanda, að réttilega hafi verið staðið að aðgerðinni 25. febrúar 2000 svo og svari hans við spurningunni um að aðgerðin þann dag hafi skilað árangri og að hún hafi verið framkvæmd með eðlilegum hætti á allan hátt. Þá sé stefndi einnig sammála matsmanni um að aðgerðin 18. apríl 2000 hafi verið réttilega framkvæmd sem virtist óumdeilt í málinu. Að öðru leyti sé niðurstöðu matsgerðar mótmælt sem rangri.
Ekki sé á ábyrgð Kristins Guðmundssonar eða stefnda það sem matsmanni þyki skorta upp á góða læknisfræði og rétta meðferð er hann telji að of lengi hafi verið beðið, í fyrsta lagi eftir að fá tölvusneiðmynd til staðfestingar greiningunni og í öðru lagi að of lengi hafi verið beðið eftir tíma hjá taugaskurðlækni, þannig að líkur á bata á máttleysi í það minnsta og jafnvel verkjum hafi verið orðnar verulega minni en ella þegar loks til aðgerðar kom. Stefndi sé ósammála matsmanni um að ekki hafi verið réttilega staðið að umönnun, eftirliti og eftirmeðferð stefnanda í kjölfar aðgerðar 25. febrúar og því að aðgerð 18. apríl hafi átt að gerast löngu fyrr. Stefndi sé einnig ósammála öllum niðurstöðum matsmanns varðandi afleiðingar meintra mistaka og telji þær rangar. Stefnandi hafi að mati stefnda enga varanlega örorku hlotið og engan varanlegan miska vegna meðhöndlunar stefnda á henni. Stefnandi eigi þar með ekki rétt á neinum bótum úr hendi stefnda og sé öllum svörum í liðum 2.1. - 2.5. matsgerðarinnar mótmælt. Stefndi telji matsgerðina haldna göllum, t.d. virtist matsmaður blanda saman liðum 2.3. og 2.4. í niðurstöðum sínum og vera þar að meta það sama.
Niðurstaða landlæknis hafi verið sú að ekki yrði séð af gögnum málsins og samkvæmt reynslu þess sem skýrsluna ritaði að um frekari varanleg mein hafi orðið að ræða umfram það sem búast hefði mátt við eftir upphaflegu aðgerðina. Einnig styðji álit Einars M. Valdimarssonar þessa niðurstöðu landlæknis. Að mati stefnda sé núverandi ástand stefnanda og batahorfur hennar verulega vanreifaðar. Stefndi mótmæli sem röngum neikvæðum ummælum um Kristin Guðmundsson lækni og bendi á að fjöldi lækna hafi komið að meðferð stefnanda.
Landlæknir hafi komist að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið staðið að upphaflegri greiningu á brjósklosi í baki stefnanda í febrúar 2000 og rétt meðferð/aðgerð valin. Niðurstaða hans hafi hins vegar verið sú að ekki hafi verið rétt staðið að eftirmeðferð stefnanda eftir skurðaðgerð. Stefndi sé ósammála þessu. Stefndi sé einnig ósammála því sem fram komi í bréfi Einars M. Valdimarssonar að segulómrannsókn 8. mars 2000 hafi leitt í ljós brjósklos og einnig því að vegna ómarkvissrar eftirmeðferðar hafi orðið óeðlileg töf á greiningu á endurteknu brjósklosi og viðeigandi meðferð og að sá dráttur hafi lengt tíma líkamlegra og andlegra þjáninga stefnanda að óþörfu, en einnig því að stefnandi hafi ekki fundið fyrir máttminnkun og dofa í vinstri ganglim fyrir fyrri brjósklosaðgerðina. Stefndi vísi jafnframt til yfirmatsins en með því hafi verið sannað að engin mistök hafi verið gerð. Engin skilyrði séu til að snúa sönnunarbyrði við í málinu eða slaka á sönnunarkröfum. Fyrir framangreindu og öllu sem tjóni stefnanda viðkomi, þ.m.t. um sök, orsakir, orsakasamband, sennilega afleiðingu o.fl. hafi stefnandi alla sönnunarbyrði. Enginn starfsmaður, sem stefndi beri ábyrgð á, hafi sýnt af sér sök í málinu.
Stefndi vísi til laga nr. 50/1993 og til skilyrða almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð auk þeirra laga og lagasjónarmiða sem þegar hafi verið vísað til. Málskostnaðarkrafan sé reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Eins og hér að framan hefur verið rakið fékk stefnandi slæman verk frá baki sem leiddi niður í vinstri fót í byrjun febrúar 2000. Einkennin versnuðu á næstu dögum og leitaði stefnandi þá til heimilislæknis. Samkvæmt tölvusneiðmyndum, sem teknar voru 14. febrúar sama ár, greindist brjósklos í baki stefnanda á milli fjórða og fimmta mjóbaksliða og leitaði hún þá til Kristins Guðmundssonar, sérfræðings í heila- og taugaskurðlækningum. Í gögnum málsins kemur fram að brjósklosið hafi verið fjarlægt 25. febrúar á hefðbundinn hátt. Í aðgerðarnótu læknisins sama dag kemur fram að stefnandi hafði fundið fyrir lömun í vinstri fæti viku fyrir aðgerðina. Stefnandi hefur sjálf lýst þessu ástandi þannig að hún hafi fundið fyrir máttleysi í fætinum og að hún hafi átt erfitt með að lyfta honum. Stefnandi var því með slettifót og dofa niður í vinstri fótinn eftir miðjan febrúar 2000. Stefnandi hefur enn fremur lýst því að eftir aðgerðina 25. febrúar hafi hún fundið fyrir breytingu á verknum, sem hafi verið minni, sérstaklega í litlu tánni, en hún hafi fundið fyrir auknu máttleysi í stórutá og auknum verk þeim megin, það er um innanverðan fótinn. Stefnandi var útskrifuð af Sjúkrahúsi Reykjavíkur 28. febrúar, þremur dögum eftir aðgerðina. Ekki kemur fram í sjúkraskrá að þá hafi verið gerð á henni neurólógísk skoðun og þar af leiðandi liggja slíkar niðurstöður ekki fyrir við útskrift. Verður af þessum sökum ekki unnt að gera samanburð á neurólógísku ástandi hennar fyrir aðgerðina 25. febrúar og eftir hana. Í sjúkraskrá um ástand hennar segir þó að hún hafi verið með nokkra verki og hefði ekki fengið góðan mátt í fótinn. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að líta svo á að ný einkenni hafi komið fram strax að aðgerðinni lokinni. Í matsgerð Sverris Bergmanns segir um það atriði að aðgerðin hafi út af fyrir sig skilað árangri og verði eftir lýsingu ekki annað séð en að hún hafi verið framkvæmd með eðlilegum hætti á allan hátt. Segir þar síðan að hins vegar sýndist að nýtt brjósklos hefði orðið strax með einkennum sem komið hefðu fram örlítið öðruvísi strax að aðgerðinni lokinni. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir og er óumdeilt að stefnandi fékk nýtt brjósklos í kjölfar aðgerðarinnar sem reyndist erfitt að greina fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Brjósklosið ásamt blóði og bólgum í taugarót hafa valdið stefnanda miklum verkjum. Hinir sérfróðu meðdómsmenn telja að þessi einkenni hafi komið fram án þess að mistökum við aðgerðina sjálfa verði þar um kennt eða hvernig að henni var staðið enda hefur ekkert komið fram í gögnum málsins sem styður að svo hafi verið. Í álitsgerð landlæknisembættisins 25. september 2001 segir að álitsgjafi hafi metið málið þannig að rétt hafi verið staðið að upphaflegri greiningu á brjósklosi í baki stefnanda í febrúar 2000 og rétt meðferð/aðgerð valin. Verður með vísan til alls þessa að telja ósannað að mistökum við aðgerðina 25. febrúar 2000 verði kennt um brjósklosið sem stefnandi fékk eftir hana og tjón hennar verður rakið til.
Í aðgerðarlýsingu Kristins Guðmundssonar 25. febrúar 2000 kemur fram að stefnandi hefði þá verið illa haldin af einkennum í vinstri fæti í frekar stuttan tíma eða rúma viku, en hún hafi verið með máttleysi í rist þannig að rétt þætti að bíða ekki með aðgerð. Oft eru brjósklos látin bíða í a.m.k. mánuð ef einungis verkur er til staðar. Það er gert í þeim tilgangi að fram komi hvort einkennin gangi til baka og komist verði hjá aðgerð. Undantekningar á þessu eru ef verkur er óbærilegur eða, og þá sér í lagi, ef lömun er til staðar. Í matsgerð Sverris Bergmanns kemur fram að almenna reglan sé sú að valdi brjósklos máttleysi skuli þrýstingi aflétt af taugarót eins fljótt og auðið er og helst ekki síðar en tveimur sólarhringum eftir að máttleysi komi fram. Líði lengri tími þar til aflétting þrýstings eigi sér stað séu minnkandi líkur á því að máttur komi að fullu að nýju eftir aðgerð. Því lengur sem dragist að létta þrýstingi af taugarót eftir að lömun er komin fram því minni líkur séu til þess að lömunin gangi nokkurn tíma til baka. Frá þessu geti verið frávik og dæmi séu um að máttleysi, sem staðið hafi lengi, hafi jafnað sig en það séu þó undantekningar.
Brjósklosið sem stefnandi fékk eftir aðgerðina 25. febrúar 2000 var til staðar á mynd, sem tekin var 8. mars sama ár, eins og lýst er í röntgensvari en þar segir: „Á bili L4-L5 sjást postop breytingar. Segulskinsbreytingar eru í liðþófanum og hann lækkaður. Brjósklos sést bunga aftur í mænuganginn paracentralt vinstra megin og dislocerað L5 rótinni aftur á við. L5 rótin er bólgin. Talsvert mikið blóð er í skurðganginum inn að diskinum L4-L5 og dislocerar þar durasekknum til hægri í hæð við liðþófann.“ Brjósklosið hefur því hliðrað tauginni og þar með þrýst á hana. Brjósklos var því til staðar á röntgenmyndum frá þessum tíma sem þurfti að athuga betur að mati skurðlæknisins sem framkvæmdi aðgerðina eins og fram kemur í ráðgefandi svari hans 9. mars 2000. Það var ekki gert en eins og fram hefur komið er mikilvægt að létta á þrýstingi á taugavef eins fljótt og hægt er því annars aukast líkur á taugaskaða. Aðgerðin var svo að lokum gerð 18. apríl, eða sex vikum eftir að brjósklosið kom fram við segulómun. Lömunin sem stefnandi hafði fundið fyrir í um það bil viku fyrir aðgerðina 25. febrúar 2000 gekk ekki til baka að lokinni aðgerð. Hinir sérfróðu meðdómsmenn telja að lömun, sem staðið hefur í viku fyrir aðgerð, gangi að öllu jöfnu að mestu til baka en sá tími er í öllu falli ekki sambærilegur við þá töf sem varð á því að endurbrjósklosið væri lagfært.
Samkvæmt öllu þessu verður að telja að brýnt hafi verið að létta þrýstingi sem fyrst af taugarót á milli fjórða og fimmta hryggjaliða stefnanda þegar einkenni komu fram um lömun niður í vinstri fót hennar upp úr miðjum febrúar 2000 eins og að framan er rakið. Stefnandi losnaði ekki við einkennin eftir aðgerðina 25. febrúar þótt einhverjar breytingar hafi orðið á þeim eins og fram hefur komið. Allar tafir við þannig aðstæður eru almennt til þess fallnar að auka hættu á því að varanlegar skemmdir verði á tauginni þótt dæmi séu vissulega fyrir því að það þurfi ekki að gerast. Allan tímann frá seinni hluta febrúar til 18. apríl 2000 hafði stefnandi einkenni um þrýsting á taugarótina. Stefnandi var flutt frá bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur 6. mars sama ár á sjúkrahús stefnda við Hringbraut sem átti vaktina þann sólarhring. Fyrir liggur í málinu að aðgerðarlæknir, sem kallaður var til í kjölfarið, benti á 9. mars sama ár að gera þyrfti TS myelógrafíu á hrygg stefnanda til að staðreyna hvert vandamálið væri en það væri marktækasta rannsóknin. Það var ekki gert. Hins vegar var ekki fyrr en 13. apríl sama ár tekin tölvusneiðmynd af lendarhrygg, sem sýndi stórt brjósklos á aðgerðarsvæðinu, og var stefnandi flutt á Sjúkrahús Reykjavíkur næsta dag til aðgerðar. Af þessu urðu óþarfa tafir á að greina brjósklosið og af þeim sökum var þrýstingnum ekki létt af taugarótinni fyrr en með aðgerð 18. apríl sama ár þegar stórt brjósklos var fjarlægt en ágreiningslaust er í málinu að þetta hafi valdið stefnanda miklum verkjum og öðrum einkennum sem hún hafði á þessum tíma. Í yfirmati frá 8. júlí 2005 eru einkenni, sem stefnandi hafði þá, talin stafa af varanlegri truflun frá taugarótum, þ.e. fimmtu mjóbakstaug, sem orðið hafi vegna þrýstings á hana og hafi einkennin ekki lagast þrátt fyrir að þrýstingnum hefði verið aflétt. Stefnandi sé með viðvarandi verki í vinstri fæti og dofa sem sé aðeins meira útbreiddur í vinstri fæti en þeim hægri. Í báðum fótum sé hún með dystoníu af rótarútbreiðslu sem taki til fimmtu mjóbakstaugar. Einkennin séu talin varanleg. Yfirmatsmenn eru sammála áliti landlæknis á því að rétt hefði verið að skoða stefnanda og rannsaka hana með myndgreiningarrannsóknum án tafar vegna hugsanlegra blæðinga eða annarra óhappa á aðgerðarsvæðinu og rétt hefði verið að leggja hana strax inn á Sjúkrahús Reykjavíkur en ekki vaktspítala eftir yfirlið 6. mars. Þeir telja einnig að hefðu slíkar rannsóknir ásamt sneiðmyndarannsókn, sem hefðu verið framkvæmdar án tafa eftir aðgerðina, sýnt án vafa fram á nýtt brjósklos hefði átt að huga að því að framkvæma strax brjósklosaðgerð en mat á þessum atriðum sé mjög erfitt eftir á þar sem ekki sé vitað nákvæmlega hvenær hið nýja brjósklos hafi myndast. Yfirmatsmenn komust með þessu að þeirri niðurstöðu að ekki sé sannað að bótaskyld mistök hafi átt sér stað af hálfu starfsmanna stefnda og að ekki sé hægt að fullyrða að sá dráttur sem hafi orðið á seinni brjósklosaðgerðinni hafi valdið varanlegum skaða hjá stefnanda eða aukið á sköddun hennar. Hinir sérfróðu meðdómsmenn telja að við mat á þessu verði ekki horft fram hjá almennum reynslulögmálum á því hver áhættan er talin vera á að draga að aflétta þrýstingi af taugarótum, en almennt er talið mjög brýnt að grípa til viðeigandi aðgerða og aflétta þrýstingi af taugarót við þær aðstæður sem þarna var um að ræða eins og hér að framan hefur verið lýst. Yfirmatsmenn hafa ekki lagt mat á þetta. Einnig verður að telja að yfirmatsmenn hafi horft fram hjá því að ekki höfðu farið fram viðeigandi rannsóknir, eins og Kristinn Guðmundsson hafði bent á að gera þyrfti 9. mars, við mat á því hvort gera hefði átt aðgerðina, sem gerð var 18. apríl 2000, fyrr. Dómurinn telur yfirmatsgerðina ekki nægilega rökstudda að þessu leyti og verður hún af þeim sökum ekki lögð til grundvallar í málinu við mat á því hvort rétt hafi verið brugðist við vandamálum sem komu upp eftir fyrri aðgerðina 25. febrúar sama ár.
Eins og fram kemur í matsgerð Sverris Bergmanns eru hin varanlegu einkenni, sem stefnandi hefur, verkir í vinstri fæti, máttleysi og dystonía. Dystonía getur valdið miklum sársauka og er oft viðvarandi til lengri eða skemmri tíma. Meðferð á þessu er oft erfið. Vöðvakrampi í vöðvum ganglims, eins og í tilfelli stefnanda, getur aukist við hreyfingar ganglimsins við göngu þar sem fóturinn snýst innávið. Dystonia getur komið í kjölfar úttaugakerfisskaða, eins og í tilfelli stefnanda, við þrýsting á taugar út frá brjósklosi. Því verður að telja að sá dráttur sem varð á réttri meðferð hafi verið mikilvægur orsakaþáttur í því að hún hlaut dystoníu í vinstri ganglim auk annarra einkenna, þ.e. verki og máttleysi, sem lýst er í matsgerð Sverris Bergmanns. Með vísan til þessa og matsgerðanna verður að telja að ástand stefnanda muni ekki breytast til batnaðar frá því að skoðun og mat á heilsufari stefnanda fór fram samkvæmt matsgerðunum.
Hinir sérfróðu meðdómsmenn telja að tafirnar, sem urðu á því að þrýstingi væri létt af tauginni frá því að einkenni um máttleysi eða lömun komu fram um miðjan febrúar til 18. apríl, hafi valdið stefnanda auknu máttleysi, dystoníu (vöðvakrampa) og skyntruflunum og geri það að verkum að einkennin hafi versnað umfram það sem orðið hefði ef ekki hefði til þessara óhóflegu tafa komið. Með þessu telur dómurinn að líta verði þannig á að fram hafi komið fullnægjandi sönnun fyrir því að skaðinn á tauginni, sem varð varanlegur, sé til kominn vegna þessara tafa, sem meðal annars urðu vegna þess að viðeigandi og nauðsynlegar rannsóknir voru ekki gerðar 9. mars 2000 samkvæmt því sem rakið hefur verið. Læknismeðferð sem stefnandi hlaut hjá stefnda var að þessu leyti ábótavant og hefur stefnandi af þeim sökum orðið fyrir tjóni, sem hér hefur verið lýst og stefndi ber samkvæmt því sem hér hefur verið rakið bótaábyrgð á. Ber því að fallast á viðurkenningarkröfu stefnanda í þessum þætti málsins.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 753.650 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Stefáns Geirs Þórissonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin án virðisaukaskatts 500.000 krónur í þessum þætti málsins, en útlagður kostnaður er 253.650 krónur.
Málskostnaður fellur að öðru leyti niður.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Braga Guðmundssyni bæklunarskurðlækni og Guðrúnu Rósu Sigurðardóttur sérfræðingi í heila- og taugasjúkdómum.
DÓMSORÐ:
Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Landspítala, háskólasjúkrahúss, gagnvart stefnanda, Margréti Erlu Benónýsdóttur, vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna ófullnægjandi læknismeðferðar hjá stefnda á tímabilinu 25. febrúar til 18. apríl 2000.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 753.650 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Stefáns Geirs Þórissonar hrl., 500.000 krónur í þessum þætti málsins, en útlagður kostnaður er 253.650 krónur.
Málskostnaður fellur að öðru leyti niður.