Hæstiréttur íslands
Mál nr. 360/2009
Lykilorð
- Vextir
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2010. |
|
Nr. 360/2009. |
Kristín Erla Ólafsdóttir (Heimir Örn Herbertsson hrl.) gegn Pálma Guðmundssyni og Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Vextir. Fyrning.
K varð fyrir meiðslum í umferðarslysi í júní 2003. Ágreiningslaust var að ökumaður bifreiðar, sem tryggð var ábyrgðartryggingu hjá T, bar alla sök á árekstrinum. K krafði T um bætur á grundvelli mats 14. apríl 2005, sem T og K höfðu sameiginlega óskað eftir, en gerði fyrirvara um að hún hygðist afla nýs mats. T bauð fram innborgun þar til málið yrði endanlega gert upp og greiddi tvisvar upp í væntanlegar bætur. K fór þess á leit 3. mars 2008 að dómkvaddir yrði tveir menn til að meta afleiðingar slyssins og í október sama ár greiddi T bætur í samræmi við þessa matsgerð að teknu tilliti til fyrri innborgana. Aðila greindi á um upphafstíma dráttarvaxta og hvort hluti vaxta væri fyrndur. Að öðru leyti voru aðilar sammála um að bætur væru að fullu upp gerðar. Talið var að sú ákvörðun T að greiða ekki bætur að fullu samkvæmt fyrra matinu vegna þess að þær gætu hugsanlega lækkað við boðaða síðari matsgerð hlyti að öðru jöfnu að vera á áhættu félagsins hvað upphafstíma dráttarvaxta varðaði. Til hins yrði þó að líta að K hefði dregið í tæp þrjú ár að biðja um dómkvaðningu til þess mats sem hún boðaði í maí 2005. Þótti ástæðulaus dráttur á að leita dómkvaðningar matsmanna slíkur að beita yrði heimild í 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og miða upphaf dráttarvaxta við þann tíma er mánuður var liðinn frá því K krafðist bóta samkvæmt síðara matinu. Þá var talið ljóst að það hefði verið sameiginlegur skilningur aðila að greiðslur T væru upp í kröfur vegna tilgreindra bótaþátta. K hefði því ekki verið heimilt að ráðstafa þeim upp í vexti. Jafnframt væri ljóst að þessar innágreiðslur hefðu ekki falið í sér viðurkenningu á þeirri kröfu sem síðar var höfð uppi á grundvelli mats hinna dómkvöddu manna og hefðu því ekki slitið fyrningu. Voru T og P því sýknaðir af kröfu K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. júní 2009. Hún krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér óskipt 3.820.249 krónur með 4,5% ársvöxtum af 825.910 krónum frá 26. júní 2003 til 26. ágúst sama ár og af 3.820.249 krónum frá þeim degi til 12. júní 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.923.571 krónu frá þeim degi til 8. september 2008 og af 3.820.249 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum greiðslum stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. 4. janúar 2005 að fjárhæð 200.000 krónur, 9. júní 2005 að fjárhæð 2.000.000 krónur, 12. júní 2006 að fjárhæð 53.100 krónur og 6. október 2008 að fjárhæð 1.923.959 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi varð fyrir meiðslum í umferðarslysi 26. júní 2003. Hún var farþegi í bifreið sem lenti í árekstri og er ágreiningslaust að ökumaður hinnar bifreiðarinnar bar alla sök á árekstrinum. Sú bifreið var tryggð ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf., en stefndi Pálmi var eigandi hennar.
Í júní 2004 fóru áfrýjandi og stefndi Tryggingamiðstöðin hf. þess á leit að læknir og lögfræðingur legðu mat á afleiðingar slyssins fyrir áfrýjanda og skiluðu þeir matsgerð 14. apríl 2005. Niðurstaða matsgerðarinnar var að heilsufar áfrýjanda hefði verið orðið stöðugt tveim mánuðum eftir slysið, að tímabil þjáninga væri tveir mánuðir án rúmlegu og að tímabundið atvinnutjón áfrýjanda hefði verið 100% í tvær vikur eftir slysið og síðan 50% í sex vikur. Varanlegur miski áfrýjanda var metinn 8 stig en varanleg örorka 8%. Með bréfi 12. maí 2005 krafði lögmaður áfrýjanda stefnda Tryggingamiðstöðina hf. um bætur á grundvelli matsins, en gerði í bréfinu svofelldan fyrirvara: „Tekið skal fram að umbjóðandi minn telur að matsmenn vanmeti verulega afleiðingar slyssins. Hyggst hún afla nýs mats en mun taka við bótum frá félaginu að svo stöddu með fyrirvara um alla þætti.“ Ágreiningslaust er að fullar bætur til handa áfrýjanda á grundvelli matsins hefðu verið 2.923.571 króna. Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. svaraði bréfi áfrýjanda 27. maí 2005. Í bréfinu var tekið fram að þar sem tjónþoli teldi niðurstöðu matsins ranga og hygðist afla nýs mats væri það álit félagsins að málið sé „í raun ekki tækt til uppgjörs“. Í „ljósi stöðunnar“ byði félagið engu að síður innborgun að fjárhæð 2.000.000 krónur þar til málið yrði endanlega gert upp. Síðar gaf félagið þá skýringu að með þessari fjárhæð hafi verið tekið mið af 5 miskastigum og 5% örorku áfrýjanda. Greiðsla í samræmi við tilboðið í bréfinu 27. maí var innt af hendi 9. júní 2005 og kemur fram í tjónskvittun að um sé að ræða óskilgreinda innborgun inn á væntanlegar bætur vegna örorku, miska og þjáninga, en 4. janúar 2005 hafði félagið greitt 200.000 krónur upp í væntanlegar bætur.
Með bréfi 3. mars 2008 fór áfrýjandi þess á leit að dómkvaddir yrðu tveir menn til að meta afleiðingar slyssins. Voru læknir og lögfræðingur dómkvaddir til verksins 11. apríl sama ár. Í matsgerð þeirra 30. júní 2008 kemur meðal annars fram að eftir að fyrri matsgerð lá fyrir hafi áfrýjandi leitað til heilsugæslustöðvar í heimabyggð sinni þrisvar sinnum, til kírópraktors í sjö skipti og farið fjórtán sinnum í sjúkraþjálfun. Niðurstaða hinna dómkvöddu manna var hin sama og í fyrra mati að því er varðaði batahvörf, tímabil þjáninga og tímabundið atvinnutjón, en þeir mátu varanlegan miska áfrýjanda 10 stig og varanlega örorku hennar 10%. Virðist ljóst að munurinn á niðurstöðu matsgerðanna byggist fyrst og fremst á því að í fyrra matinu töldu matsmenn að einkenni áfrýjanda frá hálsi væru „tæplega rekjanleg til slyssins“, en hinir dómkvöddu matsmenn töldu að taka bæri að hluta tillit til þessara einkenna. Áfrýjandi gerði kröfu um bætur á grundvelli matsins með bréfi 8. ágúst 2008, sem stefndi Tryggingamiðstöðin hf. svaraði 8. september sama ár. Félagið greiddi síðan bætur 6. október 2008 í samræmi við matsgerð hinna dómkvöddu manna að teknu tilliti til fyrri innborgana.
II
Ágreiningur aðila er tvíþættur. Annars vegar greinir þá á um skyldu stefndu til greiðslu dráttarvaxta frá 12. júní 2005 af bótum til handa áfrýjanda í samræmi við niðurstöðu fyrra matsins, en þá var mánuður liðinn frá því áfrýjandi krafðist bóta á grundvelli þess. Hins vegar telja stefndu að vextir sem eldri voru en fjögurra ára þegar málið var höfðað 14. nóvember 2008 séu fyrndir. Að öðru leyti eru aðilar sammála um að bætur séu að fullu upp gerðar.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. þágildandi laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga mátti krefja greiðslu bóta 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að afla þeirra upplýsinga, er þörf var á til að meta vátryggingaratburðinn og ákveða upphæð bótanna. Í 2. mgr. sömu greinar var kveðið á um að ef augljóst væri orðið, áður en endanleg ákvörðun bótanna gæti átt sér stað, að félaginu bæri að minnsta kosti að greiða nokkurn hluta upphæðar þeirrar, er það væri krafið um, mætti krefjast greiðslu á þeim hluta hennar samkvæmt reglum 1. mgr. Þá er í 9. gr. laga nr. 38/2001 kveðið á um að skaðabótakröfur skuli bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, en dómstólar geta ef sérstaklega stendur á ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta.
Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. stóð að því í júní 2004 ásamt áfrýjanda að biðja um fyrra matið. Það er því ljóst að félagið taldi heilsufar áfrýjanda orðið stöðugt og mat tímabært. Af hálfu stefndu var heldur ekki bent á neinn ágalla á matinu eða því haldið fram af þeirra hálfu að tjón áfrýjanda hafi þar verið ofmetið. Samkvæmt þessu er ljóst að með matsgerðinni voru fullnægjandi gögn komin fram til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta í skilningi fyrrgreindra lagaákvæða. Breytir fyrirvari áfrýjanda í bréfi 12. maí 2005, sem að framan er getið, engu þar um. Sú ákvörðun félagsins að greiða ekki bætur að fullu samkvæmt matinu vegna þess að þær gætu hugsanlega lækkað við boðaða síðari matsgerð hlaut því að öðru jöfnu að vera á áhættu félagsins hvað upphafstíma dráttarvaxta varðaði.
Til hins verður þó að líta að áfrýjandi dró í tæp þrjú ár að biðja um dómkvaðningu til þess mats sem hún boðaði í bréfinu 12. maí 2005. Hefur hún engin haldbær rök fært fyrir því að þessi dráttur hafi verið óhjákvæmilegur. Eins og að framan er rakið leitaði áfrýjandi að sönnu til heilsugæslu, kírópraktors og sjúkraþjálfara á þessu tímabili en jafnframt liggur fyrir að hún leitaði þá ekki til sérfræðilækna er leitt gætu fram nýjar upplýsingar við mat á afleiðingum slyssins. Þá er ljóst að hinir dómkvöddu matsmenn miðuðu batahvörf við 26. ágúst 2003, eins og gert var í fyrra matinu, og að mat dómkvaddra manna var reist á þeim afleiðingum slyssins sem fram voru komnar við fyrra matið. Er ástæðulaus dráttur á að leita dómkvaðningar matsmanna slíkur að beita verður heimildinni í lokamálslið 9. gr. laga nr. 38/2001 og miða upphaf dráttarvaxta við þann tíma er mánuður var liðinn frá því að áfrýjandi krafðist bóta samkvæmt mati hinna dómkvöddu manna.
Samkvæmt 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem eiga við um kröfu áfrýjanda, fyrnast kröfur um gjaldkræfa vexti á fjórum árum og samkvæmt 6. gr. laganna rýfur viðurkenning á skuld fyrningu. Stefndu telja vexti sem eldri voru en fjögurra ára við stefnubirtingu fyrnda, en áfrýjandi telur að með innborgunum stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. inn á kröfuna hafi fyrning vaxtanna verið rofin. Eins og að framan er rakið var tilgreint í tjónskvittun vegna greiðslunnar 9. júní 2005 að greitt væri inn á örorku, miska og þjáningar. Meðal gagna málsins er greiðsluyfirlit stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. 8. september 2008 og er þar sambærileg tilgreining varðandi allar innborganir vegna tjóns áfrýjanda. Í bréfi lögmanns áfrýjanda 8. ágúst 2008 kemur skýrlega fram að umræddar innborganir hafi verið „uppí örorku/miska/þjáningabætur til umbjóðanda“ hans. Af þessu er ljóst að það var sameiginlegur skilningur aðila að greiðslurnar væru upp í kröfur vegna tilgreindra bótaþátta. Áfrýjanda var því ekki heimilt að ráðstafa þeim upp í vexti. Þá er ljóst að þessar innágreiðslur fólu ekki í sér viðurkenningu á þeirri kröfu sem síðar var höfð uppi á grundvelli mats hinna dómkvöddu manna og slitu því ekki fyrningu samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905.
Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Þá verða staðfest ákvæði hans um málskostnað og gjafsóknarkostnað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Kristínar Erlu Ólafsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2009.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 28. apríl 2009, var höfðað 14. nóvember 2008. Stefnandi er Kristín Erla Ólafsdóttir, Sléttahrauni 32, Hafnarfirði en stefndu eru Pálmi Guðmundsson, Sogavegi 123, Reykjavík og Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda skaða- og miskabætur að fjárhæð 3.820.249 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 825.910 krónum frá 26. júní 2003 til 26. ágúst 2003 en af 3.820.249 krónum frá þeim degi til 12. júní 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.923.571 krónu frá þeim degi til 8. september 2008 en af 3.820.249 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Til frádráttar komi greiðslur stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf., 200.000 krónur sem greiddar voru 4. janúar 2005, 2.000.000 króna sem greiddar voru 9. júní 2005, 53.100 krónur sem greiddar voru 12. júní 2006 og 1.923.959 krónur sem greiddar voru 6. október 2008. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða henni málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið sé ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefndu eru aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað. Til vara krefjast þeir þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður verði felldur niður.
II
Málavextir eru þeir helstir að stefnandi lenti í umferðarslysi 26. júní 2003 er hún var farþegi bifreiðarinnar UM-887 sem lenti í árekstri við bifreiðina ZY-110. Sú bifreið var tryggð lögbundinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. Er ekki ágreiningur um að ökumaður ZY-110 bar alla sök á árekstrinum og eigandi þeirrar bifreiðar var stefndi Pálmi.
Aðilar sammæltust um að leita til Jónasar Hallgrímssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. um að þeir mætu afleiðingar slyssins. Matsmenn skiluðu matsgerð 14. apríl 2005 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að tímabundið atvinnutjón stefnanda væri 100% í tvær vikur og 50% í sex vikur, þjáningatímabil væri tveir mánuðir án rúmlegu og batahvörf væru 26. ágúst 2003. Þá mátu þeir varanlegan miska 8 stig og varanlega örorku 8%.
Með bréfi lögmanns stefnanda 12. maí 2005 var farið fram á uppgjör á grundvelli fenginna niðurstaðna samkvæmt framangreindri matsgerð. Heildarkrafa stefnanda sem sett var fram í bréfinu var að fjárhæð 3.289.928 krónur auk 4,5% vaxta og lögmannsþóknunar og áréttað að dráttarvaxta yrði krafist frá 12. júní 2005. Í bréfinu var tekið fram að stefnandi teldi að matsmenn hefðu vanmetið verulega afleiðingar slyssins og að stefnandi hygðist afla nýs mats en taka við bótum frá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. að svo stöddu með fyrirvara um alla þætti.
Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. taldi málið ekki tækt til uppgjörs vegna fyrirvara stefnanda en með bréfi til lögmanns stefnanda 27. maí 2005 bauðst félagið til að greiða stefnanda 2.000.000 króna sem innborgun inn á kröfu stefnanda þar til málið yrði endanlega gert upp. Hinn 9. júní 2005 greiddi stefndi Tryggingamiðstöðin hf. 2.000.000 króna inn á kröfu stefnanda en áður, hinn 4. janúar 2005 hafði félagið greitt 200.000 krónur inn á líkamstjón stefnanda. Þá hafði félagið einnig áður greitt stefnanda vegna sjúkraþjálfunar samtals 79.158 krónur.
Stefnandi fékk leyfi til gjafsóknar í máli þessu 18. desember 2007. Hinn 3. mars 2008 fór hún fram á dómkvaðningu matsmanna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að meta afleiðingar slyssins. Hinn 11. apríl 2008 voru Atli Þór Ólason læknir og Sigurður B. Halldórsson hrl. dómkvaddir sem matsmenn og skiluðu þeir matsgerð sem dagsett er 30. júní 2008. Þar var komist að sömu niðurstöðu og í fyrra mati hvað varðar tímabundið atvinnutjón og þjáningatímabil en varanlegur miski var metinn 10 stig og varanleg örorka 10%.
Lögmaður stefnanda sendi stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. bréf 8. ágúst 2008 og setti þar meðal annars fram kröfu um bætur á grundvelli hins nýja mats auk þess sem hann krafðist 4,5% vaxta frá slysdegi, dráttarvaxta og málskostnaðar. Þá boðaði hann að krafist yrði dráttarvaxta af heildarkröfunni frá 8. september 2008. Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. svaraði með bréfi 8. september 2008 og setti fram tillögur að uppgjöri. Hafnaði félagið dráttarvaxtakröfunni og kvað vexti frá fyrri tíma en 8. september 2004 vera fyrnda. Málið var í framhaldinu gert upp á forsendum stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. sem hinn 6. október 2008 greiddi stefnanda 55.264 krónur vegna tímabundins tjóns og 2.242.011 krónur í aðrar bætur þar með talið vextir og lögmannskostnaður og tók stefnandi á móti greiðslunni með fyrirvara um rétt til dráttarvaxta og um metnar afleiðingar slyssins.
Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. telur að stefnandi hafi fengið fullnaðarbætur vegna meiðsla sinna og eigi hún því ekki rétt á frekari greiðslum vegna þeirra en stefnandi telur sig hins vegar eiga rétt á að fá dráttarvexti greidda úr hendi stefndu og um það snýst megin ágreiningur í málinu. Þá telja stefndu að vextir áfallnir fyrir 14. nóvember 2004 séu fyrndir.
III
Stefnandi kveður réttarágreining aðila eingöngu snúast um dráttarvexti einkum um dráttarvexti frá 12. júní 2005 til 8. september 2008. Hún hafi gert bótakröfu á hendur hinu stefnda tryggingarfélagi í maí 2005 sem tekið hafi mið af niðurstöðum matsmannanna Jónasar Hallgrímssonar og Ingvars Sveinbjörnssonar. Hafi stefndi hafnað bótagreiðslu á þeim grundvelli að stefnandi gerði fyrirvara um metnar afleiðingar slyssins. Þegar nýtt mat Atla Þórs Ólasonar og Sigurðar B. Halldórssonar lá fyrir 30. júní 2008 hafi komið í ljós að stefnandi ætti tilkall til enn hærri bóta en krafist hafði verið og því hefði stefndi Tryggingamiðstöðin hf. einungis greitt hluta tjónsins. Hafi því komið á daginn að sjónarmið stefnanda um vanmat á afleiðingum slyssins hefðu átt við rök að styðjast og hafi síðara örorkumati ekki verið hnekkt.
Stefnandi byggir á því að stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hafi, þegar krafa stefnanda var sett fram 12. maí 2005, átt að greiða þá fjárhæð sem félagið hafi talið lögmæta á grundvelli mats Jónasar og Ingvars en ella bera áhættuna af því að dráttarvextir yrðu lagðir ofan á alla kröfu stefnanda. Hafi stefndi Tryggingamiðstöðin hf. tekið áhættuna af því að greiða einungis hluta kröfunnar. Sé ljóst að félagið hafi haft allar forsendur til að meta vátryggingaratburðinn og taka afstöðu til fjárhæðar bóta. Vísi stefnandi hér til 24. gr. eldri laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 sem um lögskiptin gildi. Enn fremur sé vísað til meginreglna skaðabótaréttar og kröfuréttar sem leiði til sömu niðurstöðu.
Um tölulegar forsendur dómkröfunnar bendi stefnandi á að krafa hennar taki mið af þjáningabótum, bótum vegna varanlegs miska og bótum vegna varanlegrar örorku en ekki sé ágreiningur um fjárhæðir þessara bóta í málinu. Þegar krafa stefnanda hafi verið sett fram með bréfi 12. maí 2005 hafi hún tekið mið af lánskjaravísitölu þess tíma, sbr. 15. gr. skaðabótalaga. Þannig hafi rétt reiknaðar þjáningabætur verið 62.220 krónur, miskabætur 465.880 krónur og bætur vegna varanlegrar örorku 2.395.471 króna. Bætur vegna varanlegrar örorku byggist á lágmarkslaunum, sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og sé fjárhæðin, uppfærð til stöðugleikatímapunkts 1.635.000 krónur. Heildarfjárhæð sem stefnandi telur að stefndi hafi átt að greiða að undangengnu kröfubréfi 12. maí 2005 sé því 2.923.571 króna. Hafi það því verið réttmæt krafa á grundvelli mats Jónasar Hallgrímssonar og Ingvars Sveinbjörnssonar og sé ekki ágreiningur um tölulegar forsendur kröfunnar. Sé krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð þegar mánuður hafi verið liðinn frá kröfubréfinu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eða frá 12. júní 2005 til 8. september 2008 þegar mánuður hafi verið liðinn frá því að stefnandi setti fram nýja kröfu.
Eftir að matsgerð Atla Þórs Ólasonar og Sigurðar B. Halldórssonar lá fyrir sé réttmæt krafa stefnanda 3.820.249 krónur og sé ekki ágreiningur um þá fjárhæð, enda hafi stefndi Tryggingamiðstöðin hf. greitt hana til stefnanda. Sundurliðist fjárhæðin þannig að 79.910 krónur séu þjáningabætur, 746.000 krónur séu bætur vegna varanlegs miska og 2.994.339 krónur séu bætur vegna varanlegrar örorku. Krafist sé dráttarvaxta af heildarfjárhæðinni þegar mánuður hafi verið liðinn frá kröfubréfi stefnanda 8. ágúst 2008.
Af hálfu stefnanda sé tekið tillit til innborgana stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. sem stefnandi telji sig geta ráðstafað fyrst upp í vexti í þeim tilvikum að ekki sé tilgreint með skýrum hætti upp í hvaða liði greiðslunum hafi verið varið. Innborganir hafi verið eftirfarandi: 200.000 krónur sem greiddar hafi verið 4. janúar 2005, 2.000.000 króna sem greiddar hafi verið 9. júní 2005, 53.100 krónur sem greiddar hafi verið 12. júní 2006 og 1.923.959 krónur sem greiddar hafi verið 6. október 2008. Síðastnefnda talan sé fengin frá skaðabótakvittun stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. sem dagsett sé 6. október 2008. Ekki séu allir vextir sem þar séu tilgreindir dregnir frá þar sem hluti þeirra, eða 10.647 krónur séu vegna tímabundins atvinnutjóns sem sé ekki til umfjöllunar í máli þessu. Fjárhæðin 10.647 krónur taki mið af því sem fram komi í bréfi starfsmanns stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. 6. október 2008.
Krafist sé 4,5% vaxta á grundvelli 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 áður en til dráttarvaxta komi. Þannig sé krafist vaxta af þjáningabótum og miska frá slysdegi til stöðugleikatímapunkts sem var 26. ágúst 2003. Frá þeim degi sé krafist 4,5% vaxta af sömu fjárhæð og að auki vegna bóta vegna varanlegrar örorku til upphafsdags dráttarvaxta. Hafi stefndi Tryggingamiðstöðin hf. viðurkennt greiðslu 4,5% vaxta á fjárhæðina á grundvelli síðari matsgerðar málsins.
Um málskostnað vísar stefnandi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr., og telji stefnandi að taka verði tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar að stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hafi ekki orðið við ítrekuðum óskum stefnanda um greiðslu sem hún hugðist taka við með fyrirvara. Um ábyrgð stefnda Pálma sé vísað til 90., sbr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Krafan á hendur stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. byggi á 91. gr. umferðarlaganna en bifreið stefnda Pálma hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá félaginu. Stefnda Pálma sé stefnt ásamt stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. vegna beinna lagafyrirmæla 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga.
IV
Stefndu kveða að í máli þessu sé ekki deilt um bótaskyldu og sé hún viðurkennd. Hafi stefndi Tryggingamiðstöðin hf. þegar greitt stefnanda bætur grundvallaðar á örorkumati þeirra Sigurðar B. Halldórssonar og Atla Þórs Ólasonar læknis. Ágreiningur máls þessa snúist um það hvort stefnandi eigi rétt á dráttarvöxtum af tilteknum fjárhæðum frá 12. júní 2005 til greiðsludags, en þann dag hafi verið einn mánuður liðinn frá dagsetningu fyrra kröfubréfs stefnanda 12. maí 2005.
Sýknukrafa stefndu byggi á því að krafa stefnanda um dráttarvexti frá 12. júní 2005 eigi ekki við rök að styðjast. Vafalaust sé að á þeim tímapunkti hafi gagnaöflun í málinu ekki verið lokið, en stefnandi hafi lýst því yfir í kröfubréfinu 12. maí 2005 að hún hygðist ekki una fyrirliggjandi örorkumati heldur fara fram á nýtt mat. Hafi komið á daginn að svo væri og hafi stefnandi aflað nýrrar matsgerðar dómkvaddra manna sem skilað hafi sinni matsgerð 30. júní 2008. Hafi bætur til stefnanda verið miðaðar við niðurstöðu þess mats. Það sé skoðun stefndu að lagaskilyrði séu ekki til þess að dæma dráttarvexti fyrr enn gagnaöflun teljist lokið og það hafi því fyrst verið einum mánuði eftir síðara kröfubréfið frá 8. ágúst 2008 sem slíkt hafi getað komið til álita, sbr. til dæmis 5. gr. laga 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en hér beri þó að hafa í huga að tekið hafi verið við greiðslunni 6. október 2008, með fyrirvara um afleiðingar slyssins, þannig að í raun sé ekki einu sinni hægt að miða upphafstíma dráttarvaxta við þann dag.
Stefndu telja að með greiðslu 200.000 króna hinn 4. janúar 2005 og 2.000.000 króna hinn 9. júní 2005 hafi stefndu verið að fullnægja ákvæðum 2. mgr. 24. gr. þágildandi vátryggingasamningalaga nr. 20/1954 og sé tilvísun stefnanda í 1. mgr. sömu greinar því á misskilningi byggð og henni mótmælt. Greiðslur þessar hafi verið vegna örorku, miska og þjáningabóta og greinilega merktar sem slíkar. Það sé því rangt sem fram komi í stefnunni að stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hafi tekið áhættu með því að greiða aðeins hluta kröfu stefnanda eins og hún hafi verið sett fram í bréfinu 12. maí 2005 og sé því mótmælt.
Ekki sé á það fallist að það að hinir dómkvöddu matsmenn hafi hækkað upphaflegt mat um 2 % eigi að leiða til þess að dráttarvaxtakrafan verði virk frá 12. júní 2005, eins og kröfugerð stefnanda geri ráð fyrir, einkum og sér í lagi þegar hækkunin sé vegna mismunandi skoðana matsmanna á þætti slyssins í hálsóþægindum stefnanda. Í fyrri matsgerð hafi tenglum þeirra við slysið verið hafnað en í þeirri síðari hafi matsmenn talið þau vera afleiðingu slyssins.
Þá sé ranglega fullyrt í stefnu að stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hafi neitað stefnanda um að gera upp með fyrirvara þegar upphaflegt kröfubréf, dagsett 12. maí 2005, hafi borist félaginu. Eins og fram komi í bréfi félagsins 27. maí 2005 hafi félagið talið málið ekki tækt til uppgjörs í ljósi fyrirætlana stefnanda varðandi afleiðingar slyssins.
Varðandi varakröfu um lækkun á kröfum stefnanda vísist fyrst og fremst til raka fyrir sýknukröfunni. Þá séu vextir áfallnir fyrir 14. nóvember 2004 eru fyrndir , sbr. 2.tl. 3. gr. l. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.
V
Samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu skulu skaðabótakröfur bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Þá segir þar að dómstólar geti þó ef sérstaklega standi á ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta.
Stefnandi byggir á því að þegar hann setti fram kröfur sínar með bréfi 12. maí 2005 hafi legið fyrir allar upplýsingar og gögn til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. telur hins vegar að með þeim fyrirvara, sem stefnandi setti fyrir móttöku greiðslu á grundvelli kröfu sinnar, um að hún hygðist afla nýs mats þar sem hún teldi matsmenn hafa vanmetið afleiðingar slyssins verulega, hefði ekki verið unnt að gera málið upp. Því hafi hann greitt innborgun inn á kröfuna að fjárhæð 2.200.000 krónur, enda gæti niðurstaða nýrrar matsgerðar hvort heldur leitt til hækkunar eða lækkunar og því taldi hann óeðlilegt að gera málið upp í samræmi við niðurstöðu hins fyrra mats. Kemur fram í gögnum málsins að greiðsla þessi væri miðuð við 5% örorku og 5 stiga miska sem stefndi Tryggingamiðstöðin hf. teldi lægri mörk bótagreiðslu í málinu miðað við fyrirliggjandi gögn.
Þykir blasa við að með þeim afdráttarlausa fyrirvara sem stefnandi setti við greiðslu á grundvelli matsgerðar Jónasar Hallgrímssonar og Ingvars Sveinbjörnssonar lýsti hún því í raun yfir að hún féllist ekki á niðurstöður matsins og var því eðlilegt að stefndi Tryggingamiðstöðin hf. teldi sig ekki geta gert, kröfu stefnanda sem byggðist á matinu, upp að fullu. Félagið hins vegar greiddi upp í tjónið, sbr. 2. mgr. 24. gr. þágildandi laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, sem segir að ef augljóst er áður en endanleg ákvörðun bóta geti átt sér stað, beri tryggingafélagi að minnsta kosti að greiða nokkurn hluta þeirrar upphæðar sem það er krafið um. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið og þeirrar staðreyndar að stefnandi lét hjá líða í tæp þrjú ár að afla nýrrar matsgerðar sem hún hafði boðað að hún hygðist gera í bréfi sínu 12. maí 2005, verða stefndu ekki dæmdir til að greiða dráttarvexti af kröfum stefnanda.
Stefnandi gerir kröfu um greiðslu 4,5% vaxta af kröfunni frá slysdegi 26. júní 2003 til 12. júní 2005. Mál þetta var höfðað eins og áður segir hinn 14. nóvember 2008. Samkvæmt 2. tl. 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda fyrnast kröfur um gjaldkræfa vexti á fjórum árum og er því ljóst að krafa vegna eldri vaxta en frá 14. nóvember 2004 voru fyrndir þegar mál þetta var höfðað enda hafi fyrningu ekki verið slitið. Í málinu liggur fyrir greiðsluyfirlit yfir þær greiðslur sem stefndi Tryggingamiðstöðin hf. greiddi inn á kröfur stefnanda frá 29. október 2004 til 5. október 2007. Af því yfirliti má ráða að innborganir voru vegna örorku, miska og þjáninga. Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum verður ekki séð að greiðslur stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar hf. inn á kröfur stefnanda á þessu tímabili hafi falið í sér viðurkenningu á þeirri kröfu sem nú er höfð uppi og var því fyrningu kröfunnar ekki slitið með þeim samkvæmt 6. gr. þágildandi fyrningalaga.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verða stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt með hliðsjón af atvikum öllum rétt að málskostnaður falli niður í máli þessu. Gjafsóknarkostnaður stefnanda sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar sem þykir hæfilega ákveðin 600.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.
Af hálfu stefnanda flutti málið Arnar Þór Stefánsson hdl. en af hálfu stefndu flutti málið Guðmundur Pétursson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Pálmi Guðmundsson og Tryggingamiðstöðin hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Kristínar Erlu Ólafsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 600.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.