Hæstiréttur íslands
Mál nr. 100/2008
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 19. júní 2008. |
|
Nr. 100/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Árna Vigfúsi Magnússyni (Hilmar Gunnlaugsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Skaðabætur.
Á var sakfelldur fyrir þrjár líkamsárásir. Voru tvær þeirra heimfærðar undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en ein undir 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Var Á gert að sæta fangelsi í 8 mánuði og greiða skaðabætur. Með vísan til þess að Á hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi þótti rétt að fresta fullnustu sex mánaða af refsingunni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. janúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst þess aðallega að refsing hans verði felld niður en til vara að hún verði milduð og skilorðsbundin.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og reikningi skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti um ferðakostnað, auk málsvarnarlauna verjandans sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Árni Vigfús Magnússon, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 328.336 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 273.900 krónur
Dómur Héraðsdóms Austurlands 17. desember 2007.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 16. nóvember sl. að aflokinni aðalmeðferð, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 16. ágúst 2007, á hendur Árna Vigfúsi Magnússyni, kt. [...] “fyrir eftirfarandi hegningarlagabrot aðfaranótt þriðjudagsins 29. maí 2007:
1. Fyrir líkamsárás, með því að hafa, veist að [A] þar sem hann sat í vinstra aftursæti bifreiðarinnar [...] þar sem hún var á Norðfjarðarvegi skammt sunnan við Egilsstaði og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið í gegnum opna rúðu í vinstri afturhurð.
2. Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, utandyra við Fífubarð 4, Eskifirði, skömmu eftir líkamsárás þá sem lýst er í 1. tölulið, veist að [B] og slegið hann með golfkylfu í hægri öxl með þeim afleiðingum að hann hlaut rispu og mar á hægri öxl og mar upp eftir efri hluta framhandleggs og mar, skrapsár og bólgur yfir miðju viðbeini.
3. Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, á sama stað og tíma og getið er um í 2. tölulið, veist að ofangreindum [A] og slegið hann nokkur högg með golfkylfu í höfuðið, fyrst með kylfuhaus en eftir að hausinn brotnaði af með skefti kylfunnar. Við þetta hlaut [A] mar og eymsli hægra megin á hálsi, mar á stóru svæði á vinstra gagnauga, heilablæðingu yfir vinstra gagnaugasvæði, mar á heila vinstra megin og gat á hljóðhimnu vinstra megin.
Telst háttsemi ákærða samkvæmt 1. tölulið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, en samkvæmt 2. og 3. tölulið við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakröfur:
Af hálfu [A] kennitala [...] er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta að fjárhæð kr. 1.112.259, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 29. maí 2007 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.
Af hálfu [B], kennitala [...] er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 300.000, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 29. maí 2007 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.”
Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin. Þá er þess krafist að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Loks er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði.
II.
Málavextir
Í frumskýrslu lögreglu, dagsettri 30. maí 2007, segir að tilkynning hafi borist frá fjarskiptamiðstöð klukkan 05.17 umrædda nótt um að maður væri við Fífubarð 4 og væri búinn að slá einn mann með golfkylfu. Sagt hafi verið að maðurinn væri óður og gerði sig líklegan til að berja á fleirum sem þarna væru. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi A setið aftan við bifreið sína [...], sem staðið hafi sunnan við [...]. C hafi staðið hjá A og verið að hlúa að honum. Aðrir hafi ekki verið á vettvangi. Á steyptum vegg við götuna hafi legið brotin golfkylfa, driver 3 15°, af gerðinni Crane sport. C hafi tjáð þeim að maður ofan af Héraði hefði lamið A með henni í höfuðið. Maðurinn hefði komið á svörtum Chevroletbíl með skráningarnúmerinu [...] og farið skömmu áður en lögregla kom á staðinn. Haft hafi verið samband við bakvakt lögreglunnar á Héraði og hún beðin um aðstoð við að hafa uppi á meintum árásarmanni. Lögregla hafi síðan fundið bifreiðina, mannlausa, við [...] í Fellabæ.
Í skýrslunni segir að reynt hafi verið að ræða við A um atburðinn, en hann hafi verið töluvert ölvaður og vankaður eftir höggið og frásögn hans því samhengislaus. A hafi samt munað eftir því að hafa verið á Egilsstöðum um nóttina ásamt B og C, sem hafi verið ökumaður bifreiðarinnar. Þar hafi þeir hitt gamla kærustu A, sem heiti D, og fengið hana með sér á rúntinn. Þeir hafi ákveðið að stríða henni svolítið og sagt henni að nú færu þeir með hana til Eskifjarðar. Þeir hafi síðan ekið áleiðis upp á Fagradal og á leiðinni hafi D hringt í einhvern strák. Þeir hafi þá snúið við og mætt þeim sem D hafði hringt í og hún farið yfir í bílinn til hans. Umræddur strákur hafi síðan komið yfir að bifreiðinni þeirra og sagt við A að hann ætti að biðja D afsökunar á þessu. Hafi A þá hlegið að honum. Strákurinn hafi því næst slegið hann föstu hnefahöggi í andlitið. Hafi A sagt að hann hefði ekki gert neitt frekar í þessu og haldið að þetta væri búið. Þeir félagar hafi síðan farið til Eskifjarðar og farið í golf inni á golfvelli og verið þar nokkra stund. Þeir hafi síðan farið heim og verið að taka dót úr farangursgeymslu bifreiðarinnar þegar strákurinn frá Héraði hafi allt í einu komið á svörtum bíl. Hafi hann snarast að þeim, tekið eina golfkylfuna og farið að berja á þeim með henni. Hafi hann, A, fengið eitt högg í höfuðið eftir að hafa neitað í annað sinn að biðja D fyrirgefningar. Aðspurður hafi A sagt að B hafi verið farinn inn að sofa þar sem hann hefði verið ofurölvi og því hefði hann ekki verið á staðnum þegar lætin byrjuðu.
Í lögregluskýrslunni segir að farið hafi verið með A á heilsugæslustöð þar sem hann hafi verið skoðaður af lækni. Eftir þá skoðun hafi læknirinn sent A á sjúkrahúsið á Neskaupstað með sjúkrabifreið þar sem hann hafi talið að höfuðmeiðsl hans gætu verið hættuleg.
Í skýrslunni kemur fram að einnig hafi verið rætt við C. Hann hafi tjáð þeim að hann hefði verið ökumaður bifreiðar A um nóttina. Þeir hafi farið til Egilsstaða og rúntað um. Þeir A og B hafi verið töluvert ölvaðir, en þeir hafi drukkið einn kassa af bjór, auk þess sem þeir hafi drukkið nokkuð marga Tópas-snafsa. Hann lýsti atburðarás með svipuðum hætti og A, þ.e. að þeir hefðu tekið fyrrverandi kærustu A upp í bílinn, ekið með hana upp á Fagradal en síðan snúið við. Hann lýsti því síðan hvernig einhver strákur hefði komið á móti þeim, tekið D upp í bílinn og síðan slegið A í andlitið. Hvað varðar atvik þau sem átt hafi sér stað við Fífubarð 4 á Eskifirði hafi C sagt að þegar þangað hafi komið að aflokinni ferð á golfvöllinn hafi hann setið í bifreiðinni á meðan A og B hafi farið út til að ná í eitthvað í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Hafi hann heyrt einhver læti aftan við bifreiðina og farið út. Hafi B þá verið farinn eitthvað en strákurinn af Héraði kominn á staðinn á svörtum Chevrolet. Hafi hann verið með golfkylfu í hendinni og slegið henni frá sér. Hafi hann slegið A í höfuðið. Hausinn á kylfunni hafi brotnað af og hafi strákurinn haldið áfram að berja í kringum sig með skaftinu. Strákurinn hafi síðan farið að bifreið sinni, kastað frá sér skaftinu og ekið af stað. Hafi hann, þ.e. C, þá verið búinn að kalla eftir aðstoð. C hafi ekki vitað hver árásarmaðurinn væri, annað en það að hann væri ofan af Héraði.
Að lokum var rætt við B. Hafi hann tjáð lögreglu að hann myndi lítið eftir ferð þeirra félaga til Egilsstaða. Þeir A hafi verið á fylleríi á bifreið A og C verið bílstjóri. Hafi B sagt að hann myndi eftir að þeir hafi tekið stelpu upp í bílinn á Egilsstöðum og rúntað með hana um stund. Hann hafi haldið að þeir hefðu síðan ekið henni heim. Hann hafi sagt að hann myndi ekki eftir því að einhver strákur hefði komið að bifreiðinni og slegið A í andlitið. Eftir að hafa skilað stelpunni hafi þeir farið til Eskifjarðar og farið í golf á golfvellinum. Þar hafi þeir verið í nokkra stund og síðan farið að heimili A. Hann og A hafi staðið aftan við bifreiðina og A verið að ná í bjór í skottið. Hann hafi tekið eina golfkylfuna úr skottinu og verið að skoða hana þegar einhver strákur hefði komið aftan að honum, rifið af honum kylfuna og slegið hann fast með henni í hægri öxlina. Næst hafi strákurinn snúið sér að A og farið að rífast við hann. Hann hafi séð að þarna væru aðstæður komnar út í einhverja vitleysu og því hafi hann hringt í bróður sinn og beðið hann um að sækja sig. Þegar hann hafi farið með bróður sínum hafi strákurinn og A enn verið að rífast. B hafi sagt að hann þekkti ekki árásarmanninn.
Meðal gagna málsins er áverkavottorð Hannesar Sigmarssonar læknis, dagsett 15. júní 2007, vegna B. Þar segir eftirfarandi:
“Það vottast hér með að B leitaði hingað á heilsugæslustöðina þann 29.05.´07 eftir að hafa verið sleginn í öxlina hægra megin með golfkylfu. Átti hann erfitt með að abductera þ.e. lyfta upp griplimnum hægra megin og einnig að rétta úr öxlinni og einnig að beygja hana. Smá rispa var og smá mar framan á öxlinni og upp eftir efri hluta upphandleggs. Einnig var smá mar og skrap og verkir og bólga á miðclavicular þ.e. yfir miðju viðbeini. Röntgen framan og í axial stefnu sýnir að hann var óbrotinn. Það vottast hér með að ekki fannst neitt brot, en um mar og síðkomna áverka getur verið að ræða og því ráðlagt endurmat.”
Einnig liggur fyrir áverkavottorð Kristins B. Jóhannssonar læknis, dagsett 25. maí 2007 (svo), vegna A. Þar segir eftirfarandi:
“Sjúkdómsgreiningar:
Mar á höfuðkúpu og heila S06.2
Gat á hljóðhimnu H72
A var í gleðskap aðfaranótt 29.05.07. Undir morguninn var sjúklingur laminn með golfkylfu vinstra megin í höfuðið og einnig á háls hægra megin. Höggið var það mikið að kylfan brotnaði.
Við komu hér er sjúklingur með eymsli og mar hægra megin á hálsi. Einnig er hann marinn á vinstra gagnauga á stóru svæði. Taugaskoðun var eðlileg, eins vel og hægt var að gera hana. Tekin var sneiðmynd af heila og í ljós kom að sjúklingur var með blæðingu yfir vinstra gagnaugasvæði. Einnig er hann með mar á heila vinstra megin á 2 cm afmörkuðu svæði. Sjúklingur var hafður hér til eftirlits þangað til 30.05. og hann var þá kominn með góða fótavist. Kvartar um eymsli í vinstra eyra, eyrað er athugað aftur og kemur í ljós að sjúklingur er með gat á vinstri hljóðhimnu. Hann er ennþá illa marinn á vinstra gagnauga og kennir til undir vinstra kjálkabarði þegar hann kyngir, einnig er hann með eymsli á hálsi. Ekki er þörf á að halda sjúklingi lengur inni á spítala, hann er kominn með góða fótavist, hann er hitalaus. Hann er útskrifaður og við munum fylgjast með honum utan spítala og sjá hann aftur 01. júní.”
Meðal gagna málsins eru ljósmyndir af golfkylfu þeirri sem haldlögð var á vettvangi og ljósmyndir af áverkum B.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og eftir atvikum hjá lögreglu.
Ákærði viðurkenndi að hafa haft í frammi háttsemi þá sem greinir í ákærulið 1, þ.e. að hafa slegið A með krepptum hnefa í andlitið. Hann kvaðst hins vegar neita sök að því er varðaði ákæruliði 2 og 3. Þá sagðist hann hafna framkomnum bótakröfum A og B eins og þær væru fram settar.
Ákærði sagðist hafa vaknað við hringingu frá D umrædda nótt og að hún hefði tjáð honum að þrír strákar væru að fara með sig á Eskifjörð. Hefði hún virst vera hrædd og beðið hann um að ná í sig. Hún hefði ekki náð að segja honum hvar hún væri þar sem síminn hefði dottið út. Sagðist ákærði vera ókunnugur hér fyrir austan og hafa þurft að átta sig á því á korti hvar Eskifjörður væri. Hann hefði síðan ekið upp á Fagradal og mætt bifreiðinni, sem D var í. Hann hefði því snúið við og séð bifreiðina stöðvast og D koma út úr henni nánast á ferð. Hann sagðist hafa stöðvað sína bifreið fyrir framan hina bifreiðina og hefði D komið hlaupandi til hans. Hann hefði sagt henni að fara inn í bílinn og síðan gengið að hinni bifreiðinni. Ein bílrúða á bifreiðinni hefði verið opin, þ.e. aftur í vinstra megin, og sagðist hann hafa rætt við strákinn, sem þar hefði setið. Sagðist hann hafa beðið hann um að biðja D afsökunar á þessu, en strákurinn hefði aðeins hlegið að honum og sagðist ákærði þá hafa kýlt hann einu sinni. Að svo búnu hefði hann ekið D heim.
Eftir það hefði hann tekið bensín og ekið niður á Eskifjörð til að ræða við strákana í bílnum. Þegar hann hefði verið kominn nokkuð út fyrir Reyðarfjörð hefði D hringt í hann og sagt honum að hún gæti ekki sofnað þar sem hún væri alveg í sjokki. Hann hefði náð að róa hana og þau hefðu síðan kvaðst í símanum. Hann sagðist síðan hafa fundið heimili A á Eskifirði og mætt bifreið þeirra félaga. Sagðist hann því hafa snúið við og lagt fyrir aftan bifreið A við steinvegginn. Sagðist hann síðan hafa setið í bílnum og fylgst með því þegar B og C hefðu farið út úr bílnum og gengið aftur fyrir hann. Sagðist hann hafa beðið í bílnum og séð að þeir fóru í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Sagðist hann hafa fyllst skelfingu við það og óttast að eitthvað væri í uppsiglingu. Sagðist hann hafa beðið í bílnum með opna bílrúðuna og hefði B þá komið á móti honum með golfkylfu, svokallaðan driver, í hendinni og staðið fyrir utan bílinn hjá honum og mundað kylfuna. B hefði spurt hann að því hvern fjandann hann væri að gera þarna. Sagðist hann þá hafa opnað hurðina með vinstri hendinni, stigið út úr bílnum, teygt sig út og gripið um kylfuna með hægri hendi og tekið hana af honum. Í beinu framhaldi hefði hann síðan slegið B í öxlina með kylfunni yfir bílhurðina. Hann sagðist ekki hafa slegið af öllu afli. Við höggið hefði kylfuhausinn brotnað af. B hefði síðan hlaupið í burtu og horfið af vettvangi.
Ákærði sagði að A hefði verið að fara í skottið og sagðist hann hafa heyrt að hann rótaði í golfkylfutösku. Sagðist hann hafa álitið að nú stefndi í illt efni. Sagðist hann því hafa gengið aftan að honum og slegið hann í höfuðið hægra megin. Nánar aðspurður sagði hann að A hefði snúið baki í sig þegar hann hefði slegið hann. Sagðist hann síðan hafa bakkað og A komið á móti honum með golfkylfu. Sagðist ákærði hafa öskrað á hann að hringja í D og biðja hana afsökunar. Hann sagði að A hefði haldið golfkylfunni á lofti og ógnað sér með henni og sagðist hann hafa hörfað undan A aftur fyrir bílinn og að steinveggnum og síðan fram fyrir bíl A. Sagðist hann hafa orðið hræddur þar sem hann hafi verið orðinn innikróaður og því farið að ógna A líka. A hefði þá farið að bakka og þegar þeir hefðu verið komnir á milli bílanna hefði A reynt að slá hann með kylfunni en ekki hitt þar sem hann hefði verið mjög drukkinn. Inn á milli hefði hann náð að slá A í höfuðið. Að meðtöldu fyrsta högginu hefði hann slegið A fjórum sinnum í höfuðið. Höggin hefðu öll lent frá öxl og upp úr, vinstra megin, fyrir utan fyrsta höggið, sem hefði lent hægra megin. Sagðist ákærði hafa haldið um þann enda kylfunnar þar sem hausinn hafði brotnað af henni og hefði A því fengið skeftið í sig. Ákærði sagðist áður hafa orðið fyrir líkamsárás og því hefði hann verið mjög hræddur við þessar kringumstæður. Hann sagði að A hefði sagt sér að vera rólegur. Eftir nokkra stund hefði A lagt golfkylfuna frá sér og þá hefði hann sjálfur slakað á og sagt A að fara inn. C hefði síðan komið og tekið golfkylfuna, en ákærði sagðist hafa sagt honum að láta hana vera. C hefði því lagt kylfuna frá sér. Hann sagði að þeir hefðu beðið hann um að leggja golfkylfuna frá sér einnig, en hann sagt þeim að hann myndi ekki gera það fyrr en þeir færu inn. A hefði síðan farið inn og C farið af vettvangi. Sagðist hann þá hafa farið inn í bílinn, hent kylfunni frá sér og ekið í burt.
Ákærði sagðist vera vinur D. Hann sagðist ekkert hafa þekkt til A, B eða C áður en atvik málsins gerðust. Hann sagðist þó hafa vitað að A væri gamall kærasti D. Hann sagðist hafa verið edrú þegar atvik málsins gerðust. Aðspurður sagði hann að afstöðumynd C á skjali merktu IV-2 væri rétt, en ekki afstöðumynd A á skjali IV-3. Ákærði var spurður að því af hverju hann hefði ekki ekið í burtu fyrst hann varð svona hræddur við að sjá A og félaga fara í skottið á bifreiðinni. Sagði ákærði þá að hann hefði frosið og ekki hugsað út í það. Þá var hann spurður að því hvers vegna hann hefði slegið B með kylfunni eftir að hann hafði náð henni af honum. Svaraði ákærði því svo til að hann hefði orðið mjög hræddur og ekki vitað hvað væri að gerast þar sem hann hefði aldrei lent í slíkum kringumstæðum áður. Hann neitaði því hins vegar að B hefði ógnað sér eftir að hann náði kylfunni af honum. Þegar hann hugsaði til baka sæi hann að hið rétta í stöðunni hefði verið að yfirgefa svæðið. Hann sagði að það væri rangt hjá A og C að A hefði aldrei slegið til hans.
Ákærði sagðist iðrast gjörða sinna og dauðsjá eftir því að hafa meitt þá A og B. Sér hefði t.d. brugðið mjög þegar hann hefði frétt að A hefði þurft að fara á sjúkrahús. Hann sagðist ekki geta skýrt það hvers vegna hann missti svona stjórn á sér þarna, en hann hefði orðið mjög hræddur og að í sér sæti fyrri reynsla af því að hafa orðið fyrir líkamsárás.
Ákærði vildi ekkert tjá sig um sakarefnið hjá lögreglu.
A sagðist hafa verið á rúntinum með B og C og hefði C verið bílstjóri en þeir B að drekka áfengi. D hefði komið með þeim á rúntinn og hefðu þeir ákveðið að stríða henni aðeins og þóst ætla að taka hana með sér niður á Eskifjörð. Það hefði hins vegar aldrei staðið til í raun. Þeir hefðu ekið í átt til Eskifjarðar en snúið við skammt frá Egilsstöðum. D hefði þá verið búin að senda ákærða SMS og beðið hann um að sækja sig þar sem henni hefði greinilega ekkert litist á þetta. Á leiðinni til baka hefðu þeir mætt bifreið ákærða við bæjarmörkin og hefði C stöðvað bifreiðina og hleypt D út. D hefði kvatt þá og farið yfir í bíl ákærða. Hann sagði að D hefði verið svolítið pirruð á þeim. Ákærði hefði síðan komið til þeirra og spurt hann að því hver hefði staðið að þessu eða eitthvað í þá áttina. Hann hefði þá sagt “ég” og hefði ákærði þá kýlt hann vinstra megin í andlitið. Hann sagðist ekki muna eftir að hafa hlegið að ákærða áður en ákærði sló hann.
Þeir hefðu síðan farið niður á Eskifjörð. Þegar þeir hefðu verið komnir heim til hans hefði B farið út og ætlað að ná sér í bjór í farangursgeymsluna. Áður hefði hann verið búinn að sjá bifreið renna upp að þeim. Í farangursgeymslunni hefði verið golfsett og hefði B verið að skoða eina kylfuna. Sagðist hann hafa séð B ganga á móti ákærða. Þegar hann hefði síðan farið út úr bílnum hefði hann séð B ganga í burtu og ákærða með kylfu í hendinni. Hefði ákærði gengið að honum með kylfuna öskrandi og hann því næst fengið högg í andlitið. Sagðist hann hafa sagt ákærða að hætta en þá hefðu höggin dunið á honum. Sagðist hann hafa hörfað undan ákærða og beðið hann um að hætta, en ákærði hefði ekki tekið neinum sönsum. Hann hefði því náð sér sjálfur í kylfu og sagt ákærða að ef hann kæmi nær myndi hann fá sömu meðferð. Sagðist hann hafa sveiflað kylfunni í áttina að ákærða, en staðið nokkuð frá honum. Hann sagðist hins vegar hafa verið hálfvankaður vegna högganna og einnig vegna ölvunar og hefði hann varla getað haldið á kylfunni. Hann hefði því ákveðið að sleppa kylfunni og spurt ákærða hvort hann væri ekki til í að sleppa sinni kylfu líka. Ákærði hefði beðið hann um að hringja í D en hann hefði ekki verið með símann á sér og því ekki getað það. Því næst hefði ákærði rekið sig inn í húsið og sagðist hann hafa bakkað og farið inn í húsið. Hann sagðist hafa fengið þrjú högg í höfuðið og eitt á háls hægra megin. Hann sagðist sérstaklega muna eftir einu högginu, sem hefði komið ofarlega á hann, en hann hefði verið með suð í eyranu á eftir. Hefði ákærði stoppað aðeins eftir það. Hann sagði að ákærði hefði ekki slegið sig eftir að hann lagði frá sér golfkylfuna. Hann sagði að ákærði hefði slegið sig a.m.k. tvisvar sinnum áður en hann tók sér sjálfur golfkylfu í hönd. Eftir að hann var kominn með kylfu í hendurnar hefði hann fengið eitt högg í eyrað og þá hefði ákærði stoppað aðeins. Hefði hann þá ákveðið að leggja frá sér kylfuna og beðið ákærða um að gera það sama.
Aðspurður sagðist hann ekki hafa séð ákærða slá B þar sem hann hefði ekki verið kominn út úr bílnum. Hann sagði að C hefði endað á því að hringja í lögreglu og hefði lögreglan komið á staðinn skömmu eftir að þessu lauk. Aðspurður sagðist hann ekki muna eftir því hvort hausinn var á golfkylfunni en sennilega hefði svo ekki verið.
Aðspurður sagðist hann ekki kannast við að ákærði hefði slegið hann á meðan hann hefði verið að bogra ofan í skottið og snúið baki í ákærða. Þá sagðist hann ekki kannast við að samskipti þeirra hafi byrjað á því að hann ógnaði ákærða með golfkylfu. Aðspurður sagðist hann ekki hafa séð ákærða ógna C en þeir hefðu hins vegar skipst á orðum. Þeir C hefðu ekki ögrað ákærða á nokkurn hátt. Hann sagðist enga skýringu hafa á háttsemi ákærða og sagðist hann hafa haldið að samskiptum þeirra hefði lokið með því að ákærði gaf honum á kjaftinn fyrr um nóttina. Sagðist hann alls ekki hafa átt von á að ákærði birtist þarna heima hjá honum.
Aðspurður um afleiðingar árásarinnar sagðist hann hafa fengið gat á hljóðhimnuna og mar á heila. Þá hefði hann verið sljór í nokkurn tíma á eftir og með höfuðverk. Einnig hefði hann verið aumur í kjálkanum og hálsinum og verið rámur og þreyttur í nokkurn tíma á eftir. Sagðist hann hafa legið í sólarhring á sjúkrahúsi og verið ráðlagt að taka því rólega fyrst í stað. Hann sagðist hafa sleppt úr tveimur vikutúrum á sjó að læknisráði. Aðspurður sagðist hann nú hafa náð sér að fullu af meiðslunum.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 1. júní 2007 sem er í samræmi við framangreint í öllum meginatriðum.
B sagði að þeir félagar hefðu farið upp á Egilsstaði og boðið D, sem væri fyrrverandi kærasta A, á rúntinn. Eftir þetta væri minni sitt mjög gloppótt þar sem hann hefði verið mjög drukkinn og sagðist hann t.d. ekki muna eftir samskiptum ákærða og A eða þegar ákærði hefði kýlt A í bílnum. Þeir hefðu því næst ekið niður á Eskifjörð og farið þar í golf. Síðan hefðu þeir farið heim til A og sagðist hann muna eftir að hafa opnað farangursgeymsluna á bílnum og náð þar í golfkylfu. Sagðist hann hafa ætlað að skoða golfkylfuna þar sem hann hefði haft áhyggjur af því að hún hefði skemmst við golfiðkun þeirra félaga. Í sama mund hefði ákærða borið að garði á svörtum bíl. Vegna þess hversu drukkinn hann var sagðist hann lítið muna eftir hvað gerðist annað en það að ákærði hefði barið hann í hægri öxlina með kylfunni. Um leið hefði hausinn dottið af kylfunni. Sagðist hann vita að hausinn hefði dottið af kylfunni þar sem A hefði sagt sér að ákærði hefði barið hann með kylfunni án haussins. Eftir höggið sagðist hann hafa farið í burtu og hringt í bróður sinn og beðið hann um að sækja sig. Sérstaklega aðspurður sagðist hann ekki muna eftir því að hafa ógnað ákærða með golfkylfunni. Sagðist hann hafa haldið á kylfunni vegna þess að hann hefði ætlað að skoða hana og sagðist hann ekki minnast þess að hafa ætlað að berja ákærða með henni.
Aðspurður um afleiðingar árásarinnar sagðist hann hafa fundið til í öxlinni á eftir og allur verið marinn. Þá hefði hann misst af einum túr á sjó vegna meiðslanna.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 1. júní 2007 sem er í samræmi við ofangreint í öllum meginatriðum.
C sagði að A hefði hringt í D og spurt hana að því hvort hún vildi koma á rúntinn með þeim. Hún hefði samþykkt það og þau hefðu rúntað um bæinn í smátíma. Strákarnir hefðu síðan viljað stríða henni aðeins og láta eins og þeir ætluðu að taka hana með sér niður á Eskifjörð. Þegar þeir hefðu verið komnir að afleggjaranum niður í Mjóafjörð hefðu þeir hins vegar snúið við. D hefði þá verið búin að hringja í ákærða og biðja hann um að ná í sig. Þeir hefðu verið komnir alveg að Egilsstöðum þegar þeir hefðu mætt honum og hann stöðvað bílinn og D farið yfir í bílinn til ákærða. Hann sagði að D hefði bara verið fúl en ekki skelfingu lostin. Aldrei hefði staðið til að fara með hana alla leið niður á Eskifjörð. Eftir að hafa hleypt D út úr bílnum hefði ákærði stigið út úr sínum bíl og gengið að bílnum þeirra. A hefði skrúfað niður rúðuna til að tala við ákærða. Hann sagðist ekki muna eftir að ákærði segði neitt en sagðist hafa séð hann lemja einu sinni í andlitið á A.
Þessu næst hefðu þeir farið aftur niður á Eskifjörð og farið fyrst niður á golfvöll. Hvorki A né B hefðu verið í ástandi til að spila golf og því hefðu þeir setið inni í bíl en hann sjálfur slegið nokkur högg. Því næst hefðu þeir farið heim að Fífubarði 4 og hann lagt bílnum þar fyrir utan. Ákærði hefði komið skömmu síðar og lagt bílnum sínum fyrir aftan þeirra bíl. Sagðist vitnið hafa farið út úr bílnum og opnað farangursgeymsluna til að ná í bjór handa strákunum. Hann hefði síðan farið aftur inn í bíl til að ná í dótið sitt og þegar hann hefði komið aftur út úr bílnum hefði B verið að brölta yfir vegginn hjá Fífubarði 5 og sagðist hann hafa haldið að hann ætlaði inn til A. Ákærði hefði þá verið með golfkylfuna í hendinni á eftir A og hefði hausinn verið farinn af kylfunni og legið á jörðinni. Hefðu þeir staðið andspænis hvor öðrum og A hörfað undan ákærða. Hann sagði að ákærði hefði slegið A með kylfunni og í áttina að honum. Hefði A varið sig með höndunum. Þegar þeir hefðu komið fram fyrir bílinn hefði ákærði stoppað og beðið A um að hringja í D og biðjast afsökunar. A hefði hins vegar ekki verið með símann sinn og hann ekki með númerið hjá D og því hefðu þeir ekki getað hringt í hana. Ákærði hefði síðan haldið áfram að rífast við þá og slá frá sér með kylfunni. Hann sagði að A hefði ekki verið kominn með kylfu í hendurnar á þessum tíma. Þegar A hefði verið orðinn þreyttur á barsmíðunum hefði hann farið í skottið og náð í golfkylfu til að verja sig. Hann hefði hins vegar verið of drukkinn til þess og því hefðu höggin frá honum verið mjög máttlaus. Fljótlega eftir það hefði hann sleppt kylfunni og beðið ákærða um að hætta þessu og fara. Þeir hefðu síðan haldið aðeins áfram að rífast. Vitnið sagðist þá einnig hafa gripið til kylfu til að athuga hvort áhugi ákærða á átökunum myndi ekki minnka við það. Sagðist hann aðeins hafa haldið á kylfunni en ekki ógnað ákærða með henni. Ákærði hefði þá hótað honum barsmíðum ef hann sleppti ekki kylfunni. A hefði þá beðið sig um að sleppa kylfunni og hefði hann gert það. Ákærði hefði þá sagt að hann myndi ekki fara nema A færi inn til sín og vitnið færi í burtu. Á endanum hefði A farið inn til sín og ákærði farið inn í bílinn með kylfuna í höndunum, sleppt henni og síðan ekið í burtu. Í millitíðinni sagðist vitnið hafa farið inn og hringt í lögreglu.
Aðspurður sagðist hann hafa séð ákærða slá A a.m.k. fjórum höggum. A hefði fengið högg á hendur og a.m.k. eitt í háls og einhver högg í átt að höfði. Þá hefði ákærði ógnað A með kylfunni með því að slá vindhögg. Hann sagði að ákærði hefði haldið um handfangið á kylfunni. Á meðan hefði A reynt að tala við ákærða og spurt hann að því hvað hann vildi að hann gerði. Ákærði hefði þá sagt að hann vildi að hann hringdi í D og bæðist afsökunar. Hann sagði að A hefði verið rauður á hálsi, aumur í hendinni og með höfuðverk eftir árásina. Eftir að ákærði fór hefði hann athugað með ástandið á A og þeir beðið eftir lögreglunni. Hann sagði að A hefði sest niður, enda hefði hann verið drukkinn og með verki eftir árásina. Aðspurður sagði hann að A hefði orðið fyrir um fjórum til sjö höggum áður en A hefði tekið sér golfkylfu í hönd. Sagðist hann hafa séð A sveifla kylfunni í því skyni að fá ákærða til að fara. Hann sagðist ekki muna hvort ákærði hefði slegið A eftir að hann sleppti kylfunni. Hann sagði að A væri vinur sinn en B væri félagi sinn.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 30. maí 2007 sem er í samræmi við ofangreint í öllum meginatriðum.
D sagðist hafa vaknað við símtal frá A umrædda nótt og að hann hefði beðið hana um að koma með sér til Eskifjarðar. Sagðist hún hafa neitað því þar sem það hefði verið mánudagur og hún viljað sofa. A hefði þá sagt að ef hún kæmi ekki með sér myndi hann vekja alla í húsinu með því að berja á gluggana. Hún sagðist því hafa samið við hann um að fara með honum einn rúnt um Egilsstaði ef hann léti það vera. Hún sagðist síðan hafa farið með honum og félögum hans á rúntinn og það hefði verið allt í lagi þar til þeir hefðu farið að aka í áttina til Eskifjarðar. Hún hefði orðið mjög reið og sagt þeim að snúa við, en þeir hefðu neitað því og haldið henni þannig að hún gæti ekki opnað bílhurðina. Hún sagði að þeir hefðu verið dauðadrukknir og B hefði t.d. verið mjög dónalegur við sig. Hún sagðist því ekkert hafa vitað hvert þeir ætluðu með hana og hvað þeir ætluðu að gera. Aðspurð sagði hún að bílstjórinn hefði verið edrú en ekkert hlustað á hana þegar hún hefði beðið hann um að stöðva bifreiðina. Sagðist hún hafa brugðið á það ráð að hringja í ákærða og segja honum að það væri verið að ræna henni eða svipta hana frelsi sínu og um leið hefði símasambandið rofnað. Sagðist hún hafa sagt A og félögum að ákærði væri á leiðinni að ná í hana og þá hefðu þeir snúið við og ekið í átt til Egilsstaða. Þau hefðu síðan mætt ákærða skammt frá Egilsstöðum og sagðist hún hafa sagt þeim að stöðva bifreiðina og hleypa sér yfir í bíl ákærða. Það hefðu þeir gert og hún flýtt sér út úr bílnum og yfir í bíl ákærða. Hún sagðist hafa séð að ákærði fór og talaði við strákana í bílnum en sjálf sagðist hún hafa setið inni í bíl ákærða. Á leiðinni heim hefði hún sagt ákærða frá því sem gerðist og hvað hún hefði orðið hrædd. Aðspurð sagðist hún muna eftir að hafa hringt í ákærða síðar um nóttina, sennilega um fimmleytið. Sagðist hún hafa sagt ákærða að hún væri hrædd og sjokkeruð yfir þessu og að hún gæti ekki sofnað. Þau hefðu síðan spjallað meira saman og síðan kvaðst. Aðspurð sagðist hún ekki hafa beðið ákærða um að bregðast við þessu athæfi drengjanna fyrir sína hönd.
E sagðist hafa átt heima að Fífubarði 3 á þeim tíma sem um ræðir. Hún sagðist hafa vaknað upp um nóttina við hávaða og séð ákærða með kylfu í höndunum og á tali við A. Sagðist hún hafa heyrt að A var að reyna að róa ákærða og biðja hann um að hætta þessu. Sagðist hún hafa séð áverka á A, þ.e. hann hefði verið orðinn rauður. Ákærði hefði síðan hætt þessu og farið upp í bíl og ekið í burtu. Hún sagðist ekki hafa séð ákærða slá A eða sveifla kylfunni, en hann hefði þó verið svolítið ógnandi. Hún sagðist halda að þetta hefði verið nánast yfirstaðið þegar hún hefði litið út, en hún hefði fylgst með þessu í u.þ.b. þrjár mínútur. Hún sagði að sér hefði ekki litist á blikuna og hringt í lögreglustöðina á Eskifirði en þar hefði enginn svarað. Skömmu síðar hefði lögreglan komið á vettvang. Hún sagði að um leið og ákærði hefði farið í burtu hefði A sest niður og greinilegt hefði verið að hann hafði orðið fyrir árás.
III.
Niðurstaða.
Ákæruliður 1.
Með játningu ákærða, sem er í samræmi við framburð vitnanna A og C, þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem greinir í ákærulið 1 og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákæruliður 2.
Með játningu ákærða, sem er í samræmi við framburð vitnisins B og framlagt læknisvottorð, dagsett 15. júní 2007, þykir sannað að ákærði hafi í greint sinn veist að B og slegið hann með golfkylfu í hægri öxl með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir.
Brotaþoli kveðst ekki muna hvað gerðist áður en högg ákærða reið af. Ákærði hefur sjálfur lýst því að hann hafi setið í bifreið sinni og fylgst með brotaþola og félögum hans fara í farangursgeymslu bifreiðar þeirra og við það hefði hann fyllst skelfingu. Samt sem áður hefði hann beðið í bílnum og síðan séð brotaþola koma á móti sér með golfkylfu í hendinni. Hann hefði þá opnað bílhurðina, stigið út úr bílnum og um leið gripið kylfuna með hægri hendi og tekið hana af B. Í beinu framhaldi af þessu hefði hann slegið B í öxlina með golfkylfunni þannig að hausinn hefði dottið af henni. Í ljósi þessa framburðar ákærða verður ekki fallist á að neyðarvarnarsjónarmið réttlæti verknað hans. Í fyrsta lagi verður að telja að ákærða hefði verið í lófa lagið að aka af vettvangi þegar brotaþoli nálgaðist bifreið hans í stað þess að stíga út úr henni og ganga til móts við hann. Í öðru lagi verður ekki séð að ákærða hafi staðið ógn af brotaþola eftir að hann hafði náð af honum golfkylfunni, enda bar ákærði um það að brotaþoli hefði ekki ógnað sér eftir það. Af sömu ástæðum og áður greinir er ekki fallist á að 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi hér við.
Með vísan til framangreinds verður því að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem greinir í ákærulið 2. Leitt hefur verið í ljós með framburði ákærða, brotaþola og vitnisins C að haus kylfunnar hafi dottið af þegar ákærði sló brotaþola með henni. Verður því að ætla að um þungt högg hafi verið að ræða. Þar sem högg ákærða beindist að öxl brotaþola en ekki höfði hans er þó ekki fallist á að brotið eigi undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af framangreindu og því að afleiðingar árásarinnar voru ekki alvarlegar verður háttsemi ákærða heimfærð til 1. mgr. 217. gr. sömu laga.
Ákæruliður 3.
Með játningu ákærða, sem er í samræmi við framburð vitnanna A og C, svo og framlagt læknisvottorð, dagsett 25. maí 2007, þykir og sannað að ákærði hafi veist að A í greint sinn og slegið hann nokkur högg í höfuðið með skefti golfkylfunnar með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru. Eins og áður greinir er í ljós leitt að haus kylfunnar hafði brotnað af þegar ákærði hóf atlögu sína að brotaþola og kemur því ekki til álita að ákærði hafi slegið brotaþola með kylfuhausnum.
Ákærði hefur sjálfur borið um það að hafa fyrst reitt til höggs þegar brotaþoli sneri í hann baki. Er það reyndar ekki í samræmi við framburð brotaþola og C, sem báðir hafa lýst því að ákærði hafi komið á móti brotaþola og að brotaþoli hafi hörfað undan honum. Ljóst þykir hins vegar að ákærði réðst að brotaþola að fyrra bragði og sló hann í höfuðið með golfkylfunni. Einnig þykir í ljós leitt með afar greinargóðum og trúverðugum framburði brotaþola og C að ákærði sló brotaþola nokkrum sinnum í höfuðið áður en brotaþoli greip sjálfur golfkylfu sér til varnar. Framburður brotaþola og C, um að brotaþoli hafi reynt að róa ákærða niður og beðið hann um að láta af árásinni, er og í samræmi við framburð vitnisins D, nágranna brotaþola, sem vaknaði upp við atganginn um nóttina. Með vísan til alls framangreinds verður verknaður ákærða með engu móti réttlættur með skírskotun til neyðarvarnarsjónarmiða. Með sömu rökum er heldur ekki fallist á að 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga eigi hér við.
Við atlögu sína beitti ákærði rúmlega eins metra langri golfkylfu og beindi höggum sínum að höfði ákærða. Aðferð ákærða var því stórhættuleg og þykir brot hans réttilega heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða hegðun.
Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur á afar greinargóðan hátt játað háttsemi sína hér fyrir dómi. Á hinn bóginn er litið til þess að í málinu er ákærði sakfelldur fyrir þrjár fyrirvaralausar líkamsárásir af litlu tilefni. Einnig er höfð hliðsjón af því að um einbeittan ásetning ákærða var að ræða þar sem hann tók sér sérstaka ferð á hendur frá Egilsstöðum til Eskifjarðar að næturlagi til að ganga þar í skrokk á mönnum. Loks er litið til þess að ákærði beitti stórhættulegri aðferð við atlögu sína gagnvart A og þykir ljóst að hún hefði getað haft mun alvarlegri afleiðingar í för með sér en raun varð á. Með vísan til alls framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Þar sem ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða hegðun þykir rétt að fresta fullnustu sex mánaða af refsingunni og ákveða að hún falli niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 258.512 krónur, þar af málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu Dísar Pálmadóttur hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 246.012 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu B hefur verið krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 300.000 krónur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og er vísað til þess að hin tilefnislausa aðför ákærða að brotaþola hafi verið ófyrirleitin. Í framlagðri kröfugerð er einnig krafist lögmannsþóknunar að fjárhæð 63.787 krónur með virðisaukaskatti og var sú krafa áréttuð við munnlegan málflutning. Sú krafa kemur ekki fram í ákæru málsins, en með því að ákærði hefur mótmælt þessum bótalið sem of háum verður að líta svo á að hann samþykki að krafan komist að í málinu. Samkvæmt dómvenju á brotaþoli rétt á miskabótum vegna árásar ákærða, sem var bæði ófyrirleitin og harkaleg, og þykja bætur hans hæfilega ákveðnar að fjárhæð 60.000 krónur. Bætur vegna lögmannskostnaðar þykja hins vegar hæfilega ákveðnar að fjárhæð 35.000 krónur. Samtals er ákærða því gert að greiða brotaþola, B, skaðabætur að fjárhæð 95.000 krónur.
Af hálfu A hefur einnig verið krafist skaðabóta úr hendi ákærða, samtals að fjárhæð 1.236.007 krónur. Er bótakrafan sundurliðuð með eftirfarandi hætti:
Þjáningabætur í 1 dag, rúmliggjandi, 3. gr. skaðabótalaga 2.120 krónur
Þjáningabætur í 12 daga án rúmlegu, 1.140 krónur á dag 13.680 krónur
Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga 750.000 krónur
Tekjutap skv. 2. gr. skaðabótalaga 346.459 krónur
Lögmannsþóknun með virðisaukaskatti 123.748 krónur
Um rökstuðning fyrir kröfu um þjáningabætur er vísað til framlagðs læknisvottorðs þar sem fram komi að brotaþoli hafi verið illa farinn eftir árásina vegna áverka á höfði. Að því er kröfu um miskabætur varðar er vísað til þess hversu ófyrirleitin og lífshættuleg þessi tilefnislausa aðför ákærða að brotaþola hafi verið. Um kröfu vegna tekjutaps er vísað til framlagðs læknisvottorðs um óvinnufærni og gagna frá vinnuveitanda brotaþola. Um lagarök er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993, en einnig til óskráðra reglna skaðabótaréttarins um greiðslu bóta vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi.
Ákærði hefur ekki mótmælt kröfu brotaþola um þjáningabætur vegna rúmlegu í einn dag og er sá kröfuliður því tekinn til greina að fullu. Samkvæmt vottorði Hannesar Sigmarssonar læknis, dagsettu 13. júní 2007, á dskj. nr. 5 var brotaþoli óvinnufær frá tjónsdegi til 12. júní sama ár. Með vísan til þess, 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga og dómaframkvæmdar verður krafa hans um þjáningabætur í 12 daga, án rúmlegu, því tekin til greina að fullu. Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga á brotaþoli einnig rétt á miskabótum vegna árásarinnar, sem var bæði fyrirvaralaus og háskaleg. Þykja miskabætur til hans hæfilega ákveðnar að fjárhæð 200.000 krónur. Krafa brotaþola um bætur vegna tímabundins tekjutaps þykir hins vegar vanreifuð þar sem hún er ekki studd nægum gögnum og er henni því vísað frá dómi. Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 á brotaþoli rétt á bótum vegna kostnaðar við að halda fram kröfu sinni í málinu og þykir sá liður hæfilega ákveðinn að fjárhæð 60.000 krónur. Samtals er ákærða því gert að greiða brotaþola, A, skaðabætur að fjárhæð alls 275.800 krónur.
Bótakröfur brotaþola í málinu voru birtar ákærða 27. júní 2007 og bera þær því dráttarvexti samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá 27. júlí 2007 til greiðsludags. Þá bera þær vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. maí 2007 til upphafsdags dráttarvaxta.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.
Dómsorð:
Ákærði, Árni Vigfús Magnússon, sæti fangelsi í átta mánuði, en fullnustu sex mánaða af refsingunni er frestað og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 258.512 krónur, þar af málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Evu Dísar Pálmadóttur hdl., að fjárhæð 246.012 krónur.
Ákærði greiði B skaðabætur að fjárhæð 95.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. maí 2007 til 27. júlí sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði A skaðabætur að fjárhæð 275.800 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. maí 2007 til 27. júlí sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.