Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-73

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Ágústi Arnari Ágústssyni (Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður), Einari Ágústssyni (Jón Bjarni Kristjánsson lögmaður), Zuism, trúfélagi (Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður), EAF ehf. og Threescore LLC (Jón Bjarni Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjársvik
  • Peningaþvætti
  • Upptaka
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðnum 24. og 30. apríl 2024 leita Ágúst Arnar Ágústsson, Einar Ágústsson, Zuism, trúfélag, EAF ehf. og Threescore LLC leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í máli nr. 305/2022: Ákæruvaldið gegn Ágústi Arnari Ágústssyni, Einari Ágústssyni, Zuism, trúfélagi, EAF ehf. og Threescore LLC. Leyfisbeiðendum var birtur dómurinn 4. apríl 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðendur Ágúst Arnar og Einar voru ákærðir fyrir fjársvik samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í sameiningu frá áliðnu ári 2015, en þó einkum frá október 2017, og fram á fyrri hluta árs 2019 styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd íslenskra stjórnvalda að leyfisbeiðandi Zuism, trúfélag uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags samkvæmt lögum nr. 108/1999 um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Þar með að félagið skyldi sem skráð trúfélag eiga hlutdeild í álögðum tekjuskatti og rétt til fjárframlaga úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl. Á þeim grunni hefði félagið frá október 2017 til janúar 2019 samtals 36 sinnum fengið greidd frá ríkissjóði sóknargjöld vegna áranna 2016, 2017 og 2018 að fjárhæð samtals 84.727.320 krónur. Leyfisbeiðandi Einar var til vara ákærður fyrir hlutdeild í fjársvikum leyfisbeiðanda Ágústs Arnars. Þeir voru jafnframt ákærðir fyrir peningaþvætti samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa í sameiningu á tímabilinu október 2017 til apríl 2019 aflað félaginu samtals 84.727.320 króna ávinnings af fjársvikabrotum sínum og á sama tíma geymt, flutt, umbreytt og nýtt, þar á meðal að töluverðum hluta í eigin þágu, þann ávinning sem og leynt honum og upplýsingum um uppruna hans, staðsetningu og ráðstöfun.

4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðendur af öllum kröfum ákæruvalds og hafnaði upptökukröfum. Með dómi Landsréttar voru leyfisbeiðendur Ágúst Arnar og Einar sakfelldir fyrir fjársvik og peningaþvætti. Refsing Ágústs Arnars var ákveðin fangelsi í tvö ár og Einars fangelsi í 18 mánuði. Þá var fallist á upptökukröfur á hendur leyfisbeiðendum Zuism, trúfélagi, EAF ehf. og Threescore LLC.

5. Fyrir það fyrsta byggja leyfisbeiðendur á því að fallast beri á beiðnir þeirra um áfrýjunarleyfi með vísan til 4. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 þar sem leyfisbeiðendurnir Ágúst Arnar og Einar hafi verið sýknaðir með héraðsdómi en sakfelldir með dómi Landsréttar.

6. Þá byggja leyfisbeiðendur Ágúst Arnar og Zuism, trúfélag á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að öðru leyti sé mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um, einkum um skráningarskilyrði laga nr. 108/1999 og skyldur og ábyrgð forstöðumanna félaga sem skráð eru samkvæmt þeim lögum. Jafnframt hafi málið verulega almenna þýðingu um trú- og félagafrelsi meðlima trúfélaga. Auk þess hafi það verulega almenna þýðingu varðandi túlkun og beitingu á fjársvikaákvæði 248. gr. almennra hegningarlaga. Þessir leyfisbeiðendur byggja einnig á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til og efni.

7. Leyfisbeiðendur Einar, EAF ehf. og Threescore LLC vísa að auki til þess að málið hafi ekki aðeins verulega þýðingu varðandi hagsmuni forstöðumanna heldur jafnframt fyrir trúfrelsi og félagarétt meðlima sjálfra. Þá hafi leyfisbeiðandi Einar engri formlegri stöðu gegnt hjá trúfélaginu. Einnig byggja leyfisbeiðendurnir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Þannig hafi meðal annars ekki verið getið þeirra varna sem leyfisbeiðendur byggðu málsvörn á auk þess sem skort hafi á skýrleika ákæru.

8. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu leyfisbeiðenda og um önnur atriði að því leyti sem hún byggir á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar verður ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laganna skal verða við ósk leyfisbeiðanda, sem sýknaður er af ákæru í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þar sem slíku verður ekki slegið föstu verða beiðnir um áfrýjunarleyfi samþykktar.