Hæstiréttur íslands

Mál nr. 71/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


                                     

Miðvikudaginn 8. febrúar 2012.

Nr. 71/2012.

Einar Pétursson

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Halldór H. Backman hrl.)

Kærumál. Hæfi. Dómarar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu E um að dómari málsins viki sæti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. janúar 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að héraðsdómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og héraðsdómara, Hervöru Þorvaldsdóttur, gert að víkja sæti í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt ýmis gögn frá árunum 1981 til 1984 svo og úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 1994, en gögn þessi, sem flest varða rannsókn á ætluðu auðgunarbroti föður sóknaraðila, hafa enga þýðingu við úrlausn málsins.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun kærumálskostnaðar verður litið til þess að málskot þetta er að ófyrirsynju.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Einar Pétursson, greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2012.

Stefndi hefur krafist þess að dómari víki sæti á grundvelli g.liðar 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Byggir stefndi á meintri óvild látins föður dómara í garð látins föður stefnda og vísar í því sambandi til bréfs, ritað af aldraðri móður stefnda, þar sem borið er á föður dómara, að hann hafi í störfum sínum fyrir rúmlega þrjátíu árum, bæði sem lögmaður og síðar sem Gjaldheimtustjóri í Reykjavík ofsótt látinn föður stefnda. 

Dómari þekkir hvorki til aðila málsins, fjölskyldu hans né þess illvilja sem lýst er í bréfinu.  Málatilbúnaður sem þessi hefur því ekki áhrif á hæfi dómarans til þess að fara með málið, enda snertir hann hvorki dómarann né störf hans.  Með framlagningu fyrrgreinds bréfs verður dómari ekki gerður vanhæfur til að fara með málið.  Kröfu stefnda um að dómari víki sæti er því hafnað.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu stefnda um að dómari víki sæti er hafnað.