Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-78
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Almennt félag
- Miskabætur
- Stjórnarskrá
- Félagafrelsi
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 22. apríl 2025 leitar Hundaræktarfélag Íslands leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. apríl sama ár í máli nr. 197/2024: A og B gegn Hundaræktarfélagi Íslands og gagnsök. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Gagnaðilar höfðuðu mál þetta og kröfðust þess að úrskurður siðanefndar leyfisbeiðanda í máli þeirra yrði ógiltur með dómi en til vara að áminning og refsikennd viðurlög sem þeim voru gerð með úrskurðinum yrðu felld niður eða milduð verulega. Þá kröfðust gagnaðilar miskabóta úr hendi leyfisbeiðanda.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu að úrskurður siðanefndar leyfisbeiðanda yrði ekki felldur úr gildi á þeim grundvelli að réttra formreglna hefði ekki verið gætt við meðferð máls gagnaðila fyrir nefndinni. Jafnframt var staðfest með vísan til forsendna sú niðurstaða að gagnaðilar hefðu gerst brotlegir gegn reglum leyfisbeiðanda sem forsendur dómsins tóku til og með þeim hætti sem þar væri rakið. Landsréttur taldi hins vegar að ekki yrði annað ráðið af því sem lægi fyrir í málinu um úrskurðarframkvæmd siðanefndar leyfisbeiðanda en að gagnaðilum hefðu verið ákveðin viðurlög sem væru langt umfram það sem tíðkast hefði. Taldi Landsréttur því að siðanefnd leyfisbeiðanda hefði hvorki gætt að jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né meðalhófsreglu 12. gr. laganna sem samkvæmt reglum nefndarinnar giltu um meðferð mála fyrir henni. Það væri hins vegar ekki á færi dómstóla að taka nýja ákvörðun um hæfileg viðurlög til handa gagnaðilum og lét Landsréttur því við það sitja að fella úrskurðinn úr gildi að því er þau varðaði. Loks var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðilum miskabætur vegna nafnbirtingar í bráðabirgðaúrskurði siðanefndarinnar.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi verulega almenna þýðingu fyrir túlkun og beitingu réttarreglna á sviði félagaréttar og um inntak sjálfsforræðis almennra félaga samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að niðurstaða málsins sé fordæmisgefandi um lögsögu dómstóla andspænis forræði almennra félaga á innri málefnum sínum. Leyfisbeiðandi telur að ekki hafi reynt á sambærileg mál fyrir Hæstarétti og bendir á að reglur um almenn félög byggi einkum á samþykktum félaganna sjálfra og óskráðum meginreglum félagaréttar. Loks byggja leyfisbeiðendur á að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til en í málinu séu dæmdar miskabætur fyrir háttsemi sem átti sér ekki stað. Þá sé dómurinn einnig bersýnilega rangur um endurskoðun Landsréttar á félagsviðurlögum og í niðurstöðu hans ekki tekin afstaða til grófleika brota og einbeitts brotavilja gagnaðila.
6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að dómur í því kunni að hafa verulegt almennt gildi, meðal annars um lögsögu dómstóla og forræði almennra félaga á innri málefnum sínum. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.