Hæstiréttur íslands

Mál nr. 107/2011


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Verðtrygging
  • Kröfugerð
  • Málsástæða
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Þriðjudaginn 20. desember 2011.

Nr. 107/2011.

Björn Þorri Viktorsson og

Karl Georg Sigurbjörnsson

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

Lánasamningar. Gengistrygging. Verðtrygging. Kröfugerð. Málsástæður. Frávísun máls frá héraðsdómi

A hf. höfðaði mál gegn B og K til innheimtu kröfu á grundvelli lánssamnings. Í héraðsdómsstefnu krafðist A hf. greiðslu í svissneskum frönkum þar sem miðað var við að skuldin væri samkvæmt lánssamningnum í þeim gjaldmiðli. Á þessa kröfu féllst héraðsdómur. Í greinargerð sinni til Hæstaréttar setti A hf. fram nýja varakröfu sem grundvallaðist á því að ekki yrði fallist á að skuldbindingin hefði verið í svissneskum frönkum, heldur í íslenskum krónum. A hf. féll síðan frá kröfu sinni um að hinn áfrýjaði dómur yrði staðfestur. Krafa bankans fyrir Hæstarétti þótti reist á málsástæðum sem ekki komu nærri málatilbúnaði hans í héraðsdómsstefnu. Skorti því mjög á að skilyrðum 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri fullnægt til þess að Hæstiréttur gæti byggt á þessum nýju málsástæðum við úrlausn málsins.  Þær þóttu einnig óhjákvæmilega fela í sér að A hf. hefði í reynd fallið frá öllum málsástæðum varðandi útreikning kröfunnar, sem hann byggði á fyrir héraðsdómi. Voru því engar málsástæður tiltækar af hendi A hf. til að byggja úrlausn þess á að því er varðaði ákvörðun á fjárhæð kröfunnar. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Árni Kolbeinsson og  Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 23. febrúar 2011. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að áfrýjendum verði gert að greiða sér 24.364.449 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. nóvember 2008 til greiðsludags, en héraðsdómur verði að öðru leyti staðfestur. Þá krefst hann  málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi og að málskostnaður á báðum dómstigum felldur niður.

I

 Áfrýjendur ásamt Þorláki Ómari Einarssyni gerðu 20. desember 2005 lánssamning við Sparisjóð Mýrarsýslu. Í upphafi samningsins var tekið fram að um væri að ræða lán til eins árs að jafnvirði allt að 17.600.000 krónum og var sú fjárhæð tilgreind bæði í tölustöfum og bókstöfum. Í 1. lið skilmála samningsins sagði að lántaki lofaði að taka að láni og lánveitandi að lána „umsamda lánsfjárhæð.“ Lánið væri laust til útborgunar frá undirritun samningsins til 15. janúar 2006. Síðan sagði: „Lánið skal vera í eftirfarandi mynt: CHF (100%).“ Lánið skyldi endurgreitt að fullu ásamt áföllnum vöxtum 5. nóvember 2006 og átti það að bera LIBOR vexti auk 2,75% álags. Lánveitanda var heimilt að skuldfæra tilgreindan reikning áfrýjandans Björns Þorra Viktorssonar fyrir afborgunum, vöxtum og kostnaði á gjalddaga. Í stöðluðum skilmálunum samningsins var kveðið á um að lántaka væri heimilt að óska eftir myntbreytingu á vaxtagjalddögum lánsins, og voru þar nánari ákvæði um hvernig miða skyldi við gengisskráningu íslensku krónunnar við þá breytingu. Þar var og tekið fram að slíkrar myntbreytingar gæti lántaki fyrst óskað að einu ári liðnu frá útborgun láns ef það væri í skilum. Kæmi til vanefnda skyldi lánið bera dráttarvexti sem vera skyldu umsamdir vextir af bréfinu auk 7% álags, en lánveitanda var einnig heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við gengi á hádegi gjaldfellingardags og skyldi það þá bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Til tryggingar láninu skyldi gefið út tryggingabréf „að fjárhæð CHF 415.000,-. Með veði í landi og fasteignum að Káraleyni, ... Mosfellsbæ.“ Lánveitanda var samkvæmt skilmálunum heimilt að framselja lánssamninginn ásamt tryggingum sem settar hefðu verið til annarrar lánastofnunar.

 Beiðni um útborgun lánsins var í viðauka við samninginn. Þar var  fjárhæð þess tilgreind „kr.17.600.000.-, í eftirfarandi mynt CHF 100%“. Var óskað eftir að „myntir verði seldar fyrir íslenskar krónur“ og andvirðið lagt inn á tilgreindan reikning áfrýjandans Björns Þorra. Var lánsfjárhæðin lögð inn á þann reikning 5. janúar 2006. Útborgunin var skýrð þannið að frá lánsfjárhæðinni 369.000 svissneskum frönkum voru dregnir 3.690 frankar vegna 1% lántökugjalds, en því sem eftir stóð var breytt í íslenskar krónur á genginu 47,70 þannig að til útborgunar komu 17.425.278 krónur.

Viðauki var gerður við lánssamning þennan 14. nóvember 2006. Í meginmáli hans var fyrst vísað til fyrri samnings en síðan sagði: „Lánssamningur þessi mun hér eftir hljóða uppá gengistryggt lán til allt að 2 ára og skal þannig endurgreiða höfuðstól skuldar þessarar að fullu með einni afborgun í lok tilgreinds lánstíma, eða þann 5. nóvember 2007. Þá skal lántaki einnig greiða áfallna umsamda vexti einu sinni á ári, þann 5. nóvember ár hvert. Að öðru leyti stendur lánssamningur, dagsettur 20. desember 2005, óbreyttur.“

Enn var gerður viðauki við lánssamninginn 27. desember 2007. Þar var tekið fram að skuldarar væru nú einungis áfrýjendur. Síðan sagði: „Lántakar hafa greitt áfallna vexti af lánssamningi þann 10.12.2007. Eftirstöðvar lánssamnings eru nú CHF 369.669,32. Samkvæmt viðauka við lánssamning dagsettan 14.11.2006 skyldi endurgreiða hann að fullu þann 05.11.2007. Að beiðni lántaka heimilar Sparisjóður Mýrasýslu að samningur verði framlengdur til 10.11.2008.“ Það var skilyrði fyrir framlengingunni að tilgreindur yrði reikningur er skuldfæra mætti fyrir greiðslum samkvæmt samningnum og var þar í því skyni tilgreindur annar reikningur áfrýjandans Björns Þorra en gert hafði verið í upphaflega samningum.

Á gjalddaga samningsins 10. nóvember 2008 sendi sparisjóðurinn áfrýjandanum Birni Þorra greiðslukvittun þar sem fram kom að lánsfjárhæðin ásamt vöxtum sem samtals næmi 389.110,94 svissneskum frönkum, sem á genginu 110,77 samsvaraði 43.102.219 krónum, hefði verið skuldfærð af þeim reikningi hans sem tilgreindur hafði verið í því skyni í síðastgreindum viðauka við samninginn.

Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármáleftirlitið 3. apríl 2009 ákvörðun um að Nýi Kaupþing banki hf., sem í dag ber nafn stefnda, yfirtæki í einu lagi réttindi og eignir sem kaupsamningur Sparisjóðs Mýrasýslu og Nýja Kaupþings banka hf. sama dag kvæði á um. Óumdeilt er að á þeim grunni fari stefndi með kröfuréttindi samkvæmt fyrrnefndum lánssamningi.

Stefndi taldi að vanskil hefðu orðið á lánssamningnum. Höfðaði hann mál þetta 21. október 2009. Hann krafðist þess að áfrýjendur yrðu dæmdir til að greiða sér óskipt 389.163 svissneska franka með dráttarvöxtum sem næmu LIBOR vöxtum með 9,75% álagi frá 10. nóvember 2008 til greiðsludags. Reisti hann kröfu sína á fyrrgreindum lánssamningi ásamt viðaukum, þar sem skuld, sem samkvæmt skilmálum hans hefði numið 389.163 svissneskum frönkum á lokagjalddaga lánsins 10. nóvember 2008, hefði ekki verið greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir.

Áfrýjendur tóku til varna. Í greinargerð kröfðust þeir aðallega sýknu, en til vara að dómurinn staðfesti að gengisbinding lánsins væri ólögmæt og „að krafan verði þá lækkuð til samræmis við þá niðurstöðu og þeim einungis gert að greiða höfuðstól lánsins í íslenskum krónum auk samningsvaxta til greiðsludags.“ Aðalkröfu sína reistu þeir fyrst og fremst á þeirri málsástæðu að lánið væri uppgreitt, sem staðfest hafi verið með því að fullnaðarkvittun fyrir greiðslu þess hafi verið send áfrýjandanum Birni Þorra, en einnig báru þeir fyrir sig að þar sem lánssamningurinn hefði í raun verið í íslenskum krónum yrðu þeir ekki krafðir um greiðslu í svissneskum frönkum og loks að ekki lægju fyrir gögn um kaupverð og greiðslukjör í samningi forvera stefnda og Sparisjóðs Mýrasýslu 3. apríl 2009. Varakröfu sína reistu þeir á þeirri málsástæðu að í fyrrgreindum lánssamningi hafi með ólögmætum hætti verið kveðið á um verðtryggingu fjárskuldbindingar í íslenskum krónum miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá var meðal annars einnig á því byggt til stuðning varakröfunni að brostnar væru forsendur fyrir skuldbindingu samkvæmt lánssamningnum og að víkja bæri ákvæðum hans að hluta til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum.

Með hinum áfrýjaða dómi, sem upp var kveðinn 23. nóvember 2010, var varakröfu áfrýjenda vísað frá dómi þar sem hún yrði ekki höfð uppi án gagnsakar. Héraðsdómur taldi að um væri að ræða lán sem veitt hefði verið í svissneskum frönkum og hafnaði þeim málsástæðum sem áfrýjendur tefldu fram til stuðnings aðalkröfu sinni um sýknu. Tók héraðsdómur því kröfu stefnda til greina, en vísaði dráttarvaxtakröfu þeirra frá dómi þar sem hundraðshluti vaxtanna hefði ekki verið tilgreindur í stefnu.

Í áfrýjunarstefnu og greinargerð til Hæstaréttar kröfðust áfrýjendur aðallega sýknu, en höfðu uppi sömu varakröfu og vísað hafði verið frá héraðsdómi um að staðfest yrði að gengisbinding lánsins hafi verið ólögmæt. Sýknukrafan var sem fyrr fyrst og fremst studd þeim rökum að krafan hafi fallið niður við útgáfu fullnaðarkvittunar, en einnig var hún reist á því að þar sem skuldbinding samkvæmt lánssamningnum hafi frá upphafi verið í íslenskum krónum yrði greiðslu samkvæmt honum ekki krafist í erlendri mynt. Málsástæður að baki varakröfu voru ekki með öllu skýrar, en sýnast einkum beinast að því rökstyðja að verði upphaflegum skilmálum lánsins vikið til hliðar þá sé ekki heimilt að kveða á um hærri vexti en um var samið í lánssamningi aðila fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu.

Í greinargerð til Hæstaréttar krafðist stefndi aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en gerði jafnframt nýja varakröfu þess efnis að áfrýjendum yrði gert að greiða sér 24.365.748 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. nóvember 2001 til greiðsludags. Varakrafan var byggð á því að skuldbindingin samkvæmt lánssamningi aðila væri í íslenskum krónum og bæri vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Um þessa kröfugerð vísaði hann einkum til dóma Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og  nr. 604/2010 sem fallið hefðu eftir að héraðsdómur var upp kveðinn.

Með bréfi sem barst réttinum 11. október 2011 féllu áfrýjendur frá varakröfu sinni. Þá lýstu þeir því yfir að þeir féllu frá þeirri málsástæðu að krafa stefnda hefði fallið niður við útgáfu greiðslukvittunar 10. nóvember 2011. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti gerðu þeir þá varakröfu að málinu yrði vísað frá héraðsdómi.

 Með bréfi sem barst réttinum 11. október 2011 féll stefndi frá aðalkröfu sinni um staðfestingu héraðsdóms og breytti kröfugerð í það horf sem að framan er lýst. Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti eru ástæða þess að stefndi fellur frá aðalkröfu sinni einkum dómur Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, en einnig vísar hann í því efni til dóma réttarins 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og nr. 604/2010 og 8. mars 2011 í málum nr. 30/2011 og nr. 31/2011.

II

Í héraðsdómsstefnu krafðist stefndi þess sem áður segir að áfrýjendum yrði gert að greiða sér 389.163 svissneska franka. Krafan var við það miðuð við að skuldin væri samkvæmt lánssamningi í þeim gjaldmiðli. Þessu til samræmis sneri umfjöllun í stefnunni um málsástæður einungis að atriðum, sem vörðuðu skuldbindingu áfrýjandans eftir hljóðan lánssamningsins, og var að öllu leyti við það miðað að hún hafi verið í svissneskum frönkum svo að gilt væri að lögum. Á þessa kröfu féllst héraðsdómur. Í greinargerð sinni til Hæstaréttar setti stefndi fram sem áður segir nýja varakröfu sem grundvallaðist á því að ekki yrði fallist á að skuldbindingin hafi verið í svissneskum frönkum, heldur í íslenskum krónum. Eftir þá breytingu sem hann gerði á kröfugerð sinni með bréfi 11. október 2011 stendur sú krafa nú ein eftir. Máltilbúnaður stefnda fyrir Hæstarétti er nú á því reistur að með lánssamningnum 10. desember 2005 og síðari viðaukum hans hafi verið samið um lán í íslenskum krónum sem bundið hafi verið gengi erlends gjaldmiðils með ólögmætum hætti. Er dómkrafa hans þannig fundin að við upphaflega fjárhæð lánsins í íslenskum krónum er frá útborgunardegi þess bætt vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, en frá dregnar innborganir ásamt vöxtum á þær. Vísar hann þessu til stuðnings meðal annars til dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 og ákvæða laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara. Koma þessar málsástæður hvergi nærri málatilbúnaði hans í héraðsdómsstefnu. Enda þótt þær hafi að hluta komið fram í greinargerð stefnda fyrir Hæstarétti er með þeim algjörlega raskað grundvelli málsins, sem eftir munnlegum flutningi þess hér fyrir dómi á orðið lítið skylt við þann, sem héraðsdómur tók mið af. Af þessum sökum skortir mjög á að öllum skilyrðum 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994, sé fullnægt til þess að Hæstiréttur geti byggt á þessum nýju málsástæðum við úrlausn málsins. Þótt þær komist þannig ekki að í málinu fela þær óhjákvæmilega í sér að stefndi hefur í reynd fallið frá öllum málsástæðum varðandi útreikning kröfunnar, sem hann byggði á fyrir héraðsdómi. Málið er þannig nú í því horfi að í raun eru engar málsástæður lengur tiltækar af hendi stefnda til að byggja úrlausn þess á að því er varðar ákvörðun á fjárhæð kröfunnar. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Arion banki hf., greiði áfrýjendum, Birni Þorra Viktorssyni og Karli Georg Sigurbjörnssyni, sameiginlega samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 23. nóvember 2010.

Mál þetta var höfðað 21. október 2009 og dómtekið 27. október 2010. Stefnandi er Arion banki hf., Borgartúni 19 í Reykjavík. Stefndu eru Björn Þorri Viktorsson, Nesbala 17 á Seltjarnarnesi, og Karl Georg Sigurbjörnsson, Hrefnugötu 9 í Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér óskipt 389.163 svissneska franka ásamt dráttarvöxtum, sem nema eins árs LIBOR-vöxtum ásamt 9,75% álagi frá 10. nóvember 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.

Stefndu gera aðallega þá kröfu að þeir verði sýknaðir af kröfu stefnanda en til vara að dómurinn staðfesti að gengisbinding lánsins með þeim hætti sem gengið er út frá í málatilbúnaði stefnanda sé ólögmæt og að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð í samræmi við það þannig að stefndu verði aðeins gert að greiða höfuðstól lánsins í íslenskum krónum, auk samningsvaxta til greiðsludags. Þá krefjast stefndu þess að stefnanda verði gert að greiða málskostnað.

I

Í september 2005 sóttu stefndu ásamt Þorláki Ómari Einarssyni um lánafyrirgreiðslu hjá Sparisjóði Mýrasýslu vegna fasteignakaupa. Var lánið veitt með yfirdrætti á hlaupareikningi hjá sparisjóðnum. Í kjölfarið var gengið frá lánasamningi 20. desember sama ár milli sparisjóðsins og lántakenda.

Í umræddum lánasamningi sagði að lánið væri í svissneskum frönkum en það væri til eins árs og „að fjárhæð að jafnvirði“ 17.600.000 krónum. Um endurgreiðslu lánsins sagði að skuldina ætti að greiða að fullu með áföllnum vöxtum með einni afborgun í lok lánstímans 5. nóvember 2006. Vextir af láninu voru eins árs LIBOR-vextir að viðbættu 2,75% álagi. Með LIBOR-vöxtum (London Inter Bank Offered Rate) er átt við vexti á millibankamarkaði í London. Ef lánið yrði vanefnt átti að bæta 7% álagi við vaxtagreiðslu þannig að álagið yrði samtals 9,75%. Til tryggingar láninu var gert ráð fyrir því að gefið yrði út tryggingarbréf til lánveitanda að fjárhæð 415.000 svissneskir frankar með veði í landi og fasteignum að Káraleyni í Mosfellsbæ. Í málinu hefur komið fram að bréfið var gefið út í samræmi við efni lánssamningsins.

Í lánssamningnum var tekið fram að lántaka væri heimilt að óska eftir myntbreytingu, í fyrsta sinn að liðnu ári frá útborgun þess, þannig að eftirstöðvar lánsins miðuðust við aðra erlenda mynt eða reiknieiningu, eina eða fleiri, en nánari skilmálar þar að lútandi er að finna í lánssamningnum. Þá sagði í samningnum að lánveitanda væri heimilt við vanefnd lántaka að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við sölugengi lánveitanda á gjaldfellingardegi. Með lánssamningnum var lánveitanda veitt heimild til að skuldfæra viðskiptareikning lántaka fyrir afborgunum, vöxtum og kostnaði á gjalddaga. Þá var tekið fram að lánveitanda væri heimilt á lánstíma að framselja samninginn ásamt tryggingum til annars banka eða lánastofnunar. Loks sagði að mál út af samningnum ætti að reka hér fyrir dóminum.

Með lánssamningnum var viðauki sem fól í sér beiðni um útborgun láns. Þar kom fram sú ósk að lánið, að fjárhæð 17.600.000 krónur í svissneskum frönkum, yrði greitt með því að selja myntina fyrir íslenskar krónur og leggja andvirðið inn á hlaupareikning stefnda Björns hjá sparisjóðnum. Var lánsfjárhæðin lögð inn á þann reikning 5. janúar 2006 og nam hún 17.425.287 krónum miðað við gegnið 47,70 á svissneska frankanum. Hafði þá verið dregið frá láninu umsamið lántökugjald sem nam 3.690 svissneskum frönkum eða 1% af höfuðstól lánsins.

Samhliða undirritun lánssamningsins var undirrituð yfirlýsing þar sem lánssamningur sama efnis frá 23. nóvember 2005 hafði glatast. Var því lýst yfir af hálfu aðila að sá samningur væri úr gildi fallin með síðari samningnum. Í yfirlýsingunni sagði að lánssamningur aðila væri vegna láns að fjárhæð 17.600.000 íslenskar krónur sem tryggðar væru með veði í Káraleyni í Mosfellsbæ.

Hinn 14. nóvember 2006 var undirritaður viðauki við samninginn en með honum var ákveðið að lánið skyldi „hér eftir hljóða uppá gengistryggt lán til allt að 2 ára“ þannig að höfuðstóll yrði endurgreiddur að fullu með einni afborgun í lok lánstíma 5. nóvember 2007. Einnig var tekið fram að lántaki ætti að greiða vexti 5. nóvember árlega. Aftur var gerður viðauki við lánssamninginn 27. desember 2007, en þar var tekið fram að stefndu væru skuldarar og að lánið væri framlengt til 10. nóvember 2008. Þá sagði að lántakar hefðu greitt áfallna vexti 10. desember 2007 og næmu eftirstöðvar lánsins 369.669,32 svissneskum frönkum.

Sama dag og umsaminn lánstími rann út 10. nóvember 2008 var stefnda Birni send greiðslukvittun fyrir láninu, en þar kom fram að fjárhæðin hefði verið skuldfærð af reikningi hans hjá sparisjóðnum. Í kvittuninni var tekið fram að lánsfjárhæðin næmi 389.110,94 svissneskum frönkum sem sundurliðist í höfuðstól 369.669,32 og vexti 19.441,62. Einnig var fjárhæðin miðað við gengi tilgreind samtals 43.102.219 íslenskar krónur.

Á árinu 2008 var eigið fé Sparisjóðs Mýrasýslu komið undir lögboðin mörk og hófst því vinna við fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins í samráði við stærstu lánardrottna. Þeim aðgerðum lauk með því að Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 3. apríl 2009 um að stefnandi (þá Kaupþing banki hf.) yfirtók í einu lagi réttindi og eignir sparisjóðsins samkvæmt kaupsamningi sjóðsins og stefnanda sama dag. Þar á meðal var lánssamningur sparisjóðsins við stefndu.

Hinn 19. júní 2009 sendi stefnandi innheimtubréf til stefndu vegna lánsins. Þar kom fram að höfuðstóll lánsins að meðtöldum vöxtum og kostnaði næmi 389.163 svissneskum frönkum. Því til viðbótar kæmu dráttarvextir frá 10. nóvember 2008 að fjárhæð 57.904 svissneskir frankar. Samtals næmi skuldin því 447.067 svissneskum frönkum. Einnig var tekið fram að miðað við gengi næmi skuldin 54.492.212 íslenskum krónum.

Eftir að stefnda Birni barst innheimtubréf stefnanda ritaði hann starfsmanni bankans tölvubréf 2. júlí 2009 með ósk um að málið yrði nánar kannað. Meðfylgjandi því bréfi sendi stefndi afrit af fyrrgreindri greiðslukvittun 10. nóvember 2008. Þessu erindi stefnda var svarað með tölvubréfi lögfræðisviðs bankans 4. september sama ár. Þar kom fram að lánið hefði raunverulega ekki verið greitt á gjalddaga þótt greiðslukvittun kunni að hafa gefið það til kynna. Á gjalddaga lánsins hefði ekki verið næg innistæða inni á skuldfærslureikningi stefnda og því hefði skuldfærslan verið færð á svokallaðan skekkjureikning sparisjóðsins. Í kjölfarið hefði færslan verið leiðrétt handvirkt þannig að lánið stæði eftir ógreitt. 

II

Stefnandi reisir fjárkröfu sína á hendur stefndu á lánssamningi þeirra við Sparisjóð Mýrasýslu frá 20. desember 2005, en stefnandi hafi öðlast rétt samkvæmt þeim samningi þegar bankinn leysti til sín allar eignir sjóðsins, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 3. apríl 2009. Stefnandi vísar til þess að lánið hafi verið veitt í svissneskum frönkum, eins og glögglega komi fram í lánssamningnum og öðrum gögnum málsins, og því sé höfð uppi krafa í þeirri mynt.

Stefnandi andmælir þeim málatilbúnaði stefndu að lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að hér eigi samningsfrelsið við, enda hafi ekki verið bannað að veita lán í erlendum myntum. Í því tilliti gildi einu þótt lántakendur sjálfir hafi kosið að ráðstafa láninu til kaupa á íslenskum krónum. Tekur stefnandi fram að um hafi verið að ræða svokallað jafnvirðislán en það fyrirkomulag hafi tekið mið af óskum lántaka að lánsfjárhæðin í umsaminni mynt svaraði til andvirðis tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum miðað við gengi þegar lánið kæmi til afgreiðslu.

Stefnandi tekur fram að sú málsástæða stefndu að lánið hafi verið veitt í íslenskri mynt geti ekki leitt til sýknu, enda sé skuldin fyrir hendi þótt hún verði talin í krónum. Verði fallist á þetta hafi það ekki önnur áhrif en að krafa stefnanda verði lækkuð.

Þótt lánið hafi verið veitt í erlendri mynt bendir stefnandi á að stefndu sé heimilt í samræmi við almennar reglur að endurgreiða lánið í íslenskum krónum miðað við gengi þeirrar myntar sem lánið var tekið í þegar greiðsla er innt af hendi, enda hafi ekki verið samið á annan veg. 

Stefnandi vísar til þess að lánið sé ógreitt og því hafi engin áhrif sjálfvirk greiðslukvittun sem stefnda Birni hafi verið send fyrri mistök á gjalddaga lánsins 10. nóvember 2008. Jafnframt bendir stefnandi á að bankanum hafi ekki verið kunnugt um þessi mistök fyrr en með tölvubréfi stefnda 2. júlí 2009 og þá hafi þau verið skýrð af hálfu stefnanda með tölvubréfi 4. september sama ár. Í því sambandi tekur stefnandi fram að stefndu séu báðir hæstaréttarlögmenn með reynslu á þessu sviði og því hafi þeim með engu móti getað dulist að um mistök hafi verið að ræða.

III

Stefndu reisa aðalkröfu sína um sýknu á því að lánið hjá Sparisjóði Mýrasýslu samkvæmt samningnum 20. desember 2005 sé uppgreitt eins og staðfest hafi verið af hálfu sparisjóðsins með fyrirvaralausri greiðslukvittun 10. nóvember 2008. Með millifærslu lánveitanda og kvittun hafi lánið verði gert upp og því verði ekki höfð uppi krafa á grundvelli umrædds lánssamnings. Í þessu tilliti telja stefndu engu breyta þótt um mistök hafi verið að ræða, enda hefði þá sparisjóðnum borið að leiðrétta mistökin án tafar eftir að þau urðu ljós með tilkynningu eða afturköllun til stefndu. Það hafi ekki verið gert og því sé stefnandi bundinn af þessu uppgjöri. Hér telja stefndu heldur ekki skipta máli þótt ekki hafi verið næg innistæða á reikningnum, enda sé ekki til úrlausnar í þessu máli hvort krafa verði höfð uppi á þeim grundvelli að hlaupareikningur hafi verið yfirdreginn og standi í skuld.                 

Verði ekki fallist á framangreinda málsástæðu er sýknukrafa einnig reist á því að lánssamningurinn hafi í öndverðu einnig verið í íslenskum krónum. Af þeim sökum verði stefndu ekki krafðir um greiðslu í svissneskum frönkum. Þar fyrir utan hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn í málinu um viðskipti sín við Sparisjóð Mýrasýslu og því liggi ekkert fyrir um raunverulegt kaupverð kröfunnar. Telja stefndu nauðsynlegt með hliðsjón af sjónarmiðum um ólögmæta auðgun að lögð verði fram tæmandi gögn um þau viðskipti til að efnisdómur verði lagður á málið. Við mat á aðalkröfu stefndu er einnig bent á að lög um neytendalán, nr. 121/1994, eigi við um réttarsamband aðila, en virða beri skyldur sparisjóðsins og stefnanda í því ljósi.

Til stuðnings varakröfu vísar stefndi til ákvæða laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. laganna. Telja stefndu einsýnt að lánssamningurinn sé í íslenskum krónum, enda sé höfuðstóllinn tilgreindur í þeirri mynt og í henni hafi lánið verið afgreitt til stefndu. Jafnframt hafi verið gert ráð fyrir að lánið yrði endurgreitt í krónum, enda innlendur hlaupareikningur tilgreindur í samningnum til að skuldfæra greiðslur, auk þess sem vaxtagreiðslur hafi verið inntar af hendi í krónum og fram komi í greiðslukvittun að lánið hafi verið gert upp í krónum. Þá hafi beinlínis verið tekið fram í yfirlýsingu við undirritun lánssamningsins að lánssamningurinn muni „hér eftir hljóða uppá gengistryggt lán til allt að 2 ára“. Enn fremur hafi fjárhæðir verið tilgreindar í íslenskum krónum í innheimtubréfi 19. júní 2009. Að þessu öllu gættu líta stefndu svo á að tilvísun samningsins til svissneskra franka feli í sér verðbreytingu sem fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur fyrrgreindra laga og gildi þá einu tilgreining lánsins í svissneskum frönkum í síðari skjölum. Þá telja stefndu engu breyta þótt óskað hafi verið eftir því í viðauka við lánssamninginn að fjárhæðin yrði greidd út í krónum, enda hafi stefndu ekki átt neitt val í þeim efnum. Hér skipti heldur ekki máli hvernig lánveitandi hafi fjármagnað sig, en slík innri málefni fjármálafyrirtækja komi lántaka hreint ekkert við. Í öllu falli verði að virða vafa að þessu leyti stefndu í hag og verði þá að gæta þess að sparisjóðurinn hafi haft yfirburðastöðu gagnvart stefndu. Einnig verið ekki litið hjá því að gjaldmiðillinn hér á landi sé króna, sbr. lög nr. 22/1968, og leggja beri það til grundvallar í viðskiptum innlendra aðila nema annað leiði skýrt af samningi.

Einnig reisa stefndu varakröfu sína á því að ákvæði lánssamningsins um „jafnvirði“ 17.600.000 króna beri að túlka þannig að krafan nemi ekki hærri fjárhæð í hinni erlendu mynt en því nemur. Í þessu tilliti verði einnig að virða allan vafa stefndu í hag en í því sambandi er bent á að stefndu hafi ekki með nokkru móti verið kynnt sú fjárhagslega áhætta sem fólst óhjákvæmilega í samningnum. Jafnframt telja stefndu forsendur samningsins brostnar í ljósi þess að lánið hafi nær þrefaldast frá því það var greitt til stefndu en sparisjóðurinn ásamt öðrum fjármálafyrirtækjum beri ábyrgð á þeirri þróun og efnahagshruninu sem hér varð haustið 2008. Af sömu ástæðum verði vikið til hliðar erlendu myntviðmiði samningsins samkvæmt 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936, en í því sambandi verði að gæta þess að stefndu séu neytendur meðan lánssamningurinn hafi verið liður í atvinnustarfsemi sparisjóðsins.

Loks er varakrafa stefndu reist á sjónarmiðum um ólögmæta auðgun. Ekkert liggi fyrir um á hvaða kjörum stefnandi hafi öðlast kröfu á hendur stefndu en óeðlilegt sé að stefnandi geti hagnast í þeim viðskiptum á kostnað stefndu. Fram hafi komið að skuldir hafi í stórum stíl verið afskrifaðar í kjölfar efnahagshrunsins og slá megi því föstu að stefnandi hafi notið kjara í samræmi við það. Þetta verði að leggja til grundvallar, enda hafi stefnandi ekki leitt annað í ljós.

IV

Stefndu gera þá varakröfu að staðfest verði að gengisbinding á lánssamningi 20. desember 2005 milli stefndu og Sparisjóðs Mýrasýslu á þann veg sem miðað er við í málatilbúnaði stefnanda sé ólögmæt. Slík krafa til sjálfstæðs dóms verður ekki höfð uppi án gagnsakar, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þessari gagnkröfu stefndu verður því vísað frá dómi.

Samkvæmt viðauka 27. desember 2007 við umræddan lánssamning féll lánið allt ásamt vöxtum í gjalddaga 10. nóvember 2008 og er tilgreindur í viðaukanum skuldfærslureikningur stefnda Björns hjá Sparisjóði Mýrasýslu. Í málinu er komið fram að næg innistæða var ekki á þeim reikningi á gjalddaga lánsins og var því skuldfærslan færð sjálfkrafa á svokallaðan skekkjureikning sparisjóðsins, en hún var síðan bakfærð handvirkt. Samhliða þessu var stefnda Birni á gjalddaga lánsins send greiðslukvittun. Erla Stefánsdóttir, sem þá var starfsmaður Sparisjóðs Mýrasýslu en starfar nú hjá stefnanda, hefur lýst því fyrir dómi að þessa kvittun hefði átt að taka úr bunka kvittana vegna skuldfærðra lána þar sem næg innistæða hefði ekki verið á reikningnum. Fyrir mistök hefði kvittunin hins vegar verið send stefnda.

Þegar umrædd greiðslukvittun, sem er óundirrituð og greinilega send út sjálfvirkt á gjalddaga lánsins, barst stefnda Birni var honum ljóst, eins og hann hefur sjálfur staðfest fyrir dómi, að næg innistæða var ekki á reikningnum fyrir þeirri skuldfærslu sem greinir í kvittuninni. Jafnframt getur hér engu breytt þótt stefndi Björn hafi í aðdraganda þess að lánið féll í gjalddaga borið sig upp við sparisjóðinn með ósk um lækkun höfuðstóls, gjaldfrest eða aðra fjármögnun, enda gat hann með engu móti reiknað með að greiðslukvittunin væri viðbrögð við þeirri beiðni um fyrirgreiðslu. Þá er ekki annað komið fram í málinu en að starfsfólki sparisjóðsins og síðar stefnanda hafi fyrst orðið ljóst að stefndi fékk senda greiðslukvittun þegar hann bar kvittunina fyrir sig í tölvubréfi 2. júlí 2009. Því erindi var síðan svarað án ástæðulauss dráttar með tölvubréfi lögfræðings bankans 4. september sama ár þar sem mistökin og handvirkar leiðréttingar eru raktar lið fyrir lið með tímasettum færslum. Að öllu þessu virtu verður umrædd greiðslukvittun ekki talin hafa réttaráhrif í lögskiptum aðila og verður því krafa um sýknu á þessum grundvelli ekki tekin til greina.

                Stefnandi hefur höfðað málið til heimtu láns sem hann telur hafa verið veitt í svissneskum frönkum. Af því leiði að lánið falli ekki undir reglur um heimild til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001. Stefndu reisa hins vegar bæði aðalkröfu um sýknu og varakröfu um lækkun krafna á því að lánið hafi verið veitt í íslenskum krónum með verðtryggingu miðað við gengi svissneska frankans. Slík gengistrygging fari í bága við ófrávíkjanlega reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, sbr. dómar Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í málum nr. 92 og 153/2010.

                Í lánssamningi stefndu við Sparisjóð Mýrasýslu 20. desember 2005 segir að lánið sé í svissneskum frönkum en fjárhæð þess skuli vera „að jafnvirði“ allt að 17.600.000 krónum. Samhliða lánssamningnum var undirritaður viðauki sem hafði að geyma beiðni um útborgun lánsins, en með honum fóru lántakar þess á leit að lánsmyntin yrði greidd út í íslenskum krónum. Í kjölfarið var lánsfjárhæðinni ráðstafað til að greiða yfirdrátt á hlaupareikningi í sparisjóðunum.

Samkvæmt framansögðu var lánið eftir orðalagi lánssamningsins veitt í tilgreindri erlendri mynt, en á þessum tíma voru ekki lagðar hömlur við slíkum lánaviðskiptum, sbr. lög um gjaldeyrismál, nr. 87/1992. Fær þessu ekki breytt þótt höfuðstóll lánsins hafi ekki verið tilgreindur í hinni erlendu mynt heldur í jafnvirði hennar í íslenskum krónum við lántökuna, en slík samningsákvæði höfðu þann tilgang að festa andvirði lánsins umreiknað í krónur miðað við gengi umsaminnar myntar þegar lánið kom til afgreiðslu. Verður því ekki fallist á að tilgreining jafnvirðis í krónum talið hafi falið í sér hámark lánsfjárhæðar gagnvart hinni erlendu mynt á hverjum tíma. Hér skiptir enn fremur ekki máli þótt stefndu hafi frá upphafi ætlað að ráðstafa lánsfjárhæðinni til greiðslu á skuld í sparisjóðnum, sem var í íslenskum krónum, enda var þeim frjálst að ganga til samninga um lán í erlendri mynt. Er þess þá að gæta að vextir af þeim lánum voru á þessum tíma til muna lægri en af lánum í íslenskum krónum. Í þessu fólst hins vegar gengisáhætta fyrir þá lántaka sem fyrst og fremst störfuðu á markaði hér á landi, en það gat ekki dulist stefndu sem báðir eru starfandi hæstaréttarlögmenn og með reynslu af viðskiptum. Þá verður ekki fallist á það með stefndu að almenn þróun efnahagsmála verði virt sem brostin forsenda er haft geti áhrif á skuldbindingu þeirra og skiptir þá ekki máli þótt sú þróun hafi orðið önnur og til muna lakari en þeir gátu reiknað með. Að öllu virtu verður heldur ekki talið að efni séu til að víkja samningnum til hliðar samkvæmt 36. gr. samningalaga, auk þess sem lagasjónarmið um ólögmæta auðgun geta ekki leitt til þeirrar niðurstöðu.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður fjárkrafa stefnanda á hendur stefndu á grundvelli umrædds lánssamnings tekin til greina en ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum.

Í samræmi við lánssamning aðila krefst stefnandi dráttarvaxta sem nema eins árs LIBOR-vöxtum ásamt 9,75% álagi. Í stað dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 var aðilum heimilt að semja með þessu móti, enda væri það skuldara til hagsbóta, sbr. 2. gr. laganna. Á hinn bóginn verða slíkir vexti ekki dæmdir nema hundraðshluti þeirra sé tilgreindur í stefnu, sbr. 11. gr. laganna. Dráttarvaxtakröfu stefnanda verður því vísað frá dómi.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í dómsorði.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.   

D Ó M S O R Ð:

Vísað er frá dómi varakröfu stefndu, Björns Þorra Viktorssonar og Karls Georgs Sigurbjörnssonar, um að staðfest verði að gengisbinding á lánssamningi 20. desember 2005 milli stefndu og Sparisjóðs Mýrasýslu á þann veg sem miðað er við í málatilbúnaði stefnanda, Arion banka hf., sé ólögmæt.

Vísað er frá dómi dráttarvaxtakröfu stefnanda.

Stefndu greiði stefnanda óskipt 389.163 svissneska franka.

Stefndu greiði stefnanda óskipt 600.000 krónur í málskostnað.