Hæstiréttur íslands

Mál nr. 193/1999


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 30. september 1999.

Nr. 193/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Óskari Smára Haraldssyni

(Andri Árnason hrl.)

Virðisaukaskattur.

Ó var ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem lagður var á félögin R og RÓ, en hann var framkvæmdastjóri og formaður stjórnar beggja félaganna. Ekki var fallist á kröfur Ó um frávísun málsins. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu Ó, en brotið var ekki talið meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Staðfest var ákvörðun héraðsdóms um greiðslu sektar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, til vara að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en ella að málinu verði vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Að þessu frágengnu krefst ákærði þess að sér verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa.

I.

Í málinu er ákærði sóttur til saka fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti, sem lagður var á Raf-Ós hf. og Raf-Ós ehf. vegna skatttímabila frá september 1993 til júní 1996, samtals 2.302.976 krónur.

Ákærði styður kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi með því að ákæran sé óskýr og ófullkomin um stöðu hans hjá félaginu og rannsókn málsins ófullnægjandi, og ekki hafi verið bætt úr þessum annmörkum við meðferð málsins í héraði. Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði úr hlutafélagaskrá hefur ákærði verið framkvæmdastjóri og formaður stjórnar Raf-Óss frá 17. mars 1990, er það var hlutafélag, og áfram eftir að það var gert að einkahlutafélagi 15. desember 1995. Fullyrðingar ákærða um að ákæra sé óskýr um þetta eiga ekki við rök að styðjast.

Ákærði heldur því fram að rannsókn málsins hafi verið ófullnægjandi að því leyti, að félagið hafi átt verulegar fjárhæðir í frádráttarbærri veltu, sem ekki hafi verið dregnar frá áður en virðisaukaskattur hafi verið á lagður. Á árinu 1993 hafi verið færðar til frádráttar veltu tapaðar viðskiptakröfur að fjárhæð 1.619.497 krónur. Eftir þann tíma hafi enginn frádráttur frá veltu átt sér stað, enda þótt ætla megi að félagið hafi samkvæmt gögnum málsins átt rétt á frádrætti frá veltu að fjárhæð a.m.k. rúmum 4 milljónum króna. Af hálfu ákærða hafa engar skýringar verið gefnar á því hvers vegna félagið hafi ekki notfært sér frádrátt á töpuðum viðskiptakröfum eftir árið 1993, hafi um þær verið að ræða. Heimild til að nýta slíkan frádrátt á síðari stigum hefði heldur ekki firrt félagið skyldu til að standa skil á virðisaukaskatti til samræmis við veltu sína og án tillits til innheimtu útgefinna reikninga, jafnharðan og skatturinn var réttilega kominn í gjalddaga hverju sinni. Að þessu gættu var ekki ástæða fyrir lögreglu til að beina rannsókn sérstaklega að þessum þætti, enda verður og að ætla að það hafi verið á færi ákærða sjálfs að afla gagna um hann, ef hann teldi það sér til málsbóta. Ekkert er því fram komið um að rannsókn málsins hafi verið ábótavant. Er hvorki ástæða til að vísa málinu frá héraðsdómi né vísa því heim í hérað af þessum sökum.

II.

Sýknukröfu sína styður ákærði í fyrsta lagi með því, að hann sé ekki skattskyldur aðili í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en ákvæðið taki einungis til lögaðila en ekki til forsvarsmanna þeirra, sbr. 3. gr. laga nr. 50/1988. Fordæmi Hæstaréttar um skýringu á 40. gr. laga nr. 50/1988 eru á þá leið, að refsiákvæðum lagagreinarinnar verði beitt gagnvart fyrirsvarsmanni lögaðila vegna brota, sem drýgð eru í starfsemi lögaðilans, sbr. meðal annars dóm í dómasafni 1997, bls. 789. Eru þessi andmæli ákærða haldlaus.

Í öðru lagi styður ákærði sýknukröfu sína með því, að ósannað sé að hann hafi með refsiverðum hætti látið hjá líða að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti, sem innheimtur hafi verið eða innheimta bar, þar sem skatturinn hafi verið óinnheimtanlegur. Héraðsdómur hefur réttilega greint að samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 sé refsivert að skattskyldur aðili afhendi ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatt, sem honum bar að innheimta. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða.

III.

Vanskil félagsins á virðisaukaskatti undir stjórn ákærða námu sem áður segir samtals 2.302.976 krónum. Þegar höfð er hliðsjón af verknaðarlýsingu 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, verður brot hans ekki talið meiri háttar eða sakir hans miklar. Verður ákærði því ekki talinn hafa unnið sér til fangelsisrefsingar samkvæmt 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. nú 262. gr. almennra hegningarlaga.

Staðfesta ber niðurstöðu héraðsdóms um að ákærði greiði sekt að fjárhæð 3.000.000 krónur. Komi fangelsi í þrjá mánuði í hennar stað verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.

Eftir þessum úrslitum verður ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað staðfest. Með vísan til 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 38. gr. laga nr. 36/1999, verður ákærða gert að greiða helming sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Óskar Smári Haraldsson, greiði 3.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vika frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi þrjá mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði helming sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, þar með talinn af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, sem alls eru ákveðin 100.000 krónur. Annar sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 1999.

Ár 1999, fimmtudaginn 8. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 1027/1998: Ákæruvaldið gegn Óskari Smára Haraldssyni sem tekið var til dóms þann 16. mars sl.

Málið er höfðað með ákæru ríkislögreglustjórans dagsettri 22. október 1998 á hendur ákærða, Óskari Smára Haraldssyni, kt. 020854-2949, Kambaseli 21, Reykjavík, „fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður einkahlutafélagsins Raf-Óss, kt. 620886-1579, sem úrskurðað var gjaldþrota þann 28. nóvember 1996, brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árunum 1993, 1994, 1995 og 1996 samtals að fjárhæð kr. 2.312.976 og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Árið 1993

September - október

kr. 206.827

Alls

kr. 206.827

Árið 1994

Janúar - febrúar

kr. 116.081

Mars - apríl

kr. 112.307

Maí - júní

kr. 73.419

Júlí - ágúst

kr. 130.179

September - október

kr. 105.203

Nóvember - desember

kr. 214.314

Alls

kr .751.503

Árið 1995

Janúar - febrúar

kr. 67.689

Mars - apríl

kr. 170.775

Maí - júní

kr. 111.296

Júlí - ágúst

kr. 136.618

September - október

kr. 151.901

Nóvember - desember

kr. 251.368

Alls

kr. 889.647

Árið 1996

Janúar - febrúar

kr. 114.104

Mars - apríl

kr. 220.390

Maí - júní

kr. 130.505 

Alls

kr. 464.999

Samtals:

kr. 2.312.976

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt, sjá nú 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.”

Við aðalmeðferð málsins óskaði sækjandi málsins eftir að leiðrétta ákæru varðandi tímabilið nóvember-desember 1994.  Þar væri um að ræða reikningsskekkju er næmi 10.000 krónum og kæmi til lækkunar.  Samkvæmt því ætti samtala ársins að lækka um framangreinda fjárhæð og niðurstöðutala ákæru ætti að vera 2.302.976 krónur.

Málavextir

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur upp kveðnum 28. nóvember 1996 var bú Raf-Óss ehf., kt. 620886-1579, tekið til gjaldþrotaskipta og skiptastjóri skipaður. Þann 11. mars 1997 ritaði skiptastjórinn embætti ríkissaksóknara bréf þar sem athygli var vakin á því, með vísan til 84. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að samkvæmt kröfulýsingum skuldaði félagið virðisaukaskatt.  Með bréfi dagsettu 2. apríl s.á. framsendi embætti ríkissaksóknara bréfið ásamt fylgiskjölum til rannsóknarlögreglu ríkisins með beiðni um að rannsökuð yrðu meint brot forráðamanna félagsins á lögum um virðisaukaskatt. 

Samkvæmt vottorði hlutafélagskrár var ákærði, Óskar Smári Haraldsson, skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins.

Rannsókn málsins hófst í maí 1997 með því að rannsóknari fór þess á leit við embætti skattstjórans í Reykjavík og embætti tollstjórans í Reykjavík að látin yrðu í té gögn vegna rekstrar félagsins er lytu að virðisaukaskatti fyrir tímabil 40 1993, tímabil 08, 16, 24, 32, 40 og 48 1994, tímabil 08, 16, 24, 32, 40 og 48 1995 og tímabil 08, 16 og 24 1996.

Ákærði var yfirheyrður hjá rannsóknarlögreglu ríkisins þann 5. júní 1997 og 7. október 1998 hjá embætti ríkislögreglustjórans. Hann kvað Raf-Ós hf. hafa verið stofnað á árinu 1986. Tilgangur þess hafi verið rafverktakastarfsemi. Raf-Ós ehf. hafi síðan verið stofnað á árinu 1995 og þá hafi hann yfirtekið allar skuldir félagsins. Rekstrinum hafi lokið í árslok 1996. Kvaðst ákærði hafa verið framkvæmdastjóri og formaður stjórnar og í raun séð um allan daglegan rekstur. Ákærði kvaðst hafa haldið saman fylgiskjölum og sett í möppur. Síðan hafi kona að nafni Katrín Steinsdóttir komið og fært bókhaldið í tölvu á heimili ákærða. Hafi skiptastjóri tekið bókhaldið í sínar vörslur í desember 1996.

Ákærði kvað virðisaukaskattsuppgjör hafa verið unnið í bókhaldsforriti í tölvunni og allar tölur sem færa átti á skýrslurnar hafi verið prentaðar út á þar til gerðu uppgjöri. Um þessa útprentun hafi ýmist hann sjálfur eða Katrín séð. Þá kvað ákærði endurskoðanda hafa séð um ársuppgjör fyrir félagið. Ákærða voru sýnd afrit innsendra virðisaukaskattskýrslna félagsins á árunum 1993 til og með 1996. Hann kannaðist við skýrslurnar og staðfesti nafnritun sína á þeim. Kvaðst hann sjálfur hafa fyllt þær út  að undanskildum skýrslum vegna tímabila 24, 32, 40 og 48 1994, 08, 16, 24 og 32 1995, sem hann taldi Katrínu hafa fyllt út. Allar tölur í skýrslunum væru fengnar úr bókhaldi félagsins. Ákærði kvað það oft hafa komið fyrir að skýrslu hafi verið skilað inn með greiðslu, en greiðslan hafi síðan verið látin renna upp í eldri tímabil í vanskilum og þá oft upp í álögur og dráttarvexti og þannig hafi skýrslan sem í raun var verið að greiða verið skráð sem ógreidd. Smágreiðslurnar sem færðar séu inn á sum tímabilin í útprentuninni sýni hvernig greiðslum var dreift á þau.

Ákærða var kynnt yfirlit rannsóknara yfir virðisaukaskattskil félagsins á árunum 1993 til og með 1996 og spurður hvort hann vildi koma að athugasemdum vegna yfirlitsins. Hann kvaðst ekki geta gert athugasemdir við yfirlitið án þess að hafa bókhald félagsins til að bera saman við það sem greitt var vegna virðisaukaskattsins. Hann kvað ástæðu þess að álögðum virðisaukaskatti var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs á tilsettum tíma vera þá að þar sem stórfellt tap hafi verið á rekstri félagsins hafi einfaldlega ekki verið til peningar til þess að greiða virðisaukaskattinn. Kvaðst ákærði hafa tekið um það ákvörðun sjálfur að skila ekki skattinum á tilskildum tíma. Þeir litlu fjármunir sem komu inn hafi runnið til greiðslu skulda og til að halda rekstrinum gangandi. Ákærði kvað fyrirtækið hafa verið einstaklega óheppið með viðskiptavini og röð gjaldþrota þeirra hafi orðið þess valdandi að á endanum hafi tapast kröfur sem námu nærri níu milljónum króna. Meðal þessara fyrirtækja væru Bátalón, Vélsmiðja O.L. Olsen, Dröfn, Djúpfiskur og fleiri. Við gjaldþrot þessara fyrirtækja hafi hann þurft að gangast persónulega í ýmsar ábyrgðir fyrir fyrirtækið. Því færi fjarri að hann hafi ekki ætlað að standa skil á virðisaukaskattinum. Hann hafi alltaf vonast til að geta náð utan um reksturinn og koma honum á réttan kjöl. Það hafi ekki gengið og að lokum hafi fyrirtækið verið tekið til gjaldþrotaskipta. Kvaðst hann hafa boðist til að taka að sér að greiða virðisaukaskattskuldir Raf-Óss ehf. við tollstjórann í Reykjavík og boðið fram veð í húsi sínu, en því hafi verið hafnað.

Við skýrslutöku þann 7. október 1998 voru ákærða kynntar niðurstöðutölur meints vangoldins virðisaukaskatts sem rannsóknari vann upp úr gögnum málsins, en þær tölur eru lagðar til grundvallar í ákæru. Ákærði kvaðst hvorki geta staðfest né rengt fyrirliggjandi niðurstöðutölur.

Við þingfestingu málsins krafðist ákærði þess að málinu yrði vísað frá dómi vegna þess að rannsókn þess væri ófullnægjandi. Með úrskurði upp kveðnum 11. desember sl. var frávísunarkröfunni synjað.   

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Raf-Óss hf. til 1995, en einkahlutafélagsins Raf-Óss þar til félagið var úrskurðað gjaldþrota 28. nóvember 1996. Hafi félagið starfað þar til skiptastjóri tók við búinu. Ákærði kvað það vera rétt að ekki hafi verið staðin skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni félagsins á árunum 1993, 1994, 1995 og 1996.  Hann staðfesti að þær tölur sem í ákæru greinir fyrir hvert tímabil um sig væru réttar. Ákærði kannaðist við að hafa undirritað virðisaukaskattskýrslur þær sem eru meðal gagna málsins, þegar þær voru bornar undir hann. Ákærði kvaðst sjálfur hafa tekið ákvörðun um að skila ekki virðisaukaskatti þegar skýrslurnar voru lagðar inn hjá tollstjóra. Hann kvaðst þó vilja leggja áherslu á að hann hafi ekki skilað virðisaukaskatti skv. útprentuðum reikningum. Ákærði taldi að virðisaukaskattskýrslurnar væru réttar skv. bókhaldi félagsins, enda unnar upp úr því. Hann kvaðst telja að í niðurstöðum lögreglu um skil á virðisaukaskatti fyrir þau tímabil sem ákært er út af, væri tekið tillit til þeirra greiðslna sem hann innti af hendi f.h. félagsins á þessum tíma. 

Ákærði kvað skýringuna á því að virðisaukaskatturinn var ekki inntur af hendi vera þá að félagið hafi ekki verið búið að fá greiðslur fyrir verk sem unnin höfðu verið skv. útsendum reikningum. Bornir voru undir ákærða 72 reikningar og hann spurður hvort það væri rétt að enginn þessara reikninga hefði fengist greiddur. Hann staðfesti að reikningarnir hefðu ekki fengist greiddir. Ákærði kvað fleiri reikninga ekki hafa fengist greidda. Hann hafi ekki fengið þá og vera kynni að hann hafi farið með þá í innheimtu til lögmanna. Einnig kynnu einhverjir óinnheimtir reikningar að hafa verið settir í geymslu. Ákærða var bent á að liðið hafi allt að fimm árum frá því að elstu reikningarnir voru gefnir út þar til félagið varð gjaldþrota. Hann var spurður hvort hann hafi ekki reynt að fá leiðréttingu á útskatti. Ákærði kvað endurskoðanda félagsins ekki hafa bent honum á þann möguleika. Auk þess kvaðst ákærði hafa verið að semja við flesta af skuldurunum um greiðslur. Í eldri málunum hafi hann í flestum tilvikum fengið skuldabréf sem síðan hafi reynst vera haldlaus, en hann hafi orðið að ábyrgjast til þess að geta selt þau í lánastofnunum. Ákærði kvað þó einhverjar leiðréttingar hafa verið gerðar, en hann vissi ekki hvort það væri vegna einhverra af þessum 72 reikningum. Kvaðst ákærði muna að leiðréttingarnar væru einungis vegna ársins 1992. 

Katrín Steinsdóttir kom fyrir dóminn. Vitnið staðfesti að hún hafi aðstoðað við að færa bókhald félagsins á árunum 1993 til og með 1996, þ.e. fram í ágúst 1996. Vitnið kvaðst eingöngu hafa unnið við skráningu á bókhaldi og því hafi henni verið ókunnugt um innheimtumál félagsins. Vitnið kvaðst hafa prentað út úr tölvubókhaldinu virðisaukaskattskýrslur. Vitnið kvaðst telja að virðisaukaskattur á virðisaukaskýrslum hafi verið í samræmi við bókhald félagsins þann tíma sem hún aðstoðaði við bókhaldið.

Niðurstaða

Ákærða, sem var framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Raf-Óss hf. og síðar Raf-Óss ehf., er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti, sem lagður var á félagið vegna uppgjörstímabila þeirra er í ákæru greinir, þ.e. eitt á árinu 1993, sex á árinu 1994, sex á árinu 1995 og þrjú á árinu 1996, samtals 2.302.976 krónur eftir leiðréttingu á ákæru. Var skatturinn hvorki greiddur á gjalddögum í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum né síðar. Nemur álagður virðisaukaskattur sömu fjárhæð og ákært er fyrir að ekki hafi verið staðin skil á.

Svo sem áður er að vikið var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 1996 og skiptastjóri skipaður. Gagnrýnir ákærði rannsókn málsins, sem hann telur stórlega áfátt, sem og það að skipta­stjóri skuli ekki hafa farið í saumana á bókhaldi fyrirtækisins því þá hefði annað komið í ljós en fyrir liggur. Byggir ákærði sýknukröfu sína m.a. á að því fari fjarri að ákærði hafi ekki ætlað að skila virðisaukaskatti, en gjaldþrot margra verkkaupa hafi leitt til þess að fé var ekki handbært. Megi ætla að tapaðar viðskiptakröfur nemi rúmum sjö milljónum króna og virðisaukaskattur af þeirri fjárhæð nemi a.m.k þeirri fjárhæð sem félagið hafi skuldað ríkissjóði.  Því sé refsiskilyrðum um ásetning eða stórkostlegt gáleysi ekki fullnægt.

Ákærði hefur játað að málavaxtalýsing sé rétt, en telur að taka beri tillit til framangreindra ógreiddra reikninga að fjárhæð rúmar sjö milljónir króna.  Fyrir liggur að félagið fékk, á grundvelli 13. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, leiðréttingu vegna u.þ.b. helmings þeirrar fjárhæðar.  Var ákærða opin sú leið að fá gerðar leiðréttingar á því sem eftir stóð, en hann lét það hjá líða. Þess er og að geta að ekki verður annað séð en að um óverulegar fjárhæðir sé að ræða vegna þeirra tímabila er í ákæru greinir eða um 35.000 krónur vegna áranna 1993 og 1994.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er það lýst refsivert að skattskyldur aðili afhendi ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt. Er með þessu unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila skattinum í ríkissjóð á tilskildum tíma. Af framburði ákærða er ljóst að hann ákvað að félagið léti hjá líða að standa skil á skattinum í ríkissjóð á réttum tíma. Að því virtu telst fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum sem leidd verða af upphafsorðum tilvitnaðrar lagagreinar.  Upplýst er í málinu að ákærði var ekki stjórnarformaður Raf-Óss hf., heldur einungis framkvæmdastjóri.  Hann var hins vegar stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Raf-Óss ehf. allt þar til félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en ákærði hafi allan þann tíma sem ákæra tekur til haft á hendi fjármálastjórn og tekið fjármálalegar ákvarðanir f.h. félagsins.  Ber hann samkvæmt því ábyrgð á því að eigi voru staðin skil á virðisaukaskattinum. 

Að öllu framanrituðu virtu telur dómurinn ákærða sannan að sök varðandi þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru eins og henni var breytt við meðferð málsins. Er heimfærsla brota hans rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki sætt refsingu svo kunnugt sé.

Brot ákærða teljast meiri háttar og hefur hann því unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. sömu laga.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið til tveggja ára svo sem nánar greinir í dómsorði. Vanskil félagsins nema 2.302.976 krónum. Verður ákærði samhliða skilorðsbundinni refsivist dæmdur til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin 3.000.000 króna og komi fangelsi í tvo mánuði í hennar stað verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.        

Þá ber, skv. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð er þykja hæfilega ákveðin 100.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarnfreðs Ólafssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 120.000 krónur.

Dómsuppsaga hefur dregist nokkuð vegna starfsanna dómarans og páskaleyfa.

Dómsorð:

Ákærði, Óskar Smári Haraldsson, sæti fangelsi í tvo mánuði. Fullnustu þeirrar refsingar skal frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.

Ákærði greiði 3.000.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í tvo mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 100.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarnfreðs Ólafssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.