Hæstiréttur íslands
Mál nr. 308/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 7. maí 2015. |
|
Nr. 308/2015
|
Elliðafélagið, áhugamannafélag (Kristján Örn Elíasson fyrirsvarsmaður) gegn sýslumanninum á Vesturlandi (enginn) Landsbankanum hf. og (Arnar Þór Stefánsson hrl.) Íslandsbanka hf. (enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli E gegn S, L hf. og Í hf. var vísað frá dómi með vísan til þess að sá tímafrestur, sem fram kæmi í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, til að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu hefði verið liðinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 17. mars 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr., laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn, Landsbankinn hf., krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðilanum, Landsbankanum hf., kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Elliðafélagið, áhugamannafélag, greiði varnaraðilanum, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 17. mars 2014.
Mál þetta barst dóminum 22. janúar 2015.
Sóknaraðili er Elliðafélagið, áhugamannafélag, Seljabraut 22, Reykjavík. Varnaraðilar eru Sýslumaðurinn á Vesturlandi, Borgarbraut 2, Stykkishólmi, Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík og Íslandsbanki hf., Kirkjusandi, Reykjavík.
Kröfur sóknaraðila eru þær að uppboð sem fór fram á jörðinni Elliða, landnúmer 136203, í Snæfellsbæ, hinn 1. október 2014, verði fellt úr gildi. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 verður krafa um ógildingu nauðungarsölu á fasteign, sem ráðstafað hefur verið á uppboði, að berast héraðsdómi innan fjögurra vikna frá því að uppboðinu var lokið. Frá þessu er gerð sú eina undantekning að leita megi allt að einu úrlausnar héraðsdóms um ógildingu nauðungarsölu eftir lok þessa frests ef það er samþykkt af hendi allra sem áttu aðild að henni, sbr. 2. mgr. 80. gr. laganna. Um það er ekki að ræða í máli þessu og liggja fyrir yfirlýsingar bæði Landsbankans hf. og Sýslumannsins á Vesturlandi þar sem þeir hafna því að framangreind krafa fái efnismeðferð. Uppboði lauk sem áður segir á fasteigninni Elliða hinn 1. október 2014 og var því frestur samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 löngu liðinn þegar sóknaraðili leitaði úrlausnar héraðsdóms um gildi nauðungarsölunnar. Þegar af þessari ástæðu verður að vísa máli þessu frá héraðsdómi.
Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.