Hæstiréttur íslands
Mál nr. 281/2016
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. mars 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu verði staðfest.
I
Í máli þessu er ákærði sakaður um brot gegn 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa að kvöldi 17. júní 2013 inni á baðherbergi að [...] í Reykjavík haft samræði við A, sem þá var 15 ára að aldri, gegn vilja hennar. Það hefði ákærði, sem var 18 ára, gert með því að beita hana ólögmætri nauðung og notfæra sér yfirburði sína gagnvart henni vegna aldurs- og þroskamunar og að hún var stödd á ókunnugum stað og sumpart með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og þreytu.
Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir málsatvikum og reifaðar skýrslur ákærða og A hjá lögreglu. Þá er rakinn framburður þeirra fyrir dómi, svo og vitnisburður annarra sem þar gáfu skýrslu. Héraðsdómur lagði framburð A til grundvallar við úrlausn málsins þar sem hún hefði skýrt á sama hátt frá atvikum frá upphafi. Jafnframt fengi skýrsla hennar stuðning af framburði vitnanna B og C, sem voru staddir í íbúðinni að [...] auk ákærða og A þegar ætlað brot var framið, og því einir til frásagnar um það, sem átti sér stað umrætt sinn, fyrir utan þau tvö. Þá hafnaði dómurinn því, sem ákærði hélt fram, að A hefði viljað hafa við hann kynmök. Þótt framburður ákærða fyrir dómi væri talinn „ekki ótrúverðugur“ yrði við mat á honum að hafa í huga að það væri þriðja útgáfa ákærða af því sem gerst hefði milli þeirra tveggja nefndan dag. Í samræmi við það var hann sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök samkvæmt framansögðu.
II
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi fór barnaverndarnefnd [...] þess á leit 9. september 2013 að lögregla rannsakaði hið ætlaða brot ákærða í garð A. Af ástæðum, sem ákærða verður ekki um kennt, dróst hins vegar úr hömlu að ákæra væri gefin út á hendur honum. Varð það til þess að aðalmeðferð í málinu fór fyrst fram 16. febrúar 2016 þegar tvö ár og átta mánuðir voru liðnir frá því að ætlað brot átti sér stað. Fyrir vikið áttu þeir, sem skýrslu gáfu fyrir héraðsdómi, erfitt með að rifja upp það sem gerðist. Er þessi töf ámælisverð þar sem nánast einu sönnunargögnin, sem á verður byggt í málinu um sekt eða sýknu ákærða, er framburður hans og vitna fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
1
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 3. október 2013. Við það tækifæri sagðist hann hafa haft samfarir við A í umrætt skipti að hennar beiðni. Hún hefði verið ofurölvi, farið sjálf úr fötunum og þau verið, að hann minnti, standandi. Kvað ákærði kynmökin hafa átt sér stað í svefnherbergi í íbúðinni að [...] og hefði A ekki síður tekið þátt í þeim en hann. Í lokin hefði hann fengið sáðlát og hún þá beðið um meira.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 3. júlí 2014 neitaði ákærði því að hafa haft kynmök við A umrætt sinn. Skýrði ákærði breyttan framburð sinn með því að hann hefði ekki vitað hvað hann var að gera vegna mikillar neyslu áfengis og fíkniefna um það leyti sem hann gaf skýrslu í fyrra skiptið.
Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvaðst ákærði á sínum tíma hafa verið í mikilli kókaínneyslu. Þegar A hefði komið í íbúðina hefðu þau sest saman í sófa og hún farið að drekka áfengi. Þau hefðu síðan farið „að kyssast og knúsast“ og eitt leitt af öðru. Það hefði svo verið sameiginleg ákvörðun þeirra að gera eitthvað meira. Í framhaldinu komst ákærði svo að orði: „Svo fórum við inn á klósett. Og ... svo tekur hún niður um sig buxurnar og ég tek niður mínar ... Og við höfðum saman samfarir og ... við vorum standandi. Og svo setjumst við niður og erum þannig líka.“ Nánar aðspurður endurtók ákærði að þau A hefðu verið að kyssast í sófanum og bætti við að hún hefði verið „viljug allan tímann.“ Hún hefði þó alltaf verið „að detta út“ eins og hún væri búin að drekka allt of mikið. Ákærði sagði að A hefði farið „viljug inn á klósett“ og þau gengið þangað hlið við hlið. Eftir að komið var inn á baðherbergið sagði ákærði að þau hefðu haft kynmök og hann fengið sáðlát. Hún hefði sagt „ekki hætta“ og verið pirruð þegar hann hefði ekki getað meira. Síðan hefðu þau farið fram og kvaðst ákærði hafa beðið vitnið C um að fara með A heim þar sem hún hefði verið orðin svo ölvuð. Ákærði sagðist halda að hann hefði hringt í hana daginn eftir.
Fyrir dómi staðfesti ákærði að þetta væri rétt frásögn af því sem gerst hefði. Spurður hvers vegna hann hefði ekki skýrt eins frá við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist ákærði hafa verið hræddur við að vera sakfelldur fyrir eitthvað sem hann væri saklaus af.
2
A gaf skýrslu sem vitni hjá lögreglu 25. september 2013. Í upphafi sagðist hún aðeins hafa verið byrjuð að drekka fyrr um daginn í miðborg Reykjavíkur áður en hún fór í íbúðina að [...]. Nánar spurð um þetta svaraði hún að margir krakkar hefðu verið „með gras og áfengi“ og hún beðið um að „fá sopa“. Að sögn A fór hún ásamt vitninu C, vini sínum, með strætisvagni áleiðis að [...]. Hefði ákærði tekið á móti þeim á viðkomustað strætisvagnsins og þau haldið þrjú saman í íbúðina þar sem vitnið B var húsráðandi. A kvað ákærða hafa setið við hliðina á sér í sófa og sagt við sig að hún yrði að kyssa hann til að verjast áreitni B sem hefði verið ágengur við sig. Sagðist hún hafa gert „það viljug, ég kyssti hann“. Síðan sagðist hún hafa orðið þreytt og lokað aftur augunum, en skömmu síðar fundið fyrir að ákærði hefði verið að troða hendinni á henni niður um buxurnar sínar. Hún hefði staðið upp, en verið svo drukkin að hún hefði ekki náð að standa í fæturna. Þá hefði ákærði tekið hana og haldið á henni inn á klósettið eins og í bóndabeygju. Þegar inn á baðherbergið var komið sagði A að ákærði hefði ýtt henni „einhvern veginn utan í vegginn“, síðan tekið niður um hana buxurnar og girt niður um sig. Kvaðst hún þá hafa frosið. Því næst hefði ákærði sett hana upp á vaskinn og verið að reyna að koma limnum á sér inn. Þegar það hefði ekki gengið hefði hann sest á klósettið og haldið henni ofan á sér. Síðan hefði limurinn farið inn í hana og ákærði svo tekið hana af sér, girt sig og gengið fram. Áður hefði hann sagt: „Þú segir engum.“ A sagðist hafa girt upp um sig og farið fram, en skömmu síðar haldið á brott úr íbúðinni með C. Aðspurð sagði hún að ákærði hefði ekki meitt hana, en það hefði verið óþægilegt þegar hann hefði þrýst henni upp að veggnum. Ákærði hefði svo hringt í hana daginn eftir, en hún skellt á hann. Við skýrslutökuna sagðist A vera „skíthrædd“ við ákærða því að hann væri í svo mikilli neyslu og hún hefði „heyrt svo margar sögur um hann“.
Þegar A gaf vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst hún muna lítið eftir því, sem gerðist umrætt sinn, þar sem hún hefði reynt að útiloka það úr huga sér. Spurð hvort hún hefði farið upp í [...] sagðist hún hafa farið með vitninu C í strætó, en ekki verið ölvuð þá. Ákærði hefði tekið á móti þeim og þau haldið í íbúðina að [...]. A sagði að þau ákærði hefðu verið að spjalla í sófanum. Síðan myndi hún eftir að hafa vera búin „að drekka svolítið mikið“ og átt erfitt með að ganga sjálf eða tala. Ákærði hefði svo haldið á sér inn á baðherbergið. Nánar aðspurð hvernig það hefði komið til að þau voru komin þangað svaraði hún: „Ég man það ekki. Ég man bara að hann hélt á mér eða leiddi mig eða eitthvað svoleiðis. Ég man ekki eftir að hafa labbað sjálf“. Í héraðsdómi kemur fram að ljóst hafi verið að skýrslugjöfin fyrir dómi reyndi verulega á A. Þannig var frásögn hennar af því, sem átti sér stað inni á baðherberginu, mjög slitrótt. Hún bar að ákærði hefði klætt hana úr buxunum og látið hana setjast ofan á vaskinn eða vaskborðið. Hann hefði sett liminn á sér inn í leggöngin á henni, en mundi óljóst eftir hvenær það hefði gerst. Þó hefði ákærði undir lokin verið sestur á klósettið og haldið henni ofan á sér. Þá hefði limurinn verið inni í henni og hann fengið sáðlát. Síðan hefði hann staðið upp og þau gengið út. Spurð hvort ákærði hefði sagt eitthvað við hana á baðherberginu kvaðst hún ekki muna það, en hann hefði hringt í sig eftir að þetta gerðist og hún skellt á hann. Aðspurð sagðist A ekki muna hvort þau ákærði hefðu verið að kyssast í sófanum. Henni hefði ekki liðið vel á baðherberginu „beið bara eftir að þetta væri búið og fór síðan heim.“ Síðan bætti hún við: „Ég vildi þetta ekki ... Hann bað ekki um leyfi, hann spurði ekki neitt.“ Frekar spurð sagðist A hvorki muna eftir frásögn sinni hjá lögreglu um að hún hefði verið að drekka fyrr um daginn né að hún hefði verið að kyssa ákærða í sófanum. Hins vegar myndi hún eftir því að hann hefði reynt að troða hendinni á henni inn um buxurnar á sér meðan hún dottaði.
3
Í skýrslu vitnisins C fyrir héraðsdómi bar hann að A hefði verið „að drekka eitthvað niðri í bæ“ fyrr um daginn. Einnig hélt hann að hún hefði „verið búin að reykja gras þann dag“. Aðspurður sagðist vitnið ekki hafa orðið var við að neinn hefði verið að áreita hana þegar komið var í íbúðina að [...]. Spurður hvort eitthvað hefði verið í gangi milli ákærða og A þar sem þau sátu í sófanum játti vitnið því, en mundi ekki eftir hvort þau hefðu verið að kyssast. Að sögn vitnisins gengu þau saman inn á baðherbergið. Spurningunni „Var einhver að draga einhvern eða halda á einhverjum?“ svaraði vitnið neitandi. Vitnið gat ekki borið um það sem átti sér stað á baðherberginu. Spurður hvort A hafi verið hrædd við ákærða umrætt sinn svaraði vitnið: „Nei. Hún kom þarna af sínum eigin vilja alla vega ... það var ekki eins og hann hafi neytt hana að koma“. Þegar borin voru undir vitnið ummæli hans við skýrslutöku hjá lögreglu um að ákærði hefði alltaf verið að reyna að setja höndina á henni inn á sig sagði hann að það „gæti passað“. Einnig staðfesti vitnið fyrir dómi að hann hefði sagt við sama tækifæri að ákærði og A hefðu verið að kyssast í sófanum, en sagðist nú muna lítið eftir hvað gerst hefði.
Við skýrslutöku fyrir dómi gat vitnið B lítið borið um atvik í íbúð sinni að [...] umrætt sinn sem þýðingu hafa við úrlausn um sekt eða sýknu ákærða. Aðspurður sagði vitnið að ákærði og A hefðu gengið inn á baðherbergið. Þar hefðu þau stundað kynlíf án þess að hann gæti greint frekar frá því sem þar hefði átt sér stað.
III
1
Mat á sönnunargildi munnlegs framburðar, þar á meðal trúverðugleika ákærðu og vitna, verður ekki endurmetið af Hæstarétti nema þau hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Á hinn bóginn verður að gera þá kröfu til framburðar brotaþola fyrir héraðsdómi, eigi hann að vera lagður til grundvallar sakfellingu, að hann fái næga stoð í framburði annarra, sem gefið hafa skýrslu í málinu, eða öðrum sönnunargögnum.
Þegar framburður ákærða fyrir héraðsdómi er borinn saman við fyrri skýrslu hans hjá lögreglu er framburðurinn í meginatriðum sá sami, að því undanskildu að ákærði bar í fyrri lögregluskýrslunni að þau A hefðu haft kynmök í svefnherbergi íbúðarinnar, en ekki á baðherberginu. Við síðari skýrslutöku hjá lögreglu var framburður ákærða hins vegar á allt annan veg og dregur það úr trúverðugleika hans þótt ekki hafi verið um að ræða þrjár ólíkar útgáfur af frásögn ákærða af því, sem gerðist milli þeirra tveggja umrætt sinn, eins og ráða má af forsendum hins áfrýjaða dóms.
Við samanburð á framburði A hjá lögreglu annars vegar og fyrir dómi hins vegar gætir nokkurs misræmis. Í fyrsta lagi bar hún hjá lögreglu að hún hefði verið byrjuð að neyta áfengis fyrr um daginn, en sagði síðan fyrir dómi að hún hefði ekki verið orðin ölvuð þá. Í öðru lagði kvaðst hún í skýrslu sinni hjá lögreglu hafa kysst ákærða „viljug“ þar sem þau sátu saman í sófanum, en fyrir dómi mundi hún ekki eftir því. Í þriðja lagi hélt hún því staðfastlega fram hjá lögreglu að ákærði hefði haldið á sér inn á baðherbergið og bar það sama við upphaf skýrslutöku fyrir dómi, en breytti síðan framburði sínum á þá leið að hann hefði haldið á sér, leitt sig „eða eitthvað svoleiðis.“ Í fjórða lagi bar hún ekki á sama hátt fyrir dómi um það, sem átt hefði sér stað á baðherberginu milli sín og ákærða, og hún hafði áður gert hjá lögreglu. Þótt þetta misræmi kunni að stafa af því hve langur tími leið frá hinu ætlaða broti þar til skýrslan var gefin fyrir dómi er ekki unnt að fallast á með héraðsdómi að hún hafi skýrt á sama hátt frá atvikum frá upphafi. Af samanburði á framburði A og vitnisburði C og B fyrir dómi verður heldur ekki dregin sú ályktun að framburður hennar fái stuðning af vitnisburði þeirra. Þannig báru þeir báðir að þau ákærði hefðu gengið saman inn á baðherbergið, en hann hvorki haldið á henni né dregið hana þangað, svo sem hún hélt fram. Þá er til þess að líta að framburður vitna, sem báru um það að A hefði skýrt þeim frá ætluðu broti ákærða eftir á og gerir frásögn hennar sennilegri, var einvörðungu byggður á endursögn af því sem gerst hefði. Vottorð og skýrslur sérfræðinga, sem lagðar hafa verið fram í málinu, eru sama marki brenndar, en ekki er til að dreifa neinum öðrum sýnilegum sönnunargögnum sem styðja framburð hennar.
Að öllu þessu virtu hefur héraðsdómur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því leggja framburð A til grundvallar við úrlausn málsins, en hafna framburði ákærða fyrir dómi þrátt fyrir að hann væri álitinn „ekki ótrúverðugur“.
2
Samkvæmt framburði ákærða og vitnanna C og B gengu ákærði og A saman inn á baðherbergið og eru þau tvö síðarnefndu sammála um að hafa komið þaðan gangandi. Þau eru hins vegar ein til frásagnar um það, sem átti sér stað inni í herberginu, og stendur þar orð gegn orði.
Í 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga er meðal annars lögð refsing við því að hafa samræði eða önnur kynferðismök með því að notfæra sér að þannig sé ástatt um þolandann að hann geti ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Af lögskýringargögnum verður ráðið að með þessu sé einkum vísað til ýmiss konar skammvinnra truflana þolandans, svo sem rænuleysis hans vegna áfengis- eða fíkniefnaneyslu, svefns eða yfirliðs, enda sé ástandið ekki til komið fyrir tilverknað hins brotlega. Þótt fyrir liggi að A hafi verið talsvert ölvuð þegar hún fór með ákærða á baðherbergið er ósannað, með vísan til þess sem að framan greinir, að hún hafi verið rænulaus eða rænulítil sökum ölvunar og þreytu meðan hún var þar inni. Þegar af þeirri ástæðu verður að sýkna ákærða af sakargiftum um að hafa brotið gegn umræddu refsiákvæði.
Ef frá er talinn framburður A og þeirra, sem hún skýrði frá atvikum síðar, er ekkert fram komið í málinu um að ákærði hafi þvingað hana til að hafa samræði við sig gegn vilja hennar umrætt sinn. Samkvæmt því verður ekki talið, gegn eindreginni neitun ákærða, að sannað sé svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, að hann hafi beitt hana ólögmætri nauðung á þann hátt sem í ákæru greinir. Af þeim sökum verður hann sýknaður af brotum gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga sem hann er sakaður um.
Samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður einkaréttarkröfu A vísað frá héraðsdómi.
Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraðsdómi verður felldur á ríkissjóð.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda og þóknun skipaðs réttargæslumanns sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.
Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði greiðist úr ríkissjóði.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 992.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns A, Þyríar H. Steingrímsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 16. febrúar síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 27. nóvember 2015 „á hendur X, kennitala [...], [...], [...] fyrir nauðgun og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa kvöldi mánudagsins 17. júní 2013, inni á baðherbergi að [...] í Reykjavík, haft samræði við A, kennitala [...], sem þá var 15 ára gömul gegn vilja hennar, með því að beita hana ólögmætri nauðung með því að notfæra sér yfirburði sína gagnvart henni vegna aldurs- og þroskamunar og að hún var stödd á ókunnugum stað, og sumpart með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og þreytu.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu D, kt. [...], fyrir hönd ólögráða dóttur hennar, A, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000,- auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 17. júní 2013 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að kærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Hann krefst þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi og sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun.
II
Málavextir eru þeir að með bréfi barnaverndarnefndar í sveitarfélagi brotaþola 9. september 2013 var beðið um lögreglurannsókn á kynferðisbroti er brotaþoli átti að hafa orðið fyrir 17. júní sama ár. Í bréfinu kemur fram að brotaþoli hafi rætt um þetta við geðhjúkrunarfræðing á barna- og unglingageðdeild og eins hefði hún farið í könnunarviðtal í Barnahúsi. Í bréfinu segir að móðir brotaþola hafi komið í viðtal hjá starfsmanni nefndarinnar. Í viðtalinu hafi komið fram að brotaþoli hefði verið í miðbænum 17. júní ásamt félögum sínum. Hún hefði drukkið töluvert af áfengi. Brotaþoli hefði síðan farið ásamt félögum sínum á heimili manns í miðbænum en ekki hefði hún munað nákvæmlega hvar það var. Í íbúðinni hefði meintur gerandi dregið hana inn á baðherbergi. „Hafi hún neitað að gera það sem meintur gerandi bað hana um að gera en hann hafi komið fram vilja sínum gagnvart henni. Hún hafi sagt við hann að hún vildi þetta ekki, en hann ekki hlustað á hana. Hafi hún verið standandi inni á baðherberginu þegar atvikið átti sér stað.“ Brotaþoli hefði síðan farið úr íbúðinni og haft samband við foreldra sína er hefðu komið og sótt hana. Eftir móðurinni er haft að brotaþoli hafi ekki nefnt þennan atburð er hún kom heim og það hafi ekki verið fyrr en eftir könnunarviðtalið sem hún hafi viljað ræða um hann. Í fyrstu hafi brotaþoli ekki viljað kæra en síðar hafi henni snúist hugur.
Meðal gagna málsins er vottorð frá barna- og unglingageðdeild varðandi brotaþola. Þar er orðrétt haft eftir geðhjúkrunarfræðingi um viðtal hennar við brotaþola 20. júní: „Sagði frá því að á 17. júní hefði hún orðið drukkin, lent í stjórnleysi og atburðir kvöldsins væru að e-u leyti í þoku. Hún greindi u-r frá því að hún myndi þó að henni hefði verið nauðgað þetta kvöld af jafnaldra sínum, sem hún nafngreindi. Liðið mjög illa á eftir, finnur fyrir skömm og kennir sér um. Ekki búin að segja neinum öðrum frá þessu. U-r útskýrði skyldu heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna slíka atburði bæði til foreldra og viðkomandi barnaverndarnefndar.“
Lögreglan tók skýrslu af móðurinni 23. september og kom þar hið sama fram og rakið var hér fyrr úr bréfinu. Móðirin kvað föður brotaþola hafa sótt hana að kvöldi 17. júní og fundið hana dauðadrukkna inni á salerni skyndibitastaðar. Þegar brotaþoli kom heim hefði hún ekki virst dauðadrukkin en greinilega verið undir áhrifum.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 25. september bar brotaþoli að hafa verið á heimili manns ásamt ákærða og fleira fólki. Hún hefði komið þangað í strætisvagni með félaga sínum. Brotaþoli kvaðst hafa verið drukkin og hefði húsráðandi klipið hana í rassinn. Hún kvaðst hafa setið í sófa við hlið ákærða er hefði sagt að hún ætti að kyssa hann til að húsráðandi léti hana í friði. Hún kvaðst hafa kysst hann en hann hefði þá farið að troða hendi hennar niður í buxur hennar. Hún kvaðst hafa sagt honum að hætta en hann hefði bara hlegið að henni. Næst kvaðst hún muna eftir að hún hefði staðið upp en verið svo drukkin að henni hefði fundist hún eins og fljúga um herbergið. Ákærði hefði þá komið, tekið hana og borið hana inn á baðherbergi. Þar hefði hann ýtt henni upp að vegg og dregið niður um hana buxurnar. Hún kvaðst hafa spurt hann hvað hann væri að gera en þá hefði hann sett hana upp á vaskinn og reynt að koma limnum inn í hana. Það hefði ekki tekist en hann hefði sest á klósettið og sett hana yfir sig og farið inn í hana óvarinn. Ákærði hefði lokið sér af, tekið hana af sér, gyrt sig og farið út úr baðherberginu.
Tekin var lögregluskýrsla af ákærða 3. október 2013 að viðstöddum þáverandi verjanda hans. Hann kvaðst hafa verið í samkvæmi 17. júní 2013 er brotaþoli hefði hringt og spurt um samkvæmi. Hann kvaðst hafa sagt henni að koma. Það hefði hún gert ásamt vini sínum og drukkið allt áfengið þarna eins og hann orðaði það. Hún hefði síðan verið að biðja alla um að koma með sér inn í herbergi og „maður segir ekki nei ef maður er fullur“ sagði ákærði orðrétt. Ákærði kvað nokkra pilta hafa verið í samkvæminu og hefði hann beðið einn þeirra að fylgja brotaþola heim vegna þess hversu ölvuð hún hafi verið, hún hafi verið „dauð“ klukkan átta.
Ákærði kvaðst hafa farið inn í svefnherbergi með brotaþola og haft við hana samfarir að hennar beiðni. Hann taldi þau hafa verið standandi á meðan en kvaðst lítið muna eftir þeim sökum ölvunar.
Aftur var tekin lögregluskýrsla af ákærða 3. júlí 2014 og þá að viðstöddum núverandi verjanda hans. Hann neitaði nú að hafa haft kynmök við brotaþola. Hann kvað hana hafa setið við hlið sér í sófa en síðan farið inn á baðherbergi og hefði húsráðandi elt hana en ekki kvaðst ákærði vita hvort hann hefði farið með henni inn. Nánar spurður kvað ákærði brotaþola hafa gengið í átt að baðherberginu en ekki kvaðst hann vita hvort hún hefði farið þangað inn. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum fíkniefna í fyrri yfirheyrslu og þess vegna viðurkennt kynmök við brotaþola.
III
Við aðalmeðferð skýrði ákærði svo frá að hann hefði farið til vinar síns eftir að dagskrá 17. júní 2013 lauk. Með honum hefðu farið þrír félagar hans. Á heimili vinarins hefði verið samkvæmi og hefði brotaþoli hringt í einn félaga ákærða og spurt eftir samkvæmi. Ákærði kvaðst hafa tekið símann af honum og sagt brotaþola að þarna væri samkvæmi. Áður en brotaþoli kom með félaga sínum hefðu félagar ákærða, allir þrír, farið að kaupa tóbak. Þeir hefðu ekki komið aftur og voru því eftir í samkvæminu ákærði, brotaþoli, félagi hennar og húsráðandi, vinur ákærða. Ákærði kvað sig og brotaþola hafa setið í sófa og hefðu þau verið að kyssast og knúsa hvort annað. Hann kvað brotaþola hafa drukkið romm og landa og hafi hún verið orðin allverulega ölvuð. Þá kvað hann hana og félaga hennar hafa reykt marijúana áður en þau komu. Ákærði kvaðst hafa kannast við brotaþola og hafa vitað að hún var tveimur árum yngri en hann.
Ákærði kvað eitt hafa leitt af öðru þegar þau voru í sófanum og það hefði verið sameiginleg ákvörðun þeirra að gera eitthvað meira eins og hann orðaði það. Þau hefðu spurt hvort annað hvort þau ættu að gera eitthvað meira og hefðu bæði jánkað því. Hann kvað þau hafa farið inn á baðherbergi og gengið hlið við hlið. Þar hefði hún tekið niður um sig buxurnar og hann hefði tekið buxurnar niður um sig. Þau hefðu verið að kysstast og haft samfarir. Fyrst hefðu þau verið standandi við samfarirnar en síðan hefðu þau sest niður. Hann kvaðst hafa sest á klósettið og hún hefði sest ofan á hann. Ákærði kvaðst hafa fengið sáðlát og brotaþoli hefði sagt „ekki hætta“ en hann hefði ekki getað meira. Ákærði tók fram að brotaþoli hefði viljað þetta og hefði hún verið pirruð yfir því að hann hefði ekki getað meira. Eftir samfarirnar hefðu þau farið fram og farið að spjalla saman en brotaþoli hefði verið svo drukkin að hann hefði beðið félaga hennar að fara með hana og hefði hann gert það. Sjálfur kvaðst ákærði hafa verið undir áhrifum þennan dag, aðallega kókaíns.
Ákærði var spurður um framburð sinn hjá lögreglu og kvaðst hann hafa verið hræddur í yfirheyrslunni við að verða sakfelldur fyrir eitthvað sem hann væri saklaus af. Hann kvaðst hafa sagt sannleikann fyrir dómi.
Brotaþoli kvaðst hafa verið í miðbænum með vinkonu sinni 17. júní 2013. Hún kvað ákærða hafa hringt í sig og í framhaldinu hefði hún farið með félaga sínum í strætisvagni í úthverfi þar sem hafi verið samkvæmi í húsi. Hún kvaðst ekki hafa verið ölvuð og ekki verið undir áhrifum efna. Brotaþoli kvað ákærða hafa komið á móti þeim á stoppistöðina og fylgt þeim að húsinu. Þar hefði verið húsráðandi og tveir piltar. Þau hefðu fyrst verið að spjalla og eins hefði ákærði gefið henni töflu sem hann hefði sagt að væri ofnæmistafla. Hún kvaðst einnig hafa fengið romm að drekka.
Brotaþoli kvað tvo sófa hafa verið í stofunni og hefði hún setið í öðrum þeirra ásamt ákærða. Þau hefðu verið að spjalla saman og hefði ákærði sagt henni að kærasti hennar hefði verið með annarri stelpu. Hefði ákærði verið að reyna að fá hana til að hætta með kærastanum. Brotaþoli kvaðst hafa verið búin að drekka mikið og hefði hún átt erfitt með gang og helst viljað sitja í sófanum og sofna. Hún kvað ákærða hafa haldið á henni inn á baðherbergið en þau hefðu ekkert verið búin að ræða saman á kynferðislegum nótum. Þá kvaðst hún ekki muna til þess að þau hefðu verið að kyssast í sófanum. Á baðherberginu hefði ákærði klætt hana úr buxunum og var hún þá standandi. Hún kvaðst hafa haft augun lokuð og ekki vita hvort ákærði fór úr buxunum. Brotaþoli kvað mjög erfitt fyrir sig að rifja þetta upp. Hún myndi illa eftir þessu vegna þess að hún hefði reynt að gleyma þessu og loka á það. Hún vildi ekki reyna að geta í eyðurnar en kvað ákærða hafa sett hana upp á borð þar sem vaskur var. Þar kvað hún hann hafa sett lim sinn inn í leggöngin á henni. Hún kvaðst þó ekki alveg muna hvort honum hefði tekist þetta en hann hefði svo sest á klósettið og haldið henni ofan á sér og hefði þá limur hans verið inni í henni. Þessu hefði lokið er ákærði hefði fengið sáðlát. Hún kvaðst hafa lokað augunum og beðið eftir að þessu lyki enda hefði hún ekki viljað þetta. Ákærði hefði ekki beðið hana um leyfi. Hann hefði svo staðið upp og hún kvaðst hafa farið fram. Á eftir hefði hún svo farið heim á leið með strætisvagni en farið úr á leiðinni og hringt í foreldra sína. Faðir hennar hefði sótt hana þangað sem hún var sofandi á gólfi salernis á bensínstöð. Brotaþoli kvaðst hafa orðið mjög ölvuð í íbúðinni en hún hefði ekki verið að drekka áður en hún kom þangað. Þá kvaðst hún ekki hafa notað önnur vímuefni.
Vinkona brotaþola, sem var með henni 17. júní, bar að þær hefðu farið saman niður í bæ þennan dag. Þaðan kvaðst hún hafa tekið strætisvagn út á land. Brotaþoli hefði ekki verið undir áhrifum áfengis. Hún kvað brotaþola hafa síðar sagt sér að hún hefði verið tekin inn á salerni og misnotuð en ekki kvaðst hún muna nánar að greina frá þessu nema hvað hún kvað brotaþola hafa sagt sér að ákærði hefði verið gerandinn. Vinkonan kvað brotaþola hafa verið niðurbrotna þegar hún sagði frá þessu.
Félagi brotaþola, sem fór með henni í samkvæmið, kvaðst hafa hitt hana niðri í bæ 17. júní og hefði hún beðið hann að koma með sér í úthverfið. Þar hefði hún ætlað að hitta ákærða en þau hefðu verið búin að ræða saman. Þau hefðu farið með strætisvagni og hefði ákærði sótt þau á stoppistöðina. Þau hefðu farið saman að húsi og þar hefðu verið félagar ákærða. Þeir hefðu farið skömmu eftir að þau komu og voru þau brotaþoli þá eftir ásamt ákærða og húsráðanda. Þau hefðu verið í stofunni að spjalla saman og eitthvað hefði verið drukkið af áfengi, að minnsta kosti hefði brotaþoli verið orðin vel full. Hann kvað hana hafa drukkið áfengi niðri í bæ. Að öðru leyti kvaðst hann ekki mikið muna eftir áfengisneyslu þarna. Hann kvað ákærða og brotaþola hafa setið saman í sófanum en ekki kvaðst hann muna hvort þau hefðu verið að kyssast. Eitthvað hefði þó verið á milli þeirra eins og hann orðaði það. Hann kvað þau hafa farið saman inn á baðherbergi og verið þar skamma stund. Nánar spurður kvaðst hann hafa séð þau standa upp og ganga saman í áttina að baðherberginu. Eftir það kvaðst hann hafa ákveðið að fara. Hann tók fram að hann hefði verið 13 ára á þessum tíma og þurft að koma sér heim. Brotaþoli hefði komið á eftir sér og þau hefðu farið saman í strætisvagni. Brotaþoli hefði ekki rætt um neitt á leiðinni enda hefði hún verið mjög drukkin. Hann kvaðst ekki muna til þess að ákærði hefði beðið sig um að fara með brotaþola.
Húsráðandi í húsinu þar sem samkvæmið var bar að ákærði hefði verið í heimsókn hjá sér nefndan dag ásamt félögum sínum. Eins hefðu komið þangað piltur og stúlka. Fólkið hefði verið að skemmta sér en svo hefðu einhverjir farið. Hann kvaðst geta borið um kynlíf inni á baðherbergi enda hefði hann heyrt það en ekki gat hann lýst því nánar. Húsráðandi kvaðst ekki hafa séð ákærða og stúlkuna kyssast í stofunni. Hann hefði séð ákærða og brotaþola fara inn á baðherbergið og verið þar allnokkra stund. Hann kvaðst hafa verið að drekka romm en ekki mundi hann hvort fleiri hefðu drukkið.
Einn af félögum ákærða sem voru í samkvæminu kvaðst þekkja brotaþola í gegnum vini sína. Þarna hefðu verið nokkrir menn og þar á meðal ákærði. Brotaþoli hefði komið og með henni piltur. Hún hefði verið útúrlyfjuð og sagst hafa verið að taka töflur. Hann kvaðst hafa farið skömmu eftir að brotaþoli kom. Sjálfur kvaðst hann hafa verið búinn að reykja gras. Hann mundi ekki eftir hvort ákærði hefði verið undir áhrifum. Hann gat ekkert borið um ákæruefnið.
Annar félagi ákærða bar að hafa verið í nefndu húsi 17. júní er brotaþoli hefði hringt í hann og viljað hitta hann. Hann kvaðst ekki hafa getað það og sagt henni það. Hann kvað hana þá hafa rætt við ákærða í símann en ekki kvaðst hann hafa hlustað á samtalið. Hann kvaðst hafa verið farinn þegar brotaþoli kom í húsið þennan dag en hafa vitað að hún ætlaði að koma. Hann kvað brotaþola hafa sagt sér síðar að hún og ákærði hefðu farið inn á baðherbergi eftir að hafa verið að kyssast. Á baðherberginu hefði ákærði misnotað brotaþola að hennar sögn.
Þriðji félagi ákærða bar að hafa verið í nefndu húsi og mundi eftir brotaþola en gat að öðru leyti lítið sem ekkert um málsatvik borið.
Móðir brotaþola bar að faðir brotaþola hefði sótt hana að kvöldi 17. júní og kvaðst hún hafa séð að brotaþoli var undir áhrifum áfengis. Brotaþoli hefði skýrt geðhjúkrunarfræðingi frá því sem hafði gerst og hefði hún sagt sér frá þessu. Geðhjúkrunarfræðingurinn hefði sagt sér eftir brotaþola að ákærði hefði gefið henni töflu, farið með hana inn á bað og komið fram vilja sínum. Síðar hefði brotaþoli sagt sér þetta að viðstöddum geðhjúkrunarfræðingnum.
Faðir brotaþola kvaðst hafa farið að sækja hana og fundið hana á gólfi salernis skyndibitastaðar, hálfmeðvitundarlausa. Hann kvaðst hafa gert ráð fyrir að hún væri drukkin enda hefði hann fundið áfengislykt af henni. Brotaþoli hefði ekki sagt sér hvað gerst hefði. Hann kvað eiginkonu sína hafa sagt sér frá því sem brotaþoli hefði sagt henni. Síðar hefði brotaþoli sagt sér frá því að ákærði hefði gefið henni ofnæmistöflu vegna þess að dýr væru í íbúðinni. Hann hefði síðan nauðgað henni inni á baðherbergi.
Framangreindur geðhjúkrunarfræðingur staðfesti vottorð sitt. Hún kvaðst hafa sinnt brotaþola í rúmt ár áður en atburður sá varð sem er ákæruefnið. Hún kvað brotþola hafa komið til sín 20. júní og sagt sér frá því að hún hefði farið niður í bæ 17. júní og þar hefði ákærði dregið hana með sér inn í hús. Þar hefði hann dregið hana inn á baðherbergi og nauðgað henni. Í framhaldinu hefði brotaþola liðið mjög illa og lagst inn á BUGL eftir að hafa tekið inn of stóran skammt af lyfjum. Þá hefði hún borið merki um áfallastreituröskun. Áður en þetta gerðist bar á þunglyndiseinkennum hjá brotaþola. Hún hefði flutt í annað bæjarfélag vegna félagslegra vandamála í skóla. Hún kvað brotaþola hafa leitað til sálfræðings og eins hefði hún farið í viðtöl í Barnahúsi.
Sérfræðingur Barnahúss, sem ræddi við brotaþola, kvað hana hafa skýrt sér frá atvikum í samræmi við það er áður var komið fram. Brotaþoli hefði hitt ákærða heima hjá manni. Hún hefði verið mjög drukkin og svo hefði eitthvað gerst inni á baðherbergi. Hún kvað það ekki hafa verið sitt hlutverk að grafast fyrir um hvað hefði gerst heldur frekar hjálpa brotaþola. Hún kvað brotaþola hafa liðið mjög illa vegna þessa og eins hefði hún kennt sjálfri sér um þar eð hún hefði verið drukkin. Brotaþoli sagði henni að það sæti í henni að hafa ekki gefið sterkar til kynna að hún vildi þetta ekki. Þá kom einnig fram hjá brotaþola að eftir þetta hefði brotaþoli gert tilraun til sjálfsvígs en hún hefði reynt það áður. Einnig hefði brotaþoli átt við margs konar vanda að etja fyrir þennan atburð.
IV
Eins og hér að framan var rakið viðurkenndi ákærði við aðalmeðferð að hafa haft samfarir við brotaþola inni á baðherbergi hússins sem nefnt er í ákæru. Hann kvað samfarirnar hafa verið með vilja brotaþola og hefðu þau sammælst um þær áður en þau fóru inn á baðherbergið eins og rakið var. Ákærði hafði verið yfirheyrður tvívegis af lögreglu. Í fyrri skýrslunni kannaðist hann við að hafa haft samfarir við brotaþola í herbergi í húsinu en í síðari skýrslunni neitaði hann að hafa haft samfarir við hana.
Brotaþoli hefur á hinn bóginn alltaf haldið því fram að ákærði hafi farið með hana inn á baðherbergi og haft þar samfarir við hana án hennar vilja. Hún hafi ekki getað spornað við samförunum, meðal annars vegna ölvunar. Fram er komið í málinu að brotaþoli neytti áfengis eftir að hún kom í nefnt hús og varð allverulega ölvuð.
Framburður ákærða fyrir dómi er ekki ótrúverðugur. Hann hafði hins vegar gefið misvísandi skýrslur hjá lögreglu eins og grein hefur verið gerð fyrir. Ákærði bar að þau brotaþoli hefðu sammælst um að fara og hafa kynmök eftir að hafa verið að kyssast og knúsast. Brotaþoli ber á annan veg og hefur gert frá upphafi. Hún kvaðst hafa orðið verulega ölvuð og ákærði hafi farið með hana inn á baðherbergið og nauðgað henni eins og lýst hefur verið. Hún kannaðist ekki við að þau ákærði hefðu verið að kyssast eða að þau hefðu sammælst um að hafa kynmök. Það sem gerðist hefði ekki verið að hennar vilja. Það er mat dómsins að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dómi og var greinilegt að skýrslugjöfin reyndi verulega á hana.
Þegar ákærði og brotaþoli fóru inn á baðherbergið voru tvö vitni í húsinu, húsráðandi og félagi brotaþola. Húsráðandinn kvaðst ekki hafa séð ákærða og brotaþola kyssast og félaginn mundi ekki eftir hvort þau höfðu verið að kyssast. Að öðru leyti var framburður þeirra óljós um aðdraganda þess að þau fóru inn á baðherbergið. Hafa verður í huga að húsráðandi var undir áhrifum áfengis og félaginn var aðeins 13 ára.
Þegar atburður sá gerðist sem málið er sprottið af var ákærði 18 ára og brotaþoli 15 ára. Sannað er með framburði ákærða og brotaþola, er fær stuðning í framburði vitna, að hún var verulega ölvuð. Ákærði kvaðst sjálfur hafa verið undir áhrifum kókaíns. Framburður hans um að brotaþoli hafi sjálfviljug komið með honum inn á baðherbergið og haft við hann samfarir stangast á við eindreginn framburð hennar. Frásögn brotaþola af því sem gerðist hefur frá upphafi verið hin sama og kemur heim og saman við framburð hennar fyrir dómi. Það er niðurstaða dómsins að við úrlausn málsins eigi að leggja til grundvallar trúverðugan framburð brotaþola sem skýrt hefur á sama hátt frá atvikum frá upphafi. Framburður hennar fær stuðning af framburði framangreindra vitna er voru í húsinu á sama tíma. Einnig fær hann stuðning í framburði vitna sem hún skýrði frá atvikum eftir þau gerðust, fyrst þremur dögum síðar, og rakinn hefur verið. Það er niðurstaða dómsins að hafna framburði ákærða um að brotaþoli hafi viljað hafa við hann samfarir. Þótt framburður hans fyrir dómi sé ekki ótrúverðugur verður við mat á honum að hafa í huga að það er þriðja útgáfa hans af því sem gerðist milli hans og brotaþola nefndan dag. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.
Ákærða hefur ekki áður verið refsað og er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og sex mánuði.
Miskabætur til brotaþola eru hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur og skulu þær bera vexti eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan í yfirheyrslu hjá lögreglu 3. október 2013 og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og laun réttargæslumanns brotaþola, eins og þau eru ákveðin með virðisaukaskatti í dómsorði, en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg dómsformaður, Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Ingimundur Einarsson.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár og sex mánuði.
Ákærði greiði A 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. júní 2013 til 3. nóvember 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 757.020 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýar Brynjólfsdóttur hdl., 327.360 krónur.