Hæstiréttur íslands

Mál nr. 296/2002


Lykilorð

  • Leigusamningur
  • Lausafé


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. desember 2002.

Nr. 296/2002.

Íslenska kvikmyndasamsteypan ehf.

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Storm ehf.

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

 

Leigusamningur. Lausafé.

S leigði Í nánar tiltekin tæki til kvikmyndatöku. Umsaminn leigutími var frá 10. til 12. júlí 1999 og skyldi skila búnaðinum 13. sama mánaðar. Í framleigði búnaðinn erlendu félagi. Búnaðinum var aldrei skilað og í ljós kom að svik voru í tafli og erlenda félagið ekki til. Þann 6. september sama árs veitti S viðtöku nýjum búnaði í stað þess, sem leigt hafði verið. Krafðist S leigugjalds vegna tækjanna til þess tíma. Talið var, að almennt væri óheimilt að framleigja hlut sem tekinn hefur verið á leigu, án samþykkis leigusala. Yrði Í að bera hallann af því að ósannað var að S hafi samþykkt framleiguna. Fari leigutaki út fyrir heimildir sínar varðandi meðferð leiguhlutar, þar á meðal með óheimilli framleigu hans, beri hann fébótaábyrgð vegna þess tjóns leigusala, sem af hlýst. Hins vegar verði því ekki fundin lagastoð að óheimil meðferð leigutaka á leiguhlut valdi því að leigusali geti krafið leigutaka um greiðslu leigu vegna hlutarins eftir lok umsamins leigutíma og eftir að hluturinn ferst eða týnist og leigunotum lýkur. Ljóst var að krafa S í málinu væri leigukrafa en ekki skaðabótakrafa og var ekki fallist á, að S gæti átt leigukröfu á Í vegna tímans eftir að hið leigða hvarf. Þá var ekki heldur fallist á að Í hafi samþykkt leigukröfu S. Var Í sýknað af kröfu S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi eru málavextir þeir að stefndi leigði áfrýjanda nánar tiltekin tæki til kvikmyndtöku. Samningur um leigu tækja þessara liggur ekki fyrir, en ekki er ágreiningur um að umsaminn leigutími hafi verið frá 10. til 12. júlí 1999, að búnaðinum skyldi skila að morgni 13. sama mánaðar, að umsamið leigugjald var 150.000 krónur auk virðisaukaskatts og að áfrýjandi greiddi það fyrirfram. Áfrýjandi framleigði búnaðinn erlendu félagi. Búnaðinum var aldrei skilað. Kom í ljós að svik voru í tafli og erlenda félagið ekki til. Áfrýjandi heldur því fram að búnaðurinn hafi verið framleigður með vitund og samþykki stefnda, en stefndi kveðst hvorki hafa vitað um né samþykkt framleiguna. Áfrýjandi kveðst hafa tilkynnt stefnda strax 13. júlí 1999 að tækjunum hafi verið stolið og hefur því ekki verið mótmælt. Með bréfi 9. ágúst 1999 krafði stefndi áfrýjanda um leigu vegna búnaðarins, sem hann taldi þá á fallna, og tók jafnframt fram að hann teldi leigugjald „í gildi þar til viðkomandi tæki eða nýju verður skilað inn.“ Þann 6. september sama árs veitti stefndi viðtöku nýjum búnaði í stað þess, sem leigt hafði verið. Meðal gagna málsins er „afhendingarseðill“ dagsettur þann dag, þar sem stefndi kvittaði fyrir móttöku nýja búnaðarins en gerði jafnframt kröfu á hendur áfrýjanda um leigugjald, 50.000 krónur á dag, til þess dags. Var fjárhæð leigukröfunnar jafnhá kröfu hans í máli þessu. Krafan var áréttuð í yfirlýsingu stefnda 8. sama mánaðar, en tekið fram að leigugjaldið væri miðað við tímabilið 10. júlí til 3. september 1999 að frádreginni áður greiddri leigu.

 Áfrýjandi hafði tekið skammtímatryggingu hjá vátryggingafélagi vegna tækja þessara. Höfðaði hann mál á hendur félaginu vegna þess tjóns, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna svika þess, er hann framleigði tækin. Var einn liður í kröfugerð hans vegna framangreindrar kröfu stefnda um leigugreiðslu fyrir tækin. Var þessi kröfuliður studdur þeim rökum af hans hálfu í héraðsdómsstefnu í því máli að hann hafi orðið fyrir miklu fjártjóni, sem fælist í því að stefndi gerði kröfu til að hann „greiði leigu fyrir kvikmyndatökubúnaðinn per dag, frá því að búnaðinum var stolið“. Hafi hann reynt að takmarka tjón sitt með því að semja við stefnda um niðurfellingu eða lækkun kröfunnar en án árangurs til þessa. Þeim tilraunum yrði haldið áfram og myndi hann lækka kröfuna á síðari stigum ef slíkt samkomulag tækist. Með dómi Hæstaréttar 17. maí 2001 í máli nr. 450/2000 var vátryggingafélagið sýknað af kröfu áfrýjanda. Stefndi höfðaði mál þetta til heimtu leigugjalds vegna tækjanna 28. september 2001.

II.

Almennt er þeim, sem tekið hefur lausafjármun á leigu, óheimilt að framleigja hlutinn eða fá þriðja manni afnot hans án samþykkis leigusala. Eins og að framan er rakið greinir aðila á um hvort áfrýjandi framleigði kvikmyndatökutækin hinu erlenda félagi með vitund og samþykki stefnda. Verður áfrýjandi að bera hallann af því að ósannað er að stefndi hafi samþykkt framleiguna. Fari leigutaki út fyrir heimildir sínar varðandi meðferð leiguhlutar, þar á meðal með óheimilli framleigu hlutarins, ber hann fébótaábyrgð vegna þess tjóns leigusala, sem af hlýst. Hins vegar verður því ekki fundin lagastoð að óheimil meðferð leigutaka á leiguhlut valdi því að leigusali geti krafið leigutaka um greiðslu leigu vegna hlutarins eftir lok umsamins leigutíma og eftir að hluturinn ferst eða týnist og leigunotum lýkur. Í héraðsdómsstefnu lagði stefndi grundvöll málsins og krafði áfrýjanda um stefnufjárhæðina sem skuld vegna leigu á umræddum tækjum. Fyrir Hæstarétti lýsti stefndi, í samræmi við þetta, því yfir að krafa hans í málinu miðaðist við leigugjald fyrir hinn margnefnda búnað og væri hún því leigukrafa en ekki skaðabótakrafa. Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á að stefndi geti átt leigukröfu á áfrýjanda vegna tímans eftir að hið leigða hvarf. Ekki verður heldur fallist á að líta megi svo á að áfrýjandi hafi með viðbrögðum sínum við kröfu stefnda eða með málatilbúnaði sínum í fyrrnefndu máli vegna vátryggingar tækjanna samþykkt leigukröfu stefnda, enda kom sem fyrr segir fram í þeim málatilbúnaði að hann hafi leitað eftir niðurfellingu eða lækkun kröfunnar við stefnda. Samkvæmt þessu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Íslenska kvikmyndasamsteypan ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Storm ehf.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. þessa mánaðar, er höfðað 28. september 2001 af Rauða dreglinum, Grensásvegi 7, 108 Reykjavík, gegn Íslensku kvikmyndasam-steypunni ehf., Hverfisgötu 46, 101 Reykjavík. Við aðalmeðferð málsins upplýsti lögmaður stefnanda, að nafni félagsins hafi verið breytt í Storm ehf., sem hafi sömu kennitölu og Rauði dregillinn ehf.

 Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.299.250 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 6. september 1999 til 1. júlí 2001, en vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi gerir þær kröfur aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Mál þetta á rætur að rekja til þess, að í júlí 1999 tók stefndi á leigu kvikmyndabúnað hjá stefnanda af gerðinni Digital Betacam DVW-A5005. Eru aðilar sammála um, að upphaf leigutíma hafi verið 10. júlí 1999 og að honum hafi átt að ljúka 12. sama mánaðar, þannig að búnaðurinn hafi átt að vera kominn í hendur stefnanda að morgni næsta dags.

Stefndi framleigði hinn leigða búnað 10. júlí 1999 KROON Film Productions, sem sagt var með aðsetur í Hollandi og var búnaðurinn afhentur manni, sem ætlað var, að væri frá því fyrirtæki, sama dag. Var leigan, 361.000 krónur, staðgreidd, en umsaminn leigutími var frá 9. til 12. júlí 1999. Búnaðinum var hins vegar aldrei skilað og upplýstist síðar, að ofangreint fyrirtæki var ekki til og að um skipulagða svikastarf-semi var að ræða.

Af hálfu stefnda var fallist á, að leitað væri sambærilegs kvikmyndabúnaðar til að afhenda stefnanda og hafði stefndi samband við Japis hf., sem fann slíkan búnað og gerði stefnda tilboð í hann. Féllst stefndi á tilboð Japis hf., sem afhenti stefnanda nýjan búnað 6. september 1999.

Stefndi höfðaði mál á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. til greiðslu 13.343.026 króna vegna þess tjóns, sem hann hefði orðið fyrir, með því að umræddum búnaði var stolið. Var málsóknin byggð á skammtímatryggingu, sem stefndi hafði keypt hjá tryggingarfélaginu. Með dómi Hæstaréttar 17. maí 2001 var tryggingarfélagið sýknað af kröfum stefnda með vísan til skilmála tryggingarinnar um, að skilyrði vátryggingaverndar væri, að hinir tryggðu munir væru í umsjá vátryggðs og að semja hefði þurft sérstaklega við félagið um undantekningu frá þeirri reglu, en ósannað væri af hálfu stefnda, að svo hefði verið gert.

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um leigu fyrir umrætt tæki frá 10. júlí til 6. september 1999. Af hálfu stefnda er ekki fallist á kröfuna, þar sem einungis hafi verið samið um þriggja daga leigu, sem stefndi hafi þegar greitt fyrir.

II.

Stefnandi byggir á því, að skuld stefnda nemi 3.299.250 krónum og sé miðað við leigugjald fyrir tímabilið frá og með 10. júlí 1999 til og með 3. september sama árs. Um lagarök er vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en sú regla fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922. Varðandi gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 12. gr. sömu laga.

Stefndi byggir sýknukröfu í fyrsta lagi á því, að hann hafi aldrei samþykkt að greiða stefnanda leigugjald fyrir hinn stolna kvikmyndatökubúnað, umfram það sem stefndi hafi þegar greitt fyrir þriggja daga leigu, 186.750 krónur, enda komi slíkt samþykki hvergi fram í gögnum stefnanda. Hafi stefnandi vitað eða mátt vita, að stefndi hafi talið sér óskylt að verða við þessari kröfu stefnanda.

Í öðru lagi reisir stefndi kröfu um sýknu á því, að honum beri ekki að greiða leigu frá og með þeim tíma, er hinum leigða kvikmyndabúnaði var stolið. Stefndi hafi gert tímabundinn leigusamning við stefnanda frá 10. júlí 1999 til 12. júlí 1999 og leiguandlag verið fyrrnefndur kvikmyndabúnaður. Hafi stefndi fengið hann afhentan frá stefnanda 10. júlí 1999 í samræmi við samning aðila og leigutaka borið að efna skilaskyldu sína að morgni 13. júlí 1999. Framleigutakinn, KROON Film Productions, hafi hins vegar ekki skilað stefnda búnaðinum 12. júlí 1999 í samræmi við samning aðila. Þar sem leiguandlaginu hafi verið stolið frá stefnda af þriðja aðila, hafi stefnda verið gert ókleift að standa við skilaskyldu sína á leiguandlaginu samkvæmt samningi málsaðila vegna ómöguleika. Hafi saknæm háttsemi þriðja aðila valdið því, að leiguandlaginu hafi ekki verið skilað í lok leigutímans og verði stefndi ekki látinn bera ábyrgð á því. Sé það meginregla í leigurétti, að leigusali beri áhættu af því, ef leiguandlag ferst eða skemmist af tilviljun eða rýrnar á meðan leigutími varir, og gildi það einnig eftir að afhending hefur farið fram og leigutaki tekið við vörslum leiguand­lags. Undir hugtakið tilviljun samkvæmt þessu falli m.a. það, að þriðji maður, sem ekki tengist leigusamningnum eða leiguandlaginu, vinni með saknæmum hætti skemmdarverk á því. Þá sé það einnig meginregla leiguréttarins, að fyrir þann tíma, sem leigutaki hefur engin afnot af leiguandlaginu, þegar leiguandlag hefur farist, skemmst af tilviljun eða rýrnað, geti leigusali ekki krafist neins endurgjalds. Þar sem stefndi hafi engin leiguafnot haft af leiguandlaginu eftir hinn þriggja daga leigutíma, sem leiguandlagið var framleigt viðsemjanda stefnda, sé stefnanda óheimilt að krefja stefnda um leigu fyrir það tímabil. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Varakrafa stefnda er byggð á því, að fjárkrafa stefnanda sé bersýnilega miklu hærri en meint tjón hans. Krafan sé ósundurliðuð með öllu og komi hvergi fram í gögnum stefnanda á hvaða forsendum sú fjárhæð sé byggð. Byggi stefnandi kröfuna á gjaldskrá, beri honum að leggja hana fram, en stefndi byggi á því, að krafan sé of há. Þá virðist stefnandi ekki draga frá kröfufjárhæð sinni greiðslu stefnda, 186.750 krónur, sem stefndi hafi innt af hendi fyrir þriggja daga leigu, en samkvæmt afhendingarseðli stefnanda frá 6. september 1999 sé ranglega byggt á því, að stefndi hafi aðeins greitt stefnanda 150.000 krónur í leigu.

Loks er varakrafa á því byggð, að stefnandi hafi glatað rétti sínum til greiðslu á leigu, í heild eða að hluta, sökum tómlætis.

Stefndi byggir kröfur sínar á meginreglum leiguréttar um ábyrgð á leiguandlagi, lögum um meðferð einkamála, almennum reglum kröfuréttar og reglum samningaréttar um tilurð og stofnun löggerninga.

III.

Svo sem áður greinir höfðaði stefndi mál á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. til heimtu bóta vegna þess tjóns, sem stefndi hafði orðið fyrir, með því að umræddum kvikmyndabúnaði var stolið í framhaldi af því, að stefndi framleigði hann hinu ætlaða hollenska fyrirtæki. Í því máli byggði stefndi stefnukröfur meðal annars á kröfu stefnanda á hendur stefnda um greiðslu andvirðis umrædds kvikmyndatökubúnaðar, að fjárhæð 4.033.800 krónur, og leigu á búnaðinum frá 10. júlí 1999 til 7. september sama árs, að fjárhæð 3.299.250 krónur.

Í málinu liggur fyrir bréf fjármálastjóra stefnanda til stefnda, dagsett 9. ágúst 1999, þar sem stefnda er tilkynnt, að ógreidd leiga hans vegna ofangreinds kvikmyndabúnaðar fyrir tímabilið frá 13. júlí 1999 til dagsetningar bréfsins, sé að fjárhæð 1.743.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og stefndi beðinn um að greiða sem fyrst. Þá segir í bréfinu, að leigugjald sé í gildi, þar til viðkomandi tæki eða nýju verði skilað til stefnanda.

Með afhendingarseðli, rituðum af stefnanda og dagsettum 6. september 1999, þar sem stefnandi kvittar fyrir móttöku nýs tækis úr hendi stefnda, kemur fram, að leiga á áðurnefndum búnaði í 56 daga sé að fjárhæð 2.800.000 krónur, miðað við 50.000 króna leigu á dag, en frá dragist umrædd 150.000 króna leigugreiðsla stefnda.

Þá ritaði fjármálastjóri stefnda bréf 8. september 1999 ,, ... í tilefni af fyrirhuguðu uppgjöri...” aðila vegna leigu búnaðarins. Lýsti stefnandi því yfir í bréfinu, að leigugjald það, sem fram kemur á afhendingarseðli, en það svarar til stefnufjárhæðar málsins, sé fullnaðargreiðsla af hálfu stefnda og bæti hún stefnanda raunverulegt tjón vegna síðbúinna skila á ,, ... hlut sem svarar til hins leigða.” Jafnframt var því lýst yfir, að ekki yrðu gerðar aðrar kröfur vegna leigunnar. Taki útreiknaðar bætur mið af leigugjaldi fyrir tímabilið frá 10. júlí 1999 til 3. september sama árs. Meðal forsendna fyrir yfirlýsingunni væri, að bæturnar yrðu inntar af hendi fyrir 23. september 1999, en eftir það yrðu reiknaðir dráttarvextir.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins, að stefndi hafi haft uppi mótmæli við ofangreindri kröfugerð stefnanda vegna leigu kvikmyndabúnaðarins. Þá er á það að líta, að stefndi miðaði kröfugerð sína í málsókninni á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., að því er varðar leigu búnaðarins, við sömu fjárhæð og stefnandi krefur hann um í máli þessu. Gaf stefndi stefnanda heldur ekki færi á að gæta hagsmuna sinna í málinu með því að stefna honum til réttargæslu, sbr. 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem eðlilegt hefði verið, ef uppi hefði verið ágreiningur milli aðila um framangreinda fjárhæð.

Samkvæmt ofansögðu þykir stefnandi hafa með nægjanlega órækum hætti sýnt fram á, að stefndi hafi með aðgerðarleysi sínu í kjölfar bréfaskrifta stefnanda til hans og með málatilbúnaði í máli stefnda gegn tryggingarfélaginu samþykkt að greiða stefnanda hina umstefndu fjárhæð.

Ekki er fallist á með stefnda, að það hafi verið á áhættu stefnanda, að hinir framleigðu munir glötuðust við að stefndi fékk þriðja manni vörslu þeirra, heldur verður þvert á móti að telja, að það hafi verið á ábyrgð stefnda sem framleigusala að gera ráðstafanir til að firra sig tjóni af þeim sökum.

Þá eru heldur engin efni til að taka til greina þá málsástæðu stefnda, að stefnandi hafi glatað rétti sínum til leigu sökum tómlætis.

Með vísan til framanritaðs ber að dæma stefnda til greiðslu stefnufjárhæðar, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. janúar 2000, en þá var liðinn mánuður frá því stefnandi krafði stefnda sannanlega um greiðslu skuldarinnar, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna, til 1. júlí 2001, en vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, er telst hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Íslenska kvikmyndasamsteypan ehf., greiði stefnanda, Storm ehf., 3.299.250 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. janúar 2000 til 1. júlí 2001, en vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 250.000 krónur í málskostnað.