Hæstiréttur íslands
Mál nr. 30/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Afleiðusamningur
- Handveð
|
|
Þriðjudaginn 14. febrúar 2013. |
|
Nr. 30/2013.
|
Skólabrú ehf. (Skarphéðinn Pétursson hrl.) gegn LBI hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Afleiðusamningur. Handveð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum S ehf. við slit fjármálafyrirtækisins L hf. og fallist á gagnkröfu L hf. á hendur S ehf. Krafa S ehf. var tilkomin vegna innstæðu í nafni félagsins sem afhent hafði verið L hf. að handveði og L hf. leyst til sín vegna vanskila S ehf. á tilteknum afleiðusamningi milli aðila. Ekki var fallist á með S ehf. að samið hefði verið um að einungis hluti hinnar handveðsettu innstæðu félli í hlut L hf. vegna uppgjörs afleiðusamningsins. Var því hafnað kröfu S ehf. við slit L hf. sem nam mismuninum. Þá var ekki fallist á kröfu S ehf. er laut að því að handveðréttur í tilteknum bankareikningi yrði aflétt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. janúar 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2012, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu að fjárhæð 35.453,36 evrur, sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila, svo og kröfu sóknaraðila um að aflétt yrði handveðrétti varnaraðila í nánar tilgreindum eignum. Á hinn bóginn var tekin til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að greiða sér 20.752.812 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. nóvember 2008 til 17. janúar 2011, allt að frádreginni greiðslu síðastgreindan dag að fjárhæð 24.692.920 krónur. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði krafa sín á hendur varnaraðila að fjárhæð 35.453,36 evrur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. janúar 2011 til greiðsludags og njóti hún stöðu búskröfu, sem sóknaraðili nefnir svo, við slit varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili þess að aflétt verði handveðrétti varnaraðila í bankareikningum nr. 0101-38-712437 og 0101-05-192976. Loks krefst hann málkostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms hefur heiti varnaraðila verið breytt úr Landsbanka Íslands hf. í LBI hf.
Eins og ráðið verður af hinum kærða úrskurði hafði sóknaraðili ekki uppi kröfu við aðalmeðferð málsins í héraði um að aflétt yrði handveðrétti varnaraðila í bankareikningi nr. 0101-38-712437 og verður þeirri kröfu ekki komið að hér fyrir dómi. Þá kemur fram í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar að hann hafi við aðalmeðferðina fallið frá kröfu um að aflétt yrði „handveðum í bréfum í fjármálagerningum til samræmis við samkomulag aðila“. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er að viðurkenna kröfu, sem sóknaraðili, Skólabrú ehf., lýsti við slit varnaraðila, LBI hf., um greiðslu á 35.453,36 evrum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. janúar 2011 til greiðsludags, svo og kröfu sóknaraðila um að aflétt verði handveðrétti varnaraðila í bankareikningi nr. 0101-05-192976.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 20.752.812 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2008 til 17. janúar 2011, allt að frádreginni greiðslu síðastgreindan dag að fjárhæð 24.692.920 krónur.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2012.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 12. desember sl., var þingfest 20. febrúar 2012.
Sóknaraðili er Skólabrú ehf., kt. 450991-1049, Reykjavík.
Varnaraðili er Landsbanki Íslands hf. í slitameðferð.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 35.453.36 evrur auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2011 frá 17. janúar 2011 til greiðsludags, sem lýst var sem búskröfu samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991, í bú Landsbanka Íslands 18. nóvember 2011, verði viðurkennd að fullu eins og henni var lýst. Þá krefst sóknaraðili þess að handveði í reikningi nr. 0101-05-192976 verði aflétt sem og ,,handveðum í bréfum í fjármálagerningum“ sóknaraðila. Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá gerir varnaraðili þá gagnkröfu að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila 20.752.812 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2008 til 17. janúar 2011, að frádreginni greiðslu 17. janúar 2011 að fjárhæð 24.692.020 krónur. Þá krefst varnaraðili í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, að skaðlausu.
Í gagnsök krefst sóknaraðili þess aðallega að kröfu varnaraðila í gagnsök verði vísað frá dómi. Til vara krefst sóknaraðili þess að kröfu varnaraðila í gagnsök verði hafnað, en til þrautavara að krafa varnaraðila í gagnsök verði lækkuð stórlega. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um frávísun gagnkröfu frá dómi, verði hafnað. Þá krefst hann þess að öðrum kröfum sóknaraðila í gagnsök verði hafnað. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
Málsatvik
Hinn 7. október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. til að taka yfir starfsemi Landsbanka Íslands hf.
Skipaði Fjármálaeftirlitið þá skilanefnd til að taka við stjórn bankans. Því næst var Nýi Landsbankinn hf. stofnaður (nú Landsbankinn hf.) og voru innlendar innstæður varnaraðila, sem og helstu eignir hans sem tengdust innlendri starfsemi hans, fluttar yfir til nýja bankans, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Framangreindri ákvörðun var breytt með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 12. október 2008 og kveðið á um að Landsbankinn hf. tæki ekki við réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf. samkvæmt afleiðusamningum. Loks var með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 19. október 2008 kveðið á um að Landsbankinn hf. skyldi standa Landsbanka Íslands hf. skil á sérgreindum tryggingum viðskiptamanna eftir því sem við ætti vegna kröfuréttinda og afleiðusamninga sem ekki flyttust yfir til Landsbankans hf. Afleiðusamningur sóknaraðila og varnaraðila varð því eftir hjá varnaraðila og fluttist ekki yfir til Landsbankans hf. á grundvelli framangreindra ákvarðana Fjármálaeftirlitsins.
Hinn 22. apríl 2009 tóku gildi lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Meðal aðgerða sem lögin höfðu í för með sér var skipun slitastjórnar sem sinnir öllum öðrum verkefnum en þeim sem skilanefnd eru sérstaklega falin samkvæmt lögum nr. 161/2002. Hinn 29. apríl 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn fyrir varnaraðila samkvæmt skriflegri beiðni skilanefndar. Hinn 30. apríl 2009 gaf slitastjórn út innköllun til kröfuhafa sem var birt í Lögbirtingablaði sama dag. Sóknaraðili lýsti kröfu að höfuðstólsfjárhæð 35.453.36 evra, sem var móttekin hjá varnaraðila hinn 23. nóvember 2011. Jafnframt lýsti sóknaraðili kröfu vegna áfallinna dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. janúar 2011 til greiðsludags og kröfu vegna innheimtukostnaðar. Í kröfulýsingu var krafist rétthæðar samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Krafa þessi á rót að rekja til framvirks samnings sem aðilar gerðu með sér, 21. ágúst 2008 um kaup á 500 hlutum í félaginu Atlantic Petroleum P/F á fyrir fram ákveðnu verði og samkomulags sem sóknaraðili telur að komist hafi á um uppgjör samningsins. Samningur þessi er nr. 11319-3. Áður, eða 17. mars 2008, hafði sóknaraðili með handveðsyfirlýsingu sett og afhent varnaraðila að handveði innstæðu á bankareikningi nr. 0101-38-712437 til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum skuldum sóknaraðila við varnaraðila. Þá gaf sóknaraðili út nýja handveðsyfirlýsingu 20. ágúst 2008. Með yfirlýsingu þessari setti sóknaraðili og afhenti varnaraðila að handveði innstæðu á fyrrgreindum bankareikningi eins og hún var á hverjum tíma til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum skuldum sóknaraðila við varnaraðila.
Fyrirsvarsmaður sóknaraðila undirritaði almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti Landsbanka Íslands og viðauka við þá, 20. ágúst 2008, en í 1. gr. skilmálanna segir að þeir gildi um öll markaðsviðskipti Landsbanka Íslands hf. og viðskiptamanns, svo sem um skammtímalánveitingar, gjaldeyrisviðskipti, afleiðuviðskipti og kaup og sölu verðbréfa. Í 7. gr. hinna almennu skilmála segir: Komi til þess að skuldbindingar viðskiptamanns séu gjaldfelldar eða samningi/samningum lokað, að hluta til eða öllu leyti, er LÍ heimilt, án frekari fyrirvara að leita fullnustu fyrir kröfum sínum í þeim tryggingum sem viðskiptamaður hefur sett. Er LÍ í sjálfsvald sett hvort leitað er fullnustu í öllum tryggingum sem hafa verið settar eða einungis hluta þeirra (og þá í hvaða röð það er gert). Viðskiptamaður skal greiða dráttarvexti af kröfu LÍ frá og með gjaldfellingardegi, í samræmi við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, ásamt síðari breytingum. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga samninga
Framangreindur samningur aðila var á gjalddaga 21. nóvember 2008 og skyldi uppgjör hans eiga sér stað þá, en annars skyldu reiknast dráttarvextir á samningsfjárhæð miðað við auglýsta dráttarvexti Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, eins og segir í iii lið staðfestingar á framvirkum samningi aðila frá 21. ágúst 2008, sem liggur frammi í málinu. Sóknaraðili stóð ekki við skuldbindingu sína á gjalddaga og sendi varnaraðili honum tilkynningu 2. febrúar 2009 vegna afleiðu- og gjaldeyrisviðskipta aðila. Í tilkynningu þessari var að finna yfirlit yfir afleiðusamninga sem sóknaraðili hafði gert við varnaraðila, þ.e. ofangreindan samning. Í yfirlitinu var tilgreint gjaldfallið tap sóknaraðila vegna samningsins, en staðan á samningnum miðaðist við gjalddaga hans 21. nóvember 2008. Var sóknaraðila veittur 14 daga greiðslufrestur. Sóknaraðili brást við tilkynningu þessari og sendi varnaraðila tölvuskeyti 8. mars 2009, þar sem sóknaraðili áskildi sér rétt til að gera athugasemdir við útreikninga og jafnvel hafna samningi aðila alfarið.
Hinn 9. mars 2010 tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að krafa hans á hendur sóknaraðila vegna afleiðuviðskipta væri í vanskilum að fjárhæð 26.423.467 krónur. Varnaraðili skoraði á sóknaraðila í tilkynningunni að greiða upp vanskilin. Þá var tekið fram í tilkynningunni að ef krafan yrði ekki greidd innan 15 sólarhringa frá birtingu tilkynningar myndi varnaraðili leita fullnustu í hinni handveðsettu eign fyrir kröfunni. Sóknaraðili svaraði framangreindri tilkynningu með bréfi 19. mars 2010. Í bréfinu viðurkenndi sóknaraðili að allmikið tap hefði verið á umþrættum samningi og vísaði til þess að samkvæmt upplýsingum frá varnaraðila væri reiknað tap á gjalddaga samningsins 20.761.539 krónur. Var þeirri fjárhæð hvorki játað né neitað af hálfu sóknaraðila. Sóknaraðili hafnaði því að umþrættur afleiðusamningur bæri vexti, innheimtuþóknun eða annan kostnað eftir 6. október 2008.
Í kjölfar þessa fóru fram sáttaumleitanir milli aðila um uppgjör kröfunnar og liggur fyrir í málinu óundirritað samkomulag um uppgjör hennar auk tölvusamskipta milli aðila. Sóknaraðili telur að samkomulag hafi komist á um að varnaraðila hafi verið heimilt að draga 124.330 evrur af hinum handveðsetta reikningi, en ráðstafa hafi átt til sóknaraðila 35.453.36 evrum, þ.e. það sem út af stóð þegar 124.330 evrur höfðu verið dregnar af reikningnum. Nemi krafa hans 35.453.36 evrum og dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 17. janúar 2011, en það er hin lýsta krafa við slitameðferð varnaraðila. Varnaraðili telur hins vegar að ekkert samkomulag um greiðslu kröfunnar hafi komist á.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila með vísan til þess að ekki yrði séð að sóknaraðili ætti lögvarða fjárkröfu á hendur varnaraðila. Þessi afstaða var send lögmanni sóknaraðila 24. nóvember 2011. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar með bréfi sem varnaraðili tók við 28. nóvember 2011. Hinn 11. janúar 2012 var haldinn fundur vegna ágreinings um afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar á kröfu sóknaraðila. Ekki tókst að jafna ágreining á þeim fundi og ákvað slitastjórn því í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að beina ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur eftir ákvæðum 171. gr. laganna.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur Hallgrímur Ólafsson og Stefán Reykjalín Guðmundsson. Í framburði Hallgríms, sem var framkvæmdastjóri og stjórnarformaður sóknaraðila á þeim tíma sem samningur aðila var gerður, kom fram að hann hefði aðallega heyrt um ,,samkomulag“ það sem liggur frammi í málinu, þar sem lögmaður hans hefði lesið upp úr því fyrir hann á sínum tíma. Hann kvaðst þó einnig hafa séð það síðar. Í framburði Stefáns, sem er lögfræðingur á fyrirtækjasviði varnaraðila, kom fram að hann hefði átt í sáttaumleitunum við sóknaraðila vegna uppgjörs umþrættrar kröfu. Kvað vitnið að samkomulag hefði ekki náðst og sáttaviðræður hefðu runnið út í sandinn.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður að samningur aðila hafi falið í sér mikið tap fyrir hann, en samkvæmt upplýsingum frá varnaraðila hafi mismunurinn numið 20.761.539 krónum á gjalddaga. Þá fjárhæð hafi varnaraðili krafið sóknaraðila fyrst um með bréfi 9. mars 2010, einu og hálfi ári eftir gjalddaga. Að auki hafði varnaraðili þá bætt við vöxtum og kostnaði. Þá hafi varnaraðili tekið fram í bréfinu, að ef sóknaraðili gerði ekki upp við hann, myndi varnaraðili ganga að handveði sem hann ætti í evrureikningi sóknaraðila nr. 0101-38-712437. Í kjölfar bréfs þessa hafi farið fram samningaviðræður milli aðila um uppgjör á samningnum. Aðilar hafi síðan náð samningi um að varnaraðili drægi af ofangreindum evrureikningi 124.330.64 evrur, til uppgjörs á samningnum. Við undirritun samkomulagsins skyldi varnaraðili aflétta tryggingarréttindum samkvæmt fjórum nánar tilgreindum handveðsyfirlýsingum sem m.a. hafi náð til ofangreinds evrureiknings og reiknings nr. 0101-05-192976. Áður en samkomulagið var undirritað, en eftir að það komst á, hafi varnaraðili gengið á bak samkomulaginu á þeim grundvelli að fundist hefðu önnur óleyst mál sóknaraðila innan bankans. Varnaraðili hafi svo gengið að handveðinu 17. janúar 2011 og tæmt ofangreindan evrureikning sóknaraðila, sem þá stóð í 159.783.36 evrum. Í kjölfarið hafi sóknaraðili lýst kröfu í bú varnaraðila 18. nóvember 2011, þar sem hann hafi lýst búskröfu að fjárhæð 35.453.36, auk dráttarvaxta frá 17. janúar 2011 til greiðsludags. Kröfufjárhæðin sé mismunur þeirrar uppgjörsfjárhæðar sem aðilar hafi komist að samkomulagi um og þeirrar fjárhæðar sem varnaraðili hafi tekið af ofangreindum handveðsettum reikningi.
Sóknaraðili telur að varnaraðila hafi verið óheimilt að ganga að ofangreindu handveði. Í fyrsta lagi hafi varnaraðili ekki með nokkru móti sýnt fram á að hann hafi átt kröfu á hendur sóknaraðila á grundvelli ofangreinds samnings. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þess efnis af hálfu sóknaraðila hafi varnaraðili ekki lagt fram gögn er sýni fram á tilvist kröfunnar, útreikninga sem sanni fjárhæð hennar eða nokkur önnur gögn sem liggi henni til grundvallar. Af hálfu sóknaraðila er því hafnað að krafa sóknaraðila hafi numið þeirri fjárhæð sem hann gekk að á ofangreindum reikningi.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á að honum væri heimilt að tæma reikninginn. Varnaraðili hafi enga tilraun gert til að skýra á hvaða grundvelli hann hafi byggt ákvörðun sína um það og hann hafi ekki heldur lagt fram gögn sem skýri veðrétt hans í reikningnum eða til tryggingar hvaða skuldum það veð sé.
Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi brotið gegn samkomulagi aðila um uppgjör á samningnum á vordögum 2010. Aðilar hafi sammælst um að til lúkningar og uppgjörs á samningnum skyldi varnaraðili taka 124.330 evrur af ofangreindum evrureikningi og aflétta síðan handveði sem á honum hvíldi. Sú fjárhæð sem eftir stæði á reikningnum, 35.453.36 evrur, átti að vera sóknaraðila frjáls til ráðstöfunar.
Þetta samkomulag hafi varnaraðili brotið með því að draga alla innstæðu reikningsins til sín til lúkningar á samningnum og einhverjum öðrum óleystum málum sóknaraðila, en ekki komi fram hvaða óleystu mál það séu eða færð rök fyrir því að varnaraðila hafi verið heimilt að ráðstafa fjármunum sem eftir stóðu á reikningnum til uppgjörs á þeim málum.
Að lokum telur sóknaraðili varnaraðila hafa svikið gefin loforð og beitt sviksamlegum aðferðum við innheimtu kröfu samkvæmt framvirkum samningi aðila. Honum hafi verið í lófa lagið að leita til sóknaraðila strax eftir að samningurinn var fallinn í gjalddaga til að innheimta kröfu á grundvelli hans eða semja um uppgjör. Í stað þess hafi varnaraðili sem handveðshafi stundað kröfurækt með tilheyrandi vaxta- og innheimtukostnaði í mörg ár áður en hann fyrirvaralaust tæmdi reikning sóknaraðila.
Á grundvelli ofangreinds krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði búskrafa hans samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, að fjárhæð 35.453.36 evrur, með áfallandi dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. janúar 2011 til greiðsludags. Þess er krafist að krafa um dráttarvexti og áfallandi kostnað verði viðurkennd sem búskrafa sbr. 3. mgr. 114. .gr. laga nr. 21/1991.
Til samræmis við ofangreinda kröfu beri að aflétta handveði varnaraðila í reikningi nr. 0101-05-192976 sem og ,,handveðum í bréfum í fjármálagerningum“ sóknaraðila.
Til stuðnings kröfum sínum í gagnsök bendir sóknaraðili á að samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 gildi almennar reglur um meðferð einkamála, að því leyti sem annað leiði ekki af ákvæðum laganna, um meðferð mála samkvæmt XXIV. kafla laganna. Í þeim sé hvergi að finna frávik frá reglum 28. gr. laga a nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að breyttu breytanda telur sóknaraðili að skýra verði 2. tl. 173. gr. gjaldþrotalaga til samræmis við reglu 28. gr. einkamálalaganna, að gagnsök verði að koma fram innan mánaðar frá þingfestingu. Greinargerð sóknaraðila hafi verið lögð fram 13. apríl 2012, en greinargerð varnaraðila hafi verið lögð fram 12. júní 2012. Þá hafi verið löngu liðið það tímamark sem 28. gr. laga nr. 91/1991 tilgreini og skipti engu þótt varnaraðili hafi með samþykki sóknaraðila fengið fresti til þess að leggja fram greinargerð sína.
Verði ekki fallist á frávísun gagnsakarkröfu varnaraðila, bendir sóknaraðili á að gagnkrafa sóknaraðila sé í raun krafa um meinta ógreidda dráttarvexti og hafnar sóknaraðili þessari kröfu. Það liggi fyrir í gögnum málsins að varnaraðili hafi sýnt vítavert tómlæti við að loka umræddum samningi. Sóknaraðila hafi fyrst verið kunnugt um afstöðu varnaraðila þegar bréf frá 13. mars 2010 hafi verið birt með stefnuvotti. Hafi þar verið sérstaklega tilgreint að gengið yrði að handveði ef ekki yrði greitt innan fimmtán daga. Ekki komi annað fram en innstæða handveðsins hefði þá dugað til þess að greiða hvorutveggja höfuðstól og áfallna dráttarvexti. Sóknaraðili hafi svarað með bréfi 19. mars 2010 og mótmælt því að varnaraðili ætti rétt á dráttarvöxtum. Varnaraðili hafi þá ákveðið að hætta við að ganga að handveðinu, en frekar kosið að ávaxta kröfu sína á dráttarvöxtum. Á þessu tímabili, frá mars 2010 til janúar 2011, hafi bankinn grætt tæpar tvær og hálfa milljón króna á kröfunni.
Þar sem varnaraðili hafi aldrei sundurliðað þá fjárhæð sem lögð hafi verið ofan á höfuðstólsfjárhæð viðskiptanna, hafi sóknaraðili ekki getað tekið afstöðu til greiðslu og hafi í raun ekki haft forræði á hinum handveðsetta reikningi. Sóknaraðili hafi því ekki getað ráðstafað þeirri fjárhæð til greiðslu höfuðstóls.
Sóknaraðili hafi aldrei neitað því að tap hafi verið á viðskiptum þessum, sem sóknaraðila hafi borið að greiða. Einungis hafi verið tekist á um kostnað og dráttarvexti sem varnaraðili hafi talið sig eiga tilkall til. Telji sóknaraðili að slíkt tómlæti eigi að leiða til þess að kröfum varnaraðila verði hafnað í gagnsök.
Þá lítur sóknaraðili svo á að þar sem varnaraðili hafi, þegar við gjalddaga samningsins, haft tilgreint fé inni á reikningi í umráðum varnaraðila hafi fjárhæðin ekki verið í vanskilum í þeim skilningi að heimilt hafi verið að reikna á hana dráttarvexti, enda falli atvik hér undir 7. gr. laga nr. 38/2001.
Verði kröfum varnaraðila ekki hafnað er þess krafist að varnaraðila verði ekki dæmdir dráttarvextir af höfuðstólsfjárhæð fyrr en að liðnum mánuði frá þeim degi sem varnaraðili setti kröfu sína sannanlega fram, þ.e. 13. apríl 2010 til og með greiðsludags 17. janúar 2011. Telur sóknaraðili einsýnt að innstæða á hinum handveðsetta reikningi hefði dugað.
Krafa um lækkun kröfu varnaraðila er byggð á því að hafna skuli gagnkröfu varnaraðila að breyttu breytanda, verði ekki fallist á málsástæður sóknaraðila að öðru leyti.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili bendir á að hinn 17. mars 2008 hafi sóknaraðili sett og afhent varnaraðila að handveði innstæðu á bankareikningi nr. 0101-38-712437. Hafi framangreind innstæða verið sett að handveði til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum skuldum sóknaraðila við Landsbanka Íslands hf. Þá hafi sóknaraðili gefið út nýja handveðsyfirlýsingu 20. ágúst 2008. Með yfirlýsingunni hafi sóknaraðili sett og afhent varnaraðila að handveði innstæðu á bankareikningi nr. 0101-38-712437, eins og hún hafi verið á hverjum tíma til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum skuldum sóknaraðila við varnaraðila.
Sóknaraðili hafi undirritað almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila. Eins og greini í 1. gr. skilmálanna hafi þeir gilt um öll markaðsviðskipti Landsbanka Íslands hf. og viðskiptamanns, svo sem um skammtímalánveitingar, gjaldeyrisviðskipti, afleiðuviðskipti og kaup og sölu verðbréfa. Þá hafi skilmálarnir gilt hvort heldur sem viðskiptin hafi átt sér stað í gegnum síma, veraldarvefinn eða á annan hátt.
Á grundvelli tilgreindra skilmála hafi varnaraðili og sóknaraðili gert með sér framvirkan samning nr. 11319-3, 21. ágúst 2008 um kaup sóknaraðila á 500 hlutum í Atlantic Petroleum P/F. Með samningnum hafi varnaraðili skuldbundið sig til að selja sóknaraðila framangreinda hluti og sóknaraðili skuldbundið sig til að inna af hendi kaupverðið á gjalddaga samningsins sem umsaminn hafi verið 21. nóvember 2008. Samningsfjárhæð hafi verið 1.226.413 danskar krónur. Sóknaraðili hafi ekki staðið við skuldbindingu sína á gjalddaga samningsins og hafi því komið til vanefndar á samningnum af hans hálfu, sbr. 7. gr. almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila.
Hinn 2. febrúar 2009 hafi varnaraðili sent tilkynningu til sóknaraðila vegna afleiðu- og gjaldeyrisviðskipta aðila. Meðfylgjandi hafi verið að finna yfirlit yfir afleiðusamninga sem sóknaraðili hafði gert við varnaraðila, þ.e. hinn umþrætta samning nr. 11319-3. Í yfirlitinu hafi verið tilgreint gjaldfallið tap sóknaraðila vegna samningsins, en staðan á samningnum hafi miðast við gjalddaga hans 21. nóvember 2008. Hafi sóknaraðila verið veittur 14 daga greiðslufrestur í tilkynningunni til þess að ganga frá greiðslu eða semja um greiðslu á kröfunni.
Staða samnings aðila nr. 11319-3, hafi miðast við gjalddaga samningsins samkvæmt heimild í almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila. Sóknaraðili hafi vanefnt samningsskuldbindingu sína á gjalddaga samningsins. Samkvæmt 7. gr. almennra skilmála um markaðsviðskipti hafi varnaraðila verið heimilt að gjaldfella eða loka samningi aðila fyrirvaralaust við vanskil sóknaraðila gagnvart varnaraðila, enda hefði ekki verið úr þeim bætt innan sjö daga frá því að vanskil hófust. Við gjaldfellingu eða lokun samningsins hafi varnaraðila borið að annast útreikning á tapi eða hagnaði sóknaraðila af samningnum og í tilviki sóknaraðila hafi verið miðað við stöðu samningsins á gjalddaga eins og framan sé rakið. Um heimild til að skuldajafna (netta) skyldur hvors samningsaðila samkvæmt samningnum miðað við stöðu á gjalddaga vísi varnaraðili til 4. gr. hinna almennu skilmála fyrir markaðsviðskipti.
Sóknaraðili hafi ekki svarað framangreindri tilkynningu, eða mótmælt gildi samningsins sem krafan var reist á.
Hinn 9. mars 2010 hafi varnaraðili tilkynnt sóknaraðila að krafa hans á hendur sóknaraðila vegna afleiðuviðskipta væri í vanskilum að fjárhæð 26.423.467 krónur. Varnaraðili hafi skorað á sóknaraðila í tilkynningunni að greiða upp vanskilin. Þá hafi verið tekið fram í tilkynningunni að ef krafan yrði ekki greidd innan 15 sólarhringa frá birtingu tilkynningar myndi varnaraðili leita fullnustu í hinni handveðsettu eign fyrir kröfunni. Sóknaraðili hafi svarað framangreindri tilkynningu með bréfi 19. mars 2010. Í bréfinu hafi sóknaraðili viðurkennt að allmikið tap hefði verið á umþrættum samningi og hafi vísað til þess að samkvæmt upplýsingum frá varnaraðila væri reiknað tap á gjalddaga samningsins 20.761.539 krónur. Hafi þeirri fjárhæð hvorki verið játað né neitað af hálfu sóknaraðila. Sóknaraðili hafi jafnframt hafnað því að umþrættur afleiðusamningur bæri vexti, innheimtuþóknun eða annan kostnað eftir 6. október 2008. Þá hafi verið vísað til þess af hálfu sóknaraðila í bréfinu að varnaraðila væri óheimilt að leita fullnustu í hinum handveðsetta reikningi.
Í kjölfar þessa hafi farið fram sáttaumleitanir milli aðila um uppgjör kröfunnar, en þær hafi reynst árangurslausar. Hinn 21. desember 2010 hafi varnaraðili tilkynnt sóknaraðila að krafa varnaraðila á hendur honum væri í vanskilum að fjárhæð 28.823.33 krónur. Hafi sóknaraðila verið tilkynnt að varnaraðili myndi ganga að hinni handveðsettu innstæðu vegna kröfunnar. Þá hafi varnaraðili áskilið sér rétt til að innheimta eftirstöðvar kröfunnar. Hinn 17. janúar 2011 hafi varnaraðili gengið að hinni handveðsettu innstæðu sóknaraðila, sem hafði flust yfir til Landsbankans (þá NBI hf.) á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins og hafi fengið greiðslu að fjárhæð 24.692.920 inn á skuld sóknaraðila við varnaraðila. Um útreikning stöðu samnings aðila á gjalddaga 21. nóvember 2008 og stöðu kröfunnar 17. janúar 2011 vísar varnaraðili til dómskjals 21.
Því mótmælir varnaraðili því sem röngu að sóknaraðili hafi ítrekað skorað á varnaraðila að leggja fram útreikninga eða sundurliðun á höfuðstólsfjárhæð kröfunnar. Eins og gögn málsins beri með sér geti vart verið ágreiningur um höfuðstólsfjárhæð kröfunnar, þar sem útreikning hennar sé að finna á dómskjali 21.
Þá mótmælir varnaraðili því sem röngu að komist hafi á samkomulag milli aðila um uppgjör á afleiðusamningnum um greiðslu sóknaraðila á 124.330.64 evrum til lúkningar skuldinni, þar sem sáttaumleitanir hafi reynst árangurslausar.
Varnaraðili byggir kröfur sínar á því að honum hafi verið heimilt, að undangengnum framangreindum tilkynningum til sóknaraðila, að ganga að hinni handveðsettu innstæðu 17. janúar 2001. Eigi sóknaraðili því ekki lögvarða fjárkröfu á hendur varnaraðila vegna þeirra viðskipta sem að framan séu rakin.
Í fyrsta lagi er því mótmælt að varnaraðili hafi ekki sýnt fram á tilvist kröfunnar á hendur sóknaraðila á grundvelli tilgreinds samnings. Í málatilbúnaði sóknaraðila felist viðurkenning á kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila.
Varðandi grundvöll kröfunnar vísar varnaraðili til samnings aðila frá 21. ágúst 2008 og almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila. Varðandi efni þessara samninga og réttindi og skyldur aðila á grundvelli þeirra vísar varnaraðili til þess sem að framan er rakið um það efni. Fyrir liggi að varnaraðili hafi gert sóknaraðila grein fyrir þeirri áhættu sem því hafi fylgt að gera umræddan samning. Vísar varnaraðili til þess í þessu samhengi að hinn umþrætti samningur um framvirk viðskipti með hlutabréf sé með einföldustu afleiðusamningum sem gerðir séu. Auðvelt hefði verið fyrir sóknaraðila að reikna út stöðu samningsins á gjalddaga hans 21. nóvember 2008, með því að skoða markaðsgengi bréfa Atlantic Petroleum P/F á þeim degi, margfalda með fjölda keyptra hluta og draga svo þá fjárhæð frá samningsfjárhæð samkvæmt samningnum.
Því mótmælir varnaraðili fyrstu málsástæðu sóknaraðila fyrir kröfu hans.
Í öðru lagi er því mótmælt að varnaraðila hafi verið óheimilt að ganga að hinni handveðsettu innstæðu og að ekki liggi fyrir gögn sem skýri veðrétt varnaraðila í innstæðunni. Öll gögn um þetta efni liggi fyrir í málinu og hafi sóknaraðila verið þau kunn. Um þetta efni bendir varnaraðili í fyrsta lagi á samning aðila. Samningurinn hafi verið í tapi fyrir sóknaraðila á gjalddaga hans að höfuðstólsfjárhæð 20.752.812 krónur og sé það ágreiningslaust. Þá sé einnig ágreiningslaust að sóknaraðili hafi ekki staðið við skyldur samkvæmt samningnum á gjalddaga hans 21. nóvember 2008. Því hafi varnaraðila verið heimilt að gjaldfella eða loka samningi aðila fyrirvaralaust við vanskil. Varðandi heimild til að ganga að hinni handveðsettu innstæðu vísar varnaraðili til handveðsyfirlýsingar sem sóknaraðili hafi undirritað 20. ágúst 2008. Með yfirlýsingu þessari hafi sóknaraðili sett og afhent varnaraðila innstæðu á bankareikningi nr. 0101-38-712437 að handveði til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum skuldum sóknaraðila við varnaraðila. Í handveðyfirlýsingunni komi m.a. fram til hvaða skulda sóknaraðila handveðið nái og um heimild varnaraðila til að ganga að hinni handveðsettu innstæðu, en þar á meðal séu tilgreind afleiðuviðskipti.
Lokatilkynning varnaraðila til sóknaraðila vegna vanskila sóknaraðila er dagsett 21. desember 2010 og hafi hún verið birt sóknaraðila 28. desember 2010. Hafi sóknaraðila þá verið tilkynnt að varnaraðili kæmi til með að ganga að hinni handveðsettu innstæðu sóknaraðila. Auk framangreinds vísar varnaraðili um heimild sína til að ganga að hinni handveðsettu innstæðu til 6. mgr. 7. gr. almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila. Þá vísar varnaraðili til ákvarðana Fjármálaeftirlitsins. Vísar varnaraðili sérstaklega til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 12. október 2008, þar sem kveðið var á um að Landsbankinn hf. tæki ekki við réttindum og skyldum varnaraðila samkvæmt afleiðusamningum. Þá vísar varnaraðili til ákvörðunar Fjármáleftirlitsins frá 19. október 2008 þar sem kveðið var á um að Landsbankinn hf. skyldi standa varnaraðila skil á sérgreindum tryggingum viðskiptamanna eftir því sem við ætti vegna kröfuréttinda og afleiðusamninga sem ekki flyttust yfir til Landsbankans hf. Féll handveð varnaraðila í innstæðu sóknaraðila því ekki niður þótt innstæðan hefði flust yfir til Landsbankans hf. á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008.
Með vísan til framangreinds er því mótmælt að varnaraðila hafi verið óheimilt að ganga að hinni handveðsettu innstæðu. Þá vísar varnaraðili til þess að öll gögn sem sýni fram á kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila liggi fyrir í málinu og hafi ávallt verið sóknaraðila kunn, enda séu þau undirrituð af hans hálfu. Hið sama eigi við um þau gögn sem sýni fram á veðrétt varnaraðila í innstæðu sóknaraðila nr. 0101-38-712437.
Í þriðja lagi er því mótmælt að varnaraðili hafi gengið á bak meintu samkomulagi aðila, enda er því hafnað að slíkt samkomulag hafi komist á. Því er hafnað að meint staðfesting samkomulagsins komi fram í framlögðum tölvupóstsamskiptum lögmanna aðila. Sáttaumleitanir aðila hafi reynst árangurslausar.
Í fjórða lagi er því mótmælt að varnaraðili hafi svikið gefin loforð og beitt sviksamlegum aðferðum við innheimtu kröfu sinnar.
Þá mótmælir varnaraðili því að honum hafi verið í lófa lagið að leita til sóknaraðila strax eftir að samningur aðila var fallinn í gjalddaga til þess að innheimta kröfu á grundvelli hans. Bent er á að hinn 9. febrúar 2009 hafi varnaraðili sent tilkynningu til sóknaraðila vegna afleiðuviðskiptanna. Í yfirlitinu hafi verið tilgreint gjaldfallið tap sóknaraðila vegna samningsins, en staðan á samningnum hafi miðast við gjalddaga hans 21. nóvember 2008. Hafi sóknaraðila verið veittur 14 daga frestur til þess að ganga frá greiðslu. Sóknaraðili hafi sjálfur valið að svara ekki framangreindu erindi, en hann hafi hvenær sem er getað greitt kröfuna, reynt að semja um greiðslu hennar eða vísað varnaraðila á handveðið til lúkningar kröfunni. Það hafi sóknaraðili látið ógert. Þvert á móti hafi sóknaraðili tekið fram í bréfi frá 19. mars 2010 að varnaraðila væri óheimilt að leita fullnustu í hinni handveðsettu innstæðu. Sáttaumleitanir sem reyndar voru í kjölfarið hafi verið árangurslausar. Þegar það varð ljóst hafi varnaraðili tilkynnt sóknaraðila 28. desember 2010 að krafan á hendur sóknaraðila væri í vanskilum að fjárhæð 28.823.333 krónur. Því sé mótmælt að varnaraðili hafi með ólögmætum hætti stundað ,,kröfurækt“ með tilheyrandi vaxta- og innheimtukostnaði áður en gengið var að hinni handveðsettu innstæðu 17. janúar 2011.
Varðandi rétt varnaraðila til að krefja sóknaraðila um dráttarvexti á höfuðstólsfjárhæð kröfunnar er vísað til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Gjalddagi afleiðusamningsins hafi þannig verið fyrirfram ákveðinn í skilningi ákvæðisins 21. nóvember 2008. Jafnframt vísar varnaraðili til handveðsyfirlýsingar sóknaraðila 20. águst 2008, þar sem fram komi að handveðið sé jafnframt sett til tryggingar vöxtum og dráttarvöxtum. Þá vísar varnaraðili til 7. mgr. 7. gr. almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila.
Varnaraðili mótmælir sérstaklega sem vanreifuðum kröfum sóknaraðila um að handveði varnaraðila í reikningi nr. 0101-05-192796 verði aflétt, sem og handveðum í bréfum í fjármálagerningum sóknaraðila. Vísar varnaraðili til þess að engar málsástæður sem lúti að tilgreindum kröfum sóknaraðila sé að finna í greinargerð hans. Eins og málið liggi fyrir sé ógerningur að taka til varna í málinu. Þá vísar varnaraðili til þess að krafa sóknaraðila um afléttingu handveða í bréfum í fjármálagerningum sóknaraðila standist hvorki ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála né ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. enda skorti með öllu að tilgreint sé af hálfu sóknaraðila um hvaða bréf og fjármálagerninga sé að ræða. Vísar varnaraðili sérstaklega til d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um þetta. Það fái ekki staðist að gera kröfu um afléttingu handveða ,,í bréfum í fjármálagerningum sóknaraðila“ án nánari tilgreiningar á því sem um ræði.
Varðandi kröfu varnaraðila í gagnsök vísar hann til þess sem að framan er rakið um efni framlagðra samninga og til réttinda og skyldna aðila samkvæmt þeim. Hinn 17. janúar 2011 hafi krafa varnaraðila staðið í 29.887.015 krónum og hafi því innstæða á hinum handveðsetta reikningi ekki dugað til greiðslu kröfunnar. Sé varnaraðila því nauðsynlegt að gera þá gagnkröfu í málinu sem fram hefur komið.
Við munnlegan málflutning reifaði lögmaður varnaraðila sjónarmið sín varðandi kröfu sóknaraðila um frávísun gagnsakar og kvað mál þau sem komi til kasta dómstóla á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. vera allt öðru marki brennd en þau einkamál sem stefnt er inn til dómsins, þar sem allir tímafrestir eru á forræði aðila. Í málum sem komi til kasta dómstólsins á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ráði aðilar ekki tímafrestum eftir þingfestingu málsins og framlagningu greinargerðar sóknaraðila, slíkt sé á valdi dómstólsins. Sá frestur sem varnaraðila sé veittur til skila á greinargerð geti hæglega verið lengri en sem nemur mánuði frá því að greinargerð sóknaraðila er lögð fram.
Niðurstaða.
Í máli þessu liggur fyrir að aðilar gerðu með sér samning 21. ágúst 2008 um framvirk kaup sóknaraðila á 500 hlutum í Atlantic Petroleum P/F. Við munnlegan málflutning kom fram hjá sóknaraðila að enginn ágreiningur væri um að þessi samningur hefði verið undirritaður af hálfu sóknaraðila og verið þess efnis sem varnaraðili hefur lýst.
Þá liggja fyrir í málinu handveðsyfirlýsingar sem fyrirsvarsmaður sóknaraðila undirritaði 17. mars 2008 og 20. ágúst 2008. Með þeirri síðari setti sóknaraðili og afhenti varnaraðila að handveði innstæðu á bankareikningi nr. 0101-38-712437 eins og hún var á hverjum tíma til tryggingar skaðlausri greiðslu á öllum skuldum sóknaraðila við varnaraðila, hvort sem um var að ræða víxilskuldir, víxilábyrgðir, innlenda eða erlenda lánasamninga, erlent endurlán, reikningslán, afurðalán, afleiðuviðskipti eða hvers konar aðrar skuldir við bankann. Jafnframt segir í yfirlýsingu þessari að handveðið sé jafnframt sett m.a. til tryggingar verðbótum, vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði veðhafa vegna ofangreindra skulda. Þá segir í yfirlýsingu þessari: Verði vanskil á þeim skuldum sem handveðið á að tryggja eða veðsali hefur brotið gegn ákvæðum þessarar yfirlýsingar, er veðhafa heimilt að taka ofangreinda innstæðu út, í heild eða hluta til lúkningar þeirra skulda og kostnaðar, sem handveðið á að tryggja, enda hafi veðhafi áður skorað á veðsala að greiða vanskilin og gefið frest til þess sem skal eigi vera skemmri en 15 sólarhringar.
Ágreiningslaust er að sóknaraðili stóð ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi aðila á gjalddaga hans 21. nóvember 2008. Þá er nú óumdeilt að þann dag nam skuld sóknaraðila við varnaraðila samkvæmt samningnum, 20.761.539 krónum, eins og fram kemur í tilkynningu sóknaraðila frá 2. febrúar 2009, til varnaraðila. Í fyrrgreindri tilkynningu skoraði varnaraðili á sóknaraðila að ganga frá greiðslu eða semja um greiðslu kröfunnar og var veittur til þess 14 daga greiðslufrestur. Sóknaraðili svaraði tilkynningu þessari með tölvuskeyti frá 8. mars 2009, þar sem sagði að hann áskildi sér rétt til að gera athugasemdir við framgang mála og jafnvel hafna samningnum alfarið. Af tölvuskeyti þessu má því ráða að sóknaraðili hafði þá í hyggju að vefengja tilvist kröfu varnaraðila, þótt hann telji nú ágreiningslaust að krafa varnaraðila hafi á gjaldfellingardegi numið framangreindri fjárhæð og kveði að ágreiningur málsins standi aðeins um dráttarvexti af kröfunni. Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila 9. mars 2010, að krafan á hendur honum væri í vanskilum, sem þá námu 26.423.467 krónum og skoraði á sóknaraðila að gera upp vanskilin. Þeirri tilkynningu svaraði sóknaraðili með bréfi 19. mars 2010, þar sem ofangreindri fjárhæð var hvorki játað né neitað. Í kjölfarið fóru fram sáttaumleitanir milli aðila. Liggja fyrir í málinu drög að samkomulagi um uppgjör kröfunnar, en samkomulagið er óundirritað. Þá liggja jafnframt fyrir tölvusamskipti lögmanns sóknaraðila og starfsmanns varnaraðila, sem rót virðast eiga að rekja til fyrirhugaðs samkomulags um kröfuna. Af tölvusamskiptum þessum verður ráðið að samkomulag náðist ekki og var það staðfest með framburði starfsmanns varnaraðila, Stefáns Guðmundssonar, fyrir dóminum. Þá varð ekki ráðið af framburði fyrirsvarsmanns sóknaraðila fyrir dóminum að samkomulag þess efnis sem sóknaraðili heldur fram, hafi komist á.
Enn sendi varnaraðili sóknaraðila tilkynningu, 21. desember 2010, um að krafa afleiðuviðskiptanna væri í vanskilum að fjárhæð 28.823.333 krónur. Jafnframt var þar tilkynnt að varnaraðili hygðist ganga að hinni handveðsettu innstæðu vegna kröfunnar, sem gekk svo eftir 17. janúar 2011, en þá nam krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila 29.887.051 krónu með dráttarvöxtum til þess dags. Innstæða á hinum handveðsetta reikningi nam 24.692.920 krónum. Mismunurinn nemur því 5.194.131 krónu.
Þegar allt framangreint er virt er ljóst að varnaraðili hefur sýnt fram á kröfu sína á grundvelli umþrætts samnings aðila og útreikning kröfunnar. Þá er jafnframt ljóst að samkvæmt handveðsyfirlýsingu frá 20. ágúst 2008 sem sóknaraðili undirritaði var varnaraðila sett að handveði innstæða á bankareikningi nr. 0101-38-712437, til tryggingar á skaðlausri greiðslu á skuldum m.a. vegna afleiðuviðskipta. Handveðið var jafnframt sett til tryggingar verðbótum, vöxtum og dráttarvöxtum. Jafnframt liggur fyrir að sóknaraðila var gerð grein fyrir því að fyrirhugað væri að ganga að hinni handveðsettu innstæðu með tilkynningu frá 21. desember 2010. Enn fremur er ljóst að meint samkomulag sem krafa sóknaraðila byggist á, varð aldrei annað en drög að samkomulagi. Í ljósi alls framangreinds verður öllum kröfum sóknaraðila í aðalsök hafnað, þar með talinni kröfu hans um að aflétt verði ,,handveði í reikningi nr. 0101-05-192976 sem og handveðum í bréfum í fjármálagerningum til samræmis við samkomulag aðila“ eins og segir í kröfulýsingu sóknaraðila.
Varnaraðili hefur gert gagnkröfu í málinu og krefst greiðslu á 20.752.812 krónum úr hendi sóknaraðila, auk dráttarvaxta frá gjalddaga samningsins til 17. janúar 2011, að frádreginni greiðslu að fjárhæð 24.692.020 krónur.
Sóknaraðili hefur krafist þess að gagnsök verði vísað frá dómi, þar sem gagnstefnu verði að höfða innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar samkvæmt 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann bendir á að greinargerð sóknaraðila hafi verið lögð fram 13. apríl 2012, en greinargerð varnaraðila hafi fyrst verið lögð fram 12. júní 2012.
Samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt XXIV. kafla laga nr. 21/1991, að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum laganna. Af 177. gr. laga nr. 21/1991 verður ráðið að þegar ágreiningsmál um gjaldþrotaskipti eru þingfest skuli héraðsdómari gefa sóknaraðila kost á að skila greinargerð, en heimilt sé að gefa sóknaraðila skamman frest í þessu skyni. Ekki er lögákveðið hversu skammur sá frestur megi vera og misjafnt eftir málum hversu langur frestur er veittur til skila greinargerðar sóknaraðila. Þær aðstæður geta því komið upp að sóknaraðili hafi það að nokkru leyti í hendi sér, hvort mánaðarfrestur sá sem í 28. gr. laga nr. 91/1991 er tilgreindur til höfðunar gagnsakar eftir þingfestingu stefnu, líði áður en varnaraðila hefur gefist kostur á að kynna sér greinargerð sóknaraðila og setja fram gagnkröfu í greinargerð sinni, ef því er að skipta. Ljóst er af framangreindu að tímafrestir þeir sem greindir eru í 28. gr. laga nr. 91/1991 til höfðunar gagnsakar geta ekki átt við þegar um ágreiningsmál um gjaldþrotaskipti er að ræða. Því verður hafnað þeirri gagnkröfu sóknaraðila að vísa málinu frá dómi.
Þá hefur sóknaraðili krafist þess að hafnað verið gagnkröfu varnaraðila.
Hér að framan var rakinn ferill innheimtu málsins af hálfu varnaraðila frá 2. febrúar 2009 til 21. desember 2010. Með hliðsjón af því sem þar er rakið og með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sbr. og 7. mgr. 7. gr. almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá Landsbanka Íslands, sem fyrirsvarsmaður sóknaraðila undirritaði, var varnaraðila heimilt að reikna dráttarvexti á höfuðstólsfjárhæð kröfunnar frá gjalddaga samnings aðila til greiðsludags.
Þegar allt framangreint er virt, verður gagnkröfum sóknaraðila hafnað, en fallist á gagnkröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila 20.752.812 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2008 til 17. janúar 2011, allt að frádreginni greiðslu 17. janúar 2011 að fjárhæð 24.692.920 krónur.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði sóknaraðili varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Skarphéðinn Pétursson hrl.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Sölvi Davíðsson hdl.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Hafnað er kröfum sóknaraðila, Skólabrúar ehf., um viðurkenningu lýstrar kröfu sinnar við slitameðferð varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., sem og kröfu hans um að aflétt verði handveði í reikningi nr. 0101-05-192976 sem og ,,handveðum í bréfum í fjármálagerningum til samræmis við samkomulag aðila“.
Gagnkröfum sóknaraðila er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 20.752.812 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. nóvember 2008 til 17. janúar 2011, allt að frádreginni greiðslu 17. janúar 2011 að fjárhæð 24.692.920 krónur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 í málskostnað.