Hæstiréttur íslands
Mál nr. 276/2003
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Slysatrygging ökumanns
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 12. febrúar 2004. |
|
Nr. 276/2003: |
Sólveig Þórhallsdóttir (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Lárusi Einarssyni (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) og gagnsök |
Bifreiðir. Líkamstjón. Slysatrygging ökumanns. Fyrning.
S lenti í umferðarslysi 2. júlí 1992. Gerði hún ekki kröfu á hendur L og SA hf. um bætur vegna líkamstjóns, sem hún taldi sig hafa orðið fyrir við slysið, fyrr en 21. mars 2002 og var mál þetta þingfest 27. júní sama ár. Fyrir lá örorkumat tveggja lækna sem töldu að tímabært hefði verið að meta örorku S á hefðbundnum tíma, einu til þremur árum eftir slysið. Byrjaði fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 því að líða í árslok 1995 og var krafan því fyrnd þegar málið var höfðað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. júlí 2003. Hún krefst þess, að gagnáfrýjendur verði óskipt dæmdir til að greiða sér 1.225.930 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. júlí 1992 til 30. júní 2001 en með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 3. nóvember 2002 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi 1. ágúst 2003. Þeir krefjast aðallega staðfestingar hans að öðru leyti en því, að þeim verði dæmdur málskostnaður í héraði, auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir þess, að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður verði látinn niður falla.
Eins og lýst er í héraðsdómi lenti aðaláfrýjandi í umferðarslysi á Suðurlandsvegi við Hvolsvöll 2. júlí 1992. Hún fór sama dag á heilsugæsluna á Hellu þar sem hún var talin hafa tognað í hálsi og fékk hún hálskraga og bólgueyðandi lyf. Hún kom til eftirlits á heilsugæslustöðina 10. og 21. júlí 1992. Hún leitaði síðan ekki aftur til læknis vegna hálseinkenna fyrr en í júlí 1997. Fékk hún þá lyfseðil fyrir bólgueyðandi lyf og henni var ráðlagt að fara í sjúkraþjálfun og til kírópraktors, en fram til þess tíma hafði hún ekki verið í meðferð eða sérstökum rannsóknum. Aðaláfrýjandi lenti síðan í tveimur umferðarslysum 6. febrúar 1998 og 26. janúar 2000 þar sem hún varð fyrir meiðslum í baki og hálsi. Í örorkumati læknanna Ragnars Jónssonar og Atla Þórs Ólasonar 27. október 2002 kemur fram, að í fyrsta umferðarslysinu, 2. júlí 1992, virðist aðaláfrýjandi hafa tognað á hálsi og hlotið væg varanleg einkenni eftir það slys. Mátu þeir varanlega læknisfræðilega örorku vegna þessa 5% og töldu að tímabært hefði verið að meta læknisfræðilega örorku hennar á hefðbundnum tíma eftir slíkan áverka, eða einu til þremur árum eftir slysið.
Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnast bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Gagnáfrýjandanum Sjóvá-Almennum tryggingum hf. mátti fyrst vera kunnugt um, að aðaláfrýjandi teldi sig hafa orðið fyrir varanlegu líkamstjóni, þegar honum barst tjónstilkynning 21. mars 2002, tæpum tíu árum eftir slysið. Var mál þetta þingfest 27. júní 2002. Ekkert er fram komið, sem hnekkir því áliti læknanna, að ástand aðaláfrýjanda hafi verið orðið stöðugt og tímabært að meta örorkuna einu til þremur árum eftir slysið. Er fallist á með héraðsdómi, að fyrningartími hafi byrjað að líða í árslok 1995 og ekkert hafi gerst eftir þann tíma, sem gæti valdið slitum á fyrningu kröfunnar fyrr en héraðsdómsstefna var birt, en í því sambandi hefur það engin áhrif á fyrningarfrestinn, að aðaláfrýjandi lenti tvívegis í slysum á meðan hann var að líða. Er héraðsdómur því staðfestur.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2003.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 20. mars. sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Sólveigu Þórhallsdóttur, Öldugerði 15, Hvolsvelli, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, og Lárusi Einarssyni, Öldugerði 15, Hvolsvelli, með stefnu birtri hinn 27. júní 2002 og þingfestri sama dag.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum dæmd til þess að greiða stefnanda 1.225.930 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989, frá slysdegi til 3. nóvember 2002, og með dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndarálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 4. nóvember 2002 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda, en til vara, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða þeim málskostnað.
II
Mál þetta höfðar stefnandi til greiðslu skaðabóta vegna tjóns, sem hún varð fyrir þann 2. júlí 1992, er hún lenti í umferðarslysi á Suðurlandsvegi við Hvolsvöll. Voru atvik með þeim hætti, að bifreiðin OA 159, sem stefnandi ók, valt út af veginum og fór eina og hálfa veltu og endaði á hvolfi. Bifreiðin, sem var eign stefnda, Lárusar Einarssonar, og skylduvátryggð hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Í kjölfarið leitaði stefnandi í þrígang til Þóris B. Kolbeinssonar, læknis á heilsugæslustöðinni á Hellu, eða dagana 2. júlí 1992, 10. júlí 1992 og 21. júlí 1992. Fékk hún þar bólgueyðandi lyf og hálskraga.
Stefnandi lenti einnig í umferðarslysum hinn 6. febrúar 1998 og 26. janúar 2000.
Stefnandi hafði fyrst samband við stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., tæpum tíu árum eftir tjónsatburðinn.
Kveður stefnandi ástæðu þess vera þá, að í byrjun febrúar árið 2002 hafi hún leitað til lögmanns vegna síðastnefnda tjónsatburðar. Hafi henni þá fyrst verið bent á, að hún gæti átt bótarétt vegna fyrri tjónsatburðarins. Hins vegar hafi hún talið fram að því, að bótaréttur vegna þess slyss væri ekki fyrir hendi, þar sem hún hefði verið í órétti við tjónsatburð. Hafi henni ekki fyrr verið gerð grein fyrir eða kynntur réttur til skaðabóta vegna fyrri tjónsatburðar.
Í september árið 2002 óskuðu stefnandi og stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar, eftir því, að læknarnir Ragnar Jónsson og Atli Þór Ólason létu í té mat á tímabundinni og varanlegri læknisfræðilegri örorku stefnanda vegna slyssins og mat á, hvenær ekki væri að vænta frekari bata.
Í niðurstöðu örorkumats læknanna segir svo: „Sólveig hefur lent í þremur umferðarslysum. Þau einkenni sem rekja má til afleiðinga þessara þriggja umferðarslysa með vissu eru stoðkerfiseinkenni, þ.e. afleiðingar hálstognunar og baktognunar. Útgeislandi einkenni út í vinstri öxl og handlegg.
Í fyrsta umferðarslysinu 02.07.1992 virðist hún hafa tognað á hálsi og hafði væg varanleg einkenni eftir það slys. Í umferðarslysinu 06.02.1998 hafa einkenni frá hálsi versnað og komið til útgeislandi einkenni í vinstri öxl og vinstri handlegg og einnig hafa komið til einkenni frá mjóbaki. Í umferðarslysinu 26.01.2000 hafa aðallega hálseinkenni versnað. Við mat á afleiðingum umferðarslyssins 02.07.1992 er miðað við afleiðingar hálstognunar með fremur vægum einkennum. Ekki var um að ræða tímabundna læknisfræðilega örorku en varanleg læknisfræðileg örorka er metin 5%. Engin sérstök meðferð eða rannsóknir voru í gangi eftir þetta slys nema í mjög stuttan tíma eftir umferðarslysið og verður ekki annað séð en að tímabært hafi verið að meta læknisfræðilega örorku á hefðbundnum tíma eftir slíkan áverka, þ.e. einu til þremur árum eftir umferðarslysið...”
Læknarnir mátu varanlega læknisfræðilega örorku vegna umferðarslyss 2. júlí 1992, 5%.
Jón Erlingur Þorláksson, tryggingafræðingur, reiknaði út höfuðstólsverðmæti ætlaðs tekjutaps stefnanda vegna örorkunnar. Var niðurstaða hans, að ætlað tekjutap vegna örorkunnar væri 1.265.800 krónur.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnu á því, að samkvæmt 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, skuli ökumaður bifreiðar vera tryggður og hafi sú trygging verið hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Stefnandi telur sig eiga rétt til greiðslu úr þeirri tryggingu og séu bætur miðaðar við að vera þær sömu og þegar um ábyrgðartryggingu ökutækis sé að ræða, þ.e. fullar skaðabætur. Stefndi, Lárus, hafi verið eigandi ökutækisins við tjónsatburð, og því sé kröfum einnig beint að honum.
Stefnandi byggir á því, að hún hafi orðið fyrir tjóni í umræddu umferðarslysi og hlotið áverka á hálsi, sem leitt hafi til örorku hennar, sem metin hafi verið af dómkvöddum matsmönnum sem 5% varanleg læknisfræðileg örorka. Orsakatengsl milli tjónsatburðar og örorku stefnanda séu ótvíræð.
Stefnandi byggir fjárhæð kröfu sinnar á útreikningi tryggingafræðings, sem reiknað hafi út, að ætlað tekjutap hennar væri 1.265.800 krónur. Við útreikninginn hafi verið lögð til grundvallar húsmóðurlaun samkvæmt venjum þar að lútandi. Miðað sé við 15% frádrátt vegna skatta- og eingreiðsluhagræðis, enda séu árslaun, sem lögð séu til grundvallar útreikningi, mjög lág. Krafa vegna ætlaðs tekjutaps sé því 1.075.930 krónur.
Kröfu um miskabætur kveðst stefnandi setja fram með vísan til dómvenju í íslenskum skaðabótarétti með stoð í þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eftir slysið hafi stefnandi þjáðst vegna óþæginda í hálsi, og sé fjárhæð kröfunnar miðuð við 30.000 krónur fyrir hvert örorkustig, eða 150.000 krónur.
Krafist sé dráttarvaxta frá 4. nóvember 2002, en þá hafi útreikningur tryggingafræðings og þar með öll gögn, sem nauðsynleg hafi verið til að meta tjónsatvik og fjárhæð kröfu, legið fyrir, sbr. meginreglu 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísar stefnandi til XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, sérstaklega 88. gr., 90. gr. og 2. mgr. 92. gr. þeirra laga. Einnig vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttarins, sem gilt hafi á slysdegi.
Um aðild stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., vísar stefnandi til 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga. Um aðild stefnda, Lárusar Einarssonar, vísar stefnandi til 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 97. gr. s.l.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. og IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
IV
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að ósannað sé, að líkamlegt ástand stefnanda sé að rekja til umferðaróhappsins hinn 2. júlí 1992. Fyrst hafi verið haft samband við stefnda, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., vegna meintra afleiðinga slyssins þegar nær 10 ár hafi verið liðinn frá því að slysið varð. Útilokað sé að gera sér grein fyrir því, þegar svo langt sé um liðið síðan slysið varð, hvort, og þá að hvaða marki, sjúkdómar sem og önnur slys eða óhöpp, sem stefnandi kunni að hafa orðið fyrir á þessu tímabili, hafi orsakað þá vanlíðan, sem stefnandi eigi við að stríða í dag. Beri því að sýkna stefnda með vísan til reglna skaðabótaréttar um orsakatengsl og sennilega afleiðingu.
Einnig byggja stefndu á því, að krafa stefnanda sé niður fallin fyrir tómlæti.
Ef talið verði, að stefnandi eigi bótakröfu vegna afleiðinga umferðaróhappsins, byggja stefndu á því, að krafan hafi verið fyrnd, þegar stefna var birt í málinu hinn 27. júní 2002. Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, fyrnist allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Meginreglna sé því fjögurra ára fyrningarfrestur. Skýra beri 99. gr. svo, að fyrningarfrestur byrji að líða, þegar unnt hafi verið að setja fram fjárkröfu, en ekki þegar fjárkrafa liggi fyrir. Fjögurra ára fyrningarfresturinn hafi verið settur til að tjónþolar dragi ekki að gera kröfur sínar, þeim sjálfum og öðrum til tjóns.
Gögn þau, sem stefnandi leggi fram, sýni ekki annað en að ástand hennar hafi verið orðið stöðugt stuttu eftir slysið. Verði stefnandi að bera hallann af þeim vafa, sem leika kunni á, hvenær ástand hennar hafi verið orðið stöðugt, en tómlæti stefnanda sjálfrar valdi þeim vafa.
Stefndu byggja á því, að stefnandi hafi haft vitneskju um tilvist meintrar kröfu sinnar og átt þess kost að leita fullnustu hennar þegar um áramótin 1993/1994, enda taki það almennt innan við eitt ár, að afleiðingar slysa af þessu tagi komi fram og stöðugleikapunkti sé náð. Hafi ástand stefnanda versnað eftir það, byggja stefndu á því, að það megi rekja til annarra atvika en umrædds umferðaróhapps.
Stefndu byggja varakröfu sína á því, að vextir eldri en 4 ára frá birtingu stefnu í málinu séu fyrndir.
Um lagarök vísar stefndu til reglna skaðabótaréttar um sönnun fyrir tjóni og reglum um orsakatengsl og sennilega afleiðingu, almennra reglna um ákvörðun bóta fyrir líkamstjón, eins og þær voru fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993, og 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Kröfu um málskostnað byggja stefndu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Stefnandi höfðar mál þetta til greiðslu skaðabóta vegna tjóns, sem hún telur sig hafa orðið fyrir í umferðarslysi 2. júlí 1992. Hún var þá ökumaður bifreiðar er bifreiðin fór út af veginum og hafnaði á hvolfi.
Bótakröfur stefnanda á hendur stefnda Sjóvá-Almennum tryggingu hf. eru byggðar á 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og vátryggingarsamningi um slysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar, sem í gildi var á þeim tíma. kröfur á hendur stefnda, lárusi, byggir stefnandi á 1. mgr. 90. gr., sbr. 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Kröfur sínar í málinu byggir stefnandi á örorkumati læknanna Ragnars Jónssonar og Atla Þórs Ólasonar, dagsettu 4. nóvember 2002, sem unnið var að beiðni lögmanna málsaðila. Í örorkumati þeirra er einnig getið um umferðarslys, sem stefnandi lenti í 6. febrúar 1998 og 26. janúar 2000.
Samkvæmt framlögðum gögnum leitaði stefnandi læknis strax eftir slysið og var þá aum í hálsi og talin hafa tognað á hálsi. Hún kom og til eftirlits 10. júlí 1992 og var þá enn með verki í hálsi. Hún kom aftur til eftirlits 21. júlí 1992 og sagðist vera þreytt í hálsi á kvöldin, en hafi þá haft góða hreyfigetu. Samkvæmt gögnum málsins leitaði hún ekki aftur læknis vegna hálseinkenna fyrr en 20. júlí 1997. Kvartaði hún þá um þreytu í hálsinum, verki og stífni, sérstaklega vinstra megin. Fékk hún þá lyfseðil fyrir Íbúfeni og einnig var skrifuð tilvísun fyrir sjúkraþjálfun. Hún fór í sjúkraþjálfun og til kírópraktors árið 1997, en fram að þeim tíma hafði hún ekki verið í meðferð eða sérstökum rannsóknum.
Matslæknar höfðu fyrrgreint læknisvottorð frá heilsugæslustöðinni á Hellu undir höndum er þeir mátu læknisfræðilega örorku stefnanda. Samkvæmt fyrrgreindu örorkumati, sem ekki hefur verið hnekkt, var talið, að stefnandi hefði hlotið 5% varanlega læknisfræðilega örorku af völdum umferðarslyssins, sem hún varð fyrir hinn 2. júlí 1992. Með fyrrgreindu mati hefur stefnandi sýnt fram á, að hún hafi orðið fyrir varanlegu tjóni.
Samkvæmt 99. gr. laga nr. 50/1987 fyrnast bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna, bæði á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.
Dómkvaddir matsmenn komust að þeirri niðurstöðu, að tímabært hefði verið að meta læknisfræðilega örorku á hefðbundnum tíma eftir slíkan áverka, þ.e. einu til þremur árum eftir umferðarslysið. Samkvæmt því, hefði verið tímabært að meta afleiðingar slyssins í síðasta lagi þremur árum eftir slysið, eða í júlí 1995. Stefnanda hefði því á þeim tíma, í síðasta lagi átt að geta fengið vitneskju um kröfu sína. Bar henni að halda fram kröfu sinni, eins og öðrum kröfuhöfum. Að því gefnu, að stefnandi hefði þurft einhvern tíma til þess að undirbúa kröfugerð sína gagnvart stefndu, þykir eðlilegt að miða við, að krafa stefnanda hefði byrjað að fyrnast í árslok 1995 og hafi því fyrningarfresti lokið í árslok 1999, sbr. áðurnefnda 99. gr. Verður upphaf fyrningarfrests með engu móti talinn vera, er stefnanda var af lögmanni sínum fyrst gerð grein fyrir hugsanlegum bótarétti sínum, sem henni hafi ekki verið kunnugt um sökum þekkingarleysis eða fákunnáttu um lögbundinn rétt. Þá verður ekki talið, að ákvæði 99. gr. um, að kröfur þessar fyrnist í síðasta lagi tíu árum frá tjónsatburði, eigi við um kröfu stefnanda, þar sem staðreynt hefur verið, að allar afleiðingar slyssins hafi verið komnar fram einu til þremur árum síðar.
Samkvæmt framansögðu var bótakrafa stefnanda var því löngu fyrnd er mál þetta var höfðað með þingfestingu stefnu hinn 27. júní 2002.
Ber því samkvæmt framansögðu að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir eftir atvikum rétt, að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Lárus Einarsson, eru sýkn af kröfum stefnanda, Sólveigar Þórhallsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.