Hæstiréttur íslands
Mál nr. 480/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfulýsing
- Tilkynning
|
|
Mánudaginn 27. ágúst 2012. |
|
Nr. 480/2012.
|
Blackrock (Einar Baldvin Axelsson hrl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Kröfulýsing. Tilkynning
B lýsti kröfum við slitameðferð G hf. á grundvelli krafna vegna átta rafrænna skuldabréfa útgefinna af G hf. Með bréfum 8. nóvember 2010 hafnaði slitastjórn G hf. kröfum B samkvæmt fyrrgreindum skuldabréfum. Þar sagði jafnframt að andmæli við afstöðu slitastjórnarinnar bæri að hafa uppi á kröfuhafafundi 2. desember 2010 eða koma þeim á framfæri við slitastjórn fyrir fundinn. Í málinu deildu aðilar um það hvort þessi bréf slitastjórnar G hf. hefðu borist B og krafðist B þess að viðurkennt yrði með dómi að mótmæli hans við slit G hf. hefðu verið móttekin áður en frestir samkvæmt lögum nr. 21/1991 runnu út. Með gögnum frá því fyrirtæki sem sá um að senda bréfin til B og með vitnisburði starfsmanns fyrirtækisins þótti sannað að bréfin hefðu borist B. Þá var ekki talið skipta máli þótt kröfuhafafundi 2. desember 2010 hefði verið frestað en ekki slitið. Var afstaða slitastjórnar að hafna kröfunni því talin endanleg.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Ingibjörg Benediktsdóttir hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 6. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að viðurkennt yrði að mótmæli hans við afstöðu slitastjórnar varnaraðila til átta krafna samkvæmt rafrænum skuldabréfum útgefnum af sóknaraðila, samtals að höfuðstól 11.855.000 bandaríkjadalir, sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila, komist að við þau og að slitastjórn varnaraðila yrði gert skylt að taka efnislega afstöðu til krafnanna. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í varnaraðila 7. október 2008, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Í kjölfarið var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember sama ár. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum fyrstnefndu laganna, var varnaraðili síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Hinn 12. maí sama ár skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn yfir varnaraðila sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur honum. Gaf hún út innköllun til skuldheimtumanna sem birt var 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Samkvæmt 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda reglur laga nr. 21/1991 um meðferð krafna við slitin, sbr. 2. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 44/2009.
Við slitin lýsti sóknaraðili átta kröfum vegna rafrænna skuldabréfa útgefinna af varnaraðila og bárust kröfulýsingarnar varnaraðila 23. nóvember 2009. Sóknaraðili krafðist þess að kröfunum yrði skipað í réttindaröð sem almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Bréfum þessum er nánar lýst í hinum kærða úrskurði.
Í innköllun varnaraðila til skuldheimtumanna var boðað til kröfuhafafundar 17. desember 2009 til að fjalla um skrá yfir lýstar kröfur og afstöðu slitastjórnar að því leyti sem hún lægi þá fyrir. Jafnframt sendi varnaraðili tölvubréf til sóknaraðila 23. nóvember 2009 um að kröfulýsingar vegna skuldabréfanna hefðu borist auk þess sem boðað var til fyrrgreinds fundar. Þegar sá fundur var haldinn hafði varnaraðili ekki tekið afstöðu til umræddra krafna sóknaraðila. Næsti kröfuhafafundur var haldinn 19. maí 2010 en fyrir fundinn sendi varnaraðili tölvubréf 17. sama mánaðar þar sem sóknaraðila var tilkynnt að ekki væri unnt að taka afstöðu til krafna hans að svo stöddu. Í tölvubréfum þessum kom einnig fram að næsti fundur yrði haldinn 2. desember sama ár, en á þeim fundi var gert ráð fyrir að kynnt yrði afstaða slitastjórnar til lýstra krafna sem ekki hafði þegar verið fjallað um.
Varnaraðili ritaði sóknaraðila bréf 8. nóvember 2010 þar sem fram kom að kröfum samkvæmt fyrrgreindum skuldabréfum varnaraðila væri hafnað. Þar sagði jafnframt að andmæli við afstöðu slitastjórnar bæri að hafa uppi á kröfuhafafundi 2. desember 2010 eða koma þeim á framfæri við slitastjórn fyrir fundinn. Að öðrum kosti teldist afstaða slitastjórnar endanleg, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Í málinu deila aðilar um hvort þessi bréf hafi borist sóknaraðila. Heldur sóknaraðili því fram að hann hafi fyrst í ársbyrjun 2011 fengið upplýsingar um að kröfunum hefði verið hafnað, en með bréfi 28. mars það ár var þeirri afstöðu mótmælt. Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var fjallað um þennan ágreining á sérstökum kröfuhafafundi 17. maí 2011 án þess að hann yrði jafnaður.
II
Samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 bar slitastjórn að tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa með minnst viku fyrirvara áður en kröfuhafafundur var haldinn til að fjalla um skrá yfir lýstar kröfur ef ekki var fallist á að viðurkenna kröfuna að öllu leyti eins og henni var lýst. Tilkynningu þessa bar að senda með sannanlegum hætti og því ber varnaraðili sönnunarbyrði fyrir að hún hafi borist sóknaraðila.
Varnaraðili heldur því fram að hann hafi sent fyrrgreind bréf 8. nóvember 2010, þar sem kröfum sóknaraðila var hafnað, með DHL hraðflutningum ehf. Samkvæmt yfirliti þess fyrirtækis um feril sendingar var sending með farmbréfsnúmeri 6273412180, sem sögð var hafa að geyma skjöl, móttekin frá varnaraðila sama dag og afhent á starfstöð sóknaraðila í London daginn eftir. Einnig kemur fram á yfirlitinu að kvittað hafi verið fyrir móttöku af manni að nafni „Peter“. Á skjali sem ber yfirskriftina „Delivery sheet“ kemur fram að tekið hafi verið við sendingu frá Reykjavík með sama farmbréfsnúmeri 9. nóvember 2010, kl. 14.24. Einnig kemur fram á skjalinu að afhentar hafi verið á sama tíma tvær aðrar sendingar til sóknaraðila með sendingarstöðum sem skammstafaðir eru „EDI“ og „SOU“. Á þessu skjali er dálkur þar sem gert er ráð fyrir að nafn þess sem veitir sendingu viðtöku sé ritað með prentstöfum en í næsta dálki er gert ráð fyrir undirritun. Áritun um móttöku á sendingunni til sóknaraðila er ólæsileg og á það bæði við um nafnritun með prentstöfum og undirritun. Þó má greina upphafsstafinn P í fornafni nafnritunar með prentstöfum.
Svo sem rakið er í úrskurði héraðsdóms kom starfsmaður DHL hraðflutninga í London fyrir dóm og staðfesti að hafa afhent sendinguna 9. nóvember 2010 á starfstöð sóknaraðila. Einnig kvaðst vitnið margsinnis hafa hitt þann starfsmann sóknaraðila sem veitti sendingunni móttöku og oft afhent honum sendingar. Tók vitnið fram að umræddur starfsmaður hefði verið í einkennisbúningi merktum sóknaraðila. Þetta vætti vitnisins kemur heim og saman við annað skjal með yfirskriftinni „Delivery sheet“ vegna afhendinga 3. nóvember 2010, en samkvæmt því voru fjórar sendingar afhentar sóknaraðila frá sendingarstöðum sem skammstafaðir eru „ELX“ „MRU“„LUX“ og „EDI“. Á því skjali er móttaka þessara sendinga staðfest með sömu ólæsilegu nafnritun um móttöku og áður greinir að öðru leyti en því að greina má upphafsstafinn P í fornafni. Þá er þess að gæta að sóknaraðili hefur með engu móti upplýst hvernig staðið er að móttöku sendinga til hans og hvaða starfsmenn höfðu það verk með höndum. Í því tilliti getur engu breytt, eins og hreyft hefur verið af hálfu sóknaraðila, hvort sá sem tók við sendingunni hafi haft heimild sóknaraðila til að veita póstsendingum viðtöku, enda var fullnægjandi að afhenda sendinguna einhverjum starfsmanni sóknaraðila. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Blackrock, greiði varnaraðila, Glitni hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 15. júní 2012.
Mál þetta, sem fyrst var tekið til úrskurðar 11. maí sl., var endurupptekið 29. maí sl. og þá tekið til úrskurðar á ný. Málið var aftur endurupptekið 14. júní sl. og tekið til úrskurðar sama dag. Málið var þingfest 6. september 2011.
Málið var fyrst tekið til úr
Sóknaraðili er BlackRock, 12 Throgmorton Avenue, London, EC2N 2DL, Bretlandi.
Varnaraðili er Glitnir hf., Reykjavík, í slitameðferð.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þessar aðallega:
1) Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, nr. CL20091123-2189, samtals að fjárhæð 3.162.341,67 Bandaríkjadalir verði samþykkt sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
2) Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, nr. CL20091123-2193, samtals að fjárhæð 347.339,17 Bandaríkjadalir verði samþykkt sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
3) Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, nr. CL20091123-2195, samtals að fjárhæð 1.798.905,83 Bandaríkjadalir verði samþykkt sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
4) Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, nr. CL20091123-2200, samtals að fjárhæð 1.902.589,17 Bandaríkjadalir verði samþykkt sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
5) Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, nr. CL20091123-2203, samtals að fjárhæð 2.592.083,33 Bandaríkjadalir verði samþykkt sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
6) Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, nr. CL20091123-2211, samtals að fjárhæð 1.042.017,50 Bandaríkjadalir verði samþykkt sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
7) Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, nr. CL20091123-2213, samtals að fjárhæð 378.444,17 Bandaríkjadalir verði samþykkt sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
8) Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila, nr. CL20091123-2217, samtals að fjárhæð 1.067.938,33 Bandaríkjadalir verði samþykkt sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að mótmæli sóknaraðila við afstöðu slitastjórnar varnaraðila vegna krafna nr. CL20091123-2189, CL20091123-2193, CL20091123-2195, CL20091123-2200, CL20091123-2203, CL20091123-2211, CL20091123-2213 og CL20091123-2217 hafi verið móttekin áður en frestir samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. runnu út og að slitastjórn varnaraðila beri að taka efnislega afstöðu til krafnanna.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Endanlegar dómkröfur varnaraðila eru þessar aðallega:
1) Að staðfest verði höfnun kröfu með kröfunúmeri CL20091123-2189, samtals að fjárhæð 3.162.341,67 Bandaríkjadalir sem lýst var sem almennri kröfu í slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
2) Að staðfest verði höfnun kröfu með kröfunúmeri CL20091123-2193, samtals að fjárhæð 347.337,17 Bandaríkjadalir sem lýst var sem almennri kröfu í slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
3) Að staðfest verði höfnun kröfu með kröfunúmeri CL20091123-2195, samtals að fjárhæð 1.798.905,83 Bandaríkjadalir sem lýst var sem almennri kröfu í slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
4) Að staðfest verði höfnun kröfu með kröfunúmeri CL20091123-2200, samtals að fjárhæð 1.902.589,17 Bandaríkjadalir sem lýst var sem almennri kröfu í slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
5) Að staðfest verði höfnun kröfu með kröfunúmeri CL20091123-2203, samtals að fjárhæð 2.592.083,33 Bandaríkjadalir sem lýst var sem almennri kröfu í slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
6) Að staðfest verði höfnun kröfu með kröfunúmeri CL20091123-2211, samtals að fjárhæð 1.042.017,50 Bandaríkjadalir sem lýst var sem almennri kröfu í slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
7) Að staðfest verði höfnun kröfu með kröfunúmeri CL20091123-2213, samtals að fjárhæð 378.444,17 Bandaríkjadalir sem lýst var sem almennri kröfu í slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
8) Að staðfest verði höfnun kröfu með kröfunúmeri CL20091123-2217 samtals að fjárhæð 1,067.938,33 Bandaríkjadalir sem lýst var sem almennri kröfu í slitameðferð varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
Til vara krefst varnaraðili þess að réttur sóknaraðila til að koma að mótmælum vegna afstöðu varnaraðila vegna krafna nr. CL20091123-2189, CL20091123-2193, CL20091123-2195, CL20091123-2200, CL20091123-2203, CL20091123-2211, CL20091123-2213 og CL20091123-2217 verði viðurkenndur. Varnaraðili krefst þess samhliða að fjárkröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi og að slitastjórn varnaraðila beri að taka efnislega afstöðu til krafnanna.
Til þrautavara krefst varnaraðili þess að réttur sóknaraðila til að koma að mótmælum vegna afstöðu varnaraðila vegna krafna nr. CL20091123-2189, CL20091123-2193, CL20091123-2195, CL20091123-2200, CL20091123-2203, CL20091123-2211, CL20091123-2213 og CL20091123-2217 verði viðurkenndur. Varnaraðili krefst þess samhliða að fjárkröfum sóknaraðila verði hafnað.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Með ákvörðun dómsins 11. maí sl., var sakarefni málsins skipt að beiðni aðila, þannig að í þessum þætti málsins verði einungis leyst úr varakröfu sóknaraðila, þ.e. að viðurkennt verði að mótmæli sóknaraðila við afstöðu slitastjórnar varnaraðila vegna krafna CL20091123-2189, CL20091123-2193, CL20091123-2195, CL20091123-2200, CL20091123-2203, CL20091123-2211, CL20091123-2213 og CL20091123-2217 hafi verið móttekin áður en frestir samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 runnu út og að slitastjórn varnaraðila beri að taka efnislega afstöðu til krafnanna, en að önnur atriði málsins hvíli á meðan úr þessum ágreiningi verði leyst. Er sá hluti sakarefnisins til úrlausnar í þessum úrskurði.
Í þessum þætti málsins krefst varnaraðili þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Hvor aðili um sig gerir kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi hins, að mati dómsins.
Málsatvik
Sóknaraðili er fjárfestingarsjóðurinn BlackRock, til heimilis í Bretlandi. Sóknaraðili er eigandi átta rafrænna skuldabréfa, útgefnum af varnaraðila, sem að sögn sóknaraðila eru samanlagt að höfuðstólsfjárhæð 11.855.000 Bandaríkjadalir.
Fjármálaeftirlitið tók 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd, samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Hinn 15. október 2008 var Nýi Glitnir banki hf. (nú Íslandsbanki hf.) stofnaður um innlenda bankastarfsemi varnaraðila í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að færa hluta af starfsemi varnaraðila til nýs banka sem stofnaður hafði verið og var að fullu í eigu íslenska ríkisins. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009. Hinn 19. febrúar 2009 var greiðslustöðvunin framlengd til 13. nóvember 2009. Áður en sá tími var á enda, hinn 12. maí 2009, var varnaraðila skipuð slitastjórn samkvæmt ákvæðum 4. tl. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002. Samkvæmt lögum nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009 um breytingu á þeim lögum, gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þ.á m. um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna varnaraðila 25. maí 2009 og birtist hún fyrst í Lögbirtingarblaðinu 26. maí 2009. Kröfulýsingarfrestur var ákveðinn sex mánuðir og lauk honum því 26. nóvember 2009.
Sóknaraðili lýsti átta kröfum í bú varnaraðila sem mótteknar voru 23. nóvember 2009 af slitastjórn varnaraðila. Sóknaraðili lýsti í fyrsta lagi almennri kröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 413.349.680 krónur (3.162.341,67 Bandaríkjadalir) og eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga að fjárhæð 15.107.761 króna (115.582,29 Bandaríkjadalir) í þrotabú varnaraðila vegna skuldabréfs með auðkennið US37930JAE55. Krafan er nr. CL20091123-2189 í kröfuskrá varnaraðila.
Í öðru lagi lýsti sóknaraðili almennri kröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 45.400.703 krónur (347.339,17 Bandaríkjadalir) og eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga að fjárhæð 1.659.376 krónur (12.695,10 Bandaríkjadalir) í þrotabú varnaraðila vegna skuldabréfs með auðkennið US37930JAE55. Krafan er nr. CL20091123-2193 í kröfuskrá varnaraðila.
Í þriðja lagi lýsti sóknaraðili almennri kröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 235.134.981 króna (1.798.905,83 Bandaríkjadalir) og eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga að fjárhæð 8.594.087 krónur (65.749,27 Bandaríkjadalir) í þrotabú varnaraðila vegna skuldabréfs með auðkennið US37930JAE55. Krafan er nr. CL20091123-2195 í kröfuskrá varnaraðila.
Í fjórða lagi lýsti sóknaraðili almennri kröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 248.687.430 krónur (1.902.589,17 Bandaríkjadalir) og eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga að fjárhæð 9.089.423 krónur (69.538,85 Bandaríkjadalir) í þrotabú varnaraðila vegna skuldabréfs með auðkennið US37930JAE55. Krafan er nr. CL20091123-2200 í kröfuskrá varnaraðila.
Í fimmta lagi lýsti sóknaraðili almennri kröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 338.811.212 krónur (2.592.083,33 Bandaríkjadalir) og eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga að fjárhæð 12.383.410 krónur (94.739,58 Bandaríkjadalir) í þrotabú varnaraðila vegna skuldabréfs með auðkennið US37930JAE55. Krafan er nr. CL20091123-2203 í kröfuskrá varnaraðila.
Í sjötta lagi lýsti sóknaraðili almennri kröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 136.202.107 krónur (1.042.017,5 Bandaríkjadalir) og eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga að fjárhæð 4.978.131 króna (38.085,31 Bandaríkjadalur) í þrotabú varnaraðila vegna skuldabréfs með auðkennið US37930JAE55. Krafan er nr. CL20091123-2211 í kröfuskrá varnaraðila.
Í sjöunda lagi lýsti sóknaraðili almennri kröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 49.466.437 krónur (378.444,17 Bandaríkjadalir) og eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga að fjárhæð 1.807.978 krónur (13.831,98 Bandaríkjadalir) í þrotabú varnaraðila vegna skuldabréfs með auðkennið US37930JAE55. Krafan er nr. CL20091123-2213 í kröfuskrá varnaraðila.
Í áttunda lagi lýsti sóknaraðili almennri kröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 139.590.219 krónur (1.067.938,33 Bandaríkjadalir) og eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga að fjárhæð 5.101.966 krónur (39.032,71 Bandaríkjadalur) í þrotabú varnaraðila vegna skuldabréfs með auðkennið US37930JAE55. Krafan er nr. CL20091123-2217 í kröfuskrá varnaraðila.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunum með átta bréfum dagsettum 8. nóvember 2010. Aðilar málsins deila um það hvort þessi bréf hafi borist sóknaraðila. Varnaraðili kveðst hafa sent bréfin í einni og sömu sendingunni með flutningafélaginu DHL og hafi hún verið afhent 9. nóvember 2010 á skrifstofu sóknaraðila þar sem starfsmaður sóknaraðila að nafni ,,Peter“ hafi kvittað fyrir móttöku sendingarinnar. Afrit bréfanna eru meðal gagna málsins. Í bréfunum, sem eru samhljóða, kemur fram að viðkomandi kröfu sóknaraðila sé hafnað, útskýrt hvers vegna og greint frá réttaráhrifum þess að mótmæli bærust ekki í síðasta lagi fyrir kröfuhafafund 2. desember 2010. Fyrir liggur að sóknaraðili mótmælti ekki afstöðu varnaraðila fyrir eða á kröfuhafafundinum 2. desember 2010 sem haldinn var m.a. til að fjalla um afstöðu slitastjórnar til krafna sóknaraðila. Sóknaraðili kannast ekki við að hafa fengið framangreind bréf, hvorki skriflega né með tölvupósti, fyrr en 2. mars 2011. Sóknaraðili hafi fyrst í ársbyrjun 2011 komist að því að kröfum hans hafi verið hafnað, en með bréfi 28. mars 2011 mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu. Fjallað var um kröfurnar á sérstökum fundi 17. maí 2011. Ekki tókst að jafna ágreining aðila og með bréfi slitastjórnar varnaraðila, dagsettu 30. maí 2011 og mótteknu samdægurs, var ágreiningi málsaðila um kröfuna beint til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að mótmæli sóknaraðila séu nægilega snemma fram komin. Annars vegar byggir sóknaraðili á því að tilkynning um afstöðu slitastjórnar varnaraðila til krafna sóknaraðila hafi ekki verið send sóknaraðila með sannanlegum hætti með viku fyrirvara fyrir kröfuhafafund þar sem afstaða til hennar hafi verið kynnt, sbr. 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Tilgangur ákvæðis 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 sé sýnilega sá að tryggja að kröfuhafi sé upplýstur um að skiptastjóri hafi ekki fallist á að viðurkenna kröfu sem hann hafi lýst sem og afleiðingar þess að hann mótmæli ekki þeirri afstöðu innan tiltekins frests. Kröfuhafinn eigi þess þá kost að gæta hagsmuna sinna með því að koma á framfæri mótmælum gegn afstöðu skiptastjóra á eða fyrir skiptafund, sbr. 1. mgr. 120. gr. laganna. Slík tilkynning sé sérlega mikilvæg fyrir alla kröfuhafa og eigi það ekki síst við um erlenda kröfuhafa sem eigi erfiðara með að afla upplýsinga um afstöðu skiptastjóra með öðrum hætti en sannanlegum.
Hafi kröfuhafa ekki borist tilkynning um höfnun lýstrar kröfu samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 eigi hann að geta treyst því að krafa hans hafi verið samþykkt eins og henni hafi verið lýst. Þetta liggi fyrir í lögum og langri framkvæmd. Það væri óviðunandi fyrir slíkan kröfuhafa, sem ekki hefði sent mótmæli gegn afstöðu skiptastjóra til kröfu sinnar í trausti þess að hún hefði verið samþykkt, ef hann yrði útilokaður frá því að koma að mótmælum síðar eftir að honum yrði afstaða skiptastjóra ljós. Slík túlkun á 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, þar sem ekki væri tekið tillit til ákvæðis 2. mgr. 119. gr. sömu laga, samrýmdist illa sjónarmiðum um að lög eigi að túlka heildstætt. Væri hún fjarstæðukennd í garð kröfuhafa sem ekki hefðu fengið tilkynningu senda með sannanlegum hætti samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili telur því að túlka beri ákvæði 1. og 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 til samræmis við ákvæði 2. mgr. 119. gr. sömu laga, með þeim hætti að mótmæli kröfuhafa teljist hafa borist í tæka tíð þótt þau berist eftir lok kröfuhafafundar, sem þó sé ekki aðstaðan í þessu máli, ef síðbúin sending mótmæla verður rakin til þess að tilkynning um afstöðu slitastjórnar hafi ekki verið send kröfuhafa með sannanlegum hætti eins og kveðið er á um í 2. mgr. 119. gr. laganna. Hafa verði í huga að 120. gr. laga nr. 21/1991 kveði á um að vanlýsingaráhrif geti átt við um kröfuhafa sem lýst hafi kröfu sinni fyrir lok kröfulýsingarfrests. Verði því að telja að ákvæði 120. gr. verði aðeins beitt að ströngum skilyrðum uppfylltum.
Þar sem óumdeilt sé að sóknaraðili hafi lýst kröfum sínum innan kröfulýsingarfrests hvíli það á slitastjórn varnaraðila að sýna fram á að sóknaraðila hafi verið send tilkynning um afstöðu til krafnanna með sannanlegum hætti, í tæka tíð, í samræmi við 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili kannist ekki við að hafa fengið tilkynningu um afstöðu slitastjórnar um höfnun krafna hans fyrir kröfuhafafund varnaraðila sem haldinn hafi verið í desember 2010.
Skjal, merkt flutningafélaginu DHL, greini ekki frá innihaldi þeirrar sendingar sem það varði, að öðru leyti en því að fram komi að um skjöl hafi verið að ræða. Ósannað sé hvaða skjöl hafi verið að finna í umræddri sendingu og að sendingin hafi varðað kröfulýsingar sóknaraðila, hvað þá að þar hafi komið fram tilkynningar um afstöðu slitastjórnar varnaraðila til þeirra krafna sóknaraðila sem um greini í máli þessu. Sóknaraðili eigi einnig aðrar kröfur á hendur varnaraðila sem hafi verið samþykktar og kunni hin meinta sending allt eins að hafa varðað þær kröfur. Svo virðist sem sending varnaraðila hafi aldrei borist sóknaraðila. Það komi hvergi fram, en fyrir því beri varnaraðili sönnunarbyrði, enda hvíli á honum að senda tilkynningar með sannanlegum hætti. Sendingu með sannanlegum hætti megi jafna til ábyrgðarsendingar, sbr. skilgreiningu á ábyrgðarsendingu í 4. mgr. 4. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002.
Í skjalinu komi fram að sendingin hafi verið móttekin af einhverjum „Peter“, sem óvíst sé hver sé, á Heathrow flugvelli í London. Hvorki verði ráðið af skjalinu að sendingin hafi borist á skrifstofur sóknaraðila í London, né að einhver sem heimild hafi til þess hefði tekið við sendingunni fyrir hönd sóknaraðila. Fyrir því beri varnaraðili sönnunarbyrði.
Það verði að teljast verulega gáleysislegt af hálfu varnaraðila að sendingin hafi aðeins verið stíluð á skrifstofur sóknaraðila í London, en ekki á þann tengilið sem getið hafi verið um í kröfulýsingum sóknaraðila. Það geti tæplegast talist að skila tilkynningu um höfnun með sannanlegum hætti. Á skrifstofum sóknaraðila í London starfi um tvö þúsund manns. Það geti því augljóslega skipt öllu máli að bréf til sóknaraðila séu stíluð á hlutaðeigandi viðtakanda eða í öllu falli á viðeigandi deild. Hvort tveggja hafi komið fram í kröfulýsingu sóknaraðila og eftir því hafi verið óskað af hálfu varnaraðila.
Hafa verði í huga að tilkynning samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 geti haft veigamikil réttaráhrif gagnvart móttakanda og verður því að gera ríkar kröfur til þess hvernig henni sé háttað. Sending með þessum hætti, þar sem virt sé að vettugi krafa um hvert skuli beina samskiptum vegna kröfulýsinga og réttmæt útfylling á kröfulýsingarformi varnaraðila og þeim væntingum sem því fylgi, geti ekki talist fullnægja skilyrðum 2. mgr. 119. gr. laganna um tilkynningu með sannanlegum hætti.
Í innköllun varnaraðila komi fram þau tilmæli varnaraðila að upplýsa um netfang til að „auðvelda miðlun upplýsinga“. Sama krafa hafi komið fram á heimasíðu varnaraðila og gert hafi verið ráð fyrir netföngum í formi að kröfulýsingu sem varnaraðili sjálfur hafi útvegað. Eftir þessu hafi sóknaraðili farið og upplýst um tvö gild netföng. Hin meinta tilkynning um höfnun krafnanna hafi ekki verið send á þessi netföng, né heldur nein önnur eftir því sem sóknaraðili komist næst. Engu að síður hafi sóknaraðili áður fengið sendar tilkynningar frá slitastjórn þess efnis að afstöðu til krafna hans hefði verið frestað, bæði fyrir kröfuhafafund í desember 2009 og kröfuhafafund í maí 2010.
Sóknaraðili hafi haft réttmætar væntingar til þess að fá mikilvægar tilkynningar, líkt og um höfnun krafna, sendar með tölvupósti rétt eins og þær tilkynningar sem slitastjórn hafi sent sóknaraðila um frestun um töku afstöðu. Þetta misræmi varnaraðila sé óútskýrt.
Sóknaraðili verði ekki látinn bera halla af því að tilkynning um afstöðu slitastjórnar hafi ekki verið send sóknaraðila með sannanlegum hætti í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Mótmæli sóknaraðila með bréfi 28. mars 2011 séu því nægilega snemma fram komin til að þau verði tekin til greina.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því, verði fallist á að afstöðubréf varnaraðila hafi verið send með sannanlegum hætti, að kröfuhafafundinum 2. desember 2010 hafi ekki verið slitið þann dag, heldur frestað til 14. apríl 2011. Fundinum hafi því ekki verið lokið þegar mótmæli sóknaraðila hafi sannanlega borist varnaraðila.
Á þessu tvennu sé mikill greinarmunur samkvæmt íslenskum lögum. Einungis sé hægt að miða réttaráhrif um vanlýsingu við fund sem hafi verið slitið, en ekki fund sem hafi verið frestað, enda sé í slíku tilviki um sama fundinn að ræða. Því beri að líta til þess að mótmæli sóknaraðila hafi sannanlega borist fyrir þann dag sem fundi varnaraðila hafi verið frestað til og réttaráhrifin miðist við það.
Mælt sé fyrir um skiptafund til að fjalla um lýstar kröfur í 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Rætt sé um skiptafund í eintölu. Í lögunum sé engin heimild til að fjalla um lýstar kröfur á fleiri en einum skiptafundi, hvað þá með þeim hætti að útilokunaráhrif samkvæmt 3. mgr. 120. gr. sömu laga miðist við hvern stakan hluta skiptafundar.
Í samræmi við það hafi framkvæmd slitastjórnar varnaraðila verið sú að slíta ekki kröfuhafafundi, heldur að fresta honum til síðari tíma þar sem honum sé fram haldið. Kröfuhafafundinum 2. desember 2010, sem varnaraðili miði við, hafi ekki verið slitið þann dag, heldur frestað til 14. apríl 2011. Kröfuhafafundinum hafi samkvæmt því enn ekki verið lokið þegar mótmælabréf sóknaraðila 28. mars 2011 hafi sannanlega borist slitastjórn varnaraðila. Af þeim sökum byggi sóknaraðili á því að mótmæli hans hafi ekki borist síðar en á kröfuhafafundi til að fjalla um mótmæli kröfuhafa í skilningi 120. gr. laga nr. 21/1991.
Íslensk gjaldþrotalög geri aðeins ráð fyrir einum kröfuhafafundi sem halda skuli eftir að afstaða hafi verið tekin til krafna, sbr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Ekkert í lögunum heimili að haldnir séu margir skiptafundir, sem hver um sig hafi í för með sér vanlýsingaráhrif. Skýra verði þröngt þau ákvæði laganna sem hafa í för með sér vanlýsingaráhrif þar sem með þeim séu lögfest takmörk á jafnræði og eignarrétti kröfuhafa.
Um lagarök vísar sóknaraðili til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002 og laga um póstþjónustu nr. 19/2002. Krafa sóknaraðila um málskostnað er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt á málskostnað vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili vísar til þess að kröfulýsingar sóknaraðila hafi borist fyrir lok kröfulýsingarfrests 26. nóvember 2009. Varnaraðili hafi því farið yfir kröfulýsingar sóknaraðila og talið að umræddar átta skuldabréfakröfur uppfylltu ekki skilyrði varnaraðila um að verða samþykktar. Varnaraðili hafi tilkynnt sóknaraðila um höfnun krafnanna og útskýrt ástæður höfnunarinnar. Í bréfum varnaraðila hafi jafnframt komið fram hvaða afleiðingar það hefði ef afstöðu varnaraðila yrði ekki mótmælt og þar vísað sérstaklega til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili byggir á því í fyrsta lagi að tilkynning hans um afstöðu slitastjórnar hafi verið send sóknaraðila með sannanlegum hætti í samræmi við 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Tilkynningin hafi verið afhent á starfsstöð sóknaraðila 9. nóvember 2010 eða 23 dögum fyrir kröfuhafafund þar sem fjallað hafi verið um afstöðu til krafna sóknaraðila. Starfsmaður sóknaraðila hafi staðfest móttöku tilkynninganna með undirritun sinni í samræmi við afhendingarreglur DHL. Sé því sannað að afhendingin hafi farið fram 9. nóvember 2010. Því sé mótmælt að afhendingin hafi ekki farið fram á starfsstöð sóknaraðila og sé það staðfest í móttöku undirritun starfsmanns sóknaraðila, þar sem heimilisfang sóknaraðila sé skrásett sem afhendingarstaður. Sú staðhæfing sóknaraðila að afhending sendingarinnar hafi farið fram á flugvellinum Heathrow sé því röng. Rétt sé að afhendingin hafi farið fram í hverfi sem kennt sé við Heathrow, en afhendingarstaðurinn sé eftir sem áður á starfsstöð sóknaraðila þar sem starfsmaður sóknaraðila hafi skrifað undir.
Varnaraðili hafi sent tilkynningar sínar um afstöðu með póstflutningsfyrirtækinu DHL enda teldist afhending með undirskrift við hverja afhendingu nægjanleg sönnun þess að afhending hefði átt sér stað. Tölvupóstsendingar til kröfuhafa hafi þann ókost að ekki sé víst að upplýsingar nái til viðtakanda, m.a. vegna mismunandi tölvupóstvarna sem gætu hindrað sendingar auk þess sem hætta sé á að kröfuhafar hafi misritað tölvupóstfang. Þá hafi margir kröfuhafar ekki sent tölvupóstfang með kröfulýsingum sínum. Varnaraðili hafi því valið það sendingarform sem teldist öruggt og sannanlegt fyrir alla aðila. Tilkynningar hafi verið sendar með sambærilegum hætti til allra aðila sem hafi fengið senda tilkynningu um afstöðu. Þegar töku afstöðu til kröfu hafi verið frestað hafi slíkar tilkynningar verið sendar í tölvupósti, enda ekki tekin afstaða til þeirra krafna heldur einungis tilkynnt að krafan væri til meðferðar hjá slitastjórn varnaraðila og að afstaða lægi enn ekki fyrir. Allir kröfuhafar sem hafi lýst kröfu sem hafi borist fyrir 26. nóvember 2009 eigi það sameiginlegt að hafa fengið tilkynningu um afstöðu senda með sannanlegum hætti fyrir þann fund þar sem afstaðan hafi verið tekin fyrir.
Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila að afhending hafi verið ófullnægjandi þar sem umræddar tilkynningar um afstöðu hafi ekki verið stílaðar á skráðan tengilið kröfunnar. Tilkynningarnar hafi verið sendar út á nafni sóknaraðila og sendingin hafi verið móttekin af starfsmanni sóknaraðila sem staðfesti móttöku með fullnægjandi hætti og teljist hafa heimild til að taka á móti sendingunni í nafni sóknaraðila.
Varnaraðili hafnar þeirri fullyrðingu sóknaraðila að aðrar og strangari reglur eigi að gilda um afhendingu til erlendra aðila en íslenskra þar sem erfiðara sé fyrir slíkan aðila að afla sér upplýsinga um afstöðu til krafna sinna. Slík röksemdafærsla geti varla átt við í tilfelli sóknaraðila þar sem allar tilkynningar til hans hafi innihaldið skýringar á ensku auk þess sem sérstakri heimasíðu með enskum upplýsingum hafi verið komið á fót. Þar komi fram upplýsingar um hvernig lýsa beri kröfu og þar sé jafnframt sérstök læst síða eingöngu ætluð kröfuhöfum. Sóknaraðila hafi verið send notendanöfn og lykilorð fyrir allar sínar kröfur, og geti hann á síðunni nálgast kröfuskrá og aðrar upplýsingar um kröfur sínar og meðferð annarra krafna, allt á enskri tungu. Sóknaraðili hafi fengið þessar upplýsingar í sérstakri tilkynningu sem send var með frestun á töku afstöðu til umræddra krafna 4. desember 2009 og þar hafi leiðbeiningar verið veittar um hvernig komast mætti inn á vefsvæðið. Órökstutt sé af hverju strangari reglur ættu að gilda um afhendingu til erlendra kröfuhafa en innlendra, enda upplýsingaflæði með sama hætti. Hefði sóknaraðili talið sig standa verr gagnvart öðrum kröfuhöfum hefði honum verið í lófa lagið að leita lögfræðilegrar ráðgjafar varðandi slitameðferð varnaraðila. Sóknaraðili sé stór kröfuhafi í slitameðferð varnaraðila og hefði því átt að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að fylgjast vel með tilkynningum sem honum hafi verið sendar. Varnaraðili hafi t.d. sent sóknaraðila tilkynningar um afstöðu til 32 krafna 19. nóvember 2010. Fyrir fundinn 2. desember 2010 hafi sóknaraðila einnig verið send tilkynning um frestun, 25. nóvember 2010, vegna einu kröfu sóknaraðila sem hafi verið frestað, en sú krafa hefði haft kröfunúmerið CL20091123-2174. Í ljósi þeirra tilkynninga sem sóknaraðili hefði fengið frá varnaraðila hafi honum verið ljóst að koma þyrfti á framfæri mótmælum við höfnun krafna í síðasta lagi á fundinum 2. desember 2010.
Varnaraðili telur sannað að sóknaraðili hafi haft vitneskju um kröfuhafafundinn 2. desember 2010 með lögbundnum fyrirvara, þ.e. með afhendingu tilkynninganna 9. nóvember 2010, með afhendingu tilkynninga um kröfur sem samþykktar hafi verið að einhverju leyti 19. nóvember 2010 og með tölvupósti 25. nóvember 2010. Ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 sé jafnframt uppfyllt, þ.e. að kröfuskrá hafi verið send sóknaraðila með því að veita aðgang að henni í gegnum fjölda tilkynninga. Hafi sóknaraðili látið hjá líða að kanna allar kröfur sínar sé það á hans eigin ábyrgð enda ákvæði laganna skýr um að tilkynningar verði að senda með sannanlegum hætti og hafi það verið gert í tilviki sóknaraðila.
Varnaraðili telur því að afhending afstöðutilkynninganna hafi í fyrsta lagi verið fullnægjandi, í öðru lagi hafi sóknaraðili fengið tilkynningar sem veittu honum aðgang að kröfuskrá varnaraðila og í þriðja lagi hafi sóknaraðili sýnt tómlæti í að bregðast við höfnun krafnanna sem hafi valdið því að mótmæli bárust ekki í tæka tíð fyrir fund varnaraðila 2. desember 2010.
Varnaraðili telur ljóst af öllu ofangreindu að afhendingin hafi sannanlega farið fram 9. nóvember 2010 á starfsstöð sóknaraðila. Ekki hafi verið sýnt fram á að önnur gögn en umræddar tilkynningar um afstöðu frá 8. nóvember 2010 hafi verið afhent, en sóknaraðila beri sönnunarbyrði fyrir því að um önnur skjöl hafi verið að ræða. Aðrar tilkynningar um afstöðu til krafna sóknaraðila sem afhentar hafi verið fyrir kröfuhafafundinn 2. desember 2010 og ekki verið frestað hafi allar verið afhentar föstudaginn 19. nóvember 2010. Þær tilkynningar hafi verið dagsettar 16. nóvember og því ómögulegt að um aðrar tilkynningar hafi verið að ræða en tilkynningarnar átta um höfnun, sem mótteknar hafi verið af starfsmanni sóknaraðila 9. nóvember 2010.
Varnaraðili fellst ekki á þá skýringu sóknaraðila að sendingu með sannanlegum hætti megi jafna til ábyrgðarsendingar enda sé nægjanlegt að sendingin hafi farið með þeim hætti að hún sé sannanleg. Afhendingin 9. nóvember 2010 hafi þó uppfyllt skilyrði ábyrgðarsendingar þar sem sendingin sé stíluð á sóknaraðila og móttekin af starfsmanni hans sem með undirritun sinni staðfesti móttöku sendingarinnar og þar með að sendingin hafi farið fram og það með sannanlegum hætti. Þannig verði að telja að sá starfsmaður sem undirriti og staðfesti móttökuna hafi heimild til að taka við slíkri sendingu í samræmi við meðal annars 4. mgr. 4. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002.
Varnaraðili mótmælir í öðru lagi þeim málsástæðum sóknaraðila að frestun kröfuhafafundar hafi þau áhrif að mótmælafrestur kröfu, sem afstaða hafi verið tekin til fyrir hvern og einn kröfuhafafund, framlengist. Lög nr. 21/1991 útiloki ekki frestun kröfuhafafundar þegar ekki liggi fyrir afstaða til allra krafna. Reglur laga nr. 21/1991 kveði einungis á um að minnst viku frestur sé veittur til handa kröfuhafa til að koma að mótmælum fyrir kröfuhafafund og að nauðsynlegt sé að gera kröfuhafa grein fyrir réttaráhrifum þess ef mótmælum er ekki komið til varnaraðila á þeim kröfuhafafundi, sbr. 2. mgr. 119. gr. laganna. Varnaraðili hafi útlistað þessi réttaráhrif og tekið fram að réttaráhrifin miðuðust við kröfuhafafundinn 2. desember 2010.
Með orðunum ,,þeim fundi“ í 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 sé vísað til þess fundar sem tilkynningin um afstöðu vísi í. Sú staðreynd að sóknaraðili hafi ekki mótmælt fyrir kröfuhafafundinn 2. desember 2010 hafi því þau réttaráhrif að afstaða varnaraðila teljist endanlega samþykkt, sbr. 3. mgr. 120. gr. laganna. Líta verði á fundinn 2. desember 2010 sem þann fund þar sem fjallað hafi verið um skrá um umræddar átta kröfur.
Í ljósi alls þessa teljist afhending varnaraðila því hafa farið fram í samræmi við 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 og hafi sóknaraðila borið, í samræmi við 2. mgr. 119. gr. og 1. mgr. 120. gr. laganna, að koma fram mótmælum eigi síðar en á kröfuhafafundi 2. desember 2010. Beri því að staðfesta þá afstöðu varnaraðila að mótmæli sóknaraðila komist ekki að þar sem afstaða varnaraðila um að kröfunni sé hafnað teljist endanlega samþykkt við skiptin, sbr. 3. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.
Um lagarök vísar varnaraðili m.a. til laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 44. gr. laga nr. 44/2009 með síðari breytingum, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og meginreglna gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og hraða málsmeðferð. Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum nr. 50/1988.
Niðurstaða
Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að tilkynning slitastjórnar varnaraðila hafi ekki verið send sóknaraðila með sannanlegum hætti með viku fyrirvara fyrir kröfuhafafund sem haldinn var 2. desember 2010, þar sem kröfum sóknaraðila í máli þessu var hafnað.
Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, gilda ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess.
Samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal send tilkynning um afstöðu til hlutaðeigandi ,,með sannanlegum hætti“ með minnst viku fyrirvara fyrir skiptafund sem haldinn er til að fjalla um skrá um lýstar kröfur. Í stað tilkynningar getur skiptastjóri þó sent hlutaðeigandi eintak kröfuskrár, enda komi þá þar fram það sem ella hefði komið fram í tilkynningunni. Ekki er nánar kveðið á um með hvaða hætti skiptastjóri skuli senda slíkar tilkynningar, en fallist er á með sóknaraðila að sönnunarbyrði fyrir því að tilkynning hafi verið send og að það hafi verið gert með sannanlegum hætti hvíli á varnaraðila.
Í málinu liggur fyrir sérstakt form kröfulýsinga, sem varnaraðili lét útbúa fyrir kröfuhafa til lýsingar á kröfum. Þar hefur sóknaraðili gefið upp heimilisfang, 33 King William Street, London ECAR 9 AS, United Kingdom. Einnig eru þar gefin upp netföng sóknaraðila. Fyrir liggur í málinu að varnaraðili sendi tilkynningar til sóknaraðila á þessi netföng um að afstöðu til krafna sóknaraðila hefði verið frestað. Var það gert fyrir kröfuhafafund í desember 2009 og einnig fyrir kröfuhafafund í maí 2010. Jafnvel þótt varnaraðili hafi haft þann háttinn á, við tilkynningar um að afstöðu til krafna sóknaraðila hefði verið frestað, verður ekki fallist á að á honum hvíli skylda að viðhafa sömu aðferð, við tilkynningar um höfnun krafna sóknaraðila, enda hefur tilkynning um höfnun kröfu í för með sér veigamikil réttaráhrif og því brýnt að vanda til sendingar slíkra tilkynninga. Varnaraðili kveðst hafa boðsent átta bréf um höfnun krafna sóknaraðila, með hraðsendingarþjónustu DHL, en bréfin eru dagsett 8. nóvember 2010. Í bréfum þessum kemur fram hverju það varði ef ekki verði mætt af hálfu kröfuhafa á kröfuhafafund 2. desember 2010. Í gögnum málsins er að finna skjal sem ber yfirskriftina: DHL rekja feril sendinga. Þar kemur fram að farmbréfsnúmer bréfasendingar frá slitastjórn varnaraðila sé 62 7341 2180 og að bréf þetta hafi verið sent 8. nóvember 2010. Innihald sendingar er sagt vera skjöl. Samkvæmt skjali þessu var kvittað fyrir móttöku bréfsins af ,,Peter“ á móttökustað, en sendingin var stíluð á Blackrock, 33 King William Street, EC4R 9AS London, eða sama heimilisfang og sóknaraðili gaf upp við lýsingu kröfu sinnar. Á svokölluðu ,,Delivery sheet“ sem er einnig meðal gagna málsins og stafar frá hraðsendingarþjónustu DHL, kemur fram að kvittað hafi verið fyrir móttöku á skjölum, en nafn þess sem kvittar fyrir móttöku er ólæsilegt. Farmbréfsnúmer sendingar er 62 7341 2180. Sá sem afhenti bréf þetta, Akmol Hussain Aktar, starfsmaður DHL í London, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvað yfirlýsingu þá sem liggur frammi í málinu á dómskjali nr. 43 stafa frá sér og þar væri rétt eftir sér haft. Hann kvaðst hafa afhent pakka 9. nóvember 2010 á heimilisfangið 33 King William Street. Sá sem tekið hafi við pakkanum hafi verið Peter, sem hann hafi hitt nánast daglega, þegar hann fór með sendingar til sóknaraðila. Hann kvaðst þekkja Peter í sjón og stundum hafi þeir sest niður og rætt málin. Peter þessi hafi verið í einkennisbúningi merktum Blackrock og kvaðst hann oft hafa afhent Peter þessum sendingar fyrir hönd DHL.
Þegar framangreint er virt, er að mati dómsins sannað að umræddan dag, þ.e. 9. nóvember 2010, voru bréf, sem varnaraðili hafði sent, sannanlega afhent á því heimilisfangi sem sóknaraðili hafði gefið upp við kröfulýsingu sína. Telji sóknaraðili að þau bréf sem sannanlega voru afhent á því heimilisfangi, hafi ekki verið bréf varnaraðila um höfnun krafna sóknaraðila, er honum í lófa lagið að leggja fram þau skjöl sem afhent voru umræddan dag og slitastjórn varnaraðila hafði sent. Það hefur hann ekki gert.
Þegar framangreint er virt telur dómurinn að tilkynning um höfnun krafna sóknaraðila hafi verið send með sannanlegum hætti í samræmi við 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991, en auk þess eru meðal gagna málsins bréf varnaraðila til sóknaraðila frá 4. desember 2009, þar sem sóknaraðila er veittur aðgangur að kröfuskrá á lokuðu vefsvæði varnaraðila og lykilorð sóknaraðila vegna hverrar kröfu tilgreint. Í ljósi alls þessa telur dómurinn hafið yfir vafa að sóknaraðila hafi verið tilkynnt um þá afstöðu slitastjórnar að hafnað væri þeim átta kröfum sem mál þetta lýtur að, með sannanlegum hætti og í samræmi við 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 telst afstaða skiptastjóra til viðurkenningar kröfu endanlega samþykkt, komi ekki fram mótmæli við afstöðu hans á fundi sem haldinn er til að fjalla um skrá um lýstar kröfur. Eins og fram er komið er það niðurstaða dómsins að sóknaraðila hafi borist bréf, þar sem tilkynnt var um afstöðu til krafna sóknaraðila, með lögbundnum fyrirvara, í samræmi við 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991, auk þess sem fram er komið að sóknaraðili hafði aðgang að kröfuskrá á lokuðu vefsvæði varnaraðila. Í bréfum þessum er skýrlega tekið fram hverju það varði, verði afstöðu skiptastjóra ekki mótmælt á skiptafundi sem haldinn verði til að fjalla um skrá um lýstar kröfur. Sá fundur var haldinn 2. desember 2010. Bar sóknaraðila því að bera fram mótmæli, eigi síðar en á þeim fundi, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, en engu breytir í þessu sambandi hvort þeim fundi var frestað eða honum slitið. Sóknaraðila mátti vera ljóst, í ljósi bréfa þeirra sem varnaraðili sendi honum um höfnun krafna hans, hverju það varðaði ef hann mótmælti ekki höfnun krafna varnaraðila, í síðasta lagi á boðuðum skiptafundi, 2. desember 2010.
Með vísan til alls framangreinds, er hafnað þeirri kröfu sóknaraðila að viðurkennt verði að mótmæli hans við afstöðu slitastjórnar varnaraðila vegna krafna CL20091123-2189, CL20091123-2193, CL20091123-2195, CL20091123-2200, CL20091123-2203, CL20091123-2211, CL20091123-2213 og CL20091123-2217 hafi verið móttekin áður en frestir samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 runnu út og að slitastjórn varnaraðila beri að taka efnislega afstöðu til krafnanna.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála greiði sóknaraðili varnaraðila 750.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Heiðar Ásberg Atlason hæstaréttarlögmaður.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Helgi Pétur Magnússon héraðsdómslögmaður.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu sóknaraðila, BlackRock, um að viðurkennt verði að mótmæli hans við afstöðu slitastjórnar varnaraðila, Glitnis hf., til krafna CL20091123-2189, CL20091123-2193, CL20091123-2195, CL20091123-2200, CL20091123-2203, CL20091123-2211, CL20091123-2213 og CL20091123-2217 hafi verið móttekin áður en frestir samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 runnu út, og að slitastjórn varnaraðila beri að taka efnislega afstöðu til krafnanna, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 750.000 krónur í málskostnað.