Hæstiréttur íslands

Mál nr. 536/2008


Lykilorð

  • Bifreið
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Fyrning


Þriðjudaginn 7

 

Þriðjudaginn 7. apríl 2009.

Nr. 536/2008.

Guðný Axelsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf. og

Erlu Ósk Arnardóttur Lilliendahl

(Guðmundur Pétursson hrl.)

 

Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Fyrning.

G krafðist skaðabóta úr hendi T hf. og E vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi árið 2001. Deildu aðilar um hvort skaðabótakrafan hefði verið fyrnd í skilningi 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þegar málið var höfðað. G hafði orðið fyrir líkamstjóni vegna slyss 1991. Við slysið 2001 hlaut G áverka á sömu stöðum og við fyrra slysið. Talið var að athuganir sem hafi verið gerðar í framhaldi af síðara slysinu hafi aðallega beinst að því hvort spenging sem gerð var á lendhrygg G eftir fyrra slysið hafi losnað. Svo hafi ekki reynst vera. Hún hafi ekki leitað til lækna á ný fyrr en 2005, en þess verði að gæta að G hafi ekki getað upp á sitt eindæmi verið fært að gera greinarmun á afleiðingum fyrra slyssins á heilsufar hennar og þess síðara. Við rannsóknir sem hafi hafist árið 2005 hafi fyrst komið fram álit sérfræðinga á því að hún hafi orðið fyrir frekara tjóni við síðara slysið árið 2001. Verði því ekki við annað miðað en að þá hafi henni fyrst mátt vera ljóst að hún hafi hlotið varanlegt mein við síðara slysið og þar með átt þess kost að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar. Gat fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga ekki hafa byrjað að líða fyrr en í fyrsta lagi í árslok 2005. Var krafa G því ekki talin hafa verið fallin niður er málið var höfðað árið 2007. Voru T hf. og E  dæmd til að greiða í sameiningu bætur til G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. júlí 2008. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 3. september 2008 og var áfrýjað öðru sinni 1. október sama ár. Áfrýjandi krefst þess að stefndu verði aðallega dæmd óskipt, en til vara stefnda Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl ein, til að greiða sér 2.728.372 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 2. febrúar 2001 til 11. janúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 

 

I

Áfrýjandi varð fyrir umferðarslysi 14. febrúar 1991. Samkvæmt örorkumati tveggja lækna 18. apríl 1995 hafði áfrýjandi eftir það slys útbreidd einkenni frá höfði, hálsi, baki og hægri ganglim. Sjúkdómsgreining var hálshnykkur, mígreni og tognunaráverki á mjóbak. Varanlegur miski hennar var metinn 20 stig og varanleg örorka 20%. Aftur varð áfrýjandi fyrir umferðarslysi 2. febrúar 2001 og er það slys tilefni þessa máls. Stefnda Erla Ósk ók þá bifreið sinni, sem tryggð var lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf., aftan á bifreið áfrýjanda. Í lögregluskýrslu kemur fram að lítið tjón hafi orðið á bifreiðunum, en þar er haft eftir áfrýjanda að hún kenni eymsla í hálsi, hafi fengið höfuðverk og hyggist leita læknis síðar ef eymslin ágerist. Það gerði hún fimm dögum síðar. Fram kemur í vottorði 5. febrúar 2007 að við skoðun 7. febrúar 2001 á slysa- og bráðadeild Landspítala hafi komið fram nokkur eymsli yfir vöðvum hægra megin í mjóbaki og hnakka. Teknar voru röntgenmyndir sem sýndu að spenging, sem gerð var á lendhrygg áfrýjanda í framhaldi af fyrra umferðarslysi hennar, virtist ekki hafa laskast. Sjúkdómsgreining var tognun í hálsi og lendhrygg, en ekki var ráðgerð frekari meðferð hjá læknum á deildinni. Áfrýjandi leitaði til lögmanns örfáum dögum eftir slysið og óskaði hann eftir því 9. febrúar 2001 að stefndi Tryggingamiðstöðin hf. sendi sér afrit allra gagna vegna slyssins. Ekki verður séð að áfrýjandi hafi næstu misserin leitað frekari læknismeðferðar vegna slyssins eða gert reka að heimtu bóta.

Með bréfi 23. ágúst 2005 ritaði lögmaður sá, sem nú fer með mál áfrýjanda, Boga Jónssyni bæklunarlækni bréf og óskaði eftir vottorði „svo hægt sé að opna málið.“ Umbeðið vottorð er dagsett 12. nóvember 2006. Í því kemur ekki fram hvenær læknirinn skoðaði áfrýjanda, en fyrir liggur í gögnum málsins að hún hafi tvívegis á árunum 2005 og 2006 gengist undir röntgenrannsókn á vegum hans til að kanna hvort áðurnefnd spenging á hrygg hennar hafi losnað. Svo hafi ekki reynst vera, en skoðun læknisins þessu sinni leiddi meðal annars í ljós eymsli í mjóbaksvöðvum. Í samantekt læknisins kemur fram að áfrýjandi sé algerlega óvinnufær og ekki sé fært að bæta ástand hennar með frekari læknisaðgerðum. Einkenni séu „því komin til að vera þar sem hún hefur ekkert lagast síðan 2/2 2001.“ Einnig liggur fyrir vottorð Marinó Péturs Hafstein taugasérfræðings 24. janúar 2007, þar sem kemur fram að áfrýjandi hafi leitað til hans 10. maí 2006. Álit læknisins er að áfrýjandi þjáist af mjög slæmri tognun í hálsi, herðum, öxlum, niður eftir öllu baki og mjöðmum. Hafi ástand áfrýjanda verið óbærilegt frá fyrra slysinu í febrúar 1991 og farið stöðugt versnandi. Síðan segir: „Öll hennar einkenni versnuðu í umferðarslysinu 02.02.01 og það eina nýja virkilega voru verri verkir í mjöðmum.“ Í örorkumati 11. desember 2007 kemur fram að áfrýjandi telji fyrri einkenni sín meðal annars í hálsi og mjóbaki hafa versnað töluvert vegna slyssins 2. febrúar 2001 og ný einkenni bæst við í mjöðmum. Niðurstaða örorkumats var sú að ekki hafi verið að vænta frekari bata eftir 2. ágúst 2001, áfrýjandi hafi ekki orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni, en verið veik án rúmlegu frá slysdegi til 2. ágúst 2001. Varanlegur miski hennar vegna slyssins sé 10 stig og varanleg örorka 10%. Áfrýjandi krafði stefnda Tryggingamiðstöðina hf. um bætur á grundvelli örorkumatsins 17. desember 2007, en mál þetta höfðaði hún 20. sama mánaðar.

II

Stefndu krefjast sýknu með því að bótakrafa áfrýjanda vegna umferðarslyssins 2. febrúar 2001 hafi verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað. Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnast allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, en þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.

Eins og ráðið verður af framansögðu hafði áfrýjandi orðið fyrir líkamstjóni vegna slyss 1991 og liggur fyrir að hún hafi um árabil eftir það verið til meðferðar hjá læknum vegna einkenna, sem hún hafði af þeim sökum í hálsi og mjóbaki. Við slysið 2. febrúar 2001, sem mál þetta varðar, hlaut áfrýjandi aftur áverka á sömu stöðum og við fyrra slysið. Athuganir, sem gerðar voru í framhaldi af síðara slysinu, beindust samkvæmt gögnum málsins aðallega að því hvort spenging, sem gerð var á lendhrygg áfrýjanda eftir fyrra slysið, hafi losnað og reyndist svo ekki vera. Upp frá því virðist hún ekki hafa leitað til lækna vegna þessara meinsemda fyrr en á árinu 2005, en þess verður að gæta að áfrýjanda gat ekki upp á sitt eindæmi verið fært að gera greinarmun á afleiðingum fyrra slyssins á heilsufar hennar og þess síðara. Við rannsóknir, sem hófust 2005, kom fyrst fram álit sérfræðinga á því að hún hafi við síðara slysið orðið fyrir frekara tjóni en þá var þegar orðið. Að þessu virtu verður ekki við annað miðað en að áfrýjanda hafi á þessum tíma fyrst mátt verða ljóst að hún hafi hlotið varanlegt mein við síðara slysið og þar með átt kost á að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar. Samkvæmt þessu gat fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðarlaga ekki hafa byrjað að líða fyrr en í fyrsta lagi í árslok 2005. Krafa hennar var því ekki fallin niður fyrir fyrningu þegar mál þetta var höfðað.

Um fjárhæð skaðabótakröfu áfrýjanda er ekki ágreiningur. Hún verður því tekin að fullu til greina, en fallist verður á með stefndu að vextir, sem til féllu fyrir 20. desember 2003, hafi verið niður fallnir fyrir fyrningu. Um vexti af kröfu áfrýjanda upp frá því fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Stefndu verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, Tryggingamiðstöðin hf. og Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, greiði í sameiningu áfrýjanda, Guðnýju Axelsdóttur, 2.728.372 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 20. desember 2003 til 11. janúar 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði óskipt áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2008.

Mál þetta, sem var dómtekið 22. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Guðnýju Axelsdóttur, Suðurhólum 2, Reykjavík á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Aðalstræti 4-6, Reykjavík og Erlu Ósk Arnardóttur, Kvisthaga 11, Reykjavík, með stefnu birtri  20. desember  2007.

Í stefnu segir einnig um aðild málsins: „Varaaðild:  Verði ekki orðið við aðalkröfu stefnanda gerir hún til vara kröfu um greiðslu úr hendi stefndu Erlu Óskar og stefnist Tryggingamiðstöðinni hf. í því tilviki til réttargæslu.“

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in soldium dæmd til að greiða stefnanda 2.749.753 kr. með 4,5% ársvöxtum frá 2. febrúar 2001 til 11. janúar 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara gerir stefnandi þá dómkröfu, að stefnda Erla Ósk Arnardóttir ein og sér verði dæmd til að greiða stefnanda 2.749.753 kr. með sama vaxtafæti og greinir í aðalkröfu.

Þá er í báðum tilvikum gerð krafa um málskostnað að skaðlausu.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.

Málavextir.

Hinn 2. febrúar 2001 ók stefnda, Erla Ósk Arnardóttir, bifreið sinni aftan á bifreið stefnanda.  Bifreið stefndu var tryggð lögboðinni tryggingu hjá stefnda TM hf. Samkvæmt lögregluskýrslu var tjón lítið.

Stefnandi kvartaði um eymsli í hálsi, auk þess sem hún kvaðst finna fyrir höfuðverk. Nokkrum dögum seinna, eða 7. febrúar 2001, leitaði hún til slysadeildar og kvartaði yfir verkjum í mjóbaki og hálsi.

Stefnandi leitaði til lögmanns vegna þessa og er umboð til hans dags. 9. febrúar 2001 og sama dag ritaði lögmaðurinn stefnda TM hf. bréf og tilkynnti félaginu um hagsmunagæslu sína fyrir stefnanda og óskaði eftir gögnum frá félaginu vegna slyssins.  Lögmanninum voru þegar send þau gögn er félagið hafði undir höndum.

Hinn 8. apríl 2005 sendi núverandi lögmaður stefnanda, stefnda TM hf. bréf ásamt ódagsettu umboði til lögmannsins, þar sem þess var jafnfamt getið að umboð hins fyrra lögmanns væri niður fallið.

Lögmanni stefnanda voru send umbeðin gögn vegna slyssins 2. febrúar 2001, en honum höfðu áður verið send gögn vegna slyss, sem stefnandi lenti í 14. febrúar 1991. Vegna þess slyss hafði stefnandi verið metinn af læknunum,  Leifi N. Dungal og Ragnari Jónssyni, til 20% læknisfræðilegrar örorku og 20% fjárhagslegrar örorku.

Að beiðni lögmanns stefnanda voru þeir Björn Daníelsson lögfræðingur og Sigurjón Sigurðsson læknir fengnir til að meta afleiðingar slyssins 2. febrúar 2001 fyrir stefnanda samkvæmt skaðabótalögunum nr. 50/1993. Matsgerð þeirra er frá 11. desember 2007. Helstu niðurstöður eru þær að varanlegur miski og varanleg örorka voru metin 10% og stöðugleikapunktur talinn vera 2. ágúst 2001.

Hinn 17. desember 2007 var kröfugerð byggð á matsgerðinni send stefnda TM hf. Stefna var síðan birt fjórum dögum seinna.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

I.  Stefnandi byggir kröfu sína á báða stefndu á því, að stefnandi eigi skaðabótakröfu á hendur stefndu Erlu Ósk á grundvelli 88. gr. umferðarlaga, sbr. og ákvæði 1. mgr. 91. gr., samanber og 95. gr. og 97. gr. laganna.  Fjárhæð stefnukröfunnar er ágreiningslaus.

Stefnandi byggir kröfu sína enn fremur á, að hún hafi ekki átt þess kost að leita kröfu sinnar fyrr en hún hafi fengið álit Boga Jónssonar bæklunarlæknis, um að hún hefði hlotið varanlegt mein í umferðarslysinu, sem hafi ekki verið fyrr en í nóvember 2006 og álit Marínó P. Hafstein sem hafi ekki verið fyrr en í ársbyrjun 2007.

Byggir stefnandi á að útilokað sé í þessu máli, samkvæmt eðli máls og meginreglum laga, að miða upphaf fyrningarfrest samkvæmt 1. mgr. 99. gr. við stöðugleikapunkt samkvæmt skaðabótalögum, þar sem ljóst sé, að enginn tjónþoli sendi tryggingafélagi kröfur sínar um bætur, eftir svo skamman tíma frá slysi, heldur verði að miða við, hvenær stefnandi fékk fyrst vitneskju um að um varanlega áverka væri að ræða og hún hafði þess fyrst kost að leita fullnustu kröfu sinnar, en það hafi ekki verið fyrr en í desember 2007, er matsgerðin lá fyrir. Að miða við stöðugleikapunkt í þessu tilviki sé í hrópandi mótsögn við texta 99. gr. umferðarlaga og megi röng fordæmi sér lítils í þeim samanburði. Byggir stefnandi í þessu sambandi á, að stöðugleikapunktur sé læknisfræðilegt hugtak og e.t.v. lögfræðilegt. Um sé að ræða þann áfanga eftir að maður hefur hlotið slysaáverka, þegar sjá má hvert stefnir með áverkana, til hvers þeir leiði, þ.e. þegar ákveðnu jafnvægi sé náð. Þá er þetta mjög umdeilt hugtak, hjá þeim fræðimönnum sem um hafa fjallað.

Byggir stefnandi á, að orðalag 99. gr. umferðarlaga á þessa leið: „fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar“ sé í samræmi við kröfugerð hennar í málinu og að með engu móti sé hægt að miða við stöðugleikapunkt sem ákvarðaður er í desember 2007 langt aftur í tímann.

Þá verði einnig að miða við aðstæður stefnanda, en hún hafi áður lent í alvarlegu slysi og átt í miklum erfiðleikum vegna þess. Þá hafi hún árið 2005 gengið í gegnum mjög erfiða meðgöngu, vegna líkamlegs ástands og þá verið alls ófær um að gæta réttar síns.  Þá hafi vottorð frá slysadeild LSH ekki borist fyrr en í ársbyrjun 2007, en það vottorð hafi verið margítrekað af lögmanni hennar, enda nauðsynlegt til að geta mótað kröfu í málinu. Byggir stefnandi á, að í slíkum tilvikum verði að gæta sanngirni og huga að aðstæðum, sem sé einmitt efni 99. gr. umferðarlaga, samanber 29. gr. vátryggingasamningalaga nr. 20/1954.

II.  Viðbótarmálsástæður vegna kröfu stefnanda á báða stefndu:

Stefnandi byggir einnig á, að það stangist á við jafnræðisreglu stjórnarskrár og meginreglur laga um upphaf fyrningarfrests samkvæmt fyrningarlögum og fyrningarrétti, að miða upphaf fyrningarfrests við stöðugleikapunkt.

Byggir stefnandi á, að ákvæði bótakafla umferðarlaga, svo sem ákvæði 99. gr., eins og þau hafa verið túlkuð, skerði bótarétt stefnanda samkvæmt grundvallarreglum skaðabótaréttar og verði að víkja fyrir dómkröfum stefnanda á grundvelli jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár.  En þeir sem slasist til dæmis í vinnuslysum eða af hendi annars aðila, án þess að vera í bifreið, eigi áfram kröfur á tjónvaldinn eða vinnuveitandann í 10 ár frá tjónsatburði. Það sé grundvallarregla skaðabótaréttar, að sá sem valdi öðrum manni tjóni verði að bæta tjónið, ef um sök er að ræða og fyrnist slíkur bótaréttur ekki, fyrr en eftir 10 ár frá tjónsatburði í fyrsta lagi. Í þessu tilviki sé það einmitt svo. Engin gild rök séu því fyrir, að slík bótakrafa eigi að fyrnast á 4 árum frá stöðugleikapunkti á grundvelli 99. gr. umferðarlaga, enda sé það ekki inntak þeirrar reglu, samkvæmt orðanna hljóðan. Slíkt sé einfaldlega mismunun og brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár. Sem dæmi um hið gagnstæða, að ekki gildi 4 ára fyrningartími frá stöðugleikpunkti (eða batahvörfum) í líkamstjónamálum, vísar stefnandi til eftirfarandi dóma Hæstaréttar Íslands: Dóms í málinu nr. 271/1998, frá 18. febrúar 1999. Dóms í málinu nr. 240/1998, frá 25. febrúar 1999, dóms í málinu nr. 177/2000 frá 2. nóvember 2000. Dóms í málinu nr. 81/2004 frá 30. sept. 2004 og dóms í málinu nr. 254/2001 frá 29. janúar 2002.

Byggir stefnandi á, að það brjóti gegn jafnræðisreglum stjórnarskrár, að hún sé ekki jafnrétthá fyrir lögum og aðrir sem bíði líkamstjón vegna sakar annars aðila. Byggir stefnandi á að það eigi einmitt við í þessu máli, þar sem aðrir tjónþolar sem hljóti tjón á líkama sínum, fái tjón sitt bætt að fullu, en stefnandi ekki, af því hún slasaðist vegna ógætilegs aksturs bifreiðar. Stefnandi vísar kröfu sinni til grundvallar einnig til eignarverndarákvæða stjórnarskrár og til 1. gr. I. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, samanber 14. og 18. greinar sáttmálans. Ekki sé tækt að svipta stefnanda bótarétti samkvæmt ofangreindum grundvallarreglum með stoð í 99. gr. umferðarlaga, þegar stefnandi eigi stjórnarskrárvarinn rétt til bóta fyrir líkamstjón og skerðingu á aflahæfi.

III.  Stefnandi byggir einnig á, að ákvæði 1. mgr. 99. gr. umferðarlaga séu nær samhljóða ákvæðum 29. greinar vátryggingasamningalaga nr. 20/1954, en sú lagagrein hafi í gegnum tíðina verið túlkuð með hliðsjón af almennum fyrningarreglum um upphaf fyrningarfrests. Byggir stefnandi einnig á 30. gr. laga nr. 20/1954 og almennum reglum um upplýsingarskyldu tryggingafélaga og í því efni, að stefnandi hafi aldrei fengið nokkur skilaboð frá hinu stefnda félagi, um rétt sinn eða að hann væri fallinn niður. Þá byggir stefnandi á, að félagið hafi við slysið fært ákveðna upphæð í bótasjóð sinn til lúkningar umkröfðum bótum og komi það í veg fyrir, að kröfur stefnanda hafi fyrnst, þar sem félaginu hafi borið að tilkynna stefnanda um þá færslu félagsins úr bótasjóðnum, er félagið taldi að ábyrgðin væri niðurfallin. Er þessu til grundvallar vísað til 1. málsliðar 1. mgr. 5. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905.

IV.  Málsástæður stefnanda vegna kröfu hennar á Erlu Óska Arnardóttir eina og sér:

Varakröfu sína á hendur Erlu Ósk Arnardóttur einni sér byggir stefnandi á, að hún eig sök á tjóni stefnanda, þar sem hún hafi ekið bifreið þeirri, sem hún ók, viðstöðulaust aftan á bifreið stefnanda, og þar með valdið tjóninu með gáleysi. En stefnda Erla Ósk hafi með gálausum akstri sínum brotið gegn grundvallarákvæðum umferðarlaga um varúðarskyldu ökumanna, svo og gegn 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga, 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 36. gr. og allar reglur umferðarlaga um varúðarskyldu við gatnamót. Enda hafi hið stefnda tryggingafélag lagt alla sök á þá bifreið, sem stefnda Erla Ósk ók vegna sakar Erlu Óskar sem bifreiðarstjóra bifreiðarinnar. Þannig beri stefnda, Erla Ósk, skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda, sem hún verði að bæta samkvæmt almennum skaðabótareglum og getur stefnda, Erla Ósk, ekki skorast undan ábyrgð, þó hún hafi valdið stefnanda tjóni með akstri bifreiðar og ábyrgðartrygging bifreiðarinnar taki til tjónsins, sem er þá, að hennar vali. Kröfu á hendur henni einni sér byggi stefnandi heldur ekki á því bótahagræði sem felist í 88. gr. umferðarlaga, heldur aðeins almennu skaðabótareglunni, en ekki bótakafla umferðarlaga að nokkru leyti. Þannig geti 99. gr. umferðarlaga ekki átt við ábyrgð stefndu Erlu Óskar á tjóni stefnanda eða kröfu stefnanda á Erlu Ósk, heldur gildi 10 ára fyrningarfrestur frá tjónsdegi, eins og í öðrum skaðabótamálum, skv. 2. mgr. 4. gr. fyrningarlaga. Það sé grundvallarregla í skaðabótarétti og einkamálaréttarfari að aðilar máls eigi forræði á því, á hvaða lagareglum eða málsástæðum þeir byggi kröfur sínar. Kröfum sínum til grundvallar á hendur stefndu Erlu Ósk vísar stefnandi einnig til 1. mgr.  95. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954.

Um lagarök er vísað til reglna fyrningarréttar um upphaf fyrningarfrests, svo sem til 5. gr. fyrningarlaga, til 29., 30. og l. mgr. 95. gr. um vátryggingasamninga nr. 20/1954. Þá vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og til laga nr. 50/1993. Þá vísar stefnandi til jafnræðisreglu stjórnarskrár og mannréttinda- sáttmála Evrópu, sem og til eignarverndarákvæða þessara grundvallarlaga. Vegna dómkröfunnar á Erlu Ósk eina og sér vísar stefnandi til málsforræðisreglu einkamálaréttarfars og til meginreglu skaðabótaréttar um val á málsástæðum, sem og til skaðabótareglunnar og reglu skaðabótaréttar um fullar bætur. Þá vísar stefnandi til reglna um upplýsingarskyldu tryggingafélaga. Áskilinn er réttur til að vísa til frekari lagareglna við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi tekur fram að ekki sé um það deilt í máli þessu að bifreiðin KY 588 hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda TM hf. hinn  2. febrúar 2001. Greiðsluskyldu sé engu að síður hafnað þar sem stefndu telja kröfur vegna óhappsins fyrndar.

Stefnandi byggir kröfur sínar í máli þessu á ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, 88. gr.,  91 gr. 1. mgr. sbr. 95. og 97. gr.  laganna.

Samkvæmt 99. gr. sömu laga fyrnast kröfur samkvæmt þeim kafla umferðalaganna er umræddar greinar tilheyra á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.  Samkvæmt gögnum málsins var hér ekki um alvarlegt umferðarslys að ræða og þess sérstaklega getið í lögregluskýrslu að tjón hafi verið lítið. Stefnandi leitaði til lögmanns strax eftir slysið og fór jafnframt á slysadeild. Í vottorði Jóns Baldurssonar yfirlæknis slysadeildar, dags. 5. febrúar 2007, kemur m.a. fram að ekkert virtist hafa laskast í mjóhryggjarspengingu, sem stefnandi hafði gengist undir þrem árum fyrr vegna bílslyss, sem hún lenti í 10 árum áður. Jafnframt kemur þar fram að frekara eftirlit af hálfu lækna slysadeildar sé ekki ráðgert. Stefndi telur af þessu ljóst, að óhapp 2. febrúar 2001 hafi verið minni háttar og ekki líklegt til þess að valda stefnanda vandræðum í framtíðinni. Stefndi telur að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að meta örorku stefnanda vegna slyssins strax og ekki síðar en á árinu 2002, enda telja matsmenn, sem lögmaður stefnanda valdi einhliða án nokkurar aðkomu stefndu, að stöðugleikapunktur vegna slyssins hafi verið 2. ágúst 2001.

Stefndu telja því að fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðalaga nr. 50/1987 hafi byrjað að líða 1. janúar 2002, en undir engum kringumstæðum síðar en 1. janúar 2003 og var hann því löngu liðinn er stefna var birt í málinu 20.  desember 2007.

Stefndi telur að hafa beri í huga að stefnandi leitaði strax til lögmanns. Naut hann því sérfræðiaðstoðar frá upphafi og hafði bæði vitneskju um kröfu sína og átti þess kost að leita fullnustu hennar innan þess tíma sem hann þurfti til að rjúfa fyrningarfrestinn.

Stefndi mótmæltir sjónarmiðum stefnanda um að framangreindar fyrningarreglur umferðarlaga fari í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar, enda nái þær á sama veg til allra þeirra, sem eins stendur á hjá að þessu leyti.  Það sama á við um tilvísun stefnanda til eignarverndarákvæða stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, en ekki verður séð að þau eigi við rök að styðjast eða hafi þýðingu í máli þessu.Þá telur stefndi að tilvísun og túlkun stefnanda á 29. gr. og 30. gr. eldri vátryggingasamningalaga nr. 20/1954 séu á misskilningi byggðar og er þeim mótmælt.

Stefndi hafnar þeim sjónarmiðum stefnanda varðandi kröfur hans á hendur stefndu, Erlu Ósk Arnardóttur, að hann geti með því að byggja þar á almennu skaðabótareglunni komist fram hjá fyrningarreglum umferðalaga. Um slíkt er ekki að ræða, enda hefur löggjafinn með umferðalögunum nr. 50/1987 sett þær leikreglur sem gilda skulu á þessu sviði réttarins og frá því verður ekki vikið. Bótareglur umferðarlaga byggjast á þeirri meginreglu að ábyrgðin er hlutlæg og að sama skapi er ekkert óeðlilegt við það að fyrningarreglur séu þar þrengri en almennt gerist.

Með vísan til framangreinds halda stefndu því fram að fallast eigi á aðalkröfu þeirra og sýkna af kröfum stefnanda í málinu.

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu bóta vegna umferðarslyss er hún varð fyrir 2. febrúar 2001. Ekki er ágreiningur um bótaskyldu né bótafjárhæð. Ágreiningurinn lýtur að því hvort krafa stefnanda sé fyrnd eða ekki. Meginþungi í málflutningi stefnanda laut að varakröfu hennar, þ.e. að hún eigi rétt á bótum samkvæmt almennum skaðabótareglum. Þar sé ekki byggt á ákvæðum umferðarlaga og um það hafi hún málsforræðið.

Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1997 fyrnast bótakröfur, eins og sú sem hér er fjallað um, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingarfélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.

Stefnandi varð fyrir slysi 2. febrúar 2001. Samkvæmt matsgerð Björns Daníelsson lögfræðings og Sigurjóns Sigurðssonar læknis, er stefnandi óskaði einhliða eftir, var stöðugleikapunkturinn talinn vera 2. ágúst 2001. Engin önnur matsgerð liggur fyrir vegna þessa slyss. Mörg dómafordæmi liggja fyrir frá Hæstarétti Íslands um túlkun á 99. gr. umferðarlaga. Samkvæmt þeim er upphaf fyrningarfrests næstu áramót á eftir stöðugleikapunktinum. Hér er upphaf fyrningarfrestsins því 1. janúar 2002 og lok hans fjórum árum seinna, eða 1. janúar 2006. Bótakrafan barst ekki fyrr en 17. desember 2007 og er því krafan fyrnd. Ekki er hald í öðrum þeim málsástæðum er stefnandi byggir á varðandi upphaf fyrningarfrestsins.

Fyrir liggur að stefnda, Erla Ósk, fór ekki að 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 36. gr. umferðarlaga er hún ók á bifreið stefnanda, svo sem stefnandi heldur fram. Þegar svo háttar til að ekki er farið að umferðarlögum og tjón hefur orðið, þá eru sérákvæði í XIII. kafla umferðarlaganna þar sem kveðið er á um fébætur og vátryggingar. Eftir þeim ákvæðum ber að fara þegar ekki er farið að umferðarlögum og tjón verður. Eins og að framan segir eru þetta sérákvæði sem ganga framar almennum ákvæðum skaðabótaréttarins. Því kemur ekki til álita að krafa stefnanda fyrnist á tíu árum, einungis af þeirri ástæðu að byggt sé á almennum skaðabótareglum. Á slíkan hátt er ekki hægt að fara á svig við fyrningarákvæði umferðarlaga svo sem stefnandi reynir að gera í málatilbúnaði sínum.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að sýkna eigi stefndu af öllum kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnður falli niður.

Það athugast að lagaheimild skortir til að stefna Erlu Ósk Arnardóttur, einnig til vara í máli þessu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Guðmundur Pétursson hrl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndu, Tryggingamiðstöðin hf. og Erla Ósk Arnardóttir, skulu sýkn af kröfum stefnanda, Guðnýjar Axelsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.