Hæstiréttur íslands

Mál nr. 406/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. maí 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. júní 2016 klukkan 16 og einangrun á meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. maí 2016.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. júní 2016 kl. 16:00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglan rannsaki nú meint rán við [...] í Kópavogi. Tilkynning hafi borist lögreglu kl. 23:05 þann 25. maí um að árásarþoli, sem væri kominn heim til sín, hefði verði rændur og gerandi verið grímuklæddur og vopnaður kúbeini.

Árásarþoli hafi sagt að hann hefði setið í strætóskýli á [...] þegar kærði hafi komið aðvífandi og heimtað af honum öll verðmæti með orðunum "þú veist hvernig þetta er" og hótað honum að hann myndi lemja hann með kúbeini ef hann yrði ekki við þessu. Kærði hafi jafnframt sagt að hann hefði rænt annan aðila fyrr þann dag en sá ekki hlýtt og verið laminn í andlitið með kúbeininu. Árásarþoli hafi látið kærða fá úlpu, veski og Iphone 5c síma. Kærði hefði klætt sig í úlpuna og hlaupið í burtu í átt að verslun [...] við [...] í Kópavogi. Úlpan hafi verið dökkgræn 66°norður úlpa, síð og með loðkraga og síminn verið hvítur Iphone 5c í hulstri.

Nokkrir lögreglubílar hafi leitað í hverfinu í töluverða stund en enginn aðili sem samsvaraði þessari lýsingu fundist.

Það hafi svo verið í gærkvöldi sem lögreglan hafi fengið tilkynningu um árás tveggja manna í söluturninum [...] í Reykjavík. Kærði hafi verið þar annar handtekinna og verið færður á lögreglustöð. Hann hafi verið klæddur í dökkgræna 66°norður úlpu og við leit í tösku sem hann hafi verið með í fórum sínum hafi fundist debetkort í eigu árásarþola. Kærði hafi ekki gefið skýringu á því hvers vegna kortið væri í töskunni.   

Kærði hafi verið yfirheyrður í dag af lögreglu og neitað allri aðild að málinu.

Einnig sé til rannsóknar hjá lögreglu önnur mál á hendur kærða, tvö ránsmál þar sem kærði sé annars vegar grunaður um aðild að ráni við bókasafnið við Hamraborg í Kópavogi, með því að hafa í félagi við annan mann, veist að manni með barsmíðum og rænt hann síma, heyrnatólum og strætisvagnamiðum (007-2016-[...],) og hins vegar með því að hafa utan við [...] í Kópavogi, í félagi við annan mann, hótað manni með eggvopni og rænt hann saxafóni og ipad (007-2016-[...]).

Það er mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt í máli þessu, enda sé kærði undir rökstuddum grun um aðild að ráni er varði við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi og því afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun, þannig að hann hafi ekki tækifæri til að  torvelda rannsóknina, s.s. með því að koma undan munum eða hafa áhrif á aðra hugsanlega samverkamenn.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á viðkvæmu stigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á samseka eða koma sönnunargögnum undan. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

        Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 3. júní 2016, kl. 16:00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.