Hæstiréttur íslands

Mál nr. 302/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Óvígð sambúð
  • Fjárskipti


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. júní 2008.

Nr. 302/2008.

M

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Óvígð sambúð. Fjárskipti.

Við opinber skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar krafðist M þess aðallega að viðurkenndur yrði 50% eignarréttur hans að fasteign. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að um fjárhagslegt uppgjör við slit á óvígðri sambúð væri meginregla að hvor aðili um sig teldist eiga þau verðmæti sem hann kæmi með í sambúðina. Sá sem vefengdi skráð eignarhlutföll og héldi því fram að hann ætti hlutdeild í eign hins, bæri sönnunarbyrði fyrir því. Samkvæmt þinglýsingarvottorði var K ein skráð eigandi fasteignarinnar. M þótti ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi gögnum að hann hefði greitt hluta af kaupverði fasteignarinnar eða staðið að sameiginlegri eignamyndun á sambúðartímanum. Var kröfu hans því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2008, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningsefnum, sem risið höfðu við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við skiptin verði viðurkenndur eignarréttur hans aðallega að helmingshlut, en til vara að öðru lægra hlutfalli, á móti varnaraðila í fasteigninni Birkiási 12 í Garðabæ, enda beri hann þá samsvarandi hlutfall veðskulda, sem á henni hvíla. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

                                          Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2008.

Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjaness 25. janúar 2008 frá skiptastjóra samkvæmt 112. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 122. gr. sömu laga. Málið var þingfest 6. febrúar 2008 og tekið til úrskurðar 18. apríl sl.

Sóknaraðili er M, [...] Garðabæ, en varnaraðili er K, [...], Garðabæ.

Kröfur sóknaraðila eru þær að viðurkenndur verði 50% eignarréttur hans að fasteigninni X í Garðabæ, fastanúmer [...], jafnframt því að sóknaraðili sé skuldari 50% áhvílandi skulda. Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkenndur verði eignarréttur hans að öðrum og lægri hundraðshluta fasteignarinnar. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðili verði úrskurðaður til þess að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins. Þá lýsir sóknaraðili því yfir að hann muni gera kröfur til að búið endurgreiði honum tryggingarfé vegna skiptakostnaðar 250.000 krónur auk matskostnaðar á verðmæti fasteignar að fjárhæð 22.410 krónur.

Kröfur varnaraðila eru þær að aðal- og varakröfum sóknaraðila verði hafnað og að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði miðað við þinglýstar eignarheimildir fasteignarinnar X í Garðabæ. Þá er þess krafist að kröfur sóknaraðila um endurgreiðslu tryggingafjár að fjárhæð 250.000 krónur og kostnaðar vegna verðmats á fasteigninni X verði vísað frá en til vara að varnaraðili verði sýknuð af kröfunni. Loks krefst varnaraðili þess að sóknaraðili greiði henni málskostnað með hliðsjón af málskostnaðarreikningi að viðbættu álagi vegna 24,5% virðisaukaskatts.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar skýrslu fyrir dómi. Þá komu fyrir dóminn sem vitni A sem rak bókhaldsstofu í [...], B bókari og C, bókari hjá [...] ehf.

I.

Aðilar málsins kynntust snemma árs 2002 og hófu sambúð síðar sama ár. Sóknaraðili kveður sambúðina hafa staðið til að minnsta kosti 7. júlí 2004 en kvaðst í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins hafa flutt af heimili aðila í október sama ár. Af hálfu varnaraðila er hins vegar á því byggt að sambúðinni hafi lokið í júlí sama ár. Við upphaf sambúðarinnar bjuggu aðilar saman í íbúð varnaraðila að Y í Hafnarfirði þar sem einnig bjuggu tvö uppkomin börn varnaraðila. Varnaraðili seldi þá íbúð og festi kaup á húseigninni X í Garðabæ og er kaupsamningur um húsið dagsettur [...] 2002. Samkvæmt kaupsamningnum nam kaupverðið 19.050.000 krónum sem skyldu greiðast þannig:

Við samning

1.762.558 krónur.

Húsbréf 

3.139.875 krónur.

Þann 1. nóvember 2002

1.752.590 krónur.

 

Varnaraðili kveðst hafa greitt útborgun í húseigninni og kveðst jafnframt hafa yfirtekið áhvílandi veðskuldir að fjárhæð 12.396.977 krónur með vísan til gagna málsins. Sóknaraðili heldur því hins vegar fram að hann hafi einn greitt útborgun að fjárhæð 3.513.148 krónur og jafnframt helming vaxta og afborgana áhvílandi lána.

Málsaðilar fluttu að X þann 19. september 2002 en samkvæmt framlögðu búsetuvottorði bjó sóknaraðili þar fram til 7. júlí 2005. Samkvæmt framlögðu þinglýsingarvottorði er varnaraðili skráð vera 100% eigandi fasteignarinnar að X.

Óumdeilt er að endurbætur voru gerðar á fasteigninni eftir kaupin en ágreiningur er með aðilum um hvort þeirra fjármagnaði þær.

Sóknaraðili krafðist opinberra skipta til fjárslita milli hans og varnaraðila með kröfu dagsettri 1. október 2005 og var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjaness um opinber skipti milli málsaðila 14. nóvember 2007. Skiptastjóri vísaði ágreiningi aðila til héraðsdóms með bréfi dagsettu 22. janúar 2008 og er ágreiningi aðila og kröfugerð lýst þannig að hann snúist um skiptingu nettóandvirðis fasteignarinnar X í Garðabæ. Varnaraðili sé þinglýstur eigandi 100% fasteignarinnar en sóknaraðili krefjist þess að við skiptin verði eignarhlutföll fasteignarinnar ákveðin þannig að hann eigi 50% fasteignarinnar samkvæmt framlögðum gögnum, jafnframt því sem  hann sé skuldari helmings áhvílandi veðskulda. Þessu mótmæli varnaraðili alfarið og kveðjist eiga eignina að fullu og bera ein ábyrgð á áhvílandi veðskuldum og muni krefjast staðfestingar þessa fyrir héraðsdómi. Rekstri máls þessa fyrir dóminum að öðru leyti er áður lýst hér að framan.

II.

Sóknaraðili segir í greinargerð sinni að hann byggi kröfur sínar á því að ákvörðun héraðsdóms frá 14. nóvember 2007 sé res iudicata. Þá telur sóknaraðili að skráning varnaraðila sem 100% eiganda að fasteigninni að X í framlögðu þinglýsingarvottorði sé röng, enda sé slík skráning engan veginn ákvörðun um eignarhaldið. Framlög sóknaraðila á sambúðartímanum til heimilis, fasteignarinnar og heimilishalds nemi 6.491.197 krónum að viðbættum slysabótum frá Tryggingamiðstöðinni að fjárhæð 2.295.214 krónur.

Gögn málsins sýni að sóknaraðili hafi einn greitt útborgun í fasteigninni X að fjárhæð 1.760.558 krónur og 1.752.590 krónur, samtals 3.513.148 krónur, auk þess sem hann hafi lagt fram verulegt fjármagn í að fullgera húsið eins og gögn málsins beri með sér. Á sambúðartímanum hafi hann einnig greitt helming vaxta og afborgana áhvílandi lána. Eftir sambúðarslit hafi hann hætt að greiða af áhvílandi skuldum en hafi allt að einu ekki krafið varnaraðila um leigu af sínum hluta í húseigninni. Sóknaraðili hafi lagt verulegar fjárhæðir til heimilishalds, innbús, ferðalaga o.fl. Í skattskýrslu sé hann skráður sem 50% eigandi fasteignarinnar X í Garðabæ.

Sóknaraðili getur þess í greinargerð að hann hafi einn lagt fram allt hlutafé og stofnfé vegna Z ehf. með greiðslum sem hann fékk frá Þ hf. á Akureyri og sé hann samkvæmt skattframtali 2004 einn eigandi að hlutafé í Z ehf. Bendir hann á að varnaraðili hafi lagt fé til hlutabréfakaupa, sem ekki snerti sambúðarmál, eftir sölu eignarinnar að Y í stað þess að fjármagna kaupin á X. Sóknaraðili hafi tekið fullan þátt í ferðakostnaði varnaraðila til Brno í Tékklandi í ágúst 202 og á árinu 2003 vegna vandamála varnaraðila í Tékklandi. Þá hafi sóknaraðili tekið að sér að fylgja eftir frágangi og lokum byggingar hússins X í Garðabæ og hafi jafnframt tekið að sér á sambúðartímabilinu að greiða helming afborgana og vaxta áhvílandi lána á báðum húsunum, Y og X.

III.

Varnaraðili byggir aðalkröfu sína á því viðurkennda sjónarmiði í íslensku réttarfari að líta beri á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og að um fjármál þeirra fari eftir almennum reglum fjármunaréttarins. Sé það því meginregla að við slit óvígðrar sambúðar taki aðili þau verðmæti sem hann eigi og beri aðilar sönnuarbyrði fyrir annarri skipan mála. Sé jafnframt byggt á þeirri ríku dómvenju að þinglýstar eignarheimildir séu réttar. Til að hnekkja þeim líkum, sem hin þinglýsta eignarheimild veiti, verði sóknaraðili í máli þessu að sanna að framlög aðila til eignamyndunarinnar hafi verið misjöfn sem leiða eigi til annarrar niðurstöðu. Gögn málsins beri með sér að söluhagnaður varnaraðila vegna sölu Y hafi runnið beint til greiðslu útborgunar við kaupin á X.

Þann 2. desember 2003 hafi sóknaraðili fengið greitt frá lögmannsstofu 1.807.469 krónur en heildarupphæð greiddra bóta til sóknaraðila hafi numið 2.188.138 krónum og verið greiddar til lögmannsstofunnar 24. nóvember sama ár. Alkunna sé að lögmenn reikni sér þóknun í hlutfalli við greiddar bætur sem skýrt gæti mismun greiðslnanna. Af gögnum málsins megi ráða að 100.000 krónur af þessari upphæð hafi runnið til varnaraðila en ekki 2.295.214 eins og sóknaraðili haldi fram. Upphæðin virðst að meginstefnu til hafa runnið til fyrirtækisins Ö á Íslandi ehf. í tveimur greiðslum, annars vegar 385.563 krónur (ódagsett) og hins vegar 1.219.000 krónur þann 3. desember 2003. Þessu til staðfestingar vísi varnaraðili til fundargerðar hluthafafundar Ö á Íslandi dagsettrar 4. ágúst 2004 og bankayfirlits félagsins. Greiðsla að fjárhæð 1.219.000 krónur hafi farið út af reikningi Ö á Íslandi með símgreiðslu þann 4. desember 2003 en bankareikningar varnaraðila sýni að sú fjárhæð fór ekki inn á hennar reikning. Á þessum tíma hefði varnaraðili þegar staðið skil á lokagreiðslu vegna kaupanna á X en lokagreiðslan hafi verið innt af hendi við afsal 8. nóvember 2002.

Varnaraðili hafi sjálf fjármagnað endurbætur á fasteigninni að X á sambúðartímanum en framlag varnaraðila hafi verið vinnuframlag sem hann krefjist þó hvorki launa fyrir í máli þessu né heldur endurgreiðslu á hugsanlegum útlögðum kostnaði í þágu framkvæmdanna, sé hann einhver.

Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann hafi lagt nokkuð til eignamyndunar á fasteigninni á sambúðartímanum. Varnaraðili hafi ein verið skráð fyrir áhvílandi lánum og hafi greitt af þeim eins og framlögð gögn sýni. Varnaraðili hafi jafnframt séð um matarinnkaup, tryggingar, fasteignagjöld og önnur útgjöld heimilisins. Sambúðartími aðila hafi verið stuttur og á þeim tíma hafi ekki myndast með þeim fjárhagsleg samstaða.

Varnaraðili mótmælir harðlega fullyrðingu sóknaraðila um að fjárframlög hans til heimilishalds og fasteignar hafi numið 6.491.197 krónum á sambúðartímanum. Í fyrsta lagi beri að líta til þess að samkvæmt íslenskum rétti sé ekki gagnkvæm framfærsluskylda milli sambúðarfólks og geti því hvorugur aðila átt endurgreiðslukröfu á hendur hinum vegna framlags til framfærslu hvors annars. Í öðru lagi vísist til þess að fullyrðing sóknaraðila að þessu leyti sé ósönnuð.

Framlagðri greinargerð C hjá bókhaldsþjónustunni [...] ehf. sé sérstaklega mótmælt. Hún innihaldi lista yfir ætluð útgjöld sóknaraðila í þágu varnaraðila og sé hún unnin upp úr gögnum sem sóknaraðili hafi látið bókhaldsþjónustunni í té og hafi sóknaraðili jafnframt gefið upplýsingar um hvernig fjármununum var ráðstafað. Í fyrsta lagi sé hvergi að finna bankayfirlit sóknaraðila því til staðfestingar að hann hafi sannanlega greitt framlagða reikninga en ljóst sé að nokkur hluti þeirra var í raun greiddur af varnaraðila. Vísi varnaraðili um þetta til framlagðs yfirlits síns. Það dragi enn úr sönnunargildi greinargerðarinnar að í samantektinni sé t.d. að finna óundirritað og ódagsett skjal þar sem segi að framlag sóknaraðila til sambúðar frá 1. júní – 19. september 2002 sé 1.087.645 krónur án þess að bankayfirlit eða reikningar fylgi. Þá þarfnist fleiri reikningar nánari skoðunar við og geti sóknaraðili ekki ætlast til þess að varnaraðili hafi á sambúðartíma átt að greiða ein allan matarkostnað, lyf sóknaraðila, jakkaföt, bindi, símreikninga hans o.s.frv. Mismunandi bókhaldsnúmer á einstöku reikningum gefi líka til kynna að sóknaraðili hafi tekið einhverja reikninga úr bókhaldi Ö á Íslandi ehf. enda séu þeir stílaðir á fyrirtækið. Þá sé að finna í bunkanum kvittanir fyrir millifærslum frá Ö á Íslandi ehf. yfir á reikning sóknaraðila sjálfs. Álitamál sé hvort ekki eigi hér við ákvæði 134. og 135. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um réttarfarssektir.

Varnaraðili mótmælir einnig óstaðfestum skattframtölum sóknaraðila 2003 og 2004. Ástæða sé til að ætla að þau hafi verið gerð löngu eftir sambúðarslit aðila en varnaraðila sé kunnugt um að í desember 2004 hafi sóknaraðili ekki skilað inn skattframtölum vegna áranna 1998-2003. Þá dragi það mjög úr gildi þeirra að þau séu ekki staðfest af skattstjóra. Á skattframtölunum tilgreini sóknaraðili X sem sína eign þrátt fyrir að opinber skjöl segi annað. Slík einhliða skráning á óstaðfest skattframtal hafi mjög takmarkað sönnunargildi ef nokkuð.

Varnaraðili krefst frávísunar á kröfu sóknaraðila um að búið endurgreiði honum tryggingarfé vegna skiptakostnaðar að fjárhæð 250.000 krónur auk kostnaðar við mat á verðmæti fasteignarinnar X að fjárhæð 22.410 krónur. Samkvæmt ákvæðum 112. og 122. gr. laga nr. 20/1991 ræðst úrlausnarefni máls þessa af þeirri skriflegu kröfu sem skiptastjóri beindi til dómstólsins í samræmi við ákvæði 1. mgr. 122. gr. laganna. Verði því ekki í máli þessu tekin afstaða til annarra ágreiningsefna en þeirra sem fram koma í bréfi skiptastjóra dagsettu 22. janúar sl. Endurgjaldskrafa sóknaraðila eigi ekki stoð í bréfi skiptastjóra og beri því að vísa henni frá dómi ex officio. Verði ekki á það fallist, krefst varnaraðili sýknu af kröfunni. Sóknaraðili sé skiptabeiðandi og það sé því á hans ábyrgð að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði. Þá komi fram í fundargerð skiptafundar 22. janúar sl. að varnaraðili hafi mótmælt öflun verðmatsins sem ótímabæru og óþörfu.

Varnaraðili byggir málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. og 131. gr. Málið hafi verið höfðað að þarflausu og hafi sóknaraðili sýnt af sér tómlæti við að gera tilkall til eignarhluta í fasteign varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili lagt fram villandi sönnunargögn sem geti varðað réttarfarssekt. Sóknaraðili hafi engin gögn lagt fram um til stuðnings staðhæfingum hans um að hann hafi greitt útborgun vegna kaupa á X eða að hann hafi greitt afborganir af lánum vegna kaupanna.

Kröfu sína um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir varnaraðili á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.           

IV.

Aðilar máls þessa hófu sambúð á árinu 2002 en henni lauk um mitt ár 2004. Sóknaraðili flutti inn til varnaraðila í íbúð hennar að Y í Hafnarfirði sem hún seldi um haustið og keypti samkvæmt framlögðum kaupsamningi fasteignina að X í Garðabæ og fluttu aðilar þangað í september sama ár. Sóknaraðili hefur krafist þess að viðurkenndur verði 50% eignarréttur hans að framangreindri fasteign að X eða til vara lægri hundraðshluti fasteignarinnar. Þessu hefur varnaraðili mótmælt.

Um skipti eigna og skulda við sambúðarslit eru engar lögfestar reglur. Litið hefur verið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga í þessu tilliti. Um fjárhagslegt uppgjör við slit á óvígðri sambúð hefur það verið meginregla að hvor aðili um sig teljist eiga þau verðmæti sem hann kemur með inn í búið. Opinber skráning og þinglýsing hefur við mat á þessu verið talin gefa sterka vísbendingu um raunveruleg eignarráð. Sá sem vefengir skráð eignarhlutföll og heldur því fram að hann eigi hlutdeild í séreign hins, ber sönnunarbyrði fyrir því.

Samkvæmt framlögðu þinglýsingarvottorði er varnaraðili ein skráð 100% eigandi fasteignarinnar að X í Garðabæ. Á framlagðar skattskýrslur sóknaraðila frá 2003 og 2004 er handritað að hann sé eigandi að 50% eignarhluta í fasteigninni að X en á skattskýrslum varnaraðila 2004 og 2005 er innfært að hún sé 100% eigandi eignarinnar. Í skattskýrslu varnaraðila 2003 er um eignir í árslok 2002 vísað til sérstaks sundurliðunarblaðs en varnaraðili festi kaup á eigninni um haustið það ár eins og áður er komið fram. Á stimpli skattstjórans í Reykjanesumdæmi á skattframtölum sóknaraðila kemur fram að framtölin hafi ekki sætt álagningarskoðun. Að þessu virtu verða skattframtöl sóknaraðila ekki talin hnika til skráðri eignarhlutdeild varnaraðila samkvæmt þinglýsingarvottorði. Þá niðurstöðu styðja jafnframt önnur gögn málsins. Í framlagðri fundargerð Ö á Íslandi ehf. frá 5. febrúar 2004, sem sóknaraðili undirritar og leggur fram í máli þessu, kemur fram að félagið sé með heimili og aðsetur á leigu í húsnæði í eigu varnaraðila. Samkvæmt framlögðum skattframtölum félagsins er skráð heimili þess að X í Garðabæ. Þá segir í afriti af tölvupósti sóknaraðila f.h. Ö á Íslandi ehf. til lögmanns félagsins að húseignin X verði alfarið eign og á kennitölu varnaraðila.

Á framlögðum skattframtölum verður ráðið að varnaraðili taldi fram til skatts hærri tekjur en sóknaraðili bæði árin 2002 og 2003. Þá liggja frammi í málinu ljósrit greiðslumats og fleiri gögn sem benda til þess að fjárhagsleg staða varnaraðila hafi ekki staðið því í vegi að hún hefði tök á að standa undir kaupum á fasteigninni að X. Sýnist fullyrðing sóknaraðila um bága fjárhagsstöðu varnaraðila ekki eiga stoð í gögnum málsins og verður ekki á henni byggt.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi einn greitt útborgun vegna X samtals að fjárhæð 3.513.148 krónur auk þess sem hann hafi greitt helming vaxta og afborgana áhvílandi lána. Þá byggir hann jafnframt á því að hann hafi fylgt eftir frágangi og lokum á byggingu hússins að X. Þessu hefur varnaraðili mótmælt að öðru leyti en því að hún viðurkennir að sóknaraðili hafi lagt fram vinnuframlag við endurbætur á húseigninni.  

Til stuðnings kröfum sínum hefur sóknaraðili lagt fram greinargerð unna af C, bókara hjá [...] ehf., dagsetta 2. október 2007. Hefur greinargerðin að geyma yfirlit yfir reikninga og ráðstöfun fjármuna vegna þeirra og fylgja greinargerðinni ljósrit af fjölmörgum reikningum. Í inngangsorðum hennar kemur fram að hún greini frá ráðstöfun fjármuna samkvæmt upplýsingum frá verkbeiðanda, þ.e. sóknaraðila í máli þessu. Fyrir dóminum kvaðst C bókari hafa samið greinargerðina eftir fylgiskjölum sem sóknaraðili afhenti honum og unnið hana alfarið samkvæmt upplýsingum frá sóknaraðila. Hann hefði ekki lagt sjálfstætt mat á reikningana og þá staðfesti hann að ekki kæmi fram á reikningunum hver greiddi þá. Varnaraðili hefur mótmælt sönnunargildi skjalanna.

Það er niðurstaða dómsins með vísan til ofanritaðs að framangreind greinargerð og fylgigögn hennar feli ekki í sér sönnur fyrir fullyrðingum sóknaraðila um greiðslu hans á kaupverði og afborgunum af lánum vegna kaupa á fasteigninni að X. Annarra gagna nýtur ekki við í málinu að þessu leyti. Samkvæmt framansögðu og með vísan til framlagðra kvittana fyrir greiðslu útborgunar varnaraðila í húseigninni að X þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi gögnum og gegn andmælum varnaraðila að hann hafi staðið að sameiginlegri eignamyndun á sambúðartímanum. Sóknaraðili hefur ekki krafist greiðslna úr hendi varnaraðila vegna vinnuframlags síns við endurbætur og lagfæringar á húseigninni og þá hefur hann ekki sýnt fram á að vinnuframlag hans hafi leitt til verðmætaaukningar eignarinnar. Með vísan til áður rakinnar meginreglu við slit á óvígðri sambúð, verður að fallast á kröfu varnaraðila um að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila um staðfestingu á eignarhlutdeild hans í fasteigninni að X og að miðað skuli við þinglýsta eignarheimild fasteignarinnar.

Sóknaraðili færir ekki fram sérstök rök í greinargerð fyrir kröfum sínum um að bú aðila endurgreiði honum tryggingarfé, sem hann hefur innt af hendi vegna beiðnar hans um opinber skipti, og um greiðslu kostnaðar vegna mats á verðmæti fasteignarinnar að X. Í bréfi skiptastjóra þar sem ágreiningi aðila var vísað til úrlausnar héraðsdóms, er því lýst að sóknaraðili krefjist þess að eignarhlutföll fasteignarinnar verði ákveðin þannig að hann eigi 50% eignarinnar en sé skuldari helmings af áhvílandi veðskuldum. Er þar ekki getið um kröfur sóknaraðila um endurgreiðslu tryggingafjár og greiðslu matskostnaðar. Í 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 segir að ef ágreiningur rísi um atriði við opinber skipti sem fyrirmæli laganna kveða sérstaklega á um að beint skuli til héraðsdóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telur þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði, sem upp koma við opinber skipti, skuli skiptastjóri beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfa. Í 3. tl. 1. mgr. 122. gr. er síðan tekið fram að meðal þess sem fram skuli koma í kröfunni sé um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi. Af þessum fyrirmælum laganna er ljóst að úrlausnarefni þessa máls ræðst af þeirri skriflegu kröfu sem skiptastjóri beindi til dómstólsins í samræmi við ákvæði 1. mgr. 122. gr. Verður því í málinu ekki tekin afstaða til krafna sóknaraðila um endurgreiðslu tryggingarfjár og matskostnaðar og er þeim því vísað frá dómi ex officio.

Eftir niðurstöðu málsins og með vísan til ákvæða 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 668.814 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfum sóknaraðila, M, um að viðurkenndur verði eignarréttur hans að 50% eða samkvæmt lægri hundraðshluta í fasteigninni X í Garðabæ, fastanúmer [...]. Við opinber skipti á búi málsaðila skal miða við þinglýsta eignarheimild fasteignarinnar. 

   Kröfum sóknaraðila um endurgreiðslu tryggingarfjár vegna skiptakostnaðar að fjárhæð 250.000 krónur og matskostnaðar að fjárhæð 22.410 krónur er vísað frá dómi ex officio.  

Sóknaraðili greiði varnaraðila, K, 668.814 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.