Hæstiréttur íslands
Mál nr. 531/2014
Lykilorð
- Manndráp
- Tilraun
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 27. nóvember 2014. |
|
Nr. 531/2014.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn Leon Baptiste (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) (Kristján Stefánsson hrl. réttargæslumaður) |
Manndráp. Tilraun. Skaðabætur.
L játaði að hafa ráðist að A með hnífi. Á grundvelli þeirrar játningar, sem studd var framburði vitna af vettvangi og læknisvottorði sem lá fyrir í málinu, var L sakfelldur fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið A með hnífnum í brjóstið vinstra megin, beint yfir hjartastað, svo af hlaust loftbrjóst, en hnífurinn fór í gegnum brjóstvegginn og inn í lungnasekkinn en staðnæmdist við ytra yfirborð á gollurhúsi. Var refsing L ákveðin fangelsi í fimm ár og honum gert að greiða A skaðabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að brotið, sem honum er gefið að sök, verði heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsing hans milduð, en til vara að héraðsdómur verði ómerktur. Þá krefst hann þess að fjárhæð einkaréttarkröfu verði lækkuð frá því sem dæmt var í héraði.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Til vara krefst hann þess að ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar. Um frádrátt gæsluvarðhalds sem ákærði hefur sætt fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Samkvæmt a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 1.000.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Leon Baptiste, að öðru leyti en því að til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 30. mars 2014.
Ákærði greiði A 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. mars 2014 til 29. júní sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 678.182 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2014.
Ár 2014, föstudaginn 4. júlí, er á dómþingi héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 518/2014: Ákæruvaldið (Fanney Björk Frostadóttir) gegn Leon Baptiste (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.), sem tekið var til dóms að aflokinni aðalmeðferð hinn 2. júlí sl.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 26. maí sl. á hendur ákærða, Leon Baptiste, kennitala [...], [...], [...], „fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 30. mars 2014, í íbúð [...], að [...], [...], stungið A með hnífi, með 11,5 sm löngu skörðóttu hnífsblaði, í brjóstið vinstra megin, beint yfir hjartastað, svo af hlaust loftbrjóst, en hnífurinn fór í gegnum brjóstvegginn og inn í lungnasekkinn en staðnæmdist við ytra yfirborð á gollurshúsi.
Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 2. mgr. 218. gr. s.l.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Páll Ásgeir Davíðsson hdl., fyrir hönd A, kennitala [...], gerir kröfu um að ákærði greiði brotaþola kr. 2.100.000 með vöxtum frá 30. mars 2014 sbr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafist er dráttarvaxta að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfu til greiðsludags sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Þá er krafist réttargæsluþóknunar úr hendi ákærða, brotaþola að skaðlausu.“
Málavextir
Samkvæmt staðfestri lögregluskýrslu Sigfúsar Benónýs Harðarsonar var það sunnudagsnóttina 30. mars sl. að tilkynnt var um það til lögreglu að maður hefði verið stunginn í [...] hér í borg, 5 hæða fjölbýlishúsi. Þegar lögreglumenn komu á vettvang fundu þeir ekki íbúðina sem atvikið gerðist í en hittu A og stúlku, B, sem kom með honum niður í lyftu. Hélt A blóðugri tusku að brjósti sér. Segir í skýrslunni að þau hafi verið vart viðræðuhæf vegna áhrifa vímuefna. Þá hafi B verið í mikilli geðshræringu. Í þann mund komu sjúkraflutningsmenn á staðinn og fluttu þeir A á slysadeild.
Í málinu er staðfest vottorð Bergs Stefánssonar sérfræðings í bráðalækningum þar sem segir að A hafi verið með stunguáverka á brjósti, um 1,5 cm langan og 6 cm vinstra megin við miðlínu, beint yfir hjartastað. Við þreifingu hafi fundist loftbrjóst sem þó hafi ekki sést við ómskoðun. Sneiðmynd hafi sýnt lítið loftbrjóst vinstra megin sem mælst hafi 11-12 cm á þykkt. Segir að lokum í vottorðinu að aðeins hafi munað örfáum sentímetrum að hnífslagið hefði náð til hjartans og hefði þá ekki þurft að spyrja að leikslokum.
Ákærði var handtekinn á slysadeild kl. 3:34 um nóttina en þangað hafði hann leitað að ráði systur sinnar til þess að fá hjálp vegna andlegra veikinda. Var hann yfirheyrður hjá lögreglu daginn eftir. Sagðist hann hafa verið staddur hjá systur sinni, C. Kvaðst hann hafa verið undir áhrifum kannabis eftir að hafa reykt tvo vindlinga af efninu. Hann kvaðst muna að þarna hafi, auk systur hans, verið A, sem hann kannaðist við, svo og kærasta A. Hann kvaðst ekki muna til þess að hafa stungið A með hnífi. Hann segir að fokið hafi í sig og hann muni að andspænis honum hafi staðið maður. Þennan mann kynni hann að hafa stungið, en ekki A.
Ákærði var yfirheyrður á ný 1. apríl. Kvað hann þá lítið eitt hafa rifjast upp fyrir sér um atvikin. Kvaðst hann hafa fengið það á tilfinninguna að A hefði verið að troða sér inn á heimili systur hans, þegar hann kom þar með kærustunni, og ekki vilja fara þaðan aftur þótt þau systkinin bæðu hann að fara. Kvað hann A hafa verið frekar ógnandi og á sífelldu iði um íbúðina og fleygjandi hlutum frá sér. Kvaðst hann þá hafa reiðst mjög, viljað koma manninum út og svo séð „allt rautt“. Næst kvaðst hann muna eftir sér niðri í Skeifu og hefði hann gengið þaðan á slysadeildina eftir að systir hans hafði hringt í hann og sagt hvað gerst hafði. Sérstaklega aðspurður um hnífstunguna kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa lagt til A. Hann kvaðst hafa reykt mjög mikið eða um hálft til eitt gramm af kannabis fyrir atburðinn. Þá hefði hann reykt eitthvað daginn áður og þá eftir 4 5 daga hlé á neyslu. Hefði hann einnig neytt áfengis og honum liðið illa þá viku.
Tómas Zoëga geðlæknir var fenginn til þess að framkvæma geðrannsókn á ákærða. Í niðurstöðukafla staðfestrar skýrslu sem hann hefur gert um rannsóknina segir að í örfáar vikur fyrir atburðinn hefði ákærði verið með vægar aðsóknarkenndar ofskynjanir. Hefði honum fundist eins og fólk horfði undarlega á sig og að hann skynjaði heiminn skrítilega. Hafi ákærði komið þannig fyrir að hann væri hægur og viðutan. Hann hafi sagt hinn manninn hafa pirrað sig en að öðru leyti sé ekki að finna neina ástæðu fyrir verknaðinum og hann muni ekki eftir verknaðinum sjálfum, þótt hann muni með nokkurri nákvæmni ýmislegt sem gerðist fyrr um kvöldið. Ekki hafi fundist neinar vísbendingar um alvarlegan geðsjúkdóm og nokkrum dögum eftir atburðinn hafi ákærði verið orðinn algerlega eðlilegur. Sérkennilegheit Leon Baptiste megi skýra út með áhrifum mikillar lyfjanotkunar, bæði marijuana og amfetamíns. Þá segir geðlæknirinn að víst sé að ákærði hafi verið undir töluverðum lyfjaáhrifum þegar atvik málsins urðu. Metur læknirinn það svo að ákærði uppfylli engin þau sjúkdómsatriði, sem talin eru upp í 15. gr. almennra hegningarlaga og gert hafi það að verkum að hann væri algjörlega óhæfur til þess stjórna gerðum sínum. Þá sé ekkert læknisfræðilegt atriði sem komi í veg fyrir það að refsing geti borið árangur, sannist sök á ákærða.
Meðferð málsins fyrir dómi.
Við þingfestingu málsins neitaði því að hafa gerst sekur um tilraun til manndráps. Aftur á móti viðurkenndi hann að hafa stungið A með hnífi í brjóstið og að hafa með því orðið sekur um líkamsárás, skv. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði hefur annars sagt að hann telji það vera rétt sem hann sagði við þingfestinguna að hann hefði stungið A með hnífi í brjóstið. Hafi þetta gerst heima hjá systur hans þar sem ákærði ætlaði að gista. Hafi A allur verið á iði þarna og dálítið æstur og m.a. hvolft úr poka sínum á borð þarna inni eftir að hann kom. Hann kveðst hafa beðið A um að fara út. Hann segist ekki hafa ætlað sér að meiða manninn eða drepa hann, enda hefðu þeir ekki átt í neinum útistöðum. Geti hann ekki skýrt af hverju hann gerði þetta. Hann kveðst „ekkert svo“ muna til þess að hafa stungið A og ekki muni hann eftir því að hafa sótt hnífinn. Hann segist ekki muna það sem svo gerðist. Eftir að A hefði verið stunginn hafi allt farið í uppnám og kveðst ákærði hafa beðið hann fyrirgefningar. Ekki hafi hann merkt að A væri mikið meiddur. Hann segist svo hafa verið rekinn út og kveðst halda að hann hafi farið á Landspítalann. Hann kveðst hafa verið búinn að vera í einhverri neyslu þegar þetta gerðist og í nokkru andlegu ójafnvægi. Hafi hann verið „raunveruleikafirrtur“ og hrærst í einhverjum draumaheimi. Hafi hann ekki trúað því sem hann sá og fundist hann vera í „einhverju öðru ástandi“, frekar en sínu eigin. Þá hafi honum fundist eins og aðrir væru að „tala út frá“ sér. Aðspurður segir hann að þetta hafi átt við A „á sumum sviðum“ þannig að A hafi sagt eitthvað, þegar hann kom inn, sem ákærði hafi verið að hugsa. Hafi honum frekar fundist að ógn stafaði af þessu. Spurður um fíkniefnaneyslu sína tímann fyrir atvikið segist hann hafa neytt kannabis, rívó-pillur og amfetamín. Þetta hafi ekki verið stöðug neysla en „eitthvað inn á milli“ og þetta varað í um tvær vikur.
A hefur skýrt frá því að hann hafi ekki vitað hvaðan stungan kom. Hafi hann setið í sófa og verið að ræða við C þegar hann fékk lagið í sig og ekkert hafði gerst þarna áður sem gat tengst þessari árás. Hann segist hafa orðið var við ákærða í eldhúsinu áður en ekki séð að hann kæmi þaðan með hníf. Hljóti ákærði að hafa komið að þeim og staðið andspænis honum, því þar hafi hann verið þegar hann varð þess áskynja að hann hefði verið stunginn. Hafi hann fundið fyrir höggi á brjóstið og ekki orðið var við hnífinn fyrr en búið var að stinga hann. og Allt hafi farið í uppnám og kærasta hans hafi tekið hnífinn og fleygt honum eitthvað frá. Ákærði hafi þó látið eins og ekkert hefði gerst og verið mjög rólegur. Hann segir ákærða hafa hjálpað sér á fætur og sagt: „Þetta er allt í lagi“. Eftir dálitla stund hafi hann fundið fyrir öndunarerfiðleikum og þá verið hringt í sjúkrabíl. Hann segist ekki hafa verið með neinn ófrið þarna áður í íbúðinni og ekki verið beðinn um að fara þaðan. Hefði hann enda aðeins búinn að dvelja þarna í stutta stund. Hann segist hafa orðið var við að ákærði fékk sér einn reyk af kannabis þarna. Hann kveðst hafa náð sér líkamlega eftir þennan áverka en hann finni aftur á móti til kvíða. Ekki viti hann hvað ákærða gekk til með þessu verki og hafi hann ekki átt neitt sökótt við sig.
C, systir ákærða, segist hafa fundið fyrir því þegar hún talaði við bróður sinn í síma, fyrir þennan atburð, að honum liði ekki vel og að hann þyrfti að finna hana til þess að geta tala við hana. Segir hún A og kærustu hans hafi verið á förum þegar atvikið gerðist. Hún hafi séð af gangi íbúðarinnar aftan á bróður sinn og að A stóð andspænis honum, að hana minni. Hafi hún þá orðið þess vör að eitthvað gerðist en ekki séð neinn hníf eða séð að ákærði styngi Þorkel. Ekki komi aðrir þó til greina í því efni en hann. Ekkert hafi gerst þarna á undan, sem skýrt geti þennan verknað, og þeir ákærði og A hafi fagnað hvor öðrum með faðmlagi þegar þeir hittust þarna. Kveðst hún álíta að það hafi ekki verið ætlun ákærða að svipta A lífi. Hún segist hafa séð hnífinn fljótlega eftir atvikið. Hún kveðst hafa rekið bróður sinn á dyr eftir þetta, enda hafi B verið í miklu uppnámi og hrædd við hann. Hún kveðst hafa hringt í ákærða eftir að hann var farinn og beðið hann leita sér hjálpar.
B hefur skýrt frá því að þau Þorkell hafi verið stödd hjá systur ákærða. Hafi þau verið öll á spjalli í stofunni. Hafi hún svo séð ákærða koma úr eldhúsinu og hafi hann rekið höndina í brjóst A, þar sem hann stóð. Framburður hennar um það hvort hún hafi séð ákærða draga hníf úr brjósti A er hins vegar óljós. Hún kveðst svo hafa svo séð hnífinn á borði þarna og hún tekið hann og fleygt honum eitthvað til hliðar. Ákærði hafi verið beðinn að fara og hann gert það. A hafi þyngt um andardráttinn og kveðst hún þá hafa hringt í sjúkrabíl, kannski 20-30 mínútum eftir hnífstunguna. Hún viti ekki til þess að neitt illt hafi verið milli ákærða og A fyrir þennan atburð.
Bergur Stefánsson, sérfræðingur í bráða- og slysalækningum, tók á móti A þegar hann kom á slysadeildina og skoðaði hann. Hefur hann komið fyrir dóm og skýrt frá því að við læknisrannsóknina hafi komið í ljós að maðurinn var með loftbrjóst, sem geti verið lífshættulegt ástand. Þá hafi sést lítils háttar blæðing í lunga. Ekki sé hægt að skýra þessi atriði á annan hátt en að þau séu afleiðingar stungunnar í brjóst mannsins, sem hafi verið beint yfir hjartastað. Þessi áverki, einn og sér, hafi ekki reynst vera alvarlegur og ekki þurft mikillar meðferðar við. Aftur á móti ætlar hann að hending ein hafi ráðið því hvar hnífurinn lenti. Hann kveðst hafa skoðað á ný tölvusneiðmyndir sem teknar voru við komuna á slysadeild, eftir að hann fékk boð um að mæta fyrir dóm, og þá orðið þess áskynja að frá innra brjóstholsvegg að gollurshúsi hjartans hafi samkvæmt sneiðmynd aðeins virst vera um 6 mm. Hnífstunga í hjarta sé mjög alvarlegur áverki og geti leitt til dauða. Álítur hann það líklegra en ekki að stungan, hefði hún náð til hjartans og ef ekki hefði komið til læknishjálp, hefði getað leitt til dauða mannsins.
Tómas Zoëga geðlæknir hefur komið fyrir dóm og staðfest skýrslu um geðrannsókn á ákærða. Hann segir liggja fyrir að ákærði hafi neytt kannabisefna, amfetamíns og annarra efna um langt skeið. Sé víst að hann var með væga aðsóknarkennd og ofskynjanir þegar læknirinn hitti ákærða fyrst og eins og hann hafi sjálfur lýst. Nokkrum dögum síðar hafi ákærði verið orðinn alveg eðlilegur. Segist hann hafa komist að þeirri niðurstöðu að sú röskun sem hann varð fyrir hafi verið af lyfjum. Benti því ekkert til þess að ákærði uppfyllti skilyrði 15. gr. almennra hegningarlaga. Spurður um það hvort ekki geti verið fyrir að fara undirliggjandi geðsjúkdómi hjá ákærða segir læknirinn að langlíklegast sé að ákærði hafi framið verknaðinn undir lyfjaáhrifum. Ekkert sé þó alveg öruggt í þessu efni. Það sé hins vegar þekkt að þau efni sem ákærði tók á þessum tíma, bæði amfetamín og marijuana, geti framkallað aðsóknarkennd og skammvinnt geðrof.
Niðurstaða
Sannað er með játningu ákærða, sem studd er framburði vitnanna á vettvangi, svo og staðfestu læknisvottorði í málinu að ákærði veittist að A með hnífi og stakk hann á hol í brjóstið, beint í hjartastað. Verður að telja að hending hafi ráðið því að hnífurinn gekk ekki inn í hjartað. Jafnframt hlaut ákærða að vera ljóst að langlíklegast væri að maðurinn dæi af hnífstungu í þennan stað. Ber því að sakfella ákærða fyrir tilraun til manndráps, sbr. 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði, sem dómurinn telur sakhæfan, hefur játað verknaðinn greiðlega. Refsing hans telst hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Frá henni ber að draga gæsluvarðhaldsvist sem hann hefur sætt frá 31. mars sl., samtals 95 daga.
Með vísan til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 ber að dæma ákærða til þess að greiða A 1.500.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 30. mars 2014 að telja til 29. júní 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni hrl., 502.000 krónur í málsvarnarlaun.
Þá ber að dæma að ákærði greiði þeim Jóni Bjarna Kristjánssyni hdl. og Páli Ásgeiri Davíðssyni hdl. 388.850 krónur í réttargæslulaun.
Laun allra lögmannanna ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti
Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða annan kostnað af málinu, 460.687 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Leon Baptiste, sæti fangelsi í 5 ár. Frá refsingunni dregst 95 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærði greiði A 1.500.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 30. mars 2014 að telja til 29. júní 2014, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði verjanda sínum, Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni hrl., 502.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði greiði Jóni Bjarna Kristjánssyni hdl. og Páli Ásgeiri Davíðssyni hdl. 388.850 krónur í réttargæslulaun.
Loks greiði ákærði annan kostnað af málinu, 460.687 krónur.