Hæstiréttur íslands

Mál nr. 97/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Meðalganga
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 18

 

Mánudaginn 18. mars 2002.

Nr. 97/2002.

Lyfjaverslun Íslands hf.

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Jóhanni Óla Guðmundssyni

(Hrjóbjartur Jónatansson hrl.)

Lárusi L. Blöndal

Aðalsteini Karlssyni og

Guðmundi A. Birgissyni

(enginn)

 

Kærumál. Meðalganga. Frávísunarúrskurður staðfestur.

L, A og G höfðuðu mál á hendur J og L hf. þar sem þeir kröfðust þess að staðfest yrði lögbann sem hafði verið lagt við því að J hagnýtti sér rétt sem fylgdi hlutafjáreign hans í L hf., eða ráðstafaði þeirri hlutafjáreign til annarra. Þá kröfðust þeir að viðurkennt yrði með dómi að samningur J og L hf. nánar tiltekins efnis væri ógildur, svo og að J yrði gert að afhenda L hf. áðurgreinda hlutafjáreign. Í greinargerð, sem L hf. lagði fram við þingfestingu málsins, var því lýst yfir að félagið samþykkti allar áðurgreindar dómkröfur L, A og G. Í þinghaldi sama dag lagði félagið fram stefnu í meðalgöngusök þar sem það krafðist þess að því yrði heimiluð meðalganga í málinu og að J yrði dæmdur til að afhenda því hlutafjáreignina, sem áður er getið. Í dómi Hæstaréttar segir að krafa L, A og G um að J yrði gert að afhenda L hf. hlutafjáreign hans í félaginu hafi verið beint bæði að J og L hf. Hafi L hf. því frá öndverðu verið aðili að málinu að því er varði þá kröfu. Geti félagið því ekki hvað þessa dómkröfu varði skoðast sem þriðji maður í þeim skilningi sem um ræði í 20. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Var ekki talið að L, A og G hefðu bætt úr þessum annmarka með því að falla frá kröfu sinni um skyldu J til að afhenda L hf. hlutafjáreignina, enda hefði félagið ekki getað krafist þess að því yrði í stað L, A og G dæmt þetta sakarefni, svo sem áskilið væri í 20. gr. laga nr. 91/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2002, þar sem vísað var frá dómi meðalgöngusök, sem sóknaraðili höfðaði í máli varnaraðilanna Lárusar L. Blöndal, Aðalsteins Karlssonar og Guðmundar A. Birgissonar á hendur sér og varnaraðilanum Jóhanni Óla Guðmundssyni. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðilans Jóhanns Óla um frávísun meðalgöngusakar verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi sama varnaraðila.

Varnaraðilarnir Lárus L. Blöndal, Aðalsteinn Karlsson og Guðmundur A. Birgisson hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilinn Jóhann Óli Guðmundsson krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðuðu varnaraðilarnir Lárus L. Blöndal, Aðalsteinn Karlsson og Guðmundur A. Birgisson mál þetta með stefnu 16. júlí 2001 á hendur varnaraðilanum Jóhanni Óla Guðmundssyni og sóknaraðila. Var þess krafist í héraðsdómsstefnu gagnvart varnaraðilanum Jóhanni Óla einum að staðfest yrði lögbann, sem sýslumaðurinn í Reykjavík hafði lagt 10. sama mánaðar við því að hann hagnýtti sér rétt, sem fylgi hlutafjáreign í sóknaraðila samkvæmt rafrænum hlutabréfum afhentum honum 20. júní 2001 að nafnverði 170.000.000 krónur, eða ráðstafi þeirri hlutafjáreign til annarra. Þá var þess krafist gagnvart varnaraðilanum Jóhanni Óla og sóknaraðila að viðurkennt yrði með dómi að samningur þeirra 20. júní 2001 nánar tiltekins efnis væri ógildur, svo og að varnaraðilanum yrði gert að afhenda sóknaraðila áðurgreinda hlutafjáreign. Málið var þingfest 6. september 2001.

Í greinargerð, sem sóknaraðili lagði fram við þingfestingu málsins, var því lýst yfir að hann samþykkti allar áðurgreindar dómkröfur varnaraðilanna Lárusar, Aðalsteins og Guðmundar. Í þinghaldi sama dag lagði sóknaraðili fram stefnu í meðalgöngusök. Þar krafðist hann þess að sér yrði heimiluð meðalganga í málinu og að varnaraðilinn Jóhann Óli yrði dæmdur til að afhenda sér hlutafjáreignina, sem áður er getið. Varnaraðilarnir Lárus, Aðalsteinn og Guðmundur lögðu fram greinargerð í meðalgöngusök á dómþingi 18. október 2001. Þar lýstu þeir sig samþykka því að sóknaraðila yrði heimiluð meðalgangan, auk þess sem þeir samþykktu kröfuna, sem hann gerði um efni málsins. Í sama þinghaldi þingfesti varnaraðilinn Jóhann Óli gagnsök í málinu, sem hann beindi að öðrum varnaraðilum ásamt sóknaraðila. Þar krafðist varnaraðilinn þess að viðurkennt yrði að gagnstefndu væru skaðabótaskyldir, aðallega í sameiningu en til vara að tiltölu, vegna vanefnda á hluthafasamkomulagi 24. janúar 2001. Þá lagði varnaraðilinn Jóhann Óli fram í þinghaldi 1. nóvember 2001 greinargerð í aðalsök, þar sem hann krafðist aðallega sýknu af kröfum annarra varnaraðila, en til vara að hafnað yrði að nánar tilteknu leyti kröfu þeirra um ógildingu á samningi hans við sóknaraðila og að sama marki kröfu þeirra um staðfestingu á lögbanni. Við sama tækifæri lagði varnaraðilinn fram greinargerð í meðalgöngusök sóknaraðila og krafðist þess að sóknaraðila yrði ekki heimiluð meðalgangan eða að henni yrði vísað frá dómi.

Héraðsdómari tók ágreining um meðalgöngusök sóknaraðila til munnlegs málflutnings í þinghaldi 1. febrúar 2002. Þar krafðist varnaraðilinn Jóhann Óli þess að meðalgöngusökinni yrði vísað frá dómi. Varnaraðilarnir Lárus, Aðalsteinn og Guðmundur ítrekuðu samþykki sitt fyrir því að meðalgöngusökinni yrði komið að í málinu, en lýstu því einnig yfir að þeir féllu frá kröfu sinni um að varnaraðilanum Jóhanni Óla yrði gert að afhenda sóknaraðila áðurnefnda hlutafjáreign. Sóknaraðili krafðist þess að frávísunarkröfu varnaraðilans Jóhanns Óla yrði hafnað. Sem áður segir var meðalgöngusökinni vísað frá dómi með hinum kærða úrskurði.

II.

Svo sem áður er getið kröfðust varnaraðilarnir Lárus L. Blöndal, Aðalsteinn Karlsson og Guðmundur A. Birgisson þess meðal annars í héraðsdómsstefnu að varnaraðilanum Jóhanni Óla Guðmundssyni yrði gert að afhenda sóknaraðila hlutafjáreign í Lyfjaverslun Íslands hf. að nafnverði 170.000.000 krónur. Þessari kröfu beindu varnaraðilarnir Lárus, Aðalsteinn og Guðmundur að báðum stefndu í aðalsök í héraði, sem eins og fyrr segir voru varnaraðilinn Jóhann Óli og sóknaraðili. Eins og varnaraðilarnir Lárus, Aðalsteinn og Guðmundur mörkuðu með þessu málsókn sinni farveg var sóknaraðili frá öndverðu aðili að málinu að því er varðar kröfu þeirra um skyldu varnaraðilans Jóhanns Óla til að afhenda sóknaraðila hlutafjáreignina. Sóknaraðili gat því ekki hvað þessa dómkröfu varðar skoðast sem þriðji maður í þeim skilningi, sem um ræðir í 20. gr. laga nr. 91/1991. Eins og málið lá fyrir við þingfestingu meðalgöngusakar voru þannig ekki skilyrði til að heimila sóknaraðila að koma henni að. Úr þeim annmarka varð ekki bætt með því að varnaraðilarnir Lárus, Aðalsteinn og Guðmundur lýstu sem áður segir yfir í þinghaldi 1. febrúar 2002 að þeir féllu frá kröfu um skyldu varnaraðilans Jóhanns Óla til að afhenda sóknaraðila áðurnefnda hlutafjáreign, enda gat þá sóknaraðili ekki lengur krafist þess að sér yrði í stað fyrrnefndu varnaraðilanna dæmt þetta sakarefni, svo sem áskilið er í 20. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2002.

Mál þetta var höfðað af Lárusi L. Blöndal, kt. 051161-2899, Rjúpnahæð 3, Garðabæ, Aðalsteini Karlssyni, kt. 121146-2749, Flókagötu 59, Reykjavík og Guðmundi A. Birgissyni, kt. 010761-2049, Lækjarási 5, Reykjavík með stefnu, birtri 17. júlí og 22. ágúst 2001, á hendur Jóhanni Óla Guðmundssyni, kt. 020954-5829, með skráð heimilisfang samkvæmt þjóðskrá á Gíbraltar, og Lyfjaverslun Íslands hf,  Borgartúni 7, Reykjavík.

Samkvæmt stefnu er sú krafa gerð á hendur stefnda, Jóhanni Óla, einum að staðfest verði lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði á 10. júlí 2001 við því að hann hagnýti sér þann rétt, sem fylgi hlutafjáreign hans í stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júlí 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 króna, eða ráðstafi umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja aðila.  Á hendur báðum stefndu er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að samningur milli þeirra, sem gengið var frá 20. júní 2001, um að stefndi, Jóhann Óli, selji og stefndi, Lyfjaverslun Íslands hf., kaupi allt hlutafé Frumafls hf., kt. 670700-2320,  Hlíðarsmára 8, Kópavogi, sé ógildur.  Þá var (sbr. síðar) þess krafist að stefnda, Jóhanni Óla yrði dæmt skylt að afhenda stefnda, Lyfjaverslun Íslands hf., hlutafé það í félaginu, sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 króna.  Að lokum er krafist málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu.

Samkvæmt greinargerð stefnda, Jóhanns Óla Guðmundssonar, er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda en til vara að hafnað verði kröfu stefnenda um ógildingu kaupsamnings Lyfjaverslunar Íslands hf. og hans að því er varðar sölu á 44,44 af hundraði hluta í Frumafli hf. og að synjað verði staðfestingar á lögbanni, dags. 10. júlí 2001, að því er varðar sölu á 44,44 af hundraði hluta í Frumafli hf.  Stefndi krefst málskostnaðar óskipt úr hendi stefnenda.

Í greinargerð stefnda, Lyfjaverslunar Íslands hf., er því lýst  yfir að fallist sé á allar dómkröfur stefnenda.

Jafnhliða framlagningu greinargerðar sinnar í aðalsök þ. 6. september 2001 lagði stefndi, Lyfjaverslun Íslands hf., fram meðalgöngustefnu, sem birt var 22. ágúst 2001, á hendur stefnendum aðalsakar og stefnda í aðalsök, Jóhanni Óla Guðmunds­syni,  þar sem þess er krafist að honum verði leyfð meðalganga í málinu og að meðal­göngu­stefndi, Jóhann Óli, verði dæmdur til að afhenda honum hlutafé það í félaginu, sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 króna.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi meðalgöngu­stefnda, Jóhanns Óla  Guðmundssonar.

Í greinargerð meðalgöngustefnda, Jóhanns Óla Guðmundssonar, er þess krafist aðallega að synjað verði um kröfu meðalgöngustefnanda um meðalgöngu eða kröfunni verði vísað frá dómi og meðalgöngustefnanda verði gert að greiða honum máls­kostnað.  Til vara krefst þessi meðalgöngustefndi sýknu af kröfum meðalgöngu­stefnanda og að honum verði gert að greiða sér málskostnað.

Í greinargerð annarra meðalgöngustefndu er lýst samþykki við meðalgöngu Lyfjaverslunar Íslands hf. svo og við efnislegum dómkröfum hans.

Jóhann Óli Guðmundsson höfðaði gagnsök 4. október 2001 á hendur Lyfja­verslun Íslands hf., Aðalsteini Karlssyni og Lárusi L. Blöndal og gerir þar þær kröfur að viðurkennt verði með dómi að gagnstefndu séu bótaskyldir in solidum en til vara pro rata gagnvart sér á grundvelli vanefnda á skuldbindingum þeirra gagnvart sér samkvæmt hluthafasamkomulagi dags. 24. janúar 2001 og að þeim verði gert  að greiða sér málskostnað.

Af hálfu allra gagnstefndu er þess krafist aðallega að kröfum gagnstefnanda verði vísað frá dómi en til vara að þeir verði sýknaðir af kröfum hans og í báðum  tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi hans.

Í þeim þætti málsins, sem hér er til úrlausnar og tekinn var til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 1. þ.m., krefst meðalgöngustefndi, Jóhann Óli Guðmundsson, þess að kröfu meðalgöngustefnanda um meðalgöngu verði vísað frá dómi og að honum verði gert að greiða sér málskostnað.

Af hálfu meðalgöngustefndu, Lárusar L. Blöndals, Aðalsteins Karlssonar og Guðmundar A. Birgissonar, var lýst samþykki við meðalgöngu meðalgöngustefnanda.  Jafnframt var lýst yfir að þeir féllu frá þeirri kröfu að stefnda í aðalsök, Jóhanni Óla Guðmundssyni, verði dæmt skylt að afhenda meðstefnda, Lyfjaverslun Íslands hf.,  hlutafé það í félaginu sem honum var afhent til ráðstöfunar með rafrænum hætti 20. júní 2001, samtals að nafnvirði 170.000.000 króna.

Af hálfu meðalgöngustefnanda var þess krafist að frávísunarkröfu meðal­göngu­stefnda,  Jóhanns Óla Guðmundssonar, verði hafnað og honum gert að greiða honum málskostnað.

Kröfu sína um frávísun meðalgöngusakar byggir meðalgöngustefndi, Jóhann Óli Guðmundsson, á því að meðalgöngustefnandi sé þegar málsaðili, þ.e. stefndi í aðalsök, en 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé í þágu þriðja manns sem sé ekki aðili máls en hafi hagsmuni af málsúrslitum.

Af hálfu meðalgöngustefnanda er vísað til þess að sökin sé höfðuð til að tryggja aðild hans að dómkröfu á hendur Jóhanni Óla um það efni sem kröfugerðin lýtur að.  Hann eigi augljósa hagsmuni af slíkri kröfugerð og byggist hún á 20. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 er þriðja manni heimilt að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum.  Ákvæðið er skýrt og verður eigi skilið þannig að það heimili varnaraðila að gerast jafnframt sóknaraðili að tiltekinni/tilteknum kröfu/kröfum en að þessu beinist kröfugerð meðalgöngustefnanda og breytir í því efni engu að stefnendur aðalsakar hafa fallið frá þeirri kröfu sem hann hyggst hafa uppi.

Samkvæmt þessu ber að vísa meðalgöngusök frá dómi.  Ákvörðun um málskostnað bíður dóms.

Úrskurðinn kveður upp Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Meðalgöngusök er vísað frá dómi.