Hæstiréttur íslands

Mál nr. 368/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júní 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. júlí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 7. desember 2016 var varnaraðili sakfelldur meðal annars fyrir líkamsárás og þjófnað. Brot hans voru talin varða við 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var honum gert að sæta fangelsi í 45 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað í tvö ár frá uppkvaðningu dómsins að telja og skyldi hún niður falla héldi varnaraðili almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Fram er kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi með háttsemi þeirri, sem hann er sakaður um og varðar fangelsisrefsingu, rofið í verulegum atriðum það skilorð sem honum var sett með dóminum. Samkvæmt þessu og með vísan til c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júní 2017.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 7. júlí nk. klukkan 16.

                Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að rannsókn sé nú að mestu lokið á ætluðu kynferðisbroti kærða, en honum sé gefið að sök að hafa aðfaranótt föstudagsins 5. maí sl. farið óboðinn inn á heimili í [...] og inn í herbergi 12 ára stúlku á heimilinu. Stúlkan hafi vaknað við snertingu sakbornings þar sem hann hafi staðið við rúm hennar, en hann muni meðal annars hafa strokið henni um bak, farið inn undir nærbol hennar og farið niður á mjöðm og að rassinum. Hún hafi reynt að færa sig fjær honum og hann þá skriðið upp í rúmið til hennar og reynt að strjúka henni meira. Stúlkan hafi þá náð að fara inn á baðherbergi og læsa að sér, en kærði hafi þá náð að opna hurðina utan frá, en stúlkunni tekist að læsa aftur að sér. Kærði hafi svo farið inn í eldhús og síðan út úr húsinu. Tekin hafi verið skýrsla af stúlkunni í Barnahúsi 22. maí sl. og hafi hún lýst atvikum á sama hátt og hún hafði áður gert. Að hennar sögn hafi hún verið hrædd þegar atvikið átti sér stað og hafi hún átt erfitt með að tjá sig um atvikið og liðið mjög illa yfir því.

Síðar í greinargerð lögreglu segir að fjórum sinnum sömu nótt hafi lögreglu verið tilkynnt um mann sem hafi verið að kíkja á glugga eða reyna að komast inn í hús í [...]. Telji lögregla að um sé að ræða kærða í öllum tilfellum. Þau mál séu einnig til rannsóknar, auk nokkurra annarra sambærilegra mála þar sem rökstuddur grunur leiki á um að kærði eigi í hlut.

Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði viðurkennt að hafa farið inn í hús þar sem kona að nafni A, sem hann hefði hitt fyrr um kvöldið, hefði staðið við glugga og sent honum koss með vörunum. Hafi hann þá farið inn í húsið. Hann hafi kannast við að hafa klappað stúlkunni, en neitað því að hafa gert það í kynferðislegum tilgangi. Hann hafi síðan hafa áttað sig á þetta væri ekki áðurnefnd A. Þá hafi kærði ekki kannast við að hafa reynt að komast inn á baðherbergi til stúlkunnar. Þegar hann hafi farið út úr húsinu hefði hann tekið með sér flösku af gini. Kærði hafi sagst hafa fengið fyrirboða eða sýn um að kona í húsinu hefði boðið honum að koma inn og því hefði hann farið inn í húsið.

Í greinargerðinni segir að rannsókn lögreglu hafi einnig beinst að eftirtöldum málum og sé það rökstuddur grunur lögreglu að kærði hafi verið að verki í öllum tilvikum.

[...]

Hinn 29. mars sl. barst tilkynning lögreglu um að aðili sem hefði verið að gægjast á glugga í íbúðarhúsi í [...] hefði komið inn um ólæstar útidyrahurð. Honum hefði verið vísað út en hefði verið með kynferðislegar athugasemdir í garð kvenkyns húsráðanda. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði sök.

[...]

Aðfaranótt 5. maí sl. hafi húsráðandi í íbúðarhúsi í [...] tilkynnt um mann sem væri að reyna að komast inn um glugga. Manninum hafi verið lýst sem ljóshærðum. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað sök.

[...]

Aðfaranótt 5. maí sl. var tilkynnt um mann sem væri að reyna að opna glugga í íbúðarhúsi í [...]. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað sök.

[...]

Hinn 5. maí sl. var tilkynnt um mann sem hefði komið upp að stúlku fæddri 2001 þegar hún var á leið heim úr [...] í [...]. Maðurinn hefði spurt hana að því hvað hún væri gömul og hvort hún ætti kærasta. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað sök.

[...]

Tilkynnt var um mann sem hefði verið að gægjast á glugga á baðherbergi þar sem kona hefði staðið ber að ofan. Hún hafi nú lagt fram kæru vegna blygðunarsemisbrots. Kærði hafi játað að hafa gægst á glugga í húsinu en neitað að hafa séð að konan hefði verið ber að ofan.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-291/2016 frá 7. desember 2016 hafi kærði verið dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, m.a. fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með brotunum sem reifuð séu hér að framan sé ljóst að kærði hafi rofið skilorð dómsins, en kærði hafi játað að hafa farið óboðinn inn á heimili í [...] líkt og að framan greini. Þá sé rökstuddur grunur uppi um að hann hafi gert tilraun til húsbrots og gerst sekur um blygðunarsemisbrot. Auk þess sé um hrinu brota að ræða á afar skömmum tíma.

Af öllu framangreindu sögðu telji lögreglustjóri að uppfyllt séu skilyrði c-liðar 95. gr. laga um meðferð sakamála, þ.e. að kærði hafi með brotum sínum rofið skilorð dóms frá því í desember sl., sem og brotið ítrekað af sér undanfarið, m.a. hafi brot hans beinst gegn börnum og verið af kynferðislegu toga.

Sakarefni málanna séu talin varða við 2. mgr. 202. gr., 209. gr., 231. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a- og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Með hliðsjón af framangreindu og gögnum málsins er fallist á það með lögreglustjóra að í lögreglumáli nr. [...] sé kærði undir rökstuddum grun um refsiverðan verknað sem fangelsisrefsing er lögð við, þ.e. að kærði hafi aðfaranótt föstudagsins 5. maí sl. gerst sekur um húsbrot að [...] í [...] og í sama skipti gerst sekur um kynferðislega áreitni og þjófnað. Auk þess leikur rökstuddur grunur á um að kærði hafi í lok mars sl. gerst sekur um húsbrot og að morgni 4. maí sl. gerst sekur um blygðunarsemisbrot.

Samkvæmt framangreindu er uppi rökstuddur grunur um að kærði hafi í verulegum atriðum rofið skilorð dóms sem hann hlaut 7. desember 2016. Með þeim dómi var kærða gert að sæta fangelsi í 45 daga fyrir líkamsárás, þjófnað, ölvunarakstur, akstur án ökuréttinda og akstur undir áhrifum fíkniefna, en fullnustu refsingarinnar var frestað í tvö ár héldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt framangreindu er þannig fullnægt skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. til að taka megi til greina kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi áfram, allt til föstudagsins 7. júlí nk. klukkan 16.