Hæstiréttur íslands

Mál nr. 599/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 19. október 2010.

Nr. 599/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram vistun á viðeigandi stofnun allt til föstudagsins 12. nóvember 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að vistinni verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

      Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að úrskurðað X, kt. [...], verði gert að sæta áfram vistun á viðeigandi stofnun, allt til föstudagsins 12. nóvember 2010 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að um kl. 7.00 að morgni laugardagsins 2. október 2010, hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið kölluð að [...] í Reykjavík. Tilkynnt hafi verið um að sonur eldri hjóna sem þar búi, X, hefði ráðist á foreldra sína, A og B, þar sem þau hafi legið sofandi í rúmi sínu og veitt þeim alvarlega áverka. Þegar lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi B opnað fyrir þeim. Hinn kærði í máli þessu hafi þá verið staddur í eldhúsi íbúðarinnar og hafi verið handtekinn þar og fluttur á lögreglustöð.

Samkvæmt vitnisburðum A í málinu þá hafi hún og maður hennar B legið sofandi uppi í rúmi í herbergi sínu og vaknaði hún við að kærði, sem búi á heimilinu ásamt foreldrum sínum og yngri bróður, hafi verið að stinga skrúfjárni inn í augað á henni. Greindi hún frá því að hann hefði náð að stinga því tvisvar sinnum inn í augað en hún síðan náð að kippa skrúfjárninu úr auganu og fleygt því í burtu. Eftir að hafa hringt í lögregluna hefði hún svo farið inn í eldhús þar sem kærði hafi setið á stól og hefði hann sagt: „Þetta var fyrir Zyprexaárin“.

Samkvæmt vitnisburði B, föður kærða, hafi hann vaknað við það að hann hafi fundið stunguverk undir vinstra auga en átti sig ekki á því hvort hafi verið um að ræða eina stungu eða fleiri. Kvaðst hann hafa skynjað í svefnrofunum að það hafi verið kærði sem stóð við rúmstokkinn. Kærði hefði svo barið hann í höfuðið með hnefunum. Kvaðst hann hafi komist fram úr rúminu en þá hefði kærði ráðist aftan að honum og gripið með báðum höndum utan um líkama hans og upphandleggi og hert að. Hann hefði þá reynt að komast fram á gang. Er hann hafi komist áleiðis fram á gang hefði hann fengið þungt högg á hnakkann með þeim afleiðingum að hann hafi rotast.

Samkvæmt vitnisburði yngri bróður kærða, C, kvaðst hann hafa heyrt hljóð úr svefnherbergi foreldra sinna og dottið í hug að þau væru með martröð þar sem þau hefðu talað sundurlaust og hann hefði heyrt þau segja: „að drepa okkur“ og „er í augað“. Þegar hann hefði komið fram á ganginn hefði hann séð hvar faðir hans kom út úr svefnherberginu eins og hann væri að losa sig frá einhverjum og hnotið fram fyrir sig. Í beinu framhaldi hefði kærði komið á eftir föður þeirra út úr herberginu og sá C hvar hann hafi tekið dökkan hlut af hillu á ganginum, sem hann sá síðar að hafi verið steikarpanna, og sló henni í höfuðið á föður þeirra sem féll við það í gólfið. C hefði svo séð kærða sitjandi á stól inni í eldhúsi og það eina sem hann hafi sagt var „Þetta er fyrir Zyprexaárin“. Kvað C kærða hafa verið mjög óstöðugan undanfarið.  Hann hefði lagt á hann hendur fyrir u.þ.b. mánuði síðan. Kvaðst hann óttast bróður sinn þegar hann væri í þessum ham.

Samkvæmt fyrirliggjandi lögregluskýrslum í málinu þá hafi B hlotið heilahristing við árásina og sé hann með lítinn skurð á andliti við auga. A sé með mikla áverka á vinstra auga eftir árásina en auk þess mjög bólgin í andliti. Þá kvartaði hún undan verk í vinstri löngutöng sem hún gat ekki rétt úr. Samkvæmt upplýsingum frá lækni á slysadeild Landspítala sem raktar séu í lögregluskýrslu þá á að framkvæma aðgerð á A vegna áverka á auga, en fyrir liggi að augntóft í vinstra auga sé brotin auk þess sem A er með stunguáverka á auga, sbr. bráðabirgðavottorð frá D lækni sem liggi fyrir í málinu.

Við rannsókn lögreglu á vettvangi megi sjá nokkuð af blóði í rúmi hjónanna. Þá fannst í svefnherbergi þeirra flatt skrúfjárn með rauðu handfangi og virtist vera blóð á því. Í íbúðinni hafi fundist einnig steikarpanna sem talið sé að kærði hafi notað til að lemja föður sinn í höfuðið.

Kærði hafi lýst því yfir sakleysi sínu í yfirheyrslu hjá lögreglu en neiti að svara frekari spurningum um sakarefnið. Hann svaraði þó spurningu um hvort hann hefði verið heima þegar árásin varð. Kvaðst hann hafa verið heima en verið sofandi.

Rannsókn málsins sé á lokastigi en beðið sé eftir niðurstöðu úr formlegri geðrannsókn sem kærði sæti nú. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði E sem hafi verið falið að framkvæma geðrannsóknina virðist kærði vera haldinn geðklofa.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, frá 2. október sl., í máli nr. R-[...], hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag. Þegar u.þ.b. vika hafi verið liðin af gæsluvarðhaldinu mælti E, geðlæknir, með því að kærði yrði fluttur á Sogn og varð lögregla við því. Hefur hann verið vistaður þar síðan.

Að mati lögreglu liggi fyrir sterkur grunur um að kærði hafi ráðist að foreldrum sínum þar sem þau hafi legið sofandi í rúmi sínu, veitt móður sinni alvarlega áverka með stórhættulegri aðferð, þ.e. með því að stinga hana tvisvar sinnum með skrúfjárni í augað, auk þess sem hann reyndi að stinga föður sinn í augað og réðst á hann með því að slá hann með krepptum hnefa og með steikarpönnu í höfuðið. Um sé að ræða mjög alvarlega atlögu þar sem tilviljun ein réð því hverjar afleiðingarnar yrðu. Sé atlagan talin varða við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga og getur því varðað allt að 16 ára eða ævilöngu fangelsi. Telur lögregla brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarlegt brot sem honum sé gefið að sök.

Þessu til viðbótar sé rétt að benda á að af gögnum málsins sé ljóst að kærði hafi átt við geðrænan sjúkdóm að etja mörg undanfarin ár og í vitnisburðum fjölskyldu hans sé lýst breytingum á hegðun hans og háttalagi undanfarna mánuði. Af gögnum málsins virðist kærða ekki vera sjálfrátt gjörða sinna og sé fjölskylda hans hrædd við hann. Verði því að telja að fjölskyldu hans og öðrum geti verið hætta búin gangi hann laus. Auk þess hafi móðir kærða lýst því yfir að hún og faðir kærða treysti sér ekki til að taka kærða inn á heimilið aftur og því liggi fyrir að kærði sé heimilislaus.

Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglustjóra að bæði séu uppfyllt skilyrði til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 95. gr. laga og á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Sé það mat lögreglu að heilsufari kærða sé þannig háttað að forsendur séu til þess að í stað gæsluvarðhalds verði kærða gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008, sbr. einnig fyrirliggjandi vottorð E, geðlæknis, dags. 13. október 2010.

Eins og að framan er rakið er kærði undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga með síðari breytingum. Um er að ræða háskalega atlögu gegn öldruðum foreldrum kærða og tilviljun ein réð því  hverjar afleiðingar hennar urðu. Rannsókn málsins er enn í gangi og þar á meðal sætir kærði nú geðrannsókn. Með vísan til þess sem að framan er rakið og gagna málsins að öðru leyti verður á það fallist með lögreglustjóra að skilyrði d- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 séu uppfyllt.

Samkvæmt framansögðu verður kærða gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun til föstudagsins 12. nóvember 2010.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, kt. [...],  skal áfram sæta vistun á viðeigandi stofnun, allt til föstudagsins 12. nóvember 2010 kl. 16:00.