Hæstiréttur íslands

Mál nr. 274/2000


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2001.

Nr. 274/2000.

Sigurjón Guðmundsson

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

Helgu Þórðardóttur og

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ólafur Axelsson hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka.

 

Deilt var um uppgjör bóta vegna líkamstjóns, sem S hlaut í umferðarslysi 15. desember 1997, en hann var þá 73 ára. Í þágildandi ákvæði 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga var mælt fyrir um lækkun á útreiknuðum bótum vegna varanlegrar örorku fyrir hvert ár, sem tjónþoli var eldri en 25 ára. Við 70 ára aldur var frádrátturinn 100%. Í 2. mgr. 9. gr. var undantekningarregla, sem heimilaði að víkja að nokkru eða öllu frá reglu 1. mgr. ef ætla mætti að tjónþoli hefði verið vinnufær og stundað vinnu eftir að hann náði 70 ára aldri. Krafa S miðaði við að heimild 2. mgr. 9. gr. skaðabótalaga yrði nýtt að fullu og hann fengi því óskertar skaðbætur vegna varanlegrar örorku, sem aðilar voru sammála um að væri 100%. Stefndu, H og S hf., reistu málatilbúnað sinn einnig á því að framangreindri heimild 2. mgr. 9. gr. yrði beitt, en einungis þannig að dregið yrði frá skaðabótakröfu áfrýjanda fyrir varanlega örorku 92%. Auk þessa fengi S bætt tímabundið atvinnutjón sem svaraði til tólf mánaða heildartekna, svo og miska. Fengi S þannig full laun til 76 ára aldurs. Héraðsdómur hafði fallist á kröfur H og S hf.  Ekki var talið að S hefði sýnt fram á að fjártjón hans af völdum umferðarslyssins væri meira en hann fengi bætt samkvæmt hinum áfrýjaða dómi. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um bótafjárhæð er H og S hf. skyldu greiða S.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júlí 2000 og krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða sér 23.707.970 krónur ásamt 2% ársvöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 15. desember 1997 til 3. október 1999, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags, og að stefndu verði gert að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist að málskostnaður falli niður.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og að áfrýjanda verði gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti. 

 

I.

Í máli þessu er deilt um uppgjör bóta vegna líkamstjóns, sem áfrýjandi hlaut í umferðarslysi 15. desember 1997, en hann var þá 73 ára.  Hefur áfrýjandi fengið bætt það tímabundna atvinnutjón, sem aðilar eru sammála um að hann hafi orðið fyrir, en það svarar til launa hans og tekna af atvinnurekstri á árinu 1997, sem námu 2.150.570 krónum.

Í þágildandi ákvæði 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga var mælt fyrir um lækkun á útreiknuðum bótum vegna varanlegrar örorku fyrir hvert ár, sem tjónþoli var eldri en 25 ára.  Við 70 ára aldur var frádrátturinn 100%. Í 2. mgr. 9. gr. var undantekningarregla, sem heimilaði að víkja að nokkru eða öllu frá reglu 1. mgr. ef ætla mætti að tjónþoli hefði verið vinnufær og stundað vinnu eftir að hann náði 70 ára aldri. Aðalkrafa áfrýjanda miðar við að heimild 2. mgr. 9. gr. skaðabótalaga verði nýtt að fullu og hann fái því óskertar skaðbætur vegna varanlegrar örorku, sem aðilar eru sammála um að sé 100%. Stefndu reisa málatilbúnað sinn einnig á því að framangreindri heimild 2. mgr. 9. gr. verði beitt, en einungis þannig að dregið verði frá skaðabótakröfu áfrýjanda fyrir varanlega örorku 92%.  Afstaða stefndu svarar til þess að örorkutjón áfrýjanda verði bætt eins og hann hefði verið 68 ára á slysdegi, auk þess sem bætt hefði verið að fullu hið tímabundna atvinnutjón hans eins og að framan greinir og miski.  Benda stefndu á að með þessu fengi áfrýjandi bætur, sem svöruðu til fullra launa hans frá slysdegi til 76 ára aldurs.

II.

Áfrýjandi vann fulla vinnu sem sjálfstætt starfandi pípulagningameistari fyrir slysið. Af læknisfræðilegum gögnum má sjá að heilsufar hans hafi almennt verið gott þótt hann hafi farið í hjartaþræðingu um það bil þremur árum fyrir umferðarslysið, meiðst á öxl síðla árs 1996 og greinst með talsverðar slitbreytingar í hálsi er hann var rannsakaður strax eftir slysið. Í matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis um afleiðingar slyssins kemur fram að miðað við fyrra heilsufar og líkamsburði áfrýjanda yrði að áætla að hann hefði getað unnið við pípulagnir enn um hríð en óvíst væri hve lengi hann hefði haldið það út. 

Af hálfu áfrýjanda hefur ekki verið sýnt fram á að fjártjón hans af völdum umferðarslyssins sé meira en hann fær bætt með hinum áfrýjaða dómi.  Verður því dómurinn staðfestur að því leyti svo og niðurstaða hans um almenna vexti frá slysdegi. Áfrýjandi sendi stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. kröfubréf, sem dagsett er 3. september 1999, en þá lá matsgerð Jónasar Hallgrímssonar fyrir.  Ber því skv. 15. gr. vaxtalaga að dæma dráttarvexti á bótafjárhæðina frá 3. október 1999.  Málskostnaðarákvæði héraðsdóms skal óraskað. Rétt þykir að hver aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Stefndu, Helga Þórðardóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði áfrýjanda, Sigurjóni Guðmundssyni, 3.157.849 krónur ásamt vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 15. desember 1997 til 3. október 1999, en dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. apríl sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 22. okt. 1999.

Stefnandi er Sigurjón Guðmundsson,  kt. 121024-5519, Reynimel 84, Reykjavík.

Stefndu eru Helga Þórðardóttir, kt.300335-2929, Löngubrekku 27, Kópavogi og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

Að stefndu verði dæmd til þess að greiða 23.707.970 kr. ásamt 2% ársvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga  nr. 50/1993 frá 15. des. 1997 til 3. okt. 1999, en með dráttarvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 með síðari breytingum, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1993 frá þeim degi til greiðsludags.

Krafist er málskostnaðar að mati réttarins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi úr hendi stefndu, þ.m.t. kostnaðar stefnanda af 24,5% virðisaukaskatti.

Þess er krafist að dráttarvextir leggist við málskostnaðinn á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 15 dögum eftir dómsuppsögu.

Endanlegar dómkröfur stefndu:

Aðallega að stefndu verði gert að greiða stefnanda 3.157.849 kr. en stefnandi greiði stefndu málskostnað að skaðlausu.

Til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu.

Málavextir

Hinn 15. desember 1997 lenti stefnandi, sem var ökumaður og eigandi bifreiðarinnar JH-130, í árekstri við bifreiðina OX-526, eign stefndu, Helgu Þórðardóttur. Bifreiðarnar JH-130 og OX-526 voru tryggðar hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

Í lögregluskýrslu, dags. á slysdegi, segir að stefnandi hafi hlotið stóran skurð á höfði um 15 cm langan og að hann hafi átt eftir að fara í rannsókn og myndatöku.  Í tjónstilkynningu, dags. 30. mars 1998, til stefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., kemur fram að stefnandi hafi hlotið meiðsl á höfði, hálsi og baki með leiðni og dofa út í hendur og niður í fætur.

Í málinu liggja fyrir þrjú vottorð Ragnars Jónssonar, læknis á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Í lokavottorði læknisins, dags. 6. maí 1999, segir að við umferðarslysið 15. desember 1997 hafi stefnandi fengið alvarlegan hálsáverka með áverka á mænu sem lýsir sér í dofakennd í höndum, aðallega þeirri hægri og kraftminnkun, einnig dofakennd og verkjum í iljum.  Líklegt sé að þessi einkenni séu varanleg og vart að vænta nokkurra breytinga á þessum einkennum úr því sem komið er.  Stefnandi lýsi nú talsverðum einkennum frá höfði, hafi höfuðverki og skert minni.  Einnig virðist sjón að einhverju leyti hafa breyst.  Stefnandi hafi verki í hálsi.  Spengingin er gróin.  Í fyrra vottorði sama læknis kemur fram að vegna áverka á hálsi hafi hinn 19. des. 1997 verið gerð innri festing með vírum og tein milli fjórða og sjötta hálsliðar.

Með matsbeiðni dags. 23. ágúst 1998, óskaði stefnandi eftir því að Jónas Hallgrímsson læknir mæti afleiðingar slyss stefnanda.  Farið var fram á að matslæknir myndi láta í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi matsatriði samkvæmt lögum nr. 50/1993:

1.Tímabundið atvinnutjón sbr. 2. gr. sbl.

2.Þjáningabætur sbr. 3. gr. sbl.

3.Varanlegan miska sbr. 4. gr. sbl.

4.Varanlega örorku sbr. 5.-7. gr. sbl.

Matsmaður skilaði matsgerð, dags. 23. ágúst 1999, en þar segir m.a.: 

“Mat samkvæmt skaðabótalögum:

Tímabundið atvinnutjón:

Sigurjón hefur ekki getað snúið aftur til fyrri starfa og er því ekki um að ræða tímabundið atvinnutjón heldur einungis varanlegt.

Þjáningar:

Sigurjón var rúmliggjandi á Sjúkrahúsi Reykjavíkur í fimmtán daga eftir slysið.  Hann kveðst hafa verið nálægt sex mánuðum að ná núverandi ástandi og telst hann hafa verið veikur í skilningi skaðabótalaga í sex mánuði að frádregnum fimmtán dögum sem hann var vistaður á sjúkrahúsi.

Varanlegur miski:

Sigurjón hefur heilkenni eftir höfuðáverka og heilahristing og er það metið til 10% varanlegs miska.  Síðan hefur hann einkenni eftir skemmd á mænu með dofa og kraftminnkun í höndum og fótum sem metið er til 30% miska.  Afleiðingar slyssins á sjón eru nokkuð óljósar en teljast varla vera til miska þótt hann þurfi að fá önnur gleraugu.  Samtals er varanlegur miski Sigurjóns vegna slyssins 40%.

Varanleg örorka:

Sigurjón mun ekki snúa aftur til neinna starfa og telst varanleg örorka hans því vera 100% frá slysdegi.  Taka verður tillit til þess að Sigurjón var að fullu vinnufær sem pípulagningameistari þótt hann væri orðinn 73 ára þegar hann slasaðist.”

Með bréfi, dags. 3. sept. 1999, krafði stefnandi stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., um greiðslu á 25.563.327 kr. og innheimtuþóknun 1.616.782 kr. að viðbættum virðisaukaskatti á inheimtuþóknun.

Með bréfi, dags. 21. sept. 1999, bauð stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., uppgjör þar sem tjónabætur stefnanda teldust samtals 5.377.717 kr. og lögmannsþóknun 276.788 kr. Í tilboði þessu var tímabundin örorka stefnanda talin 2.150.568 kr., sem Sjóvá-Almennar tryggingar hf. höfðu þegar greitt.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir verulegum meiðslum af völdum umferðarslyssins er hann lenti í þann 15. desember 1997 og að stefndu beri bótaábyrgð á því tjóni samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987.

Eftirtaldar afleiðingar umferðarslyssins 15. desember 1997 teljist vera sannaðar með framkominni matsgerð matsmanns:

Að stefnandi hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í sex mánuði, þar af hafi hann verið rúmfastur í fimmtán daga.

Að stefnandi hafi hlotið 40% varanlegan miska skv. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Að stefnandi hafi hlotið 100% varanlega örorku skv. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Óumdeilt sé á milli aðila að stefnandi hafi verið með öllu óvinnufær í 12 mánuði frá slysdegi og hafi honum því réttilega borið bætur að fjárhæð 2.150.568 kr. vegna tímabundinnar örorku í þann tíma.  Þessar bætur hafa þegar verið greiddar stefnanda.  Þetta séu aðilar sammála um þrátt fyrir þá niðurstöðu matsmanns að stefnandi hafi ekki getað snúið aftur til starfa og því hafi ekki verið um að ræða tímabundið atvinnutjón.

Stefnandi telur að sannað líkamstjón sitt sé til þess fallið að valda minnkun á starfsorku.  Minnkunin sé að sjálfsögðu persónubundin og því mismikil.  Þá geti skerðingin komið öll fram strax en líklegra sé að hlutar hennar komi ekki fram fyrr en síðar á lífsleiðinni.  Í tilviki stefnanda sé ljóst að starfsorka hans sé að fullu skert til frambúðar.  Engar líkur séu því taldar á að hann muni öðlast nokkra starfsfærni að nýju.

Stefnandi telur að um hann eigi að gilda að fullu ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 50/1993, þannig að vikið verði frá reglu 1. mgr. 9. gr. laganna að öllu leyti við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku til handa stefnanda.  Stefnandi var 73 ára að aldrei þegar hann slasaðist.  Hann hafi verið í fullu starfi sem pípulagningameistari þegar slysið varð og með sjálfstæðan atvinnurekstur.  Slysið hafi svipt hann allri starfsgetu.  Tilraunir stefnanda til að hefja störf að nýju hafi engan árangur borið.  Við slysið varð stefnandi fyrir 100% varanlegri örorku.  Í lokavottorði Ragnars Jónssonar, læknis á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, dags. 6. maí 1999, segi m.a. að stefnandi hafi reynt að vinna eftir slysið en hann hafi ekkert úthald né getu til vinnu og sé sýnilegt að hann muni ekki ná vinnugetu aftur og hafi verið óvinnufær sem pípulagningamaður eftir slysið og sé ekki sjáanlegt að nein breyting verði á því.  Ragnar Jónsson læknir og Jónas Hallgrímsson læknir séu sammála um að stefnandi hafi haft nær óskerta vinnugetu fyrir slysið þrátt fyrir aldur sinn og telja líklegt að hann hefði getað haldið áfram vinnu ef ekki hefði komið til umferðarslysið 15. desember 1997.

Kröfur stefnanda eru reistar á umferðarlögum nr. 50/1987, einkum XIII. kafla.  Sérstaklega er vísað til 90. gr. sbr. 88. og 89. gr.

Einnig er byggt á almennum ólögfestum reglum íslensks skaðabótaréttar.

Kröfur stefnanda um þjáningabætur, varanlegan miska og varanlega örorku eru reistar á skaðabótalögum nr. 50/1993.

Varðandi vexti og vaxtavexti er vísað til 16. gr. laga nr. 50/1993 og um dráttarvexti til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Stefnandi styður kröfur um málskostnað við lög nr. 91/1991, einkum 1.mgr. 130. gr.  Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á lögum nr. 50/1988, sbr. og reglugerð nr. 562/1989.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefndu.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo:

Tímabundið atvinnutjón                                                        kr.2.150.568

-Áður greitt að fullu vegna tímabundins atvinnutjóns     -kr.2.150.568

Þjáningabætur skv. 3.gr.: rúmfastur í 15 daga

(1.300*3787/3282*15)                                                              kr. 22.500

Þjáningabætur skv. 3.gr.: fótaferð í 165 daga

(700*3787/3282*165)                                                               kr. 133.270

Varanlegur miski skv. 4.gr. (4.000.000*3787/3282*40/100)kr.1.846.000

-Lækkun miskabóta vegna aldurs skv. 2. mgr. 4.gr.           -kr.   923.000

Varanleg örorka skv. 5-7.gr.

(2.150.570*3787/3588*10*100/100)                                       kr. 22.698.500

-Áður greitt ótilgreint inn á tjónið                                        -kr.     69.300

Samtals                                                                                      kr. 23.707.970

Til skýringar kröfugerð sinni tekur stefnandi fram:

1.        Stefnandi hafi fengið tímabundið atvinnutjón sitt greitt að fullu.

2.        Stefnandi hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í sex mánuði frá slysdegi, þar af rúmliggjandi í 15 daga eftir slysið og síðan veikur með fótaferð í 165 daga.  Viðmiðunarfjárhæðir þjáningabóta skv. 3. gr. hafi hækkað miðað við breytingar frá grunnvísitölu skaðabótalaga (3282) til vísitölu í október 1999 (3787), sbr. 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga.

3.        Varanlegur miski sbr. 4. gr. skaðabótalaga.  Miskinn hefur verið metinn 40%.  Viðmiðunarfjárhæð miska skv. 4. gr. hafi hækkað miðað við breytingar frá grunnvísitölu skaðabótalaga (3282) til vísitölu í október 1999 (3787), sbr. 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga.

4.        Lækkun miskabóta vegna aldurs skv. 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nemi 50%.

5.        Tekjuviðmiðun vegna varanlegrar örorku skv. 7. gr. séu laun stefnanda 12 mánuði fyrir slys eða 2.150.570 kr., sbr. skattframtal 1998.  Frádráttur vegna aldurs stefnanda sé enginn sbr. 2. mgr. 9. gr. sbl.  Launaviðmiðun skv. 7. gr. hafi hækkað miðað við breytingar á lánskjaravísitölu frá slysdegi (3588) til vísitölu í október 1999 (3787), skv. 2. mgr. sbr. 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga.

6.   Til frádráttar koma 69.300 kr. sem var áður innborgað ótilgreint inn á tjónið.

Allar fjárhæðir séu verðbættar skv. 15. gr. skaðabótalaga til og með október 1999 og krafist 2% ársvaxta og vaxtavaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga frá slysdegi til október 1999.  Dráttarvaxta er krafist frá 3. október 1999, eða mánuði eftir að stefndu var sent kröfubréf þann 3. september sl., í samræmi við 15. gr. vaxtalaga, sbr. 2. mgr. 16. gr. skaðabótalaga.

Málsástæður og rökstuðningur stefndu

Stefndu viðurkenna bótaskyldu sína á tjóni stefnanda á grundvelli 90. gr., sbr. 88. gr. og 95. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Ágreiningurinn varði eingöngu hvert fjárhagslegt uppgjör skuli verða vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir við slysið skv. lögum nr. 50/1993.  Í málinu liggur fyrir matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að þjáningarbætur til stefnanda skuli taka mið af því að hann hafi verið veikur og rúmliggjandi í 15 daga en veikur í 6 mánuði.  Varanlegur miski sé metinn 40% og varanleg örorka 100%.

Á grundvelli þessarar matsgerðar hafi stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., boðið stefnanda sem fullnaðaruppgjör samtals 5.377.717 kr.  Í því boði sé gert ráð fyrir eins árs launagreiðslu fyrir tímabundið örorkutjón og greiðslu þjáninga- og miskabóta í samræmi við lög nr. 50/1993.  Þá sé gert ráð fyrir að útreikningur á varanlegu örorkutjóni taki mið af 68 ára gömlum manni og að annað fjártjón, ótilgreint, skuli nema 200.000 kr.

Með boði þessu hafi félagið talið sig ganga mjög langt til þess að koma á móti kröfum stefnanda og ná þar með sáttum í málinu.

Stefnanda hafi alltaf staðið til boða fullnaðaruppgjör á kröfum hans.  Taki aðalkrafa stefndu mið af því (5.377.717 kr. - innborganir 2.219.868 kr.).

Deiluefnið í máli þessu varði hverjar skuli vera bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku hans.  Í stefnu sé sett fram krafa án nokkurs tillits til lækkunar vegna aldurs sbr. 9. gr. 1. mgr. laga nr. 50/1993.  Megi ljóst vera að slík kröfugerð sé alveg út í hött og í engu samræmi við gildandi rétt.

Stefnandi var 73 ára þegar slysið bar að höndum. Hann sé lærður pípulagningameistari og hafi starfað sem slíkur.

Skaðabótalög nr. 50/1993, 9. gr. taki mið af því að starfsævinni ljúki þegar náð er sjötugs aldri.  Í 9. gr. 2. mgr. sé þó gerð undantekning frá þessari meginreglu ef tjónþoli er eldri en 69 ára þegar slys ber að höndum, hann hafi verið vinnufær og ætla megi að hann hefði stundað vinnu sína áfram.

Til skoðunar hér komi því mat á því hve lengi stefnandi hefði unnið sem pípulagningamaður ef slysið hefði ekki borið að höndum.  Framangreint greiðsluboð hins stefnda vátryggingafélags hafi í þessum efnum tekið mið af fullum launum til stefnanda í eitt ár (tímabundin örorka) og einnig að miðað væri við 68 ára gamlan mann skv. 9. gr. 1. mgr. laga nr. 50/1993, sem ætti þar með tvö starfsár eftir.  Með boðinu sé því í reynd verið að bjóða bætur til stefnanda sem taki mið af launum til 76 ára aldurs hans.

Ef litið sé til atvika allra, þ. m. t. aldurs og starfsmenntunar stefnanda, verði að telja kröfur stefndu í þessum efnum mjög sanngjarnar sem beri að taka til greina.

Niðurstaða

Bótaskylda stefndu gagnvart stefnanda á tjóni því sem hann varð fyrir við áreksturinn 15. desember 1997 er viðurkennd. 

Það er óumdeilt að varanleg örorka stefnanda sé 100%.  Aðilar eru sammála um  að laun stefnanda síðustu 12 mánuði fyrir slys hafi verið 2.150.570 kr.  Ágreiningur aðila er um hverjar skuli vera bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku hans.

Stefnandi miðar kröfur vegna varanlegrar örorku við ákvæði 5. – 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og lögin voru fyrir breytingu 1. maí 1999 með lögum nr. 37/1999, og telur að bætur til handa stefnanda vegna varanlegrar örorku skuli ekki sæta lækkun samkvæmt 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga.  Í því sambandi vísar stefnandi til 2. mgr. tilvitnaðrar greinar og svo þess að stefnandi hafi verið í fullu starfi er hann slasaðist, en þá var stefnandi 73 ára gamall.

Kröfugerð stefndu miðast við að lækka beri bætur til handa stefnanda vegna varanlegrar örorku um 92% vegna aldurs.

Í 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga er fjallað um lækkun örorkubóta vegna aldurs tjónþola. Bætur skulu lækka um 1% af bótafjárhæð fyrir hvert aldursár frá 26 til 45 ára aldurs, um 2% fyrir hvert aldursár frá 46 til 55 og um 4% fyrir hvert aldursár frá 56 til 70.

2. mgr. 9. gr. er svohljóðandi:

“Ef ætla má að tjónþoli hefði verið vinnufær og stundað vinnu eftir að hann er orðinn fullra 70 ára að aldri má víkja frá reglu 1. mgr. að nokkru eða öllu.”

Gegn andmælum stefndu verður grein þessi ekki túlkuð á þann veg að 73 ára gömlum manni verði ákvarðaðar örorkubætur eins og hann hefði verið 25 ára á slysdegi, heldur þykir bera að líta til þess hvað sé sennilegt að tjónþoli hefði stundað starf sitt lengi hefði slys ekki komið til. 

Stefnandi vann í þrjú ár eftir að hann varð sjötugur en því er ósvarað hversu lengi eftir 73 ára aldur stefnandi hefði verið við störf hefði hann ekki orðið fyrir slysinu, 15. des. 1997, og þá líka hve mikilla tekna stefnandi hefði getað aflað eftir 74 ára aldur. Framlögð skattframtöl stefnanda gefa til kynna að tekjur hans síðustu 12 mánuði fyrir slys hafi verið mun hærri en síðustu þrjú árin þar á undan.

Framlögð læknisvottorð gefa til kynna að stefnandi hafi verið hraustur fyrir slysið en í vottorði Ragnars Jónssonar læknis, dags. 9. nóv. 1998, kemur fram að talsverðar slitbreytingar hafi greinst í hálsi stefnanda, stefnandi hafi fengið kransæðastíflu 1995 og áverka á vinstri axlarhyrnulið 1996.

Þegar til þess er litið sem hér hefur verið rakið þykir bera að fallast á það með stefndu að hæfilegar bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku miðist við bætur til handa 68 ára gömlum manni.  Þannig reiknað ákveðast bætur til handa stefnanda vegna varanlegrar örorku 1.815.880 kr.

Það er ágreiningslaust með aðilum að stefnandi hafi verið veikur og rúmliggjandi í 15 daga en veikur án þess að vera rúmliggjandi í 6 mánuði. Ber því að taka til greina kröfu stefnanda um þjáningabætur vegna rúmlegu í 15 daga, 22.500 kr., og kröfu um þjáningabætur vegna veikinda án þess að vera rúmliggjandi í 165 daga, 133.270 kr.

Varanlegur miski stefnanda er metinn 40%. Bótakrafa stefnanda að fjárhæð 923.000 kr. vegna varanlegs miska er í samræmi við ákvæði 4. gr. skaðabótalaga. Er krafan því tekin til greina.

Samtala framangreindra fjárhæða er 2.894.650 kr. Samkvæmt stefnu bæri að draga frá þeirri fjárhæð 69.300 kr. sem greiddar hafa verið ótilgreint inn á tjón stefnanda en þegar litið er til aðalkröfu stefndu verða stefndu dæmd til þess að greiða stefnanda 3.001.524 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 15. des. 1997 til uppkvaðningar dóms þessa en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Er þá m.a. litið til þess að í skjölum málsins kemur fram að ekki hefur verið greidd lögmannsþóknun vegna þeirrar greiðslu sem innt var af hendi fyrir höfðun málsins.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Helga Þórðardóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Sigurjóni Guðmundssyni, 3.157.849 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 15. des. 1997 til uppkvaðningar dóms þessa en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Málskostnaður fellur niður.