Hæstiréttur íslands
Mál nr. 652/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. september 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. september 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 24. september 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt framburði vitna og upptökum úr öryggismyndavélum er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um brot gegn 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá er vegna rannsóknarhagsmuna fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina.
Það athugast að sóknaraðili hefur ekki krafist þess að varnaraðili sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur, en svo verður ekki gert nema að undangengnum úrskurði dómara, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 24. september 2016 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. september 2016.
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur gert þá kröfu að kærði, X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til klukkan 16:00 laugardaginn 24. september 2016, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglu hafi borist tilkynning frá neyðarlínu kl. 05.13 aðfaranótt 17. september sl., um slasaðan einstakling með áverka á höfði fyrir utan [...] í Vestmannaeyjum. Við komu lögreglu á vettvang hafi tilkynnandi, B, verið að hlúa að nakinni konu á götunni og hafi konan verið með mikla áverka í andliti og föt hennar legið þar hjá. Brotaþoli, A, kt. [...], hafi verið flutt með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnunina í Vestmannaeyjum til aðhlynningar. Vitnið hafi greint frá því að hafa séð mann, dökkklæddan og reykjandi, ganga í burtu þegar tilkynnanda bar að.
Á vettvangi hafi gefið sig fram vitnið C, íbúi að [...], og greint frá því að hafa séð A fyrr um nóttina og að þá hafi maður verið á eftir henni. Vitnið hafi ekki getað lýst manninum nánar en hann hafi verið dökkklæddur.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að veitingamaðurinn, D, á veitingastaðnum [...], hafi hringt á lögreglu kl. 04.39 og tilkynnti um að kærði, X, og áðurnefnd A væru í átökum fyrir utan staðinn. Vegna anna hafi lögregla ekki getað sinnt tilkynningunni.
Kl. 05:45 hafi lögregla farið að heimili kærða og hitt fyrir sambýliskonu hans sem hafi greint lögreglu frá því að ekki væri langt síðan kærði hafi komið heim. Hafi kærði verið handtekinn kl. 05.50. Kærði hafi blásið í áfengismæli lögreglu sem sýnt hafi 1.20. Kærði hafi kannast við að hafa átt í átökum við kvenmann fyrir utan [...], hún hafi ætlað að valda þar skemmdum og því hefði hann tekið hana niður.
Fram kemur að lögregla hafi fengið tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun um að búið væri að kalla út þyrlu vegna alvarlegra áverka brotaþola og að flytja ætti brotaþola á LSH til skoðunar þar sem einnig ætti að gera réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola sem hafi verið blóðug um kynfæri. Hafi læknirinn einnig talið að sparkað hafi verið í höfuð brotaþola miðað við þá áverka sem hún hafði í andliti.
Þá segir í greinargerð lögreglustjóra að lögregla hafi aflað gagna, m.a. myndbandsupptökur úr eftirlitsvél á [...] en [...] sé hinum megin við götuna við veitingastaðinn. Á upptökum sjáist hvar kærði og brotaþoli eiga í átökum fyrir utan staðinn. Þar megi sjá hvar kærði taki brotaþola taki og ýti henni henni niður tröppur við inngang staðarins þar sem þau hafi verið í hvarfi frá myndavélinni í u.þ.b. 9 mínútur. Þá komi nokkra sekúndna skemmd í myndbandið, en síðan sjáist þegar hurð við inngang staðarins lokast, sakborningur gengur í burtu, mígur upp við vegg og gengur í austur inn [...].
Vísar lögreglustjóri til þess að teknar hafi verið skýrslur af kærða og vitnum. Fram hafi farið réttarlæknisfræðileg skoðun á kærða og aflað áverkavottorða varðandi brotaþola. Illa hafi gengið að fá frásögn brotaþola sem liggi á sjúkrahúsi. Hafi brotaþoli fram til þessa neitað að gerð verði á henni réttarlæknisfræðileg skoðun.
Í greinargerð lögreglustjóra er framburður vitna rakin. Þar segir að vitnið E, dyravörður á staðnum, hafi lýst því að [...] á staðnum hafi greint frá því að hafa séð mann kýla konu fyrir utan staðinn. Vitnið E hafi því farið út og þá séð kærða standa yfir brotaþola. Hafi hann haldið höndum hennar fyrir aftan bak, brotaþoli verið á hnjánum með andlit eða höfuð ofan í steyptum öskubakka sem þar sé. Kvaðst vitnið hafa sagt kærða að láta konuna í friði. Kærði hafi sleppt brotaþola, hún fallið á jörðina, staðið upp og gengið í burtu. Vitnið hafi lýsti háttseminni með þeim orðum að kærði hafi verið að kvelja brotaþola.
Vitnið C hafi greint frá því að hann hafi verið á leið á [...] kl. 05:00 og setið inn í bifreið sinni. Þá hafi komið maður að hliðarrúðunni ökumannsmegin og spurt vitnið hvort það hafi séð stelpu, sem vitnið kvaðst hafa neitað. Þá hafi maðurinn kíkti inn í bíl vitnisins. Vitnið kvaðst hafa séð stúlku á gangi við húsið að [...] og maðurinn þá sagt þarna er hún, og gengið rakleiðis á eftir stúlkunni.
Vitnið B, tilkynnandi og íbúi að [...], hafi verið vakandi og heyrt öskur og grát í konu og farið út í glugga og séð hvar nakin kona lá á götunni og hafi maður staðið yfir henni. Hann hafi verið dökklæddur. Kvaðst vitnið hafa horft á eftir manninum þegar hann gekk í burtu.
Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að teknar hafi verið tvær skýrslur af kærða. Hafi hann í fyrri skýrslutöku kannast við að hafa átt í ágreiningi við brotaþola fyrir utan [...] en neitaði frekari átökum. Síðari skýrslan var tekin af sakborningi kl. 20.00, og hafi hann neitað sök, en játar að hafa slegið til brotaþola fyrir utan veitingastaðinn, en neitað að hafa beitt brotaþola ofbeldi.
Lögreglustjóri vísar til áverkavottorðs læknis, sem tekið hafi á móti brotaþola, um að brotaþoli hafi verið köld og í annarlegu ástandi. Hún hafi verið aggiteruð, gefið mjög óljósa sögu, hafi hreyft alla útlimi, skolfið af kulda, en þar sem hún hafi verið ósamvinnuþýð hafi ekki tekist að mæla hjá henni hita. Strax hafi verið byrjað að hita brotaþola og verkjastilla, og róa með morfín og stesolid. Hiti hafi þá mælst 35,3 gráður. Dælt hafi verið í hana upphituðu saltvatni í æð. Samkvæmt vottorði hafi brotaþoli verið með mikla áverka í andliti og segir í vottorðinu að brotaþoli hafi í raun verið afmynduð í framan sökum þess hversu marin hún var. Í vottorðinu segir að hún hafi verið blóðug um kynfæri en ekki var gerð nánari skoðun á kynfærum. Grunur hafi verið um andlitsbrot og ekki hægt að útiloka alvarlega áverka á miðtaugakerfi auk þess sem hún hafi fundist nakin, hypothermísk og með áverka á kynfærum, og því hafi læknir ákveðið að óska eftir þyrlu til að flytja konuna til aðhlynningar á LSH þar sem fram færi réttarlæknisfræðileg skoðun.
Þá komi fram í áverkavottorði Landspítala að brotaþoli hafi ekki getað opnað augun vegna bólgu, hafi verið með skurð yfir augabrún sem saumað hafi verið fimm sporum. Skrapsár hafi verið yfir hnakka, roði og skrapsár yfir brjósthrygg. Ekki hafi verið bakeymsli yfir hryggjartindum né nýrnastöðum. Roði og eymsli hafi verið ofarlega á vinstri rasskinn. Roði og merki um álag hafi verið á húð á báðum hnjám en ekki húðrof. Niðurstaða læknisins hafi verið að brotaþoli hafi verulegan mjúkpartaáverka frontalt yfir báðum kinnum og brot í orbitabotni hægra megin. Því liggi fyrir í málinu að brotaþoli sé með beinbrot við auga ásamt verulegum mjúkpartaáverka.
Lögreglustjóri telur ljóst að afleiðingar líkamsárásar kærða gegn brotaþola séu alvarlegir þar sem líkur séu á að hann hafi sparkað í höfuð hennar, og vísast þar til framburðar læknisins. Auk þess komi fram á ljósmyndum sem teknar hafi verið af kærða við réttarlæknisfræðilega skoðun að kærði sé með nýlega áverka á báðum ristum, sbr. framlagðar myndir. Kærði sé ekki með sambærilega áverka á höndum og áverkar á ristum bendi sterklega til þess að kærði hafi sparkað í höfuð brotaþola. Brotaþoli liggur inni á LSH og sé þungt haldin.
Lögreglustjóri vísar til þess að enn hafi ekki verið hægt að taka skýrslu af brotaþola vegna ástands hennar og þá hafi hún einnig neitað réttarlæknisfræðilegri skoðun að svo stöddu, en tekin verði af henni skýrsla við fyrsta hentugleika. Þegar brotaþoli hafi verið mynduð af lögreglu á sjúkrahúsi hafi hún sagt við lögreglumanninn, hann vildi mig. Það orðfæri bendi til þess að um kynferðisbrot hafi verið að ræða auk áverka konunnar. Vitnin sem sáu kærða á vettvangi þekkja ekki manninn og því þykir nauðsynlegt að bjóða upp á myndbendingu þar sem kannað verði hvort þau geti þekkt kærða, enn hefur ekki náðst að klára það. Ennfremur er bent á að kærði neitar sök. Hefur hann hvorki viljað tjá sig um samskipti sín við vitni á vettvangi né um afskipti sín af brotaþola. Enn eigi eftir að kanna með lífsýni af fatnaði, einkum skófatnaði kærða, en ekki unnist tími til þess. Enn liggja engar upplýsingar fyrir um hvers vegna brotaþoli hafi verið blóðug á kynfærum og af hverju áverkar séu á kynfærum hennar, en hún hafi fundist nakin úti á götu. Ennfremur eigi eftir að yfirheyra frekar vitni, eins og [...] á skemmtistaðnum og mögulega fleiri sem þar vinna. Lögreglu sé nauðsynlegt að fá tíma til að rannsaka þessa þætti án þess að kærði hafi tækifæri til að hafa áhrif á vitni eða torvelda rannsókn málsins með öðrum hætti. Nauðsynlegt þykir að kærði verði í haldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna á meðan ítarlegri rannsókn fer fram í málinu.
Brot kærða heyra undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, stórfelld líkamsárás sem hafi verið sérstaklega hættuleg vegna þeirrar aðferðar sem beitt hafi verið og einnig vegna þeirrar aðferðar að skilja við brotaþola nakta og illa haldna úti á götu. Brot kærða heyri því einnig undir 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, sem hættubrot með því að hafa komið brotaþola í þannig ástand, að hún var án bjargar og einnig með því að hafa yfirgefið hana í alvarlegu ástandi. Ennfremur er mögulegt kynferðisbrot til rannsóknar enda fannst konan nakin, blóðug um kynfæri og með áverka eins og fram kom í læknisvottorði. Brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Brot gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, getur varðað fangelsi allt að 8 árum. Brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga, getur varðað allt að 16 ára fangelsi.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til gagna málsins telur lögreglustjóri rökstuddan grun fyrir því að kærði hafi gerst sekur um stórfellda líkamsárás gegn brotaþola þar sem hún hafi hlotið stórfellt líkams- og heilsutjón, hafi hlotið verulega mjúkpartaáverka og brot í orbitalbotni hægra megin auk þess sem við árásina hafi verið beitt sérstaklega hættulegri aðferð, sparkað í höfuð og eins hafi sakborningur skilið brotaþola eftir nakin úti á götu, illa slasaða. Árásin hafi staðið yfir í langan tíma, hafi verið sérstaklega ófyrirleitin og hættuleg. Ef brotaþoli hefði ekki fengið aðstoð hefði það getað orðið henni að fjörtjóni. Því sé rökstuddur grunur um að kærði hafi með refsiverðri háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 218. gr., 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk þess sem til rannsóknar sé brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga. Skammt sé liðið frá árásinni og líðan brotaþola slæm, brotaþoli hefur enn ekki getað gefið frásögn sína og því mikilvægt að tími fáist til að rannsaka málið á meðan sakborningur er í haldi. Um meiriháttar og sérstaklega ófyrirleitna líksamsárás sé að ræða af hálfu kærða gegn brotaþola og lögregla telji að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins og veruleg hætta er á því að hann muni reyna að hafa áhrif á vitni í málinu. Telur lögreglustjóri nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar hjá lögreglu, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með vísan til alls framangreinds, alvarleika brotsins, þess að nauðsyn sé að tryggja rannsóknarhagsmuni og að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála séu uppfyllt, telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 24. september 2016, kl. 16:00.
Niðurstaða
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum krefst þess að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og vísar til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Lögregla rannsaki ætlað brot kærða gegn 1. mgr. 194., 2. mgr. 218. gr., og 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Meðal rannsóknargagna sem lögð voru fram með kröfu lögreglustjóra er myndskeið úr öryggismyndavél [...] sem staðsett mun vera gengt veitingastaðnum [...] í Vestmannaeyjum. Þegar upptökuvél sýnir tímann 04:16 birtast tvær manneskjur við inngang veitingahússins fyrir neðan tröppur sem liggja að innganginum. Lögregla telur að þar hafa verið á ferð kærði í máli þessu og brotaþoli. Bæði eru dökkklædd, en maður sá sem lögregla telur vera kærða á myndbandinu er með eitthvað hvítt um hálsinn eða í hvítri skyrtu og án höfuðfats. Ekki er að sjá að átök séu milli kærða og brotaþola á þessu tímamarki. Meðal annars má sjá þau ganga upp tröppur við veitingastaðinn, dvelja þar skamma stund, en þegar upptökuvél sýnir tímann 04:18 gengur brotaþoli niður tröppurnar og kærði á eftir henni. Klukkan 04:19 kemur þriðji maðurinn þar að. Hann er dökkklæddur, í hvítri skyrtu og hvítum skóm, án höfuðfats. Einhver samskipti eru milli þeirra þriggja og sjá má að kærði varnar ítrekað brotaþola, meðal annars með því að teygja hendur út, að nálgast nefndan þriðja mann. Berst leikurinn meðal annars út á götuna, nær öryggismyndavélinni. Um klukkan 04:30 kemur þar að hvít bifreið og virðast kærði, brotaþoli og þriðji maðurinn ræða við farþega í bifreiðinni. Næsta myndskeið sýnir hvítu bifreiðina aka á brott og kærða og brotaþola aftur fyrir neðan tröppurnar að inngangi veitingahússins og er klukkan á öryggismyndavélinni þá 04:32. Á tímabilinu frá 04:32 til 04:44 má sjá kærða og brotaþoli af og til í mynd þar til kærði gengur upp tröppurnar, kastar af sér vatni við vegg skemmtistaðarins og hverfur úr mynd klukkan 04:44. Í því að kærði gengur upp tröppurnar reisir einhver manneskja sig upp og hverfur síðan úr mynd. Klukkan 05:15 koma fjórar manneskjur út af skemmtistaðnum og hverfa úr mynd. Myndskeiðinu, sem hófst klukkan 04:15 lýkur kl. 05:30.
Meðal rannsóknarargagna eru upptökur í mynd og hljóði af skýrslutökum af kærða og vitnum. Engin samantekt af skýrslutöku þessum liggja fyrir meðal rannsóknarargagna en dómari hefur kynnt sér framangreindar upptökur. Í skýrslutöku yfir kærða kemur meðal annars fram að hann hitt einhverja stelpu sem hafi verið með leiðindi og stæla við nafngreindan mann fyrir utan [...]. Er að skilja á kærða að þar hafi verið um að ræða brotaþola. Kvaðst kærði hafi gengið á milli þeirra til að verja manninn gegn dólgslátum brotaþola. Aðspurður um átök þeirra í milli kvaðst kærði hafa tekið í brotaþola og haldið henni upp við vegg og þegar hún hafi sparkað hafi hann sett brotaþola niður í keng en sleppt henni þegar dyraverðirnir E og D, eða F, komu að. Þetta hafi átt sér stað fyrir fram inngang [...] fyrir neðan tröppurnar. Eftir það kvaðst kærði hafa gengið heim til sín. Kærði hafnaði því alfarið að hafa átt í frekari samskiptum við brotaþola umrædda nótt.
Í skýrslutöku yfir vitninu E, starfsmanni á [...], kom fram að nafngreindur [...] hafi sagt vitninu, inni á skemmtistaðnum, að kærði væri að slá brotaþola. Kvaðst vitnið hafa litið út um gluggann og séð kærða með brotaþola í einhverju taki fyrir utan skemmtistaðinn. Kvaðst vitnið hafa farið út og spurt hvað væri í gangi og sagt kærða að sleppa brotaþola sem hann hafi gert. Kærði hafi líklega haldið höndum brotaþola fyrir aftan bak og hafi kærði verið að pína brotaþola, eins og vitnið orðaði það, en brotaþoli hafi verið grátandi. Kærði hafi gefið þá skýringu að brotaþoli hafi ætlað að brjóta rúðu. Kærði hafi sleppt brotaþola sem hafi dottið á rassinn. Kvaðst vitnið hafa reist brotaþola við. Nánar aðspurt kvað vitnið brotaþola hafa legið með bringuna ofan á steinsteyptum öskubaka sem þar hafi verið. Þá hafi brotaþoli gengið strax í burtu frá veitingastaðnum. Vitnið kvaðst ekki hafa séð kærða berja brotaþola, aðeins séð að hann hafi verið með í hana í taki. Vitnið kvaðst hvorki hafa séð blóð né áverka á brotaþola eftir að kærði sleppti henni. Nánar aðspurður kvaðst hann hafa séð vinstri kinn brotaþola.
Vitnið C, sem mun hafa gefið sig fram við lögreglu þegar lögregla kom að brotaþola fyrir utan [...] í Vestmannaeyjum, gaf skýrslu hjá lögreglu. Þar greinir vitnið frá því að hann hafi verið á leið í vinnu frá heimili sínu snemma í morgun, þ.e. laugardagsmorgun. Hafi hann setið inni í bifreið sinni þegar ungur maður hafi komið að og spurt sig hvort hann hafi séð stelpu á ferð sem vitnið kvaðst hafa svarað neitandi. Maðurinn hafi litið inni í bifreið vitnisins en síðan sagt þarna er hún og hafi vitnið þá séð stúlku standa við [...]. Maður hafi rætt við stúlkuna sem hafi að mati vitnisins ekki virst vilja við hann tala. Stúlkan hafi gengið í burtu, yfir götuna og í áttina að sjúkrahúsinu og maðurinn á eftir. Meira kvaðst vitnið ekki hafa séð og ekið í vinnuna. Þetta hafi verið um klukkan 05:00. Manninum lýsti vitnið þannig: Hann hafi verið ungur, grannur, dökkhærður og greitt aftur frá enni, svartskeggjaður. Nánar aðspurður um skegg mannsins, kvað vitnið það hafa verið nokkra daga alskegg. Vitnið gat ekki lýst klæðnaði mannsins, líklega hafi hann verið í úlpu eða jakka, gráum eða brúnlituðum, frekar dökkri flík. Vitnið kvaðst ekki muna þekkja manninn ef hann sæi hann aftur og tók fram að hann væri ómannglöggur.
Vitnið B, íbúi á [...] að [...] í Vestmannaeyjum, kvaðst hafa verið að fara sofa kl. 05:00 umrædda nótt og heyrt læti úti, litið út og séð þá nakta manneskju liggja á götunni. Lýsti vitnið því að hafa séð mann sem hafi verið að ganga frá brotaþola. Maðurinn hafi verið alveg við konuna og gengið pollrólegur og reykjandi frá henni. Maðurinn hafi verið svartklæddur, vitninu fannst maðurinn unglegur, yngri en brotaþoli. Göngulag mannsins hafi vitninu fundist sjálfsöruggt. Maðurinn hafi verið grannur og hávaxinn. Beðin um að giska á hæð kvaðst vitnið ekki treysta sér til þess, en líklega hafi maðurinn verið hærri en brotaþoli, e.t.v. 1,70 til 1,80. Vitninu kvaðst hafa fundist að maðurinn hafi verið með dökka húfu. Aðspurt kvað vitnið manninn ekki hafa verið með sjáanlegt skegg. Vitnið kvaðst hafa hringt í neyðarlínu og að þeirra beiðni farið út til konunnar. Maðurinn hafi verið farinn þegar hún kom út. Aðkoman hafi verið skelfileg og kona óþekkjanleg. Hún hafi svarað til nafns og kannaðist vitnið við brotaþola. Föt brotaþola hafi verið út um allt meðal annars fyrir utan tiltekið hús sem vitnið kvaðst áður hafa séð brotaþola reyna að komast inn í. Við það hús hafi skór og buxur brotaþola verið, en annar klæðnaður nærri konunni og hafi vitnið breitt hann yfir brotaþola. Vitnið kvaðst hafa spurt brotaþola hver hafi gert henni þetta og hafi brotaþoli svarað „æi þarna, æi þarna á [...]“. Þá hafi brotaþoli sagt við sig að „[...], vinur minn, veit það“. Þegar lögregla hafi komið að hafi brotaþoli hins vegar engu svarað. Þá greindi vitnið frá því að vitnið C hafa komið að og greint frá því hafa heyrt læti í brotaþola og einhverjum tveimur karlmönnum fyrr um nóttina og hafi brotaþoli verið að reyna komast inn á hjá tilteknum nafngreindum karlmanni.
Framburður brotaþola liggur ekki fyrir í máli þessu og brotaþoli hefur ekki heimilað að fram fari réttarlæknisfræðilega skoðun á henni. Fyrir liggur að brotaþoli var flutt á Landspítalann í Fossvogi um klukkan níu að morgni laugardagsins 17. september sl., þar sem hún dvaldi enn klukkan 19:22 sama dag. Í vottorði læknis á Landspítalanum er í engu getið um að brotaþoli sé ófær til gefa skýrslu. Þó er ljóst af ljósmyndum sem fylgdu kröfu lögreglustjóra að brotaþoli er með verulega áverka í andliti.
Krafist er gæsluvarðhalds yfir kærða á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. lag nr. 88/2008, þar sem ætla megi að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni fari hann frjáls ferða sinna. Þá er vísað til þess að rannsókn sé á frumstigi og meðal annars eigi eftir að bjóða þeim vitnum sem komu að brotaþola á [...] upp á myndbendingu til að kanna hvort þau þekki kærða. Þá hafi ekki unnist tími til að rannsaka fatnað með tilliti til lífsýna, einkum skófatnað kærða.
Hér að framan hefur verið rakin framburður kærða hjá lögreglu um samskipti hans við brotaþola umrædda nótt. Kærði hefur alfarið neitað sök en viðurkennt að hafa haft brotaþola í tökum fyrir utan veitingastaðinn [...]. Framburður brotaþola liggur ekki fyrir eins og áður greinir.
Að virtu því sem að framan er rakið, því sem sjá má á öryggismyndbandi við skemmtistaðinn [...] og að virtum framburði vitna hjá lögreglu, sem rakinn hefur verið hér að framan, þykir lögreglustjóri ekki hafa sýnt fram á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 194. gr., 2. mgr. 218. gr., og 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og honum er gefið að sök í kröfu lögreglustjóra.
Að öllu framansögðu vitur er að mati dómsins eru því ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að úrskurða kærða í gæsluvarðhald.
Ragnheiður Thorlacius settur dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um gæsluvarðhald yfir X, kt. [...], er hafnað.