Hæstiréttur íslands
Mál nr. 192/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Ómerking úrskurðar héraðsdóms
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 23. apríl 2008. |
|
Nr. 192/2008. |
A(Þorbjörg Inga Jónsdóttir hrl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Gunnar Eydal hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Ómerking úrskurðar héraðsdóms. Gjafsókn.
Með úrskurði héraðsdóms var mælt fyrir um að barnið B yrði vistað utan heimilis forsjárforeldra í 12 mánuði, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Talið var að þar sem ekki hafði verið gætt ákvæðis 3. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga um að ávallt skyldi gefa barni kost á að tjá sig áður en leyst er úr máli fyrir dómi væri óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að bæta úr þessum annmarka. Tekið var fram að umrætt ákvæði yrði að skýra eðli málsins samkvæmt og með hliðsjón af 2. mgr. 46. sömu laga, með þeim hætti að þessi skylda væri bundin við að barnið yrði talið hafa þroska og aldur til að tjá sig um málið, en því skilyrði þótti fullnægt í málinu enda barnið á 15. aldursári.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2008, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að vista barn sóknaraðila, B, utan heimilis sóknaraðila í 12 mánuði frá 15. janúar 2008 að telja. Kæruheimild er í 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að vistun barnsins verði aðeins látin standa í sex mánuði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila án tillits til gjafsóknar sem hann nýtur fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og tekur fram að hann krefjist ekki kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili bar mál þetta undir dóm með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2008 og gerði þar þá kröfu að úrskurður varnaraðila 15. janúar 2008 um að dóttir sóknaraðila, B, skyldi vistuð á heimili á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði, yrði felldur úr gildi. Þegar málið var tekið fyrir 28. febrúar 2008 lagði varnaraðili fram greinargerð og krafðist þess að úrskurður hans frá 15. janúar 2008, sem byggst hefði á b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, yrði staðfestur, en einnig að dómurinn úrskurðaði að stúlkan yrði vistuð utan heimilis forsjáraðila í 12 mánuði frá 15. janúar 2008 að telja, með heimild í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Í greinargerð sem lögð var fram 5. mars 2008 mótmælti sóknaraðili þeirri kröfu.
Í málinu liggja fyrir upplýsingar um að B hafi með heimild í 3. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga verið skipaður talsmaður. Í greinargerð talsmannsins 3. desember 2007 kemur fram að hann hafi hitt stúlkuna á fundi í skóla hennar og rætt um aðstæður hennar, meðal annars á heimili sóknaraðila. Segir í niðurstöðu greinargerðarinnar að stúlkan hafi verið nokkuð staðföst, þegar að því hafi komið að ræða um vistheimili. Hafi henni ekki fundist það góður kostur þó að hún útilokaði hann ekki. Ekki er í málinu að finna gögn um að leitað hafi verið eftir afstöðu stúlkunnar til dómkrafna í máli þessu eftir að það kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.
Um meðferð þessa máls fyrir dómi gilda ákvæði XI. kafla barnaverndarlaga, þar sem fjallað er um meðferð mála fyrir dómi samkvæmt 27. gr. og 28. gr. laganna. Þar er í 61. gr. tekið fram að ákvæði X. kafla laganna skuli einnig gilda um meðferð máls eftir því sem við geti átt og að því marki sem ekki sé mælt fyrir um frávik í ákvæðum XI. kafla. Í X. kafla er að finna ákvæði 55. gr., þar sem segir í 3. mgr. að ávallt skuli gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varði þótt það gerist ekki aðili þess. Þegar ákvörðun barnaverndarnefndar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. er borin undir dóm með heimild í 2. mgr. 27. gr. getur reynt á hvort gætt hafi verið ákvæðis 2. mgr. 46. gr. laganna þar sem kveðið er svo á að við málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd skuli gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varði í samræmi við aldur þess og þroska og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn máls og að ávallt skuli gefa barni sem náð hafi 12 ára aldri kost á að tjá sig um mál. Ef á hinn bóginn er leitað úrskurðar héraðsdóms um ráðstöfun samkvæmt 28. gr. laganna, þar sem ákvörðun verður ekki tekin nema með atbeina dómstóls, ber samkvæmt 3. mgr. 55. gr. að gefa barni kost á að tjá sig áður en leyst er úr máli fyrir dómi, en telja verður eðli málsins samkvæmt og með hliðsjón af 2. mgr. 46. gr. laganna að þessi skylda sé bundin við að barn verði talið hafa aldur og þroska til að tjá sig um málið.
Í máli þessu er uppi krafa um vistun B utan heimilis foreldra í tólf mánuði frá 15. janúar 2008 að telja. Ákvæði 3. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga eiga hér við samkvæmt framansögðu. Héraðsdómi var því skylt að gefa B, sem er á 15. aldursári, kost á að tjá sig um málið áður en úr því yrði leyst. Það var ekki gert og er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð, að undanskildu ákvæði hans um gjafsóknarkostnað sóknaraðila, og leggja fyrir héraðsdóm að bæta úr greindum annmarka á meðferð málsins.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað sóknaraðila verður staðfest og ríkissjóði gert að greiða gjafsóknarkostnað hans fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur um annað en gjafsóknarkostnað og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað sóknaraðila, A, er staðfest.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 200.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2008.
Sóknaraðili er A, [kt.], en varnaraðili er Barnaverndarnefnd Reykjavíkur
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður varnaraðila frá 15. janúar sl. um að dóttir hans, B, [kt.], skuli tekin úr umsjá foreldra og vistuð utan heimilis á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði verði felld úr gildi. Þá er krafist málskostnaðar skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti úrskurð varnaraðila frá 15. janúar sl., um að heimilt sé að vista B, sem lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna, C, [kt.], og sóknaraðila, utan heimilis sóknaraðila í tvo mánuði, sbr. b-lið 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá krefst varnaraðili þess að úrskurðað verði að B verði vistuð utan heimils forsjáraðila í tólf mánuði frá 15. janúar 2008 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002. Ekki er krafist kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um að B verði vistuð utan heimils forsjáraðila í tólf mánuði frá 15. janúar 2008 að telja, skv. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Til vara er þess krafist að vistunin verði ákveðin til skemmri tíma en 12 mánuðir. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Sóknaraðili lýsir málavöxtum nokkurn vegin með eftirfarandi hætti. Ásamt móður stúlkunnar fer hann með forsjá hennar. Stúlkan býr á heimili þeirra ásamt eldri systur sinni. Aðstæður á heimilinu eru að öllu leyti góðar og hefur aðstoð frá barnaverndar-yfirvöldum undanfarna mánuði reynst vel.
Þá segir að afskipti af högum stúlkunnar hafi hafist af alvöru vorið 2006. Stúlkan var þá að komast á unglingsaldur og varð stundum óstýrilát vegna fötlunar sinnar, en hún er vægilega þroskahömluð. Foreldrum hennar hafi í fyrstu gengið illa að stjórna stúlkunni við þessar aðstæður. Sóknaraðili hafi ekki kunnað að ráða niðurlögum skapofsakasta stúlkunnar nema með líkamlegri þvingun. Þessi köst stúlkunnar og viðbrögð foreldra hennar við þeim hafi valdið talsverðri streitu á heimilinu.
Er barnaverndaryfirvöld höfðu afskipti af málinu fannst foreldrum stúlkunnar í fyrstu það óþörf afskipti, enda hafi þau talið að uppeldisaðferðir þeirra myndu á endanum skila árangri, en þau höfðu hvort um sig alið upp börn með ágætum árangri áður. Síðar hefðu þau þó gert sér grein fyrir að þörf væri á öðrum aðferðum til að leysa þau vandamál sem stúlkan átti við að stríða. Upp frá því hafi þau virt leiðbeiningar ráðgjafa og það skilað miklu til bóta í samskiptum innan fjölskyldunnar. Þá segir í kærunni:
Hafa kærandi og eiginkona hans verið tilbúin til samvinnu við barnaverndaryfirvöld í málinu, en hafa þó á stundum talið að trúnaður starfsmanna við þau væru ekki fullnægjandi. Kom þetta m.a. fram í því að starfsmenn barnaverndaryfirvalda bentu móður m.a. á að reynandi væri að leita eftir skilnaði frá kæranda, og myndu barnaverndaryfirvöld aðstoða móður eftir megni ef hún færi þá leið. Enn fremur trufluðu starfsmenn barnaverndaryfirvalda kæranda og konu hans í þeirra einkalífi, m.a. með því að koma með gögn á vinnustað móður. Hafa þessi vinnubrögð starfsmanna barnaverndaryfirvalda haft áhrif á tiltrú kæranda og konu hans á heilindum þeirra og velvilja í sinn garð. Af hálfu barnaverndaryfirvalda hefur verið úrskurðað áður í málinu, þann 29. nóvember 2006, þá á þann veg að stúlkan skyldi vistast utan heimilis í tvær vikur. Enn fremur hafa foreldrar stúlkunnar samþykkt áætlanir um meðferð máls í tvö skipti, og telja að sú aðstoð sem bauðst með þeim hætti hafi að einhverju leyti verið til gagns. Þó telja þau að sú áætlun sem gerð var þann 14. júní 2007 hafi ekki verið fullnægjandi, þ.e. að úrræðin sem í boði voru hafi ekki verið stúlkunni nægileg til að bæta aðstæður hennar í skóla, en það telja foreldrar mikilvægast fyrir velferð barnsins. Eru foreldrar viljugir til að reyna allt sem í þeirra valdi stendur til að styðja við stúlkuna, og vilja í því sambandi þiggja alla þá aðstoð sem þau telja verða stúlkunni til aðstoðar.
Af hálfu varnaraðila er málvöxtum lýst á þann veg að málefni B, sem er fjórtán ára og lýtur forsjá foreldra sinna, C og A, hafa verið til umfjöllunar hjá varnaraðila frá árinu 2002 vegna vanlíðunar hennar, tilkynninga um að heimilisaðstæðum sé áfátt sökum ofbeldis og vanrækslu, slakrar frammistöðu í námi og lélegrar skólasóknar, kvartana B um harðræði og að starfsmaður í fyrirtæki föður hennar hafi leitað á hana kynferðislega. Samvinna foreldra telpunnar við starfsmenn barnaverndar hefur oft verið erfið og hafa foreldrar sjaldan verið tilbúnir að þiggja boð um stuðningsúrræði eða ekki talið sig þurfa á leiðsögn að halda.
Þá segir að B hefur undirgengist greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í tvígang, síðara skiptið í maí 2004 (dskj. nr. 52). Niðurstöður athugunar hafi meðal annars sýnt töluverð frávik í þroska þar sem vitsmunaþroski mældist á stigi vægrar þroskahömlunar. Einnig stríði B við erfiðleika í félagsfærni sem og önnur vandamál tengd félagsumhverfi (dskj. nr. 52).
Greint er frá því að B hafi verið vistuð á Vistheimili barna tímabilið 4. til 31. maí 2005 vegna erfiðleika á heimili (dskj. nr. 7, bls. 1). Hafi sú dvöl vel gengið vel og B virst ánægð með dvöl sína og starfsmönnum þótt hún hlýðin og góð. Á meðan á dvöl B stóð hafi foreldrar hennar sjaldan komið í heimsókn og ekki hringt til hennar. Að mati starfsmanna vistheimilisins ráðist samskipti foreldra og B af því hve foreldrarnir verja litlum tíma með henni og ráðaleysi þeirra við að takast á við hegðunarerfiðleika hennar. B taki skapofsaköst til að ná sínu fram gagnvart foreldrum sínum en slíka hegðun hafi hún ekki sýnt á vistheimilinu (dskj. nr. 50).
Tekið er fram að fjölmargar tilkynningar hefðu borist í málinu um áhyggjur af telpunni, heilsu hennar og velferð. Skóli telpunnar hafi tilkynnt að hún væri illa til reika og að hún mætti ekki í leikfimi og sund (dskj. nr. 9). Ennfremur hafi verið tilkynnt um afbrot telpunnar, en hún hefði verið staðin að hnupli í Smáralind (dskj. nr. 33). Einnig hafa borist tilkynningar um líkamlegt ofbeldi sem telpan sæti á heimili (dskj. nr. 36, 39 og 50), og um ágreining milli telpunnar og föður hennar (dskj. nr. 37 og 38).
Vísað er til þess að í janúar 2006 hafi borist tilkynning um meinta kynferðislega áreitni sem B hefði orðið fyrir af hálfu starfsmanns í fyrirtæki föður telpunnar (dskj. nr. 51). Málið hafi verið kært til lögreglunnar þann 26. janúar 2006 og stúlkan farið í skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 20. október 2006. Í kjölfarið hafi telpan sótt viðtöl hjá sálfræðingi í Barnahúsi. Í samtali sálfræðings Barnahúss við föður telpunnar hafi komið fram að faðirinn trúði ekki telpunni þegar hún sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu starfsmannsins (dskj. nr. 32). Einnig barst tilkynning undir nafnleynd um að grunsemdir væru uppi um að telpan væri misnotuð með kynferðislegum hætti með vitund og vilja föður síns (dskj. nr. 42).
Bent er á að í apríl 2007 hafi tilkynning borist frá hjúkrunarfræðingi á neyðarmóttöku nauðgana á LSH um að þangað hefði leitað faðir B með telpuna vegna gruns um að henni hefði verið nauðgað af sér eldri drengjum (dskj. nr. 28 og dskj. nr. 31, bls. 9).
Sagt er frá því að hinn 23. nóvember 2006 hafi tilkynning borist frá skóla telpunnar þar sem fram kom að telpan hefði greint frá harðræði og ofbeldi af hálfu foreldra þá um morguninn (dskj. nr. 42). Í kjölfarið hafi B verið vistuð á Vistheimili barna með samþykki foreldra til 29. nóvember 2006. Starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur hefðu metið að barnið byggi ekki við öryggi á heimili og þar sem foreldrar samþykktu ekki áframhaldandi vistun B á vistheimilinu hafi verið gripið til neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. barnaverndarlaga og telpan kyrrsett þar til 12. desember (dskj. nr. 42).
Þá er greint frá því að á fundi varnaraðila 12. desember 2006 hafi verið gerð meðferðaráætlun með foreldrum þar sem meðal annars kom fram að gerð yrði sálfræðileg athugun á telpunni og að hún fengi meðferðarviðtöl í Barnahúsi. Einnig hafi verið ákveðið að veita foreldrum uppeldisráðgjöf og sálfræðiviðtöl til að aðstoða þau við að bæta samskiptin (dskj. nr. 41, bls. 3-4). Um þriggja mánaða skeið hafi enskumælandi félagsráðgjafi komið reglulega á heimili fjölskyldunnar með uppeldisráðgjöf. Mat félagsráðgjafans á aðstæðum telpunnar heima fyrir væri að innsýn foreldra í þarfir telpunnar og geta þeirra til að tileinka sér uppeldisleiðsögn væri afar takmörkuð (dskj. nr. 30, bls. 6 og dskj. nr. 31, bls. 9). Þá nýttu foreldrar sér ekki þá ráðgjöf sem í boði var til að bæta samskiptin. Starfsmaður hafi einnig verið fenginn til að sinna tilsjón með heimilinu en faðir hafi hafnað þeim stuðningi (dskj. nr. 7, bls. 5).
Vísað er til þess að eftir meðferðaráætlunar, sem gerð var 12. desember 2006, hafi Dr. Tryggva Sigurðssyni barnasálfræðingi verið falið að gera sálfræðilega athugun á líðan og stöðu B. Í skýrslu sálfræðingsins segi að vitsmunaþroski telpunnar sé á stigi vægrar þroskahömlunar og frammistaða í námi langt undir meðallagi í öllum námsgreinum (dskj. nr. 35, bls. 3). Að mati sálfræðingsins væri hegðun og vanlíðan telpunnar algeng hjá börnum með þroskahömlun sem leiði oft til félagslegrar einangrunar. Líkur á erfiðri hegðun og vanlíðan aukist til muna þegar barn búi við erfiðleika í félagsumhverfi á borð við þá sem lýst væri hjá fjölskyldu telpunnar (dskj. nr. 35, bls. 3-4). Að sögn sálfræðingsins leiki vafi á skilningi föður á alvarleika málsins og getu foreldra til að skilja greindarfarslegar og félagslegar takmarkanir telpunnar. Sálfræðingurinn telji að mikinn skilning og getu þurfi til að annast B, sem þarfnist verulegrar umönnun vegna þroskaskerðingar og erfiðrar hegðunar. Sálfræðingurinn álíti að foreldra skorti þessa eiginleika, en faðir hafi meðal annars ekki sagst skilja af hverju telpan væri svona erfið heima fyrir (dskj. nr. 35). Þá segir:
Í október 2007 (dskj. nr. 19) og nóvember s.á. (dskj. nr. 15) bárust tvær tilkynningar frá B sjálfri um harðræði og ofbeldi sem hún var beitt á heimili af fjölskyldu sinni. Í síðara skiptið flúði telpan af heimilinu til vinkonu sinnar. Bakvakt var kölluð til og var telpan í samráði við foreldra vistuð á Vistheimili barna (dskj. nr. 16). Foreldrar samþykktu að telpan yrði vistuð á Vistheimili barna fram að fundi varnaraðila þann 11. desember 2007 (dskj. nr. 14). Þegar faðir mætti á fund varnaraðila 11. desember sl. kom fram að hann samþykkir ekki vistun telpunnar utan heimilis (dskj. nr. 11).
Að sögn meðferðaraðila B í Barnahúsi hefur telpan hvorki getu né vilja til að nýta sér samtalsmeðferð. Einnig kom fram að erfitt væri að ná til telpunnar og að hún mæti stopult í viðtöl (dskj. nr. 32). Telpunni hefur verið útvegaður talsmaður. Fram hefur komið hjá talsmanni telpunnar að hún sé ekki ræðin og að hún vildi frið og ró, betri samskipti á heimilinu og útilokaði ekki að dvelja utan heimilis í einhvern tíma (dskj. nr. 13).
Samkvæmt upplýsingum frá umsjónarkennara B fær telpan ekki það aðhald og aðstoð heima fyrir með námið sem hún þyrfti á að halda og að hún eigi í talsverðum erfiðleikum með það. Jafnframt segir í bréfinu að samskipti við foreldra telpunnar séu mjög lítil miðað við þá þroskahömlun sem telpan er með (dskj. nr. 34).
Sóknaraðili byggir aðalleg á því að varnaraðili hafi ekki heimild til að ákveða vistun barnsins utan heimilis án hans samþykkis án þess að fullreyna fyrst vægari úrræði, skv. 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga.
Þá er byggt á því að vistun stúlkunnar utan heimils sé alls ekki líkleg til að bæta aðstæður hennar, enda sé stúlkan orðin vel stálpuð, 14 ára gömul. Þekkt væri að vistun barna á þeim aldri utan heimilis hafi sjaldnast í för með sér miklar breytingar til þess betra. Þvert á móti sé hún skaðleg. Ákveðið hafi verið að vista stúlkuna í litlu plássi úti á landi sem væru óhagstæðar aðstæður fyrir hana. Hún hafi átt við félagsleg vandamál að stríða, m.a. í formi eineltis, en hafi þó alltaf haft góð tengsl við vinahóp sem ætti rætur að rekja til sama uppruna og hún. Það hafi haft góð áhrif á hana að vera í tengslum við fólk sem býr við svipaðan og blendinn menningararf og hún. Með vistun úti á landi yrði skorði á þessi tengsl við uppruna hennar og menningu.
Einnig er byggt á því að ekki hafi verið gætt réttrar málsmeðferðar, skv. ákvæðum 46. gr. barnaverndarlaga. Hafi það sérstaklega mikla þýðingu með hliðsjón af aldri stúlkunnar sem hafi þroska til að mynda sér skoðanir og álit á því hvað henni sé fyrir bestu. Afstað hennar um fyrirhugaða vistun hennar hafi ekki verið könnuð.
Enn fremur er byggt á því að ekki hafi legið fyrir gildar forsendur til að vista stúlkuna utan heimils. Foreldrar hennar væru hæf til að annast hana. Eftir atvikum hafi stúlkunni gengið vel í skólanum undanfarið og samskipti hennar við foreldrana batnað. Úrskurður nefndarinnar væri rangur. Barnaverndaryfirvöld hefðu ekki sýnt því skilning að stúlkan á rætur að rekja til menningarumhverfis, sem er ólíkt því sem hér er. Barnaverndaryfirvöld hafi ætlast til þess að eiginkona sóknaraðila breytti uppeldisaðferðum sínum og tæki upp uppeldishætti sem féllu betur að vestrænum venjum.
Þá er byggt á því að úrskurður barnaverndarnefndar um vistun barns utan heimilis án samþykkis foreldra geti mest numið tveimur mánuðum. Beri því að beita því úrræði og kanna áhrif þess áður en til þess komi að krefjast dómsúrskurðar um lengri vistun barns utan heimilis. Með því að fela borgarlögmanni að krefjast dómsúrskurðar um vistunar stúlkunnar utan heimilis í 12 mánuði, samtímis úrskurðar um vistun hennar utan heimilis í 2 mánuði, hafi barnaverndarnefnd ekki gætt meðalhófs og meginreglu á sviði barnaréttar að almennt skuli hafa að leiðarljósi að halda fjölskyldu saman og styðja við hana, en ekki að skilja hana að.
Varnaraðili byggir kröfu sína um vistun stúlkunnar utan heimilis fyrst og fremst á því að umræddur úrskurður hafi fengið lögformlega málsmeðferð og sé gildur að lögum. Við uppkvaðningu hans hafi verið gætt meðalhófs og tekið mið af því að ítrekað hafi vægari úrræði samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga verið reynd og séu þau fullreynd án þess að viðunandi árangur hafi náðst, þar sem aðstæður telpunnar hafi ekki batnað. Varnaraðili telur foreldra telpunnar ekki hafa innsæi á þörfum telpunnar og að uppeldisaðstæður hennar séu óásættanlegar og breytist ekki þrátt fyrir stuðning.
Byggt er á því að sálfræðingur hafi metið það svo að B þarfnist verulegrar umönnunar vegna þroskaskerðingar og erfiðrar hegðunar. Persónuþroski hennar gæti verið í hættu við óbreyttar aðstæður (dskj. nr. 35). Við meðferð málsins hjá barnaverndaryfirvöldum hafi komið fram að meintum skapofsa telpunnar væri mætt með ofbeldi af hálfu forsjáraðila og virtust foreldrar ráðalaus um aðrar aðferðir (dskj. nr. 15, 16, 19 og 26). Eins og að framan greinir hafi varnaraðili boðið foreldrum B upp á fjölmörg stuðningsúrræði á borð við sálfræðiviðtöl og uppeldisráðgjöf (dskj.nr. 7, bls. 4) með slökum árangri. Þá hafi foreldrar ekki nýtt sér ráðgjöf sem í boði var til að bæta samskipti sín á milli (dskj. nr. 7, bls. 4). Síðastliðið haust hafi verið búið að finna stuðningsaðila til að koma inn á heimilið en faðir hafi neitaði þeirri aðstoð (dskj. nr. 8). Meðalhófsreglunnar hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki verið gripið til viðarhlutameiri úrræða en nauðsyn krafðist. Í málinu sé nú svo komið að vægari úrræði en vistun utan heimilis dugi ekki til. Nauðsynlegt sé að sú vistun standi lengur en þá tvo mánuði sem varnaraðili hefur heimild til að úrskurða um og væri því krafist að dómurinn úrskurði að vistun utan heimilis standi í tólf mánuði.
Byggt er á því að lögmætt sé að barnaverndarnefnd meti hvort vistun þurfi að standa lengur en í þá tvo mánuði sem nefndinni er heimilt að úrskurða um. Í þessu máli sé það mat varnaraðila að vistun utan heimilis þurfi að standa lengur en í tvo mánuði ef einhver von á að vera til þess að stuðningur og meðferðarúrræði komi að gagni.
Vísað er til þess að vilji telpunnar hafi verið kannaður og bent er á að í gögnum málsins komi fram að telpan hafi ítrekað verið innt eftir vilja sínum í þessum efnum og enn fremur hafi telpan þegið boð um að njóta aðstoðar sérstaks talsmanns (dskj. nr. 47). Þó að B hafi gefið til kynna að henni fyndist dvöl á öðru heimili ekki spennandi, þá útiloki telpan ekki að dvelja á öðru heimili í einhvern tíma (dskj. nr. 13 og dskj. nr. 29, bls. 2). Jafnframt hafi komið fram í gögnum málsins að telpan virðist líta á dvöl á vistheimili sem öruggan stað (dskj. nr. 29, bls. 2 og dskj. nr. 31, bls. 10). B hafi notið liðsinnis skipaðs talsmanns sem gætt hefur réttinda telpunnar í hvívetna og meðal annars komið afstöðu hennar á framfæri þegar tilefni var til (dskj. nr. 13, 29 og 47).
Byggt er á því að forsjáraðilar hafi ekki getu eða innsýn til að veita B það uppeldi sem hún þarfnist. Forsjáraðilar hafa hvorki náð tökum á vanda telpunnar með viðeigandi hætti né viljað nýta sér þá fjölbreyttu aðstoð sem þeim hafi staðið til boða. Meðal annarra úrræða hafi enskumælandi félagsráðgjafi farið um þriggja mánaða skeið vikulega á heimili fjölskyldunnar með uppeldisráðgjöf (dskj. nr. 30). Markmið fundanna hafi verið að styðja foreldra í því að læra aðrar uppeldisaðferðir en áður og beita þeim í stað harðræðis eða ofbeldis og hvernig auka mætti vitund foreldra um það hvernig samskipti þeirra hafi áhrif á telpuna (dskj. nr. 30, bls. 1 og dskj. nr. 31, bls. 7). Þó að forsjáraðilar hafi tekið félagsráðgjafa og ábendingum vel hafi það verið mat ráðgjafa að takmarkað væri hvað þau fær um að nýta sér uppeldisráðgjöf til að breyta uppeldisaðferðum sínum. Enn fremur taldi ráðgjafinn að foreldrar hefðu takmarkaða innsýn í þann mikla vanda sem blasir við um hegðun og líðan B (dskj. nr. 30 bls. 6 og dskj. nr. 7, bls. 4).
Vísað er til þess að sóknaraðili hafi farið í forsjárhæfnimat þar sem fram kom að hann þurfi ráðgjöf hlutlauss aðila við uppeldi dóttur sinnar og samskipti innan heimilisins. Enn fremur kom fram að sóknaraðili þarfnaðist ráðgjafar eða meðferðar til að vinna úr eigin tilfinningamálum sem hafa komið upp á lífsleið hans (dskj. nr. 17, bls. 5). Að mati sálfræðings var forsjárhæfni föður óskert. Þá er greint frá því að móðir stúlkunnar hafi hvorki farið í forsjárhæfnimat né mætti í boðað viðtöl eins og óskað var eftir, annars vegar með föður, lögfræðingi og túlki (dskj. nr. 12, bls. 4) og hins vegar hjá ráðgjafa (dskj. nr. 31, bls. 5). Fram hafi komið hjá móður B að hún vildi hvorki taka þátt í áætlun um meðferð máls né mæta á fundi um dóttur sína (dskj. nr. 7, bls. 5).
Byggt er á því að foreldrar B hafi verið ósamstíga í uppeldi telpunnar og oftast mjög ósammála um reglur á heimili. Þá hafa foreldrar telpunnar borið ásakanir upp á hvort annað (dskj. nr. 31, bls. 7). Móðir hafi ásakað föður um ótæpilega drykkju (dskj. nr. 30, bls. 2) og um að raska heimilisfrið á nóttunni og faðir hefur lýst rifrildum við móður um fjármál.
Reist er á því að í skýrslu talsmanns B komi fram að hún sé döpur, fjarræn og þreytt, hún sakni friðar og betri samskipta á heimilinu og sé einsömul í skólanum og verði fyrir einelti þar (dskj. nr. 13). Varnaraðili hafi áhyggur af því að B sé farin að umgangast sér eldri drengi sem hún væri að spjalla við á internetinu. Sóknaraðili hafi ekki rætt um það við telpuna eða gert varúðarráðstafanir til að sporna við þessari hegðun (dskj. nr. 12, bls. 8). Telpan hafi um alllangt skeið sótt viðtöl hjá sálfræðingi í Barnahúsi en ekki geta nýtt sér viðtölin sem skyldi (dskj. nr. 32). Í niðurstöðum sálfræðimats komi fram að B þurfi á reglulegum stuðningsviðtölum að halda til að takast á við eigin vanlíðan og að telpan þurfi að fá sérkennslu við sitt hæfi vegna þroskaraskana. Jafnframt telji sálfræðingur að mikilvægt sé að félagsumhverfi telpunnar sé gott til að draga úr líkum á vanlíðan hennar og hegðunarerfiðleikum (dskj. nr. 35, bls. 3-4).
Byggt er á því að foreldrar hafi báðir lýst því yfir að til greina komi að vista telpuna utan heimilis og hafi móðir sagt hegðun telpunnar sér ofviða (dskj. nr. 30, bls. 4). Við meðferð málsins hafi meðal annars komið fram að meintum skapofsa telpunnar væri mætt með ofbeldi af hálfu forsjáraðila og væru þau ráðalaus um aðrar aðferðir og hafa hingað til ekki viljað þiggja stuðning til að breyta þeim viðbrögðum sem telja verður óásættanleg. Þá væri stúlkunni ekki trúað, a.m.k. af hálfu föður, þegar hún sagði að starfsmann hans hafa áreitt sig kynferðislega (dskj. nr. 32). Ljóst væri að telpan geti ekki leitað skjóls hjá foreldrum sínum og treyst því að þau verndi hana gegn slíkum áföllum. Í stað þess að túlka vafa dóttur sinni í hag hefur faðir ekki gert ráðstafanir til að tryggja að barnið umgangist ekki meintan geranda í málinu.
Varnaraðili byggir á því að ákvörðun um vistun stúlkunnar utan heimilis sé jafnframt ályktun um hvar hagsmunum og velferð barns sé best borgið og vísar til þess að einvörðungu sé gripið til þessa úrræðis í þeim tilvikum þegar önnur vægari úrræði barnaverndarlaga hafi ekki borið árangur. Aldur telpunnar bendi til þess að ekki sé seinna vænna en að hún fái notið viðunandi uppeldisaðstæðna sem taka mið af þroska hennar og aldri, en sýnt þyki að þeirra hafi hún ekki notið á heimili sínu og að foreldrar hennar hafi misst tökin á uppeldi hennar og beitt hana ofbeldi þegar önnur ráð hafi þrotið. Óásættanlegt væri að foreldrar sjái enga aðra leið mögulega til að tryggja öryggi telpunnar við þessar aðstæður en að grípa til líkamlegra þvingana. Þar breyti ólíkur menningarbakgrunnur engu.
Reist er á því að sökum þroskahömlunar þurfi B sérstakan stuðning í skóla og á heimili. Þann stuðning fái hún ekki. Hegðun hennar fari sífellt versnandi og nú sé svo komið að hún sýni af sér áhættuhegðun sem nauðsynlegt sé að stöðva. Til dæmis hafi komið fram að telpan hafi hótað föður sínum með hníf og að samtöl milli hennar og drengja sem hún kynnist á internetinu séu af kynferðislegum toga (dskj. nr. 12, bls. 6 og dskj. nr. 30, bls. 3, 4 og 5).
Byggt er á því að það þjóna hagsmunum telpunnar best að vistast utan heimilis um takmarkaðan tíma svo vinna megi með telpunni á vanda hennar. Það verði ekki gert inni á heimili telpunnar. Telpan væri komin á unglingsár og óðum styttist því í að hún þurfi að standa á eigin fótum við 18 ára aldur. Miklu skiptir að hún fái viðeigandi stuðning til að undirbúa hana undir það sem þá taki við. Fullreynt sé að þeim stuðningi verður ekki komið við inni á heimili hennar eins og sakir standa. Sá stuðningur verði heldur ekki veittur á tveimur mánuðum. Lágmarkstími til að þetta meðferðarúrræði gagnist telpunni sé tólf mánuðir enda væri vandi telpunnar ekki nýtilkominn. Mál telpunnar hafi verið til meðferðar hjá varnaraðila frá árinu 2002 án þess að stuðningur inni á heimili hafi skilað árangri. Ljóst væri að ætla þurfi tíma til að þetta úrræði skili árangri.
Af hálfu sóknaraðila var lögð fram greinargerð vegna gagnkröfu varnaraðila um að úrskurðað yrði að B væri vistuð utan heimils forsjáraðila í tólf mánuði frá 15. janúar 2008 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002.
Um málvexti er vísað til kæru sóknaraðila til héraðsdóms, en tekið fram að frá því að tímabundið fóstur barnsins hófst skv. ákvörðun varnaraðila hafi stúlkan verið í fóstri á landsbyggðinni. Þar hafi hún byrjað í skóla fyrst nokkrum dögum eftir að hún kom á fósturheimilið, en ekki fengið nein sálfræðiviðtöl eða annan sérstuðning vegna þeirra erfiðleika sem hún hafi átt við að etja. Þá hafi hún ekki notið umgengni við föður og hafi símasamskipti þeirra verið takmörkuð verulega. Hún hafi ekki náð tengslum við jafnaldra á búsetustað og hafi líðan hennar ekki verið góð. Tími, sem þegar væri liðinn í tímabundnu fóstri barnsins, hafi ekki verið nýttur að neinu leyti af hálfu varnaraðila til að tryggja barninu betri aðstoð eða sértæk úrræði til að bæta líðan barnsins og stöðu.
Málsástæður sínar byggir sóknaraðili aðallega á því að ekki sé ástæða til að ákveða vistun dóttur hans utan heimilis án hans samþykkis. Meginregla barnaverndar-laga sé að ávallt skuli fyrst leita úrræða til að styrkja foreldra í foreldrahlutverkinu og aðstoða börn við óbreyttar aðstæður áður en ákveðið sé að vista barn utan heimilis.
Þá byggir sóknaraðili á því að vistun stúlkunnar utan heimilis í litlu plássi út á landi, eins og hér um ræðir, sé alls ekki líkleg til að bæta aðstæður hennar. Hún hafi átt við töluverð félagsleg vandamál að stríða, en hafi þó alltaf haft góð tengsli við vinahóp, sem rætur eigi að rekja til sama uppruna og hún. Hafi það haft góð áhrif á hana að vera í tengslum við aðila sem búa við svipaðan blendinn menningararf og hún.
Einnig er byggt á því að varnaraðili hafi ekki nýtt þann tíma, sem barnið hefur verið í tímabundnu fóstri, til að bæta líðan þess. Engin ástæða sé því til að ákveða lengri þvingunarvistun barnsins á vegum varnaraðila.
Enn fremur er byggt á því að sóknaraðili og kona hans séu fær um að annast um stúlkuna.
Þá er byggt á því að ekki hefði reynt á það hvort vistun barns utan heimils án samþykkis foreldra í tvo mánuði beri árangur. Með því að krefjast úrskurðar um vistun stúlkunnar í tólf mánuði samtímis úrskurði um vistun í tvo mánuði væri brotið gegn meðalhófi og meginreglum á sviði barnaréttar.
Ályktunarorð: Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal í barna-verndarstarfi beita þeim ráðstöfunum, sem ætla má að barni séu fyrir bestu, og ávallt hafa hagsmuni barna í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Þá segir í 3. mgr. 4. gr. laganna að barnaverndarstarf skuli stuðla að stöðugleik í uppvexti barna.
Af gögnum málsins verður ráðið að sökum þroskaskerðingar og erfiðrar hegðunar þarfnist B verulegrar umönnunar. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur ekki tekist að fá foreldra til að sinna dóttur sinni eins og ætla má að best henti hag og þörfum hennar, en rakið er í lýsingu málavaxta hvað nefndin hefur reynt í þeim efnum. Nefndin hefur aflað upplýsinga um hagi barnsins, tengsl þess við foreldra, hagi foreldra, aðbúnað barns á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess, allt eins og lög mæla fyrir um.
Fallist er á með varnaraðila að hagsmunum barnsins sé nú best borgið með vistun utan heimils forsjáraðila í tólf mánuði frá 15. janúar 2008 að telja. Af sjálfu leiðir að með því verður einnig staðfestur úrskurður varnaraðila að heimilt sé að vista B utan heimilis sóknaraðila í tvo mánuði frá 15. janúar 2008 að telja.
Af hálfu varnaraðila er ekki krafist málskostnaðar.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 280.000 krónur án virðisaukaskatts.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðila, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, er heimilt að vista B, utan heimils sóknaraðila, A, í tólf mánuði frá 15. janúar 2008 að telja.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Þorbjargar I. Jónsdóttur hrl., 280.000 krónur.