Hæstiréttur íslands

Mál nr. 472/2016

Dánarbú M (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)
gegn
K (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Óvígð sambúð

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem viðurkenndur var réttur K til helmings af þeim eignum sem runnið höfðu í dánarbú fyrrum sambýlismanns hennar M. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af dómaframkvæmd réttarins yrði ráðið að sá sem verið hefði í óvígðri sambúð og gerði kröfur til þess að viðurkenndur yrði réttur sinn til hluta af eignum sem skráðar væru í eigu látins sambúðarmaka, yrði að færa sönnunar á að þær eignir hefðu í raun verið í sameign þeirra beggja við andlátið. Við úrlausn um slíka kröfu yrði jafnframt að gera greinarmun á því hvort eignirnar hefðu myndast áður en sambúð hófst eða eftir þann tíma. Talið var ósannað að K hefði öðlast hlutdeild í fasteign sem M hafði eignast áður en hann og K hófu sambúð. Af gögnum málsins mátti hins vegar draga þá ályktun að nánast allar aðrar eignir, sem skráðar voru á M við andlát hans, hefðu orðið til meðan á sambúð hans og K stóð yfir í nær 30 ár. Var talið að K hefði tekist að færa sönnur á að með þeim hefði skapast fjárhagsleg samstaða á sambúðartímanum. Var þá sérstaklega litið til framburðar K fyrir dómi um að þau hefðu búið saman eins og hjón og að hún hefði lagt fram vinnu í þágu ýmiss konar atvinnurekstrar M án þess að þiggja laun, svo og þess langa tíma sem sambúðin varði og viljayfirlýsingar sem M hafði gefið árið 2005 um að K skyldi ráða yfir eignum hans félli hann frá á undan henni. Var því viðurkenndur réttur K til helmings af eignum þeim sem runnið höfðu í dánarbúið, að undanskilinni áðurgreindri fasteign.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2016 þar sem viðurkenndur var réttur varnaraðila til helmings eigna sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfum varnaraðila verði hafnað, þar á meðal að í hlut hennar skuli koma helmingur af eignum sóknaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins festi M ásamt A, bróður sínum, kaup á hluta fasteignarinnar nr. [...] við [...] árið 1978, „nánar tilgreint efri hæð hússins ásamt geymslulofti, aðgangi að þvottahúsi í kjallara og nauðsynlegum umgangsrétti um ganga, bakhúsi á lóðinni og tilheyrandi eignarlóð að hálfu.“ Fjórum árum síðar, 1982, eignaðist M eignarhlutann einn. Samkvæmt útprentun úr Fasteignaskrá Íslands 7. júlí 2016, sem lögð hefur verið fyrir Hæstarétt, er umrædd fasteign auðkennd „[...]A“ með fastanúmeri [...]. Svo virðist sem eignin hafi verið auðkennd í þjóðskrá sem [...]a, en bakhúsið sérstaklega sem [...]c.

Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kvað varnaraðili þau M hafa kynnst á árinu 1984 og síðan farið að búa saman „bara eins og hjón“ árið 1987. Að hennar sögn var húseignin við [...], þar með talið bakhúsið, „ekkert í góðu ásigkomulagi“ á þeim tíma. Hún og synir hennar hafi lagt fram efni og vinnu við endurbætur á húseigninni, en einnig hafi leigugreiðslur af hluta eignarinnar staðið straum af þeim. Varnaraðili sagðist hafa unnið ýmis störf meðan á sambúð þeirra M stóð, jafnframt því sem hún hafi þegið bætur sem öryrki, en varanleg örorka hennar hafi verið metin 65%. Hún kvaðst meðal annars hafa unnið við útgerð og annan atvinnurekstur sem M hafi staðið fyrir. Aðspurð sagðist hún hafa lagt fé til atvinnurekstrarins og unnið „þar líka kauplaust“.

Í skýrslu A, bróður M, fyrir dómi kom fram að M og varnaraðili hafi komið í heimsókn til hans árið 2004 og hann sýnt bróður sínum erfðaskrá sem hann hafi látið gera fyrir sig. Kvaðst A hafa sagt „að hann ætti að gera svona fyrir K, því mér fannst það bara eðlilegt.“ Hinn 12. júlí 2005 undirritaði M skjal, nefnt erfðaskrá, þar sem sagði: „Falli ég frá á undan sambýliskonu minni, K, þá er það minn vilji að sambýliskona mín, K, hafi leyfi til setu í óskiptu búi, óski hún þess. Að öðru leyti fer um arf eftir mig að lögum.“

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt fram vottorð frá Þjóðskrá Íslands 30. júní 2016 þar sem fram kemur að varnaraðili hafi átt lögheimili að [...]c í Reykjavík á tímabilinu frá 9. september 1987 til 30. ágúst 1992 og síðan aftur frá 2. janúar 1995 til 11. maí 2015, en frá þeim degi er lögheimili hennar skráð að [...]a.

Þá eru meðal gagna málsins skattframtöl varnaraðila á tímabilinu frá 2007 til  2015 þar sem lögheimili hennar var ávallt sagt vera [...]c. Samkvæmt framtölunum fékk hún ekki greiddar launatekjur á þessu árabili, en hins vegar lífeyristekjur, þar á meðal frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá hafa skattframtöl M á tímabilinu frá 2002 til 2009 verið lögð fram hér fyrir dómi. Samkvæmt þeim var lögheimili hans á þeim tíma [...]a og hann jafnframt skráður eigandi að hluta þeirrar fasteignar. Á framangreindum skattframtölum var hvorugt þeirra varnaraðila eða M sagt vera í sambúð. Spurð fyrir dómi hvers vegna þau hafi ekki verið með sama lögheimili svaraði hún: „Af því að það bara vildi svoleiðis til að við vorum alltaf að flytja úr húsinu og leigja það og fórum þá í bakhúsið ... og þetta var sami maðurinn sem átti þetta allt og við áttum þetta allt saman, bæði bakhúsið og hitt húsið svoleiðis að þetta var sama eignin“.

Í málinu hefur verið lagt fram veðskuldabréf, útgefið af M 28. mars 2004, þar sem varnaraðili ritar nafn sitt undir samþykki veðsetningar á eignarhluta hans í [...] sem maki hans sem þinglýsts eiganda. Einnig upplýsingar um M þegar hann lagðist inn á Landspítalann skömmu áður en hann lést þar sem nánasti aðstandandi hans var sagður vera varnaraðili sem sambýliskona hans.

M lést 12. júlí 2015 og skilur hann ekki eftir sig niðja. Samkvæmt gögnum málsins eru lögerfingjar hins látna fjögur systkini hans. Þá hefur varnaraðili gert kröfu um að viðurkenndur verði réttur sinn til helmings af þeim eignum sem sá látni var skráður eigandi að og runnið hafa til sóknaraðila. Þær helstu munu vera fasteignin að [...], en á henni hvíla verulegar veðskuldir þótt óvissa ríki um hve hárri fjárhæð þær nema. Ennfremur verðbréf í vörslu [...] hf., eftirstöðvar samkvæmt skuldabréfum, útgefnum af [...] ehf. og B, svo og hlutafé í [...] ehf., en samkvæmt ársreikningi þess árið 2014 var bókfært eigið fé þess neikvætt á því ári. [...] ehf. mun hafa verið stofnað árið 1997 og átti M heitinn 53% hlutafjár í félaginu þegar það var selt í byrjun árs 2012, auk þess sem hann hafði veitt því lán sem endurgreitt var með fyrrgreindu skuldabréfi. [...] ehf. var stofnað árið 2012 og var M eigandi alls hlutafjár þess.

II

Eins og áður greinir krefst varnaraðili þess hér fyrir dómi að viðurkenndur verði réttur sinn til helmings af þeim eignum, sem skráðar voru í eigu M heitins og runnið hafa til sóknaraðila, á grundvelli þess að þau hafi búið saman í hartnær 30 ár. Þótt því sé haldið fram af hálfu sóknaraðila að sambúð þeirra hafi lengst af ekki verið skráð leikur enginn vafi á því samkvæmt framansögðu að þau hófu sambúð á árinu 1987 og virðist hún hafa staðið óslitið til ársins 2015 þegar M féll frá.

Í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar verður sá, sem búið hefur í óvígðri sambúð og gerir kröfu til þess að viðurkenndur verði réttur sinn til hluta af eignum sem skráðar eru í eigu látins sambúðarmaka, að færa sönnur á að þær eignir hafi í raun verið í sameign þeirra beggja við andlátið. Við úrlausn um slíka kröfu verður að gera greinarmun á því hvort eignirnar hafa myndast áður en sambúðin hófst eða eftir þann tíma.

Óumdeilt er að M hafði eignast áðurgreindan hluta af fasteigninni [...] í Reykjavík þegar hann og varnaraðili tóku upp sambúð. Ekkert liggur fyrir um hvort og þá hvaða veðskuldir hvíldu á þeirri eign. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi hefur varnaraðili haldið því fram að hún og synir hennar hafi lagt fram fé og vinnu við endurbætur á húseigninni. Ekkert annað, sem fram er komið í máli þessu, rennir stoðum undir þá staðhæfingu og er því ósannað að hún hafi öðlast hlutdeild í eigninni. Af  þeim sökum verður kröfu varnaraðila sem að því lýtur hafnað að svo vöxnu.

Af gögnum málsins verður dregin sú ályktun að nánast allar aðrar eignir, sem skráðar voru á nafn M við andlát hans, hafi orðið til meðan á sambúð hans og varnaraðila stóð. Ekki er ástæða til að draga í efa það, sem fram kom í skýrslu hennar fyrir dómi, að þau hafi búið saman „eins og hjón“ og því haldið sameiginlegt heimili á sambúðartímanum. Sömuleiðis að hún hafi lagt fram vinnu í þágu ýmiss konar atvinnurekstrar hans án þess að þiggja laun fyrir. Sá langi tími, sem sambúðin varði, bendir jafnframt eindregið til þess að með M og varnaraðila hafi smám saman skapast fjárhagsleg samstaða. Þá virðist hann sjálfur hafa litið svo á, eins og meðal annars verður ráðið af viljayfirlýsingu hans í framangreindu skjali frá árinu 2005 um að varnaraðili skyldi ráða yfir eignum hans félli hann frá á undan henni. Samkvæmt því er fallist á kröfu varnaraðila um að hún hafi eignast helmingshlutdeild í öðrum eignum, skráðum á nafn M heitins, en hluta af fasteigninni [...] og verður hinn kærði úrskurður staðfestur að því leyti og á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Rétt er að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Staðfest er sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að viðurkenndur sé réttur varnaraðila, K, til helmings af þeim eignum, sem runnið hafa til sóknaraðila, dánarbús M, þó að undanskildum hluta af fasteigninni [...] í Reykjavík með fastanúmeri [...].

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2016.

                Máli þessu var skotið til dómsins með bréfi skiptastjóra í dánarbúi M, kt. [...], dags. 5. febrúar 2016.  Sóknaraðili málsins er sambýliskona hins látna, K, [...]a, Reykjavík.  Dánarbúið er varnar­aðili. 

                Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 17. maí sl. 

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennt verði með dómi að hún sé erfingi að öllum eignum hins látna.  Til vara krefst hún þess að 2/3 hlutar eigna búsins komi í hennar hlut, en að 1/3 hluti gangi til systkina hins látna.  Til þrautavara krefst hún þess að helmingur allra eigna dánarbúsins komi í hennar hlut.  Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar. 

                Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.  Þá krefst hann málskostnaðar. 

                M lést þann 12. júlí 2015.  Með úrskurði dómsins 26. október 2015 var dánarbúið tekið til opinberra skipta. 

                Hinn látni gerði erfðaskrá hjá lögbókanda þann 12. júlí 2005.  Í inngangi að skránni segir að hann eigi ekki börn og sé í sambúð með sóknaraðila þessa máls.  Síðan segir:  „Falli ég frá á undan sambýliskonu minni K þá er það minn vilji að sambýliskona mín, K hafi leyfi til setu í óskiptu búi, óski hún þess.  Að öðru leyti fer um arf eftir mig að lögum.“

                Lögerfingjar eru fjögur systkini hins látna, en hann var ókvæntur og átti ekki afkomendur. 

                Sóknaraðili beindi kröfu sinni að skiptastjóra með bréfi er hún nefndi kröfu­lýsingu, dags. 5. janúar 2016.  Þar hafði hún uppi sömu kröfur og í þessu máli og lýst er að framan.  Á skiptafundum tókst ekki að ná samkomulagi um arfstilkall sóknar­aðila eða skipti milli hennar og hins látna og var málinu því vísað til dómsins samkvæmt 60. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991. 

                Sóknaraðili og M tóku upp sambúð á árinu 1986.  Sóknaraðili var þá ekkja og átti fimm börn, en það yngsta var þá [...] ára. M átti ekki börn.  Sambúð þessi stóð þar til M lést 12. júlí 2015. 

                Í greinargerð sóknaraðila segir að á árunum 1987 til 1992 hafi þau búið í Reykjavík.  Hann hafi ýmist verið á sjó eða starfað við löndun, en hún við ræstingar.  Þau hafi flutt til [...] 1992, þar hafi M gert út trillu en sóknaraðili séð um heimilishald.  Þau hafi flutt aftur til Reykjavíkur 1994.  Hafi hann verið á sjó fyrst, en síðan hafið rekstur á frystihúsinu [...], en sóknaraðili heldur því fram að hún hafi rekið frystihúsið með honum.  Hafi hún starfað í húsinu, til að mynda hafi hún bæði unnið við fiskvinnslu, þrif og matreiðslu.  Kveðst hún hafa farið á eftirlaun á árinu 2002. 

                Hinn látni keypti fasteignina [...]a á árinu 1982 og er hún meðal eigna dánarbúsins. 

                Við aðalmeðferð málsins gáfu sóknaraðili og A skýrslur, en A er bróðir hins látna og einn lögerfingja. 

                Sóknaraðili sagði að þau hefðu búið saman eins og hjón, hafi deilt öllu. Húsið við [...] hafi verið í slæmu ástandi og hún hafi kostað mikla endurnýjun á því með hjálp sona sinna. 

                Hún kvaðst hafa verið á örorkubótum, en alltaf unnið.  Hún hafi lengi verið í hálfu starfi, en þegar hún var með hinum látna við fiskvinnslu hafi hún unnið allan daginn. 

                Sóknaraðili kvaðst einu sinni hafa rætt við M um stöðu þeirra.  Í kjölfarið hafi hann farið og gert erfðaskrána.  Hann hafi sagt við hana á eftir að hann væri búinn að ganga frá málum hjá sýslumanni, hún myndi eignast allt eftir hans dag og svo börnin hennar. 

                Fram kom í skýrslu A að hann hefði eitt sinn sýnt M erfðaskrá sem hann hefði gert og sagt honum að hann ætti að gera erfðaskrá.  Þá hafi M sagt sér að hann kærði sig ekki um að börn sóknaraðila fengju neitt eftir sinn dag. 

                Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Í greinargerð sóknaraðila er því haldið fram að þegar sambúð hennar og M hófst hafi hann ekki átt neinar eignir aðrar en húsið við [...] og hlut í löndunarþjónustu, sem hann hafi selt fljótlega.  Þótt fjárhagur aðila hafi verið sam­ofinn hafi allar eignir verið skráðar á nafn M. 

                Sóknaraðili byggir aðalkröfu sína um að hún sé erfingi að öllum eignum hins látna á eftirtöldum málsástæðum:

                Allan sambúðartímann hafi þau staðið saman að heimilishaldi og tekjuöflun og þar með eignamynduninni.  Hinn látni hafi ekki átt teljandi aðkomu að rekstri fyrirtækja fyrr en eftir að þau hófu sambúð.  Sóknaraðili hafi ýmist unnið með honum að rekstri fyrirtækjanna eða aðstoðað hann að öðru leyti.  Bendir hún á vottorð hluta­félagaskrár þar sem fram komi að hún hafi setið í stjórn og varastjórn félaga sem hann rak.  Auk setu í stjórn og varastjórn hafi hún unnið beint við þessi fyrirtæki án þess að þiggja bein laun. 

                Sóknaraðili telur sig eiga tilkall til alls arfs eftir hinn látna eins og hún hafi verið maki hans, sbr. 1. mgr. 3. gr. erfðalaga.  Þau hafi hagað sínum málum að flestu leyti eins og þau hefðu verið í hjúskap.  Hún hafi verið tilgreind sem nánasti aðstandandi í sjúkraskrá hans.  Hún hafi áritað veðskuldabréf um samþykki maka.  Þá hafi hún eignast rétt sem maki úr lífeyrissjóðum. 

                Sóknaraðili segir að mikil samstaða hafi verið með þeim og hafi hinn látni t.d. sagt tengdason sóknaraðila vera tengdason sinn. 

                Sóknaraðili byggir á því að það hafi verið vilji hins látna að hún tæki allan arf eftir hann.  Hann hafi gert erfðaskrá til þess að tryggja rétt hennar.  Hann hafi ekki átt neina skylduerfingja og því getað ráðstafað öllum eignum sínum með erfðaskrá.  Erfðaskrá þessari verði ekki hnekkt. 

                Sóknaraðili vísar til heimildar hjóna samkvæmt erfðalögum til að ákveða að hið langlífara skuli hafa rétt til setu í óskiptu búi.  Hinn látni hafi talið sig ráða bót á lagalegu tómarúmi um erfðarétt sambýliskonu sinnar með því að gera erfðaskrá sína og tryggja að staða hennar yrði sem líkust því að þau hefðu verið í hjúskap.  Ekki sé vitað til þess að hinn látni hafi fengið aðstoð við gerð erfðaskrárinnar og verði að skýra erfðaskrána með hliðsjón af því hvað hafi vakað fyrir honum.  Við skýringu á erfðaskrá verði einkum að horfa til þess vilja sem hún lýsi, en ekki þeirra orða sem notuð séu til að lýsa þeim vilja.  Þetta eigi einkum við ef notuð eru lögfræðileg hug­tök.  Vísar sóknaraðili hér til 2. mgr. 37. gr. erfðalaga.  Vilji hins látna hafi verið skýr.  Hann hafi viljað að sóknaraðili hefði eftir hans dag umráð allra eigna búsins.  Vegna takmarkaðrar þekkingar í lögfræði hafi hann notað hugtak sem bundið sé við fólk í hjúskap í skilningi laga.  Þessi mistök leiði ekki til þess að erfðaskráin sé marklaus.  Slík niðurstaða væri ósanngjörn og í andstöðu við vilja hins látna. 

                Sóknaraðili byggir á því að einstaklingar sem ekkert hafi komið að eigna­myndun með hinum látna, geti ekki gert tilkall til eigna búsins, ef frá eru taldir lausa­fjármunir sem eigi uppruna í fjölskyldu hins látna.  Til að koma í veg fyrir þetta hafi hinn látni gert erfðaskrá.  Ekki verði gengið fram hjá skýrum vilja hins látna. 

                Varakröfu sína um að 2/3 hlutar eigna komi í sinn hlut byggir sóknaraðili á sömu málsástæðum og aðalkröfuna.  Enn fremur byggir hún á því að með þeim hafi myndast fjárfélag á sambúðartímanum.  Við lok sambúðar vegna andláts annars beri að skipta eignum á sanngjarnan hátt með tilliti til framlaga hvors um sig, eins og gert sé við sambúðarslit í lifanda lífi beggja.  Hinn látni hafi með erfðaskránni viljað tryggja henni sem mestan rétt til eigna hans.  Hann hafi viljað að staða hennar yrði sem líkust því að þau hefðu verið í hjúskap.  Því eigi hún rétt til 2/3 hluta eigna búsins. 

                Þrautavarakröfu um að hún fái helming eignanna í sinn hlut byggir sóknaraðili á öllum sömu rökum og áður hafa verið rakin.  Lögerfingjar geti ekki átt erfðatilkall til stærri hluta af eignum hins látna í ljósi skýrs og ótvíræðs vilja hans.  Jafnframt skuli hún hafa val um það að fá í sinn hlut fasteignina þar sem heimili þeirra hafi verið. 

                Málsástæður og lagarök varnaraðila

                Í greinargerð varnaraðila er því haldið fram að hinn látni hafi ætíð verið í góðu sambandi við systkini sín.  Hann hafi oft rætt það við þau að hann ætlaði sér ekki að arfleiða sóknaraðila að neinum eignum þar sem hann væri þess fullviss að börn hennar myndu hafa af henni þær eignir. 

                Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili sé ekki lögerfingi hins látna.  Þá mæli erfðaskrá hans ekki fyrir um að hún skuli vera erfingi.  Varnaraðili segir að hinn látni hafi vitað að sóknaraðili væri ekki erfingi sinn.  Hann hafi margoft sagt systkinum sínum að hann vildi ekki arfleiða sóknaraðila vegna þess að þá myndu börn hennar hafa af henni allar eignirnar. 

                Varnaraðili byggir á því að það sé einungis eftirlifandi maki, sem geti setið í óskiptu búi, aðili sem hafi verið í hjúskap með hinum látna.  Engin skýring sé á ákvæðinu um óskipt bú í erfðaskránni.  Hugsanlega hafi hann vonast til þess að systkini hans myndu leyfa sóknaraðila að lifa af eignum hans á meðan hún lifði.  Ólíklegt sé að hann hafi ekki vitað betur.  Þá sé ólíklegt að lögbókandi hafi ekki bent honum á þetta þegar erfðaskráin var vottuð. 

                Varnaraðili bendir á að hinn látni hafi keypt fasteignina [...]a áður en hann kynntist sóknaraðila.  Hún hafi ekki lagt fram fé vegna fasteignarinnar. 

                Varnaraðili vísar til þess að hinn látni hafi átt fiskvinnslufyrirtækið [...].  Hann hafi stofnað það 1997, en fram að því hafi hann ætíð unnið við fiskvinnslu.  Fyrirtækið hafi byggst á áratuga vinnu hins látna.  Hugsanlega hafi sóknaraðila á tíma­bilum unnið í fyrirtækinu.  Hún hafi ekki sýnt fram á að hún hafi ekki fengið laun fyrir þá vinnu.  Það dugi ekki til þess að hún eignist hlutdeild í verðmæti fyrirtækisins að hún hafi búið með hinum látna á meðan fyrirtækið var rekið. 

                Hinn látni hafi átt talsverðar eignir í verð- og hlutabréfum.  Þær fjárfestingar verði allar raktar til sölu hans á fyrirtækinu [...].  Ekki sé sýnt fram á að verðbréf hafi verið greidd með fjármunum frá sóknaraðila. 

                Varnaraðili bendir á að hinn látni hafi átt tvö einkahlutafélög, [...] og [...].  Hið fyrrnefnda hafi verið stofnað um kaup á fasteign á [...], en hið síðarnefnda hafi verið eignalaust.  Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hún hafi lagt fram fé við stofnun eða rekstur þessara félaga. 

                Varnaraðili byggir á því að við slit sambúðar eigi að miða skipti við það hvernig fjármálum aðila hafi verið háttað á sambúðartímanum, hver hafi aflað tekna, hver greitt fyrir eignir og hvort fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum. 

                Sóknaraðili hafi ekki leitt líkur að því að hún hafi lagt fram nokkurt fé vegna eigna hins látna.  Hún hafi ekki sýnt fram á nein framlög önnur en vinnuframlag vegna fiskvinnslu hins látna. 

                Varnaraðili segir að varakröfur sóknaraðila séu ósundurgreindar og taki til allra eigna hins látna.  Hún hafi ekki rökstutt hvers vegna henni beri hlutdeild í eignum varnaraðila. Samkvæmt dómaframkvæmd verði að rökstyðja eignartilkall gagnvart hverri eign fyrir sig, enda kunni ólík sjónarmið að ráða niðurstöðu í hverju tilviki.  Lengd sambúðar ráði ekki ein og sér niðurstöðu um tilhögun fjárskipta.  Krafa sóknaraðila sé vanreifuð að því er varði tilkall til hlutdeildar í eignum hins látna.  Vísar varnaraðili hér til 80. gr. laga nr. 91/1991. 

                Niðurstaða

                M gerði erfðaskrá og því er ekki haldið fram að hún sé haldin formgöllum.  Hún mælir fyrir um að sambýliskona hans, sóknaraðili, skuli fá að sitja í óskiptu búi, en síðan skuli eignir hans erfast samkvæmt lögum.  Ekki er tilefni til að ætla annað en að vilji hins látna hafi staðið nákvæmlega til þess sem hann mælir fyrir um.  Að sóknaraðili skyldi fara með eignir hans og sínar á meðan hún lifði, en síðan skyldu lögerfingjar hans erfa hans hlut. 

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að hún erfi eignir hins látna sem einkaerfingi í skjóli erfðaskrárinnar, en krefst þess ekki að hún fái leyfi til setu í óskiptu búi. 

                Erfðalög nr. 8/1962 veita eftirlifandi maka í ákveðnum tilvikum rétt til setu í óskiptu búi.  Hann fer þá með full og óskoruð eignarráð allra eigna maka síns og sinna, en heimild til að ráðstafa eignum með erfðaskrá er þó takmörkuð .  Lögin setja það skilyrði að eftirlifandi maki hafi verið í hjúskap með hinum látna, óvígð sambúð dugar ekki.  Þá er ekki setið í óskiptu búi nema hinn látni eigi afkomendur.  Eftir­lifandi maki er einkaerfingi, ef hinn látni átti ekki afkomendur. 

                Þannig er útilokað að sóknaraðila yrði veitt leyfi til setu í óskiptu búi í skilningi II. kafla erfðalaga, enda krefst hún þess ekki.  Þá er ekki hægt að skilja erfða­skrána svo að dánarbúinu skuli ekki skipt að svo stöddu, en samkvæmt meginreglum laga nr. 20/1991 er skylt að skipta dánarbúi ef maki fær ekki leyfi til setu í óskiptu búi. 

                Af gögnum málsins verður ekki neitt ráðið um afstöðu hins látna til systkina sinna annars vegar og stjúpbarna hins vegar.  Skýrslur sóknaraðila og eins bróður hins látna fyrir dómi verður að meta sem aðilaskýrslur sem ekki verða taldar afgerandi sönnunargögn.  Erfðaskráin sýnir vilja til að tryggja stöðu sóknaraðila með ákveðnum hætti.  Réttindi gagnvart lífeyrissjóðum veita hins vegar litla vísbendingu í þessu máli.  Hvað sem vilja hans líður verður erfðaskráin ekki skýrð svo að sóknaraðili skuli erfa allar eignir hins látna.  Verður að hafna aðalkröfu hennar um að hún taki allan arf. 

                Varakrafa sóknaraðila miðar við að skiptin skuli fara fram eins og þau hefðu verið í hjúskap og ekki gert með sér kaupmála.  Játa yrði hinum látna rétt til að mæla fyrir um slíka skiptingu í erfðaskrá, en hinn látni gerði það ekki.  Fyrirmælin í erfða­skrá hins látna er ekki hægt að skýra sem svo að fara skuli með dánarbú hans eins og þau hefðu verið í hjúskap.  Verður að hafna varakröfu sóknaraðila. 

                Þrautavarakrafa sóknaraðila er ekki krafa um arfshluta heldur einungis krafa um hvernig skipt skuli við lok óvígðrar sambúðar.  Sóknaraðili og M voru í óvígðri sambúð í hartnær þrjátíu ár.  Þau héldu sameiginlegt heimili allan tímann.  Sú almenna regla hefur verið talin gilda að opinber skráning eigna og þinglýstar eignarheimildir verði lagðar til grundvallar um eignarráð að eignum sambúðarfólks.  Í dómum Hæstaréttar verið viðurkennt að sambúðarmaki geti átt tilkall til hlutdeildar í eignum hins, hvernig sem háttað er skráningu, sýni hann fram á að eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma þegar báðir aðilar hafi lagt sitt af mörkum. Er litið fram hjá skráningu til þess að komast að sanngjarni niðurstöðu um skiptingu eigna.  Er þá litið til sambúðartíma og fjárhagslegrar samstöðu aðila.  M átti fasteignina [...]a þegar þau tóku upp sambúð, en ekki er neitt upplýst um fjárhagsstöðu hans í heild, um aðrar eignir og skuldir.  Svo virðist sem sóknaraðili hafi ekki átt verulegar eignir þegar sambúðin hófst. 

                Frásagnir aðila af fjárhagsstöðu hins látna og sóknaraðila eru brotakenndar og öruggar ályktanir er ekki hægt að draga um framlög aðila.  Þótt leggja verði til grund­vallar að M hafi átt meiri eignir en sóknaraðili þegar þau tóku upp sambúð, má ráða að talsverður hluti eigna hans hefur honum áskotnast með vinnu og fyrirtækjarekstri á sambúðartímanum.  Er því ekki hnekkt að sóknaraðili hafi unnið við fyrirtæki M á ýmsum tímum og verður að leggja til grundvallar þá frásögn hennar að henni hafi ekki verið greidd laun.  Líta verður til hins langa sambúðartíma og þess að fjárhagsleg sam­staða hefur verið með þeim, þótt M væri skráður eigandi að flestu því sem þau áttu.  Verður að viðurkenna hlutdeild sóknaraðila í eignum þeim sem M lét eftir sig.  Þegar litið er til þess að upplýsingar eru óljósar um raunverulega fjárhagsstöðu er þau tóku upp sambúð og þess vilja sem lesa má út úr erfðaskránni, verður fallist á að skipta verði svo að sóknaraðili fái í sinn hlut helming af eignum hins látna, eins og hún krefst til þrautavara. 

                Í lýsingu málsástæðna sóknaraðila kemur fram að hún skuli eiga val um að fá fasteignina [...]a lagða út.  Skilja má málflutning sóknaraðila sem svo að hér lýsi hún réttarreglum sem hún telji gilda fremur en að hún geri formlega kröfu þessa efnis.  Allt að einu er rétt að dómurinn lýsi þeirri niðurstöðu að ekki sé heimilt, sbr. 3. mgr., sbr. 2. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991, að mæla fyrir um rétt hennar til að fá fasteignina í sinn hlut.  Yrði að hafna slíkri kröfu hennar. 

                Varnaraðili skal greiða sóknaraðila 600.000 krónur í málskostnað.  Er virðis­aukaskattur þar innifalinn. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Úrskurðarorð

                Hafnað er aðal- og varakröfum sóknaraðila, K.

                Viðurkenndur er réttur sóknaraðila til helmings eigna í dánarbúi M.  Ekki verður mælt fyrir um rétt til útlagningar tiltekinna eigna. 

                Varnaraðili, dánarbú M, greiði sóknaraðila 600.000 krónur í málskostnað.